Færslur: 2014 Febrúar
27.02.2014 20:08
Sú var tíðin, 1936
Útgerðin við ströndina veitir 200 manns atvinnu
Fjórðungsþing fiskideildarinnar kallaði eftir frekari fjárveitingum frá
Alþingi til hafnabóta á Eyrarbakka og Stokkseyri, en fyrir þessa staði sátu
þeir Bjarni Eggertsson og Jón Sturlaugsson, og það sama gerði hafnarnefnd
Eyrarbakka. Þrír vélbátar gengu frá Eyrarbakka á vertíð og tvær trillur að
auki. [Þriðji vélbáturinn "Freyr" frá
Eyrarbakka gerði út frá Sandgerði fyrri hluta vertíðar.] Frá Þorlákshöfn
gengu 5 trillur. Frá Stokkseyri gengu 7 vélbátar og ein trilla, en síðan
bættust tveir bátar (Hásteinn og Hersteinn ) við sem höfðu gert út frá
Sandgerði. Aflahæstur í Þorlákshöfn var
samvinnubáturinn "Jónas ráðherra" en
skipstjóri var Guðmundur J Guðmundsson á Eyrarbakka. Á Eyrarbakka var
"Öldungur" aflahæsti báturinn, en skipstjóri á honum var Sveinn Árnason í Akri.
Á Stokkseyri var " Haukur" aflahæstur og skipstjóri á honum var Ólafur Jónsson.
Þessa vertíð aflaðist einkar vel á heimamiðum, en þá gekk loðna mjög grunnt á
miðin. Böðvar Tómasson útgerðarmaður [vb. "Sísí"] á Stokkseyri setti þar upp
lifrarbræðslustöð sem þjónaði báðum þorpum. [Lifrarbræðsluvélina
smíðaði Guðmundur Jónsson verkfræðingur og kostaði hún 6000 kr.] Á
Stokkseyri unnu 105 menn við sjómennsku en aðeins 45 á Eyrarbakka og 50 í
Þorlákshöfn. Um sumarið var orðið fisklaust á heimamiðum og fóru nokkrir
Stokkseyrarbátar til veiða við Faxaflóa, en Bakkabátum var lagt. Næg vinna var
í landi um sumarið, við fiskverkun og landbúnaðarstörf. Um veturinn töpuðu
Eyrbekkingar einum bát, en það var "Freyja" eign Kristins Gunnarssonar o.f.l.
þegar báturinn losnaði af "bóli" og rak mannlaus út í brimgarð og sökk.
Skipakomur: Enn einu sinni varð fjaðrafok í höfuðstaðnum vegna innflutnings á vörum til Eyrarbakka. Að þessu sinni töldu menn að "Persil" [Þvottarefni, aðalega notað í þvottarhúsum] væri smyglað í stórum stíl með vöruskipum til Kaupfélagsins. [innfluttningur var í höftum á þessum tíma.] Skonnortan "Pax" kom þrisvar um sumarið og "Lydia" kom tvisvar. Þá kom gufuskipið "Eros" eina ferð. Skapaðist allmikil atvinna við þessar skipaferðir.
Formaður "Bjarma" látinn finna til tevatnsins. Heilum bílfarmi af "krötum" sigað á "Bárunna".
Báran samþykkti á aðalfundi nýjar kaupkröfur. Tímakaup í almennri dagvinnu
hækkaði um 10 aura, eða í 1 kr. Skipavinna hækkaði um 10 aura, eða í kr. 1.10.
Eftirvinna hækkaði um 25 aura, eða í kr. 1.40 og næturvinna um 30 aura, eða í kr.1.80. Helgidagavinna var ákveðin kr. 1.60.
Nýr formaður var kjörinn Þorvaldur Sigurðsson kennari og skólastjóri. Aðrir í
stjórn voru kjörnir Vigfús Jónsson ritari og Ólafur Bjarnason gjaldkeri. Í
varastjórn voru Kristján Guðmundsson, Jón Tómasson og Guðmundur J Guðmundsson.
Verkalýðsfélögin Báran á Eyrarbakka og Bjarmi á Stokkseyri ákveða að vinna
saman að baráttumálum sínum og skipuðu af því tilefni sameiginlega nefnd til að
vinna að samvinnu allra verkalýðsfélaga í landinu til þess fyrst og fremst, að
knýja fram kaupgjaldshækkun auk annara sameiginlegra hagsmunamála. [Þessa nefnd skipuðu þeir Gunnar
Benediktsson í Stíghúsi, form. Kristján Fr. Guðmundsson Stokkseyri og Árni
Jóhannesson Stokkseyri. Öllum félögum var sent bréf varðandi málið 18. febrúar
1936, og þau hvött til samvinnu og að skora á Alþýðusambandið að veita málinu
stuðning. "Samfylkingarnefndin" vann sjálfstætt að þessum hugsjónarmálum og
sendi jafnframt Alþýðusambandinu og Stjórnarráðinu samskonar hvatningabréf.]
Þetta var til þess að skapa óróa meðal Alþýðuflokksins sem var annar
stjórnarflokkurinn ásamt Framsókn, og svo Alþýðusambandsins, sem var einskonar
einveldi krata og ekki síst fyrir þá sök að nefndarmennirnir umræddu voru kommúnistar,
eða "Samfylkingarmenn" eins og þeir kölluðust. Alþýðusambandið lét formann
Bjarma á Stokkseyri sem þá var Björgvin Sigurðsson, finna til tevatnsins í
opinberum skrifum, og mátti hann þykjast ekki kannast við málið, þó nefndin
starfaði fullkomlega í umboði beggja félaga. Svo fór að Björgvin hét
Alþýðusambandinu að koma í veg fyrir svona "leynistarfsemi" og bréfið sem sent
var túlkað á þann hátt að væri "falsað", enda ekki sérstaklega tekið fram í
fundargerðum félaganna að nefndinni væri heimilt að skrifa bréf. Björgvin og
ASÍ fengu það þvínæst "óþvegið" frá Gunnari Benediktsyni fyrir að "sundra" í
stað " hjálpa". Upphófst af þessu mikill rígur milli Björgvins og Gunnars og í
framhaldi ofbeldisfullar tilraunir A.S.Í. til þess að láta reka Gunnar úr
félaginu. [Mikill lýðræðishalli þótti
innann Alþýðusambandsins á þessum árum] Skömmu fyrir páska var haldinn
fundur í verkamannafélaginu Bárunni á Eyrarbakka. Frá Reykjavík var þá sendur
heill bílfarmur af krötum til að "leiðbeina" fundarmönnum undir forustu Guðjóns
Baldurssonar. Stjórn Bárunnar sá sæng sína útbreidda og þótti vænlegast að
hlýða flokksfélögum sínum og mæla með þvi að Gunnar yrði rekinn, en tillagan
var kolfelld, því aðeins 7 menn greiddu með tillögunni atkvæði, þar af
stjórnarmennirnir þrír. Gunnar bar þá upp tillögu fyrir fundarstjóra um að
félagið skoraði á A.S.Í að beita sér í "vegavinnumálinu" en hann neitaði að bera
tillöguna upp. [Fundarstjóri var Þorvald
Sigurðsson, form. Bárunnar, en honum stóð nú hugur til að hverfa af Bakkanum,
því hann sótti skömmu síðar um skólastjórastöðu í Reykjavík.] Á haustfundi Bárunnar var samþykkt tillaga, um
að skora á A.S.Í og væntanlega
sambandsstjórn til að stuðla að samvinnu milli stjórnmálaflokka, smábænda og
verkalýðsins til að sporna gegn fasistavæðingu í landinu. Á næsta fundi Bárunnar voru gefin fyrirheit um stuðning félagsins
við "einingu" verkalýðsins um allt land. Þá var A.S.Í átalið fyrir þá afstöðu
Alþýðusambandsþingsins sem haldið var þá um haustið, þar sem fram kom greinilegur
ósamvinnuvilji þeirra alþýðuflokksmanna við Kommúnistaflokk Íslands.[samþykkt tillaga Gunnars Ben. í Bárunni,
en tilefnið var að Alþýðuflokkurinn
hafði gert þá samþykkt að engar deildir hans skildu hafa nokkur mök við
kommúnista] Þessi tillaga G.B. fæddi af sér enn eitt vandræðamálið fyrir
Þorvald, sem sá sig knúinn til að sverja af sér allt samneyti við kommúnista og
sverja Alþýðuflokknum trúmennsku og hollustu. Að "einingin" verði að lokum
aðeins undir merkjum Alþýðuflokksins var það leiðarljós sem hann kysi. Þar með
voru fyrirheitin um "einingu" verkalýðsins orðin harla lítils virði. Hinsvegar
brá svo við á verkalýðsfundi "Bjarma" [24. nóvember 1936] að helstu atvinnurekendur þar, sem voru
yfirlýstir íhaldsmenn sóttu fast að ganga í félagið, en verkamennirnir sem voru
af Alþýðuflokki, Kommúnistaflokki og Framsókn, stóðu fastir gegn þessari
"innrás" íhaldsins. Í desember héldu bæði félögin, Báran [06.12.1936] og Bjarmi fund, en þar mætti erindreki krata Jón
Sigurðsson. Virtist nú allt fallið í ljúfan löð, en á fundinum ályktaði Báran
að alþýðan öll þyfti að sameinast í einum flokki, og með hvatningu til allra
sem enn voru utan A.S.Í, að ganga þar inn.
Kommúnistadeild
stofnuð, Sjálfstæðismenn í "krossferð"
Deild innan kommúnistaflokksins var stofnuð fyrir Eyrarbakka, Stokkseyri og
nágrannasveitir fyrir forgöngu sr. Gunnars Benediktssonar er þá var nýlega
fluttur á Bakkann og gengu þegar inn 20 manns. Stjórnmálafundur haldinn á
Stokkseyri átaldi ríkisstjórnarflokkanna fyrir að svíkja kosningaloforð með því
að hækka tolla á nauðsynjavörum. [Þá var
landsstjórnin í höndum Hermanns Jónssonar, Framsóknarflokki ásamt Alþýðuflokki]
Þá vildu Stokkseyringar að öll alþýða sameinaðist gegn fasistahættunni.
Samskonar fundur á Eyrarbakka vildi að kaupgjald í vegavinnu yrði hækkað í 1
krónu og að fangavinna yrði stöðvuð, en það samþykktu einnig Stokkseyringar. Þá
vildu menn m.a. að ofurlaun opinberra starfsmanna yrðu lækkuð og að lúxusskatti
yrði komið á. Ungir jafnaðarmenn úr Reykjavík héldu fund á Stokkseyri, en áttu
síðan skamma viðdvöl á Eyrarbakka. Vörður, félag sjálfstæðismanna hélt fund í
báðum þorpum. Voru sjálfstæðismenn þar að hefja krossferð gegn samfylkingu vinstrimanna.
Það bar við á fundinum að hópur ungmenna ataðist við fundarhúsið á Eyrarbakka
og viðhöfðu "skrílslæti" sem heimamenn voru þó ekki óvanir. Höfðu Varðarmenn
það fyrir satt, að þessi ungmenni kæmu frá uppeldisstöðvum rauðliðanna á
Eyrarbakka og væri það til marks um yfirgang og ofsa "Bolsanna". "Krossferð"
Varðarfélaganna hleypti illu blóði í verkamennina á Stokkseyri, sem sökuðu nú
sjálfstæðismenn um að reyna að ná yfirtökum á félagi þeirra "Bjarma", enda
höfðu nokkrir atvinnurekendur sótt það fast að ganga í félagið.
Sandkorn.
Stærsta gulrófa af uppskeru Eyrbekkinga vóg
kg. 5,250 og kom hún upp í garði Gísla læknis Péturssonar. Það slys
vildi til að þegar 11 ára sonur Hannesar Andréssonar verkamanns var staddur í járnsmiðjunni, þar sem smiður
var að berja glóandi járn á steðja, að brennheit járnflís lenti í auga hans og
stórskaðaði. Þórður Jónsson dálkahöfundur,
mælist til þess að vegur verði byggður um þrengsli til að bæta samgöngur að
vetrarlagi, en Hellisheiði var þá mikill farartálmi vegna snjóþyngsla. Frá
Samvinnuskólanum útskrifaðist Ingibjörg Heiðdal, frá Litla-Hrauni. Magnús
Torfason sýslumaður lætur af störfum. Hafði hann þá gengt embættinu á fimmta
áratug. [Í hans stað var skipaður Páll
Hallgrímsson Kristinssonar fyrrum forstjóra Sambandsins]. Glímufélagið
Ármann í R.vík kom í heimsókn og hélt hér sýningu. [Félgaið stofnaði Guðmundur Guðmundsson, kaupmaður í Heklu á Eyrarb.]
Nýtt hús, "Mörk" var byggt fyrir Póst og
Síma, Búnaði var komið fyrir á símstöðinni svo hún gæti þjónað að nóttu sem
degi í neyðartilvikum, en neiðarhringing var 5 stuttar hringingar. Sláturdilkar
frá Eyrarbakka voru 755 þetta haust. Meðalþungi var 12 kg. Verkstjóri við
atvinnubótavinnuna i "Síberiu" var Haraldur Guðmundsson frá Háeyri.
Látnir: Jón Ólafsson (80). Hann var um árabil þjónn Níelsen hjónanna í Húsinu. Jón Einarsson (70) hreppstjóri og formaður í Mundakoti. Kona hans var Guðrún Jóhannsdóttir, þau voru foreldrar Ragnars, er kendur var við smjörlíkisgerðina í Smára [Ragnar í Smára]. Guðmunda J Níelsen, (51) eftir langvarandi veikindi. Hún var merkiskona og skörungur. Vert í Tryggvaskála, höndlari á Eyrarbakka, söngvaskáld og organisti m.a. en bjó í Reykjavík síðustu ár. Sighvatur Jónsson (31) stýrimaður af mb. Þorsteini. Hann féll fram af höfninni í Örfisey. Bjó þá í Reykjavík. Þorsteinn Einarsson (15) í Sandvík. Sigríður Finnbogadóttir (11) í Suðurgötu. Jóhann Jóhannesson (0) Breiðabóli.
Lagðir fjarri: Jón Vigfússon (John W Johnsson) í Bellingham Wash.t. U.S.A. han starfaði um nokkur ár við Háeyrarverslun. Kona hans var Kristín Magnúsdóttir frá Garðbæ. Matthías Ólafsson Trésmiður í R.vík. Hann nam iðn sína hér á Bakkanum hjá Eiríki Gíslasyni.
Af nágrönnum: Í Sandvíkurhreppi ("Síberíu") var tilbúið land undir kornyrkju fyrir 10 samyrkjubú, sem þar var áætlað að reisa. Enskur togari strandaði úti fyrir Loftstöðum. Bifreiðaslys var við Kögunarhól. Voru sjö manns í bifreiðinni þegar framfjaðrirnar brotnuðu undan henni og endasentist hún út í skurð með þeim afleiðingum að fjórir menn slösuðust og eitt barn.
Tíðin: Norðanátt var algengust út febrúar, en í apríl var kominn góð tíð sem hélst fram á sumar. Um heiskapartímann lagðist í rigningar fram á vetur. Fyrsta haustlægðin olli tjóni á Sjógarðinum, en lægðinni fylgdi mikill sjógangur. Sjógangur var óvenju mikill fram á vetur og olli stundum smá skemdum á sjógarðinum, en þann 19. nóvember gerði mesta flóð síðan 1925 og eiðilagði nokkuð af matjurtagörðum þegar sjór flæddi yfir sjógarðinn, en ekki urðu verulegar skemdir á sjógarðinum sjálfum fyrir þorpinu, en þar sem hann liggur milli þorpanna urðu allmiklar skemdir. Kartöflukláði gerði vart við sig og olli það mönnum miklum heilabrotum.
Heimild: Alþýðubl. Morgunbl. Nýji Tíminn, Skutull, Verklýðsbl. Vísir, Ægir
05.02.2014 20:42
Sú var tíðin 1935
Hvorki gengu Bakkamenn með hendur í vösum né lágu þeir á liði sínu, nú frekar
en endranær. Garðrækt var í miklum blóma og talsverður landbúnaður sem fór
vaxandi með hverju árinu. Smiðirnir Beggi og Fúsi unnu í Trésmiðjunni með mönnum
sínum og var meira en nóg að gera. Laugi og Óli afgreiddu sinn í hvorri búðinni
og Siggi Kristjáns passaði upp á hreppsjóðinn. Kristinn Jónasar keypti bát og
fór að róa. Bjarni Eggerts hélt uppi félagsandanum og gætti að samheldni
þorpsbúa. Júlli Ingvars var uppi á Hellisheiði að stjórna byggingaframkvæmdum
við "Skíðaskálann" í Hveradölum. Helga símamær beið við símann á stöðinni nýtan
dag sem nótt. Lúlli læknir hlustaði á hjártsláttinn og tók púlsinn. Fólkinu
hafði fækkað en lífið á Bakkanum gekk að mestu sinn vanagang, og nýr
uppgangstími virtist vera að renna upp. [Íbúafjöldi
á Eyrarbakka voru á þessum árum milli
550-570, eða mjög svipað og er í dag.]
Kaupfélagið fer til sjós með "Framsókn" og "Jónas ráðherra"
Tvær opnar trillur Kaupfélags
Árnesinga hófu útgerð frá Eyrarbakka, en þær hétu "Framsókn" og "Jónas
ráðherra" og hafði Egill Thorarensen í
Sigtúnum (Selfossi) umráð með útgerð þeirra. [Þriðju trillunar töldu Eyrbekkingar vænst og voru gárungarnir þegar
búnir að gefa henni nafnið "Egill attaníoss, en aðrir töldu að nafnið yrði
"Eiður".] Annars gengu þennan vetur auk trillubátanna, einn 12 tn bátur og
svo annar sem lagði upp í Sandgerði. Vertíðin var sæmileg að þessu sinni, en
mestur afli kom á Stokkseyri og aflahæsti báturinn þar var "Haukur" er átti Jón
Magnússon kaupmaður þar en formaður á Hauki var Ólafur Jónsson. Á aflahæsta
Bakkabátnum var formaður Guðmundur J Guðmundsson. Allur fiskur af Eyrarbakka og
Stokkseyri var fulluninn á staðnum, en Þorlákshafnarfiskur blautverkaður og
fluttur hingað í vöruskip á vegum Kaupfélagsins. Sjósókn var lítil yfir
sumarið, ógæftir og fiskleysi. Á Stokkseyri voru gerðir út 9 vélbátar og 1
trilla. Meðal Stokkseyrarbáta voru "Hersteinn" "Hólmsteinn og " Hásteinn" 15 tn. Bátar smíðaðir í danmörku. "Sísí" 13 tn. keypt frá Vestmannaeyjum, "Silla" og
"Inga". Hafnaraðstæður voru nokkuð bættar fyrir þessa báta. [Ný bryggja hafði verið steypt utan yfir
gömlu bryggjuna, innsiglingin breikkuð og vörður steyptar þar nokkrum árum fyr.
Stokkseyri var nú um þessar mundir stærsta verstöð sýslunnar.] Á Eyrarbakka voru gerðir út 3 vélbátar, Freyr
ÁR 150, [Þó mest af vertíðinni frá
Sandgerði] Freyja ÁR 149 og Öldungur ÁR 173 er Kristinn Jónasson ofl. keyptu
nýlega frá Stokkseyri, og að auki 2 trillur KÁ eins og fyrr er getið. Bryggju
fyrir þá og vöruuppskipun hafði Kaupfélagið látið steypa á grunni gömlu
lefoli-bryggjunar. Í Þorlákshöfn gerði Kaupfélagið út 4 stórar trillur og
hafnarmannvirki þar bætt. Áhugi var fyrir því að hefja skreiðarframleiðslu og
var Guðmundur Jónsson í Einarshúsi nokkuð að skoða þau mál. [Þessi verkunaraðferð var óþekkt hér um
slóðir og nú þurfti að finna kunnáttumann í skreiðarfrmleiðslu og trönusmíði,
en sandflæmin hentuðu einkar vel til að herða fisk].
Síldin kom og síldin fór
Í byrjun nóvember gekk mikil síld á
fiskimið Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Árni Helgason í Akri kastaði netum sínum
rétt undir Þorlákshöfn og stökk síldin svo í netin að þau fylltust á svipstundu
og hafði bátur hans ekki undan að flytja síldina til lands, þó um skamman veg
færi. Brátt varð urmull báta um allann Eyrarbakkasjó, en eitthvað fór fiskurinn
í manngreiningarálit, því sumir fengu sama og ekkert í netin. [Árni átti gömul og afar þéttriðin net er
hann notaði við þessar veiðar og gáfust þau best] Síldin var bæði söltuð og
fryst hér og máttu menn hafa sig við að höggva klakann. Brátt varð mönnum ljóst
að ekki hafði sjórinn eingöngu síld að geyma, því nú voru hvalir búnir að þefa
hana uppi og kepptust við menn um veiðarnar. Meðal síldveiðibátanna sem komu
frá öðrum verstöðvum voru "Björgvin" í Sandgerði, "Bjarnarey" í Hafnafirði og
"Snyggur" frá Vestmannaeyjum, en leki kom að bátnum á heimleið og varð hann að
sigla upp í Ragnheiðarstaðafjörur. Fyrsta lotan stóð í viku, en ný ganga hélt
inn í Eyrarbakkabugt viku síðar og á eftir henni floti Eyjabáta. Fjórar trillur
og einn stærri bátur héðan þá tóku þátt í síldarslagnum. [Á Eyrarbakka voru saltaðar 530 tunnur, en Stokkseyringar gerðu betur,
söltuðu í 1.146 tunnur eftir fyrri lotuna].
Seglskipin komu aftur á Eyrar, en verslunarstéttin í Rvík ærist.
Strax á vormánuðum komu hingað tvö seglskip dönsk með vörur fyrir Kaupfélag
Árnesinga. Alls komu 7 skip þetta sumar með timbur kol og aðrar nauðsynjar
fyrir félagið.[ 4 skonnortur með timbur,
1 skonnorta með 170 tonn af kolum, 2 gufuskip með sement, matvörur og aðrar
nauðsynjar. Meðal þessara skipa sem hingað komu voru skonnorturnar "Pax" og
"Lydia"] Einarshöfn var þá eign félagsins og lágu vöruskipin þar eins og
forðum. [Verslunarstéttin í Reykjavík
varð æf og blóðrauð í framan vegna þess að þeir töldu að KÁ hafi flutti inn byggingarvörur langt fram úr
innflutningskvótum, og höfðu í því nokkuð til síns máls] Samgöngur milli
lands og Eyja teptust í júlí sökum brims. Sandvarnargarðurinn nýji hefur nú
sannað gildi sitt, þar sem sandur er um þessar mundir að hverfa úr höfninni og
fjörunni framan við. [Jón Þorláksson
gerði upphaflega teikningu að sandvarnargarðinum, og Guðmundur Ísleifsson
hvatti einna mest til framkvæmdanna.
Sandvarnargarðurinn er 446 m langur og hálfur metir að breidd efst. Framkvæmdin
var í höndum vitamálastjóra sem þá var Th. Krabbe, síðar þetta ár var garðurinn
lengdur um 80 metra, en hálfu lægri] Sjógarðurinn var endurbættur fyrir
Hraunslandi og lét Landsbankinn framkvæma það verk. [sjógarðurinn í heild sinni er 8 km. langur]
Kvenfélagið stundar ljóslækningar
Til félagsins var ráðin
heimilishjúkrunarkona til að sinna fátækum heimilum og sjúkum. Ljóslækningar
var félagið farið að stunda undir lækniseftirliti og keypti það til þess
nauðsynleg tæki. Félagið hafði undangengin tvö ár unnið að skrúðgarðinum [í
Einarshafnargerði] ásamt U.M.F.E. [Kvenfélagið
var stofnað í mars 1888. en forustusveitina skipuðu Herdís Jakopsdóttir og
Elínborg Kristjánsdóttir um þessar mundir.]
Báran og Bjarmi í deilum við stjórnvöld.
Formaður beggja vegna borðs,
er verkamenn gera friðarsamning.
Verkamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri sendu nefnd manna til Reykjavíkur með
kröfur um að þeir fengju aðgang að vinnunni við Sogið [Sogsvirkjun]. Árangur af
þeirri sendiför mun enginn hafa orðið. Félagið krafðist þess líka að fangavinna við Suðurlandsbraut
yfir Hellisheiði yrði stöðvuð, svo frjálsir verkamenn mættu taka þau störf, en
það fór á sama veg. Verkamenn og smábændur sem unnu þá að vatnsveitu á Selfossi
mótmæltu einig vinnu fanganna við vegagerðina, en bentu á að formaður
verkamannafélagsins á Eyrarbakka væri jafnframt verkstjóri yfir fangavinnunni.
Undir þetta tóku verkamenn sem unnu við Sogsbrúnna og þóttu ótækt með öllu að
formaður Bárunnar stýrði fangavinnunni fyrir ríkið og stæði þannig beggja vegna
borðs í þessari deilu. Um síðir var verkamönnum á Eyrarbakka nóg boðið, en þeir
höfðu jafnan unnið við vegavinnu í héraðinu með innansveitarmönnum þar til nú.
Fóru þeir fylktu liði á vinnustöðvarnar við Suðurlandsbraut og skipuðu
yfirstjórn vegagerðarinnar og verkstjóra fanganna að leggja niður vinnu og var
það gert. Stjórnvöld urðu að semja um frið þegar í stað og var samkomulagið
þannig: Ríkissjóður veitir fé til
atvinnubóta í þorpunum fyrir verkamenn, en þeir geri á móti ekki kröfu um að
sitja fyrir vegavinnunni. [Gárungarnir
töldu að þessu atvinnubótafé yrði brátt varið til betrumbóta í Þorlákshöfn, en
þar réði Kaupfélagið lögum og lofum og þangað voru verkamennirnir kallaðir til
vinnu.] Trúlega hefur verkamönnunum á Eyrarbakka brugðið í brún, þegar 20
Reykvískir verkamenn stormuðu hingað austur í Flóann til að vinna í
atvinnubótavinnu við "Samyrkjuna" -nýbýlin er átti að reisa við
Kaldaðarnesveginn. [Svonefnt Sandvíkurhverfi,
og voru sumir verkamannana handan fjalls, tilbúnir til að setjast þar að við
samyrkjubúskap, en staðinn uppnefndu Reykvikingar og kölluðu "Síberíu".]
Bifreiðastjórar í Reykjavík hófu verkfall 21. desember og lögðu bifreiðastjórar
hér á Eyrarbakka einnig niður vinnu þann dag, en verkfallið var mótmæli við
hækkun benzínskatssins. Mjólkurbú Flóamanna reindi að koma mjólkinni og
jólarjómanum til höfuðstaðarins með mjólkurbíl Kaupfélagsins, en bifreiðin var
stöðvuð af verkfallsvörðum ofan Elliðarár. Nýr formaður var kjörinn fyrir Vf.
Bjarma, Björgvin Sigurðsson af Samfylkingu.
Fangar strjúka og ræna bíl, annar í læri hjá Al Capone
Holræsi lét ríkið byggja til að
framræsa fyrirhugað ræktunarland vinnuhælisins að Litla-Hrauni. (Holræsið er
205 m langt og 0,75 m vítt að innanmáli, úr steinsteyptum pípum sömu gerðar og
Skúmstaðaholræsið sem byggt var 1929). Fangavinna var einig við vegavinnu, t.d.
voru fangar af Hrauninu látnir vinna við gerð Suðurlandsbrautar. Um sumarið
tókst þrem föngum að strjúka með því að saga rimla úr glugga og héldu tveir
þeirra upp í óbyggðir. Höfuðpaurinn Vernharður Eggertsson átti ævintýranlegan
brotaferil í Ameríku [Var sagður í flokki
Al Capone og sat um tíma í hinu alræmda fangelsi "Sing-Sing"] og héldu þau
ævintýri áfram þegar heim var komið. Vernharður hélt dagbók um afbrot sín en
tapaði henni á flóttanum. Fanst sú bók á Kárastöðum og var henni komið í hendur
yfirvalda. Þriðji fanginn náðist í Reykjavík ofurölvi. [Töldu gárungarnir á Bakkanum að nú væri réttast að loka þá úti!-Eitt
sinn var haft eftir dönskum sprúttsala sem sat inni á Hrauninu að vistina þar
mætti líkja við dvöl á hressingarhæli og fæðið ekki síðra en á dönskum
herragarði.] Hugmyndir voru að byggingu 40 kúa fjósi við Litla-Hraun um
þessar mundir.
"Rauðka"
sækir Bakkann heim
Skipulagsnefnd Atvinnumála [kölluð
"rauðka" af sjálfstæðismönnum] sótti Bakkann heim og könnuðu lönd til kaups
sem voru í eignarhaldi Landsbankanns. Sat nefndin fund með hreppsnefndarmönnum
af Eyrarbakka og Stokkseyri, en oddvitar þeirra voru Sigurður Kristjánsson Eb.
og Sigurgrímur Jónsson í Holti Stk. Leizt nefndinni vel á að rækta kartöflur í
stórum stíl á umræddum löndum. Fleiri sóttu Bakkann heim, svo sem félag ungra
jafnaðarmanna í Rvík.
Stofna á
samyrkjubú og nýbýlahverfi við Eyrarbakka og Stokkseyri
Frumvarp var í smíðum, sem gerði ráð fyrir að gerð yrði tilraun til
stofnunar nýbýla-og Samyrkjuhverfis á löndum þeim í Flóanum sem ríkið hafði nú
keypt af Landsbankanum. Um sumarið hófust framkvæmdir við ræstingu lands í hinu
fyrirhugaða nýbílahverfi, í svokallaðri "Síberíu" í Sandvíkurhreppi.
Sýslumaðurinn
yfirgefur bændaflokkinn og gerist útkastari í Tryggvaskála
Magnús Torfason sýslumaður hér og alþingismaður ákvað að hætta samstarfi
við Bændaflokkinn, í kjölfar þess að á bændafundi í Tryggvaskála var skipuð 3ja
manna nefnd til þess að tala vinsamlega við sýslumann [Átti að hlýðnast íhaldinu]. Hélt sýslumaður þá um vorið sinn eginn
stjórnmálafund í Tryggvaskála. Íhalds og Bændaflokksmenn úr Reykjavík
fjölmenntu þá í Tryggvaskála og fylgdi þeim mikill skríll úr bænum. Tók Magnús
til sinna ráða og henti einum óróabelgnum [Axeli
Þórðarsyni] út með egin hendi, sem flaug út um dyrnar eins og vængi hefði. [Magnús hafði áður verið fyrir Framsókn, en ekki
líkað vistin.]
Um sumarið var svo haldinn stjórnmálafundir á Eyrarbakka og víðar um héruð.
Virtist sem Íhaldið væri á hröðu undanhaldi í gervallri sýslunni. Á Stokkseyri
mætti enginn á boðaðan fund Íhaldsins og var honum aflýst.[Ferming var á Stokkseyri þennan dag] Margt manna beið hinsvegar
fundarins á Eyrarbakka og þar tók Jakop Möller til máls fyrir íhald og lýsti
því yfir að bretar ásældust Ísland og miðin allt um kring. Sigurður Einarson
fyrir allaballa, talaði um spillingu íhaldsins. Fleiri tóku til máls, svo sem
Egill Thorarensen sem hafði mjólk efst í huga og Einar Olgeirsson talaði fyrir
komma og öreiga alla. [Það vakti
eftirtekt þegar 20 manna sveit jafnaðarmanna gekk um göturnar á Bakkanum þennan
dag í bláum skyrtum undir rauðum fánum. Má ætla að sumir hefðu ráðið að þar
væru skátar á ferð]. Sjálfstæðismenn héldu flokksfundi á Eyrarbakka og
Stokkseyri um haustið og af innansveitarmönnum tóku til máls Friðrik Sigurðsson
á Gamla-Hrauni, Lúðvík Norðdal læknir og Björn Blöndal Guðmundsson.
Sjómaður
frá Eyrarbakka skotinn á kvikmyndasýningu í Vestmannaeyjum.
Bjarni Bjarnfinnsson sem stundað hafði sjó frá Vestmannaeyjum í vetur,
hafði brugðið sér í bíóhús þar í bæ til að horfa á kvikmynd. Fimmtán ára piltur
dró þar upp skammbyssu og særði tvo menn. Bjarni var annar þeirra og fékk hann
skotið í brjóstið aftan til á síðunni og var hann þegar fluttur til Einars
Guttormssonar læknis sem skar eftir kúlunni sem lá allnærri hjartanu og náðist
hún. Varð Bjarni strax svo hress að hann gat farið í bíóið aftur.
Af öðrum Bakkamönnum: Sigurjón Ólafsson myndhöggvari getur sér frægðar
erlendis. Vigfús Guðmundsson frá Haga safnar ritum til sögu Eyrarbakka, sem
ekki er þó lokið um þessar mundir.
Leggur til
að byggður verði alþóðaflugvöllur í Kaldaðarnesi
Fréttaritari "Daily Herald" Harold Butcher í New York viðrar þar
hugleiðingar sínar um framtíðar flugsamgöngur yfir Atlantshafið, þar sem
landflugvélar verða notaðar og Ísland yrði miðstöð flugsamgangna yfir
N-Atlantshaf. Harold var hér á ferð þetta sumar að kynna sér landið og taldi
hann að Ísland ætti góða möguleika á að verða ferðamannaland í framtíðinni. Í
grein sinni í "Daili Herald" bendir hann á að í Kaldaðarnesi væri fyrirtaks
flugvallarstæði. [Um þessar mundir áttu
íslendingar engann flugvöll sem gat tekið á móti stórum landflugvélum á leiðinni milli Íslands og Bretlands, en
tvö flugfélög gátu haslað sér völl á þessari leið, annarsvegar breska félagið
"Imperial Airways" og hinsvegar ameríska félagið "Pan American Airways"]
Látnir: Arnbjörg Guðmundsdóttir (76) Eiði-Sandvík. Gunnar Einarsson (77) á
Hópi. Sláttumaður framúrskarandi var hann, en heilsutæpur og lifði við lítil
efni á efri árum. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir og áttu eina dóttur, Jónínu á
Stóru-Háeyri. [Hún og maður hennar Anton
Halldórsson briti, bygðu það hús sem nú er kennt við Háeyri.] Jakop Jónsson
(77) bóndi í Einarshöfn. [Jakop byggði Einarshöfn, 1913 er nafn hans er ritað á
framhlið] Hróbjartur Hróbjartsson (76) í Simbakoti [f. í For Rang.1858] Hann
var stórvaxinn og rammur að afli. Hann stundaði sjómennsku og heyskap og síðar
lítinn fjárbúskap. Kona hans var Bjarghildur Magnúsdóttir frá Oddakoti
V-Landeyjum og áttu þau 5 börn. Erlendur Jónsson (?) Litlu-Háeyri. Jakop
Sigurðsson Steinsbæ (0). Eiríkur Ásbjörnsson (0) Háeyri.
Eyrbekkingar fjarri: Guðmundur Guðmundsson (Gvendur Gamli) í Washington
Harbour Wisconsin. Hann var formaður fyrir skipi aðeins 19 ára og sjóhetja á
Eyrarbakka, en auk þess fyrsti og elsti íslenski landnámsmaðurinn í USA frá því
að vesturferðirnar hófust, en hann var einn fjögra manna sem lögðu upp frá
Eyrarbakka 1870 vestur um haf. Hann var fæddur á Litla-Hrauni 8.7.1840
Foreldrar hans voru Guðmundur Þorleifsson og Málmfríður Kolbeinsdóttir, systir
Þorleifs ríka á Háeyri. Kona Guðmundar var Guðrún Ingvarsdóttir frá Mundakoti
og settust þau að á Washingtoneyju á Michicgan vatni. Jónína Steinsdóttir
skipasmiðs frá Steinsbæ. Hún átti heima í Reykjavík [Seljavegi11]. Ólafur
Árnason, frá Þórðarkoti,[fyrrum Sandvíkurhr.] en hann dvaldi á Elliheimilinu í
Reykjavík. Kona hans var Guðrún Gísladóttir. Dethlef Tomsen konsúll í Dk. Árin 1883-1885
var hann á Eyrarbakka hjá Guðmundi Thorgrímsen verslunarstjóra. Steinn
Guðmundsson kaupmanns Guðmundssonar á Selfossi, bjó og starfaði í Reykjavík.
Bjarni Vigfússon járnsmiður er bjó hér á Eyrarbakka um 7 ára skeið, en hann var
faðir Vigfúsínu í Garðbæ. Ingibjörg Sveinsdóttir í Reykjavík, en hún var frá
Grímsstöðum Eyrarbakka.
Ofsaveður
og Bakkinn ljóslaus
Mikið ofsaveður gerði í byrjun
febrúar 1935. Fauk þá þakið af Garðbæ og af hlöðu. "Byrgið" [saltgeymsluhúsið] brotnaði
og fauk þakið af því yfir rafstöðina og lenti á ljósastaur sem bar uppi
rafleiðslur frá stöðinni og brotnaði hann svo að slitnuðu allar raftaugar og
Bakkinn varð því ljóslaus allt kvöldið. Margvíslegt tjón varð víða um sýsluna í
þessu veðri, svo sem á Selfossi brotnuðu 11 símastaurar og á Stokkseyri fauk
bílskúr. Með vorinu gerði öndvegis tíð á Eyrarbakka svo jafnvel elstu menn urðu
svo brúnir á hörund sem aldrei fyr en sumarið var þó síðra, kuldatíð, rigningar
og brim í júlí. Stelkur sást á Eyrarbakka 13. apríl og sandlóa 14. apríl. Í
oktober fundu menn hér í tvígang snarpa jarðskjálftakippi.
Stokkseyringar
halda sundmót.
Íþróttastarf var öflugt á Stokkseyri og hélt ungmennafélagið þar
íþróttahátið og sundmót sem fór fram við "Gálgakletta", en 13 ungmenni tóku
þátt. Knattspyrnukvikmynd var sýnd á Stokkseyri og var gerður góður rómur að
uppátæki þessu, en Þýska Knattspyrnusambandið gaf Í.S.Í myndina.
Heimild: Alþýðubl. Búnaðarrit, Heimskringla,
Hlín. Morgunbl. Nýji Tíminn, Nýja dagbl. Óðinn, Samvinnan, Skutull, Tíminn, Veðráttan,
Verkalýðsblaðið, Vísir, Ægir.
- 1