Færslur: 2013 Apríl
30.04.2013 22:59
Sú var tíðin, 1926
Árið 1926 var síður en svo auðvelt ár fyrir íbúa strandarinnar. Taugaveiki, sjóhrakningar í tvígang, stórbruni á Stokkseyri, samdráttur í verslun og fólksfækkun. Þorpsbúar létu þó ekki deigan síga. Sjógarðar sem féllu í flóði fyrra árs voru nú endurnýjaðir að fullu. Skólpræsi voru hér ekki komin en almennt voru kamrar við hvert hús. Brunnvatnið var enn við líði, en brunnarnir ótryggir margir hverjir. Sjúkrahúsbyggingin hafði nú staðið auð í ára raðir vegna fjárskorts og allar rúður í því brotnar. Samþykkti sýslan nú að veita fé til að fullgera "Eyrarspítala". [ Í desember var húsnæði spítalans, (Litla-Hraun) auglýst á uppboði hér á Eyrarbakka] Útvarpstæki voru mjög farin að riðja sér til rúms um þessar mundir. Járnbrautarhugleiðingar voru ekki alveg horfnar úr umræðunni, þó ekkert hafði áunnist í þá átt í allmörg ár og enn var rætt um byggingu hafnar í Þorlákshöfn með sama árangri. Deilt var hart um hvar byggja ætti Héraðsskóla sunnlendinga, en valið stóð um Reykjafoss í Ölfusi, eða að Laugarvatni, var þá samþykkt að leysa málið með undirskriftasöfnun um hvor staðurinn yrði fyrir valinu. Framræsla á mýrinni var talsvert í umræðunni og leiðir til fjármögnunar á því stórvirki. Eyrbekkingar og aðrir landsmenn gengu að kjörborðinu í tvígang og var kjörsókn þannig: Á Eyrarbakka kusu 170 af 270 á kjörskrá, á Stokkseyri 80 af 240, í Sandvíkurhreppi 28 kjósendur. Annars var kjörsókn dræm í sýslunni. Í síðari kosningunum sem voru til Alþingis kusu 130 á Eyrarbakka. Bátabryggjan var fullgerð, steinsteypt og að nokkru leyti með járnbindingum. Hún var 70 m löng, 6 m breið og náði hún fram að stórstraumsfjöru. Bryggjan kostaði öll um 33.000 kr. Í flestum minni verslunarstöðum landsins var fólksfjölgun, en á öðrum fækkaði fólki stöðugt til nálægra kaupstaða. Eyrarbakki og Stokkseyri fóru ekki varhluta af nálægð sinni við Reykjavík, með batnandi samgöngum. Á Eyrarbakka bjuggu nú 754 að jafnaði á árinu 1926 og hafði fækkað um 54 frá fyrra ári. Margt kemur til, bílaöldin var runnin upp, togaraútgerðir og fiskvinnsla í stæstu kaupstöðum við Faxaflóa, tækniframfarir og vélvæðing ýmiskonar, atvinnumöguleikar, menta og heilbrigðisstofnanir á sömu stöðum, en á meðan að Árnessýsla fékk litlu áorkað í sömu átt og enn flest sem áður var í búskaparháttum og sjósókn. Hafnleysið hrjáði þegar millilandaskipin stækkuðu og vélvæddust og þurftu meiri þjónustu við land en áður.
Verslun: Þrátt fyrir töluverða fólksfækkun undangengin
ár voru verslanir hér enn margar, svo sem Kf. Hekla sem barðist í bökkum, nú
sem aldrei fyr1, Verslun Andrésar Jónssonar, Timburverslun Sigurjóns
P Jónssonar, Verslun Guðlaugs Pálssonar, Verslun Ólafs Helgasonar. Hinsvegar
dró Jóhann V Daníelsson verslun sína saman á þessu ári, með því að selja út
allann vörulager. Flutti hann síðan til Reykjavíkur. Steinolíuútibúið hóf að
selja bensín um þessar mundir.
1.[ Kaupfélagið Hekla
hafði nú starfað á Eyrarbakka í 22 ár og var í upphafi lítið og fámennt félag
sem óx fljótt fiskur um hrygg og efldist mjög fram undir fyrra stríð. Félagið
keypti Lefolii verslun árið 1919 og landeignir þess. Gekk það svo í
Samvinnufélögin 1922. Um nokkurt árabil hafði reksturinn verið í járnum og
ólukkan elti. Félagið varð fyrir margvíslegu tjóni og þurfti að sæta afarkostum
á aðfluttningsgjöldum. Verðhækkun, gengistap, hávextir og aukin samkeppni
sökktu því í skuldafen. Til að bæta gráu ofan á svart, þá fórst kolaskip er til
þess átti að koma og oft þurfti að afskrifa ýmsar vörur sem skemdust í
flutningi. Eignir félagsins utan verslunarrekstrar voru helst: Jarðir tvær
(Einarshöfn og Skúmsst.), með hafnrétti, skipt í leigulönd, nálægt 50
þurrabýla. Íbúðarhús tvö, peningshús, hlaða, skemmur nokkrar, bökunarhús,
íshús, sölubúðir tvær stórar og fjögur vöruhús mjög stór. Fjöldi manna starfaði
hjá félaginu. Mikil kreppa blasti því við Eyrbekkingum nú þegar Sparisjóðurinn
var fallinn og hugsanlegs gjaldþrots Kf. Heklu]
Stórbruni á Stokkseyri:
Aðfaranótt 10.
desember 1926 brunnu Ingólfshúsin á Stokkseyri til kaldra kola. Ingólfshúsin
samanstóðu af 7 verslunar og pakkhúsum. Þar á meðal íshús fullt af kjöti og
fiski. Íbúðarhús tvö voru einig á torfunni. Margir urðu þar fyrir geysilegu
tjóni, svo sem Ásgeir kaupmaður Eiríksson sem tapaði vörum sínum í eldinn þrátt
fyrir að þeim hafi verið bjargað útfyrir. Magnús Gunnarsson, en vörum hans var
rutt út og tvístrað hingað og þangað, út í kirkjugarð og um allar trissur þó
ekki brynni hjá honum. Sigurður
Heiðdal og Böðvar Tómasson, Jón Sturlaugsson og Jón Jónsson, töpuðu ýmist
veiðarfærum báta sinna, útbúnaði öllum og beitu. Jón Jónasson hreppstjóri misti
nær fulla hlöðu af heyi. Hafði sparisjóður [Árnessýslu] Eyrarbakka þá aðeins
nokkrum dögum fyr, selt eða leigt eitt húsið, en tveir ungir menn hugðust hefja
þar verslun. [Ingólfsfélagið varð gjaldþrota um 1924]. Þegar eldsins var vart
var þeyttur brunalúður. Stokkseyringar og Slökkviliðið á Eyrarbakka, sem og
þorpsbúar, allir sem vettlingi gátu valdið, þustu á vettvang með öll
slökkviáhöld sem fyrir fundust í þorpunum ásamt dælum slökkviliðsins, en þrátt
fyrir það varð ekkert við ráðið. Svo magnaður var eldurinn í verslunarhúsunum
að nálægir símastaurar fuðruðu upp sem eldspítur. Sex önnur nálæg íbúðarhús
tókst að verja, en í einu þeirra var símstöð Stokkseyrar. Þegar eldtungurnar
náðu sem hæst, var talið glójart og lesljóst allt undir Ingólfsfjall að sögn.
[Slökkviliðsstjóri var Einar Jónsson. Húsin sem brunnu voru: Ingólfshúsið,
í fyrstu bygt af Grími Gíslasyni
í Óseyrarnesi. Íshús Jóns
Sturlaugssonar. Zöllnershús, afar stórt og vandað pakkhús reist af Copland og
Berrie um 1900. Varmidalur, verslunarbúð Ásgeirs Eiríkssonar. Heyhlaða og
nokkrir geimsluskúrar undir veiðarfæri. Tjón Stokkseyringa var gríðarlegt í
öllu tilliti. Húseignirnar voru auglýstar til sölu í nóvember 1926, í heilu
lagi eða hver fyrir sig, með lóðarétti eða til niðurrifs.]
Skipakomur: Lagarfoss kom hér við miðsumars og
Gullfoss losaði í Þorlákshöfn vörur til Eyrarbakka, ásamt farþegum nokkrum, en
aðrar skipa og bátaferðir er ókunnugt um. Vélbátaferðir voru þó nokkuð tíðar frá
Eyrarbakka og Stokkseyri til Vestmannaeyja, sem og til Reykjavíkur.
Sjávarútvegur: Vertíðin byrjaði hægt hjá
mótorbátum, en ágætur ýsuafli á róðrabátum. Í mars og apríl aflaðist með ágætum,
þá er gaf á sjó. Þeir sem sóttu vestur á Selvogsbanka náðu oft góðum afla. Um
haustið veiddist mikið af síld í reknet, og var mikið af því saltað í tunnur en
einnig ísfryst í beitu. Hámeri spillti þó veiðinni mikið og stórfiskur var um
allann sjó utan skerja. Um miðjan september voru kominn um 40 tonn af síld á
land. Sæmilegur fiskafli var á haustvertíð.
[300 síldartunnur voru fluttar út héðan]
Sjóhrakningar: Þann 13. apríl 1926 reru 17 bátar af
Eyrarbakka og Stokkseyri og fóru flestir vestur undir Selvog (2 ½ klst sigling
frá Stk). Þegar á daginn leið gerði landsynningsrok og brim svo mikið, að
aðeins 8 bátarnir gátu lent heima, en hinir urðu að láta fyrirberast úti á
rúmsjó. þegar sýnt þótti, að bátarnir næðu ekki landi var símað til
stjórnarráðsins og það beðið að hlutast til um það, að skip á þessum slóðum,
sem til næðist yrðu beðin að koma bátunum til hjálpar. Var þá strax sent skeyti
til allra skipa á þessu svæði og þau beðin að líta eftir bátunum. Strax um
kvöldið voru fimm íslenskir togarar komnir á vettvang til hjálpar, þeir
Skallagrímur, Belgaum, Hannes ráðherra, Earl Kitchener og Gyllir. Tók Gyllir
einn bátinn "Trausta" frá Eyrarbakka og dróg hann til Reykjavíkur, en Skallagrímur
bjargaði áhöfninni af "Öðlingi", einig frá Eyrarbakka. Liðaðist hann
sundur og sökk, en skipverjar komu með Skallagrími til Reykjavíkur. Belgaum,
Hannes ráðherra og Earl Kitchener fylgdu hinum 7 bátunum, sem eftir voru til
Vestmannaeyja. Þann 8. apríl gerðist viðlíka atburður þegar allir bátar
Stokkseyringa og Eyrbekkinga lokuðust úti vegna brims, en að þessu sinni var
ekki skaðræðis sjór, en allhvöss norðanátt svo menn biðu rólegir af sér
brimhretið. Það var svo ekki fyrr en daginn eftir og fram á kvöldið sem
bátarnir náðu lendingu. Svo óheppilega vildi til að "Trausti" brotnaði þá mikið
í lendingunni. Er hér var komið höfðu Eyrbekkingar tapað tveim vélbátum frá
veiðunum.
["Öðling" áttu Árni Helgason í Akri, Guðmundur Guðmundsson og Sigurður
Guðmundsson á Litlu Háeyri, sem var þá háseti á Skallagrími og í þeirri einkennilegu
stöðu að heimta skipverja og nágrana úr helju. Formaður á "Trausta", var Jón
Jakopsson í Einarshöfn en átta voru í áhöfn hans. Skipstjóri á "Gylli" var
Ingvar Einarsson frá Reykjavík. Þótti þessi hjálp frá togurunum mikið afrek enda
einsdæmi hve mörg mannslíf voru hér í húfi, eða um 100 manns og engan þeirra sakaði.
Á "Hannesi Ráðherra" var skipstj. Guðm. Markússon, og "Earl
Kitchener", var skipstjóri
Alexander Jóhannsson, en þeir aðstoðuðu Friðrik Sigurðsson, form. á vélb.
"Svanur" og Jón Helgason, form. á
vélb. "Freyr" að koma bátum sínum ólöskuðum til Vestmannaeyja.]
Samfélag: U.M.F.E tók upp á þeirri nýbreittni
að halda einskonar kvöldvökur, þar sem piltarnir hnýta net, skera í tré o. fl.
Stúlkurnar sauma, prjóna o. s. frv. Á meðan las einn upphátt: Þjóðsögur, kafla
úr íslendingasðgum, kvæði o, fl. Á miðri
vöku var drukkið kaffi. Allir höfðu með sér kaffi mal að heiman, sykur og
brauð, og var öllum forðanum steypt saman. í vökulokin var húslestur og sálmar
sungnir. Þessi háttur varð mjög vinsæll í báðum deildum (aldursflokkum). Í
félaginu voru þá 150-160 félagar. Stofnuð var ný stúka á Eyrarbakka með 24 félögum.
Hét hún "Alda" en stúkan, sem var hér áður, "Eyrarrósin" féll niður.
Glímukappar komu og héldu
sýningu fyrir þorpsbúa, áður en farið var utan til Danmerkur, en þar stóð til
að kynna íslenska glímu. Á meðal þeirra var Björn Blöndal Guðmundsson
verslunarmaður og Kári Sigurðsson trésmiður, báðir frá Eyrarbakka. Þeir komu
svo heim með Gullfossi og stigu í land í Þorlákshöfn. Í skátafélaginu
Birkibeinum voru 21 skáti, en félagið var nú 5 ára. Ketill Gíslason var flokksforingi.
Félagið var fátækt og átti erfitt um vik með að afla sér styrkja til að efla
félagið. Pólitískir forustumenn heimsóttu Bakkann, svo sem kratinn Jón
Baldvinson o.fl. Þá kom hér Dr. Heinrich. Erkes, háskólabókavörður í Köln og
alþekktur Íslandsvinur á þessum árum. Hingað komu líka skátar úr Reykjavík, "Væringjar"
og komu þeir fótgangandi alla leið. Flöskuskeyti rak hér á fjörur og var það frá
erlendu skipi. Rauðikrossin hélt hér hjúkrunarnámskeið í boði kvenfélagsins, 33
stúlkur sóttu. Leiksýningar vorur reglulega haldnar í samkomuhúsinu Fjölni af
leikfélaginu hér.
Samgöngur: Sigurður Óli Ólafsson var með fastar
ferðir milli Eyrarbakka og Reykjavíkur þrjá daga í viku, bæði með fólk og
flutning. Bílafloti hans var, Ford
fólksbíll, Overland fólksbíll, Dodge vöruflutningsbifreið, tveir Cevrolet
hálfkassar og nýr Buick. [Eitthvað
af þessum bílaflota var til sölu.] Vörubílastöðin í Reykjavík sendi hingað vörur eftir þörfum. Aðrir
í þessari samkeppni um farþeganna var Bifreiðastöð Steindórs með Buick
bifreiðar og Bifreiðastöð Reykjavíkur, sem var aðalega útbúinn Fíat-bifreiðum.
Heilsufar: Taugaveiki kom upp á heimili Gísla
héraðslæknis og Aðalbjörgu konu hans og þrem öðrum húsum. Höfðu 5 til 10 manns
tekið veikina. Unglingsstúlka, fósturdóttir þeirra læknishjónanna, Vígdís
Ólafsdóttir lést fljótlega af völdum veikinnar og nokkru síðar dóttir þeirra, Valgerður
Aðalbjörg, 7 ára, og
síðan Karen Ólafsdóttir í Garðbæ, er þar lá þar veik. Var talið að smitið hafi borist með mjaltakonu einni er stundaði kýrnar á
Garði, ( þar voru tvær kýr) og í mjólk er keypt var til heimilis læknisins.
Gerðar voru fyrirbyggjandi ráðstafanir með aðstoð landlæknis. (Auk Gísla
Péturssonar var læknir hér Lúðvík Nordal). Ljótt slys varð um áramót, þegar drengir voru að leika sér að
því að sprengja flugelda, og tókst svo hrapallega til, að einn drengurinn misti
tvo fingur af annari hendi.
Látnir: Guðríður Guðmundsdóttir, Vinaminni
(81), Jón þurrabúðarmaður,
Guðmundsson, Eyvakoti (78), Gísli bóndi Ólafsson, Stekkum (71), Valdís
Vigfúsdóttir Skúmstöðum (Götuhúsum), Ástmundur rafvirki Guðnason, Einarshöfn
(25), Karen Ólafsdóttir Garðbæ (22), Vígdís Ólafsdóttir Læknishúsi (20),
Ásmundur Guðnason togarasjómaður
frá Einarshöfn,(26) eftir langvarandi vanheilsu. [Hann var einkasonur Guðna
Jónssonar og Sigríði Vilhjálmsdóttur], Valgerður Aðalbjörg Gísladóttir,
Læknishúsi (7).
[Ásgeir Blöndal fv. héraðslæknir f. 1858. Valgerður Magnúsdóttir,Vívatson
í Norður Dakota f.??. Kristín
Helgason í Chicago f.1838]
Sveitin: Skemtisamkoma var haldin við
Ölfusárbrú þann 22. ágúst, en mánuði áður hafði komið þar við þýsk hljómsveit,
Hamburger Philharmonisches Orchester. Um miðjan desember stóðu þar 10 bílar fastir
í snjó og komust hvergi og urðu 30 manns að gista í Tryggvaskála af þeim sökum.
Þá varð bruni við Ölfusá (Selfossi). Brann þar vörugeymsluskúr sem verslunin
Höfn (útibú Heklu) átti og voru aðallega geymd í skúrnum kol, steinolía og
bensín. Skúrinn brann til ösku.
Tíðarfar og náttúra: febrúar var mjög hlýr, hæst fór hitinn hér í 8,3°C. Í mars
var úrkomusamt og talsvert yfir meðallagi. Í apríl fór hitinn hæst í 12,3°C. Í maí
17.9°C hæst, en stormasamt var þó þennan mánuð. Sæörnin (Haförn) var að hverfa
úr Árnessýslu. Nokkrir ernir höfðu á árunum áður hafst við í Ölfusi og afréttum
Gnúpverjahrepps en drepist flestir af refaeitri. Nú var talið að aðeins einn
eða tveir Sæernir væru eftir í Sýslunni og héldu þeir til í Ölfusi. Í júní
mældist hæst 20°C, og hagstæð tíð. Vinna hófst við að hefta sandfok og girða
sandgræðslureitinn á ný eftir sjávartjón síðasta vetrar. Þá var safnað talsvert
af melfræjum um haustið til frekari uppgræðslu. Í júli var heitast 20,7°C á
Eyrarbakka, en annars var úrkomusamt. Í ágúst fór hitinn í 19.1°C, annars
votviðrasamur. Kartöfluræktun var hér mikil sem áður og var uppskeran mestmegns
seld í verslunum í Reykjavík. Snemma í september fór hitinn í 16.1°C en um
miðjan kom frostið. Í lok oktober mældist 10 stiga frost, en mánuðurinn var
kaldur, sem og nóvember, en þá mældist 9 stiga frost og í desember var það mest
-11°C. Sjógangur var mikill og brotnaði sjógarður vestan við þorpið [80m kafli]
og árabátur sem þar var. Einnig bryggja nokkuð.
Aths. Þar sem heimildir í blogþáttunum "Sú
var tíðin" eru unnar mestmegnis úr fréttum blaða og tímarita er ekki hægt að
ábyrgjast að heimildir þessar séu áræðanlegar í öllum tilvikum. Leitast er við
að telja ekki upp atriði eða atvik sem augljóslega eru röng, eða mikill vafi
leiki á, ella hafi komið í ljós leiðrétting eða gagnrýni annarstaðar í sömu
heimildargögnum.
Heimild: Dagblöð og vikurit 1926: Aldan, Morgunblaðið, Vísir,
Ísafold, Dagblað, Verkamaðurinn, Tíminn,
Önnur rit: Árbók Héraðssambandsins Skarphéðins - 1926.
Templar, Hlín,Veðráttan, Búnaðarrit, Óðinn, Liljan, Íþróttablaðið, Tímarit
verkfræðifélagsins, Ægir, Samvinnan,
21.04.2013 11:40
Sú var tíðin, 1925
Íbúar voru 808 á Eyrarbakka árið 1925 og hafði fækkað um 35
frá fyrra ári. Reykjavík sogaði til sín fólk héðan af ströndinni. Þurrabúðir og
kot voru smám saman að leggjast í eiði. Höfuðstaðurinn dró til sín námsmenn, sem
og verkafólk til ýmsra starfa og sjómenn. Á Bakkanum vonuðust menn eftir
símalínu allt vestur til Reykjanes, því bátar héðan fóru oft vestur að
Sandgerði til veiða, en 16 ár voru nú liðin síðan símstöð var opnuð á
Eyrarbakka. Íslenska sjóstakka vildu sjómenn hér fá í tilraunaskyni í stað
erlendra. Bryggjugerðin var hinsvegar mesta framfara skrefið um þessar mundir.
Sjávarútvegur: Aflalaust var við ströndina í janúar,febrúar
og mars, en einhverjir bátar reyndu fyrir sér þegar gaf á sjó. Vertíðin hófst
svo fyrir alvöru 20. mars og gerðu 24 mótorbátar út frá Eyrarbakka og
Stokkseyri. Aflaðist strax ágætlega og menn töluðu um "aflahrotu" hér
sunnanlands. Í aprílbyrjun var slíkur landburður af fiski að menn hér mundu
ekki annað eins. Heldur dró úr fiskigengd er á leið vertíðina. 3.520 skipspund
komu á land á Eyrarbakka og Stokkseyri þessa vetrarvertíð og rúm 500 í
Þorlákshöfn. Ekkert aflaðist um sumarið. Útgerðin hér við ströndina vildi láta
koma á landhelgisgæslu á fiskimiðum Stokkseyrar og Eyrarbakka, en enskir
togarar voru orðnir aðgangsharðir hér á miðunum. Stofnaður var lendingasjóður
til að standa straum af hafnargerð er fram liðu stundir.
Skipakomur: Mb. Skaftfellingur kom hér 21. maí og síðan eina
ferð í mánuði yfir sumartímann. Mb.
Úlfur hafði boðað komu sína, en sneri frá vegna vélarbilunar. "Villemoes" kom
með steinolíu til útibús Landsverslunar. "Annaho" kom með salt til Eyrarbakka
og Stokkseyrar. "Svanur" kom seint í nóvember með kol til kf. Heklu.
[í Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslum höfðu kaupmenn
fengið hafskip með vörur beint frá
útlöndum undangengin þrjú ár, sem skipað var upp á Skaftárós, Vík, Holtsós,
Hallgeirsey og í þykkvabæ. Það var Ásgeir Jónasson skipstjóri frá Hrauntúni sem
fyrstur sigldi skipinu Borg á þessa staði.]
Sjóslys: Enska togveiðiskipið "Viscount Allenby" strandaði
við Þorlákshöfn í brimi og svarta myrkri. Áhöfnin 10 menn björguðust með aðstoð
Þorleifs Guðmundssonar og hans manna í Þorlákshöfn [alls 4 menn auk Sigurðar
Þorleifssonar sem var 13 ára]. Náðu sjómennirnir að handstyrkja sig á kaðli til
lands þar sem þeir voru gripnir úr brimlöðrinu. Skipið sökk skömmu síðar. [Skipstjórinn
var Mr. Thomas Wren]
Verslun: Kanpfélagið Hekla á Eyrarbakka byrjaði að byggja bús
við Ölfusárbrú. Þar var væntanlegt útibú frá félaginu. [ Kaupfélagið Höfn] C.
Pedersen lyfsali á Eyrarbakka fór héðan alfarinn erlendis en áður seldi hann
lyfjabúð sína dönskum lyfjafræðingi.
Landbúnaður: Kartöfluræktun á söndunum var orðinn stór
útvegur um þessar mundir. Fjár og kúabúskapur var jafnan til hliðar við önnur
störf.
Samgöngur: Bifreiðastöð Reykjavíkur og Steindór héldu einkum uppi samgöngum milli Eyrarbakka og Reykjavíkur yfir sumartímann.
Samfélag: Heimilisiðnsýning var haldin hér fyrir tilstulan
U.M.F.E. Glímukappar U.M.F.Í héldu sýningu í Fjölni. Á meðal þeirra var Árnesingurinn,
Sigurður Greipson, en hann var einnig með íþróttakennslu hér á Eyrarbakka og
Stokkseyri. Söngfuglinn Sigurður Birkis söng sig inn í hjörtu Eyrbekkinga og
Stokkseyringa. Jón Jónsson læknir stundaði tannlækningar hér um mánaðar tíma. Þann
6. febrúar voru húsmæður á Eyrarbakka boðaðar á fund, sem halda átti vegna
sögusagna um að stofna ætti "her" hér á landi til að berja á alþýðunni. Hvort
þessi skröksaga alþýðuleiðtoga landsins hafi fengið Eyrbekkskar húsmæður til að
storma á fundinn er hinsvegar ekki vitað. Hvort þessar skröksögur hafi orðið
Bjarna Eggerts oddvita að yrkisefni er hann samdi Alþýðustökur sínar einnig
óljóst:
Oft eru kvæðin efnissmá
og ekki á réttum nótum.
sem að kveðin eru á
eykta- og gatna-mótum.
En þó er gull og gersimar
geymd í þessum sjóðum
og margt af slíku metið var
móti bestu ljóðum.
En það voru fleiri sem kunnu að kveða á Bakkanum, svo sem
Sigfús Guðmundsson snikkari sem kvað yfir spilum:
Að spila "vist" er lífsins list
lífgun tvistu sinni,
eins og kyst sé refla-rist
rjóð í fyrsta sinni.
Íþróttamót var haldið að Þjórsártúni og í 100 m. hlaupi fékk 2.
verðlaun Kári Sigurðsson, U.M. F. Eyrarbakka (13 1/5 sek.). Annars voru Hrunamenn
hlutskarpastir í flestum greinum. Þá var haldin þar iðnsýning í tengslum við
mótið. Vefnaður frú Herdísar Jakobsdóttur og nemenda hennar á Eyrarbakka, vakti
mikla eftirtekt, einkum fyrir smekkvíslega litablöndun og fögur munstur og
mikið þótti og varið í prjónanærföt frá bankastjórafrúnni á Selfossi. Aðalsteinn
Sigmundssom skólastjóri sendi út áskorun til Eyrbekkinga, bæði heima í héraði
og utanhéraðs um að styrkja skólann, sem ekki var vanþörf á. Söngfélagið
Þrestir úr Hafnafirði tók lagið hér á Bakkanum. Þórdís Símonardóttir ljósmóðir
settist í helgan stein. Hafði hún þá tekið á móti um 1.500 börnum.
Látnir: Ólafur Teitsson hafnsögumaður Skúmstöðum (86), Magnús Ormsson (83), hann
var um langt skeið hafnsögumaður og formaður hér á Eyrarbakka. Sesselja Ólafsdóttir skúmstöðum (73),
[ekkja Ebenesers Guðmundssonar gullsmiðs], Jón Hannesson bóndi Litlu-Háeyri (72)
Árni Árnason þurrabúðarmaður í Stíghúsi (60), Sigurður Pálsson Laufási (28), [Hann
andaðist á Franska spítalanum í Fáskrúðsfirði], Guðríður Guðmundsdóttir Háeyrarvöllum (1).
[Sigurður Eirlksson er um tíma bjó á Eyrarbakka. Hann stofnaði sjómanna félag á
Eyrarbakka og Stokkseyri og í Keflavík.]
Sýslan og sveitin: Hugmyndir voru uppi um stofnun héraðskóla
Suðurlands að Reykjafossi [nú Hveragerði]
í Ölfusi. Skemtisamkomur voru oft í Tryggvaskála við Ölfusárbrú, en þar rak
Guðmunda Níelsen veitingahús.
Tíðarfar og náttúra: 14-21 janúar gerði stormviðri og
stórsjó. Þann 21. braut sjórinn og eyddi sjávarvörnum við Stokkseyri,
Eyrarbakka og Grindavík og flæddi langt upp á land og gerði mikið tjón. Fólk
margt flýði úr húsum sínum. Sjógaðurinn frá Stokkseyri að Hraunsá lagðist allur
undan sjóganginum. Sömu leið fór sjógarðurinn frá Eyrarbakka og vestur á
Óseyrarnes, sem og garðar fyrir Hrauns löndunum féllu víðast. Girðingar allar í
sandgræðslunni þar fyrir innan eiðilögðust og hálfgróin sandgræðslureiturinn
fyllti af sandi. Steinolíuport kf. Heklu fauk að miklu leyti og skemdir urðu algerar
á innsiglingamerkjum [Sundvörðum] og nýlegum ljósabúnaði þeirra. Matjurtagarðar
Eyrbekkinga er lágu fleiri hndruð metra með sjógarðinum og biðu sáningar urðu
fyrir einhverjum skakkaföllum. Heyskaðar höfðu einnig orðið hér í grend og
lítil hlaða fauk á Stokkseyri. Foktjón varð víða í uppsveitum. Úrkomusamt mjög
var í Mars, Júní og júlí. Lóan kom þann 2. apríl, en það er sá dagur sem hún
hefur oftast komið á að meðaltali.
Nóvember var fremur hlýr á Bakkanum.
Ýmislegt: Það gat verið erfitt verk og ekki hættulaust að
sveifa bifreið í gang, en það fékk Guðmundur Halldórsson úrsmiður að reyna,
þegar hann ætlaði í smá sunnudagsbíltúr. Þegar bifreiðin hrökk í gang snerist
sveifin með af afli og braut handlegg hans mjög illa sem auk þess fór úr liði
við úlnlið.
Heimildir, dgablöð 1925: Vísir, Morgunblaðið, Ísafold,
Dagblað,Tíminn,
Tímarit 1925: Veðráttan, Ægir,
15.04.2013 17:15
Sú var tíðin, 1924
Íbúar á Eyrarbakka árið 1924 voru 843* og hafði þeim fækkað
um tæp 11% frá fyrra ári. Samskonar þróun átti sér stað á Stokkseyri.
Vinnuaflsskorturinn í Reykjavík hefur ráðið mestu um fólksfækkun hér, þar sem atvinna
við ströndina var meira árstíðarbundin og annars stopul. Sjúkrahúsbyggingunni
sem var nær lokið var nú í biðstöðu þar sem fé skorti til áframhaldandi
framkvæmda. Vonir stóðu til að "Eyrarspítali" yrði útbúinn röntgentækjum þegar
framkvæmdir kæmust aftur í gang. Engin vatnsveita var komin á Eyrarbakka, og
var það farið að há framtíðarþróun þorpsins, en þannig vatnsöflun var hér ýmsum
örðuleikum bundin. Brunnvatnið varð því enn að nota sem fyr.
Atvinna: Atvinna var næg á meðan vertíðinni stóð. En búist var við almennu atvinnuleysi
yfir sumarið, þar sem gert var ráð fyrir, að framkvæmdir við Flóáveituna myndu liggja niðri
þetta árið, en við hana unnu að jafnaði fjöldi manna af Eyrarbakka og
Stokkseyri. Eitthvað var þó unnið við vegavinnu á Eyrarbakkavegi, suðurlandsveg
og í uppsveitum sýslunnar. Vinna við bryggjuframkvæmdir voru líka einhverjar,
en oft var hagur manna þröngur. Ungir menn héðan einhverjir réðu sig til sjós
fyrir "sunnan", þá einkum á togara og landvinnu, en eftirspurn eftir duglegu verkafólki
var mikil á Reykjavíkursvæðinu og ásókn í fólk héðan. Kom það sjaldnast aftur
sem farið var.
Verslun og þjónusta: Sparisjóður Árnessýslu fjármagnaði kaup
á nær öllum mótorbátum sem gerðir voru út hér í sýslunni auk veiðarfæra og reindist
það heldur bratt veitt. Átti hann nú í vanda vegna rekstrartaps og varð að
leita á náðir ríkisins. Tap sjóðsins umfram eignir nam þá um 14 %, eða tæp 500
þúsund kr sem á vantaði. Var þá lagt til að sjóðurinn mundi sameinast
Landsbankanum og var það samþykkt á hluthafafundi gegn 75 % tryggingu
innistæðna1. Tapið orsakaðist sumpart af því að vertíðin 1923 brást
að mestu og síðan vegna mikils verðfalls á fiski. Almennt voru bankar landsins
(Landsbanki og Íslandsbanki) að tapa af sömu ástæðum og einnig vegna gengistaps.
Órói var enn vegna olíusölunnar hér, en landsverslun seldi olíufatið héðan 9
kr. dýrari en í Reykjavík. Olían fékst þá lækkuð nokkuð, eða svo munaði 7 kr.
Olíuportið kölluðu gárungarnir "Héðinsskans".
Skipaferðir: Skipakomur höfðu verið venju fremur miklar, þetta sumar. Eimskipið
"Gullfoss" kom til Eyrarbakka 11. júli og náði að skipa upp megninu af þeim
vörum er hingað áttu að koma. Kom það aftur hér mánuði síðar og tók héðan 500
balla af ull. "Willemoes" skip Landsverslunar kom tvívegis um sumarið og
skipaði upp steinolíufarmi til olíuverslunarinnar hér, en í þriðju ferð sinni fékk
skipið ekki samband við land þar sem allur mannskapur var í heyskap um þessar
mundir,og fór það því að svo búnu 2. Strandferðaskipið
"Skaftfellingur" kom og sótti fullfermi af fiski til útfluttnings. Tvö skip komu til Kf. Heklu, annað
með kol og hitt með salt, kom það frá Spáni og var 14 daga á leiðinni upp. Svo
kom Esjan og tók ull hjá kf. Heklu.
Sjávarútvegur: Sjómenn hér fluttu nær allt slóg sem til féll
út á grunnmiðin. Var talið að fiskur héldist við lengur á miðunum væri þetta
gert, þó ekki hafi verið þess vegna að nú bar svo við að óvenju vel aflaðist á
vetrarvertíð og á stundum mokafli svo jafnvel að með fádæmum var. Saltlaust var
orðið um miðja vertíð og var þá snarlega brugðist við um að fá saltskip hingað
svo veiðar gætu hafist að nýju. Um 15% aflans var ekki verkaður til
útfluttnings. (19.500 stk. ýsur og 2.264 stk. ufsi og keila). Á Eyrarbakka og
Stokkseyri voru gerðir út 20 mótorbátar, allir undir 12 tn. Teinæringar voru 5
og 1 sexæringur. Sjómenn voru samtals 255 á þessum veiðistöðvum, þ.a. 162 á
mótorbátum. Var þessi vertíð sú besta hingað til, sem sögur fóru af.
Samgöngur: Bifreiðastöð Reykjavíkur (B.S.R.) hélt uppi fólksferðum
milli staðanna, Eyrarbakka, Stokkseyri og Reykjavíkur tvisvar í viku yfir
sumartímann og Bifreiðastöð Steindórs einn dag í viku. Bifreiðastöð Eyrarbakka
(B.S.E.) var hinsvegar með daglegar ferðir milli þessara staða. Að B.S.E. stóðu
Sigurður Óli Ólafsson, Steingrímur Gunnarsson, Bjarni Kr. Grímsson og Einar
Einarsson. Vöruflutningabílar komu daglega úr Reykjavík, aðalega með
verslunarvarning. Stöku ferðir áttu hingað aðrar bifreiðastöðvar, svo sem "Sæberg"
í Hafnafirði.
Samfélag: Skátarnir ("Birkibeinar") gáfu út blaðið "Áhugi",
en ritstjórar þess voru Björn Guðmundsson og Ketill Gíslason. Blaðið fjallaði
aðalega um íþróttir og skátastarf. Íþróttamót var haldið við Þjórsárbrú. Í
kappglímu drengja unnu til verðlauna 1. verðl. Björn Bl. Guðmundsson frá U. M.
F. Eyrrarbakka. 2. verðl. Dagbjartur Bjarnason frá U. M. F. Stokkseyrar. Í 100
m. hlaupi, l.verðl. Kári Sigurðsson frá U. M. F. Eyrarbakka. Í 100 m. hlaupi
drengja 1. verðl. Björn Bl. Guðmundsson frá U. M. F. E. Í langstökki, l.verðl.
Kári Sigurðsson frá U. M. F. E. Í Hástökki, 1. verðl. Kári Sigurðsson frá U. M.
F.E. Flesta vinninga á mótinu, 15 stig, hlaut U. M. F. Eyrarbakka. Fékk það að
verðlaunum skrautlegt skjal, er teiknað hafði Sigurjón Ólafsson málaranemi á
Eyrarbakka. Lítið fór fyrir pólitískri umræðu, en þó dúkkaði upp "Harð-jaxlinn"
og grínistinn Oddur Sigurgeirsson sem boðaði bolsévisma í Eyrarbakkaborg, eins
og hann kallaði staðinn og Bjarna Eggerts oddviti var borgarstjórinn í hans
augum. Jafnaðarmannafélag Árnesinga, stjórnmálafélag innan Alþýðuflokksins, var
stofnað á Eyrarbakka 24. nóvember. Stofnendur voru 56 af Eyrarbakka, Stokkseyri
og víðar úr sýslunni.
Látnir: Jóhann Magnússon Einarshöfn (87), Guðbjörg
Eyjólfsdóttir Hópi (84), Helga Ingvarsdóttir Túní (74), Þuríður Guðmundsdóttir
Eimu (73), Sesselja Helgadóttir Gamla-Hrauni (35), Jóhanna Benediktsdóttir
Litlu-Háeyri (27), Margrét
Jóna Einarsdóttir grund (14), Ingileif Sigríður Pálsdóttir Sandvík (1), Sigurður
Guðmunsson Háeyrarvöllum (1), Jón Eyvindur Sigurðsson Götuhúsum (0) Sveinbarn Eyvindsdóttir Bakaríi
(0),
Byggingar: Steinskot II var byggt þetta ár.
Ýmislegt: P. Níelsen í Húsinu og fv. verslunarstjóri Lefolii
verslunar var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar er hann varð 80 ára. Hann var fæddur í Ring-Köbing á Jótlandi,
en kom hingað 1872, og varð þá bókhaldari við Lefoliisverslun á Eyrarbakka. Forstjóri
hennar var þá Guðmundur Thorgrímsen. P. Nielsen kvæntist dóttur hans Eugeniu,
25. júlí 1880, og tók hann við forstöðu
verslunarinnar af tengdaföður sínum 1. janúar 1887. Hvatamaður hafði hann verið
að ýmsum þörfum framkæmdum og velferðamálum. Hann stofnaði m.a. ábyrgðarsjóð fyrir róðrarbáta og kom
ýmsum umbótum af stað. Hann var auk þess mikill hvatamaður fyrir náttúruvernd á
Íslandi. Þá gaf hann Barnaskólanum mest allt Náttúrugripasafnsitt3. Sláturfélag Suðurlands gerði tilraun
til að slátra fé Árnesinga að Borg í Grímsnesi. Það þótti tilkomumikil sjón
þegar tvær sjóflugvélar enskar, flugu hér yfir á leið til Reykjavíkur. Það bar
við að Hvítá þornaði upp að öllu dagstund þann 29. febr.
Þjóðarhagur: Nefnd var sett á fót til að annast
gengisskráningu krónunnar og festa gengi hennar. Dollarinn kostaði 7 kr. og 56
aura, en dönsk króna kostaði 125, kr. og 69 au. Verslunin greiddi 5% af hreinum
arði til útsvars. Fiskveiðiárið var eitt það mesta í sögunni og
landbúnaðarvörur voru í góðu verði til útfluttnings.
?
1. Vegna slæmrar stöðu
Sparisjóðsins var haldinn fundur með innstæðueigendum 6. okt. 1923. Fundur
þessi var afarfjölmennur og niðurstaðan varð þá helst sú, að sjóðurinn héldi áfram
að starfa og ynni töpin upp aftur. Á fundi þessum var kosin nefnd til nánari athugunar
á málinu. Nefnd þessiboðaði svo aftur til fundar með innstæðueigendum þann, 24.
nóv s.á. Var þá aftur fjölmennur fundur haldinn um málið og skýrði þá nefndin
frá störfum sínum: að hún hefði reynt að ná samkomulagi við bankana [Landsbankann
og Íslandsbanka] um, að annarhvor þeirra tæki hann að sér, en alt kom fyrir
ekki, og nú sæi hún ekki annað ráð vænna, en að sjóðurinn héldi áfram og reyndi
að hafa sig upp aftur.Nefndin hóf á ný samningaumleitanir
og sótti aftur í sama horfið, að Landsbankastjórnin vildi fá sjóðinn með sem
mestum afföllum, 25% af innstæðueigendum og landið ábyrgðist 5%, alt svo með 30%
afföllum. En svo fóru leikar, að landsábyrgðin fékst ekki, og enn var haldinn
fundur um málið með innstæðueigendum 2. júlí 1924 og kom þá fram það tilboð, að
Landsbankinn væri fáanlegur til þess að hirða sparisjóðinn, ef innstæðueigendur
vildu fórna til þess ¼ af innstæðufé sínu. Fundurinn beygði sig undir þessa
vandræða úrlausn, að undanteknum fáum mönnum, sem ómögulega gátu felt sig við
þessa bóndabeygju. En sögu stærsta og öflugasta sparisjóðs landsin lauk hér. [Ransóknarnefnd skipuð heimamönnum mat tapið
6% í ljósi bætts hags til sjávarins á vertíðinni 1924, en rannsóknarnefnd
ríkisins mat tapið rúm 14 % m.v. þann aflabrest sem varð 1923].
2. Eftir að " Es. Willemoes" fór héðan óafgreitt, í þriðju ferð sinni, varð allmikið hafarí út
af þessu, þar láðist afgreiðslumanni að láta skipstjóra olíuskipsins vita að
ekki yrði hægt að losa skipið fyrr en á flóði næsta dags, þar sem allir
verkfærir menn voru við heyskap. Olían var síðan sótt til Reykjavíkur og flutt
hingað á mótorbátunum.
3. Náttúrugripasafn P.Níelsens sem hann afhenti Barnaskóla Eyrarbakka
til varðveislu var þannig a. m. k.: 23
uppsettir ísl. fuglar, sumir sjaldgæfir; 45 teg. ísl. fuglaeggja - þar á meðal
flestar sjaldgæfari teg. -, mikið safn ísl. og erlendra bergtegunda
o.m.fl. fylgdi gjöfinni nákvæm skrá yfir
safnið. Skápur, fylgdi gjöfinni er mátti rúma mikla viðbót.
* Íbúatal unnið úr mannfjöldaskýrslum árin 1921-1926, heildarfjöldi
skráðra íbúa 1924 en ekki m.v. 1.des þ.á.
Heimildir, dagblöð 1924: Morgunblaðið, Lögberg, Alþýðublaðið,
Tíminn, Vísir, Skutull, Ísafold, Lögrétta, Hænir,Vörður, Harðjaxlinn.
Tímarit 1924: Ægir, Áhugi, Tímarit Verkfræðifélags Íslands,
Þór,
04.04.2013 23:18
Sú var tíðin, 1923
Íbúar á Eyrarbakka voru 893 að tölu árið 1923 og hafði orðið
all nokkur fólksfækkun frá fyrra ári, (5,5%) eða um 52 og hafði þá íbúum fækkað
frá því mest var árið 1919 um 72 einstaklinga.1 Veðurstofa Íslands
setti upp veðurathugunarstöð hér á Eyrarbakka.2 Gísli Pétursson
héraðslæknir tók þá að sér veðurathuganir fyrir stofnunina. Hugmyndir um
Járnbraut frá Reykjavík og hingað austur yfir fjall voru enn til umræðu á
þessum tímum. Rafljós voru sett upp á sundmerkin og látin loga þegar bátar voru
á sjó, en annars ekki. Alþingi lagði til 2/3 af lofaðri styrkupphæð, eða 50.000
kr. til byggingu "Eyrarspítala", en ekki tókst að fjármagna sjúkrahúsið að fullu.
Andróðurs gætti frá Reykjavík og einnig innan sveitar. Húsið var ekki tekið í
notkun á þessu ári eins og stefnt var að. Lúðvík læknir Nordal, sem dvaldi hér
á Eyrarbakka til skams tíma, sem praktiserandi læknir, og tilnefndur læknir á
Eyrarspítala væntanlegum, hugðist sigla utan þetta sumar með hvatningu góðra
manna til frekara náms í skurðlækningum. Alþingi lagði til til bryggjugerðar á
Eyrarbakka 1/3 kostnaðar eða 10.000 kr. Gistihúsið
Fjölnir var nú leigt út, en þar var einnig samkomusalur Eyrbekkinga. Kosið var
til Alþingis og var kosningaþáttaka á Eyrarbakka 70%. Pólitíkin var sérstaklega hörð og óvægin,
eignuðust sumir við það vini en aðrir óvini. Þingmenn sunnlendinga urðu : Magnús
Torfason sýslumaður, og Jörundur Brynjólfsson bóndi í Skálholti, fyrir Framsókn.
Eitt hús var byggt hér á árinu, og heitir það Laufás.
[1 Þessi þróun hélst við næstu áratugina. Í Hagtíðindum voru skráðir íbúar á Eyrarbakka 1923 taldir 810, en íbúatalan 893 hér að ofan er unnin úr mannfjöldaskýrslum Hagstofu Íslands 1921 til 1925]
[2 Athuganir hófust í mars og var meðalhitinn
fyrir þann mánuð 4,7°C og SA áttir
ríkjandi.]
Olíustríðið: Landsverslunin sem nú hafði
einkasölu á olíu, keypti lóð af Guðmundi Ísleifssyni á Háeyri fyrir
steinolíugeymslu og var þegar hafist handa við að girða hana af. 3 "Willemoes"
skip ríkissjóðs kom síðan hingað 27. júní hlaðið steinolíu, en þá kom babb í
bátinn, því umboðsmaður þess hér hafði ekki báta á egin vegum til að landa
olíunni úr "Willemoes" og sýnt að hann fengi ekki báta heimamanna til verksins.
Kaupfélagið Hekla átti báta, löndunarbryggju og olíugeimsluskúra, en af
pólitískum ástæðum líklega fékk það ekki umboð Landsverslunar til olíusölu.
Guðmundur í Heklu var áður umboðsmaður hér fyrir ameríska steinolíufélagið, á
meðan það réði lögum og lofum hér á landi og fyrir Landsverslun hefði því þótt
ílt að lúta höfði og biðja Guðmund í Heklu um greiða. Var þá brugðið á það ráð
að leigja báta af Stokkseyringum og flytja olíuna úr Willemoes sem lá á Einarshöfn
og þaðan, austur í Háeyrarlendingu. Af þessu spunnust miklar pólitískar þrætur
í landsmálablöðum.
[3 Steinolíugeymslan
og olíuportið var nokkurnveginn þar sem Olísbúðin stendur nú. Áður fyr var
olían flutt á trétunnum, en járntunnur komu þetta ár. Ögmundur Þorkellson var afgreiðslustjóri olíuútibúsins hér.]
Sjávarútvegur: Gæftarleysi háði veiðum hér við
ströndina oft fyrri hluta vetrarvertíðar og komið fram í apríl er bátar gátu
stundað sjóinn að ráði. Gerðir voru út 12 mótorbátar og tvö róðra skip. Þessir
voru formenn: Árni Helgason, Akri. Jón Bjarnason, Björgvin. Páll Guðmundsson,
Eyri. Jóhann Jóhannsson, Brennu. Jón
Helgason, Bergi. Jón Jakobsson,
Einarshöfn. Jóhann Bjarnason, Einarshöfn. Jóhann Loftsson, Sölkutóft. Kristján Guðmundsson, Stighúsi. Kristinn
Vigfússon, Frambæ. Vilbergur Jóhannsson, Haga. Guðfinnur Þórarinsson, Eyri. Á opnum skipum: Sigurður Ísleifsson og Tómas
Vigfússon. Hugmyndir voru uppi um að kanna möguleika á hákarlaveiðum yfir
sumarið, en þekkt hákarlamið voru hér fyrir utan.
Verslun og Þjónusta: Kaupfélagið Hekla Sf. hóf að flytja
inn útlendan áburð um þessar mundir. Kaupfélaginu sem nú var að nafninu til "Samvinnufélag"
stóð til boða að ganga í "Sambandið" en félagið afþakkaði það.4 Á
Selfossi hafði verslun Egils Thorarensen vaxið nokkuð, en sú verslun var í
einskonar viðskiptasambandi við Kf. Heklu. Sparisjóður Árnessýslu var á sínum
tíma stærsti sparisjóður landsins, en nú var hann í vanda staddur vegna óvarlegra
útlána og átti í stökustu erfiðleikum með að greiða út innistæður. Var framtíð
sjóðsins í megnri óvissu allt þetta ár og gengu sparisjóðsbækur einhverjar
kaupum og sölum með afföllum.
[4 K.f. Hekla var nú skráð "Samvinnufélag" (Sf.) í stað hlutafélags (Hf.)]
Atvinna og landbúnaður: Verkamenn og sjómenn hér við ströndina höfðu sér til stuðnings, sægjulönd og skepnur eða garða, en stunduðu auk þess almenna eyrarvinnu og sjóinn eftir tökum. Kartöfluveiki kom hér fyrir í nokkrum görðum og var gerð gangskör til að útrýma henni að undangenginni ransókn.
Félagsmál: Almennt voru fundir hér vel sóttir, hvort sem
heldur var hápólitískur fyrirlestur á landsmálavísu eða alvarleg
innansveitarmál, hitnaði oft í kolunum þegar svo bar undir. Félagsmenn U.M.F.E
voru 114. Starfsemi félagsins var fólgin í fundahöldum, þar sem rædd voru ýms
mál, svo sem heimilisiðnaður, bindindismál, dýraverndun, trjá- og blómarækt og
íþróttir. Félagið gekst m.a.
fyrir iðnsýningu, sem haldin var á Eyrarbakka og gaf út tvö blöð, hét annað
"Geisli" en hitt "Stjarna". Í Fjölni var sett upp leikúsverkið "Almannarómur",
leikrit Steins Sigurðssonar.
Samgöngur: Nýja bifreiðastöðin í Reykjavík hóf samkeppni við
aðrar Reykvískar bifreiðastöðvar um ferðir þaðan austur til Eyrarbakka. Þótti
það tíðindum sæta að bifreiðarnar voru aðeins 4 tíma á leiðinni að vetrarlagi
(mars), en farið var hluta leiðarinnar á harðfenni.
Látnir: Vilborg Ingvarsdóttir í Norðurkoti (95). Guðrún
Jónsdóttir í Eyvakoti (87). Gróa Jónsdóttir í Gróubæ (80). Guðfinna
Einarsdóttir í Hallskoti (80). Magnús Magnússon þurrabúðarmaður í Nýjabæ (74). Stefán
Ögmundsson þurrabúðarmaður í Merkigarði (71). Auðbjörg Eyvindsdóttir á
Stóra-Hrauni (70). Halldór Þorvaldsson, þurrabúðarmaður í Eimu (58). Jónína
Anna Torfadóttir í Steinsbæ (57). Ólafur Helgason í Nýjabæ (56). Guðbjartur
Óskar Vigfússon, drengur á Gamla Hrauni (7).
Margrét Jónsdóttir (Bjó í Reykjavík en ættuð af Eyrarbakka,
Jóns Þorsteinssonar og
Sólvegar í Eyfakoti. Margrét var blind.) Ólafur Þorsteinsson verkfræðingur (frá
Garðbæ hér á Eyrarbakka, en bjó í Reykjavík. f.1884)
Sýslan og sveitin: Guðmunda Nílsen keypti gistihúsið
"Tryggvaskála" á Selfossi og endurnýjaði þar mest allann húsbúnað og auk þess
endurbætti hún húsið að mun. rak hún þar sumarhótel og veitingahús. Á pólitískan
útifund fjölmenntu bændur í næðingi og kulda að Selfossi þetta haust, í trássi
við bann guðsóttans manna, enda var þá sunnudagur. Á Stokkseyri fóru fram
hafnarumbætur og klappir sprengdar. Kaupfélag Grímsnesinga varð að hætta rekstri
með 30.000 kr. tapi.
Tíðarfarið og náttúran: Snjóléttur vetur. Hiti í janúar var
undir meðallagi en yfir í febr, og mars. Sandgræðsluverkefni sem staðið hafði
yfir frá 1920 var sýnilega tekið að skila árangri, því gróður hafði aukist
mikið á sandsvæðinu vestan þorpsins, einkum var það sandarfi og melgras, sem
þar óx. Sandurinn var þá búinn að fylla þar djúp síki og seftjarnir.
Hagur: Gengi krónunar gagnvart viðskiptalöndum var afar
lágt og ríkisskuldir miklar.
Heimildir, dagblöð 1923: Morgunblaðið, Lögberg, Alþýðublaðið,
Tíminn, Vísir,
Tímarit: Ægir, Skinfaxi, Búnaðarrit, Vörður, Tímarit Verkfræðingafélags
Íslands, Tímarit íslenskra samvinnufélaga,
01.04.2013 20:37
Að áliðnum vetri
- 1