Færslur: 2013 Febrúar
25.02.2013 21:21
Sú var tíðin, 1917
Árið 1917 voru íbúar í Eyrarbakkahreppi 942. Vikublaðið
"Þjóðólfur", elsta blað landsins hóf að koma út á Eyrarbakka eftir nokkra ára
svefn. Ritstjóri þess var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Vikuritið
"Suðurland" hafði þá nýverið hætt útgáfu og þóttust sunnlendingar illa geta
verið án frétta úr héraði. Ýmsir erfiðleikar hrjáðu útgáfuna hér og svo fór að
blaðið var flutt til Reykjavíkur. - Margir fundir voru haldnir vegna
sjúkrahúsmálsins, en menn vonuðust eftir að sjúkrahúsið á laggirnar, þó skiptar skoðanir væru um stærð þess og byggingakostnað.
Atvinna: Þegar leið að vori fóru verkamenn að
hafa áhyggjur yfir því að siglingar hingað myndu stöðvast sökum stríðsins og
valda atvinnuleysi hjá þorpsbúum sem reiddu sig á vinnu við verslanirnar og
vöruskipin. Þá betur rættist um vinnu í vegagerð við að bera ofan í veginn frá
Selfossi til Eyrarbakka, og álmunar frá vegamótunum við Hraunsstekk að Hraunsárbrú.
Verslun & þjónusta: Verslun Andrésar Jónssonar flutti í
nýbyggtt verslunarhús sítt "Breiðablik". Guðlaugur Pálsson fékk
verslunarleyfi. Aðrar helstu verslanir voru eftir sem áður Einarshafnarverslun,
Kf. Hekla, Verslun Bergsteinns Sveinssonar og verslun Jóhanns V Daníelssonar.
Sigurður bóksali Guðmundsson, höndlaði nú einnig með nýlenduvörur, en 11 til 13
verslanir voru nú á Bakkanum. Kolalaskortur var hér að áliðnu vori, og
pappírsskorturinn var viðvarandi vegna tafa í siglingum. Fyrstu vörusendingar
vorsins hingað austur hafa að öllum líkindum verið sóttar til Reykjavíkur,
þegar skip Eimskipafélagsins komu þar snemma vors hlaðin vörum. Verslun
Andrésar Jónssonar var fyrst hér til að auglýsa nýkomnar vörur að þessu sinni.
-Kaupfélagið Hekla hafði átt
smjörsalt til rjómabúa geymt í Bretlandi á annað ár, en aldrei getað fengið það
flutt, en nú stóðu vonir til að það kæmi með "Ara" leiguskipi Elíasar
Stefánssonar í Reykjavík. -Haraldur Blöndal ljósmyndari hafði aðsetur í
Barnaskólanum og bauð þar þjónustu sína. Guðmundur úrsmiður Halldórson setti
upp vinnustofu sína í Nýjabæ, þá nýkominn frá þýskalandi (hafði hann einkaleyfi
á egin uppfinningu, sem var endurbættur cylinder í úrum). (Húsi Magnúsar
Magnússonar). Kf. Ingólfur á Stokkseyri fékk fyrstu vörur sínar á þessu ári um
mánaðarmót maí, júní og aðrar verslanir hér nokkru síðar. Vöruúrval í
verslununum hér var nú almennt orðið mun meira en áður, en dýrtíð enn mikil.
Afsláttarkjör voru þó almennt viðhöfð í desember, fram til jóla.
Skipakomur 1917: Erfitt var um siglingar sökum
stríðsins, þar sem bretar kröfðust þess að öll vöruskip kæmu við í breskri höfn
og að auki kafbátahættan mikil. Dæmi voru um að skip á leið til landsins væru
skotin í kaf (Sjá hér).
Útlitið var því ískyggilegt á þessu vori. Ekki er getið um skipakomur á
Eyrarbakka og Stokkseyri vorið 1917, þó líklegast að skip Einarshafnarverslunar
hafi komið hér, en til Reykjavíkur var skipaumferð töluverð og voru sum hver
stærri en áður hafði þekkst. Vélbátar Eyrbekkinga og Stokkseyringa voru
hinsvegar talsvert notaðir til að sækja vörur til Reykjavíkur og var það
nýlunda. Strandferðaskipið "Ingólfur"
kom hér við í ágústmánuði með steinolíufarm (300 tunnur) til
Einarshafnarverslunar. Spænskt
seglskip "Espano" kom til Stokkseyrar 3. sept. hlaðið salti til Kf. Ingólfs og
tók saltfisk frá þeim og Kf. Heklu hér á Bakkanum. (Það kom frá Cadiz, gömul
hafnarborg á Spáni).
Sjávarútvegur 1917: Þrír vélbátar héðan stunduðu veiðar
frá Sandgerði, fram í vertíðarbyrjun. Vertíðin byrjaði dauflega hjá róðrabátum,
en mótorbátarnir öfluðu dável. Mótorbáturinn "Suðri" frá Stokkseyri fórst þann
3. febrúar og mótorbátur Jóns Sturlaugssonar á Stokkseyri fórst þar í
september, á leið frá Reykjavík með kolafarm og fl. til Stokkseyrar, mannbjörg
varð. Mótor-námskeið var haldið á Stokkseyri og tóku 10 nemar vélstjórapróf.
Eyrarbakkahreppur: Hæstu greiðendur aukaútsvars voru:
Einarshafnar-verzlun, Kaupfélagið
Hekla, Andrés Jónsson, kaupm. Jóh. V. Daníelsson, kaupm. sr.GísliSkúIason,
StóraHrauni. Guðm.ísIeifss.óðalsb.St.Háey.
J. D. Nielsen, verzlunarstj. Bergsteinn Sveinsson, kpm. Guðm.
Sigurðsson, verzlm. Gíslí Pétursson, héraðsl. Guðm. Guðmundss., kaupf.stj.
Sigurður Guðmundss., bóksali Einar Jóns. þurrab.m.,Einarsh. Árni Tómasson,
Stóra-Hrauni Friðr.Sigurðss. GamlaHrauni Ásg. Blöndal, læknir, Búðarst. Jakob Jóns.
þurrab.m.,Einarsh. G. Jónson, verzlm.,Einarshöfn.
Sveinbjörn Ólafsson, Hvoli. Ingvar Jónsson, verzlm.
Menning og samfélag: Skarlatsótt stakk sér niður í
héraðinu og kom veikin upp í einu húsi hér (Nýjabæ). -Sjúkrasjóðurinn
"Vinaminning" hlaut konunglega staðfestingu, en hann var stofnaður árið 1916.
Tilgangur sjóðsins var að styrkja
fátæka sjúklinga, er leituðu heilsubótar á sjúkrahæli í Árnessýslu. Stjórn
sjóðsins skipuðu: Gísli Skúlason, P. Nielsen og
Gísli Pjetursson. -Það komst í tísku hjá ungu fólki hér og ungmennum sem
höfðu ráð á, að kaupa sér líftryggingu. Flestir sem keyptu tryggingar þessar
höfðu samning um, að þeir fái þær útborgaðar um sextugsaldur og þótti þetta góð
lífeyristrygging. Flestir skiptu við lífsábyrgðarfélagið "Danmark" er Þórður Jónsson, verslunarmaður á Stokkseyri var
umboðsmaður fyrir.- Söngfélagið "17. júní" heimsótti Bakkann og stóð fyrir
söngskemtun og Ólafur Magnússon í Arnarbæli hélt hér söngnámskeið um veturinn.
Andlát: Aðalbjörg Eyjólfsdóttir (87). Pétur
Gíslason faðir Gísla læknis (86). Hannes Bergsson, þurrabúðarmaður Einarshöfn
(64). Magnús Brynjólfsson, þurrabúðarmaður frá Björgvin, andaðist úr
lungnabólgu (55). Katrín Jónsdóttir, Einarshöfn (54). Kristinn Þórarinsson,
bóndi frá Naustakoti [Neistakoti], en hann drukknaði 12. janúar þ.á.(37). Ólafur
söðlasmiður Guðmundsson í Einarshöfn (50). [hafði þar söðlasmíðaverkstæði til
margra ára. Magaveiki hrjáði hann lengi og hugðist hann fá bót meina sinna á
Landakotsspítala, en lést þar]. Sigríður Grímsdóttir, Ingólfi (44). Rósa María Brynjólfsdóttir frá
Merkisteini á Eyrarbakka,druknaði norður í landi á leið til skips. Filipus
Gíslason frá Stekkum, af slysförum (18). Sveinbarn Kristjánssonar í Stíghúsi
(0).
Tíðarfarið 1917: Frost í janúar voru -14 til -16°C og
stillur oft. Tíðin fram í mars var harðneskjuleg um allt land og mikið frost (6
til 19 stig). apríl var einnig kaldur um land allt, Ekki er getið um tíðarfarið
hér við ströndina þetta ár.
Hagtölur 1917: Verð á rjómabúsmjöri var ákveðið af
verðlagsnefnd 3,30 kr. pr. kg. Óslægður þorskur 28 au. pr.kg. ýsa 24 au. pr.
kíló. lúða 40 au.pr.kg.- Ær seldust á 37-40 kr., kýr á tæp 400 kr. og hross um
300 kr. upp til hópa. Verð á innfluttum kolum voru 40 kr. skipspundið (Rvík).
Heimild: Þjóðólfur 1917, gardur.is, Ægir 1917. ofl.
17.02.2013 22:01
Sú var tíðin, 1916
Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru 931 árið 1916, en á sama tíma bjuggu í Reykjavík 14.200 manns. Fólksfjöldi á Íslandi var þá ríflega 87.000 manns. Hugmyndir um raflýsingu þorpsins komust aftur á dagskrá eftir 3ja ára hlé. Ákveðið var að stofna raflýsingarnefnd sem í sátu: Guðm. Guðmundsson, kaupfélagsstjóri í Heklu, J. D. Nielsen verslunarstjóri hjá Einarshafnarverslun og Páll Bjarnason kennari. -Sýslan undirbjó kaup á Þorlákshöfn og átti kaupverð að vera 150.000 kr. -Þetta ár var kosningaár. Kosið var í ágúst. Af 272 kjósendum á Eyrarbakka sóttu 92 kjörfund, þar af 35 konur. Flestir voru þó að heiman í vinnu út um land, þennan tíma árs. Á Stokkseyri kusu á milli 50-60 kjósendur, þar af 10 konur; þar voru á kjörskrá hátt á þriðja hundrað manns. Karlar urðu að vera 30 ára og konur 40 ára og ekki máti hafa þegið fátækrastyrk til að öðlast kosningarétt. Valið stóð um 6 flokka. A:Heimastjórnarmenn, B:Þversummenn, C:Verkamenn, D:Óháðir bændur, E:Langsummenn, og F:Þingbændur. Þá var kosið til hreppsnefndar hér á Eyrarbakka og hlutu kosningu, Guðmundur Jónsson, oddviti (Versl.m. hjá Kf. Heklu). Tómas Vigfússon, bóndi og formaður, og Eiríkur Gíslason, trésm.
Verslun og Þjónusta: Helstu verslanir árið 1916 voru hér
sem áður, Einarshafnarverslun stærst, þá Kf. Hekla. Verslun Andrésar Jónssonar,
Verslun Jóhanns V Daníelssonar og Verslun Bergsteins Sveinssonar í Nýjabæ.
Sérvöruverslanir voru nokkrar, svo sem bókaverslun Sigurðar Guðmundssonar og
Úraverslun Sigurðar Tómassonar, en sú verslun hætti um haustið er Sigurður
flutti erlendis. Haraldur Blöndal var hér með ljósmyndastofu. Páll Bjarnason á
Stokkseyri stundaði einhverja höndlun þar, aðalega með ræktunarvörur, fræ og
bækur og Magnús Gunnarsson með vefnaðarvörur o.fl. Þórður Jónson rak ritfanga
og bókaverslun, Sigurður Ingimundarson, vefnaðar og nýlenduvöruverslun og Jón
Jónasson matvöruverslun. Kf. Ingólfur var sem fyr stærst verslana á Stokkseyri.
Í júlí stóðu "lestirnar" sem hæst og voru ullarlestir óvenju miklar þetta
sumar. Um miðjan júlí voru verslanir hér þrotnar af nauðsynjavörum, en fyrstu haustskipa
var ekki von fyrr en í byrjun ágúst. Um haustið var Einarshafnarverslun orðin
vel byrg þegar lestað hafði verið úr tveim skipum félagsins og að auki fékk
verslunin vörur auk annara kaupmanna hér með gufuskipinu "Botníu" þegar það kom
til Reykjavíkur í vetrarbyrjun. Verr gekk Kf. Heklu að byrgja sig upp fyrir
veturinn, því eitt leiguskip þeirra "Venus" strandaði í Færeyjum.- Verðlag á innfluttum
nauðsynjavörum hafði nú hækkað um 70% frá því að heimstyrjöldin hófst 1914.
Innlend framleiðasla í landbúnaði og sjávarútvegi hafði hækkað í verði að sama
skapi. - Í vetrarbyrjun hóf Einar Jónsson bifreiðastjóri rekstur leigubifreiðar.
Fréttablaðið Suðurland hætti útgáfu að sinni eftir 6 ára sögu.
Skipakomur: Þó sjófarendum stæði stuggur af
styrjöldinni, herskipum og kafbátum, sem og tundurduflum, létu margir
skipstjórnarmenn það lítt á sig fá og héldu uppi siglingum sem áður. Faxaflóabáturinn
"Ingólfur" kom hér þann 17. maí og
síðan alls í 5 skipti milli Reykjavíkur og Eyrarbakka þetta sumar, en Kf. Hekla
annaðist hann hér. -Sund voru ófær þegar vöruskip kaupfélaganna og Einarshafnarverslunar
komu hér að síðla maímánaðar og lögðu þau til hafs á ný og biðu þess að fært
yrði. -Fyrra vorskip til Einarshafnarverslunar var seglskipið "Víking" með matvæli, nýlenduvörur,
járnvörur og vefnaðarvörur, en hið síðara var seglskipið "Vonin" með sement og timburfarm. -Um haustið kom skonortan "Bonavista" að Stokkseyri með timbur
ofl. til Ingólfsverslunar. - "Venus"
leiguskip kaupfélaganna "Heklu og "Ingólfs" strandaði í Færeyjum, hafði verið
hertekið af bretum, Skipið var að mestu hlaðið nauðsynjavörum og byggingarefni,
en á þilfari hafði það áhöld til rjómabúa og mótorbátaefni. Skipið var eign þeirra Johnsons og
Kaabers. Seglskipin "Vonin" og "Katrine" komu með haustvörurnar til
Einarshafnarverslunar, aðalega matvörur og byggingaefni.
Sjávarútvegur 1916:
Sjómenn komu í verið um miðjan febrúar, en vertíðin hófst síðan undir
mánaðarlokin og var þá unglingaskólanum slitið, enda biðu beituskúrarnir eftir
þeim. Mótorbátar sem gengu héðan af Bakkanum voru 7 að tölu og voru 5 þeirra
nýsmíðaðir, en opin róðraskip voru fjögur. Frá Stokkseyri gengu 17 vélbátar og
eitt róðraskip. Í þorlákshöfn var selstöðuútvegur og gengu þaðan 29 róðraskip
en enginn vélbátur. Vertíðin byrjaði vel hjá mótorbátunum sem sóttu stíft út á
"Selvogsbanka" en verr hjá róðraskipum sem sóttu hér á grunnið, en hjá þeim
aflaðist ekkert fyrri en í lok mars. Vermenn í Þorlákshöfn sátu auðum höndum
mun lengur og biðu eftir þeim gula fram í apríl, en áður en mánuðurinn leið að
fullu var orðið fisklaust á miðunum, bæði hér og fyrir Þorlákshöfn og lauk
vertíðinni þannig. -Um sumarið gengu nokkrir vélbátar héðan og eitthvað var róið
frá Gamla-Hrauni og Stokkseyri á opnum bátum, en djúpmiðin voru fengsæl þetta
sumar. Þrír vélbátar héðan gengu frá Sandgerði frá vertíðarlokum og fram á mitt
sumar. Sumaraflinn var mestmegnis þorskur, ýsa og langa og eitthvað af smálúðu
og skötu. Beituleysi hamlaði oft róðrum. Sjómenn vissu þó um síld á Selvogsbanka,
en þá vantaði net að veiða hana í.- Gæftarleysi og brim hömluðu veiðum þegar
leið á sumarið og var því sjósókn með minsta móti. Haustvertíðin byrjaði betur
og vel fiskaðist. Þá er gaf á sjó fram í desember fiskaðist ágætlega, helst ýsa,
væn.
Atvinnuástand: Atvinna fyrir verkafólk var oft
stopul hér við sjávarsíðuna. Helst var það verslunin sem þurfti á verkafólki að
halda og svo landeigendur um sláttinn. Margir fóru í vegavinnu út um landið á
sumrum, eða byggingavinnu, einkum í Reykjavík og einhverjar stúlkur í
fiskverkun á Kirkjusand við Reykjavík. Kaupamenn höfðu að jafnaði 30 kr.
vikulaun til sveita og kaupakonur að hámarki 18 kr. í vikulaun og því
augljóslega mikill kynbundin launamunur í landbúnaði. Almenn verkamannalaun við
sjávarsíðuna voru talsvert hærri, en vinnan þó stopulli hér eins og fyrr getur.
Sótti því fólk, héðan og þó einkum úr sveitum til Reykjavíkur þar sem
togaraútgerð var að stóreflast, þó skorti marga húsnæði er þangað fóru.
Menning og samfélag
1916: Samskot voru
haldin hér í hreppi og víðar til stuðnings héraðslækninum Gísla Pétursyni,
eftir að hús hans brann seint á síðasta ári. -Ungfr. Guðmunda Nielsen og Helgi
Hallgrímsson kennari voru hið söngelskasta fólk á þessum slóðum og stýrðu
fjöldasöng á mannamótum og stóðu fyrir tónleikum. J.D. Níelsen stóð fyrir
leikfimisýningu og skotæfingum eins og undanfarin ár. Verkamannafélagið "Báran"
hélt sína árlegu skemmtun og dansleik. -Bifreið kom hingað úr Reykjavík á
góunni hlaðinn fólki og tók ferðalagið 4 klst.-Gísli Pétursson héraðslæknir hóf
að byggja læknishúsið nýja og var það gert úr steinsteypu, (Innanveggjaplötur
voru steyptar úr vikurmöl að ráði Jóns Þorlákssonar, en hann hafði gert
tilraunir í þessa veru. Einar Finnson í Rvík var yfirsmiður) og Andrés Jónsson verslunarmaður
byggði einnig steinsteypt hús (Breiðablik) þetta sumar, bæði eru húsin á Háeyrarlóðinni.
- Vindlar og vindlingareykingar voru að komast mjög í tísku um þetta leiti og
margir fóru að ganga í tréskóm (klossum). -Mislingasótt kom hér upp og varð
hennar fyrst vart í Gunnarshúsi- Sumarhitinn var íbúum til baga, "Leggur nú
fiskýlduþefinn í hitanum um alt þorpið, götur og torg vaða út í allskonar
óþverra, rykið þyrlast inn umglugga og smugur allar í húsum og þá ofan í
lungun, vatnsból mörg illa hirt og vatnið lítið og mórautt, skolpi er helt út
fyrir húsdyrnar og aska og rusl borið rétt ofan í flæðarmál".- Barnaskólinn var
settur 1. nóvember og voru nemendur 80. Unglingaskóli var ekki þetta árið.-Einhverjir
höfðu það sér til dægrastittingar að híma í sölubúðum daginn út og daginn inn,
þó illa séð væri af kaupmönnum. Jólatréskemtun fyrir börn var hér haldin og
hefð var fyrir.
Andlát: Ingveldur Þorgilsdóttir í Hraungerði
Eb, en hún var háöldruð, (80) móðir Þorgerðar og Guðmundar úrsmiðs Halldórsbarna. Helga
Tómasdóttir í Nýjabæ (76). Jón Jakopsson frá Skipagerði í V-Landeyjum, háaldraður
maður (86). Valgerður Guðlaugsdóttir frá Neistastöðum, (50). Eugenía
Nielsen,(f.Thorgrímsen) andaðist
úr blóðeitrun (66), afleiðing gamallrar
gallsteinaveiki. Henni til heiðurs var samin drápa sem eftirfarandi vers eru
úr:
Eins og friðarengill þín
endurminning lifir,
hún í vina hjörtum skín
og "húsinu" gamla yfir.
Eyrarbakki þakkar þér
þína hjartagæzku,
sem þú öllum sýndir hér
síðan þú varst í æsku.
Göfuglynd og góð þú varst,
gæðakonan sanna!
Ættarmerkið á þér barst
íslands beztu svanna.
Tíðarfarið og
landbúnaður:
Aðfararnótt hins 21. janúar 1916 gerði óvenju mikið brim og sjógang við
suðurströndina og kom það mönnum að óvörum, því stillulogn var þá nótt. Braut flóðið
sjógarðinn milli Einarshafnar og Óseyrarness til grunna, svo að tjón það
taldist um 1000-1500 krónur að frátöldum skemdum á ræktarlandi. Sjór fæddi inn
í sjóbúðir í Þorlákshöfn og braut húsgafla og hleðslur. Tvö skip eiðilögðust á
Stokkseyri og olíuskúr Einarshafnarverslunar brotnaði niður. -Janúar var helst
til umhleypingasamur en snjóléttur, hvass á köflum og eitt sinn gerði mikið
þrumuveður og olli það foktjóni víða í uppsveitum. - Í febrúar fór frost niður
í -20°C - "Fjöruhross" voru þau kölluð, útigangshrossin hér sem gengu sjálfala
í fjörunni, heilu og hálfu daganna. -Í mars var einmunatíð og snjólaust með
öllu á Eyrum og gaf á sjó dag hvern, sem þótti með afbrigðum fátítt, en undir
lok mánaðarins brast á norðan stormur og lentu einhverjir bátar af ströndinni í
hrakningum, en engir mannskaðar urðu. -Snemma í apríl féll mesti snjór
vetrarinns og tíðin stirð, sást þá fyrsti vorboðinn, en það var skógarþröstur.
Ísingarveður gerði þá mikið og braut það niður 30 símastaura. Tók svo að brima
mjög svo ekki varð sjófært. Vorið var kalt, norðan skafrenningur og frost. Í
lok aprílmánaðar brast á með einmuna tíð, en stóð stutt og kuldinn tók við á ný
fram í maí.-Eftir miðjan maí tók jörð að grænka þegar sumarið hélt innreið sína,
og skin og skúrir skiptust um.- Um miðjan júní mældist 19 stiga hiti í forsælu,
en mánuðurinn var sólríkur nær hvern dag.-Þurkar miklir voru í byrjun júlí,
sólskín og hiti hvern dag á Eyrum fram á miðjan mánuð, en þá gerði dumbungs
veður. Gerði þá eitt mesta brim sem komið hefur að sumri, að sögn eldri manna.
Tíðin var stirð yfir sláttinn og brim stöðugt, rættist þó úr er leið á
ágústmánuð og menn hér náðu heyjum sínum. -Jarðskjálftakipp allsnarpann fundu
menn hér síðla ágústmánaðar. September byrjaði með blíðviðri sem hélst allann
oktober, brim þó stöku sinnum. Í fyrstu viku oktober snjóaði í fjöllin.
Nóvember var stormasamur í fyrstu en svo rættist úr svo fé var útigengt.
Desember var kaldur, stormar og stillur. Náði frostið iðulega í -14°C síðari
hluta desember.
Hagtölur úr sýslunni: Árið 1914 veiddust 2.365 laxar í ám
og vötnum Árnesinga. Árið 1915 veiddust 1.280 laxar og var u.þ.b. helmingur
aflans veiddur í Sandvíkurhreppi. Árið 1914 nam dúntekja 25 kg. Árið 1915 nam
dúntekja 29 kg. í sýslunni (Dúnninn var aðallega frá Laugardælum, og lítið eitt
frá Skipum og Baugsstöðum). Verkfærir karlmenn voru á þessum árum 1.196 að
tölu. Sauðfé 153.971 á Suðurlandi öllu.
Heimild: Suðurland 1916, Gardur.is, 1 óþekkt skjal.
07.02.2013 22:51
Sú var tíðin, 1915
Árið 1915 voru íbúar í Eyrarbakkahreppi 925 að tölu. -Sjóðliðsforingjar
tveir af danska varðskipinu "Valnum", voru um þessar mundir að mæla hafnargerð
hér á Eyrarbakka, fyrir stórkaupm. Lefolii, en hann var hér sjálfur staddur um lestirnar
eins og venja hans var, til að kaupa upp ull bænda. -Nokkra mánaða hlé var á
útgáfu fréttablaðsins Suðurland vegna pappírsskorts af völdum heimstyrjaldarinnar,
en með vorskipum barst loks nægur pappír til að halda útgáfunni áfram. -Ensk
herskip voru á sveimi hér skamt undan landi -Konurnar á Bakkanum fögnuðu
kosnngarétti sínum, hér sem og í Reykjavík og víðar í kaupstöðum landsins. -Í
þjórsárdal var höggvið mikið hrís til eldiviðar og fleytt ofan Brúará og Hvítá,
mest svo tekið upp á land nærri Útverkum á Skeiðum, en hrísið átti að spara
kolainnfluttning. -Erlendir ferðamenn voru óvenju fáir hér við sjávarsíðuna
þetta sumar af völdum styrjaldarinnar. Helstu umgangspestir voru "Rauðir hundar"
sem lögðust þungt á fullorðna, en þó vægar á börn og svo "Barnaveiki". Um
veturinn kviknaði í húsi héraðslæknisins Gísla Péturssonar og skemdist mikið,
en eldinn tókst að slökkva. Bifreiðar voru hér á ferð að vetrarlagi og þótti
tíðindum sæta, en færðin var með ágætum.
Skipakomur: Ekki eru til tæmandi upplýsingar um
skipakomur vorið 1915, en þó hafa að líkindum komið hér mörg er hingað komu
vorið áður en þó ljóst að styrjöldin hafi oft tafið skipaferðir hingað til
lands: "Vonin'', skip Einarshafnarverslunar
kom með vörur að utan og fór héðan með ull til Reykjavíkur. "Venus", skip Ingólfsverslunar á
Stokkseyri kom hlaðið kolum og fór aftur til útlanda með ull. Vestmannayjabáturinn,
"Óskar", kom að Stokkseyri og á
Eyrarbakka með eitthvað af vörum. Um mitt sumar kom skonnortan "Nauta" með timbur, steinolíu, sement,
tjöru og járn til Einarshafnarverslunar. -Í ófriðnum áttu bretar það til að
hertaka skip sem sigldu frá Íslandi með vörur út til Danmerkur og "kaupa úr
þeim ullina", sem var stríðandi þjóðum einkar verðmæt. -Tvö seglskip að
minnstakost komu um haustið auk strandferðaskipsins Ingólfs, en síðasta
haustskipið fór héðan 23.oktober áleiðis til Ameríku. -Fjórir smábátar komu hér
að vetrarlagi, hlaðnir vörum úr Reykjavík og var Faxaflóabáturinn "Ingólfur"
þeirra stæstur, hlaðinn steinolíu.
Verslun, þjónusta og
viðskipti: Hið víðfræga "Bakkavín" fékst ekki lengur. Áfengisbann hafði verið í lög leidd. Verslunin
fékk flestar aðrar vörur sem óskað var eftir, en vegna stríðsins voru vöruútlát
aðeins veitt gegn staðgreiðslu hjá mörgum verslunum hér. Verslunina skorti þó til
þess skiptimynnt, sem virtist vera hörgull á í landinu. -Á nokkrum liðnum árum
var verslun hér á Eyrarbakka í miklum vexti og siglingar stöðugt tíðari milli
landa, en með styrjöldinni kom mikill afturkippur í þessa atvinnugrein sökum
dýrtíðar. -Þessar voru helstu verslanir á Eyrarbakka og Stokkseyri 1915:
Verslunin Einarshöfn, Kaupfélagið Hekla, Verslun Andrésar Jónssonar og Verslun
Jóhanns V Daníelssonar á Eyrarbakka auk smærri höndlara, svo sem skartgripaverslun
Sigurðar Tómassonar úrsmiðs. Kaupfélagið Ingólfur var öflugasta verslunin á
Stokkseyri, en þar höndluðu einnig Sigurður Ingimarsson, Magnús Gunnarsson og
Jón Jónsson. Á Selfossi stofnaði Þorfinnur Jónson í Tryggvaskála, verslun þar
og keppti við Símon í Sigtúnum um viðskiptin. -Verð á útfluttningsvörum hækkaði
mikið vegna stríðsins og högnuðust framleiðendur, kaupahéðnar og útflytjendur oft
stórlega á þessum árum, t.d. hækkaði ull þrefallt í verði, verð á hrossum var
afar hátt, og sömu sögu má segja um saltfisk og lýsi. Fyrir almenning snerist
dæmið við. Verð á innfluttum kolum var afar hátt, sama gilti um sykur og
kornvöru. Vextir á lánsfé var einnig hátt og hamlandi framþróun í samfélaginu. Verkamenn
höfðu nokkra kauphækkun með tilliti til dýrtíðarinnar. Fyrsta smjörsendingin frá
Baugsstaðarjómabúinu 1915 vóg 820 pund, en smjörið var selt erlendis, en
verslanir hér fluttu hinsvegar inn smjörlíki (Margarine). Grammifónsplötur voru
nú líklega seldar í fyrsta skipti á Bakkanum, í verslun Andrésar Jónssonar, sem
var að mestu leiti vefnaðarvöru og krambúð. Þakjárn og Þakpappa var nú farið að
flytja inn í stórum stíl af verslunum hér ásamt ofnum og eldavélum. Af innfluttum
nauðsynjavörum er helst að nefna: Rúgmjöl, Hveiti, Valshafra, Grjón, Kaffi, Export, Kandís, Melis,
Púðursykur, Strausykur, Rúsínur, Sveskjur, Sagogrjón, laukur og saft. Góð færð af
Suðurlandi til Reykjavíkur langt fram eftir hausti dró til sín meiri viðskipti
þangað en venjulega og bitnaði það nokkuð á verslun hér við ströndina.
Atvinna,fiskveiðar og útgerð: Sjómenn héðan sækja veiðar daglega á
Selvogsbanka og öfluðu vel, en tilkoma mótorbáta gerir það mögulegt. Létu
sjómenn vel af aflahlut sínum þessa vertíð -Laxveiðar voru stundaðar af kappi í
Ölfusá og höfðu fengist suma daga allt að 40 fimmtán punda laxar, einkum við
Selfoss og þótti fiskurinn vera almennt stærri en hin fyrri ár, en
heildarveiðin var þó aðeins í meðallagi.- Um sumarið gekk einn bátur af Eyrarbakka og þrír af
Stokkseyri. Allir mokfiskuðu en aflinn var aðalega langa, þorskur og keila. Síld
höfðu sumir bátarnir veitt þetta 10-20 tn. í róðri. Síldin var seld jafnóðum
til Vestmanneyja, það sem ekki var notað til beitu í bráðina. Langræði var svo
mikið héðan þetta sumar, að bátarnir voru 2 sólarhringa i róðri, en allt gekk vel,
enda var gæðatíð til sjávarinns. Það mátti heita að ekki hafi sést brimboði allann
júlí mánuð. Frá Gamla-Hrauni var róið sem fyrr á árum. -Pál Jónsson vélsmiður úr
Reykjavík, settist upp á Stokkseyri til að sinna vélbátaútgerð þeirra.-
Daglaunamenn þóttust illa úti, þrátt fyrir hærri laun, en dýrtíðin var svo
mikil að ekki jafnaðist við verðlagshækkanir. Vörukarfa með algengustu
vörutegundum til heimabrúks hafði hækkað um 48,5% milli áranna 1913 og 1915. Sjómenn
sem greiddu vöru með þorski komu út á sléttu, en bændur sem greiddu í ull
högnuðust vegna hins háa ullarverðs. Sexpunda rúgbrauð kostaði hér 90 aura,(mjólkurpottur
22 aura í Rvík). -Atvinnuleysi um veturinn sem fyr. -Haustaflinn var góður og
mokfiskaðist oft á tíðum fram á vetur. -Um haustið voru smíðaðir 6 nýir
mótorbátar á Eyrarbakka og Stokkseyri, en aðeins eitt opið skip var smíðað á
árinu. -Fyrirhugað var að stofna hásetafélag hér og undirbúningur langt kominn,
þegar þessar fyrirætlanir runnu út í sandinn.
Menning og samfélag:
Þann 7. júlí 1915 fögnuðu kvenfélagskonur á Eyrarbakka auknum réttindum
kvenna, þar sem nýja stjórnaskráin veitti konum kosningarétt og kjörgengi til
alþingis. Um kveldið kl. 9 söfnuðust flestar konur þorpsins saman fyrir framan barnaskólann,
og þaðan lögðu þær svo í skrúðfylkingu. Gengu þrjár fremstar í íslenskum
skautbúningi og báru íslenskan fána - og fleiri íslenska smáfána mátti þar sjá.
Gengu þær sem leið liggur vestur að Einarshöfn, héldu þá til baka aftur og að
gisti og samkomuhúsinu Fjölni og staðnæmdust þar. Þá var sungið kvæði er ort
hafði Þröstur :
Nú er um landsins bygðir bjart,
nú blómgast dalur fagur.
Nú býst hann í sitt bezta skart
hinn bjarti frelsisdagur!
- - Hún móðir okkar fríkka fer
því fleiri hirða um skóginn:
Úr aldaloðing leyft oss er
að leggja hönd á plóginn.
Og fánann glaðar hefjum hátt
- það hitnar barmur okkar. -
Sjá! austur loftið er svo blátt
það út til starfsins lokkar.
- - Með nýjum kröftum, nýjum dug
skal nýjar brautir ryðja!
Með nýju frelsi, nýjum hug
að nýrri framsókn styðja.
Að söngnum loknum kom út á veggsvalirnar frú Guðrún
Torfadóttir og flutti ávarp. Þá var sungið: Eldgamla ísafold, og að því loknu
hrópað húrra fyrir kvenfólkinu. Síðan gengu konur inn í gistihúsið, og skemtu
sér þar við samræður og kaffidrykkju, eitthvað frameftir.-Ungfrú Karítas
Ólafsdóttir frá Stóra-Hrauni hélt hússtjórnarnámskeið í boði kvenfélagsins.-
Fyrsta ljósmyndin birt í vikublaðinu "Suðurland". Dönsk hjú héldu hér í
þorpunum fjölsótta myndasýningu ásamt töfrabrögðum ýmiskonar. Enskar húfur voru
að komast mjög í tísku hér um þessar mundir.
Skóli og fræðsla: Barna og unglingaskólinn voru settir að venju í oktober og voru þar kend íslenska, saga, náttúrufræði, landafræði, reikningur, söngur, leikfimi, danska, (enska ef óskað var). Unglingaskólinn stóð í 4 mánuði á meðan atvinnuleysið var mest yfir vetrartímann, en aðsókn ávalt dræm. Aðeins 15 nemendur sóttu þetta skólaár. -Námskeið var haldið á Stokkseyri fyrir vélamenn á bátum. -Sjómannanámskeið haldið hér á Eyrarbakka og kenndar siglingareglur. -Hússtjórnarnámskeið hélt Karitas Ólafsdóttir á Stóra-Hrauni. -Nielsen verslunarstjóri stýrði leikfimiflokk og kendi samskonar æfingar og ástundaðar voru í danska hernum. Jólatréskemtun var haldinn fyrir yngri og eldri börn í plássinu, en sá siður hafði lengi verið við líði hér áður fyr.
Eyrarbakkahreppur 1915: Íbúar 925. -Tekjur, 12,901. kr sem dreifðust þannig: Til
framfærslu fátækra kr. 4.717
- mentamál (barnask.) - 2.100
- vaxtagreiðslu .. - 1.450
-afborgana af skuldum 1.080
- ýmissa útgjalda , . - 1.100
Aðrir liðir voru undir 1000 kr.
Andlát 1915: Jónina Árnadóttir í Einarshúsi, kona
Guðmundar Jónssonar hreppsnefndaroddvita á Eyrarbakka. -Sigurður Árnason frá Hafliðakoti í
Hraunshverfi úr lungnabólgu, 68 ára gamall. Hann var 36 vertíðir formaður á
Stokkseyri. -Sigurður
Bjarnason frá Eyfakoti Jónssonar þar. -Hallfríður Guðlaugsdóttir 15 ára frá Nýjabæ. -Andrés Kristinn Bjarnason 7 ára frá
Brennu.- -Jóhanna Ingibjörg Valdimarsdóttir 3 ára frá Norðurkoti.
Konráð Ragnar Konráðssonar
læknis, hvítvoðungur.
Tíðarfarið, ræktun og
landbúnaður: Þann
11. og 12. júlí gerði ofsarok er hér á Eyrarbakka
og kulda mikinn. Nóttina á milli snjóaði á Reykjanesfjallgarðinn niður undir
bygð í ofanverðu Ölfusi. Lá snjór liður eftir öllu fram að hádegi. Stormurinn lamdi
niður kartöflugrös og annan gróður i görðum. -Slátturinn byrjaði um miðjan júlí
og voru túnin víða dável sprottin, en sumstaðar kalin og skemd. Mýrar voru þá flestar
illa sprotnar og óvænlega horfði með þær. -Þurkatíð í ágúst fór illa með
kartöflugrös í sandgörðunum hér en menn reindu að vökva öðru hvoru til að halda
þeim á lífi. Sendin tún fóru einnig illa í þurkunum og komu á þau bleikir
blettir. -Garðauppskera var með miklum ágætum þetta haust og höfðu sumir
þrítugfalda kartöfluuppskeru. Guðmundur Ísleifsson á Háeyri leigði nokkrum
mönnum land til jarðyrkju á flötunum austan Barnaskólanns, fékk þó ræktunin egi
frið fyrir skemdarvörgum. -Fáeinum sauðum var slátrað á Bakkanum þetta haustið,
þá aðeins sláturfé heimamanna. -Haustrigningar hófust í byrjun oktober. Ripsberjagræðling
hafði maður nokkur sett niður hér í garð sinn og þótti það til tíðinda þegar á
það kom eitt ber um haustið. Gæðatíð var til lands og sjávar haust og fram
eftir vetri. Eftir jól tók að brima hér við ströndina og veður öll að færast í
umhleypinga.
Heimild: Suðurland 1915
- 1