Færslur: 2012 September
28.09.2012 14:30
Sjóorsta við suðurströndina?
Föstudaginn 13 júlí 1917 kl. 6-7 e. hád., heyrðust hér með sjávarsíðunni drunur miklar, sem menn héldu vera fallbyssuskot. Víst var það, að þetta voru ekki þrumur, og að það heyrðist af hafi utan. Drunur þessar heyrðust á Eyrarbakka og Stokkseyri, en einkum þó í Gaulverjabæjarhreppnum. Giskuðu menn helst á, að vopnuðu varðskipi hafi lent saman við þýskan kafbát.
[Heimild: Þjóðólfur 1917.]
Um þessar mundir voru tvö íslensk fraktskip
skotin í kaf "Vesta" [16.7.1917] og "Ceres", skip Samvinnufélagsins,
Fórust 5 menn af "Vestu", en 2 af "Ceres" og var annar þeirra sænskur,
en nokkrir íslenskir farþegar og erlendir skipsbrotsmenn voru um borð og var þeim öllum
bjargað. þá var seglskipiuu "Áfram" sökt á Ieið hingað frá Englandi, en
mannbjörg varð.
Snemma
árs 1917 þegar fyrri heimstyrjöldin stóð sem hæst, lýstu þjóðverjar yfir
ótakmörkuðum kafbátahernaði á N-Atlantshafi og fyrirvaralausum aðgerðum gegn
skipum sem stödd voru á átakasvæðum þeirra við breta, hvort sem um skip
hlutlausra þjóða væri að ræða eða ekki. Var það ástæðan fyrir því að bandaríkin
lýstu yfir stríði við þjóðverja skömmu síðar. Þegar yfir lauk höfðu þýskir
kafbátar (U-boat) sökkt hálfum kaupskipaflota breta. Fyrri heimstyrjöldin hófst
28. júlí 1914 og stóð þar til 11. nóvember 1918.
Heimild: Wikipedia
26.09.2012 22:54
Veðrið 1881-1910
Samfeldar
veðurathuganir voru gerðar á vegum dönsku veðurstofunnar á Eyrarbakka frá 1.
jan. 1881 til 31. des. 1910. Peter Nielsen var þá veðurathugunarmaður fyrir
dönsku veðurstofuna. Á þessu tímabili var meðalúrkoma á Eyrarbakka 1094 mm á ári.
Mesta úrkoma var árið 1884 (1384 m.m.); minst árið 1891 (777 m.m.). Flestir úrkomudagar
voru árið 1884, (212),fæstir árið 1892 (139). Árið 1900 var nákvæmlega meðalár
(177 dagar), hið eina í þessi 30 ár. Árs meðalhiti á Eyrarbakka var 3,6 °C og meðal
lágmark + 0,5 stig. Mestur hiti, sem mældist á þessu tímabili, var 22,6°C 17.
júlí 1891. Mesta frost var -24,8 stig 28.
mars 1892. Peter skilgreindi vindaflið á eftirfarandi hátt frá kvarðanum 0-6: 0= Logn, kaldi: 0-3 m/s 1=andvari samsv: 4-5 m/s, 2=gola: 6-10 m/s ,3=stinnur: 11-15 m/s, 4=harður:
16-20 m/s, 5=stormur: 21-30 m/s, 5=ofviðri yfir: meira en 30 m/s. Að
meðaltali var hægviðri í 84 daga á ári eða 0 kvarðinn. Kvarðinn 5 eða ofviðri
varði í 8 skipti, einn dag hvert í þessi 30 ár. Að jafnaði blæs hér á ári: 38 daga úr norðri; 73 daga úr landnorðri;
15 daga úr austri; 61 dag úr landsuðri; 25 daga úr suðri; 42 daga úr útsuðri;
13 daga úr vestri, og 14 daga úr útnorðri.
Heimild
P. Nielsen/Þjóðólfur 1917.
Veðustofa
Íslands setti upp veðurathugunarstöð á Eyrarbakka árið 1923 og var fyrsti
veðurathugunarmaðurinn Gísli Pétursson læknir, en hann andaðist 19. júní árið 1939 og tók Pétur sonur hans þá við og starfaði til
ársins 1980. Sigurður Andersen, póst- og símstöðvarstjóri, annaðist mælingar
til ársins 2001. Emil Frímannsson tók svo við og hefur hann verið
veðurathugunarmaður á Eyrarbakka síðan. Sjálfvirk veðurathugunarstöð var
sett upp í nóvember 2005 og hefur hún mælt ýmsa þætti veðurs síðan. Á seinni
stríðsárunum dvöldu tveir bretar í Húsinu á Eyrarbakka og gerðu veðurathuganir
fyrir breska flugherinn sem hafði aðsetur í Kaldaðarnesi. Nýtt hitamælaskýli
var reist á Eyrarbakka i júlí 1961, og um leið var þar settur úrkomumælir með
vindhlíf og eru þessi tæki enn í notkun.
Veðurklúbburinn Andvari/Heimildir:
eyrarbakki.is, þjóðólfur 1917, Veðráttan 1939, 1961.
25.09.2012 00:13
Moðsuða íslenskra húsmæðra
Moðsuða var stundum notuð af íslenskum húsmæðrum á fyrri styrjaldarárunum (1914-1918) þegar kol skorti mjög hér á landi: Aðferðin fólst í því, að taka matarpottana af eldinum, þegar soðið hafði hæfilega lengi í þeim, og birgja þá síðan svo vel, að ekkert loft komist að; við þessa einföldu aðferð hélst suðan í pottinum nægilega lengi til þess að sjóða matinn að fullu. Að þessu var eldiviðarsparnaður,og tímasparnaður við eldamennskuna, því ekki þurfti að standa við pottana til þess að hræra í þeim; grauturinn passaði sjálfan sig í moðsuðunni. Kassarnir sem pottarnir voru byrgðir í, voru venjulegast troðnir upp með moði eða heyi vegna þess að hey fellur svo vel að pottunum, en vel mátti nota fleira en hey til þessa, t. d. gamlar, hreinar tuskur eða samanundin dagblöð. Aðferð þessi var oftlega notuð í Húsinu á Eyrarbakka á fyrrihluta 20. aldar, en var einnig alþekkt aðferð erlendis á fyrri tímum.
Íslendingum mörgum þykir orðið "moðsuða" vera eitthvert skammaryrði um illa gerðan hlut, en vel má vera að landanum hafi sjaldan tekist vel með moðsuðuna og því tileinkað sér þetta orðfæri í þessari merkingu. Guðmunda Nielsen lýsir útbúnaðinum svo: Venjulegast eru notaðir algengir trékassar, en vel má nota ýms önnur ílát, t. d. ker, kirnur, tunnur o. fl. Á stórum heimilum er ágætt að nota tunnur, sem sagaðar eru sundur í miðju, og getur maður þannig fengið tvö góð moðsuðuílát úr einni tunnu. Lok eiga að vera í öllum moðsuðuílátum og falla þétt og vel. Ef trékassar eru notaðir, er bezt að hafa lokin á hjörum og festa þau niður með hespu og keng. Það er skemtilegast að láta smíða hæfilega kassa, en oftastnær má fá hjá kaupmönnum tilbúna kassa, sem geta verið ágætir. Hlemmarnir þurfa að vera góðir og falla vel að pottunum, því komist gufan upp úr þeim, fer suðan fljótlega af og maturinn verður kaldur og slæmur. Bezt er að hafa tréhlemma. Koddarnir þurfa helzt að vera tveir, annar minni og hinn stærri; litli koddinn er lagður beint ofan á pottinn, þegar byrgt er, og stóri koddinn þar ofan á; hann þarf að vera það stór, að hægt sé að troða honum niður með potthliðinni. Báða koddana má fylla með heyi, en þó er enn betra að hafa fiður í hinum minni. Utan um koddana þarf að hafa ver, sem hægt er að taka af og þvo þegar þörf gerist. Þá segir Guðmunda m.a. að grautar þurfa að standa í moði 2-3 tíma, en þola þó vel 5-6; sumir grautar, t. d. hafragrautur, geta vel staðið í moði heila nótt, en eru þá farnir að kólna töluvert að morgni.
Heimild: Guðmunda Nielsen, Þjóðólfi 1917
19.09.2012 20:24
Norðurskautið á undanhaldi
18.09.2012 23:35
Búnaður Árnesinga 1858
Í skýrslu um búnaðarástand á Íslandi 1858 til 1859 kemur fram að Árnessýsla var byggð 766 jörðum. Af skepnum voru: Kýr og geldkvígur 2.673 Griðungar og geldneyti, eldri en veturgamalt 492. Veturgamall nautpeningur 972. Ær með Iömbum 6.274. Geldar ær 644. Sauðir og hrútar eldri en veturgamlir 306. Gemlingar 4.140. Geitfé var ekkert. Hestar og hryssur 4ra vetra og eldri voru 3.496. Tryppi veturgömul til 3ja vetra 1.523. Þiljuskip voru engin en skipakostur sýslunar að öðru leiti þannig: Tólf, tíu og áttæringar voru 41. Sex og fjögramanna för 24. Minni bátar og byttur 71. Kálgarðar voru 1.088 eða samtals 75.039 ferfaðmar. Áveituskurðir voru samtals 1.110 faðmar að lengd. þúfnasléttur 10.349 ferfaðmar. Hlaðnir túngarðar 1.676 faðmar. Færikvíar 125. Nýtanlegt mótak 54. Af skýrsluni má sjá að Árnesingar áttu landsins flest hross og kýr, en Þingeyjarsýsla landsins flestar ær og geitur. Eyfirðingar og Ísfirðingar flest þiljuskipin. Gullbringu og Kjósamenn ríkastir róðraskipa og Rángárvallarsýsla bjó að mestu kálgörðum landsins.
11.09.2012 20:12
A. Therkelsens Minde
Á Eyrarbakka strandaði 3. september 1875 danskt kaupskip
(Skonnorta) við innsiglinguna í höfnina. Það var hlaðið salti og korni, og fór
megnið af því í sjóinn, en menn komust allir af. Skipið hét A. Therkelsens
Minde, og var 81 tonn að stærð, skipstjóri þess hét Laurentzen, danskur maður,
en skipið var gert út af Lefolii kaupmanni. Botninn fór alveg undan skipinu, og
var rekaldið selt á uppboði.
Heimild: Ísafold 1875
Haustskipin komu
venjulega síðla í ágústmánuði og voru að öllu jöfnu farin áður en veður
versnuðu þegar leið á september. Nokkur kaupskip fórust á Eyrarbakka á
skútuöldinni þegar óvanaleg stórbrim gerði að vori eða hausti og skipin
slitnuðu upp af festingum sínum, en sjaldan var mannskaði af þessum völdum, þar
sem áhafnir kaupskipana héldu að mestu til í landi á meðan legið var á höfninni
og hlé var á löndun eða útskipun.
Flokkur: Sjóslys
06.09.2012 21:37
Þurkasumarið 2012/1907
Þurkasumur koma öðru hverju og eflaust mörgum bóndanum þótt
nóg um þurkana hér sunnanlands þetta sumarið þó allur almenningur og ferðamenn láti
sér vel líka sólskínið og góða veðrið. Kartöfluuppskera er frekar rír og
grasvöxtur víðast sunnanlands í lágmarki af völdum þurka. Sumarið 1907 var
einnig mikið þurkasumar hér sunnanlands, þornuðu upp lækir og lindir sem og
vatnsbrunnar svo að vatnslaust mátti heita á öðruhverju heimili. Sumstaðar
þurftu smjör og rjómabú að hætta starfsemi þegar lækir þornuðu með öllu. Í
Reykjavík þornaði lækurinn sem og flestir brunnar. Var því oft að flytja vatn
um langann veg þá um sumarið, en í september tók loks að rigna rétt eins og nú.
Heimild: Veðurklúbburinn Andvari / Huginn 1907.
02.09.2012 20:10
Fallegustu garðarnir á Eyrarbakka 2012
- 1