Færslur: 2012 Apríl
28.04.2012 23:54
Átta menn drukna
Snemma dags 5. april 1927 fóru allir bátar á Eyrarbakka að vitja um net sín. En vegna roks og brims gátu þeir ekki vitjað um nema sumt af netunum, og lögðu því snemma til lands aftur. Klukkan að ganga tvö e.h. sama dag voru allir bátar komnir, að undanteknum þremur. Einn þeirra var "Framtiðin"*.
Kom hún um kl. 13:30 upp að brimgarðinum og lagði strax inn á sundið. En það var allt einn hvítfyssandi brotsjór, bæði af hafsjó og stormöldu. Og er báturinn var kominn nokkuð inn á sundið skall yfir hann svo hár og mikill brotsjór, að hann bar ekki undan, og sást báturinn ekki framar - sökk á svipstundu. Á bátnum voru 8 menn. Nöfn þeirra voru : Guðfinnur Þórarinsson, formaður, kvongaður, tveggja barna faðir. Páll Guðmundsson, Leifseyri, kvongaður, margra barna faðir. Víglundur Jónsson, Björgum, giftur, átti eitt barn [* 2 börn]. Sigurður Þórarinsson, Vegamótum, ógiftur. Kristinn Sigurðsson, Túni, ungur maður ógiftur, 20 ára. Jónas Einarsson, Garðhúsum, aldraður maður, átti uppkomin börn. Gísli Björnsson, Litlu-Háeyri, ógiftur. Ingimar Jónsson, Sandvik, var hjá foreldrum sínum. Allir þesir menn voru af Eyrarbakka.
*Guðfinnur hafði þá nýlega keypt bátinn af Kristni Vigfússyni er þá hét "Framtíðin" en Guðfinnur breytti nafninu í "Sæfara", en svo hét einnig fyrri bátur Guðfinns.
* sjá athugasemd hér að neðan.
Nánar um þennan atburð má lesa hér>: http://brim.123.is/page/1205/
Heimild: Ægir 1927.
24.04.2012 23:13
Veiðafæramerki í Eyrarbakkaverstöð 1926
Sýsluliturinn var rauður. Á neti: ca. hálfhringur á miðri kúlu, en á lóð: á miðjum taumi. En merki hvers báts voru samsvarandi hálfhringur í mismunandi litum og voru þau staðsett á lóð, milli önguls og sýslumerkis, en á netum voru þau höfð á botni kúlunnar. Litirnir voru þessir:
Mb. "Sæfari", Guðfinns Þórarinssonar hafði grænt merki.
- Halkion, Vilbergs Jóhannssonar var með ljósblátt merki.
- Freyja, Jóhanns E. Bjarnasonar hafði hvítt meki.
- Framtíðin, Kristinns Vigfússonar hafði gult merki.
- Öldungur, Jóns Bjarnasonar var með svart merki.
- Öðlingur, Árna Helgasonar var með brúnt merki.
- Olga, Jóns Gíslasonar hafði grátt merki.
- Trausti, Jóhanns B. Loftssonar var með hvítt og blátt.
- Freyr, Jóns Helgasonar hafði grænt og gult merki.
Heimild: Ægir 1926- Guðmundur Ísleifsson.
12.04.2012 22:52
Mótorbáturinn Atli frá Stokkseyri
Hinn 17. apríl 1922 kl. 4-5 að morgni fór mótorbáturinn "Atli" frá Stokkseyri vestur í Hafnarforir að vitja um net. Sjó brimaði mjög skyndilega á meðan. Rétt fyrir hádegisbilið kom báturinn að Stokkseyrarsundi og lá þar til lags um tíma, eins og venjulegt var, þegar mikið brimaði, lagði síðan á sundið er þeim þótti lag, en yst á sundinu, á boða þeim er Skotur (eða Skjótur) nefnist fyllti bátinn og fórst hann með allri áhöfn.
Formaðurinn var hinn ungi og efnilegi sjósóknari Bjarni Sturlaugsson frá Starkaðarhúsum, ekkjumaður um þritugt og átti hann eitt barn. Hásetar voru: Einar Gíslason, bóndi frá Borgarholti, alkunnur formaður á Stokkseyri; hann mun hafa verið á sextugs aldri og átt uppkomin börn. Þorvarður Jónsson, sonur Jóns kaupmanns Jónassonar á Stokkseyri, var þá á 17 ári. Þorkell Þorkelsson frá Móhúsum, sonur Þorkels sál. Magnússonar, sem lengi var talinn meðal mestu fiskimanna og sjósóknara á Stokkseyri, en druknaði þar nokkrum árum fyrr. Guðmundur Gíslason frá Brattholtshjáleigu, Markús Jónsson frá Útgörðum (ættaður úr Rangárvallasýslu) og Guðni Guðmundsson frá Móhúsum, ættaður af Rangárvöllum (Ekru -Oddahverfi). Frá Stokkseyri reru alls 4skip og af Eyrarbakka tvö þennan dag. En þeim tókst öllum að lenda, en við illan leik.
Atli var 10 tonn með 12ha Hein vél. Smíðaður á Stokkseyri 1916 af Gunnari M Jónssyni. Kristján Guðmundsson í Búðarhamri var formaður á honum um tíma.
Heimild: Lögrétta - 24. apríl 1922 Ægir - 1922. http://brim.skipasmidar07.04.2012 00:25
"EOS" strandið
Í janúar 1920 rak mannlaust skip inn fyrir brimgarðinn á Eyrarbakka og brotnaði í spón. Það var barkskipið "EOS" frá Hafnafirði og hafði áhöfnin yfirgefið skipið skömmu áður. Skipið fór frá Hafnarfirði 19. janúar og var förinni heitið til Svíþjóðar. Dró mótorskipið "Venus" það úr höfn og skildi við það um tveim tímum síðar. Barkskipið komst síðan klakklaust fyrir Reykjanes. En aðfaranótt 21. janúar um kl. 2 gerði svo mikið aftakaveður [Af suðaustri], að ekki varð við neitt ráðið. Mistu þeir þá stjórn á skipinu og virtist svo um tíma, sem skipinu væri mikil hætta búin. Tóku þá seglin að rifna, hvert af öðru, og reiðar gengu úr lagi. Seint um nóttina fór veðrinu heldur að slota og var þá farið að aðgæta, hvort leki hefði hefði komið að skipinu, og kom þá í ljós, að talsverður sjór var kominn í það. Vildu skipsmenn þá reyna að dæla, en dælurnar voru i ólagi, og vinddæla, sem mest var treyst á, hafði öll brotnað í veðrinu, svo að ekki var viðlit að gera við hana. Fleiri bilanir komu og í ljós og með því að enginn tiltök voru að gera við alt það í rúmsjó, sem bilað hafði, þá var siglt af stað, þegar stjórn náðist á skipinu og lensað austur, því að Vestmannaeyjar voru nú einasta höfnin, sem tök var að ná.
Í birtingu um miðjan morgun sáu þeir Vestmannaeyjar fyrir stafni og var þá veður tekið að hægja. Settu þeir upp öll segl, sem þeir gátu og stýrðu til eyja, en síðdegis lygndi og voru þeir þá skamt N.V. af Eyjum. En brátt fór að hvessa af suðaustri og var þá slegið undan. Undir kvöld reyndu þeir að vekja eftirtekt á sér með neyðarmerkjum (blysum), en enginn tók eftir því. Um kl. 8 var komið suðaustan rok og sigldu þeir þá undan' [á lensi vestur með landi], en brátt herti veðrið svo mjög, að segl þau, sem eftir voru, fóru í tuskur og fylgdi þessu veðri stjórsjór, þrumur og eldingar. Einni eldingu sló niður í skipið nálægt skipstjóra og tveim öðrum, en engan þeirra sakaði til muna, og má merkilegt heita.
Alt í einu datt í dúnalogn litla stund, en fór svo að hvessa af suðvestri. Var þá skipinu haldið upp að vindi. Um kl. 3 um nóttina var kominn álandsstormur, og rak skipið til lands, og voru þá gefin neyðarmerki seinni part næturinnar. Um kl. 6 árdegis kom enski botnvörpungurinn Mary A. Johnson (skipstjóri Nielsen) þeim til hjálpar og fylgdi þeim þar til bjart var orðið. Ekki treystist hann til að draga skipið til hafnar, en bauðst til að fara til Eyja og reyna að ná í björgunarskipið, en með því að skipið átti þá svo skamt til lands, sá hann, að enginn tími væri til þess og vildi að skipshöfnin yfirgæfi "Eos". Var þá ekki annað ráð vænna fyrir höndum og skaut hann út björgunarbáti til þeirra, (því að skipsbátur "Eos" hafði laskast), og gengu skipverjar af "Eos" allir í hann. Var það þó ekki auðsótt, því að sjór var mikill, en Englendingar heltu olíu i sjóinn og gerðu sér alt far um að hjálpa sem best. Sumum skipverja tókst að hafa nokkuð af fötum sínum með sér, en aðrir mistu alt, sem þeir höfðu meðferðis. Þetta mun hafa verið um hádegi á fimtudag og var svo beðið hjá barkinum, ef vera mætti, að honum yrði bjargað, en um kl. 4 var hann kominn upp í brimgarðinn við Eyrarbakka, og var þá haldið til Reykjavíkur. Skipstjóri á "Eos" var Davíð Gíslason. "Eos" var 456 smálestir að stærð (nettó). Eigendur h.f. Eos (þ. e. Jóhannes Reykdal, Guðm. Kr. Guðmundsson, Lárus Fjeldsted og Ásmundur í Hábæ).
Heimild: Ægir 1920. Austurland 1920. Alþ.bl.1920.
- 1