Færslur: 2011 Apríl

30.04.2011 17:29

Matjurtagarðar í útleigu

Sveitarfélagið Árborg ætlar í sumar að lána út garðlönd til íbúa. Garðlöndin eru staðsett vestan við Eyrarbakka, sunnanmegin þar sem skilyrði til ræktunar eru best.  Hægt verður að leigja mismunandi stærðir allt frá 10 m² upp í 50 m².  Umhverfisdeild Árborgar mun sjá um allan undirbúning fyrir ræktunina..

Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu sveitarfélagsins arborg.is/umsóknir  undir Garðyrkjudeild og í afgreiðslunni í Ráðhúsinu, Austurvegi 2, Selfossi, fram til 15. maí nk.

Undirbúningur fyrir kartöflurækt.
 

28.04.2011 20:02

Íslenska rokið

21 m/sÍslendingar eru svo sem ekki óvanir roki og rigningu, þó menn kysu annan árstíma fyrir belginginn. Stormviðri í apríl með brimgangi eru heldur ekki nýlunda þó fátíð séu. 13.apríl 1926 voru nokkrir Bakkabátar hætt komnir í veðri sem þessu, en um það má lesa hér. Í dag var enn eitt stormviðrið, en aðeins fáir dagar eru liðnir frá sunnanveðrinu nú um páskana. Mestur vindur var ASA 21 m/s samkv. veðurstöðinni hér og hviður um 27 m/s. Veðurglöggir menn spá nú sumri og sól með hægum andvara á Bakkanum frá og með næsta þriðjudegi og telja mestar líkur á að þetta einkennandi sumar-staðviðri við sjávarsíðuna muni haldast  með minniháttar skúrum vel fram í júnímánuð.

25.04.2011 13:48

Páskaveðrið

Það hvessti hressilega um vestanvert landið um það leiti sem páskahelgin gekk í garð. Á Bakkanum gekk á með stormhviðum, en meðalvindur náði sér þó ekki verulega á strik þó allhvast væri um tíma í sunnanáttinni, en meiri fróðleik um páskalægðina má finna hér.
 Framundan er vætusöm vika við ströndina, en svo mætti vorið fara að koma í öllu sínu veldi, vonandi.

17.04.2011 17:23

Lesið á Bakkanum

Um og eftir 1890 var starfandi lestrarfélag á Eyrarbakka, hét það um skeið Lestrarfélag Árnessýslu, þá lestrarfélag Eyrarbakka og lánaði út bækur á sunnudögum (Lestrarfélagið "Fróði" var einnig til). Lestrarfélögin voru fyrsti vísír að almenningsbókasafni sunnanlands ásamt bókasafni Lefolii-verslunar og bókasafni Barnaskólans. Um aldamótin 1900 voru húsakynni heldur bágborin til varðveislu bóka og og lágu þær oft undir skemdum. U.M.F.E. stofnaði síðan bókasafn árið 1927. Safnið var vistað lengst af í Læknishúsinu, en um aldmótin 2000 var það flutt í Blátún og heitir nú "Bókasafn Árborgar". Þegar prentsmiðja Suðurlands var stofnuð á Eyrarbakka 1910 voru m.a. prentaðar þar bækur og eru nokkrar þeirra nú til sýnis í bókasafni Árborgar á Eyrarbakka. Bókasafnið er mikið notað af heimamönnum ennþann dag í dag og er nú einnig á vefnum og facebokk.

11.04.2011 22:36

Borað eftir sjónum

Borað í brimi
Verið er að bora eftir sjó á Bakkanum, en það er nýsköpunarfyrirtækið Sæbýli sem  er þessa dagana að setja upp þróunarsetur fyrir starfsemi sína á Eyrarbakka þar sem framtíðar heimili þess verður. Fyrirtækið er að standsetja sæbjúgnaeldisver um þessar mundir og mun selja þurrkuð sæbjúgu á kínverskan markað. Fyrirtækið byggir á grunni 20 ára þekkingarsöfnunar á sæeyrnaeldi og hefur þróað sjálfbært eldiskerfi (SustainCycle ) fyrir botnlæg sjávardýr eins og japönsk sæbjúgu, sæeyru eða ígulker.  

Heimild:Iðnaðarráðuneytið

10.04.2011 23:13

Hvellurinn

Mörkin fuku á íþróttavellinum
33 m/sÞað gekk á með vitlausu veðri um suðvesturhornið í dag, en hér í grend var einna hvassast á Hellisheiði, en þar fóru hviður yfir 40 m/s, einnig var mikið hvassviðri í Grímsnesinu og Svínavatn rauk út í veður og vind. Á Bakkanum var sunnan stormur um tíma síðdegis og náði vindhraðinn í hviðum mest 33 m/s, en sumstaðar þó hægari inn í þorpinu. Þessu fylgdi mikið brim sem fór vaxandi eftir því sem á kvöldið leið. Væntanlega mun verða stórveltubrim næstu tvo daga í kjölfarið og svo áfram út vikuna samfara éljaveðri. Um næstu helgi mun líklega bæta heldur betur í brimið á Bakkanum og hugsanlega mesta skemtun til áhorfs ef byrtir til.

09.04.2011 16:35

Þokan

Gömul veðurspávísa úr Austantórum.

Þokubakkinn þegar færist nær,
þar að ströndu, er móti vestri liggur,
þá mun brimið brjótast fram og sær,
bráðlega ærast, fyrr en nokkur hyggur.

04.04.2011 23:12

Undirbúningur fyrir kartöflugarðinn

Margir hafa gaman að því að rækta sínar egin kartöflur, eða hafa hug á að koma sér upp smá garðhorni í þeim tilgangi.

 Fyrsta skrefið við kartöfluræktina er að láta útsæðið forspýra til að flýta fyrir grasvextinum. Þá er kartöflunum raðað þétt í öskjur, eða kassa.  Ágætt er að byrja forspýringuna í mars eða byrjun apríl, en fyrst þarf að "verma upp"  þ.e. hafa  þær við stofuhita í eina viku, en síðan láta þær spíra við 10-12°C, svo þær verði ekki fyrir áfalli þeggar þær koma í kalda jörðina. Við forspýringu þarf að vera hæfileg birta eða ljós svo spýrurnar sitji fastar á útsæðinu, því annars geta spýrurnar brotnað auðveldlega af við síðari meðhöndlun.  Gæta skal þess að útsæðið ofþorni ekki, en ef rakastig er ekki nægjanlegt má úða á þær dálitlu vatni.  Útsæðið má þó ekki blotna um of.

Garðinn þarf að plægja,  svo jarðvegurinn verði hæfilega laus í sér. (Gott ráð er að hvíla kartöflugarðinn þriðja hvert ár til að losna við ýmsa kartöflusjúkdóma) Sé jarðvegur of súr er hætta á kláða og því gott ráð að bera á kalk u.þ.b.  fjórða hvert ár. Garðurinn er tilbúinn til sáningar þegar jarðvegshiti  á 10 cm dýpi er kominn í 7°C yfir hádaginn, eða þegar farið er að örla á arfagróðri. (í kulda og vætutíð að vori er gott ráð að plasta yfir garðinn fyrst um sinn)

Hvort sem plantað er í beð eða raðir er hæfilegt millibil á milli hnýða 20-30 cm og 4-5 cm undir jarvegsyfirborði. Hæfilegt bil milli raða eru 50 til 60 cm. Best er að bera  áburð strax eftir plægingu og svo ekki fyrr en grös fara að koma upp. Hænsnaskítur og molta er t.d. ágætur áburður fyrir kartöflur.

Nauðsynlegt er að halda garðinum hreinum fyrir illgresi og arfa, en fara þarf varlega við reitingu svo kartöflugrösin skaðist ekki. Ef þér finnst jarðvegurinn vera þurr þegar fingri er stungið niður, þá er tímabært að vökva garðinn.

Eftir uppskeru þurfa kartöflurnar að þorna hæfilega svo þær mygli ekki.  Kartöflur geymast best á þurrum og dimmum stað við 3-4 °C. Þær meiga ekki frjósa eða vera of lengi í sólarljósi.

 

03.04.2011 00:29

Skankaveldi

Svo var fyrirtæki nefnt er stýrði Jón Geirmundsson í Norðurkoti á Eyrarbakka. Jón keypti aflóga húðjálka til slátrunar fyrir lítið sem ekkert og seldi síðan af þeim kjötið, en reyktar hrossalappirnar seldi hann fátækum fyrir slikk. Kölluðu gárungarnir því fyrirtæki þetta "Skankaveldi", en af þessu efnaðist hann nokkuð. Jón hafði reikning í Eyrarbakkaverslun er hann tók út á ýmsan búðarvarning og seldi svo dýrar á vetrum þegar vöruskortur gerði vart við sig eins og aðrir smáhönlarar þess tíma. Sumt af því sem var til sölu í "Skankaveldi" var talið illa fengið, en Jón var kenndur við þjófafélag nokkurt er í voru Snorri Geirmundsson lausamaður og Páll Hafliðason tómthúsmaður á Skúmstöðum, en þeir voru grunaðir um að sækja sér varning í verslunina að næturlagi.

Fyrri kona Jóns hét Halla dóttir Jóns-lána. Hún þótti forkunnar fríð og efnileg. Gerði hún sér gjarnan dælt við Sigurð stúdent Sívertsen er þá var við Eyrarbakkaverslun, en þó í mesta sakleysi. Jón var hinsvegar afbrigðissamur mjög og er hann gallt líku líkt með Gróu Jónsdóttur vinnukonu á Skúmstöðum leiddi það til óléttu. Það var til þess að Halla gekk frá honum og fór til Sigurðar stúdents sem hún giftist síðar. Jóni varð svo um þennan eftirmála að hann lokaði sig inni, bar grjót fyrir hurð og kveikti í kotinu. Menn sáu reykinn stíga upp, en komust eigi inn fyrr en Eiríkur Sverrisson kom á staðinn. Hann var tveggja manna maki að afli og hljóp hann á hurðina sem brotnaði í spón. Tókst þá að bjarga Jóni er nær var andaður og lá hann lengi á eftir. Um þennan atburð var ort vísa:


Heiftin geisar hart um torg,

herðir kölski ganginn.

Skankaveldis brunnin borg,

buðlung hennar fanginn.


Jón fór næst að Stóra-Hrauni árið 1823 og bjó þar í eitt ár, en fór síðan að Stéttum í Hraunshverfi. Hann kvæntist þar Kristínu Hannesdóttur frá Litla-Hrauni. Þá gekk hann í flokk Kambránsmanna sem frægt var og dæmdur til æfilangrar refsivistar eftir þann atburð, en brotamennirnir fengu sakaruppgjöf 1844 að Sigurði Gottsveinssyni undanskildum, en hann var líflátinn fyrir að drepa fangavörð. Jón var ættaður frá Götu á Stokkseyri.
Heimild: Saga Þuríðar formanns.

01.04.2011 00:36

Svalur mars liðinn

25 mmMánuðurinn var vetrarlegur á Bakkanum og kaldur lengst af. Frost komst í -15,4°C og-15°C jafnfallinn snjór náði 25 cm í fyrri hluta mánaðarins og hvarf ekki að fullu fyrr en langt var liðið á mánuðinn. Mesta úrkoma var 25 mm þann 3. mars og einungis fáir dagar sem engin úrkoma mældist. Vindur var yfirleitt vestan eða norðlægur og brim allmikið í mánuðinum. Það má heita að vorið hafi komið þann 27. í kjölfar síðustu frostnæturinnar og fór hitinn hæst í 8,4°C, en hæsta hitagildi í mars á þessari öld var 10,5°C árið 2005. Mánuðurinn núna var hinsvegar mun kaldari en í fyrra og úrkomusamari.

  • 1
Flettingar í dag: 469
Gestir í dag: 177
Flettingar í gær: 1389
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 264307
Samtals gestir: 34136
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 22:10:20