Færslur: 2010 Desember

30.12.2010 14:02

Árið 2010 það hlýjasta

 Þokubakkar á Hellisheiði.Veðurfar á Suðurlandi var eitt hið hlýjasta sem vitað er um, jafnframt eitt hið þurrasta og snjóléttasta. Ársmeðalloftþrýstingur hefur aldrei mælst jafnhár og nú. Árið var einnig óvenju hægviðrasamt og snjór var með minnsta móti á Suður- og Vesturlandi. Þá var vindur með hægasta móti á árinu, meðaltal allra mannaðra stöðva það lægsta frá 1965. Nánar má lesa um veðurfarið á árinu á vef Veðurstofu Íslands.

Á Bakkanum voru slegin um 16 ný dægurhitamet á árinu.

29.12.2010 22:51

Áramótaveðrið

ÁramótabrennaAð morgni gamlársdags verður hæg vestlæg átt á Bakkanum og milt, en snýst sennilega um hádegi í Norðan 6-8 m/s og hratt kólnandi. Heldur bætir í vind fram að brennutíma, en fer síðan lægjandi fram eftir nóttu og um miðnætti gæti verið NA 4-6 m/s. Frost 4 - 6 stig. Einhverjir éljabakkar úti fyrir gætu slæðst inn að ströndinni, þá helst fyrripart dags. Skýjað að mestu að deginum en síst um brennutíma til miðnættis Nýársdags, en eftir það gætu éljabakkar af landi dregið yfir þegar vindur snýr sér til SA áttar.

Heldur ákveðin SA átt á Nýársdag og hlýnandi og líklega talsverð úrkoma þegar líður á daginn.

Á Flugeldasýningunni annað kvöld Suðvestan 3-8 m/s súld með köflum, heldur ákveðnari vindur síðar um kvöldið.

29.12.2010 00:10

Yfir 16.500 heimsóknir

Vetur á BakkanumBrimið hefur verið heimsótt yfir 16.500 skipti á árinu, sem er 2.500 heimsóknum fleiri en á síðasta ári. apríl og ágúst eru vinsælustu mánuðirnir á þessu ári. Festir gestir eru frá Íslandi en einnig frá 72 öðrum löndum. Um 80.000 gestir hafa heimsótt síðuna frá upphafi. Brimið þakkar fyrir góðar viðtökur og heimsóknir á árinu.

27.12.2010 22:45

Kirkjukórinn 1950


Fremst frá vinstri: Anna Ámundardóttir,Guðlaug Brynjólfsdóttir, Kjartan Jóhannesson þjálfari, Kristinn Jónasson organisti, Jóhanna Hallgrímsdóttir, Þuríður Helgadóttir. 2. röð. Guðrún Bjarnfinnsdóttir, Guðlaug Böðvarsdóttir, Kristín Ottósdóttir, Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Bjarndís Guðjónsdóttir. 3. röð: Helgi Vigfússon, Vigfús Jónsson, Guðmundur Ebenezersson, Guðmundur Daníelsson, Guðjón Guðjónsson, Egill Þorsteinsson, Nikulás Torfason. Efst: Sigurjón Valdimarsson, Eyþór Guðjónsson, Þorbjörn Guðmundsson, Halldór Guðmundsson, Ólafur Guðmundsson.

Heimild: Staðir og stefnumót-Guðm.Dan.

26.12.2010 23:38

Vatnsveður

Töluvert hefur ringt síðasta sólarhringinn og er vatnselgur víða á túnum og lautum. Frá miðnætti hafa fallið 39.6 mm, en mest var úrkoman um kl. 10 í morgun og var þá allur snjór farinn. Hlýindi mikil fyldu þessu vatnsveðri á bilinu 7-8°C. Þá hefur verið strekkings vindur og talsvert brim.

25.12.2010 15:47

Hvít jól á Bakkanum

Jólatré og snjóhjón á vesturbúðarhól
Eins og sjá má á þessum myndum er nú jólalegt á Bakkanum.
María og jólabarnið við Götuhús
Hér hefur fennt yfir jólabarnið
Við Einarshús
Jólaseríur prýða glugga hús og trén í þorpinu.

23.12.2010 20:12

Jólakveðja

gleðileg JólGleðileg og ánægjuleg jól, sveitungar,nágranar og vinir nær og fjær.

22.12.2010 23:47

kaldur dagur

-18°CÍ dag var nístings kuldi, enda var lágmarkshiti á Eyrarbakka -17.9 °C um hádegið og fáir á ferli. Ef einhverjum þykir það kalt, þá var kaldast á landinu í Möðrudal - 28.1°C í dag.

21.12.2010 22:59

Í myrkum mánafjöllum

Tunglmyrkvinn að hefjast í morgunVetrarsólhvörf, eða vetrarsólstöður, eru þegar sól er lægst á lofti á norðurhveli jarðar og dagurinn stystur, en það er einmitt þessi dagur. Það er þó ekki fyrr en þann 25. des sem sól fer að rísa fyrr að morgni, en sólarlaginu er þó farið að seinka og á morgun lengist því dagurinn. Þá vildi svo til að í morgun um kl. 7:30 var tunglmyrkvi og sást hann vel héðan af Bakkanum. Við tunglmyrkva verður tunglið riðrautt um nokkurn tíma eins og sjá má hér á Í algleymingimyndunum sem teknar voru í morgun.

Það er svo ætið fagnaðrefni þegar daginn tekur að lengja og bæði kristnir og heiðnir halda sín blót af þessu tilefni.

 Tunglmyrkva að ljúka

21.12.2010 00:52

"Landaflugur" af fiski

Það dró heldur betur til tíðinda á Bakkanum í byrjun mars 1950. Þann 1. og 2. mars hafði verið foráttubrim á Eyrarbakka með strekkings sunnanátt. Urðu menn þess þá varir að fisk var farið að reka í talsverðu magni á fjörurnar. Þegar farið var að gefa þessum reka frekari gætur kom það í ljós að lygnan inn af brimgarðinum var vaðandi í fiski sem óð lifandi á land og menn gogguðu hann hreinlega í fjöruborðinu. "Öfluðu" menn nálega  200 rígaþorska án þess að setja út bát eða veiðarfæri. Bakkamenn kölluðu þetta "landaflugur" og sennilegast þótti að fiskitorfan hafi verið á eftir síli sem skolaði inn fyrir brimgarðinn. Ekki er vitað til þess að sambærilegt atvik hafi orðið síðan.

19.12.2010 01:21

Kalt til jóla og kanski föl.

Það spáir kuldum strax eftir helgi með norðanátt og allt að 12 stiga frosti þegar kemur fram á þriðjudaginn samkvæmt spá veðurstofunar og helst kuldinn við fram að þorláksmessu. Þá má búast við éljum víða á sunnanverðu landinu með austlægum áttum, en áfram verður dálítið frost.
Á föstudag (aðfangadagur jóla) og laugardag (jóladagur): Líkur á hægri austlægri eða breytilegri átt. Lítilsháttar él, síst þó vestanlands. Hiti breytist lítið á aðfangadag en heldur mildara á jóladag segir í spánni.

17.12.2010 23:00

Norðan belgingur

Stækka kortiðMikið norðan hvassviðri gekk yfir landið í dag. Hér á Bakkanum var brostinn á stormur á milli kl.18 og 19 í kvöld og fóru stakar vindhviður í tæpa 30m/s. Heldur hefur lægt með kvöldinu en þó er enn bálhvasst.

Eins og sjá má hér á kortinu er norðurálfa nær alhvít af snjó og á það einnig við um ísland þó svo við séum á auðum depli hér suðvestanlands. Þá má greina hvernig íslands forni fjandi (gulur) læðist að Vestfjörðum og suður með Grænlandi. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

17.12.2010 00:35

Brimver opnar jólagluggann

Leikskólinn BrimverBörnin í Brimveri opnuðu jóladagatalsgluggann sinn í vikunni. Það var mikið gaman og komu sveinkar frá gamla tímanum og nýja tímanum til að aðstoða þau við opnunina,síðan var öllum boðið í skreyttar piparkökur og sukkulaði.
http://brimver.arborg.is/

16.12.2010 01:12

Bjargvættir

Magnús MagnússonMagnús Magnússon (Hús-Magnús) var meðal mestu sjósóknara og aflamanna á Eyrarbakka og fór mikið orð af því, hversu mikill snillingur hann væri við brimsundin. Um eða eftir 1880 byrjaði Magnús formennsku sína, þá ungur að árum. Vertíðina 1883 lenti hann með skipshöfn sína í útilegu í mannskaðaveðri því, sem þá skall snögglega yfir þann 29. mars og villtust tvær skiþshafnir þá í svartnættisbyl í fjörunum framundan Gamla-Hrauni. Þá var 15-16 stiga frost, ofsarok og svartnætti af byl, en ládauður sjór. Þarna höfðust þessar tvær skipshafnir við í fullan sólarhring. Voru sumir mennimir illa útleiknir, og sumir lágu á eftir um lengri tíma í kali. Hin skipshöfnin sem fyrir þessu varð, var skipshöfn Magnúsar Ingvarssonar, sem lengi var merkur formaður á Eyrarbakka. Þessa vertíð, snemma í marsmánuði, drukknaði einn af aflasælustu formönnum, er þá voru á Eyrarbakka, Sigurður Gamalíelsson frá Eyfakoti og fjórir hásetar með honum, en fimm eða sex bjargaði Magnús Ingvarsson. Þetta sjóslys mun hafa orðið á Einarshafnarsundi, nálægt stórstraumsfjöru.

Árið 1891 varð Jón Jónsson "frá Fit" fyrir slysi á "Rifsósnum" og missti þrjá háseta sína,

en honum sjálfum og 6-7 öðrum bjargaði Magnús Magnússon. 1894 drukknuðu þrír menn af skipshöfn Eiríks Ámasonar frá Þórðarkoti, en honum og 6-7 öðrum bjargaði einnig Magnús Magnússon, og eftir þessa síðari björgun fékk hann heiðursviðurkenningu, sem voru 9 verðlaunapeningar, og skipshöfn hans einhverja litla þóknun. Þetta slys varð á Einarshafnarsundi.

Sunnlenskt áraskip með seglumÁrið 1886 fórst öll skipshöfn Sæmundar Bárðarsonar, 14 alls. Þetta slys varð út af Rifsós og gerðist með svo sviplegum hætti, að björgun var ómöguleg. Rúmri viku eftir að Magnús bjargaði Eiríki Árnasyni og meiri hlutanum af skipshöfn hans, drukknaði Páll Andrésson formaður frá Nýjabæ og einn háseta hans, einnig á Einarshafnarsundi. Skipshöfninni bjargaði að öðru leyti Guðmundur Steinsson skipasmiður í Einarshöfn, og mun hann hafa fengið einhverja viðurkenningu eins og Magnús Magnússon.

Guðmundur ÍsleifssonMagnús varð frægur fyrir björgunina af hinum tveim skipum með svo stuttu millibili, eins og að framan greinir samtals 16 mönnum. Þegar Guðmundur Ísleifsson kom að Einarshafnarsundi, spurði hann Ólaf Gíslason, er lá við sundið er  hann kom þar meðan stóð á björgun skipshafnar Eiríks, "Hver mun hafa bjargað"- Ólafur svaraði "það hefur víst verið Hús-Magnús eins og vant er". Einn af hásetum Eiríks sem bjargaðist, var fastur í skipinu og flæktur í fiskilóðum. Þegar öllum öðrum sem ekki hafði tekið út og horfið í sjónum sem fyllt hafði skipið, hafði verið bjargað, beið Magnús þar til lag kom og stýrt að skipi Eiríks, er var fullt af sjó, fengið öruggum manni stýrið, en stokkið sjálfur upp í með hníf og skorið með miklu snarræði sundur lóðirnar er héldu manninum föstum og bjargaði honum svo yfir í skip sitt.

 Talið er að Hús-Magnús hafi bjargað um 30 sjómönnum á ferli sínum.

Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950
Hús-Magnús ()

13.12.2010 23:58

Er myndin frá Eyrarbakka?

Er myndin frá Eyrarbakka?
Í ritinu Samvinnan 1.10.1955 er þessi mynd sögð vera frá Eyrarbakka, en ekki er tiltekið hvar þessi hús hefðu átt að standa né á hvaða tíma myndin er tekin. Á myndinni sjást nokkrir karlar, fremstur með barðastóran hatt. Maður virðist standa við dyrnar og tvö börn í dyragættinni. Maður með kaskeiti við húshornið og annar í stiga á þaki. Fleira fólk virðist vera á myndinni en mjög ógreinilegt. þá standa rekaviðardrumbar upp við bæjarhleðslurnar sem virðast freka vera grjóthleðslur en torfhleðslur. Um er að ræða tvíbýli og ekki ósvipað byggingalagi Óseyrarnes bæjanna.
Sögð tekin við Húsið
Í sama riti er þessi mynd sögð tekin við Húsið á Eyrarbakka þar sem heldri menn sitja að sumbli, en kona og börn standa í dyrum. Myndin er þó örugglega ekki tekin við Húsið því augljóslega er um minna bæjarhús að ræða sem virðist standa tiltölulega stakt með flatlendið í bakgrunni.

Flettingar í dag: 99
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 70
Gestir í gær: 27
Samtals flettingar: 219589
Samtals gestir: 28925
Tölur uppfærðar: 3.10.2024 18:19:47