Færslur: 2009 Apríl
28.04.2009 23:04
Kanínurnar komnar til að vera
Það eru komnir nýbúar af kanínukyni í námunda við þorpið og þetta par var í óða önn að undirbúa vorverkin þegar ljósmyndara Brimsins bar að garði. Á nokkrum stöðum hérlendis eru kanínur orðnar hluti af dýralífi landsins. Í Öskjuhlíðinni eða Heiðmörk sjást iðulega kanínur á vappi og finnst mörgum þetta vera góð viðbót við fátækt dýralíf landsins. Í Heimakletti í Vestmannaeyjum hafa kanínur lagt undir sig lundaholur og verið þar lundaveiðimönnum til ama. En nú hafa kanínurnar greinilega komið sér fyrir á Bakkanum. En hvort þessir nýbúar séu upprunnir úr Eyjum eða af höfuðborgarsvæðinu verður vart um að spá, en hitt er víst að erfitt getur verið að stunda gulrófnarækt upp frá þessu.
26.04.2009 23:20
Hrakningar á miðunum
Að morgni þriðjudagsins 13 apríl 1926 var stórsteymt en afbragðs sjóveður og sást ekki bára á víðáttumiklum haffletinum þegar skipstjórar af Eyrarbakka og Stokkseyri komust á ról og gáðu til veðurs. Því var ákveðið að róa út á miðin enda afla von og lögðu 11 vélbátar út frá Stokkseyri en 7 frá Eyrarbakka. Meðal þeirra var Öðlingur vélbátur Árna Helgasonar í Akri. Þegar leið á hádegi brast hann á með þvílíkum sunnan stormi og sjógangi að þess voru fá dæmi hér um slóðir. Var nú öllum bátum stefnt til lands en aðeins 5 bátar náðu höfn á Stokkseyri og 4 á Eyrarbakka. Hinir 9 sem eftir voru lokuðust úti sökum brims og hröktust undan veðrinu sem stöðugt fór versnandi.
Þegar mönnum í landi þótti útséð með að bátarnir næðu höfn, var símað til Reykjavíkur og aðstoðar óskað. Var þegar brugðist við og þau skip sem til náðist látin vita og ekki leið á löngu, þar til 5 til 10 togarar voru komnir á vettvang og björguðu þeir áhöfnum tveggja báta frá Eyrarbakka og höfðu þá í togi. Meðal þessara togara var Skallagrímur RE, en hann hafði bjargað skipshöfninni af Öðlingi en báturinn sjálfur brotnaði og sökk. Um nóttina lágu togararnir fyrir flestum bátunum, en tveggja báta var þó enn saknað. Annar þeirra komst til Vestmannaeyja næsta morgun og hinn til Reykjavíkur. Stokkseyrarbátarnir komust svo síðar um daginn til Vestmannaeyja í fylgd með togurunum og varð enginn mannskaði af þessum hrakningum.
Heimild: Alþýðublaðið , 86. tölublað, Veðráttan apr.1926
25.04.2009 17:44
Erla góða Erla
Nú eru flestir sumarfuglarnir komnir á Bakkann, svo sem maríuerla, músarindill og hrossagaukur. Hún Erla hér á myndinni fékk sér vatn að drekka úr tjörninni sinni og lét ekkert á sig fá þótt á móti blési í norðan bálinu í gær.
19.04.2009 00:19
Ekki er ein báran stök
Vélbáturinn Guðbjörg ÁR 25 (áður GK 220) var 57 lesta eikarbátur smíðaður í Hafnarfirði 1946 og var eign Sigurðar Guðmundssonar á Eyrarbakka. Veturinn 1965 rak hvert óhappið annað á skipastól Eyrbekkinga. Í byrjun árs strandaði Jón Helgason og gjör eiðilagðist. Hann endaði þjónustu sína sem áramótabrenna. Hann hét áður Maggý VE111 43.tn smíðaður 1944. Eigandi Jóns Helgasonar var Eyrar hf. Skipstjóri Erlingur Ævar Jónsson. Skömmu síðar kom eldur upp í vélbátnum Öðlingi þar sem hann stóð í slippnum og skemdist hann töluvert. Þá komst fjörumaðkur í Emmuna og var hún dreginn í slipp þar sem hún dagaði uppi. Í febrúar þennan vetur strandaði svo Guðbjörgin skömmu eftir að henni var rennt úr slippnum. Þennan vetur voru aðeins fjórir bátar gerðir út frá Bakkanum og hofði nú illa þegar allt leit út fyrir að aðeins einn yrði sjófær.
14.04.2009 23:23
Merkum munum bjargað frá glötun
Brimið brá sér í smiðju þeirra bræðra Guðmundar og Gísla Kristjánssona á Eyrarbakka, en þeir bræður fundu fyrir nokkrum árum merkilega hurðasamstæðu í ruslagám bæjarins og þegar betur var að gáð reyndust hér komnar upprunalegu hurðirnar úr Barnaskólanum á Eyrarbakka, en hann er elsti starfandi barnaskóli landsins sem kunnugt er. Núverandi skólahús var tekið í notkun árið 1913 og taldi þá tvær stofur auk gangs og baðklefa. Smiðirnir tóku á það ráð að gera hurðirnar upp og hafa nú fundið þeim nýjan stað í gömlu trésmiðjunni sem þeir bræður eru að breyta í íbúðarhús um þessar mundir. En þetta er ekki það eina sem þeir Guðmundur og Gisli hafa bjargað frá glötun, því í smiðju þeirra kennir ýmissa viða frá fornu fari og má sem dæmi nefna tvær fornar blakkir úr eik sem þeir fundu í fjörusandinum eftir hafrót mikið. Þeim þótti merkilegt hve vel þær hafa varðveist í sandinum enda alveg óskemdar. Telja þeir blakkirnar komnar úr skipinu Hertu sem strandaði við Eyrarbakka fyrir margt löngu.
02.04.2009 23:21
Gáð til veðurs
Þjóðminjasafn Íslands er með í undirbúningi spurningaskrá um alþýðlegar veðurspár og veðurþekkingu. Á 20. öld kunnu margir að gá til veðurs en þessi þekking er nú smám saman að glatast, enda hefur þjóðin haft öfluga veðurstofu svo áratugum skiptir. Þjóðminjasafnið hefur áhuga á komast í samband við fólk, einkum sjómenn sem á einn eða annan hátt býr yfir upplýsingum um alþýðlegar veðurspár.
Veðurklúbbnum Andvara á Eyrarbakka barst spurningalisti sem áhugasamir geta svarað og sent Þjóðminjasafni Íslands. Spurningaskra110_gw.doc
Svörum er hægt að skila Hér
- 1