Færslur: 2007 Nóvember
25.11.2007 16:50
þeir tóku veðrið
Veðrið á Bakkanum hefur nú verið tekið í 127 ár. Þessir voru Veðurathugunarmenn á Eyrarbakka.
Peter Nielsen í Húsinu frá 1880-1910
Guðmundur Ísleifsson Háeyri 1911-1923
Gísli Pétursson Læknishúsi 1923-1939
Pétur Gíslason Læknishúsi 1939-1981
Sigurður Andersen Mörk 1980-2001
Emil Hólm Frímannsson frá 2002
23.11.2007 11:32
Veðrið var á harðaspretti í morgun
Úrkoma var sú næstmesta á landinu með 11mm en Stórhöfði hafði vinninginn með 12 mm.
22.11.2007 10:38
Frost á Fróni.
Það fer s.s. lítið fyrir gróðurhúsaáhrifunum í dag, en nú er lægð á leiðinni með rigningu og hlýnandi veðri.
20.11.2007 19:39
Flóinn skelfur
Jarðskjálftahrina gengur nú yfir við Þorlákshöfn og Selfoss.Stæðsti kippurinn fannst vel á Bakkanum og var hann eins og þungt högg sem kom á húsið en ekki það mikill að hlutir færðust úr stað.
Sjá töflu Veðurstofunar
Það rifjast e.t.v. upp hjá mörgum tilfinningin þegar sá stóri kom á þjóðhátíðardaginn 17.júní árið 2000 sem var það öflugur að Þegar skjálftinn náði hámarki var orðið tæpt að fólk gat staðið í lappirnar. Eða sá sem kom stuttu eftir miðnættið þann 21. júní sama ár og var ekki síðri en þjóðhátíðarskjálftinn eða um 6,5 á righter. það er kanski tilviljun að þegar skjálftarnir riðu yfir var veður mjög stillt rétt eins og nú. Þessir skjálftar tilheyra svokölluðum Suðurlandsskjálftum og einn öflugasti af þeirri gerð reið yfir árið 1912.
Fróðleikur um Suðurlandsskjálfta
Jarðskjálftar -viðbrögð14.11.2007 16:05
Bergþór risi og stafurinn góði.
Í Bláfelli í Biskupstungnaafrétti bjó eitt sinn bergrisi eða jötun sem Bergþór hét og er hann sá sem getið er í Ármannssögu og glímdi við Orm Stórólfsson en þar segir frá leikum, sem fóru fram á Hofmannaflöt, þegar helstu tröll landsins hittust þar. Bergþór átti járnsleginn staf mikinn þeirri náttúru gæddum að með honum mátti hola fjöll.
Sú er sögn manna að Bergþór hafi eitt sinn farið í kaupstað suður á Eyrarbakka og keypt þar korntunnu og lagt hana á bak sér og borið hana norður í Bláfell og aðeins hvílt sig tvisvar á leiðinni til þess að fá sér að drekka. Í fyrra sinnið hjá Kolsholtshelli í Flóa og er sagt að hann hafi klappað þar með staf sínum í jörð sem lék þá á skjálfi og hellir myndaðist undir. Í síðara sinnið hvíldi hann sig þar sem er Bergstaðir í Biskupstungum og klappaði með staf sínum svo að ker myndaðist þar í jörðu. þá mælti Bergþór svo fyrir að aldrei mundu vatn og sýra geta þar blandast saman og lagði þau álög að verða muni kúgildisskaði verði kerið egi notað.
Enn er Bergþór á ferð og nú um Hellisheiði þvera og endilanga með stafinn sinn góða og rekur hann níður hvarvetna svo af verða ker er ná niður undir súðir vítis, þaðan sem gufustrókar stíga til himins í þursa líki. það yrði vissulega kúgildisskaði fyrir þjóðina verði þessi orka ekki nýtt, en ekki eru allir samála um þann kost, því gallalaust er það ekki. Af Bergþóri nútímans leggur nefnilega mikinn og kæfandi óþef sem ökumenn um Hellisheiði verða varir við ef vindátt hagar þannig. Þessum óþef valda uppleyst brennisteinsefni svo sem SO2 sem er brennisteinsvetni. Önnur mengun sem kemur af jarðvarmavirkjunum eins og þeim sem nú rísa á Hellisheiði er t.d. arsenikmengun í fljótandi formi. Óvarlegt er að haga málum þannig á 21. öldinni að skaðleg efini berist óhindrað út um borg og bý.
________________________________________________________
Kerið í þjóðsöguni var notað til geyma sýru (mysu), og varð að passa að vatn kæmist ekki í kerið og blandaðist við sýruna því þá fraus hún. Ekki má vanrækja að setja sýru í kerið því þá verða einhver óhöpp. Það hefur aðeins gerst þrisvar sinnum á síðustu árum. Í öll skiptin hefur bóndinn á Bergstöðum misst eitthvað af búfé sínu.
Í gamla daga var vinsælt að blanda mysu saman við vatn, og varð þá til svaladrykkur sem kallaðist sýra og þótti bara góður, en annars var mysan notuð til að geima matvæli og kallaðist það súrmatur.
Sagt var að hrigurinn úr staf Bergþórs hafi verið settur á kirkjuhurðina í Haukdal eftir hans dag.
Heimild:Þjóðólfur 33.árg 1881. Heimskringla.no
Aðra sögu af Bergþóri risa má finna á http://www.nat.is/Kirkjur/Kirkjur%20SL%20haukadalskirkja.htm
11.11.2007 22:48
Tveggja gulltunna virði í flæðarmálinu.
Einhver talaði um að af þessu væri fýla, en rétt nef gæti e.t.v. fundist það vera peningalykt.
Á Eyrarbakkafjöru vex mikið þang sem kann að vera vannýtt auðlind. Fyrr á öldum var þangið nýtt til sauðfjárbeitar, en einnig var það þurkað og brent til upphitunar í hallæri þegar erfitt var um kol eða mó. Hin síðari ár hefur þangið verið að nokkru nýtt sem áburður á kartöflugarða, en nú eru kartöflubændur aðeins örfáir eftir á Bakkanum og því rotnar þangið í fjörunni engum til gagns.
Árið 1853 var þangbrensluverksmiðja á Eyrarbakka og stóð hún þar sem nú stendur húsið Brenna, en það dregur einmitt nafn sitt af þangbrensluni. Úr þangöskunni var unnið joð og Glaubersalt (Sodium sulfate) sem þótti sérlega heilsusamlegt og voru bæði þessi efni notuð til lyfjagerðar og gáfust vel sem heinsandi efni. Árið 1854 var búið að framleiða eitt og hálft tonn af Glaubersalti sem flutt var til evrópu en einnig var Glaubersaltið selt hér innanlands og notað til lækninga bæði á dýrum og mönnum og var pundið selt á 32 skildinga.
Dr. J. Hjaltalín stóð að þessu fyrirtæki og skrifaði hann ágæta grein í Þjóðólf 1854 um þangbrensluna á Eyrarbakka og það gagn sem af þessari auðlind má hafa. Þangbrensla var fyrst stunduð í verulegum mæli frá 1730-1830 á Bretlandseyjum, einkum Orkneyjum og Hjaltlanseyjum. Afurðirnar af þangbrensluni voru í fyrstu Lútarsalt (Natríum) til sápuframleiðslu, glersmíði og lyfjagerðar og lifðu af þessari framleiðslu um 80 þúsund manns í Bretlandi.
Um aldamótin 1800 ætlaði Skoti nokkur Mc Auly að nafni að kenna Íslendingum þessa framleiðslu en ríkistjórn Íslands í Kaupmannahöfn stóð í vegi fyrir því og mistu því Íslendingar af lestinni, en talið var að hagnaðurinn gæti numið tveim tunnum gulls á ári.
Árið 1807 lofaði ríkisstjórnin nokkrum áhugamönnum um þangbrenslu að gera tilraun með hana hér á landi og kom í því skyni hingað til lands danskur sápugerðarmaður nokkur Morten Reidt að nafni og brendi þang í Skildinganesi um mánaðar tíma og var sú framleiðsla um eitt tonn af þangösku sem úr mátti vinna Glaubersalt til sápu gerðar (Talsvert notað í sjampo). Ekkert var þó úr að raunveruleg framleiðsla hæfist hér á landi og fékk þangið að rotna í fjöruborðinu engum til gagns.
Árið 1830 fundu Frakkar aðferð til að vinna Natron beint úr sjávarsalti þá lækkaði verðið og framleiðslan úr þanginu varð því ekki eins arðbær og að lokum var framleiðslunni víða hætt í þessum tilgangi. En þá hafði efnafræðingur nokkur fundið aðferð til að vinna efni sem hann kallaði Joð úr þangöskunni sem mátti nota til lækninga. Þangtegundir eru þó misríkar af joði en þangið á Eyrarbakka virtist lofa góðu um Joð framleiðslu auk Glaubersaltsins (neft eftir Johann Rudolf Glauber) sem úr mátti gera góða heilsulind með því að blanda það hveravatni. Dæmi um þannig heilsulind er heilsubrunnurinn í Karlsbad í Þýskalandi.
Eina þangbrensla landsins í dag er þörungaverksmiðjan í Karlsey á Reykhólum þar sem framleitt er þangmjöl en úr því má vinna efni sem kallast alignöt og ensím til ýmiskonar efnaiðnaðar. Árið 1939 til 1941 var unnið að þangmjölframleiðslu í Hveragerði þar sem var notast við hverahita til fraleiðslunar eins og nú er gert á Reykhólum. Árið 1959 var svo gerð tilraun með þangmjölsframleiðslu í svokallaðri beinamjölsverksmiðju sem Eyrbekkingar og Stokkseyringar áttu og stendur á milli þorpana en sú verksmiðja er í dag auð og tóm.
07.11.2007 17:54
Hitastigið hríðféll
02.11.2007 08:03
Njáll fer norður.
Stormurinn NOEL er nú orðinn 1.stigs fellibylur austur af Flóridaskaga og stefnir norður.
Mikil úrkoma fylgir fellibilnum og víða er hætta á sjávarflóðum með austurströnd N- Ameríku.
Mikil vatnsfóð af völdum úrhellis urðu á Bahamaeyjum í gær þegar Noel gekk þar yfir skömmu áður en hann náði fellibylsstyrk. Minnst 107 manns hafa orðið fellibylnum Noel að bráð á Karabíska hafinu og telst hann nú mannskæðasti fellibylur ársins.
01.11.2007 21:59
Eyrarbakki-úrkomumet slegið!
Í Oktober var mikil rigningatíð hér sunnanlands og um vestanvert landið og nú er ljóst að októbermet féllu á að minnsta kosti 33 stöðvum. Flestar metstöðvarnar hafa aðeins verið starfræktar innan við 20 ár, en 12 stöðvar af þeim sem slógu met hafa athugað í meir en 30 ár, þar á meðal Eyrarbakki (frá 1880). Úrkoma var ekki mæld á Eyrarbakka frá 1911 til 1925, (Á trúlega að vera til 1923 ?) þannig að ekki var mælt í október 1915, þegar metúrkoma mældist í Vestmannaeyjakaupstað segir á vef veðurstofunnar. Eldra úrkomumet oktobermánaðar á Bakkanum er líklega frá 1959 samtals 321 mm.
Mesta mánaðarúrkoman mældist í Kvískerjum, 824,9 mm og er það nýtt met í október, en nokkuð vantar upp á að mánaðarúrkoman hefði náð mestu mánaðarúrkomu á staðnum, en hún féll í janúar 2002.
- 1