Færslur: 2007 Febrúar
26.02.2007 12:16
Fyrirtaks gluggaveður!
Í norðaustanáttinni að undanförnu hefur verið heiðbjart veður en nokkuð svalt á landinu. Nú er sólin farin að hækka verulega á lofti og lengist dagurinn um 6 mínútur á hverjum sólarhring. Þar sem skjól er að finna t.d. sunnan undir húsveggjum má finna að sólin er aðeins farin að verma, enda lækkar frostið snarlega þegar sólin er komin nokkuð á loft. heldur er að draga úr "öfuglægðinni" fyrir norðan land og líklegt að vindur muni færast meira í austrið á næstu 3 dögum en þó áframhaldandi þurrviðri á Bakkanum samkvæmt veðurkortum.
22.02.2007 23:15
Veðurskýrsla hefur borist.
Síðunni hefur borist veðurskýrsla um veðurfarið á Eyrarbakka fyrir febrúarmánuð 1881 frá hinum kunna náttúruathugunarmanni hr. P.Níelsen í Húsinu og er hún svo hljóðandi:
Loptþungi: |
Meðaltal loptþungans í Febrúar hefur verið 752,3 m.m.* (1002 hpa).Mestur loptþungi hinn 26.febr. 775 m.m. (1033 hpa) Minstur loptþungi hinn 12.febr. 717 m.m. (955.9 hpa) Umferðarsvæði loptþingdarvísirsins hefir þannig 58 m.m. (77.3 mb) | ||||||||||||||||||||||||||||||||
Vindur: |
Eptir vind-tiganum 0-6 hefir vindaflið verið þannig að meðaltali 1.8 Vindaflið 0 (logn) er tekið 6 sinnum, 1 (andvari) 30 sinnum 2 (hægur vindur) 31 sinni, 3 (stinnur vindur) 16 sinnum, 4 (sterkur vindur) 4 sinnum. Vindurinn hefur verið af þessum áttum: . .
Aðaláttin hefir þannig verið NA. | ||||||||||||||||||||||||||||||||
Hiti: |
Hiti í Febrúarmánuði hefir verið að meðaltali -4,1°C Meðaltal á morgnana (kl.8) -4,5°C Meðaltal um miðjan daginn (kl.2) -3,6°C Meðaltal á kvöldin (kl.9) -4,1°C Meðaltal mesta hita (Maximumstherm) -2,7°C Meðaltal minsta hita (Mínimumstherm) -8,2°C Mestur hiti var hinn 22.febr. +6,1°C Minstur hiti hinn 14. -18.2°C Umferðarsvæðið hefir þannig verið 24,3°. Frostdagar hafa verið 26. | ||||||||||||||||||||||||||||||||
Úrkoma: |
Úrkoman í febrúar hefir verið als 93,8 m.m. Meðaltal úrkomunar á hverjum degi hefir verið 3,3 m.m. Úrkomudagar hafa verið 13. Úrkomulausir dagar voru þannig 15 Mesta úrkoma var hinn 19.febr. 20,3 m.m. |
Loptsútlit: |
Eptir stiganum 0-10 hefir meðaltal loptþyknisins í febrúarmánuði verið 5,5 m.m ? Alþykt lopt hefir verið 17 sinnum. Heiðskírt lopt hefir verið 6 sinnum. _____________________ · 758 m.m = Parísarþumlungur
Eyrarbakka þ.1. Mars 1881 P.Níelsen |
Á þessum árum voru hafísar algengir fyrir norðurlandi og kuldatíðir með grasbresti og heyskorti um allt land. Þessi febrúarmánuður 1881 hefði þótt sérlega kaldur nú á dögum, en líklegt má telja að meðalhitinn í febrúarmánuði nú 126 árum síðar verði rétt um 0°C
P.Nielsen var faktor í Húsinu á Eyrarbakka.
21.02.2007 15:50
Ekki er enn komið vor í Árborg.
það snjóar á frændur vora dani þessa dagana og nú liggja þeir í því með tilheyrandi vandræðum á vegunum. Slóðar frá þessu sama skýjadragi eru nú yfir Fróni og gæti kastast eitthvað hvítt úr þeim öðru hvoru. Það eru stöðugar Austan og Norðaustanáttir í kortunum út þessa viku eins og verið hefur og með heldur kaldranalegu veðri.En vort fátæka Bæjarfélag getur þó hrósað happi að vera laus við snjómoksturinn í bili og því undarlegra hljómar það að samkvæmt opinberum fréttum kjósi bæjarstjórn Árborgar að fagna egi komandi vori í Árborg með virktum eins og áður.
18.02.2007 22:46
Bakkasögur frá því í gamladaga!
Að undanförnu hef ég tekið saman nokkrar sögur af Eyrarbakka og skipt þeim í tvo flokka, annarsvegar Sjóferðasögur en þar er t.d.lítil saga af samskiptum Þorleifs Þorleifssonar á Háeyri við hinn norska kaptein Jacopsen sem endaði á voflegan hátt. Svo Brennusögur en þar eru teknar saman helstu sagnir um eldsvoða á 19 og 20 öld.
Fleiri sögur koma svo við hentugleik.
Tíðin: Mild og góð með frískandi sjávarlofti,en dálítið vætusöm.
Lítil verðkönnun: 1 lítr.nýmjólk frá MBF í Bónus á Selfossi kr.75 Smjörvi 300gr kr.158 MS Matreiðslu rjómi 1/2 ltr. kr.167 og Bónusbollur fyrir Bolludaginn 14stk á kr.259
Í Samkap á Selfossi kostar 1ltr.nýmjólk kr.85 Matreiðslurjómi 1/2 ltr. kr.185
09.02.2007 10:56
Bakkamenn byggja.
Talsverðar byggingarframkvæmdir standa yfir á Bakkanum þessa dagana og ný hús dúkka upp hér og hvar í þorpinu. Í gær hélt Klaudiuzs reisugildi á "Figlarskistöðum" og óskar Nýtt Brim honum til hamingju.
Í hinum enda þorpsinns er Halldór Forni að gera sinn "Fornalund" fokheldann.Þetta er reisulegt hús sem Forni hefur byggt upp á egin spítur.
Við "Bráðræði" er verið að byggja í stíl úr stáli og staurum en í engu bráðræði.
Nú er búið að selja Álaborgina til Eyja og er þá útséð með það að útgerð og fiskvinnsla á Eyrarbakka heyrir nú sögunni til. Það eru breyttir tímar og tækifærin liggja nú á öðrum sviðum.
Tíðin:
Bjart en en dálítið frost með norðlægum áttum.
05.02.2007 13:03
Ofhitnunin
Nýjasta loftlagsskýrsla alþjóðanefndar sérfræðinga um loftslagsbreytingar segja yfirgnæfandi líkur á því að bruni jarðefnaeldsneytis undanfarin 250 ár, fyrst kola, síðan olíu, hafi losað svo mikið koldíoxíð og aðrar gróðurhúslofttegundir út í andrúmsloft jarðar að það ógni lífríkinu. Vegna þessarar losunar hækki hiti hraðar en nokkurn tíma áður í 650.000 ár. Í skýrslunni er því meðal annars spáð að sjávarborð hækki um allt að 58 sentímetra á þessari öld vegna bráðnun jökla og hitnun sjávar.
Ströndin á Eyrarbakka og Stokkseyri mun þó þola þessa sjávarborðshækkun bærilega eins og sjóvörnum er nú háttað, en hinsvegar mun vandinn aukast eftir því sem austar dregur með suðurströndinni og líklegast er að landeyðing af völdum vaxandi sjávargangs verði hvað mest í Mýrdalnum. Einnig er höfuðborgarsvæðið í mikilli hættu af völdum hækandi sjávarborðs ef þessar spár ganga eftir, því þar er land auk þess að síga, en þar er trúlega þungi bygginga og mannvirkja á svæðinu meðvirkur þáttur.Vaxandi sjávarhæð mun auk þess ekki hjálpa til með að létta á berggrunni höfuðborgarsvæðisinns og getur maður því gert úr því skóna að Örfisey muni færast á kaf og Viðey yrði að gróðurlausu skeri í framtíðinni. Seltjarnarnesið þyrfti síðan að sæta verulegri ágjöf og sjávarflóð gætu staðið byggð þar fyrir þrifum í lok þessarar aldar ef svartsýnustu spár munu standast og ekkert yrði að gert til að stöðva þróun mála.
Tíðin.
Nú hefur kólnað á nýjan leik og dálítil föl yfir landi.
04.02.2007 16:54
Fornt í fjöru!
Eyrarbakki á sér langa sögu og er saga þorpsinns víða meitluð í umhverfið þó svo margt hafi farið forgörðum í tímans rás. Hér fyrir ofan má sjá leifar af dráttarbrautinni sem Sigurður Guðjónsson skipstjóri á Litlu Háeyri lét byggja einhverntíman fyrir miðja síðustu öld.
þessa gömul bólfestu frá þeim tíma þegar útgerð og fiskvinnsla tók við af verslun og þjónustu má taka sem dæmi um söguminjar í fjörunni.
01.02.2007 12:36
Jakaburður
Mikill jakaburður er nú um þessar mundir á Eyrarbakkafjörum en leysingarnar að undanförnu valda því að Ölfusá ber með sér mikið íshrafl og brimið hleður síðan ísinn upp í flæðarmálinu.
- 1