Færslur: 2007 Janúar
29.01.2007 22:00
Sleifarlagi mótmælt.
Eyrbekkingar eru aldir við að taka til hendinni þegar mikið liggur við og kunna því egi við leti og sleifargang þegar þess gerist þörf að taka hendur úr vösum og bretta upp ermar og því brugðu kennarar og starfsfólk í barnaskólanum á Eyrarbakka á það ráð að senda áttatíu börn í efstu bekkjum skólans heim til sín um tíuleytið í morgun til þess að mótmæla því sem þeir kalla sleifarlag bæjaryfirvalda við framkvæmdir á skólalóðinni á Eyrarbakka.
Nánar um þetta: www.stokkseyri.is
29.01.2007 09:40
300 ár frá Stóru bólu.
Á þessu ári eru 300 ár síðan stóra bóla barst til Eyrarbakka með farskipi sem kom með varning og farþega inn á Einarshöfn. Sóttin herjaði um allt Ísland og var mannskæð farsótt sem barst um land allt árið 1707.
220 ár frá því að einokun á verslun var aflétt.
110 ár eru liðin frá því að Eyrarbakkahreppur og Búnaðarfélag Eyrarbakkahrepps var stofnað.
90 ár eru síðan hinn þekkti kaupmaður Guðlaugur Pálsson hóf verslunarrekstur á Eyrarbakka.
80 ár frá því að Sæfari ÁR fórst á Bússusundi.
60 ár frá stofnun ræktunarsambands Eyrbyggja.
50 ár frá því að Eyrbekkingar eignuðust fyrsta slökkvibílinn.
30 ár frá Aðventuflóðinu svokallaða árið1977 þegar Eyrbekkingar og Stokkseyringar urðu fyrir stórtjóni af völdum sjávarflóða. Einnig eru 30 ár frá því að fyrsti og eini togari Eyrbekkinga og nágranabyggðalaga Bjarni Herjólfsson var vígður.
20 ár frá því að dvalarheimili aldraðra að Sólvöllum var tekið í notkun.
10 ár frá því að framkvæmdum lauk við hina nýju sjógarða.
28.01.2007 17:18
Íslands forni fjandi.
Þeir fréttir berast nú á netmiðlum að hafís fyllir nú Dýrafjörð á Vestfjörðum og nær hann langt inn fyrir Þingeyri og hamlar siglingum og sjósókn. Slíkt hefur ekki gerst svo lengi sem allra elstu menn muna á þessum slóðum. Þessu veldur öflug hæð suður af landinu sem orsakað hefur stöðugar suðvestanáttir að undanförnu.
Það er hinsvegar 313 ár síðan eða árið 1694 sem fyrst er heimilda getið um svo mikinn hafís að hann náði inn á Eyrarbakka og suður fyrir Vestmannaeyjar og kom í veg fyrir að vorskipin kæmust með varning sinn til Eyrarbakka. Ekki var orðið skipafært inn á Einarshöfn fyrr en um Jónsmessu það ár og líklega hafa Íslendingar þá mátt þreyja Þorran og Góuna og gera sér súpu úr handritum og skinnskóm.
Tíðin.
Hér á Bakkanum hefur tíðin verið mild, hiti frá 3-6 °C og hægar vestanáttir með þokusúld. Einungis stæðstu skaflar og snjóruðningar standa eftir hér og hvar og jörð virðist koma vel undan snjó.
Úr þorpinu.
Eyrbekkingar héldu sítt árlega þorrablót nú um helgina og ku hafa verið uppselt á þann vinsæla mannfögnuð nú sem endranær og þeir Skúmstæðingar sem héldu sig heima við máttu heyra óm af gleði og söng bergmála um hverfið. Væntanlega munu einhverjar fréttir af þessari Jöfragleði upplýsast á Eyrarbakki.is
24.01.2007 13:08
Þorraþýða.
Tíðin.
Vestlægar áttir með þýðviðri og að mestu þurt. Snjó hefur að miklu leiti tekið upp í hlýindunum og væntanlega mun hann verða að mestu horfinn í viku lokinn en spáð er áframhaldandi hlýindum fram yfir helgi.
Gera má ráð fyrir að þorrablótsgestir vökni jafnt utan sem innan á leið frá veisluhöldum um næstu helgi því búist er við strekkings sunnanátt með einhverjum regndembum.
22.01.2007 11:20
Íbúaöryggi!
Fyrir skömmu gerðist það í nágrana byggðalaginu vestan ósa um miðja nótt að misindisfólk, þjófar og brennuvargar gerðu innbrot og kveiktu í húsi einu þar í bæ á meðan íbúðareigandinn var í útróðri. Á meðan eldibrandur gekk um hús var fólk í fasta svefni í næstu íbúð og litlu mátti muna að þar færi illa.
Áræðanlegar heimildir hafa borist fyrir því að þessir víðsjárverðu menn sem lagana verðir hafa nú handsamað hafi haft undir höndum lista með nöfnum fólks og heimilisfangi þar sem til stóð að gera innbrot á meðan íbúðareigendur eru fjarverandi og hefur því mikil vá staðið fyrir dyrum hefði ekki svo vel gengið að handsama þessa glæpamenn sem nú vonandi fá dóm við hæfi.
En sú spurning vaknar hversu örugg erum við sem búum í hinum dreyfðu byggðum landsinns þar sem lögregan er jafn sjaldséð og hvítir hrafnar? Það er einmitt þetta ástand sem misindisfólk notfærir sér að næturþeli og slýku fólki virðist fara fjölgandi hér sunnan lands, líklega vegna aukins öryggiseftirlits á höfuðborgarsvæðinu.
Er þá nokkru eftir að bíða með að taka upp þá háttu hér sem skilar árangri með að halda glæpalýðnum frá og auka sem kostur er lögreglu og öryggiseftirlit með öllum tiltækum ráðum. Við hljótum að þurfa að fá öryggismyndavélar á mikilvægum stöðum eins og sýnt og sannast hafi í Reykjavík margsinnis að undanförnu. það þarf aureitis að taka upp nágranaeftirlit sem mögulegt er til að sporna við framgangi glæpagengja í byggðalögunum hér austan fjalls sem og annars staðar. Ef við viljum áfram búa við friðsæld í sveitinni þá eru ráðstafanir orðnar nauðsynlegar til að tryggja öryggi íbúanna.
Tíðin.
Helgarveðrið var fallegt og bjart, fönn yfir og kalt.
19.01.2007 11:51
Á Bóndadegi.
Veðráttan hér á Bakka er eins og um allt land um þessar mundir með norðan garra og kulda trekk. En eftir helgi horfir til breytinga á þessu jökulskeiði og megi þá jöklar bráðna og ísa leysa því spáð er hlánandi og allt að því rigningu segja spámennirnir á veðurstofu okkar landsmanna.
17.01.2007 21:22
Veðráttan.
Tíðin hefur verið afleit og kaldsöm að undanförnu, frost talsverð og skafrenningur.Tvö snjóruðningstæki eru nú daglega að störfum á Bakkanum og virðist ekki duga til því heimreiðin hér á bæ er enn órudd og ófær með öllu. Spurningin er hvort Þorrin verði jafn harður í horn að taka og þessar fyrstu vikur janúar mánaðar.
Nú fer að harðna í ári hjá smáfuglunum þó þeir séu nú enn feitir og pattaralegir eftir hlýindin fyrripart vetrar.
15.01.2007 10:58
Vetur.
Helgin var stormasöm hjá frændum vorum í Danmörku,Svíþjóð og Noregi, þegar djúp lægð ruddist yfir Skandinavíu með þeim afleiðingum að brýr lokuðust, tré rifnuðu upp með rótum og skapaði umferðaröngþveiti.
Á Bakkanum hefur snjóað talsvert og skafið í skafla. Mest af snjónum hefur þó skafið í sjó fram en meiri snjór hefur fallið nú en gerði á sama tíma í fyrra. Í dag er mesta frost til þessa á árinu -10°C á Eyrarbakka. Það er athyglisvert að það er 2-3 gráðum kaldara á Bakkanum en upp í Þrengslum eða Hellisheiði en ástæðan er sú að í hægviðri eins og nú er þá sígur kaldasta loftið ofan af fjöllunum niður undir sjó vegna eðlisþyngdar sinnar.
13.01.2007 23:49
Snjóar og snjóar.
10.01.2007 12:31
Snjóadrífur.
Talsvert hefur snjóað á Bakkanum sem og víðar í nótt og í morgun og er á að giska 10 cm jafnfallinn púðursnjór yfir öllu. Áfram er búist við snjóéljum á suðurlanndi og að heldur bæti í vind með skafrenningi þegar líður á daginn og getur færð spillst af þeim sökum.
Veðurspámenn hafa verið að gera úr því skóna að vænta megi kuldatíðar fram í mars, en hvort sem það reynist rétt þá hefur veðurfarið augljóslega skipt um gír frá því sem var fyrri hluta vetrar. En það væri kanski að bera í bakkafullan lækinn að tala um hlýnun í þessu sambandi en mögulega má ætla að veturinn sé nú fyrst að ganga í garð 2 til 3 mánuðum á eftir áætlun sökum loftlagsbreytinga. Dæmi þessu til marks má nefna að Skógarbirnirnir í Kolmården dýragarðinum í Svíþjóð lögðust í híði í dag, tveimur mánuðum síðar en venjulega. Skógarbirnirnir vakna af vetrardvalanum að öllu venju í apríl ár hvert svo segja má að þeir fá sér bara hænublund að þessu sinni.
09.01.2007 10:40
Sjóvarnir á Bakkanum.
Á Eyrarbakka var gerður voldugur sjóvarnargarður frarnan við þorpið 1990-91 að undanskildum kafla milli frystihússins og innsiglingarmerkis sem gerður var 1996-97. Arið 1999 var sjóvönin svo framlengd austur fyrir barnaskólann og sjóvörn gerð fyrir Gamla-Hrauni.
Gamli sjógarðurinn á Eyrarbakka og Stokkseyri eru merkar menningarminjar sem voru farin að láta verulega á sjá vegna sjógangs í stórviðrum í áranna rás. Með tilkomu nýja sjóvarnargarðsinns framan við þann gamla hefur varðveisla þessara minja verið tryggð. Enn er þó stór verk óunnið í þessum efnum, en það er t.d. gamli garðurinn milli barnaskólans á Eyrarbakka og Gamla-Hrauns sem er mjög skemdur á köflum og þarf að gera við í upprunanlegri mynd og styrkja með áframhaldandi sjóvörn þar framan við. Í endurskoðaðri sjóvarnaráætlun er gert ráð fyrir framkvæmdum í þessa veru og ber að fagna því.
Yfirlitsskýrslu um sjóvarnir 2006 má nálgast hér.
Tengt efni:
Stormflóðið í dag eru 17 ár frá Stormflóðinu.
Básendaflóðið Í dag eru 108 ár frá Básendaflóði.
08.01.2007 12:37
Halastjarna!
Dularfullt ljós á himni, hélt það væri háfleyg risaþota en þarna er á ferðinni halastjarnan McNaught. Hægt er að sjá hana bjarta og skæra í suð austri snemma morguns. Það var ástralski stjörnufræðingurinn Robert McNaught sem uppgötvaði stjörnuna og er hún kennd við hann. Hann sá hana 7. ágúst í fyrra á mynd sem tekin var með stjörnusjónauka í Ástralíu. Þá var stjarnan of dauf til að sjást með berum augum, en síðan hefur braut hennar legið inn í sólkerfið og eftir því sem hún hefur nálgast sólina hefur hún orðið bjartari.
Elstu heimildir um halastjörnu er að finna í kínverskri bók frá 1057 f.Kr. Árið 66 e.Kr. skrifar sagnaritarinn Jósefus um halastjörnu sem hékk á himninum yfir Jerúsalem eins og glóandi sverð í heilt ár. Þúsund árum síðar, árið 1066, sáu normenn halastjörnu á himinum og töldu hana boða fall einhvers konungsdæmis.
Haldið þið nokkuð að bæjarstjórnin í Árborg sé í fallhættu?
Í sögu jarðar kom oft fyrir að halastjörnur rákust á jörðina. Slíkir árekstrar léku stórt hlutverk í þróun jarðar, sér í lagi snemma í sögu hennar, fyrir milljörðum ára. Margir vísindamenn telja að vatnið á jörðinni og lífræn efnasambönd sem komu lífinu af stað hafi að hluta til komið frá halastjörnum. Þetta er ein helsta ástæðan fyrir því hve vísindamenn eru spenntir fyrir því að rannsaka halastjörnur. Af sömu ástæðu er líklegt að einhverskonar lífræn efnasambönd eða lífsform hafi tekið sér bólfestu á öðrum plánetum t.d. á Mars. Vísindamenn telja meira að segja að lífsform í míkró formi hafi þrifist á Mars fram til ársins 1976 þegar plánetan var heimsótt af Víking farinu sem átti að finna jarðlíkar lífverur á Mars en gerðu ekki ráð fyrir að hugsanlega þrifist þar lífverur í míkró formi. Nú telja sumir vísindamenn eins og Dirk Schulze-Makuch prófisor við Washington State University að NASA hafi eitt öllu lífi á plánetuni Mars með því að senda þangað "Viking" geimfarið.
Nasa found life on Mars and killed it
07.01.2007 21:02
Mjallhvítur Bakki!
Fyrsti snjór ársinns er féll á Bakkanum á Þorláksmessu og er jafnvel útlit fyrir meiri snjó síðar í vikunni og áfram kalt í veðri. Þá harnar í ári hjá spörfuglunum sem ekki hafa þurft að kvarta fram að þessu en eru nú teknir að hópast saman og koma sér fyrir á húsþökum í von að einhver kasti fyrir þá brauðmylsnu.
04.01.2007 08:58
Meiri hiti 2007
Breskir veðurfræðingar spá því nú að árið 2007 verði það hlýjasta á jörðinni frá því að mælingar hófust og líklegt að mörg met verði slegin. Árið 1998 var það heitasta á jörðinni síðan mælingar hófust og nú kann þetta met að vera í hættu ef marka má spá bresku veðurfræðingana.
Það er meðal annars veðurfyrirbrigðið El Nino sem veldur því að vísindamenn spá þessu, liklegt þykir að El Nino muni þrýsta upp hitastigi jarðar á árinu. El Nino fyrirbærið eru heitir hafstraumar undan vesturströnd Suður Ameríku veldur líka þurkum víða um heim og aukinni tíðni fellibylja. El Nino hefur einnig neikvæð áhrif á uppvöxt fiskistofna í kyrrahafi sem hafa síðan keðjuverkandi áhrif t.d. á fuglalíf.
Síðast þegar El Nino bærði á sér árið 1997 þá var úrkomusamt fyrstu mánuði ársinns út apríl og hiti yfir meðallagi en maí og júni voru fremur þurrir en aftur á móti voru júlí og ágúst það ár vætusamir á suðurlandi en sama tímabil árið 1998 í lok EL Níno tímabilsinns var veturinn kaldur og snjóasamur. Vorið og sumarið mjög vætusamt.
Hin meginástæðan fyir spánni byggist á gróðurhúsaáhrifum vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum sem hafa aukist ár frá ári undandarin ár.
- 1