13.11.2010 23:57

Franska skútan "Isabella"

Skerjagarðurinn á StokkseyriÖldum saman stunduðu frakkar fiskveiðar ásamt fleiri þjóðum á Íslandsmiðum og þegar leið fram á 19. öldina jukust athafnir þeirra við strendur landsins til mikilla muna. Talið er að á milli 200-300 franskar skútur hafi stundað veiðar við landið þegar mest var.
 

 

Dag einn síðari hluta vetrarveríðar árið 1898 voru öll skip Stokkseyringa að veiðum þar útundan í góðu veðri. Þegar menn voru í óða önn við línudráttin, sáu þeir hvar frönsk skonnorta kemur af hafi með neiðarflagg uppi. Þegar hin hvíta og fríða seglþanda skúta hafði nálgast Stokkseyrarskipin, tóku flestir formennirnir til við að róa skipum sínum á móts við hana. En um leið og þeir lögðu upp að síðu hennar komu skipverjar með pínkla sína og hentu þeim niður í bátana og komu svo sjálfir á eftir (18 menn). Skildist Stokkseyringum að skútan væri hrip lek og mundi sökkva þá og þegar. Jón Sturlaugsson var þá einn kunnasti formaður á Stokkseyri og fór hann ásamt nokkrum formönnum öðrum um borð í skútuna til að kanna ástand hennar, en frakkarnir fengust hvergi til að vera lengur um borð. Jóni lék hugur á að vita hvort ekki væri ráðlegast að sigla skútunni inn á skipalægi eða til lands, því ekki væri þessi skúta Stokkseyringum ónýtur fengur þó lek væri. (Hún hét "Isallai" en sumir kölluðu hana "Ísabellu")

                    

Á Stokkseyri var þá aðeins eitt stórskipasund er nefnt var "Hlaupós" og liggur nokkru austar en Stokkseyrarsund. Á sundinu var þá dálítill brimsúgur, og  hægur SA kaldi, en formönnunum kom saman um að skútan væri ekki svo nærri því að sökkva að óhætt væri að sigla henni um Hlaupósinn og inn á skipalægið. Jón Sturlaugsson tók nú að sér stjórn skútunnar og hafði með sér nokkra af hásetum sínum og gekk sú sigling að óskum og hinu tignarlega skipi var síðan lagt inn á legunni, en ekki var afráðið hvað skildi síðan við það gera.

 

Var nú afráðið nokkru síðar að bjóða skonnortuna á uppboði og kom þá fyrir nokkuð óvænt að hæstbjóðandi var bóndi austan úr fljótshlíð, Guðmundur Jónsson í Múlakoti, en ei sagði hann neitt um hvað hann vildi með þetta hafskip gera. Komst þá sú saga á kreik að Eyrbekkingar, erkiféndur þeirra Stokkseyringa hefðu fengið bónda til að bjóða í það svo það færi á lægra verði en ef Eyrbekkingarnir hefðu sjálfir att kappi um þetta fagra fley, og líklega hafa þeir ætlað að gera við það og selja síðan með miklum hagnaði, enda var lekinn ekki ýkja mikill þegar betur var að gáð. En hvað sem því leið, þá hafði forsjónin þegar ákveðið að þessi knerri skildi ei framar sigla, eins og Fransmennirnir höfðu óttast þó á annan veg væri.

 

Stuttu eftir uppboðið gerði mikið veður af hafi og slitnaði skipið af festum og brotnaði í skerjagarðinum og var það síðan rifið. En Fransmennirnir fengu inni í húsi sem var í smíðum á Stokkseyri og eflaust hefur þar verið glatt á hjalla, en sagt er að Fransmennirnir hafi fúlsað við hangiketi, en þótt betri matur í hrafnakjöti og frönsku kexi.

Heimild: Fálkinn 26.04.1940 http://sites.google.com/site/franskispitalinn/

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00