18.03.2010 22:05

M/b Hjálparinn - framhald

HjálparinnÞað vildi svo til á fyrstu árum vélbátanna að fiskurinn færðist mjög vestur á bóginn frá veiðistöðvum austanfjalls, svo ekki var fisk að fá fyrr en á miðum Þorlákshafnarmanna. Var það illmögulegt fyrir Eyrbekkinga og Stokkseyringa að eltast við hann vestur í Háaleitisforir og vestur undir Selvog og alveg útilokað fyrir áraskipin. Aðeins þeir vélbátar sem komnir voru til sögunnar höfðu aðstöðu til þess að elta fiskigönguna. Þegar fram á vertíðina kom, var gripið til þess ráðs, að láta mótorbátana draga árabátana vestur í Hafnarsjó. Þetta gafst vel, þegar tíð var góð, en þó var ýmislegt sem erfiðleikum olli. Það kom því til kasta Hjálparans að draga áraskipin vestur í sjó. Hann var venjulega með tvö og stundum þrjú skip í togi og lónaði hjá þeim meðan þau drógu net sín og athöfnuðu sig á miðunum. Þetta verkefni hafði hann í nokkrar vertíðir, en fór svo þverrandi eftir því sem vélabátum fjölgaði, og svo kom að því að engin áraskip voru eftir til að draga, því vélvæðingin varð algjör á fáum árum. Nokkur seglbúnaður var hafður á öllum vélbátum fyrsta kastið. Hjálparinn hafði upphaflega stórsegl og aftursegl, stagfokku og klýfir. Menn þurftu oft að grípa til þeirra, þótt það færi minnkandi er stundir liðu og vélar urðu fullkomnari. Hjálparinn gengdi líka mikilvægu hlutverki í samgöngum milli lands og Eyja, en hann gat tekið allt að 14 farþega í ferð.

Hjálparinn eftir breytinguVerslun Lefoliis, var seld 1919 kaupfélaginu Heklu, sem um nokkur ár hafði líka starfað á Eyrarbakka. Hún fékk sér stærri bát, sem henta þótti betur til þessarra flutninga. Hjálparinn var nokkru áður seldur til Vestmannaeyja þar sem honum var breytt í fiskibát. Á hann var sett stýrishús og aftursiglan tekin niður. Þá fékk hann stærri vél. Eigendur þar voru Lárus Halldórsson á Velli, að hálfu, Guðmundur Gíslason Vilborgarstöðum, að einum fjórða, og Bryngeir Torfason Búastöðum, frá Söndu á Stokkseyri, að fjórða parti. Bryngeir var formaður á bátnum fimm fyrstu árin, sem hann gekk frá Eyjum og fiskaði vel. Ýmsir fleiri voru formenn á honum. Sá sem lengst var með hann var Þórður Þórðarson á Sléttabóli, alls átta vertíðir samfleytt. Frá Eyjum var báturinn seldur til Djúpavogs. Ekki er vitað hver varð eigandi hans þar, né heldur hve lengi hann var þar, en nokkru síðar barst hann til Færeyja, en þar fennir yfir sporin.
Hjálparinn ()

Heimild: Skeggi 51 tbl. 1918 Sjómannablaðið Víkingur 2.tbl.1980- Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.

Flettingar í dag: 1296
Gestir í dag: 247
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261586
Samtals gestir: 33874
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:00:07