09.06.2007 21:38

Ískyggilegt veður!

Fimtudagurinn 29.mars árið1883 lögðu menn á sjóinn eins og endranær þegar færi gafst á vetrarvertíðum. Að morgni þessa svala vetrardags var kafalds fjúk en þó hægur norðan kaldi og laust við brim. Staðkunnugir töldu þó að horfurnar væru heldur ískyggilegar. En þrátt fyrir það létu formenn á Bakkanum kalla vermenn sína til skips. Þá var einnig róið í öðrum verstöðvum í nágreninu þennan dag, svo sem Þorlákshöfn,Selvogi og Herdísarvík.

Um kl 11 um morguninn tók hann að hvessa og að lítilli stundu liðinni gerði blindbil,svo varla sást handa skil. Voru þá nær allir formenn rónir héðan af Eyrarbakka öðru sinni. Þó náðu flestir landi eftir kl 2 e.h. Siðasta skipið sem náði landi þennan dag lenti kl 4 e.h. en tvö skip náðu ekki lendingu fyrr en kl 10 að mogni næsta dags.Voru þá mennirnir aðfram komnir af þreitu, kulda og vosbúð en allir á lífi þó sumir væri lítið eitt kalnir. Mennirnir höfðu þá barist gegn veðrinu og snjóbilnum í nær sólarhring sleitulaust þar til veður tók að ganga niður. 

Í Þorlákshöfn náðu allir landi nema tvö skip sem voru talin af þar sem ekkert hafði spurst til þeirra næstu daga á eftir. Formenn þessara skipa voru Ólafur bóndi Jóhannesson frá Dísarstöðum í Flóa og Þorkell Þorkelsson frá Óseyrarnesi báðir miklir efnismenn til sjós og lands.

Ólafur hafði fiskað vel um morguninn (39 í hlut) en hafði síðan róið öðru sinni þann dag. Á skipi Ólafs voru 15 menn að honum meðtöldum en á skipi Þorkells voru mennirnir 14 eða samtals 29 sem saknað var. Veðrið var svo mikið að í landi var ekki stætt og má því leiða að því líkum að vindhraðinn hafi verið vel yfir 25 m/s eða nærri 30m/s auk þess sem snjóbilurinn var það mikill að ekki hafi sést milli húsa.

Frá Herdísarvík hafði frést að eitt skip hafði brotnað þar í lendingu en allir komist af þrátt fyrir veðurhaminn. Í þessu sama veðri varð unglingspiltur úti frá Hróaskeldu í Villingaholti er hann ætlaði til sauðahúsa og einig kona frá Seli í Stokkseyrarhreppi. Því má ætla að töluvert frost hafi verið þennan dag og vindkæling mikil. 

Eyrbekkingar þóttust heppnir að hafa heimt áhafnir sínar úr helju þennan dag, því nokkru áður eða 9.mars fórst skip 10 manna far af Eyrarbakka í miklu brimi þá er þeir voru að koma úr róðri og fóru allir í sjóinn en 5 mönnum tókst að bjarga í land. Þetta var skip Sigurðar Gamalíusonar frá Eyfakoti og fórst hann ásamt fjórum hásetum sínum,allt giftir menn nema einn. Skipið sjálft brotnaði í spón og tapaðist með öllu.

Nokkrum vikum eftir þennan stormasama dag rak flösku á land er kastað hafði verið í sjó frá Vestmannaeyjum og í flöskunni var bréf þar sem tekið var fram að þeim Þorkeli og Ólafi hafi verið bjargað ásamt mönnum sínum um borð í franska skútu  úti á regin hafi og verið settir í land í Vestmannaeyjum. Skip þeirra félaga sem voru nánast ný og smíðuð á Eyrarbakka fundust síðan þann 4 apríl molbrotin á Staðarfjörum við Grindavík.


Vermenn á Eyrarbakka sátu oft við þröngann kost í gamladaga, en þó höfðu þeir sem réru hjá Torfa Sigurðsyni í Norðurbæ nokkur hlunnindi umfram aðra vermenn á Bakkanum. Torfi var formaður á skipi sem Peter Nielsen faktor í Húsinu átti og útvegaði hann vermönnum er réru hjá Torfa brauðið frítt. Aðrir vermenn sáu sér fljótt leik á borði þegar lítið var um brauð og þóttust róa hjá Torfa þegar þeir komu í Vesturbúðina til innkaupa. Svarði þá Nielsen einnat á þessa leið, " Ja först du róer hjá Torfur so skal du ha bröd"

Flettingar í dag: 996
Gestir í dag: 221
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261286
Samtals gestir: 33848
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:39:06