06.10.2008 11:10
Við sáum það svart 1914 og 1927
Þá var dýrtíð og kreppa hjá okkur rétt eins og nú. Á þeim kreppuárum lögðust millilandasiglingar að mestu af frá Eyrarbakka, vöruskortur var algengur og atvinnuleysi tók að skjóta rótum. Eyrbekkingar lögðu þó ekki árar í bát því fiskveiðar voru stundaðar af mikilli elju, söltuðu og hertu í miklu magni, kartöflur og kál var ræktað í hverjum garði. Sjálfsþurftarbúskapurinn ásamt fiskveiðum voru þau bjargráð sem heimamenn áttu í hendi. Margir áttu kindur og nokkrir ráku kúabú. Flestir áttu einhverjar varphænur og hver og einn reyndi að vera sjálfum sér nógur. Vöruskipti meðal heimamanna voru algeng. t.d. hrossakjöt fyrir fisk, kartöflur fyrir egg o.s.frv. Fjaran okkar var líka bjargvættur því á hana var suðfénu beitt. Sölvatekja og skelfiskur kom sér líka vel. Þang og mór nýttur til upphitunar þegar kol skorti. En nú er öldin önnur og þessum bjargráðum ekki til að dreifa í nútímanum þó svo að kreppan harðni frá því sem nú er.Því verða allir að leggja sitt af mörkum til að jafna stöðuna. Fjármálastofnanir verða að slá verulega af skuldum almennings. Stjórnvöld verða að aftengja verðtrygginguna. Styrkja verðgildi krónunar með því að tryggja auðlyndir landsins í þjóðareign. Verja velferðarkerfið og sólunda ekki peningum skefjalaust.
02.10.2008 22:58
Fyrstu snjóar falla.
Kalt er það fannars lín sem færir nú allt á kaf. Það harðnar á dalnum og morgunverkin verða unninn með rúðusköfum og skóflum. Vetur konungur er genginn í garð og víst er að smáfólkið mun fagna komu hans og færa honum heilan her af snjókörlum og snjókerlingum.
Í fyrra féll fyrsti snjórinn á Eyrarbakka þann 28. oktober og árið þar á undan þann 8. nóvember. Veturkoma er því með fyrra fallinu nú, en eftir helgi er spáð rauðum tölum og rignigu þannig að ævintýri snjókarlanna verður ekki langt að sinni.
02.10.2008 21:58
Margur vill messa yfir Bakkamönnum
Níu prestar viðsvegar af landinu hafa sótt um embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli, þar af fjórar konur. Biskup Íslands skipar í embættið eftir umsögn níu manna valnefndar úr prestakallinu. Embættið veitist frá 1.nóvember nk.
Nú hafa Eyrbekkingar og grannar þeirra verið prestlausir í rúmann mánuð og því orðið afar brýnt að messa duglega yfir Bakkamönnum sem eru farnir að blóta í miklu óhófi þessa dagana yfir brimum, stórsjóum, fárviðrum og brælum efnahagslífsinns.
01.10.2008 13:34
Seint mun hrafninn hvítur verða.
Krummi er kominn og með krúnki sínu boðar hann til vetrar og segir að brátt muni snjóa í heiði. Nátthrafnar íslands krúnka sig líka saman fjarri kastljósi fjölmiðlanna og reyna að bjarga útrásinni sem virðist vera farinn í hundana. Fyrsta frostnóttin liðin og blessuð sólin skín hér á Bakkann og blessar mannana börn sem ekki þurfa að fóðra hunda sína á verðbréfum. Bæði veður og efnahagsspár gera ráð fyrir að það andi köldu enn um sinn og einkum um nætur. Á meðan situr krummi hátt og bíður síns hrútshaus og gæru skinns.
29.09.2008 11:10
Haust
Það er komið haust, hitastigið lækkar með hverjum deginum. Trén fella laufin hvert af öðru í takt við gengi krónunar íslensku og maríuerlunar á Bakkanum eru nú flognar suður eins og aðrir farfuglar sem dvöldu hér í sumar. Kaupmennirnir í Gónhól taka saman pjökkur sínar eins og kaupmennirnir í Rauðubúðum fyrir nokkrum öldum síðan. Þorpsbúar búa sig undir veturinn og kreppuna miklu. Taka sumarhýruna úr bankanum áður en hún brennur upp í óðaverðbólgunni og hamstra slátur, sulta ber og rabbabara, koma kálinu og kartöflunum og öllu grænmetinu sem þeir keyptu í Gónhól vel fyrir í búrinu. Söl og fjallgrösum troðið í tunnur og móinum staflað í stæður. Það vantar bara fiskinn sem eitt sinn var nóg til af og var alltaf til bjargráða í gengisfellingum og kreppum liðins tíma. Nú fer enginn á sjó því það má engin gera nema hafa verið gefið, keypt eða leigt kvóta og útgerð héðan er nú bara eitt af því sem menn lesa um í gömlum sögum og æfintýrum. Nú þarf bara að þreyja Þorran og Góuna og alla hina mánuðina líka. Annars var þjóðin að eignast fjárfestingabanka í dag og borgaði fyrir með heilum helling af evrum, nema hvað?
26.09.2008 11:03
Rigning,rigning,rigning.
Ekkert lát er á rigningartíðinni og fólk er orðið hundleitt á veðurlaginu þessar vikurnar og víst að tíðarfarið leggst illa í sálina á fólki, svona til viðbótar við óhuggulegt efnahagsástandið. Dumbungur í lofti alla daga svo vart sést sólarglæta svo vikum skipti. þó má búast við smá sólarglætu snemma á laugardagsmorgun segja spárnar en aðeins litla stund því skjótt mun aftur draga fyrir og sama veðurlagið tekur við langt fram í næstu viku. Það sem verra er að með hverjum deginum sígur hitamælirinn nær og nær bláu tölunum þannig að um miðja vikuna gæti farið að grána í fjöllin. Já vetur konungur er að læðast að okkur með sinn hvíta her.
23.09.2008 13:15
Svartur september!
September er búinn að verða ansi blautur, svona rétt eins og í fyrra og lítil von um uppstyttu það sem eftir er mánaðarins. Einhver sagði að rigningin væri góð en víst er nú að þetta er orðið fullmikið af hinu góða. Sunnan rokið að undanförnu hefur auk þess dempt yfir okkur óhemju mikilli sjávarseltu með þeim afleiðingum að haustlitirnir á Bakkanum verða nú svartir þetta árið.
18.09.2008 22:39
Loksins hraðahindrun á Túngötu
Nú eru hafnar framkvæmdir við gerð hraðahindrunar við Túngötu á Eyrarbakka en rúmt ár er síðan íbúar við götuna afhentu sveitarfélaginu undirskriftalista þar sem óskað var eftir að gerðar yrðu a.m.k. tvær hraðahindranir á götunni. Sveitarstjórn Árborgar brást vel við og lofaði að koma þessu verki af stað svo fljótt sem verða má. Viðbragðsflýtir framkvæmdaraðila hefur hinsvegar orðið ansi langur. Ef við hugsum okkur að brekkusnígill sem ferðast á 1mm hraða á sekúntu hafi lagt af stað frá Selfossi til Eyrarbakka á sama tíma og sveitarstjórnin samþykkti framkvæmdina og ekki unt sér hvíldar alla leið, þá hafi snígillinn komist á Bakkann eftir fjóra mánuði en framkvæmdaraðilinn þurfti hinsvegar 12 mánuði til að komast á Bakkann. Þó má segja að betra sé seint en aldrei
17.09.2008 23:28
Enn blæs stormurinn Ike
Stormurinn Ike ætlar að verða landsmönnum erfiður og margt tjónið vítt og breitt um landið má skrifa á hans blessaða nafn. Einkum eru það trampolín eigendur sem ekki hafa farið varhluta af viðskiptum sínum við storminn Ike og þeir sem enn eiga ófokin trampolín í görðum sínum ættu nú fljótlega að huga að því pakka þeim niður fyrir veturinn, því hver veit nema verri storma beri að garði fyrr en varir og trampolínin verði einhverjum að fjörtjóni.
Ike er þó aldeilis ekki enn búinn að blása úr sér og á Bakkanum er búið að vera bálhvast í kvöld með úrhellis skúrum og stormhviðum frá 21-28 m/s.
17.09.2008 08:45
Ike blés hressilega
Stormlægðin Ike lét finna fyrir sér við ströndina seint í gærkvöld en olli ekki verulegu tjóni á Eyrarbakka nema hvað vatn flæddi inn í eitt hús. Mikil úrkoma fylgdi veðrinu og var mesta vatnsveðrið skömmu fyrir miðnætti. Milli kl.01 og 03 í nótt gekk á með stormi eða 20 m/s og í hviðum fór vindur í 28m/s. Veðrið gekk svo hratt niður með morgninum. Í morgun var talsvert brim komið og sjórinn kolmórauður yfir að líta.