05.11.2008 20:56

Róið til fiskjar um aldamótin 1900

Sunnlenskt áraskip seglbúiðÞá voru allir bátar á Eyrarbakka róðrabátar og veitt var á línu. Beitan var fjörumaðkur í vertíðarbyrjun en síðan altaf hrogn eða þar til síðar að farið var að nota síld. Því grynnra sem fiskurinn gekk því betur aflaðist.  Fatnaðurinn var úr skinni og skórnir líka. Þá var róið í þriggja tíma túra og myrkrana á milli ef vel fiskaðist. Fiskurinn var seilaður á grunnenda bátsinns, en þar tók landmaðurinn við honum og dró frá skerjum til lands þar sem heimafólk, konur og krakkar tóku við honum. Í stórstraumsfjöru var það stundum langur vegur sem landmaður þurfti að draga seilina og þótti það íllt verk.

 

Formenn báru sig saman um það hvort væri sjófært og var þá flaggað ef svo var. En þar til flaggið var komið upp mátti enginn halda til sjós, því svo fljótt gat brimað á Bakkanum.

 

Vertíðarnar voru þannig að byrjað var að róa seint í september og róið til jóla. Haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu. Stundum var róið milli jóla og nýárs. Vetrarvertíð byrjaði á kyndilmessu en venjulega tók ekki að fiska fyrr en seint í febrúar. Aðkomumenn voru einungis til sjós á vetrarvertíðum, en á vorin reru aðeins fáir bátar.

 

Þegar vorvertíð lauk tók við svokölluð eyrarvinna hjá sjómönnunum, en það var uppskipunarvinna fyrir verslunina. Í þann tíma var fjölmennt á Bakkanum þegar bændur komu hvaðanæfa af Suðurlandi til innkaupa. Þá fóru einnig fram vöruskipti mill bænda og þorpsbúa. Bændurnir fengu söl, fisk og herta þorskhausa, en létu í staðinn smjör, tólg, kjöt og skinn. Þá jafngiltu 20 fiskar 4 krónum.

Heimild: Byggt á viðtali Þjóðviljans við Ólaf Sigurðsson frá Naustakoti á Eyrarbakka. Þjóðviljinn 4.júní 1950.

Ps. Fékk þessa vísu hjá bloggvini http://gummiste.blogcentral.is/

Frá Eyrarbakka út í [Sel] vog.
Sumar útgáfur vísunar eru með eftirfarandi hætti:

 

Frá Eyrarbakka út í Vog

er svo mældur vegur

átján þúsund áratog

áttatíu og fjegur.

Rétta útgáfan er svona:

           
Frá Eyrarbakka út í Vog
er svo mældur vegur
átján hundruð áratog
áttatíu og fjegur.


Vegalengdin  á sjó, frá Eyrarbakka  út í Selvog, mun vera 25-30  km. og í logni 4-5 kl. stunda
róður. Þegar tekið var langræði  höfðu menn, að öllum jafnaði,  langdregin áratog, 7 áratog á  mínútu, og það eru 420 áratog  á klukkustund, en 1890 áratog á  4.5 kl. stund.

02.11.2008 21:19

Mórinn

BrauðgerðarhúsiðFraman af 20. öldinni voru allflest íbúðarhús hituð upp með kolum. Hitaveitudraumar voru enn víðs fjarri á landsbyggðinni og enn langt í að olíuhitun yrði almenn.

  Veturinn 1939 verður almenningi á Eyrarbakka ljóst að kol myndu hækka mikið í verði, enda kreppa í efnahagslífinu og að auki virtist heimstyrjöld vera að brjótast út. Varð það þá að ráði að verkamannafélagið Báran og Eyrarbakkahreppur hófust handa við móupptekt til eldsneytis fyrir hreppinn.

 

Það varð úr að stofna félag sem hét Mónám Eyrarbakka hf og lagði hver félagsmaður til 100 kr til fyrirtækisinns sem m.a. nota átti til kaupa á móvinnuvél sem áætlað var að mundi kosta 1000 kr. Fyrst varð þó að fá gott móland, en nægilegan mó var nefnilega ekki að finna á Eyrarbakka. Var því fenginn sérfróður maður til að finna besta mólandið í nágreni Eyrarbakka og reyndist það best í landi Árbæjar í Ölfusi í svonefndri Árbæjarmýri undir Ingólfsfjalli.

 

Félagið tók nú á leigu þrjá hektara af Ólafi Einarsyni bónda í Árbæ og hóf að framræsa landið til þurkunar enda blaut dýjamýri auk þess þurfti að leggja í tímafreka og kostnaðarsama vegagerð út á mótekjulandið. Mikil rigningartíð setti þó strik í reikninginn og menn horfðu uggandi i framtíðina. Fjöldi verkamanna voru ráðnir í mógröftinn og urðu þeir fyrst um sinn að hafast við án skjóls í hinum mislindu veðrum undir Ingólfsfjalli og söknuðu þeir þess að hafa ekki hinar fornu vatnsheldu heljarslóðar duggarabandspeysur sem voru nú löngu hættar að fást. En brátt fengu verkamennirnir skúr sem fyrirtækið keypti af vegagerðinni og var nú unnið að mótekjunni af fullum krafti.

 

Þetta fyrirtæki var þó ekki stofnað til langrar framtíðar, heldur til að mæta brýnni þörf og það væri kanski eitthvað til að hugsa um í kreppunni okkar þó við látum það nú vera að stinga upp mó.

Heimild: Byggt á grein eftir Þ.J. í Þjóðviljanum 29.júní 1940

25.10.2008 22:12

Fyrsti vetrardagur


Barnaskólinn á Eyrarbakka á afmæli í dag en hann var stofnaður 25 oktober 1852 og er því orðinn 156 ára. Skólahúsið var byggt fyrir samskotafé almennings í héraðinu. Forgöngu fyrir þessari skólastofnun höfðu þeir sr. Páll Ingimundarson í Gaulverjabæ, Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri á Eyrarbakka og Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri sem þá var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps. Fyrsta
skólahúsið var reist að Háeyri, timburhús sem rúmaði 30 nemendur auk kennarastofu. Síðar var skólinn í því húsi sem jafnan er kennt við Gistihúsið og því næst þar sem hann er nú.

 Árið 1866 gengu 12 börn í skóla en árið eftir urðu þau 16 (11 drengir og 5 stúlkur) Það sem var fremur til að efla áhuga stúlkna á skólagöngu var ókeypis tilsögn í hannyrðum og söng sem dætur Guðmundar Thorgrímsens verslunarstjóra veittu. Þá kendi P.Nielsen að auki piltum leikfimi. Þegar ný löggjöf um menntun unglinga leit dagsins ljós um 1880 þá fjölgaði nemendum barnaskólanna á Eyrarbakka og Stokkseyri umtalsvert. Þá var að auki haldinn  sunnudagaskóli fyrir fullorðna þar sem kend var danska, reikningur, íslensk réttritun og söngur. Árið 1881 stunduðu 60 fullorðnir nám í sunnudagaskólanum.

þetta var mikið framfaraskref fyrir Suðurland á þessum árum sem gerði ungri kynslóð betur í stakk búna að takast á við nýja tíma. Enn á ný stöndum við frammi fyrir nýjum og breyttum tímum og enn gildir að búa sér vel í stakk með góðri menntun. Vonandi munum við áfram hlúa vel að framtíð unga fólksins og halda áætlun um byggingu nýs skóla á Eyrarbakka.

 

21.10.2008 22:29

Bleik þau lýsa um grund

Blysför að kríunniÍ dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Sgurjóns Ólafssonar, myndhöggvara frá Eyrarbakka. Af því tilefni heiðruðu nemendur og kennarar í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri minningu listamannsins með 100 kyndla blysför frá Eyrabakkaskóla að listaverki Sigurjóns, Kríunni, sem stendur í Hraunprýði austan við Litla-Hraun.
 
Alþýðusamband Íslands reisti verkið í ársbyrjun 1981 til heiðurs Ragnari Jónssyni í Smára sem þakklætisvott fyrir listaverkagjöf hans til ASÍ. Ragnar Jónsson var frá Mundakoti á Eyrarbakka.

18.10.2008 15:54

sr. Sveinn kemur á Bakkann.

Séra Sveinn Valgeirsson, sóknarprestur á Tálknafirði, tekur við stöðu sóknarprests á Eyrarbakka. Var Sveinn valinn úr hópi níu umsækjenda. Sveinn Valgeirsson er fæddur 1966 í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1986, og lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1995.


Nánar á www.eyrarbakki.is

Hér er svo bloggsíða sr.Sveins.emoticon

18.10.2008 15:36

Verzlunin Merkisteinn

 Verslunin MerkisteinnNýjir rekstraraðilar tóku við versluninni Merkisteini á Eyrarbakka í dag. Vöruúrval hefur verið aukið nokkuð frá því sem verið hefur og er nú alveg örugglega nóg til með kaffinu. Það er því óhætt að segja að engin kreppa sé á Bakkanum.

Brimið á Bakkanum óskar nýjum eigndum góðs gengis á komandi tímum.emoticon

16.10.2008 12:39

Leirbrennsla

Listakonur brenna leir í Byrgjunum
Handverkskonurnar láta engan bilbug á sér finna og brenndu leirinn í blíðviðrinu í gær. Þær framleiða hér ýmiskonar vasa, potta og platta af mikilli list. Hver veit nema að einhverntímann í framtiðinni verði leirmunir frá Eyrarbakka að mikilvægri útfluttningsvöru fyrir land og þjóð.

15.10.2008 21:59

Dittað að kirkju

Málað af miklum móð.
Málararnir ditta að kirkjugluggum og fá blessun fyrir enda styttist óðum í að nýr sóknarprestur taki til starfa.

14.10.2008 09:48

Ásgarður rifinn.

Ásgarður
Skipulags og bygginganefnd Árborgar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku heimild til niðurrifs á Ásgarði. það verður óneitanlega sjónarsviptir af þessu reisulega húsi en það stórskemdist í jarðskjálftunum þann 29.maí sl.

11.10.2008 23:19

Þjóðin eignast Ísland aftur

Þjóðfáni Íslands hin fyrsti. Bankafánar blakta ekki lengur.Nú þegar kardínálar bankanna og aðrir útrásarvíkingar eru flúnir land eftir að hafa ekki bara selt ömmu sína, heldur og mömmu sína, börn og barnabörn í áralanga skuldafjötra, þá hefur þjóðin í þessu alsherjar hruni þó eignast landið sitt aftur og við getum vissulega óskað okkur til hamingju með það. En þjóðin þarf líka að eignast fiskimiðin á ný til að tryggja framfærslu sína þrátt fyrir ógnvænlegar skuldir þjóðarbúsins. Ekki er lengur boðlegt að fiskurinn í sjónum sé í höndum fárra útvalinna einkaaðila því nú er of mikið í húfi.

 

Við getum nú byrjað upp á nýtt rétt eins og við gerðum þann 17. júní árið 1944 þegar við tókum okkar fyrstu skref sem fullvalda þjóð. Þá var haldin mikil hátíð á Eyrarbakka. Þennan dag var Eyrabakki ekki lengur undir dönskum fána því hinn Íslenski bláhvíti fáni hafði verið dreginn að húni í fyrsta sinn. Ísland hafði nú hlotið sjálfstæði á ný. Hvarvetna blöktu fánar í þorpinu, hús og garðar víða skreyttir blómum. Samkomusalurinn í Fjölni allur vafin blómafléttum og lyngsveigum.

 

Dagskráin hófst með skrúðgöngu kl.1.30 eh. Gengið var frá barnaskólanum til kirkju. fremst gengu fánaberar, stúlka á íslenskum búningi og piltur í búningi með íslensku fánalitunum. Næst gekk yngsta kynslóðin allt niður í 3 ára börn. Kynslóðin sem erfa skildi landið og verja sjálfstæði hennar alla sína æfidaga. Öll héldu þau á fánum, og voru hvítklædd með bláum skrautböndum. Þannig voru nálæga 50 börn búinn litum okkar frjálsu þjóðar og litum okkar Eyrarbekkinga. Síðan komu eldri börn og unglingar og svo fullorðnir. Alls tóku 400 manns þátt í skrúðgöngunni eða 2/3 íbúa þorpsins.

 

Kirkjan okkar var skreytt á hinn virðulegasta hátt með íslenskum blómum en þar messaði sr. Árelíus Níelsson fyrir fullu húsi sem lauk með því að kirkjukórinn söng íslenska þjóðsönginn. Úr kirkju var gengið á samkomusvæði Bakkamanna, en þar hafði verið gert hið fegursta skrauthlið með yfirskriftinni "Ísland lýðveldi 17.júní 1944" Þar hófst skemtun með ávarpi Ólafs Helgasonar oddvita. Ræður héldu Kjartan Ólafsson form. UMFE og Sigurður Kristjánsson kaupmaður og kirkjukórinn söng ættjarðarljóð undir stjórn Kristins Jónassonar organista.

 

Síðdegis var svo dagskránni framhaldið í Samkomuhúsinu Fjölni, en þar flutti fjallkonan ávarp í ljóðum sem ort voru í tilefni dagsins. Síðan komu fram sögupersónur í búningum síns tíma. Fyrstur var Þorgeir ljósvetningagoði, þá Snorri Sturluson, svo Jón biskup Vidalín o.s.fr. Lásu þeir upp viðeigandi kafla úr egin ritum. Þætti þessum lauk með upplestri sr. Árelíusar úr Fjallræðunni og nýrri bók um og eftir Jón Sigurðsson forseta hins nýstofnaða lýðveldis. Lúðvík Nordal læknir fór með hátíðarljóð sem hann hafði sjálfur samið í tilefni dagsins. Að endingu söng kirkjukórinn "Ó guðs vors lands"

 

Margt annað var til skemmtunar gert, t.d. skrautsýning sem nefndist "Jónsmessunóttin" en það var ung stúlka íklædd búningi áþekk brúðarslæðum, skreyttum lifandi blómum sem fór með þetta atriði. Hún studdist við blómaskreyttan sprota, en á meðan hún sveif um sviðið í ljósaskrúði, var flutt hið draumfagra kvæði Jóhannesar úr Kötlum: Jónsmessunótt, en það er einmitt sú nótt sem Eyrbekkingar hafa haldið hvað hátíðlegastan, bæði fyrr og síðar.

 

Nú höfðu Eyrbekkingar sem og aðrir landsmenn eignast nýjan hátíðisdag, þjóðhátíðardaginn 17.júní. Á þessi merku tímamót var rækilega minnt í búðarglugga Sigurðar Kristjánssonar kaupmanns, en þar hafði hann sett upp myndasýningu þar sem saga stjórnarfars á Íslandi var rakin með hinn bláhvíta fána í bakgrunni.

 

Þó okkar kynslóð hafi klúðrað málunum þá megi næsta kynslóð vonandi vera frelsinu jafn fegin og glöð og sú sem gekk undir bláhvíta fánanum niður Búðarstiginn á 17.júní 1944.

 

En fyrst þarf almenningur að taka til og skipta um mennina í brúnni sem áttu að vaka yfir velferð þjóðarinnar, en þess í stað flut þetta lið sofandi að feigðar ósi. Þeir vöknuðu ekki upp við vondan draum, nei þeir vöknuðu upp við ömurlegan veruleika. Veruleika sem ekki verður afmáður úr Íslandsögunni.

 

Nú er það í vorum höndum að gera það sem gera þarf. Að byrja upp á nýtt af miklum þrótti í betra landi vonandi og reynslunni ríkari. Svo lengi sem Íslenski fáninn fær að blakta á björtum himni verður hinn almenni borgari að halda vöku sinni.emoticon
 

  

08.10.2008 11:34

Engin kreppa á Eyrarbakka.

Ökutæki á Eyrarbakka.Á Bakkanum gengur lífið sinn vanagang í kyrð og ró. Ekki þurfum við að óttast bankahrun því hér er engin banki. Bankinn fór héðan árið 2001 til þess að taka þátt í Matador í útlöndum og nú er spilið tapað eins og alþjóð veit. Við þurfum heldur ekki að óttast vöruskort í kaupfélaginu, því kaupfélagið fór í leiðangur árið 2002 og hefur ekki sést hér síðan. Ekki þurfum við að óttast atvinnuleysi í plássinu því hér hefur enga atvinnu verið að hafa síðan iðnaður og sjávarútvegur lagðist af árið 2006. Það voru engin rússnesk lán tekin til að bjarga hreppssjóðnum því hreppurinn hefur ekki verið til síðan árið 1998.

Við erum þrátt fyrir þetta bjartsýn og horfum fram á veginn því héðan liggur leiðin bara upp.emoticon

06.10.2008 11:10

Við sáum það svart 1914 og 1927


Þá var dýrtíð og kreppa hjá okkur rétt eins og nú. Á þeim kreppuárum lögðust millilandasiglingar að mestu af frá Eyrarbakka, vöruskortur var algengur og atvinnuleysi tók að skjóta rótum. Eyrbekkingar lögðu þó ekki árar í bát því fiskveiðar voru stundaðar af mikilli elju, söltuðu og hertu í miklu magni, kartöflur og kál var ræktað í hverjum garði. Sjálfsþurftarbúskapurinn ásamt fiskveiðum voru þau bjargráð sem heimamenn áttu í hendi. Margir áttu kindur og nokkrir ráku kúabú. Flestir áttu einhverjar varphænur og hver og einn reyndi að vera sjálfum sér nógur. Vöruskipti meðal heimamanna voru algeng. t.d. hrossakjöt fyrir fisk, kartöflur fyrir egg o.s.frv. Fjaran okkar var líka bjargvættur því á hana var suðfénu beitt. Sölvatekja og skelfiskur kom sér líka vel. Þang og mór nýttur til upphitunar þegar kol skorti. En nú er öldin önnur og þessum bjargráðum ekki til að dreifa í nútímanum þó svo að kreppan harðni frá því sem nú er.Því verða allir að leggja sitt af mörkum til að jafna stöðuna. Fjármálastofnanir verða að slá verulega af skuldum almennings. Stjórnvöld verða að aftengja verðtrygginguna. Styrkja verðgildi krónunar með því að tryggja auðlyndir landsins í þjóðareign. Verja velferðarkerfið og sólunda ekki peningum skefjalaust.

02.10.2008 22:58

Fyrstu snjóar falla.

SnjórKalt er það fannars lín sem færir nú allt á kaf. Það harðnar á dalnum og morgunverkin verða unninn með rúðusköfum og skóflum. Vetur konungur er genginn í garð og víst er að smáfólkið mun fagna komu hans og færa honum heilan her af snjókörlum og snjókerlingum.

Í fyrra féll fyrsti snjórinn á Eyrarbakka þann 28. oktober og árið þar á undan þann 8. nóvember. Veturkoma er því með fyrra fallinu nú, en eftir helgi er spáð rauðum tölum og rignigu þannig að ævintýri snjókarlanna verður ekki langt að sinni.

02.10.2008 21:58

Margur vill messa yfir Bakkamönnum

EyrarbakkakirkjaNíu prestar viðsvegar af landinu hafa sótt um embætti sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli, þar af fjórar konur. Biskup Íslands skipar í embættið eftir umsögn níu manna valnefndar úr prestakallinu. Embættið veitist frá 1.nóvember nk.

 

Nú hafa Eyrbekkingar og grannar þeirra verið prestlausir í rúmann mánuð og því orðið afar brýnt að messa duglega yfir Bakkamönnum sem eru farnir að blóta í miklu óhófi þessa dagana yfir brimum, stórsjóum, fárviðrum og brælum efnahagslífsinns.

Flettingar í dag: 415
Gestir í dag: 131
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260705
Samtals gestir: 33758
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:23:57