09.03.2009 12:39
Framtíðarsýn Eyrbekkinga byggir á ferðaþjónustu.
Á íbúafundi sem haldinn var í Gónhól sl. Laugardag kom fram sterkur vilji til að byggja upp ferðaþjónustutengdann atvinnuveg. Hið gamla 19.aldar söguþorp er sú umgjörð sem er aðlaðandi fyrir ferðamenn auk ósnortinnar náttúru í nágreni þorpsinns. Hinn sérstæði skerjagarður, brimið og fjölskrúðugt fuglalíf ásamt einstaklega fallegri götumynd með gömlum húsum til beggja hliða er það aðdráttarafl sem unnt er að virkja ásamt minjasöfnunum og hinni miklu sögu og listsköpun sem byggðinni tengist. Rauða húsið og Gallery Gónhóll hafa nú þegar skapað sér traustan sess á Eyrarbakka sem hluti af þeirri upplifun sem ferðamenn njóta í þessu sérstæða þorpi.
Til þess að styðja við þessa uppbyggingu og nýsköpun í atvinnumálum sveitarfélagsins þarf bæjarstjórn Árborgar að tryggja greiðan aðgang að opinberri þjónustu og upplýsingum fyrir heimamenn,sumardvalargesti og ferðafólk. Þá er nauðsynlegt að hefja þá göngustígagerð sem lofuð hafði verið fyrir síðustu kosningar nú þegar á þessu vori. Bæta þarf aðstöðu fyrir húsbílafólk á tjaldstæði og koma fyrir snyrtiaðstöðu á fleiri stöðum ásamt bekkjum og borðum. Til lengri tíma þarf að huga að holræsamálum svo hægt sé að nýta ávaxta fjörunnar og gera hana aðlaðandi.
Þá liggja tækifæri einkaaðila í að koma upp gistiaðstöðu, fræðslu og menningarsetrum í tengslum við söfnin, strandmenninguna og fuglafriðlandið. Þá eru hugmyndir uppi um að halda festival á komandi sumri sem byggir á að færa þorpið í búning þess tíma þegar þorpið var höfuðstaður menningar og viðskipta. Tækifærin liggja víða og vonir manna standa til þess að unnt verði að byggja upp gömlu vesturbúðirnar og bryggjurnar. Þá gætu klappaveiðar skapað sérstöðu sem aðdráttarafl fyrir stangveiðimenn, en slíkar veiðar voru talsvert stundaðar á árunum áður.
Það er ljóst að mikill hugur býr í Eyrbekkingum sem láta nú engann bilbug á sér finna þrátt fyrir kreppu og þrengingar í efnahagslífinu, enda hafa Bakkamenn marga fjöruna sopið í þeim efnum.
03.03.2009 23:35
Tvö hús jöfnuð við jörðu í dag
Tvö sjálftahús voru jöfnuð við jörðu í dag með stórvirkum vinnuvélum. Það eru húsin Smáravellir sem hér sést á efri myndinni og Mundakot II, neðri mynd. Þá eru fjögur hús horfinn af Bakkanum og þykir Eyrbekkingum það sorgleg sjón að sjá á eftir þessum reisulegum húsum.
Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni, þá voru öll þau hús sem þegar er búið að brjóta niður byggð úr holsteini, en það er hleðslusteinn úr vikurblöndu. Sá byggingarmáti var mjög til siðs á sjötta áratug síðustu aldar. Allnokkur hús voru þannig byggð á Eyrarbakka sem og víðar.
Enn eru einhver hús sem bíða sömu örlaga og sjónarsviptir verður af. En sem betur fer eru Eyrbekkingar ekki af baki dottnir og byggja ný falleg og reisuleg hús sem falla vel við gamla þorpið.
01.03.2009 01:06
Hugleiðing um perlur Árborgar
Fjörurnar á Eyrarbakka og Stokkseyri eru einstakar náttúruperlur á margvíslegan hátt. Þar má nefna hin sérstæða skerjagarð sem varð til fyrir 8.700 árum þegar Þjórsárhraun, mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk, rann í sjó fram, og er hraunjaðarinn nú marbakki undan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum, þar sem hver klettur á nú sitt örnefni. Fjölskrúðugt fuglalíf þrífst í fjörunni svo til árið um kring. Seli má oft sjá kúra á skerjunum og svo að sjálfsögðu heillar brimið sem getur oft orðið stórkostlegt á að líta. Á vorin bætast svo hin ýmsu fjörugrös og fjöruarfi í þessa undraverðu flóru. Fjaran er líka merk fyrir það að vera hluti af sögu þessarar þjóðar í margar aldir. Úr þessari fjöru stigu menn á skipsfjöl og héldu út í heim og komu að landi aftur í þessari sömu fjöru.
Það er því nokkuð leitt að þessar perlur skuli enn vera sóðaðar út með holræsum sem ná rétt út fyrir flæðarmálið og telst mér þau vera ein sex slík á Eyrarbakka. Holræsin eru að stofni til frá árinu 1929 og þótti þá ekki tiltökumál að henda öllu í sjóinn, hverju nafni sem það nefnist. Nú 80 árum síðar ráða önnur gildi og er umverfisvernd oft á tíðum það leiðarljós sem menn vilja fylgja inn í framtíðina og því væri vert að leita annara lausna í frárenslismálum við ströndina.
Það mætti til að mynda fækka ræsunum úr sex í eitt og leiða það langt í sjó fram með dælingu og væri sú lausn ekki svo ýkja dýr í framakvæmd. Önnur leið væri að leiða allt frárensli vestur í Ölfusá sem er hvort sem er menguð á þennan hátt. Báðar þessar lausnir hafa þó þann galla að allt endar þetta á sama stað hvort sem er, þ.e. í hafinu. Hagkvæmasta leiðin til lengri tíma út frá umverfissjónarmiðum er sú snildarhugmynd sem ég heyrði af á dögunum sem gengur út á það að virkja frárensli í þró og framleiða metangas til eldsneytis. Þannig gætu sveitarfélög með nokkurskonar sjálfbærri þróun aflað sér tekna með öðrum hætti en með holræsagjaldinu.
26.02.2009 18:00
Mundakot mulið undir tönn


Mið-Mundakot er þriðja skjálftahúsið sem hefur orðið vinnuvélum að bráð. Húsið er holsteinshús, en hús sem þannig eru byggð þola síður öfluga jarðskjálfta en timbur og steinhús.
22.02.2009 18:30
Árborg vill selja lönd.
Bæjarstjórn Árborgar hyggst selja landspildur í eigu sveitarfélagsins. Um er að ræða Borg og Stóra- Hraun sem eru fornar jarðir í Eyrarbakkahreppi. Stóra-Hraun var til forna prestsetur og höfuðból. Síðustu ábúendur á Borg voru Ársæll þórðarson og bróðir hans Karl Þórðarson. Íbúðarhúsið að Borg var rifið fyrir nokkrum árum og var það vilji margra að þar yrði reistur sameiginlegur barnaskóli fyrir Eyrarbakka og Stokkseyri.
16.02.2009 17:17
Skjálftavirkni við Kaldaðarnes
Nokkuð hefur borið á skjálftavirkni á Kaldaðarnessprungunni nú síðasta sólarhringinn og eru flestir kippirnir á bilinu 1-2 stig. Sterkasti kippurinn kom um kl.16:00 og var um 2,5 stig. Hann fannst vel á Bakkanum og hefur sennilega rifjast upp fyrir mörgum skjálftabylgjurnar síðasta sumar.
Þessi skjálftahrina hófst seint á laugardagskvöld norður og suður eftir sprungunni eins og sjá má á korti Veðurstofu Íslands hér til hliðar.
Nokkur hreifing hefur verið á þessum slóðum allt frá stóraskjálftanum 29. maí á síðasta ári.
15.02.2009 23:55
Snjóinn tekinn upp
Allan snjó hefur tekið upp við ströndina eftir rigningar og hlýindum í lofti og kemur grasið víða grænt undan. Dálítið brim hefur verið í dag og súldarvottur. Áfram er spáð hlýju veðri og vætutíð með ströndinni fram á næstu helgi.
08.02.2009 14:54
Vesturbúð opnar.
Bakkabúðin hefur nú opnað undir nafninu Vesturbúð en undir því gælunafni gekk ein stæðsta verslun landsins á Eyrarbakka á sínum tíma. Eingin verslun hefur verið á þessum forna verslunarstað síðan Merkisteinn hætti rekstri í október á síðasta ári og er því þetta framtak kærkomið fyrir íbúa þorpsins. Það eru þeir Agnar og Finnur Kristjáns sem hafa reksturinn með höndum.
05.02.2009 23:36
Þyrnirós
þessi frétt birtist í Ísafold 11 nóvember 1899
Ung stúlka á Eyrarbakka, vinnu-
kona hjá héraðslækninum þar, var
fyrir nokkrum dögum búin að sofa á
aðra viku samfleytt, og tókst ekki að
vekja hana, hverra ráða sem i var
leitað.
03.02.2009 13:13
Athyglisverð nýsköpun í Hraungerði.
Feðgarnir Guðmundur Stefánsson og Jón Tryggvi Guðmundsson frá Hraungerði í Flóa standa í athyglisverðri nýsköpun í orkubúskap um þessar mundir. Það kom fram í sjónvarpsfréttum í gær að þeir feðgar framleiða metangas úr kúamykju og þykir mörgum athyglisvert að eitt kúabú geti framleitt eldsneyti fyrir 200 bíla. Búið getur verið sjálfu sér nægt um eldsneyti sem ætti að koma sér vel á þessum kreppu tímum.
Sjá nánar um gasstöðina heimasíðu Guðmundar.
29.01.2009 17:00
Púðursnjór og frostþoka
Það hefur kingt niður snjó síðustu daga og vetrarlegt um að lítast. Fyrir stuttu var vor í lofti en nú hefur vetur konungur vaknað aftur af værum blundi. Í morgun var púðursnjór yfir öllu og frostþoka.
Veðurspáin hljóðar upp á hæga vestlæga eða breytilega átt, skýjað með köflum og stöku él. Norðaustan 3-8 og léttir heldur til á morgun. Frost 0 til 5 stig. Áfram kalt.
Snjór í matinn.
Snjórinn á rafstöðvarhjólinu myndar stjörnu.
Stráin standa stjörf í snjóklæðum gengt briminu á Bakkanum.
18.01.2009 22:36
Hafnardeilan
Lefolii hafði verið einráð um verslun á Eyrarbakka allt þar til árið 1860 að framtaksamur bóndi nokkur Einar Jónsson að nafni fékk sér borgarabréf sem kallað var og byrjaði dálitla verslun í smáum stíl. Af þessu hlaut Einar viðurnefni sitt og var eftileiðis nefndur Einar borgari. Hann stundaði ekki innflutning eins og Lefolli verslun og aðrir kaupmenn heldur keypti hann vörur sínar í Reykjavík á næri sama búðarverði og þar og flutti þær austur yfir fjall á hestbökum og seldi svo með nokkurri álagningu.
Árið 1870 kom ungur Skaftfellingur til sjóróðra á Eyrarbakka, Guðmundur Ísleifsson að nafni og fjórum árum síðar var hann orðinn formaður á einu af þeim sex róðraskipum sem gengu þá á Eyrarbakka. Margir tóku Guðmund sér til eftirbreytni og jókst sjávarútvegur mjög á Bakkanum. (1891 gengu 30 teinæringar af Eyrarbakka og voru venjulega 13 menn á hverju skipi.) Fólki fjölgaði að sama skapi og þrefaldaðist íbúatalan á fáum árum.
Guðmundur fór um þessar mundir að huga að verslunarrekstri og árið 1886 hóf hann innflutning á vörum frá útlöndum ásamt Einari borgara. Það sem stóð þeim félögum fyrir þrifum í þessu efni var að Lefolii átti allar tiltækar akkerisfestar í Eyrarbakkahöfn og bannaði keppinautum sínum aðgang að þeim.
Þeir félagar Guðmundur og Einar sáu sig því tilneydda að leggja sínar egin festar í höfnina vestan við festar Lefolii verslunar eftir að beiðni þeirra um leigu á festum var hafnað af Lefolii. Þeir hófu þetta verk 31.janúar 1888 í trássi við bann Lefolii. En svo háttaði til að Lefolli verslun átti land það og skerin þar sem Guðmundi og Einari þótti hentugast að leggja festar sínar.
Þann 7. febrúar fékk Lefolii sýslumann Árnesinga til að lýsa banni réttarins á áframhaldandi framkvæmdir félaganna. Til að fá þetta bann staðfest þurfti Lefolii að höfða mál og var það dæmt í héraði 8.ágúst 1888. Féll héraðsdómur svo að bannið var fellt úr gildi. Þann 25. febrúar 1889 staðfesti yfirdómurinn í Reykjavík héraðsdóminn (Einn dómari var á móti L.E.Sveinbjörnsson)
Lefolii skaut máli sínu til hæstaréttar í Kaupmannahöfn og var dæmt í málinu veturinn 1890 og var þeim kaupmönnum Guðmundi og Einari bannað að halda áfram að leggja festar sínar.
Þetta mál fór brátt úr því að vera einkamál þeirra Lefoliis, Guðmundar og Einars í það að verða eitt brýnasta hagsmuna og velferðarmál Sunnlendinga og landsins alls í þeirri viðleitni að auka samkeppni og frelsi í viðskiptum.
Heimild: Lögberg (júli 1891)
12.01.2009 11:12
Þörungaeldsneyti
Fyrir skömmu fór í loftið frá Bush alþjóðflugvellinum í Houston í Texas í Bandríkjunum fyrsta farþegaþota heims af gerðinni Boeing 737-800 sem knúin er lífefnaeldsneytisblöndu sem búin er til með þörungum. þetta er annarrar kynslóðar eldsneyti sem unnið er úr endurnýjanlegum orkugjafa, sem hefur þann kost að hafa ekki áhrif á fæðuuppskeru eða vatnsnotkun eins og fyrri tilraunir með nýtingu á korni og öðrum lífmassa í eldsneytisgerð. Þörungana má nefnilega rækta í stórum stíl í stöðuvötnum eða jafnvel á sjó og þarf þá ekki að nota dýrmætt ræktunarland. Rannsóknir sem fram fóru með Boeing 747 þotum á Nýja Sjálandi sýna að hægt er að fljúga slíkum vélum á blöndu sem er að 50 hundraðshlutum lífefnaeldsneyti og venjulegt þotueldsneyti.
Það ætti ekki að vera erfitt fyrir Íslendinga að nýta sér þessa uppgötvun því viðast hvar með ströndum landsins vex mikið af þörungum og ekki síst út með ströndum Eyrarbakka og Stokkseyrar. Þegar gengnar eru fjörur má stundum sjá olíuna hreinlega vella undan þarabúnkum sem brimaldan hefur skolað á land og því ekki ósennilegt að úr þanginu mætti vinna verðmætt elsneyti.
Sjá frétt: vb.is