25.01.2010 23:50
Meira met
Hitastigið náði nýjum hæðum í dag með nýju dagsmeti 8.9 °C og skákaði 7,7° frá 1965. En það sem er merkilegra er að hámark mánaðarins 8,5° frá 12.janúar 1985 var sömuleiðis velt um koll. Víða var þó hlýrra í dag t.d. tæp 14 stig á Akureyri og líklega ekki spurning hvernig farið hefur fyrir skíðasnjónum. Annars gerði góða úrkomu síðasta sólarhring, eða 22 mm en engin met slegin á þeim vígstöðum. Liðna nótt var hvasst og jaðraði við storm á köflum. Á Bakkanum er blússandi brim þessa daganna.
24.01.2010 23:55
Hlýir straumar
Annan daginn í röð er hlýtt í veðri og komst hitinn hér í 8,1°C eins og í gær. Það er líka dagsmet og út er slegið 7,2° frá 1987. Toppinn í dag á þó Skjaldþingsstaðir með 12,1°C.
Nú er tekið að blása hressilega á Bakkanum með rigningunni sem fylgt hefur hlýndunum. Búist er við versnandi veðri í nótt.
Þennan dag: 1961 Faxi frá Eyrarbakka rak upp í fjöru í Þorlákshöfn.
23.01.2010 23:13
Sumarhiti í janúar
Það var víða hlýtt á Fróni í dag, sem dæmi var + 10,9°C á Skjaldþingstöðum og Mánárbakki með litlu minna, eða 10,2° og 9,7° voru í Bolungarvík sem telst frekar óvenjulegt á þessum árstíma. Hjá okkur á Bakkanum var líka hlýtt þó ekki næði þessum hæðum, en mest komst hitinn í 8,1°C og telst það dagsmet. Eldra er frá 1987 og 1992 með 7,2 °á þessum degi. Annars var hér frekar vætu og vindasamt í dag.
22.01.2010 16:54
Húsbrot og rupl í Rauðubúð
Vorið 1649 kom hér á Eyrarbakka skip eitt og þótti það ekkert óvenjulegt á þeirri tíð, enda skipakomu jafnan vænst með vorinu. Frá skipinu réru til lands 8 eða 9 strákar og sögðu mönnum að þeir ættu að sækja skreið. Við svo búið tóku þeir til hendinni og brutu upp glergluggana í danska húsinu (Rauðubúðum) og tóku helminginn af skreiðinni og fluttu til skips.
Matthias Söfrensson umboðsmaður á Bessastöðum hafði spurnir af þessum fréttum og sendi menn út á Eyrarbakka sem náðu að handsama þrjá af þessum strákum, en hinir piltarnir dvöldu á skipinu og vörðust þar yfirvaldinu um allnokkra hríð, en að lokum fór svo að yfirvaldið náði þeim öllum og tók skipið í sína vörslu.
Piltarnir voru síðan í gæslu böðulsins á Bessastöðum meðan mál þeirra voru í rannsókn. Foringi piltanna hét Marteinn. Honum tókst að losa sig úr járnum og strjúka frá Bessastaðaböðlinum og hélt norður fyrir jökul, þar sem hann komst um borð í enska duggu. Ekki fylgir sögunni hvað um hina varð, en giska má að þeir hafi ekki orðið langlífir.
Byggt á heimild: Fálkinn 16.tbl.1960 -Sjávarborgin. googleboks
21.01.2010 23:19
Hvass með köflum
Það var víða óveður um sunnan og vestanvert landið í kvöld. Veðrið náði aðeins að litlu leyti inn á ströndina við Eyrarbakka um kvöldmatarleitið þegar vindur náði hámarki og sló í storm, eða 20,3m/s. Ein vindhviða náði þó 29,4m/s sem er all hressilegt. Dagsmet var í hitastigi kl.23 en þá mældist 7,8°C sem er 0,6° meira en þennan dag 2004.
Talsvert brimaði í dag og allmikill sjóreykur þegar bæta tók í vindinn. Brim verður áfram næstu daga.
Framundan er sunnanátt og hvasst með köflum. Svo er spurning hvað gerist með laugardaginn, en þá gæti gert stuttann hvell.
19.01.2010 20:58
Heitur janúardagur
Það var hlýtt í dag og dagsmet slegið þegar hitinn náði hámarki kl. 10 í morgun, en þá fór hæðst í 7,9°C. Eldra met fyrir daginn var 7,7°C árið 1964. Heitasti janúardagur sem mælst hefur hér síðan 1957 var 12. janúar 1985 þegar mældist 8,5°C. Vafasamari hitamet í janúar er 9,3°C 9.janúar 1940 að öllum líkindum mælt á veggmæli.
Þennan dag: 1963 Vélbáturinn Kristján Guðmundsson ÁR rak upp í fjöru Mynd Vigfúsar af strandinu . 1967 Gíll sést á himni
18.01.2010 00:03
Dagsmet í úrkomu.
Óskaplega hefur ringt hér síðasta sólarhring og kemur því ekki á óvart að upp úr mælidalli veðurathugunarmannsins hafi komið töluvert vatnsmagn í morgun, en þá mældist 43 mm og telst það met fyrir þennan dag mánaðarins.Áður hafði mælst 25,0 mm þennan dag 2004 og 27,1 árið 1892. En met mánaðarins er hinsvegar mun meira, eða 107,5 þann 6. janúar árið 1947. En ef er talið frá árinu 1957 þegar mælingar voru öruggari og ábyggilegri þá hefur aldrei ringt viðlíka í janúar á einum sólarhring og á þeim síðasta.
Þennan dag 1991 gaus Hekla.
16.01.2010 23:19
Vindur og væta
Komandi vika mun vera vinda og vætusöm á Suðurlandi samkvæmt spám. Mun hann leggjast í sunnan og suðaustanáttir framan af vikunni með skúrum og rigningu. Heldur tekur að hvessa á þriðjudag og stendur á stíf SA næstu daga. Hvassast samkvæmt venju undir Eyjafjöllum, einkum á fimmtudag. Það horfir því til bleytutíðar á Bakkanum með hvössum rokum öðru hvoru út vikuna en að öðru leiti mildu veðri. Í dag afa verið hér töluverðar rigningadembur en ágætlega hlýtt miðað við árstíma.
16.01.2010 14:50
Glettur
Maður nokkur úr Flóanum kom í vesturbúðina á Eyrarbakka og sagði: "Góðan daginn og komið þér sælir, Nielsen. Nú er nokkuð komið fyrir: Nú er pápi dauður og ég ætlaði að biðja yður að láta okkur fá út í reikninginn okkar sína ögnina af hverju - kaffi, sykri, kaffirót og svo á kútinn". "Ja, ég skal nú gá að", svaraði Nielsen. "Það er ekki að gá að því- hann er dauður", sagði maðurinn.
15.01.2010 22:46
Glettur
Vigfús bóndi Ófeigsson í Framnesi á Skeiðum, vildi vera reifur í kaupstaðarferðum eins og mörgum hinna gömlu bænda hætti til. En með því að hann var maður sparsamur, gat hann ekki dulið sig þess, að brennivínið dró út aura.
Nú var það, að hann var að kaupa sér brennivín hjá Einari borgara á Eyrarbakka og þótti verðið nokkuð hátt. "Það veit ég, að guð getur grátið yfir því, hvað brennivínið er dýrt hér", varð honum að orði. "Og ekki held ég, að hann gráti yfir því", svaraði Einar borgari og' glotti við tönn. "Svo mikið er vist", sagði Vigfús, "að ekki hlær hann að því".
Tíminn 19.tbl.1964
13.01.2010 21:30
Glettur
Sveinn silkivefari átti heima á Eyrarbakka. Ekki var hann í tölu ríkismanna, en var öðrum mönnum fremri við vefstólínn. Sveinn tók til sín stúlku úr átthögum sínum, Hvolhreppi í Rangárvallasýslu, og leið ekki á löngu, áður en hann hafði gert henni barn. Hreppsnefndinni leist ekki á þetta háttalag, og gerði hún silkivefaranum heimsókn. Sveinn vissi upp á sig skömmina og þótist þurfa að bera í bætifláka fyrir sig og stúlkuna:
"Fyrst lét ég hana sofa í beddanum", sagði hann, "og henni leiddist það, vesalingum. Þá lét ég hana sofa hælfætis, en þar kunni hún ekki við sig. Þá lét ég hana sofa uppi í til en þá gat ég ekki að mér gert."
Heimild: Tíminn 1.tbl 1964
Þennan dag:1975 Aftaka veður.
12.01.2010 22:18
Glettur
Magnús Magnússon í Laufási veiddi sumarið 1963 furðulax í net sitt í Ölfusárósum. Laxinn var hængur og vóg 1250 gr. og var 40 cm. á lengd. Furðulaxinn var sendur veiðimálastofnun til ransóknar. Mönnu þótti það einkennilegt að fiskurinn hafði laxa haus og laxa sporð, en búkurinn væri annarar tegundar.
Á þessum degi: 1913 Lognflóðið. Sjógarðar brotna.
11.01.2010 22:54
Glettur
Einar Ingimundarson umboðsmaður í Kaldaðarnesi var nokkuð vínhneigður og þótti fullhressilegur í tali, þegar hann var ölvaður. Lét hann þá stundum meira yfir sínu en efni stóðu til. Eitt sinn var Einar í Eyrarbakkabúð um miðsumarleyti og vildi fá vöru í reikning sinn, en Nielsen verslunarstjóri færðist undan og bar því við að uppgjör stæði fyrir dyrum.
Þá mælti Einar: "Ég er umboðsmaður og hef yfir mönnum að segja, og þegar ég býð einum að fara, þá fer hann, og öðrum að koma, þá kemur hann, og ef ég fæ hér ekki það, sem ég þarf, sleppi ég af ykkur hendinni. Þið getið farið á hausinn fyrir mér, og réttast væri, að ég ræki fimmtíu naut suður á morgun".
Þennan dag: 1993 Ófært í þorpinu vegna snjóa.
10.01.2010 21:47
Glettur
Ari í Stöðlakoti á Eyrarbakka hlýddi eitt sinn á, er menn ræddu um kvensemi. Vildi hann leggja orð í belg og segir: "Ja, kvenskur er ég, en kvenskari er þó konan mín"
Jón Magnússon átti heima í Mundakoti á Eyrarbakka. Bústýra hans hét Guðbjörg Jónsdóttir. Jón sló ekki hendinni á móti áfengi, en Guðbjörgu var mjög á móti skapi, að hann drykki. Svo var það á páskadagsmorgun, að Jón fékk sér allríflega hressingu og var hann alldrukkinn orðinn þegar um hádegi. Sló þá í brýnu með þeim Guðbjörgu. Eftir nokkurt hnotabit mælti Jón: "Það er ekki annað eins drægsli á hnettinum og þú". Guðbjörg svaraði: "Þú útvaldir þér þó þessa faldaeyju".
Þennan dag: 1967 flæddi inn úr sjógarðshliðum í stórveltubrimi. 2000 Ofsaveður og stórsjór gekk á land. Miklir sjávarskaðar á Stokkseyri og Grindavík.
09.01.2010 23:52
Vandræðabarnið Icesave
Icesave - reikningarnir voru netreikningar sem Landsbankinn stofnaði í Bretlandi og Hollandi. Heildarupphæð innistæðna á reikningunum nam jafnvirði rúmlega 1.200 milljarða króna.
Nú þegar Icesave samningurinn er kominn í hendur almennings til úrskurðar, verður vart undan því vikist að taka þetta vandræðabarn skoðunar og gaumgæfa kosti þess og galla, en einkum þó gallana, því samningurinn inniheldur enga kosti fyrir íslendinga. Forsögu málsins þekkja allir núlifandi landsmenn og því ástæðulaust að fara nánar út þá dapurlegu sálma.
Samningurinn er óvenjulegur að því leiti að þriðja aðila, þ.e. íslenska ríkinu og þar með íslenskum skattgreiðendum fyrir hönd Tryggingasjóðs innistæðueigenda, gert að ábyrgjast greiðslur fyrir tjón breskra og hollenskra fjármagnseigenda sem áttu innistæður á svokkölluðum Icesave reikningum í þessum löndum þegar einkabankarnir hrundu í fjármálakreppunni haustið 2008, burtséð frá sökudólgum í málinu.
Samningurinn er stórhættulegur fyrir íslendinga m.a. fyrir það að óljóst er hvað fæst fyrir eignir Landsbankanns og hvað íslenska ríkið þarf því að standa straum af.
Fyrir breta og hollendinga er samningurinn gulltryggður og morandi í öryggisákvæðum fyrir þeirra hönd, en engar slíkar eru að finna fyrir íslendinga, nema þá helst 16.gr.
Í samningnum er engin vægðarákvæði gagnvart utanaðkomandi atvikum sem geta haft veruleg áhrif á mögulega gjaldeyrisöflun í framtíðinni og greiðslugetu þjóðarbúsins, svo sem [a] Styrjöld í viðskiptalandi eða á hafsvæðum umhverfis landið. [b] Langvarandi verkföll í helstu viðskiptaríkjum eða hér heima. [c] Stórfeldar nátturuhmfarir í viðskiptalöndum eða á Íslandi. [d] Annað hrun á fjármálamarkaði. [e] Aflabrestur.
Í gr. 16 er það í höndum breta eða hollendinga að fallast á fund þegar breytingar verða á aðstæðum til hins verra og AGS metur að svo sé.
Það mætti halda að það eina sem okkar samningamenn hafi sagt við viðsemjendur okkar væri eitt orð "yes"
Án vægðarákvæða og fundarskildu samningsaðila, væri afar óskynsamlegt að samþykkja þennan nauðasamning. Framtíðin er óskrifað blað og ekki viturlegt að treysta einungis á guð og lukkuna.