10.02.2010 22:15

Glettur

Pálína Pálsdóttir í HraungerðiBergur í Kálfhaga var oft fljótur til svars og gamansamur í orðum. Hann varð maður gamall, en eltist vel. Eitt sinn er hann var kominn á efri ár, hitti hann kunningjakonu

sína, Pálínu Pálsdóttur frá Eyrarbakka, og sagði hún þá við hann: "En hvað Þú ert alltaf fallegur, Bergur minn, þó að þú eldist." Hann svaraði samstundis: "Það er von, væna mín. - Þetta er af svo miklu að taka."
Spaug

09.02.2010 22:38

Kambsránið 1827

Tugthúsið var ekki komið þegar Kambránsmenn voru uppi og voru þeir sendir til danmerkur.Rán það sem svo er nefnt var framið að Kambi í Árnessýslu aðfararnótt 9.dags febrúar árið 1827. Þá nótt komu þeir ránsmenn Sigurður Gottsveinsson, Jón Geirmundsson, Jón Kolbeinsson og bróðir hans Hafliði að Kambi. Voru þeir skinnklæddir og höfðu strigatuskur og dulur fyrir höfðum sér og fyrir andlitum, til þess að gera sig torkennilega. Foringi þeirra Sigurður Gottsveinsson var útbúinn með langt og oddhvast saxi, sér til varnar og móttstöðu ef á þyrfti að halda.

Þeir komu að bænum um miðnætti í hinu mesta illviðri og brutust inn í bæinn. Fólk allt, Hjörtur bóndi Jónsson, vinnukonur hans tvær og barn 6 ára gamalt voru í fasta svefni. Ránsmenn gengu að rekkjum og gripu heimafólk nakið og færðu niður á gólf og bundu á höndum og fótum. Síðan dysjuðu þeir það allt á gólfinu undir reiðingi, sængurfötum, kvarnastokki, kistu og öðru þvílíku sem þeir náðu að þrífa til í myrkrinu.

Þá tóku þeir til við ránið, brutu upp kistu og kistil sem peningar Hjartar voru geymdir í, en ógnuðu honum á meðan, og kváðust mundu skera hann á háls ef hann segði ekki til peninga sinna. Þá er þeir höfðu rænt meira en 1.000 dala virði í peningum og að auki ýmsum öðrum munum er þeir töldu sig hafa not fyrir, hurfu þeir á braut og skildu fólkið eftir bundið á gólfinu. Foringi þeirra Kambránsmanna vildi leggja eld að húsinu við brottför þeirra en meðreiðarsveinar hans löttu til þess og varð því ekki úr því illvirki.

Þjófafélag þetta hafði ástundað mörg eignarrán á ýmsum stöðum í Árnessýslu, m.a. úr Eyrarbakkaverslun, þar til að upp um þá komst fyrir tilstilli hinnar skarpskyggnu konu Þuríðar formanns á Stokkseyri.

Þennan dag:1913 Aftaka veður og sjógangur, sjógarðar brotna.1972 Loðnufrysting hefst hér.

07.02.2010 23:58

Hús-Magnús

Sölkutóft, húsið var rifið fyrir löngu.Hús- Magnús var frægur formaður á Bakkanum fyrir aldamótin 1900. Hann var ættaður úr Sölkutóft og fékk viðurnefnið af því að hann var lengi vinnumaður í Húsinu og síðar formaður á skipum dönsku verslunarinnar. Hann var afburða formaður og hugrakkur með eindæmum. Hann kom mörgum sjómanninum til bjargar á ögurstund þegar skip þeirra urðu fyrir áföllum í brimgarðinum og vílaði hann sér ekki við að æða út á móti þeim á skipi sínu fram í bandvitlausan brimgarðinn. Eitt sinn runnu þó tvær grímur á Hús-Magnús:
Jón í Mundakoti og Loftur í Sölkutóft [þá ungir menn] voru hásetar hjá Hús-Manga er hann bjargaði áhöfn Jóns frá Fit þegar skipi hans hlektist á og það fyllti á Rifsósi. Þeir Jón og Loftur voru þeir einu af hásetum Hús-Manga sem eitthvað höfðust að en hinum féllust hendur. Loftur fór um borð í marandi skipið til að skera einn hásetann úr lóðinni sem hann var flæktur í. Meðan á því stóð nálgaðist ólag mikið og skipaði Hús-Mangi að skilja þá eftir og róa til lands en Jón í Mundakoti þreif þá í báða mennina og vippaði þeim eins og ullarballa um borð í skip Hús-Manga og björguðust þeir þannig.

Heimild:SA/ Eyrarbakki - Saga og Atburðir

05.02.2010 21:38

Víðfem og djúp lægð

Veðurkort Google EartÞessi óvenju djúpa og víðáttumikla lægð hringar sig eins og ormur langt suður í hafi. Í dag var hún 940mb og nærri kyrrstæð, en búist er við að skil frá henni fari yfir S- Bretland.

Til samanburðar var dýpsta lægð sem komið hefur yfir Ísland síðan mælingar hófust mæld 919,7 mb, en það var á Stórhöfða 2. desember 1929. en með síðari leiðréttingu er sú lægð talin hafa verið 923,6 hPa.


02.02.2010 23:04

Þegar Bakkinn hvarf í snjóinn.

Ófærð 1966 [Morgunblaðið]Þann 28. janúar til 2. febrúar 1966 gerði norðan hvassviðri með svarta skafrenningi sem á einni viku færði þorpið á bóla kaf í snjó, en allur snjór frá rótum Ingólfsfjalls sópaððist til strandar og gerði þorpið kolófært. Þá hafði ekki komið annar eins snjór í 30 ár á Bakkann. Mjólkurbíllin komst ekki frá Selfossi fyrr en eftir fjóra daga og þó ekki lengra en að Litla-Hrauni og sat þar fastur í skafli og þangað urðu þorpsbúar að klöngrast eftir mjólkinni.  Sum hús voru með útihurðir sem opnuðust út og lokuðust því inni í húsum sínum og þurfti að grafa fólk út. En það var fleira en mannfólkið sem lenti í hrakningum þessa daga. Á Bakkanum var þá nokkuð stór stofn af frjálsum dúfum sem bæði misstu aðgang að vatni og æti í fannferginu og þegar kuldinn og húngrið sveif að báðust margar þeirra hjálpar þorpsbúa með því að húka við útidyr. Margir hleyptu dúfunum inn til sín þar sem þær nutu góðs yfirlætis þorpsbúa næstu tvær vikur á meðan hretið gekk yfir. Þetta uppátæki Bakkadúfnanna vakti óskipta athygli yngri kynslóðarinnar og tíðar urðu heimsóknir þeirra á dúfnaheimilin. Æ síðan þótti mögum vænt um frjálsa dúfnastofninn og þótti það miður og afar sorglegt þegar honum var útrýmt um og eftir 1985.
Veðurklúbbur

31.01.2010 19:50

Janúar í myndum

Eyjar rísa í hyllingum
Eyjarnar rísa í hillingum. Stokkseyrarfjara í forgrunni.
Baugstaðarviti
Baugstaðaviti. Eyjafjallajökull í bakgrunni.
Hekla
Hekla skartar sínu fegursta og tilbúinn í næsta gos.
Janúarsólin kveður
Janúarsól kveður með skrautsýningu.
Sólsetur á Eyrarbakka
Maðurinn og hafið.

29.01.2010 18:08

Þegar túnglið verður fullt

Túnglið rís ofan við Selfoss í dag.Venjulega er tunglið fullt einu sinni í mánuði, en stöku sinnum gerist það tvisvar. Á miðöldum trúðu margir Evrópubúar að fullt túngl ylli andlegri ringulreið hjá mannfólkinu og var það kallað "Lunar áhrifin" og þá gátu menn orðið "lunancy" þ.e. geðveikir. Á morgun er hinsvegar fullt tungl og hvort það hafi einhver áhrif á þjóðarsálina á eftir að koma í ljós. Tunglið hefur þó sannarlega áhrif á hafið og næstu þrjá daga verður verulega stórstreymt, sem þýðir  hátt sjávarmál á flóði, en að samaskapi afar lágsjávað á fjöru.

28.01.2010 23:30

Búðargletta

VesturbúðarbryggjanJónína hét kona ein á Bakkanum og lét ekki eftir sér að brúka munn þegar svo bar við. Einhverju sinni er hún var að vinna við uppskipun gerðist það óhapp að hún hrasaði á sleypri bryggjunni og lennti á flöskubrotum með munninn og skarst all mikið.

Þegar þetta óhapp barst í tal við búðarborðið í Vesturbúðinni varð manninum hennar þetta að orði: " Jú, munnurinn á henni Nínu, sá fékk nú heldur betur á kjaftinn"
J
Þennan dag:1966 Þorpið varð ófært vegna fannfergis.

27.01.2010 22:27

Búðargletta

Metingur var milli tveggja karla í Hraunshverfi á Eyrarbakka um það hvor þeirra væri ríkari.

Eitt sinn þegar þetta barst á tal í Vesturbúðinni var öðrum karlinum þetta að orði " Það er þó alltaf munur á að þegar Jón hrekkur uppaf, þá fær strákurinn hans allt, en ég á allt eftir minn dag" J

25.01.2010 23:50

Meira met

Hitastigið náði nýjum hæðum í dag með nýju dagsmeti 8.9 °C og skákaði 7,7° frá 1965. En það sem er merkilegra er að hámark mánaðarins 8,5° frá 12.janúar 1985 var sömuleiðis velt um koll. Víða var þó hlýrra í dag t.d. tæp 14 stig á Akureyri og líklega ekki spurning hvernig farið hefur fyrir skíðasnjónum. Annars gerði góða úrkomu síðasta sólarhring, eða 22 mm en engin met slegin á þeim vígstöðum. Liðna nótt var hvasst og jaðraði við storm á köflum. Á Bakkanum er blússandi brim þessa daganna.

24.01.2010 23:55

Hlýir straumar

Annan daginn í röð er hlýtt í veðri og komst hitinn hér í 8,1°C eins og í gær. Það er líka dagsmet og út er slegið 7,2° frá 1987. Toppinn í dag á þó Skjaldþingsstaðir með 12,1°C.
Nú er tekið að blása hressilega á Bakkanum með rigningunni sem fylgt hefur hlýndunum. Búist er við versnandi veðri í nótt.

Þennan dag: 1961 Faxi frá Eyrarbakka rak upp í fjöru í Þorlákshöfn.

23.01.2010 23:13

Sumarhiti í janúar

8,1°CÞað var víða hlýtt á Fróni í dag, sem dæmi var + 10,9°C á Skjaldþingstöðum og Mánárbakki með litlu minna, eða 10,2° og 9,7° voru í Bolungarvík sem telst frekar óvenjulegt á þessum árstíma. Hjá okkur á Bakkanum var líka hlýtt þó ekki næði þessum hæðum, en mest komst hitinn í 8,1°C og telst það dagsmet. Eldra er frá 1987 og 1992 með 7,2 °á þessum degi. Annars var hér frekar vætu og vindasamt í dag. 

22.01.2010 16:54

Húsbrot og rupl í Rauðubúð

Vorið 1649 kom hér á Eyrarbakka skip eitt og þótti það ekkert óvenjulegt á þeirri tíð, enda skipakomu jafnan vænst með vorinu. Frá skipinu réru til lands 8 eða 9 strákar og sögðu mönnum að þeir ættu að sækja skreið. Við svo búið tóku þeir til hendinni og brutu upp glergluggana í danska húsinu (Rauðubúðum) og tóku helminginn af skreiðinni og fluttu til skips.

Matthias Söfrensson umboðsmaður á Bessastöðum hafði spurnir af þessum fréttum og sendi menn út á Eyrarbakka sem náðu að handsama þrjá af þessum strákum, en hinir piltarnir dvöldu á skipinu og vörðust þar yfirvaldinu um allnokkra hríð, en að lokum fór svo að yfirvaldið náði þeim öllum og tók skipið í sína vörslu.

Piltarnir voru síðan í gæslu böðulsins á Bessastöðum meðan mál þeirra voru í rannsókn. Foringi piltanna hét Marteinn. Honum tókst að losa sig úr járnum og strjúka frá Bessastaðaböðlinum og hélt norður fyrir jökul, þar sem hann komst um borð í enska duggu. Ekki fylgir sögunni hvað um hina varð, en giska má að þeir hafi ekki orðið langlífir.

Byggt á heimild: Fálkinn 16.tbl.1960 -Sjávarborgin. googleboks 

21.01.2010 23:19

Hvass með köflum

HvassviðriÞað var víða óveður um sunnan og vestanvert landið í kvöld. Veðrið náði aðeins að litlu leyti inn á ströndina við Eyrarbakka um kvöldmatarleitið þegar vindur náði hámarki og sló í storm, eða 20,3m/s. Ein vindhviða náði þó 29,4m/s sem er all hressilegt. Dagsmet var í hitastigi kl.23 en þá mældist 7,8°C sem er 0,6° meira en þennan dag 2004.
Talsvert brimaði í dag og allmikill sjóreykur þegar bæta tók í vindinn. Brim verður áfram næstu daga.

Framundan er sunnanátt og hvasst með köflum. Svo er spurning hvað gerist með laugardaginn, en þá gæti gert stuttann hvell.

19.01.2010 20:58

Heitur janúardagur

Það var hlýtt í dag og dagsmet slegið þegar hitinn náði hámarki kl. 10 í morgun, en þá fór hæðst í 7,9°C. Eldra met fyrir daginn var 7,7°C árið 1964. Heitasti janúardagur sem mælst hefur hér síðan 1957 var 12. janúar 1985 þegar mældist 8,5°C. Vafasamari hitamet í janúar er 9,3°C 9.janúar 1940 að öllum líkindum mælt á veggmæli.

Þennan dag: 1963 Vélbáturinn Kristján Guðmundsson ÁR rak upp í fjöru Mynd Vigfúsar af strandinu . 1967 Gíll sést á himni

Flettingar í dag: 78
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 444
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 378473
Samtals gestir: 42916
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 08:30:26