22.04.2010 20:02
Öskufall líklegt út með suðurströndinni.
Ekki er hægt að útiloka öskufall í einhvejum mæli vestur með suðurströndinni næstu daga. Öskufallspá veðurstofunnar má nálgast hér, en búist er við austanáttum fram í næstu viku. Það fer svo eftir magni og gerð öskumyndunar í eldstöðinni á Eyjafjallajökkli í hversu miklum mæli og hversu langt askan berst út í andrúmsloftið.
22.04.2010 00:41
Sumardagurinn fyrsti

Öldum saman var Sumardagurinn fyrsti hinn mesti gleðidagur, Þá voru víðast til snæðings magálar og brauð og þótti dauft, ef slíkt var eigi á borðum. Þá voru sumargjafir gefnar og fengu þá börnin oft pottkökur í sumargjöf, sem þeim var treint lengi fram eftir vorinu. Annars þótti ei annað sæmandi en að sýna af sér rausn þennan dag og láta af hendi rakna eina sokka, lín í skautafald, traf eða eitthvað þess háttar.
21.04.2010 13:45
Síðasti vetrardagur.
Veðurstofan segir miklar líkur á að sumar og vetur frjósi saman í nótt um allt land. Samkvæmt gamalli þjóðtrú veit á gott sumar ef sumar og vetur frýs saman aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Þannig þarf hiti að fara niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta til að þetta sé gilt, 0°C duga ekki til. Það var jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.
18.04.2010 21:21
Veðráttan 12-18 apríl
Hiti var nokkuð stöðugur á milli 5 og 10°C fram til 16. apríl, en þá kólnaði snögglega. Mesti hiti
mældist þann 12 apríl 10°C en minsti hiti að morgni þess 17. -4.1°C
Mesti vindur var þann 16. SV 8.8 m/s og mesta hviða SV13.3 m/s sama dag. Stillulogn var um miðnætti 15.apríl. Vindáttir hafa verið mest af Sunnan og Suðvestan framan af vikunni en síðdegis 16.apríl snerist til Norðvestanáttar þar til í nótt að snerist til Sunnan og Suðvestann með hægviðri.
Mesta úrkoma mældist 1.2 mm/klst þann 13. og15. en mesta 24 tíma úrkoma var 9mm þann 16. Heildarúrkoma í vikunni var 12,6 mm. Ekkert sást til eldstöðvanna í Eyjafjallajökli fyrr en síðdegis á föstudag, en útsýni var síðan mjög gott á laugardag. Ekkert sást í dag, en ágætlega ætti að sjást um hádegisbil á morgun mánudag. Flestir vorfuglarnir komnir, tjaldur og lóa.
Allar veðuruplýsingar eru fengnar frá veðurstöð BÁB.
17.04.2010 18:33
Veðurstofan gerir spá um öskufall
Samkvæmt spá veðurstofunnar um öskufall fram á þriðjudag verður það mest suður undan Eyjafjöllum og virðist hættan varðandi öskufall í þéttbýli vera mest í Vestmannaeyjum.
Á veðurathugunarstöðvum er öskufall mælt reglulega og má finna upplýsingar frá veðurathugunarmönnum hér. Á vef Veðurstofunar má jafnan fá nýjustu spár um öskufall.
Ekki eru líkur á að aska berist til Eyrarbakka eða nágreni á næstunni m.v. óbreyttar langtíma veðurspár, eftir því sem BÁB. kemst næst, en líkurnar aftur á móti meiri að einhver aska berist í uppsveitirnar síðar í næstu viku ef öskugosið heldur sama dampi og verið hefur, en spáð er breytilegum áttum öðru hvoru í næstu viku.
16.04.2010 20:28
Engin orð fá þessu lýst
Gosið sést orðið vel frá Eyrarbakka og öllum að verða ljóst þvílíkar óskapar hamfarir eru að eiga sér stað, með jökulhlaupum og öskufalli sem berst jafnvel vítt og breitt um heiminn.
Myndirnar hér tala sínu máli.
Meira af gosinu
16.04.2010 13:33
Gosmyndir frá NASA
Myndin hér að ofan er tekin 14. apríl af toppgosinu í Eyjafjallajökli.
Stærri myndir:http://earthobservatory.nasa.gov/NaturalHazards/view.php?id=43676
Þessar myndir í náttúrulegum litum frá NASA sýna hraunrenslið og bráðnun ís á Fimmvörðuhálsi 24.mars 2010. Stærri myndir má finna á: http://earthobservatory.nasa.gov/NaturalHazards/view.php?id=43252
15.04.2010 23:48
Öskufall, svo að sporrækt var
Þegar Katla gaus 1918 þá sást bjarminn alla leið frá Akureyri. Öskufall var svo mikið þar sem víðar að sporrækt var á götum. Sveitirnar kringum Kötlu biðu mikið tjón af öskunni. Æsktu bændur þar, að mega flytja hesta sína af landi burt, en ræðismaður Breta í Reykjavík leyfði það ekki. Í Kötlugosinu sem hófst 11. maí 1721 var öskufallinu lýst svo: Þann 12 maí var bjart veður með litlu öskufalli og eins um næstu nótt.
"Þann 13 nær miðjum morgni enn dagmálum sló yfir þvílíku myrkri, að fólk í Skálholts sveitum mundi ei annað þvílíkt, og morgunsöngur í Skálholti var haldin við ljós. Þó gengu aldrei meiri stór brestir heldur en meðan þetta svarta myrkur yfir stóð, sem varaði allt til hádeigis, og ef maður rétti hendina útum dyr eða glugga, þurfti það litla stund að halda henni, áður hún fylltist af ösku".
Ekki ósvipað ástandinu og fyrir austan í dag.
Heimild. Fylkir 1919 Náttúrufræðingurinn 1955
14.04.2010 11:02
Skyggni næstu daga
Ekki er líklegt að vel sjáist til nýja gossins í Eyjafjallajökli fyrr en á laugardag, en þá mun rofa verulega til á sunnanverðu landinu samkvæmt skýjaspám. Um hádegi á laugardag eru góðar líkur til að heiðskýrt verði yfir jöklinum. Þá verður komin Norðan eða NV átt með fremur svölu veðri. Mögulegt er að eitthvað sjáist til gossveppsins af suðurlandsundirlendinu á næstu klukkustundum, en fljótlega fer útsýni versnandi á þessum slóðum þar sem skúraleiðingar munu fara vaxandi á svæðinu næstu sólahringa.
13.04.2010 21:23
Stokkseyrarmáfurinn kominn
Nú andar suðrið sæla og hettumáfurinn er kominn enn á ný. Fyrsta hettunáfshreiðrið hérlendis fannst í tjarnarhólma nálægt Stokkseyri um 1910. Tegundin var þá mjög algeng í danmörku og ekki er ósennilegt að náttúrukönnuðurinn og verslunarmaðurinn P.Nielsen í húsinu hafi uppgötvað landnemann, en allavega var fuglinn kallaður "Stokkseyrarmáfur" fyrst um sinn. Árið 1930 var hettumáfurinn búin að nema land norður í Mývatnssveit. Á haustin tekur fuglinn ofan hettuna.
Vísir 1913/ Suðurland 1913
12.04.2010 23:20
Um Helský
Mestu eldgos á jörðinn eru sprengigos sem framleiða gjóskuflóð eða helský. Fundist hafa forn gjóskuflóð í Þórsmörk úr Tindfjöllum o.fl. stöðum sem benda til gosa af þessari gerð. Helský valda gjöreyðingu þar sem þau flæða yfir en yfirleitt eru íslensk þeytigos of kraftlítil til að fara í þennan ham. Helský getur orðið til ef gjóska streymir með svo miklum hraða í stróknum sem stendur upp úr gígnum að hún nær ekki að blandast andrúmslofti, og fær því ekki lyftingu við að hita loftið, heldur þeytist skammt upp eins og í gosbrunni og fellur síðan til jarðar umhverfis gíginn eins og glóðandi snjóflóð.
Þegar gjóskuflóð renna yfir land rýkur úr þeim fín aska, gas og heitt loft og rís því mikill mökkur upp frá yfirborði flóðsins. Það er þó einungis fínasta askan sem losnar úr flóðinu og myndar stóran gjóskustrók upp í 20 til 50 km hæð, strók sem á rætur sínar í flóðinu en ekki yfir gígnum.
Ekki ljóst hvaða þættir stjórna krafti þeytigosa en margt bendir til að þar ráði stærð kvikuþróar mestu, því sterk fylgni er milli heildargosmagns og streymishraða í sprengigosum.
Helstu dæmin um helský eru þegar Mount St Helens sprakk 1980 og Mount Pelee á Martinique eyju sem gaus árið 1902 og varð 28.000 manns að aldurtila á einu auga bragði, og einnig gosið í Pinatubo á Filippseyjum 1991 sem var næstmesta gos á 20. öldinni. Mesta gos á síðustu öld var sprengigosið í Movarupta í Alaska 1912 og heyrðist sprengidrunan í 750 km fjarlægð. Öskuflóðið lagði allt í rúst í 30 km. fjarlægð. Samskonar gos varð í eldfjallinu Tambora á eyjunni Jövu 1815. Þessi eldfjöll eiga það allt sameginlegt að vera ævagömul og með afarstóra kvikuþró.
Heim.:Haraldur Sigursson, Náttúrufr.63, 1993/ publicbookshelf.com/ geology.com > Geology Articles
11.04.2010 14:46
Að liðnum vetri
Veturinn gerði vart við sig í byrjun oktober síðastliðnum þegar fjallahringurinn klæddist hvítum kufli. Fyrsti snjórinn féll svo á Bakkanum 5. oktober og var það enginn smá skamtur, því morgunin eftir mældist 20 cm jafnfallin snjór. Það merkilega var að þessi snjór féll aðeins hér á ströndina og Reykjanesið. Fyrsti vetrarstormurinn kom svo þann 9.
Nóvember var mildur í fyrstu og oft gerðu falleg veður við ströndina. Í byrjun aðventu gerði snjóbyl mikinn með skafrenningi og hófst þannig jólamánuðurinn. Mesta frost vetrarins kom svo 30.desember, en þá mældist -16.6°C . Þann 9. janúar tók svo að hlýna verulega með suðlægum áttum og súld.
Undir lok febrúar gerði mikið fannfergi og þrumuveður, en þær vetrarhörkur stóðu stutt. Mars var í mildara lagi og oft hlýr, en einkenndist annars af "gluggaveðri" með norðan strekkingi, og annars fallegu veðri fram undir páska. Síðan hefur farið smám saman hlýnandi en jafnfarm vindasamt á köflum.
07.04.2010 23:44
Skrímslið úr storminum
Setbergsannáll getur þess að árið 1540 hafi komið stórflóð þá um haustið. "Tók þá víða hjalla og hús syðra, sem lágt stóðu."
Björn fræðimaður á Skarðsá fitar svo í annál sinn 1594: "í þessum sama stormi var brimgangur ógurlegur. Sást þá á Eyrarbakka, á Háeyri og Skúmstöðum, skrímsli. Það var ferfætt og hábeinótt, selhært, hafði annað hvort svo sem hundshöfuð eða hérahöfuð, en eyrun voru svo stór sem íleppar. Lágu þau á hrygginn aftur; bolurinn var svo sem folaldskroppur og nokkuð styttri, hvít gjörð var yfir það hjá bógum, en var grátt eða svo sem móálótt aftur frá; rófan var löng og stór, kleppur svo sem ljónshala á endanum, frátt sem hundur, sást á kveldin.