20.05.2010 21:24
Gullfoss ÁR 204
Gullfoss var 11 tn. smíðaður á Akureyri 1930 úr eik og beyki. Árið 1943 keyptu Árni Helgason í Akri og sonur hans Sveinn Árnason bátinn og gerðu út frá Eyrarbakka. 1955 var báturinn seldur til Ytri Njarðvíkur og hét þá Sigríður GK 78. Báturinn sökk við Ólafsvík 1959 og hét þá Sigríður RE 350.
15.05.2010 22:22
Emma II ÁR 19
Báturinn var smíðaður í Danmörku 1916 40tn. með 60 ha.Thuxham vél. Keypt hingað frá Vestmannaeyjum, þá með 150 ha. Hundsded vél. Eigandi Reynir Böðvarsson. Báturinn ónýttist og tekinn af skrá 1970. Rifinn í slippnum á Eyrarbakka.
14.05.2010 23:42
Öskufall
Þegar menn risu úr rekkju í morgunsárið brá mörgum í brún hér á Bakkanum, því mikið öskuský lá yfir og ringdi úr því drullug askan. Þetta voru þó smámunir miðað við það sem íbúar og bændur undir Eyjafjöllum þurfa að búa við. Þessar myndir voru teknar í gær undir Eyjafjöllum við Steina og bæinn Þorvaldseyri sem vart grillir í vegna öskufalls.
13.05.2010 22:44
Öldungur ÁR 173
Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1923 úr eik. 10 tonn með Hansa vél. Guðmundur Guðmundsson á Eyrarbakka átti bátinn upphaflega. 1931 var Öldungur seldur til Stokkseyrar. Báturinn kom aftur á Bakkann 14.maí 1938 þegar Sigurður Kristjánsson, Kristinn Jónsson, Sveinn Árnason og Árni Helgason keyptu hann. 1943 var Öldungur seldur til Suðureyrar við Súgandafjörð. Báturinn var afskráður 1953.
Heimild: Íslensk skip
12.05.2010 22:46
Bakkakrían kominn
12.05.2010 22:33
Ægir ÁR 183
Smíðaður á Eyrarbakka 1940 úr eik. 15 br.l. Eigendur voru Magnús Magnússon og Jón Guðjónsson á Eyrarbakka. Báturinn var lengdur 1958 (21 br.l.) 1952 eignuðust Guðmundur Einarsson og Guðmann Valdimarsson á Eyrarbakka bátinn. Seldur 1960 til Hafnafjarðar.
12.05.2010 22:22
Freyr ÁR 150
Smíðaður í Reykjavík 1916 úr eik. 12 br.l. Eigendur af bátnum voru Jón Helgason, Kristinn Gíslason og Guðmundur Jónsson á Eyrarbakka. Báturinn strandaði og sökk í Þorlákshöfn 28.mars 1940.
Jón Helgason frá Bergi ()
11.05.2010 22:15
Freyja ÁR 149
Báturinn var smiðaður á Eyrarbakka 1916 úr eik 9.br.l. með 10 ha.Dan vél. Eigendur af Freyju voru Jóhann E Bjarnasson o.fl. Eyrbekkingar. Báturinn slitnaði af legu á Eyrarbakka í des. 1936 og sökk. Engan sakaði.
Heimild Íslensk skip.
10.05.2010 23:55
Björgvin ÁR 55
Báturinn var smíðaður á Eyrarbakka 1916 og voru eigendur Jóhannes Sigurjónsson, Þorkell Þorkellsson og Guðmundur Sigurjónsson á Stokkseyri.1942 var Báturinn seldur til Bolungarvíkur. Hét þá Björgvin ÍS 48. Báturinn slitnaði upp af festingum í illviðri og brotnaqði í spón.
07.05.2010 22:47
Þoka á heiðinni, sól í leiðinni

Í dag komst hitinn á Bakkanum upp fyrir 15°múrinn í fyrsta sinn á þessu ári og lofar það góðu um framhaldið.Kl. 13:30 mældist hvorki meira né minna en 16.5°C í miðbæ Eyrarbakka, en 15.8 °C á veðurstöð VÍ.
06.05.2010 21:02
Það er komið sumar
Það hlýnar með hverjum deginum og hver dagur toppar þann næsta eins og sést á þessu línuriti sem spannar síðustu 7 daga. Grasið grænkar og brum trjánna springur út. Sumarið gæti orðið gott, nema ef svo fer að móðuharðindi bresti á. Fingerð aska í háloftunum getur temprað sólarljós nái hún ákveðnum þéttleika og útbreiðslu. Nú fer senn að hægjast um vinda á norðurhveli og ösku móða berst því hægar yfir og þéttist þar sem hún ferðast um loftin blá. En vonandi fáum við hlé á þessu yfir blá sumarið.
04.05.2010 21:00
Hvenær kemur krían?
Það ætti að vera stutt í að Bakka-krían komi í hópum, en fyrstu kríu var vart í dag. Árið 1991 kom hún 2. maí,1997 kom hún 4.maí, 1988 kom hún þann 7. 1966 kom hún þann 8. Venjulega koma forustukríurnar nokkrum dögum á undan megin hópnum.
01.05.2010 18:27
Skjálftahrina í Breiðumýri
01.05.2010 13:10
Andrés stóð í eldhríðinni
Andrés Jónsson fæddist 1896 á Litlu Háeyri (eldri bær) Í uppvexti hans fór lítið fyrir sjálfseignarmönnum í þorpinu. Þorleifur ríki á Háeyri átti hálfann Bakkann sem svo erfði tengda sonur hans Guðmundur Ísleifsson. Íbúar þorpsins voru um 900 og mikil gróska í atvinnulífinu sem byggðist fyrst og fremst á sjónum en í annan stað á verslun. Róðrar voru stundaðir á allt að 30 opnum bátum og skapaðist mikið og fjörugt verbúðarlíf í kring um sjómennskuna. Margir höfðu einhverjar grasnytjar og áttu dálítið af skepnum og höfðu af því talsverðan styrk. Þegar vélbátar og vegir komu til sögunnar fór smám saman að halla undan fæti. Verslunin hvarf smám saman og aðstaða fyrir vélbátaútgerð var enginn. Á kreppuárunum var orðin mikil neyð í þorpinu sem varð til þess að menn hölluðu sér meira að búskap sem ugglaust forðaði mörgum frá beinum sulti. Búskapur fór svo að dragast saman upp úr 1950 þegar fiskvinnsla og frystihús komst á skrið samfara bættum hafnarskilyrðum, en erfiðleikarnir héldu áfram og Eyrbekkingar voru ekki komnir fyllilega upp úr öldudalnum þegar útgerð og fiskvinnsla hvarf á braut.
Andrés í Smiðshúsum eins og hann var kallaður, lifði og starfaði í þessu umhverfi, lengst af í sjómennsku en jafnframt með nokkurn búskap eins og tíðkaðist hjá mörgum á kreppuárunum og síðar. Hann gekk í Verkamannafélagið Báruna 14 ára og átti síðar eftir að vera oft í stjórnum og formennsku fyrir félagið. Verkalýðsbaráttan var erfið, oft hörð og óvægin á köflum. Þar var gjarnan tekist hart á, jafnt innan búðar sem utan þar sem pólitískar skoðanir léku stórt hlutverk. Á þeim tíma var verkalýðsfélagið ómissandi baráttuvettvangur og um leið mikill félagsmálaskóli. Þegar félagið var upp á sitt besta fór það í raun með völdin í þorpinu og átti sína menn í hreppsnefnd. Þegar gömlu mennirnir sem stóðu í eldhríðinni hurfu af vettvangi fór afl félagsins þverrandi.
-
Tímarnir höfðu breyst, næg vinna var fyrir alla og velmegun ríkti, líka hjá verkafólki því baráttan hafði skilað árangri til fólksins og áhugi á verkalýðsmálum hvarf um leið eins og dögg fyrir sólu. Andrés og aðrir gamlir leiðtogar verkalýðsins töluðu fyrir því að valdið yrði fært í ríkara mæli til fólksins, en sú draumsýn virðist seint ætla að rætast. Þegar ítökum verkalýðsfélaganna sleppti náðu bankarnir taki á almenningi og gerðu að skuldaþrælum og því meir sem kaupmáttur dalaði í verðbólgubáli liðinna áratuga var það bætt með lánum í alskyns myndum svo að jafnvel fyrsti peningur sem ungt fólk sá var lánspeningur frá bankanum. Fólk þorði ekki lengur að berjast til þrautar af ótta við að skuldir sínar hjá bankanum yrðu gjaldfelldar. Svo þegar bankarnir hrundu og bankamafían fór í felur með restina af góssinu situr verkafólk þrátt fyrir það enn fastar í hlekkjum sínum en áður og enginn virðist fær um eða hafa viljan til að losa það. Fyrir verkafólkið virðist bara eitt að gera, að grafa upp gömlu stríðsöxina.
30.04.2010 23:43
Veðráttan í apríl
Á gosdaginn í Eyjafjallajökli 14.april var vindur af suðvestan en fljótlega lagðist í norðlægar áttir sem var mikil heppni gagnvart hinu ógnvæglega öskufalli þegar mest gekk á. Aðeins í örfáa daga hefur vindátt verið óhagstæð gagnvart öskufalli, en það var helst 24. þegar töluvert mistur lagðist yfir og eitthvað öskufall mældist. Annars hefur öskufall verið óverulegt. Bjartviðri var helst um miðjan mánuðinn en annars mest skýjað.
Mestur hiti var 10.3°C þann 8.apríl, en kaldast -10°C þann 4.apríl
Mesti vindur var NV15 m/s þann 6.apríl og mesta hviða NV 18.7 sama dag.
Mesta 24 tíma úrkoma var 9.3 mm þann 29. en heildarúrkoma í mánuðinum er 50.4 mm.
Lægst fór loftþrýstingur í 979.2 hpa þann 6.april.
Mesta vindkæling var þann 1.apríl og jafnaðist á við -20.2°frost.