21.07.2010 09:16
Kirkjan í viðhaldi
Þessa daganna standa yfir endurbætur á Eyrarbakkakirkju, en smiðir vinna nú að nýrri þakklæðningu.
Eyrarbakkakirkja vígð 14. desember 1890 af Hallgrími Sveinssyni biskup. Kirkjan var teiknuð af Jóhanni Fr. Jónssyni húsasmið.
Altaristafla kirkjunar er eftir Lovísu Danadrottningu, máluð árið 1891. Nýtt pípuorgel var tekið í notkun 7. september 1948. Í stað krossins sem nú trónir á turninum var vindflagg slegið úr járni og nefndist "Járnblómið". Kristinn Jónasson í Garðhúsum smíðaði klukkuskifuna sem snýr að austurbekkingum, en auk þess smíðaði hann líkanið af teinæringi þeim sem hangir í kirkjuloftinu. Hann var auk þess organisti kirkjunar í 40 ár. sr. Jón Björnsson var fyrsti presturinn sem þjónaði Eyrarbakkakirkju, en í dag þjónar sr. Sveinn Valgeirson og er hann 8.presturinn sem þjónað hefur kirkjunni.
19.07.2010 22:31
Híf og hoy!
Þetta hús sem híft var af stalli í dag og flutt burt, þjónaði síðast sem heilsugæslustöð á Eyrarbakka. Áður var það trésmíðaverkstæði Guðmundar Einarssonar smiðs, en hann byggði húsið einhverntíman á áttunda áratug síðustu aldar. Á þessari lóð stóð eitt sinn lítill bær sem hét Vegamót. Þar bjuggu Þórarinn Jónsson (f.6.3.1853) og kona hans Rannveig Sigurðardóttir (. f.10.júlí1859), en þau voru langafi og langamma undirritaðs og bjuggu áður að Grímsstöðum sem stóð rétt sunnan við bæinn Ós á Eyrarbakka.
Vegamót var upphaflega Þurrabúð, torfbær með tveim hálfþilum og einu hálfþili og taldi tvö herbergi.Veggir hlaðnir grjóti en rekaviður notaður í sperrur og klæðningu,Þak og veggir klæddir torfi. Lítill gluggi á suðurstafni.Gólfið var moldargólf og rúmstokkur með vegg. Eina mublan var trékista til að geima í föt og aðra muni. Eldað var við hlóðir eða eldstó og var það eini hitagjafinn. Hvorki var rennandi vatn né hreinlætisaðstaða innan dyra. Við þesskonar aðstæður bjó fjöldi fólks á Eyrarbakka um aldamótin 1900.
Seinna byggir Þórarin bæ á tóftinni klæddan bárujárni og einangraðan með reiðingi eins og farið var að tíðkast um 1920. Vegamót stóðu sem áður segir á þessum stað fyrir austan Skjaldbreið við hlið Ásheima en alveg framm í götu og var bærinn rifinn 29.ágúst 1983.
19.07.2010 10:36
Hafrún ÁR 28


18.07.2010 23:58
Blíðviðrisdagur
Það var enn einn blíðviðrisdagurinn í dag og komst hitinn í 22,9°C kl 18:00 í kvöld á veðurathugunarstöð VÍ. Það má því segja að veðrið hafi leikið við ferðamennina sem voru ófáir á Bakkanum um þessa helgi. Þennan dag 18.júlí var heitast árið 2003, en þá fór hitinn í 25°C
18.07.2010 23:30
Gróðursælt sumar
Á síðustu 30 árum hefur gróðurfar tekið stakkaskiptum á Bakkanum og núorðið er algengt að húsagarðar séu prýddir limgerði eða trjám. Um aldamótin 1900 var sumstaðar ekki stingandi strá því sandfok var stöðugt af fjörunni og eirði engum gróðri. Lengst af 20. öldinni voru aðeins fáir húsagarðar þar sem reynt var að rækta einhvern trjágróður og þótti sumum það hin mesta firra. Nú er öldin önnur og allflestar íslenskar trjátegundir eru ræktaðar í húsagörðum Eyrbekkinga. Síðasta vor var einstaklega gott og tók allur gróður snemma við sér og áfallalaust. Þannig hefur hefur t.d. toppurinn á litla genitrénu hér á myndinni vaxið um 44 sentimetra frá því í vor og hefur annar eins vöxtur ekki orðið á líftíma þess sem gæti verið um 6-7 ár.
17.07.2010 19:55
Frábært veður á Bakkanum
Það var veðurblíða á Bakkanum í dag með heiðum himni en nokkurri golu eins og víða á suðvestur horninu. Hæst komst hitinn í 21.2 °C á Brimstöðinni kl.14:30. Mælir VÍ sýndi hámarkshita kl 15:00 21.3 °C og þýðir það nýtt dagsmet. Eldra dagsmetið var 21,2°C á þessum degi 2007. Mesti hiti í júlí var 27,5°C þann 30. árið 2008 ef frá er talið gildið 29,9°C frá 25. júlí 1924 sem er talið vafasamt. Heitast var á Þingvöllum í dag 24,1°C
17.07.2010 16:31
Askur ÁR 13

Sjá nánar: http://brimbarinn.123.is
17.07.2010 14:19
Sólborg ÁR 15
Stálbátur smíðaður í Noregi 1960. Bátinn átti Hraðfrystistöð Eb 1975. Báturinn slitnaði frá bryggju í óveðri og skemdist nokkuð. Hann var seldur 1977.
Nokkrar breytingar voru gerðar á skipinu og m.a. sett nýtt stýrishús og leit það þannig út þegar skipið var gert út á Bakkanum.
01.07.2010 13:32
Veðráttan í júní
Ekki verður hægt að segja að júní mánuður hafi verið hlýr, fremur volgir dagar, því hitinn fór sjaldan yfir 15 gráður. Mesti hiti var 20,5 °C á Brimsstöðinni þann 23. júní. (Sama dag mældist á athugunarstöð VÍ á Eyrarbakka 21.9°C) Það byrjaði að rigna 10. júní og var væta flesta daga eftir það. Mesta 24. tíma úrkoma á Bakkanum var 13,8 mm þann 13. júní, en í heild 38.4 mm í mánuðinum. Vindar voru hægir og aðalega suðlægir. mesti vindur var þann 16. júni með 6.1 m/s. Á Jónsmessuhátíðinni 25.-27. var ágætis veður um 15°C og andvari og þurt eins og ætíð svo lengi sem hátíðin hefur verið við lýði.
24.06.2010 16:04
Þorlákur Helgi ÁR 11


24.06.2010 14:56
Sæbjörn ÁR 15
Báturinn var smíðaður í danmörku 1956. Árið 1980 átti Hörður Jóhannsson á Eyrarbakka bátinn. Sæbjörn var tekinn af skrá og brendur í Helguvík 26.3.1982. Báturinn hét upphaflega Helga Björg HU 7.
23.06.2010 22:19
Blíðu veður á Bakkanum
Það var sólríkur dagur í dag og dagsmet slegið. Hitinn náði eldra dagsmeti um hádegi í dag og sló fljótlega út dagsmetið frá 2007 sem var 18°C. Hitinn hélt þó áfram að hækka undir kvöld og náði hámarki kl.20:00 þegar hafgolunni lyngdi. Þá var hitinn orðinn 21.9 °C á veðurstöð VÍ. Það er næst hæsti hiti sem mælst hefur á Eyrarbakka í júní, frá árinu 1957, en mesti júní hiti var 22.6°C þann 30. árið 1999. Aðeins var heitara á Þingvöllum í dag 22,3°C.
23.06.2010 22:07
Guðbjörg ÁR 25

21.06.2010 22:59
Kristján Guðmundsson ÁR 15

Heimild: Íslensk skip.
21.06.2010 22:43
Fjalar ÁR 22
