10.10.2010 23:47

Enn eitt metið á Bakkanum

17°CÓtrúlegt en satt, tveggja daga gamalt mánaðarmetið er fallið! Nýtt dags og mánaðarmet hitastigs var slegið í dag þegar hitastigið náði nýjum hæðum 16,8°C og féll þá dagsmetið frá 2002 12,3°C. Það var ekki skýjahnoðri á himni í allan dag og vel hægt að liggja í sólbaði þó sólin fari nú ekki hátt á himininn um þetta leiti ársins. Ekki er loku fyrir það skotið að þetta ár verði það hlýjasta í sögunni, a.m.k. á Eyrarbakka. Þá var einnig hitamet í gær, en þar munaði aðeins 0,1°C yfir gamla metinu sem var 12,6° frá árinu 1959 en eftir það ár stóðu 4 dagsmet fram til þessa og eru þau nú öll fallin.

08.10.2010 21:35

Enn slegið hitamet

Enn eitt dagsmetið er fallið í hitastigi og sömuleiðis nýlegt mánaðarmet. Dagsmetið var frá 1959 11,6°C og nýtt mánaðarmet 15,2° frá þriðja þessa mánaðar. Kl. 14 í dag mædist 15,9°C hjá Veðurstofunni og skömmu síðar náði hámarkshitinn í 16,1°C sem er nýtt mánaðarmet. Dagsmetin  hafa fallið umvörpum frá og með 3ja þessa mánaðar svo ótrúlegt sem það er. Áfram er spáð hlýindum og gætu víða myndast hitapollar hér Sunnanlands.

07.10.2010 14:25

Atlaga að landsbyggðinni

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisins verður 16% niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eða um 412 milj. króna og þar af 56.5 % á sjúkrasviði að því er fram kemur í fjölmiðlum dagsins. Samkvæmt heimildum þarf að segja upp 50 til 60 stöðugildum hjá stofnunni. Sömu sögu er að segja frá öðrum sjúkrastofnunum víða á landsbyggðinni. Frumvarpið er raunveruleg atlaga að landsbyggðarfólki og þar með Sunnlendingum. Þegar hafa tapast um 700 störf í héraðinu sem er illa leikið eftir bankahrunið og óstjórn fyrri ára. Það er því að bæta gráu ofan á svart ef núverandi ríkisstjórn ætlar að vega ennfrekar að héraðinu og ógna störfum fólks og þar með heimilum þess og þar með flæma menntað fólk og þekkingu þess úr landi. Ófaglærðir eiga litla möguleika á störfum erlendis og virðist eiga fáa kosti aðra en að sitja fast í fátæktargildrunni sem af þessari stefnu hlýst. Um leið er frumvarpið atlaga að heilsu landsbyggðarfólks, en eins og allir vita hættir fólk ekki að veikjast þó sjúkraþjónusta sé höfð sem lengst í burtu. Þó sjálfsagt sé af stjórnvöldum að ætlast til ráðdeildar, sparsemi og hagræðingar, þá virðast þessar tillögugr ekki til annars fallnar en að spara aurinn og kasta krónunni, þegar litið er á þær afleiðingar sem þessi niðurskurður mun hafa á landsbyggðina til langframa.

Sjá einig ályktun VG Árborg
SLFÍ
BSRB
Báran
SASS

06.10.2010 22:29

Fífillinn blómstrar

Skarifífillinn blómstrar í hlýindunum þó sumar egi að heita löngu liðið, en þessi tegund er þó alltaf síðbúin. Grasvöxtur er einnig merkjanlegur þar sem skjól er og svo gæti farið að draga þyrfti fram slátturvélina á næstu dögum. Ekki var teljandi hiti í dag, en þó nægðu 12,4°C til að fella dagsmetið 12,0° frá 1959 og er það fjórði dagurinn í röð sem nýtt dagsmet er slegið á Bakkanum og spurning hvort nýju metin muni standa í hálfa öld eins og flest þau met sem fyrstu dagar mánaðarins áttu fyrir. En þennan dag fyrir ári síðan hafði fyrsti snjór vetrarins fallið hér á ströndinni, en væntanlega munum við þurfa að bíða hans eitthvað aðeins lengur að þessu sinni.

05.10.2010 22:55

Dagsmet fallið.

Þriðja daginn í röð féll dagsmetið á Bakkanum. Mestur hiti í dag var 14°C og skákaði fyrra dagssmeti frá 1960 12,5°C.

04.10.2010 23:00

Spánarloftslag

Það var hlýtt í veðri þennan oktoberdag og dagsmet slegið með 14.8°C. Samkvæmt mínum bókum er eldra dagsmet frá 1959 með 12,5°C. Í gær var líka nýtt dagsmet með hámarkshita 15,2°C og féll þá dagsmetið frá 1976 14°C á Bakkanum og sömuleiðis mánaðarmetið 15,1° frá 1958. Það verður að segjast að eldri dagsmet verða í hættu á að falla alla vikuna og þá einkum um næstu helgi en þá er spáð töluverðum hlýindum. Djúp lægð rétt sunnan við landið sér um að flytja þetta hlýja loft til okkar og ekki er að sjá að sú gamla sé neitt á förum í bráð. Það er því lítil hætta á að þjóðin fái kvef þó hún standi næturlangt og berji á tunnur og járnarusl úti á Austurvelli, enda fólki líka heitara í hamsi en nokkru sinn fyirr og lái því hver sem vill.

03.10.2010 00:50

Veðrið í September

Mánuðurinn var óvenju hlýr einkum framanaf og mældist mest 16,3°C þann 3. september og 16,8° þann 4. á hitamæli Brims. Þegar á leið mánuðinn lagðist í rigningar eins og hann á stundum vanda til þegar haustlægðirnar bera að og tók þá einnig að brima á Bakkanum, en mánaðarúrkoman var um 144 mm sem telst nú ekki til stórtíðinda. Þá var vindasamt á köflum, þann 14. gerði storm og suðaustan hvassviðri gekk á undir lokin. Loftvog stóð lágt um miðjan mánuð og í lok mánaðarins. Öskumistur var yfir í byrjun mánaðarins og sást þá lítt til fjalla. Þetta sumar sem nú er liðið telst það hlýjasta síðan mælingar hófust og er vart hægt að óska sér það betra að frátöldu öskumistrinu

30.09.2010 23:01

Skipsvísur

Það var til siðs austur í Skaftafellsýslum og e.t.v. víðar að letra skipsvísu á bitafjalir róðraskipanna. Um 1880 reru þrjú skip frá Reynishöfn og var eitt þeirra "Farsæll" sem smíðað hafði Einar Jóhannsson og skar hann tvær vísur sem hann orti sjálfur:






Gylli "Farsæll" gæfan snjöll,

Þar gellur sjór og vindur hvell.

Stilli gæfan ókjör öll,

elli til ei fái spell.

Þeim, sem veiðimönnum ann,

unnar á meiði reiða,

heilög beiði ég hamingjan

heill fram reiði greiða.

Heimild: Sjómannabókin 1947

28.09.2010 23:49

Brimsúgur og bleytutíð

Tíðarfarið hefur verið rysjótt að undanförnu með austan stinningskalda og hvassviðri á köflum en milt og gott inn á milli, t.d. fór hitinn í 14,5°C í fyrradag á brimstöðinni. Töluverðar rigningadembur gerði í gær 10,5 mm og fyrradag 14.4 mm á sólarhring en þá var klukkustundarúrkoma mest 4,5 mm sem nægir til að gegnbleyta hverja spjör. Þá hefur gert töluvert brim og berst nú seiðandi ómur þess inn í dimma nóttina sem færist heldur í aukana, enda vaxandi ölduhæð. Nú fellur loftvogin enn á ný og vindurinn rífur í trén og klæðir þau úr litskrúðugum haustfötum sínum og spáin gerir jafnvel ráð fyrir þrumum í nótt.

23.09.2010 22:34

Haust


þegar síðdegis skúrirnar liðu hjá og sólin tók að skína að nýju, myndaði hún þennan fallega regnboga eins og geislabaug yfir sjóminjasafninu. Þrátt fyrir glaða sól og þá einkum í gær hefur hitinn aðeins náð 11 gráðum, enda er nú komið haust samkvæmt almanakinu því í dag er haustjafndægur. Hér er hægt að fræðast nánar um árstíðirnar.

Utan við brimgarðinn geystist björgunar hraðbáturinn í átt til lands. Nú er stórstreymt á fullu haust tunglinu og dálítið tekið að brima að nýju eftir nokkurt hlé, einkum vestan til. Búast má við að brimið vari fram yfir helgi.

23.09.2010 00:45

Sendu flöskupóst og báðu um olíu

Einhverju sinni löngu fyrir tíma ritsímans bar svo við að olíulaust var í Vestmannaeyjum, en í þá tíð var steinolía notuð til lýsingar. Var þá brugðið á það ráð að senda flöskupóst til Sigurðar bónda á Skúmstöðum á Eyrarbakka og biðja hann um að útvega Bryde versluninni í Eyjum þessar nauðþurftir. Þetta fór þannig fram að bréfið var sett í flösku og alinn að munntópaki með handa þeim sem fyndi flöskuna. Flöskuskeytinu var svo kastað í sjó í austan stormi og með réttu falli. Þannig var oft komið boðum milli lands og Eyja og gekk það furðu fljótt. Það er skemmst frá því að segja að að bréfið komst til skila og Eyjamenn fengu olíuna.


Heimild: Frjáls Verslun 12.tbl 1940

19.09.2010 01:46

Einn liður í Concorde ævintýrinu gerðist á Eyrarbakka.

Dectramastur í BretlandiÍ júní árið 1967 var hafist handa við að reisa Dectravita á Eyrarbakka með mestu leynd og um tveggja ára skeið var þetta eitt best varðveitta leyndarmál Póst og fjarskiptastofnunar. Í þá tíð þótti ekki æskilegt að veita of miklar upplýsingar vegna þeirra tækni nýjunga sem í þessu kerfi fólust. Dectravitinn á Eyrarbakka var annað tveggja staðarákvörðunarkerfa sem Decca Navigator Company LW í Bretlandi kom upp, en það fyrirtæki rak fjölda Decca staðsetningarkerfa víðsvegar um heiminn, en þau voru þó ekki nærri eins fullkomin og Dectrakerfið sem sérstaklega var hannað fyrir breska flugherinn en einnig fyrir Concorde þoturnar sem gátu flogið í 40-80 þúsund fetum, en fram að því gátu þotur aðeins flogið upp í 35 þúsund fet. Dectravitinn saman stóð af tveim möstrum ca 80 metra háum og einu stöðvarhúsi sem stóðu á flötunum fyrir austan Borg. Höfðu tveir menn á Eyrarbakka eftirlit með þessu merkilega hernaðarleyndarmáli. Einhverju sinni þurfti að mála möstrin og voru þá fengnir til þess Indíánar, en þeir þóttu alveg lausir við lofthræðslu. Möstrin voru síðan felld einhverntíman á 7.áratugnum þegar betri staðsetningatækni (GPS) var komin til sögunar. Verst er þó að eiga ekki mynd af þessu fyrirbæri en hér til hliðar er mynd af litlu (18m) Dectramastri í Bretlandi.

15.09.2010 23:52

Horft til himinns

Á stjörnubjörtum himni eins og nú þarf maður ekki lengi að góna upp í himininn til þess að verða var við gervihnetti sem þeysa um himinhvolfið eins og fljúgandi furðuhlutir eða geimskip frá öðrum hnöttum. Gervihnettir á braut um jörðina skipta hundruðum og hafa mismunandi hlutverki að gegna. Sum fylgja jarðarhraða og eru því ávalt á sama stað, en önnur þeysast eftir sporbaug sínum rangsælis eða réttsælis í hring um jörðina. Sum eru hönnuð til veðurathuguna og eru þá kölluð veðurtungl. Eitt slíkt er t.d. veðurtunglið EUMETSAT.

Fyrsta gervitunglið sem komst á sporbaug var hinn Sovéski "Spúttnik" sem Rússar skutu á loft 4.oktober 1957. Fyrir tíma veðurtunglanna var notast við veðurskip til að vara við vondu veðri. Á norður Atlantshafi voru starfrækt þrjú veðurskip og eitt þekktast þeirra var norska veðurskipið Mike (Metró í íslenskum veðurfregnum) sem gert var út milli Íslands og Noregs frá árinu 1948 og allt til dagsins í dag. Veðurskipin voru ekki síður mikilvæg til leitar og björgunarstarfa á hafi úti en til veðurathuguna og flugleiðsagnar auk ýmissa rannsóknarstarfa á hafinu. Gervitunglin hafa nú tekið við þessu hlutverki að stæstum hluta og veita jafnvel mikilvæga aðstoð við björgunarstörf á hafinu.

Stjörnuhröp er ekki óalgengt að sjá á heiðskýrum næturhimni og falla margir loftsteinar í hafið eða í óbyggðum og valda því engum skaða, en flestir brenna þó upp til agna áður en þeir ná yfirborði jarðar. Loftsteinar voru þó mikil verðmæti fyrir eskimóa í upphafi landnáms þeirra á Grænlandi. Grænlandsjökull er stór og hefur tekið við mörgum slíkum steinum í gegnum árþúsundin og borið þá með skriðjöklum sínum til strandar, en eskimóarnir klufu þessa steina og notuðu þá í hnífsblöð allar götur þar til vestrænir menn hófu að versla við þá skinn og seldu þeim stálhnífa í staðinn.

14.09.2010 23:20

Hávarok

Norðan hvassviðri gekk yfir land og þjóð síðdegis í dag og náði meðalvindur  hér 20 m/s, en það teljast 8 gömul vindstig. Hvassara var í sumum hviðum eða allt að 28 m/s (11 vindstig) sem táknar ofsaveður, enda ruddust laufin af tránum í mestu rokunum. Þetta fyrsta illviðri haustsins er nú að mestu gengið yfir. Nú má fara að vænta kaldra nátta og jafnvel næturfrosta til fjalla, enda er krummi kominn til að hafa hér vetursetu og svo aldrei að vita nema að fyrstu frostin á láglendi verði um eða eftir næstu helgi.

11.09.2010 23:29

Björgunarbátur vígður

Gaui Páls
Björgunarbáturinn Atlantic75 sem björgunarsveitin Björg keypti nýlega að utan var vígður í dag með viðhöfn á Vesturbúðarhól og hlaut báturinn nafnið "Gaui Páls" eftir Guðjóni Pálssyni er lengi var formaður sveitarinnar. En það voru þeir heiðursmenn Jóhann Jóhannsson og Hlöðver Þorsteinsson sem afhjúpuðu nafn bátsins. Núverandi formaður sveitarinnar Guðjón Guðmundsson hélt tölu, en síðan blessaði sr. Sveinn Valgeirsson bátinn. Að lokinni athöfn var boðið upp á veitingar í Skýlinu. Björgunarsveitin Björg var stofnuð 21.desember 1928 en áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka.
"Gaui Páls" skal hann heita.  Gaui Páls við björgunarbátinn

Flettingar í dag: 78
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 444
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 378473
Samtals gestir: 42916
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 08:30:26