28.10.2010 01:28
Gefum gaum að fátækktinni
Þann 17. október 1987 söfnuðust meir en hundrað þúsund manns saman á Trocadéro í París, þar sem því var lýst yfir að fátækt væri mannréttindabrot og þess krafist að þessi réttindi skyldu virt. Það sem við sjáum að farið er að bera alvarlega á fátækt í okkar landi er nauðsynlegt að þjóðin bregðast við þeim vanda þegar í stað. Samtökin BÓT hafa vakið athygli á þessum málum að undanförnu, auk þess sem fréttamiðlar hafa gefið þessu málefni gaum. Hjá stjórnvöldum virðist málefni fátækra ekki vera forgangsmál og er það miður. Þá hefur vakið athyggli að einungis tvö verkalýðsfélög hafa rætt þessi mál á opinberum vettvangi, en það eru Verkalýðsfélag Akranes og Frammsýn og hafa þau hlotið mikið lof fyrir aðkomu sína að þessum málaflokki. Það er ljóst af ásókn í framfærslustyrki hjá sveitarfélögum, að fátæktin er ekki bara bundin við höfuðborgarsvæðið, og vakna spurningar um hvernig þessum málefnum sé háttað hér á Suðurlandi en tölur í þessu efni virðast ekki aðgengilegar. Vonandi munu stéttarfélögin hér á Suðurlandi kanna þessi mál og fylgja því eftir, ef staðan er með þeim hætti í okkar heimabyggð.
25.10.2010 22:19
Fyrsti snjórinn á þessum vetri
Fyrsti snjórinn kom og fór. Það byrjaði að snjóa um hádegi og skömmu síðar var kominn svarta mugga. En síðdegis var allur snjór farinn, enda þá komin bullandi rigning. Annars var ekki slæmt veður á Bakkanum í dag þó hvasst væri á heiðinni og úti fyrir ströndinni, t.d. var austan stormur í Surtsey í allan dag, en hér komst vindur mest í 12 m/s en var þó yfirleitt hægari.
25.10.2010 14:04
Til hamingju með daginn konur
Brimið á Bakkanum óskar öllum Árborgarkonum til hamingju með kvennafrídaginn. Líka þeim sem ekki fá frí.
24.10.2010 23:55
Rafljósið
Minnisvarðin um rafstöðina á Eyrarbakka var afjúpaður vorið 2004, en það var árið 1919 sem hreppsbúar ákváðu að kaupa rafstöð og byggja yfir hana rafstöðvarhús. Hófst framleiðsla rafmagns 1920 og gekk hún til ársins 1948 þegar tenging kom við Sogsvirkjun. Rafstöðin framleiddi þó aðeins 30.000 kw á ári sem mundi duga u.þ.b. 6 heimilum í dag en dugði þó vel á sínum tíma fyrir þorpið. Hugmyndir um að raflýsa Eyrarbakka má rekja aftur til ársinns 1905 í tengslum við hugmyndir um að virkja Varmá, en árið áður hafði fyrsta rafstöðin í almanna þágu verið gangsett í Hafnafirði, en upp frá því hófst rafvæðing landsinns hægt og bítandi. Nú ríflega öld síðar hefur skotið upp kollinum önnur hugmynd um rafmagnsframleiðslu í bæjarfélaginu okkar, sem nefnd hefur verið Selfossvirkjun og byggist á gamalli hugmynd um beislun Ölfusár, en útfærslan er þó ný af nálinni og í tengslum við brúargerð ofan við Selfoss. Áður en þessi hugmynd verður að veruleika þarf að leysa fjölmörg vandamál, t.d. umhverfis, tæknilegs og fjárhagsleg atriði.
Raforkan knýr áfram flesta atvinnuvegi landsmanna og flest orkuver hafa einhvern göfugan tilgang í þá átt að veita fólki atvinnu, þó umdeilt sé með hvaða hætti það skuli vera. Ég sakna þess að ekkert svo göfugt markmið hafi verið nefnt í atvinnulegu tilliti í okkar sveitarfélagi varðandi Selfossvirkjun þó hún yrði aldrei næginlega öflug til að bræða ál, ætti hún samt að hafa göfugri tilgang en þann einann að selja orkuna inn á landsnetið í hagnaðarskyni, því þá mun hún einungis verða minnisvarði komandi kynslóða um áhættusækni og gróðahyggjuna á okkar tímum.
23.10.2010 00:53
Gormánuður byrjar
Í dag er fullt tungl og fyrsti vetrardagur. Þá byrjar Gormánuður samkvæmt norræna tímatalinu en nafnið tengist sláturtíð. Þá leggst gróður í vetrardvalann og tími frosta og snjóa gengur í garð á norðurhveli. Á morgun Sunnudag má búast við að fyrstu él vetrarins falli á Bakkann, en um leið og við tökum veturinn í fang, þá þökkum við goðunum fyrir afbragðs gott sumar.
21.10.2010 00:13
Fátæktin breiðist út á Íslandi
Í fyrra fengu tæplega 6.000 heimili fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum. Um sex hundruð fjölskyldur treysta á matargjafir frá Fjölskylduhjálp og um 4000 manns sækja aðstoðar til hjálparstofnunar kirkjunar í hverjum mánuði. Á bak við þessar tölur er einnig fjöldi íslenskra barna sem alast nú upp við krappari kjör en foreldrar þess gerðu. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 29% frá árinu 2008 og hefur því kaupmáttur launa rýrnað að sama skapi. Eignabruni og kaupmáttarskerðing íslenskra heimila er enn hamslaus. Um 13.000 manns eru skráðir atvinnulausir nú um stundir og er þá ótalið dulið atvinnuleysi, þ.e þeir sem eiga ekki lengur rétt á bótum samkvæmt reglum Atvinnuleysistryggingarsjóðs. Þá hafa þúsundir íslendinga leitað hælis erlendis, sem annars væru atvinnulausir. Árið 1997 sagði Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra að fátækt á Íslandi væri þjóðarskömm og ennfremur "Fátækt á Íslandi er heimatilbúinn vandi. Fyrst og fremst vegna óréttlátrar tekjuskiptingar og rangra leikreglna í samfélaginu, sem hægt væri að breyta ef vilji væri til þess[.1] ". Nú er tíminn kominn, en hvar eru þá efndirnar? Það er ljóst að stjórnvöld eru stopp og jafnvel afturábak í velferðamálum og er það miður, þar sem velferðarmál hafa skipað stóran sess í orði hjá þeim stjórnmálaöflum sem sitja við völd. Það er mikilvægt að Verkalýðshreifingin sem og önnur áhrifasamtök í landinu verði ekki líka stopp og taki nú höndum saman um að útrýma fátækt þegar í stað. Það verður best gert með því að laun verkafólks verði hækkuð verulega, jafnvel það mikið að laun einnar fyrirvinnu dugi til að framfleyta meðalfjölskyldu. Það er nefnilega ekki nóg að tala um vandann, heldur þarf líka að ákveða lausn vandans, því þessi vandi felst ekki síst í of lágum launum verkafólks og ber verkalýðshreifingin þar sjálf mestu ábyrgð á. Í annan stað að ríki og sveitarfélög leggi til handbært fé og stofni til atvinnurekstrar í útfluttningsgreinum til styrkingar atvinnulífinu fremur en óarðbærar framkvæmdir eins og hingað til hefur tíðkast.
18.10.2010 23:03
Í bleikri birtu
Eyrarbakkakirkja skartar nú bleikum ljósum á þessari fyrstu frostnótt vetrarins. Það er spáð allt að 4 stiga frosti í nótt og á morgun er ekki gert ráð fyrir meira en 4 stiga hita að deginum.
17.10.2010 00:02
Vetur kemur kinna kaldur
Nú er spáð kólnandi veðri í næstu viku um allt land og fyrstu frostum vetrarins á mánudagskvöld. Þannig spáir FORECA allt að fjögra stiga frosti á Eyrarbakka aðfaranótt þriðjudags. Í framhaldinu mun væntanlega grána í fjallstoppa hér sunnanlands en mun meiri snjó er þó spáð fyrir norðan og jafnvel á láglendi.
15.10.2010 00:54
Þeir sögðu nei við örmagna þjóð
Starfsgreinasambandið hefur ályktað gegn almennri skuldaniðurfellingu heimilanna í landinu og þar með hafa vekalýðsfélögin á landsbyggðinni tekið forustu um að slökkva síðasta vonarneista skuldugrar þjóðar. Verkalýðshreifingin er aðili að öflugustu fjármálastofnun landsins, þ.e. lífeyrissjóðunum sem hafa fjármagnað húsnæðiskerfi landsmanna að mestu leiti í gegnum Íbúðalánasjóð. Ef fjármálastofnanir landsmanna sem bera sína ábyrgð á græðgisvæðingunni og verkalýðshreifingin sem lét sér það vel lynda ætlar að vera stikk frí í þessum ógnarvanda, þá verður hann óleystur og líklega tapast þá miljarðarnir sem hér þarf til hvort sem er þegar íbúðaverð hrynur vegna offramboðs og landflótta ungs fólks sem sjálfumhyggja fjármagnseigenda býður uppá. Þá verða fáir aðrir eftir í þessu volaða landi en öryrkjar og eftirlaunaþegar og hverjir munu þá borga í lífeyrissjóðinn? Það er unga fólkið sem á í mesta skuldabaslinu og oftast eru það venjulegt launafólk og er þá ekki einhver þversögn í þessari afstöðu SGS og verkalýðshreyfingarinnar? Það er ástæða fyrir því að fólk ræður ekki við skuldir sínar og ástæðan er sú að fjármálafyrirtæki og stofnanir fóru offari í gróðahyggju og braski og ekki eru undanskyldir lífeyrissjóðir landsmanna sem hafa tapað margir hverjir sömu upphæð í þeim leik og hér þarf til að leiðrétta húsnæðisskuldir landsmanna og ekki var í þá tíð talað um aðför að lífeyrissparnaði. Þið pattaralegu verkalýðsforingjar ættuð öllu heldur að byggja upp vonir og trú á þessu landi fremur en hitt. Það má vel líta á leiðréttingu húsnæðisskulda sem góða fjárfestingu í framtíð þjóðarinnar, sem mun því fyrr ná efnahagslegri heilsu.
(þegar ég gagnrýni í þessari grein afstöðu verkalýðsfélaga innan SGS vil ég sérstaklega undanskilja Verkalýðsfélag Akranes sem er að mörgu leiti samdóma þessari grein í sínum skrifum.)
12.10.2010 23:50
Blómstrandi Oktober
Þessi Garðasól kærir sig kollótta um almanakið.
þetta blóm reynir að ná upp til síðustu sólargeisla dagsins.
Snjóberjaplantan gefur hinum ekkert eftir og býst ekki við snjóum í bráð.
10.10.2010 23:47
Enn eitt metið á Bakkanum
Ótrúlegt en satt, tveggja daga gamalt mánaðarmetið er fallið! Nýtt dags og mánaðarmet hitastigs var slegið í dag þegar hitastigið náði nýjum hæðum 16,8°C og féll þá dagsmetið frá 2002 12,3°C. Það var ekki skýjahnoðri á himni í allan dag og vel hægt að liggja í sólbaði þó sólin fari nú ekki hátt á himininn um þetta leiti ársins. Ekki er loku fyrir það skotið að þetta ár verði það hlýjasta í sögunni, a.m.k. á Eyrarbakka. Þá var einnig hitamet í gær, en þar munaði aðeins 0,1°C yfir gamla metinu sem var 12,6° frá árinu 1959 en eftir það ár stóðu 4 dagsmet fram til þessa og eru þau nú öll fallin.
08.10.2010 21:35
Enn slegið hitamet
Enn eitt dagsmetið er fallið í hitastigi og sömuleiðis nýlegt mánaðarmet. Dagsmetið var frá 1959 11,6°C og nýtt mánaðarmet 15,2° frá þriðja þessa mánaðar. Kl. 14 í dag mædist 15,9°C hjá Veðurstofunni og skömmu síðar náði hámarkshitinn í 16,1°C sem er nýtt mánaðarmet. Dagsmetin hafa fallið umvörpum frá og með 3ja þessa mánaðar svo ótrúlegt sem það er. Áfram er spáð hlýindum og gætu víða myndast hitapollar hér Sunnanlands.
07.10.2010 14:25
Atlaga að landsbyggðinni
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisins verður 16% niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eða um 412 milj. króna og þar af 56.5 % á sjúkrasviði að því er fram kemur í fjölmiðlum dagsins. Samkvæmt heimildum þarf að segja upp 50 til 60 stöðugildum hjá stofnunni. Sömu sögu er að segja frá öðrum sjúkrastofnunum víða á landsbyggðinni. Frumvarpið er raunveruleg atlaga að landsbyggðarfólki og þar með Sunnlendingum. Þegar hafa tapast um 700 störf í héraðinu sem er illa leikið eftir bankahrunið og óstjórn fyrri ára. Það er því að bæta gráu ofan á svart ef núverandi ríkisstjórn ætlar að vega ennfrekar að héraðinu og ógna störfum fólks og þar með heimilum þess og þar með flæma menntað fólk og þekkingu þess úr landi. Ófaglærðir eiga litla möguleika á störfum erlendis og virðist eiga fáa kosti aðra en að sitja fast í fátæktargildrunni sem af þessari stefnu hlýst. Um leið er frumvarpið atlaga að heilsu landsbyggðarfólks, en eins og allir vita hættir fólk ekki að veikjast þó sjúkraþjónusta sé höfð sem lengst í burtu. Þó sjálfsagt sé af stjórnvöldum að ætlast til ráðdeildar, sparsemi og hagræðingar, þá virðast þessar tillögugr ekki til annars fallnar en að spara aurinn og kasta krónunni, þegar litið er á þær afleiðingar sem þessi niðurskurður mun hafa á landsbyggðina til langframa.
Sjá einig ályktun VG Árborg
SLFÍ
BSRB
Báran
SASS