13.11.2010 01:39
Við hafið
Maríus Ólafsson söðlasmiðs, fæddist á Eyrarbakka. Hann var verslunarmaður í Reykjavík og ágætt vísnaskáld. Maríus Ólafsson gekk til liðs við templara með því að gerast félagi í stúkunni Einingunni 1944.Eftirfarandi vísur samdi hann um sína heimaslóð og eflaust geta margir tekið undir.
"Við hafið ég átti í æsku
minn æfintýraheim,
og síðan er sál mín alltaf
sameinuð töfrum þeim."
Svo er það vísa Maríusar um brimið:
Við hafið er hugur vor bundinn.
Við heyrum í þögninni sjávarins nið.
Við horfum á brimið, er brýtur við sundin,
og brotsjói ólgandi verja þau hlið.
Er bátarnir grípa hin geigvænu lög,
vér greipar kreppum við áranna slög.
Þá samdi Maríus kvæði í tilefni
Jónsmessuhátíðar Eyrbekkinga
Hve fagnandi opnum við æskunnar dyr,
í angandi hásumar gliti,
er draumurinn rætist, sem dreymdi okkur fyr,
í daglegum önnum og striti;
að hlusta á niðinn, sem hafaldan ber,
og hittast að nýju á ströndinni hér.
Að heilsa ykkur vinir, sem haldið hér vörð,
og hopuðu aldrei úr spori,
og önnuðust hér vora elskuðu jörð,
sem upp rís á sérhverju vori.
Þið sandinum hafið í sáðlendur breytt,
og sigrandi vonunum leiðina greitt.
Og félag vort þráir að leggja ykkur lið,
og leiðina á milli okkar brúa.
Þótt veröldin skjálfi í vopnanna klið,
að vináttu skulum við hlúa,
og takast í hendur og treysta þau bönd,
sem tvinnaði æskan á þessari strönd.
(Kvæði þetta var sungið á skemmtun, sem Eyrbekkingafélagið hélt á Eyrarbakka 26. og 27. júní 1943).
10.11.2010 00:31
Nóvember í myndum

Lónin á Bakkanum sem spegill í góða veðrinu

Fyrirtaks útsýni er af sjógarðinum

Gamla höfnin þögul og kyrr.......

...og endurnar einar um að sigla um sundið bláa......

...á meðan sandurinn fyllir upp í forna höfn.
08.11.2010 23:52
Gæðingurinn Goti
Guðmundur Thorgrímsen verslunarstjóri á Eyrarbakka átti um sína daga marga og góða reiðhesta og keypti þá jafnvel langt að. Einn þeirra var grár gæðingur er Goti hét og ættaður norðan úr Skagafirði. En hestinn átti áður Ari Arasen læknir á Flugumýri. Goti var mikill gæðagripur og vitrastur allra hesta og hafði Thorgrímsen á honum miklar mætur.
Eitt sinn ætlaði Thorgrímssen að ríða til Reykjavíkur og var þá Goti sóttur og rekinn heim ásamt mörgum hestum, en þá kom í ljós að hann hafði misstigið sig og var drag haltur. Hann var því ekki notaður í ferðina, heldur sleppt aftur í hagann. Öðru sinni er Thorgrímsen ætlar til Reykjavíkur var Goti sóttur með hestunum, en er þá aftur orðinn draghaltur án þess að sjá mætti einhverja ástæðu fyrir heltunni og var Gota þá sleppt í hagann eins og í fyrra sinnið. Hálfri stund eftir að menn voru farnir var Goti orðinn alveg heill. Í þriðja sinnið sem verslunarstjórinn hugði til Reykjavíkur fór á sömu lund, klárinn var drag haltur og stakk við fót, en nú sá Thorgrímsen við honum, því hann grunaði klárinn um tilraun til skrópa, og tók hann því með engu að síður. Það reindist líka svo, því hálftíma síðar var Gota batnað af skrópasýkinni og stakk hann ekki lengur við fót. Í hvert sinn þegar Goti var sóttur með mörgum hestum, vissi hann að langferð væri fyrir höndum og tók þá til bragðs að leika sig haltann til að sleppa við ferðina.
Heimild: Oscar Clausen-Vitrir hestar, lesb.mbl 24.09.1939
06.11.2010 22:29
Eyjólfur sterki á Litla-Hrauni.
Eyjólfur hét maður, er uppi var um miðja 18. öld. (1729) Hann bjó á Litla- Hrauni í Stokkseyrarhreppi er þá hét. Hann var orðlagður fyrir afl og hreysti, og þar að auki var hann glímukappi mikill. Kaupmaðurinn, sem þá var á Eyrarbakka, átti eitt sinn tal við skipherrann á skipi sínu um íslendinga. Gerði skipherra lítið úr íslendingum, og sagðist skyldu koma með þann mann frá útlöndum, sem enginn íslendingur stæði fyrir, en kaupmaður sem hélt íslendingum fram, sagðist skyldu koma með þann íslending, sem enginn útlendingur bæri af. Þeir veðjuðu um þetta. Sumarið eftir kom skipherra með blámann, vígalegan og tröllslegan. Kaupmaður fekk Eyjólf til að glíma við hann. Var Eyjólfur þó tregur til, því að hann var við aldur, og bjóst þar við vægðarlausum viðskiptum. Áður en hann gekk til glímunnar, sívafði hann sig með snæri um kropp og útlimi undir ytri klæðunum. Gat blámaður því hvergi klipið hann til meiðsla. Lengi gerði Eyjólfur ekki annað en að verjast, og þóttist fullreyndur, en blámaðurinn ólmaðist hvað af tók. Loks kom Eyjólfur þó bragði á blámann og feldi hann. Lét hann þá kné fylgja kviði og þjarmaði svo að bringuspölum blámannsins, að blóð gekk af munni hans. Voru þeir þá skildir að, og blámaðurinn leiddur fram á skip. Eyjólfur var þó aldrei samur eftir viðureignina. Sagt er að kaupmaður hafi gefið Eyjólfi veðféð og meira til fyrir þennan sigur. Gekk þessi gíma undir nafninu "Veðmálaglíman".
Sögu þessa skráði Brynjúlfur frá Minna-Núpi eftir munmælasögu og birti í ritinu Huld I, en Brynjúlfur var Eyrbekkingum af góðu kunnur. Saga þessi er afar lík sögunni um þjóðsagnapersónuna Jón Sterka frá Eyrarbakka í ritum Jóns Árnasonar. En að auki eru til margar ýkjusögur um þessa glímu og stundum eignuð öðrum þjóðsagna hetjum. En þessi saga um glímu Eyjólfs er sennilega raunsönnust, en auk þess var Eyjólfur söguleg persóna.
Hann var sonur Símonar i Simbakoti á Eyrarbakka (f. 1681) Björnssonar á Háeyri (f. 1649) Jónssonar. Frá Eyjólfi er komin fjölmenn ætt sem of langt mál er að telja upp hér. En Grímur Gíslason frá Óseyrarnesi var fjórði maður frá Eyjólfi og voru þeir Brynjúlfur samtíða menn.
Heimild: Guðni Jónsson/Fálkinn 22.01.1938
04.11.2010 23:50
Fárviðrið 1938
Aðfararnótt 5. mars 1938 gerði mikið aftakaveður um allt land, en stóð þó aðeins yfir í tvo tíma. Veðurhæðin náði víðast 12 vindstigum sem eru um 33 m/s og urðu skemdir víða um suðvestanvert landið. Á Eyrarbakka ætlaði allt af göflunum að ganga og mundu menn ekki annað eins veður enda urðu þá miklar skemdir á húsum. Þakið fauk af barnaskólanum og kastaðist um langan veg. Veiðafærahjallur Jóns Helgasonar fauk um og reykháfar hrundu niður af húsum. Menn töldu það heppni að fjara var þegar mesta veðrið gekk yfir annars hefði ver farið.
04.11.2010 00:43
leituðu að gulli, en fundu silfur
Sumarið 1930 dvaldi Björn Kristjánsson náttúrufræðingur á Eyrarbakka. Hann ásamt Oddi Oddsyni gullsmið og símstöðvarstjóra hófu að leita að málmum aðalega þó gulli í skerjunum og í sandinum við sjóinn. Notuðu þeir m.a. hefðbundin verkfæri gulleitarmanna við þær athuganir. Ransóknir þeirra á sandinum við þvottaklett ásamt skeljum og steini úr Gónhól leiddi í ljós eftir efnafræðilega meðferð að bergið í skerjagarðinum og fjörugrjótið innihélt þrjá málma, Vismút sem er í ætt við Bismút og notað í snyrtivörur, einnig fundu þeir tin og silfur en gull fundu þeir ekki.
Heimild: Náttúrufræðingurinn 1931
02.11.2010 22:22
Rjúkandi brim
Það var rjúkandi brim í hvassri norðanáttinni í dag og fallegt á að horfa. Vindur í hviðum náði upp í ríflega 20 m/s og vindkæling því mikil þar sem hitastig er lágt. Heldur mun draga úr vindi þegar líður á morgundaginn segja spárnar, en búast má við éljum og köldu veðri fram að næstu helgi.
28.10.2010 22:31
Síberíuvinnan
Síberia var hún kölluð, en átti þó ekkert skylt við Rússland. Mýrlendi ofan við Eyrarbakka var kölluð þessu nafni og þar sóttist margur verkamaðurinn eftir vinnu við að grafa skurði og framræsta mýrina í fyrri kreppunni, en vinna þar hófst fyrst 1935. Það voru þúsundir atvinnulausra sem mældu götur höfuðborgarinnar og ástandið í sunnlennskum þorpum var lítt skárra. Þetta var fólk úr ýmsum áttum, með alskonar skoðanir og margskonar áhugamál. Allir áttu það þó sameiginlegt að vera kúgaðir og sviptir réttinum til mannsæmandi lífs og tryggðar framtíðar. Það voru því mikil gleðitíðindi fyrir hvern þann sem var svo heppinn að fá vinnu í "Síberíu" þó vinnubúðirnar þar væru lítt frábrugðnar fangabúðum einhversstaðar í Síberíu Rússlands þess tíma eða jafnvel verri og vetrarkuldinn mikill og líklega nafnið þannig til komið. Í byrtingu hvers morguns þrömmuðu um 60 karlar út í frostið sem oft var um 10 stig á þessum vetrum, íklæddir stígvélum með vetrarhúfu bretta niður fyrir eyru og gekk hver flokkur að sínum skurði og var svo unnið framm í myrkur en þá dunduðu menn við tafl og spil fram að háttatíma. Nokkrar bækur voru til úr bókasafni vegavinnumanna og voru þær lesnar spjaldanna á milli. Síberíuvinnan var atvinnubótavinna á vegum ríkisinns og var 12 daga úthald. Í mýrinni höfðu verið reistir nokkrir timburbraggar sem voru alveg óeinangraðir og í þeim ávalt mikill saggi. Syðsti bragginn var kallaður "Róttæki bragginn" af einum vinnuflokknum, því þar voru margir róttækir menn saman komnir og ræddu og funduðu gjarnan um þjóðfélags og verkalýðsmál og fundu menn þar mest að lýðræðisskortinum í vekalýðsfélögunum og þá einkum í "Dagsbrún" sem þá hét og var félag verkamanna í Reykjavík. Það fundu menn því til foráttu að þar hafði alræði fámenn klíka en allur þorri félagsmanna var að heita valdalaus.
Á næstu 70 árum á eftir ávannst þó margt í bættum kjörum verkafólks sem svo fáeinum "snillingum" tókst að eiðileggja á einni örskot stund. Á margan hátt standa atvinnulausir nú í sömu sporunum og mennirnir í mýrinni árið 1937, að vera sviptir réttindum til mannsæmandi lífs og standa nauðugir frammi fyrir ótryggri framtíð.
heimild: Þjóðviljinn jan.1937
28.10.2010 01:28
Gefum gaum að fátækktinni
Þann 17. október 1987 söfnuðust meir en hundrað þúsund manns saman á Trocadéro í París, þar sem því var lýst yfir að fátækt væri mannréttindabrot og þess krafist að þessi réttindi skyldu virt. Það sem við sjáum að farið er að bera alvarlega á fátækt í okkar landi er nauðsynlegt að þjóðin bregðast við þeim vanda þegar í stað. Samtökin BÓT hafa vakið athygli á þessum málum að undanförnu, auk þess sem fréttamiðlar hafa gefið þessu málefni gaum. Hjá stjórnvöldum virðist málefni fátækra ekki vera forgangsmál og er það miður. Þá hefur vakið athyggli að einungis tvö verkalýðsfélög hafa rætt þessi mál á opinberum vettvangi, en það eru Verkalýðsfélag Akranes og Frammsýn og hafa þau hlotið mikið lof fyrir aðkomu sína að þessum málaflokki. Það er ljóst af ásókn í framfærslustyrki hjá sveitarfélögum, að fátæktin er ekki bara bundin við höfuðborgarsvæðið, og vakna spurningar um hvernig þessum málefnum sé háttað hér á Suðurlandi en tölur í þessu efni virðast ekki aðgengilegar. Vonandi munu stéttarfélögin hér á Suðurlandi kanna þessi mál og fylgja því eftir, ef staðan er með þeim hætti í okkar heimabyggð.
25.10.2010 22:19
Fyrsti snjórinn á þessum vetri
Fyrsti snjórinn kom og fór. Það byrjaði að snjóa um hádegi og skömmu síðar var kominn svarta mugga. En síðdegis var allur snjór farinn, enda þá komin bullandi rigning. Annars var ekki slæmt veður á Bakkanum í dag þó hvasst væri á heiðinni og úti fyrir ströndinni, t.d. var austan stormur í Surtsey í allan dag, en hér komst vindur mest í 12 m/s en var þó yfirleitt hægari.
25.10.2010 14:04
Til hamingju með daginn konur

Brimið á Bakkanum óskar öllum Árborgarkonum til hamingju með kvennafrídaginn. Líka þeim sem ekki fá frí.
24.10.2010 23:55
Rafljósið
Minnisvarðin um rafstöðina á Eyrarbakka var afjúpaður vorið 2004, en það var árið 1919 sem hreppsbúar ákváðu að kaupa rafstöð og byggja yfir hana rafstöðvarhús. Hófst framleiðsla rafmagns 1920 og gekk hún til ársins 1948 þegar tenging kom við Sogsvirkjun. Rafstöðin framleiddi þó aðeins 30.000 kw á ári sem mundi duga u.þ.b. 6 heimilum í dag en dugði þó vel á sínum tíma fyrir þorpið. Hugmyndir um að raflýsa Eyrarbakka má rekja aftur til ársinns 1905 í tengslum við hugmyndir um að virkja Varmá, en árið áður hafði fyrsta rafstöðin í almanna þágu verið gangsett í Hafnafirði, en upp frá því hófst rafvæðing landsinns hægt og bítandi. Nú ríflega öld síðar hefur skotið upp kollinum önnur hugmynd um rafmagnsframleiðslu í bæjarfélaginu okkar, sem nefnd hefur verið Selfossvirkjun og byggist á gamalli hugmynd um beislun Ölfusár, en útfærslan er þó ný af nálinni og í tengslum við brúargerð ofan við Selfoss. Áður en þessi hugmynd verður að veruleika þarf að leysa fjölmörg vandamál, t.d. umhverfis, tæknilegs og fjárhagsleg atriði.
Raforkan knýr áfram flesta atvinnuvegi landsmanna og flest orkuver hafa einhvern göfugan tilgang í þá átt að veita fólki atvinnu, þó umdeilt sé með hvaða hætti það skuli vera. Ég sakna þess að ekkert svo göfugt markmið hafi verið nefnt í atvinnulegu tilliti í okkar sveitarfélagi varðandi Selfossvirkjun þó hún yrði aldrei næginlega öflug til að bræða ál, ætti hún samt að hafa göfugri tilgang en þann einann að selja orkuna inn á landsnetið í hagnaðarskyni, því þá mun hún einungis verða minnisvarði komandi kynslóða um áhættusækni og gróðahyggjuna á okkar tímum.
23.10.2010 00:53
Gormánuður byrjar
Í dag er fullt tungl og fyrsti vetrardagur. Þá byrjar Gormánuður samkvæmt norræna tímatalinu en nafnið tengist sláturtíð. Þá leggst gróður í vetrardvalann og tími frosta og snjóa gengur í garð á norðurhveli. Á morgun Sunnudag má búast við að fyrstu él vetrarins falli á Bakkann, en um leið og við tökum veturinn í fang, þá þökkum við goðunum fyrir afbragðs gott sumar.