19.12.2010 01:21

Kalt til jóla og kanski föl.

Það spáir kuldum strax eftir helgi með norðanátt og allt að 12 stiga frosti þegar kemur fram á þriðjudaginn samkvæmt spá veðurstofunar og helst kuldinn við fram að þorláksmessu. Þá má búast við éljum víða á sunnanverðu landinu með austlægum áttum, en áfram verður dálítið frost.
Á föstudag (aðfangadagur jóla) og laugardag (jóladagur): Líkur á hægri austlægri eða breytilegri átt. Lítilsháttar él, síst þó vestanlands. Hiti breytist lítið á aðfangadag en heldur mildara á jóladag segir í spánni.

17.12.2010 23:00

Norðan belgingur

Stækka kortiðMikið norðan hvassviðri gekk yfir landið í dag. Hér á Bakkanum var brostinn á stormur á milli kl.18 og 19 í kvöld og fóru stakar vindhviður í tæpa 30m/s. Heldur hefur lægt með kvöldinu en þó er enn bálhvasst.

Eins og sjá má hér á kortinu er norðurálfa nær alhvít af snjó og á það einnig við um ísland þó svo við séum á auðum depli hér suðvestanlands. Þá má greina hvernig íslands forni fjandi (gulur) læðist að Vestfjörðum og suður með Grænlandi. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

17.12.2010 00:35

Brimver opnar jólagluggann

Leikskólinn BrimverBörnin í Brimveri opnuðu jóladagatalsgluggann sinn í vikunni. Það var mikið gaman og komu sveinkar frá gamla tímanum og nýja tímanum til að aðstoða þau við opnunina,síðan var öllum boðið í skreyttar piparkökur og sukkulaði.
http://brimver.arborg.is/

16.12.2010 00:12

Bjargvættir

Magnús MagnússonMagnús Magnússon (Hús-Magnús) var meðal mestu sjósóknara og aflamanna á Eyrarbakka og fór mikið orð af því, hversu mikill snillingur hann væri við brimsundin. Um eða eftir 1880 byrjaði Magnús formennsku sína, þá ungur að árum. Vertíðina 1883 lenti hann með skipshöfn sína í útilegu í mannskaðaveðri því, sem þá skall snögglega yfir þann 29. mars og villtust tvær skiþshafnir þá í svartnættisbyl í fjörunum framundan Gamla-Hrauni. Þá var 15-16 stiga frost, ofsarok og svartnætti af byl, en ládauður sjór. Þarna höfðust þessar tvær skipshafnir við í fullan sólarhring. Voru sumir mennimir illa útleiknir, og sumir lágu á eftir um lengri tíma í kali. Hin skipshöfnin sem fyrir þessu varð, var skipshöfn Magnúsar Ingvarssonar, sem lengi var merkur formaður á Eyrarbakka. Þessa vertíð, snemma í marsmánuði, drukknaði einn af aflasælustu formönnum, er þá voru á Eyrarbakka, Sigurður Gamalíelsson frá Eyfakoti og fjórir hásetar með honum, en fimm eða sex bjargaði Magnús Ingvarsson. Þetta sjóslys mun hafa orðið á Einarshafnarsundi, nálægt stórstraumsfjöru.
 

 

Árið 1891 varð Jón Jónsson "frá Fit" fyrir slysi á "Rifsósnum" og missti þrjá háseta sína,

en honum sjálfum og 6-7 öðrum bjargaði Magnús Magnússon. 1894 drukknuðu þrír menn af skipshöfn Eiríks Ámasonar frá Þórðarkoti, en honum og 6-7 öðrum bjargaði einnig Magnús Magnússon, og eftir þessa síðari björgun fékk hann heiðursviðurkenningu, sem voru 9 verðlaunapeningar, og skipshöfn hans einhverja litla þóknun. Þetta slys varð á Einarshafnarsundi.
 

 

Sunnlenskt áraskip með seglumÁrið 1886 fórst öll skipshöfn Sæmundar Bárðarsonar, 14 alls. Þetta slys varð út af Rifsós og gerðist með svo sviplegum hætti, að björgun var ómöguleg. Rúmri viku eftir að Magnús bjargaði Eiríki Árnasyni og meiri hlutanum af skipshöfn hans, drukknaði Páll Andrésson formaður frá Nýjabæ og einn háseta hans, einnig á Einarshafnarsundi. Skipshöfninni bjargaði að öðru leyti Guðmundur Steinsson skipasmiður í Einarshöfn, og mun hann hafa fengið einhverja viðurkenningu eins og Magnús Magnússon.
 

Guðmundur ÍsleifssonMagnús varð frægur fyrir björgunina af hinum tveim skipum með svo stuttu millibili, eins og að framan greinir samtals 16 mönnum. Þegar Guðmundur Ísleifsson kom að Einarshafnarsundi, spurði hann Ólaf Gíslason, er lá við sundið er  hann kom þar meðan stóð á björgun skipshafnar Eiríks, "Hver mun hafa bjargað"- Ólafur svaraði "það hefur víst verið Hús-Magnús eins og vant er". Einn af hásetum Eiríks sem bjargaðist, var fastur í skipinu og flæktur í fiskilóðum. Þegar öllum öðrum sem ekki hafði tekið út og horfið í sjónum sem fyllt hafði skipið, hafði verið bjargað, beið Magnús þar til lag kom og stýrt að skipi Eiríks, er var fullt af sjó, fengið öruggum manni stýrið, en stokkið sjálfur upp í með hníf og skorið með miklu snarræði sundur lóðirnar er héldu manninum föstum og bjargaði honum svo yfir í skip sitt.

 

 Talið er að Hús-Magnús hafi bjargað um 30 sjómönnum á ferli sínum.
Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950
Hús-Magnús ()

 

13.12.2010 23:58

Er myndin frá Eyrarbakka?

Er myndin frá Eyrarbakka?
Í ritinu Samvinnan 1.10.1955 er þessi mynd sögð vera frá Eyrarbakka, en ekki er tiltekið hvar þessi hús hefðu átt að standa né á hvaða tíma myndin er tekin. Á myndinni sjást nokkrir karlar, fremstur með barðastóran hatt. Maður virðist standa við dyrnar og tvö börn í dyragættinni. Maður með kaskeiti við húshornið og annar í stiga á þaki. Fleira fólk virðist vera á myndinni en mjög ógreinilegt. þá standa rekaviðardrumbar upp við bæjarhleðslurnar sem virðast freka vera grjóthleðslur en torfhleðslur. Um er að ræða tvíbýli og ekki ósvipað byggingalagi Óseyrarnes bæjanna.
Sögð tekin við Húsið
Í sama riti er þessi mynd sögð tekin við Húsið á Eyrarbakka þar sem heldri menn sitja að sumbli, en kona og börn standa í dyrum. Myndin er þó örugglega ekki tekin við Húsið því augljóslega er um minna bæjarhús að ræða sem virðist standa tiltölulega stakt með flatlendið í bakgrunni.

10.12.2010 00:14

Siglingar um sundin

Sundin á Eyrarbakka eru einkum þrjú. Þ.e. "Rifsós" sem er austast (Mundakotsvarða). það var oft ófært þegar lágsjávað var, og einhver alda úti fyrir. Næst er sund fyrir vestan þorpið, sem nefnist "Einarshafnarsund" og  oft var notað sem þrautalending á Eyrarbakka, en þar urðu eigi að síður sjóslys, þegar mjög lágsjávað var, eða undir og um stórstraumsfjöru. Þar fyrir vestan er sund er heitir "Bússa" eða "Bússusund", (Sundvörðurnar vestast) en var lítið notað fyrir fiskibáta, nema ef sérstaklega stóð á ládeyðu, því ef brim var, gekk hafaldan að nokkru leyti á það flatt eða yfir það, en þetta sund er einna dýpst og breiðast, og stefna þess þannig, að aldan gekk yfir það. Það var notað til innsiglingar verslunarskipana (Skonnorturnar voru kallaðar "Bússur") meðan þau komu til Eyrarbakka, og aldrei nema að brimlaus sjór væri. Eftir að vélbátaútgerð hófst var það notað í meira mæli og urðu þar stundum skæð sjóslys.

Heimild: Sigurður Þorsteinsson í Sjómannablaðinu Víkingi 1.tbl.1950

07.12.2010 23:58

Birkibeinar

Aðalsteinn SigmundssonAðalsteinn Sigmundsson kennari á Eyrarbakka stofnaði skátaflokkinn "Birkibeina" 1920 og voru það einvörðungu strákar. Birkibeinarnir á Eyrarbakka fóru í útilegur víða um nálægar sveitir, svo sem við Reykjafoss í Ölfusi og Þrastaskógi þar sem Aðalsteinn var umsjónarmaður skógarins á sumrin, Birkibeinar bökuðu þar og brösuðu eins og vanar húsfreyjur. Skátaflokkurinn hafði aðsetur í Sandprýði hjá Aðalsteini og æfðu þar skyndihjálp, lærðu á landabréf og áttavita og stunduðu hnýtingar. Aðalsteinn kynntist skátastarfinu í Svíþjóð, Danmörku og víðar. Átti hann ríkan þátt í uppbyggingu skátastarfsins hér á landi og árið 1924 tóku Birkibeinar þátt í stofnun Bandalags Íslenskra skáta. Árið 1926 voru allir komnir með merki og búninga og var Sigurjón Valdimarsson útnefndur til aðstoðar-sveitarforingja það ár. Eftir að Aðalsteinn fór af bakkanum lagðist félagsskapurinn í dvala en var síðan endurreistur 1940 og aftur 1958 og höfðu þá aðsetur í Fjölni, og síðast voru Birkibeinar endurvaktir um 1990 og voru þá jafnt strákar sem stelpur í skátunum. Þá var farið í lengri ferði en út í Þrastaskóg. Þá var farið til Lillesand í Noregi og var sú heimsókn endurgoldin árið 1994. Birkibeinar voru mjög virkir fram undir aldamótin 2000.
 

Þegar Sverrir Sigurðsson tekst það í fang, að brjótast til ríkis í Noregi, sem honum var sagt að faðir hans hefði átt og hann því ætti að erfa, en sverrir var munaðarlaus drengur, allslaus, einmana, en ríkinu hafði náð maður, er naut styrks margra voldugra höfðingja. Sverrir fékk í lið með sér 70 menn, er birkibeinar nefndust, vopnlausa, klæðalausa svo að kalla. Með þeim lagði hann undir sig allan Noreg, rak af stóli konung þann, er ríkið hafði tekið frá föður hans, og sat að völdum um langan tíma, eða til 1250. Lönd Birkibeina voru við Hamar í Noregi nokkru fyrir norðaustan Osló.

 

Birkibeinar koma fram í ævintýrinu "Konungssonur" eftir Gunnar Gunnarsson sem er byggð á sögu Hákonar konungs Hákonarsonar Sverrissonar og eru menn hans svo nefndir Birkibeinar en andstæðingarnir þeirra eru hinsvegar  "Baglar" sem réðu Upplöndum.

Árið 1897 stofnuðu Skútustaðamenn í Mývatnssveit bindindisfélag undir nafninu "Birkibeinar". Um 1911 gaf Bjarni frá Vogi út stjórnmálablað undir sama nafni.

Myndaalbúm Birkibeina

04.12.2010 20:46

Leikfélagið á Eyrarbakka

Úr Manni og Konu, Guðrún, Sigurveig og Kjartan.Leikfélag var stofnað formlega á Eyrarbakka 1943. Þetta var áhugamannaleikhús með 9 leikurum, 5 körlum og 4 konum. Meðal leikara og vildarvina Leikfélagsins voru Guðrún Bjarnfinnsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigurveig Þórarinsdóttir, Guðmundur Þorvaldsson, Helga Guðjónsdóttir, Kristján Guðmundsson og Lárus Andersen. Félagið var mjög virkt fram á 6. áratug síðustu aldar.

Með vinsælustu sýningum félagsins var "Lénharður fógeti" eftir Einar H Kvaran og undir leikstjórn Ævars Kvaran. Aðstaða  leikfélagsins var í samkomuhúsinu "Fjölni" á Eyrarbakka. Leiklist ýmiskonar var þó stunduð á Bakkanum löngu fyrr eða frá 1880.
sr. Þorvarður Þorvarðsson síðar prófastur í Vík, dvaldi á Eyrarbakka um eða fyrir 1890 og stóð þá að sjónleikjahaldi á Bakkanum og samdi sjálfur leikrit.

02.12.2010 00:13

Hvatning til verkalýðsins

Nú eru kjarasamningar alþýðunnar útrunnir og ekki veitir af að brýna þá sem við samningaborðið sitja fyrir hönd verkalýðsins að berjast nú með oddi og egg fyrir hina lægst launuðu, þannig að hverjum og einum verkamanni og verkakonu verði tryggð mannsæmandi lífskjör í þessu volaða landi.


"Þegar mótbyr mæðir þyngst

mörgum þykir nóg að verjast.

En eins og þegar þú varst yngst

þannig skaltu áfram berjast".


Þessi vísa var samin til Bárunnar á Eyrarbakka 1941. Höfundur ókunnur.

30.11.2010 23:43

Litla skræpótta landnámshænan

Landnámsmenn frá Noregi höfðu með sér flest þau húsdýr sem enn eru ræktuð hér á landi og eru þau yfirleitt í nokkru frábrugðin sömu tegundum sem nú eru við lýði erlendis, svo sem íslenski hesturinn, íslenska kúin, íslenska kindin og íslenska hænan o.s.frv. Í frásögnum landnámsmanna er fátt getið um íslensku landnámshænuna en þó má finna spor hennar í fornum ritum. Hjá Þorgils örrabeinastjúpa í Traðarholti á Stokkseyri voru hænur árið ca 960 sbr," þá er haninn barði hænuna, tók hann af því tilefni til að gefa konu sinni Helgu, er var honum lítt unnandi, bendingu".

Hænsa-Þórir fékk auknefni sitt af því, að eitt af varningi þeim, sem hann fór með norður um land að sunnan, voru hænsni sbr. Hænsna-Þóris saga og má e.t.v. þakka honum fyrir að stofninn hafi dreifst um landið og haldið velli fram á þennan dag, en vart mátti þó tæpar standa er nýir áhugamenn tóku að rækta upp stofninn undir lok síðustu aldar, svo sem að Tjörn í Vatnsnesi og Sólvangi á Eyrarbakka ofl, en þá voru aðeins nokkurhundruð landnámshænur eftir í landinu og næstum farið illa þar sem stofninn var ekki nægilega dreifður til að tryggja hann fyrir áföllum. Hænur hafa verið á flestum bæjum á Bakkanum allt frá upphafi, en um miðbik 20. aldar voru það nær einvörðungu svokallaðar "ítalskar hænur" en þær þóttu frjósamari. Undir lok aldarinnar var "ítalska hænan"  nánast horfin af Bakkanum en örfáir héldu landnámshænur. Á síðustu árum hafa þó fleiri og fleiri tekið til við að fóstra íslensku landnámshænuna víða um landið og tryggja þannig viðhald stofnsins.

28.11.2010 23:43

Ýkjusögur þorsteins í Simbakoti

Þorsteinn í Simbakoti á Eyrarbakka (d. 1864) var lengi formaður í Þorlákshöfn. Hann hafði gaman að því að segja sögur af sér og þótti þá stundum heldur ýkinn. Ein sagan var þessi: "Einu sinni var ég að koma úr Skaftholtsréttum og var einn á ferð. En það hefur löngum þótt reimt á henni Murneyri. Þegar ég kom þangað, mætti ég manni og spurði hver þar færi. En það var steinhljóð, en hann tók ofan höfuðið og hristi framan í mig lungun" (ísl.sagnaþættir og þjóðsögur III).
 

 

Önnur:- Þegar Þorsteinn var vinnumaður á Bjólu bjó ekkja á næsta bæ, sem átti ferhyrndan hrút, er var svo mikill að enginn teysti sér til að skera hann. Bauðst Þorsteinn að lokum til þess og fékk höfuð hans í skurðarlaun. Dugði ullin af höfðinu í þrenna sjóvettlinga.
 

 

Ein önnur:- Þegar Jörundur hundadagakonungur var hér á landi kom eitt sinn skip að leita að honum. Voru þá æpt heróp um allan Eyrarbakka til þess að setja fram lóðsskipið. Þegar Þorsteinn kom út í skipið sá hann blámann bundinn þar í lestinni. Var hann svo stór og eftir því munnurinn, að þrjá menn þurfti til þess að moka grjónagrautnum upp í hann með skóflu.

(Sagnagrunnur 2.0 beta)

27.11.2010 13:07

Hornriði

Strekkingsvindur með dembuskúrum, hér við sjávarströndina, voru í eina tíð nefnd "hornriði". Þá  var talað um hornriðaöldu, hornriðabrim og hornriðasjó þessu samfara. Í illmúruðum hornriða og harðindatíð á vetrum renna afarháar kviköldur og hvítfyssandi fallsjóir undan strekkings veðri á vesturleið til djúpanna og valda ógurlegu brimi við suðurströnd landsins, einkum í Eyrarbakkabugðunni.

 

 

 

Eru kvikur þessar nefndar harðindakvikur, enda jafnan fyrirboði mestu illtýruharðinda, og brimið, sem undan þeim rennur, er kallað hornriðasjór eða harðindabrim. í þannig háttaðri veðráttu er oft lygnt nærri landinu (lognsæbrigði) og aðeins andvari af norðri, og eykst þá brimið ávalt því meir sem meira blæs á móti úr gagnstæðri átt eða í aflandsvindi. Getur sá andhyglisháttur, milli hornriðans og há-áttarinnar, staðið svo dögum skiptir, uns hornriðinn verður að láta i minni pokann, og útslétta er á komin, svo að hvergi örlar við stein, engin agga sést við landið og öræfasund öll eru fær, jafnvel mús á mykjuskán, en sjaldan stendur sú ládeyða lengi, þvi undirdráttarveðrið (sem oftast er aðeins svikahlér) með hornriðann í fararbroddi, er þá oft fyrr en varir í aðsígi.
 

 

Bjarni Björnsson bókbindari (1808-1890) í Götu á Stokkseyri var fjölfróður maður og minnugur. Sagði hann að frá ómunatið hefði sú saga i munnmælum verið viðhöfð hér um nafnið á hornriðanum, að áður fyrr þá er menn úr Austursveitum sóttu nauðsynjar sínar út á Bakka, hafi þeir riðið á meljum eða marhálmsdýnum og við hornistöð, en það tiðkaðist þó ekki á Bakkanum.  Fyrir þvi hafi Bakkamenn tekið upp á þvi, að kalla þá "hornriða", og síðan, í óvirðingarskyni við þá, látið þessa hvimleiðu veðráttu heita í höfuðið á þeim. Þeir skírðu hana því hornriða og er hún talin einhver versta og langvinnasta veðráttan í Flóanum og við sjávarsíðuna á Suðurlandsundirlendinu. Þó má vel vera að um eftirá skýringu sé að ræða og nafnið sé einfaldlega dregið af riðandi öldum sem brotna í hornboga.

 

Heimild: Jón Pálsson í Vöku 1.tbl. 1927

25.11.2010 22:07

Kuldi í kortunum


Ef einhverjum þykir vera kalt þessa daganna, þá á það bara eftir að versna nú þegar helgin gengur í garð og einkum á Sunnudaginn, en þá spáir veðurstofan kuldakasti og samkvæmt því má búast við 5-10 stiga frosti hér við sjóinn, en kaldara inn til landsinns.

23.11.2010 23:00

Hrímfagurt eftir frostþokuna



í gærkvöld og nótt gerði töluverða hrímþoku, svo að um tíma sást vart á milli húsa. Í morgun voru tré og runnar og hvaðeina klætt hrími sem færði svolítin jólablæ yfir þorpið, þar til sólin náði að bræða þetta listaverk náttúrunnar að mestu.

22.11.2010 01:37

Ýlir eða Frermánuður

gamalt jólakort (1927)Annar mánuður vetrar heitir Ýlir (um tíma nefndur Ýlir hinn fyrri) og hefst alltaf á mánudegi. er talið af sumum að nafnið sé dregið af gotneska orðinu "Jiuleis", sem er skylt orðinu" jól" eða Jólmánuður sem endar á "höggunótt" þ,e, aðfararnótt "Þorra". Þannig að 2 og 3 mánuður vetrar hafa um tíma borið sama nafn og er sá ruglingur líklega til orðin vegna tilfærslu jólanna eftir krisnitöku. Í Heiðni heitir 3. mánuður vetrar "Ýlir" (um tíma Ýlir hinn síðari) og endar á höggunótt en einnig nefndur "Mörsugur". Í Eddu heitir 2. mánuður vetrar "Frermánuður" þ.e. frostmánuður.

Heimild Reykjavík 9.árg.1908/Ingólfur 7.tbl 1909/Wikipedia

Flettingar í dag: 484
Gestir í dag: 177
Flettingar í gær: 1389
Gestir í gær: 70
Samtals flettingar: 264322
Samtals gestir: 34136
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 23:10:58