02.09.2011 23:36

Aflabrögð 1955

ÆgirVertíðin á Bakkanum 1955 fór hægt af stað og réri aðeins einn bátur í janúar og fór hann 10 róðra.  Frá byrjun febrúar til vertíðarloka 11. maí reru 5 bátar frá Eyrarbakka og var heildaraflinn 1208 smál. í 275 róðrum. Aflahæsti báturinn á vertíðinni var "Ægir" með 325 smál. í 61 róðri. Í öðru og þriðja sæti voru "Sjöfn" og "Jóhann Þorkelsson".


Heimild: Tímaritið Ægir.

01.09.2011 22:49

Tíðarfarið á Bakkanum í ágúst

LitlahraunÁgústmánuður var hægviðrasamur þurr, sólríkur og hlýr á Bakkanum líkt og í fyrra. Heitustu dagar voru 6. ágúst með 19 stiga hita og 17. ágúst með 18 stiga hita, en oftast var hámarkshitastig 15-17°C.  Næturfrost varð aðfararnótt 27. ágúst, en kartöflugrös sluppu að mestu við skemdir. Úrkoma var helst síðustu daga mánaðarins, en þann 31. hafði sólarhringsúrkoma mælst 16mm.

28.08.2011 23:12

Fregnir af ferðum Irenar

Spá um ferðir Irenu
Irene er nú 975 mb. hitabeltisstormur (POST-TROPICAL CYCLONE ) og veikist, en að sama skapi breiðir stormurinn sig yfir stærra svæði. Vindhraði er um 24 m/s. Stormurinn mun fara yfir Kanada í nótt og á morgun.  Stormurinn mun síðan taka stefnu á Íslands strendur og munu áhrifa Irenu fara að gæta víðsvegar um land á fimtudag með austan strekkingi. Gert er ráð fyrir að stormurinn muni síðan þrengja sér inn á Grænlandssund með vindhraða um 21m/s. Hinsvegar bendir allt til þess að besta veðrið verði á Bakkanum á meðan íslandsheimsókn Irene stendur, en að öllum líkindum mun brima talsvert hér við ströndina í kjölfarið.

27.08.2011 23:47

Áhrifa Irene mun gæta sunnanlands

Gert er ráð fyrir að fellibylurinn IRINE sem nú hrellir íbúa á vesturströnd bandaríkjanna muni leggja leið sína norður á bógin eins og kortið hér til hliðar sýnir. Áhrifa hennar fer að gæta hér við land upp undir næstu helgi en mun standa stutt. Irine mun því verða fyrsta haustlægðin með strekkings austanátt víða um sunnanvert landið, einkum við fjöll. Lægðin mun væntanlega draga með sér talsverða úrkomu á suðausturlandið. Á Bakkanum verður að öllum líkindum skaplegasta veður, vart meira en 6 m/s þó hvasst verði í nærliggjandi sveitum.

Irene er nú 1. stigs fellibylur á norðaustuleið með ströndum Carolínu fylkis.

27.08.2011 11:19

Næturfrost á Bakkanum

Hitastig komst undir frostmark liðna nótt samkv. sjálfvirku veðurstöðinni á Eyrarbakka og stóð í um fjórar klukkustundir frá því um kl.3. Mest var frostið -1,6°C um kl. 6, en kl. 8 var orðið frostlaust. Ekki hefur frést af föllnum kartöflugrösum.

24.08.2011 23:06

Aflabrögð 1956

ÆgirVertíðina 1956 reru fjórir bátar af Bakkanum, Jóhann Þorkellsson ÁR 24, Helgi ÁR 10, Ægir ÁR 183, og einn bátur til. Þeir öfluðu samtals 934 lestir fisks (1.208 lestir) í 194 róðrum. Lifrarfengur var 78.235 litr., en 112 Þús. litr. árið áður. Mb. Jóhann Þorkelsson var aflahæstur með 253 lestir fisks í 49 sjóferðum. Skipstjóri á Jóhanni Þorkelssyni var Bjarni Jóhannsson. Vertíðin hófst ekki fyrr en í febrúar, en þá komust tveir bátar til sjós, einn róður hvor en í mars fóru Bakkabátar samtals 60 róðra og 55 í apríl.

23.08.2011 21:43

Aflabrögð 1957

HraðfrystistöðinVertíðin 1957 hófst í byrjun febrúar og reru tveir bátar frá Eyrarbakka: Helgi og Jóhann Þorkellsson. Róið var með línu fram til 1. mars, en þá hófust netaveiðar. Gæftir voru oft stirðar á vertíðinni, en henni lauk eftir miðjan apríl. Heildaraflinn varð 704 lestir í 93 róðrum, sem skiptist þannig: Helgi með 353 lestir í 45 róðrum og Jóh. Þorkelsson með 351 lest í 48 róðrum.

20.08.2011 23:14

Aflabrögð 1958

Jóhann ÞorkellssonVetrarvertíðin 1958 hófst um miðjan janúar frá Eyrarbakka og reri einn bátur, Jóhann Þorkellsson á línu.  Hann aflað alls 21 lest í 11 róðrum, en í byrjun mars hófst netavertíðin og réru þá tveir bátar, mb. Jóhann Þorkellsson og mb. Helgi. Heildaraflinn á vertíðinni sem lauk 5. maí var 577 lestir hjá bátunum í 103 róðrum, þar af aflaði Jóhann Þorkelsson 312 lestir í 58 róðrum, en Helgi 265 lestir í 45 róðrum. Á humarvertíðinni  júní - ágúst réru fjórir bátar og var afli sæmilegur, eða um 20-30 smál. af humar og einnig nokkuð af ýmiskonar fiski.

18.08.2011 23:07

Aflabrögð 1959

Helgi ÁR 10Vetrarvertíðina 1959 stunduðu tveir bátar netaveiðar frá Eyrarbakka , Jóhann Þorkellsson ÁR 24 og  Helgi ÁR 10. Bátarnir komust þó ekki til sjós að ráði fyrr en í mars vegna stöðugra ógæfta. Heildaraflinn á vertíðinni varð 212 lestir í 64 róðrum. Fjórir bátar hófu humarvertíðina á Bakkanum, en lengst af vertíðinni reru einungis tveir bátar. Afli var allgóður þegar gaf á sjó. Frá september til ársloka var engin útgerð stunduð frá Eyrarbakka.

17.08.2011 22:53

Heyskap lokið


Heyskap á Bakkanum er almennt lokið í sumar og öll nýtanleg tún hafa verið hirt. Kalt vor og miklir þurkar í sumar háðu grassprettu og heyfengur því minni nú en oft áður.

14.08.2011 10:50

Hrói og Dröfn gefin saman


Fjöldi fólks var viðstatt brúðkaup aldarinnar á Eyrarbakka, þegar gefin voru saman fegursti haninn og fegursta hænan.
Ragnar dúfna og hænsnabóndi að Brandshúsum tilkynnir lýðnum hvaða hani og hæna urðu hlutskörpust í fegurðarsamkeppninni. Greidd voru 1.164 gild atkvæði.










Hlutskörpust urðu haninn "Hrói" og hænan "Dröfn". Eigandi fuglanna er Erna Gísladóttir, en hún heldur hér á "Dröfn" t.v. en Ólöf Helga Haraldsdóttir heldur á brúðgumanum.

Það var svo Hreppstjórinn sjálfur sem gaf púturnar saman í borgaralegt hænsnaband við hátíðlega athöfn en Byggðarhornssystrabandið sá um undirspil og söng.

Sláttukeppni fór fram við Íshúsið þar sem Eyrbekkskir sláttumenn öttu kappi með orf og ljá. Keppnina sigraði Emil Ingi Haraldsson.

13.08.2011 12:33

Fjölmenni í skrúðgöngu


Gríðarlegur fjöldi fólks tók þátt í skrúðgöngunni í morgun, en nú stendur sem hæst hin árlega Aldamótahátíð og mikið um að vera á Bakkanum, enda dagskráin full af fornlegum uppákomum.

Hreppstjórinn á Eyrarbakka Siggeir Ingólfsson og frú Anna Árnadóttir í Gónhól prúðbúinn á ferð.

Kaupmaðurinn búinn að opna Laugabúð, þar mun vera höndlað með ýmsan eftirsóttan varning alla helgina. 

Eyrbesk börn, sem og fullorðnir eru klædd samkvæmt nýjustu tísku hér á ströndinni.








Sr. Sveinn blessaði lýðinn á Kaupmannstúninu, en síðan var boðið upp á ljúfenga kjötsúpu.

Í gamladaga voru margar turndúfur á Bakkanum, en þessi stúlka mun sjá um að sleppa þessum turtildúfum frá gallery Gónhól síðdegis í dag, en þar mun einnig verða brúðkaup aldarinnar þegar gefin verða saman fegursta hænan og fegursti haninn. Í Gónhól stendur nú yfir fegurðarsamkeppni hænsnfugla og er fólk hvatt til að leggja til sitt fegurðarmat á þessari dýrasamkomu.

12.08.2011 22:58

Aflabrögð 1960

Á vetrarvertíðinni 1960 reri aðeins einn bátur frá Eyrarbakka, mb. Jóhann Þorkellsson, en skipstjóri á honum var Bjarni Jóhansson. Báturinn aflaði 233 lestir (óslægt) í 44 róðrum. Á humarvertíð reru tveir bátar Jóhann Þorkellsson og Helgi,  var afli þeirra sæmilegur. Ekkert var róið eftir humarvertíðina.

11.08.2011 00:17

Helgarspáin

Nú er ljóst að einmuna veðurblíða mun leika við hina Eyrbekksku strönd og gesti Aldamótahátíðar um komandi helgi.

föstudagur: Hægviðri eða létt hafgola, hiti um 14 stig, sólskín.

laugardagur: Hæg norðanátt, hiti 14-16 stig, sólskín.

sunnudagur:  Vaxandi  norðanátt, hiti 12-14 stig, sólskín.

06.08.2011 23:16

Aflabrögð 1961

Bátar í slippnumVertíðina 1961 reru þrír bátar af Eyrarbakka, en það voru Björn ÁR, skipstj. Sigurður Guðjónsson, Helgi ÁR 10, skipstjóri Sverrir Bjarnfinnsson aflakóngur og Jóhann Þorkellson ÁR 24, en skipstjórin á honum var Bjarni Jóhannsson.

16. - 31. jan. Frá Eyrarbakka reru 2 bátar í byrjun vertíðar með línu. Fóru þeir alls 7 róðra í jan. og öfluðu 16 lestir óslægt, þar af aflaði Helgi ÁR 10, 14 lestir í 6 róðrum.

1.-15. febrúar.  Héðan reru 2 bátar með línu; nam afli þeirra á tímabilinu 67 lestum í 18 róðrum, var afli þeirra nær alveg jafn.

16.-28. febr. Héðan reru 2 bátar með línu og varð afli þeirra á tímabilinu 25 lestir í 8 róðrum.

1.-15. marz. Héðan reru 2 bátar með net. Voru gæftir alveg afleitar. Fór hvor bátanna 2 róðra og nam aflinn 6 lestum.

15. - 31. marz. Héðan reru 3 bátar með net. Gæftir voru sæmilegar, en þó flest farnir 13 róðrar. Aflahæsti bátur á tímabilinu varð ms. Björn með 68 lestir.

1.apríl - 15. apríl 1961. Héðan reru 3 bátar með net. Gæftir voru mjög góðar og voru flest farnir 13 róðrar. Aflinn á tímabilinu varð 195 lestir í 33 róðrum. Aflahæstu bátarnir á tímabilinu voru: Helgi með 77 lestir í 13 róðrum og  Jóhann Þorkelsson með  69 lestir í 13 róðrum.

16.-30. apríl. Héðan reru 3 bátar með net. Gæftir voru góðar og voru flest farnir 11 róðrar. Aflahæsti bátur á vertíðinni í apríllok var Helgi með 234 lestir í 57 róðrum.

Helgi ÁR 101.-15. maí 1961, vertíðarlok. Frá Eyrarbakka reru 3 bátar með net, gæftir voru sæmilegar. Aflinn á tímabilinu varð 33 lestir í 5 róðrum. Aflahæsti báturinn var ms. Björn með 27 lestir (óslægt) í 3 róðrum. Heildaraflinn á vertíðinni varð 637 lestir (óslægt) í 141 róðri hjá 3 bátum. Aflahæstu bátar á vertíðinni voru: Helgi með 237 lestir í 58 róðrum og Jóhann Þorkelsson með 221 lest í 53 róðrum.

15. maí til 31. ágúst, humarvertíð. Af Bakkanum stunduðu 4 bátar humarveiðar og öfluðu allvel eða um 4 lestir í veiðiför en afli fór minkandi er áleið.

1. sept. - 31. okt. Héðan stunduðu 3 bátar humarveiðar fram til 15. september. Afli var mjög rýr frá septemberbyrjun og aðallega þorskur og langa. Algeng veiðiköst voru um 1 lest í veiðiferð, sem tekur venjulega um 2 sólarhringa.

Ekkert var róið af Bakkanum í nóvember og desember 1961.

Heimild:  Ægir 1961.

Flettingar í dag: 78
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 444
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 378473
Samtals gestir: 42916
Tölur uppfærðar: 31.3.2025 08:30:26