18.10.2011 21:03
Vertíðin 1974
Vertíðin hófst í febrúar þegar 1 bátur hóf togveiðar en í allt voru 7 bátar gerðir út frá Eyrarbakka á vetrarvertíð sem lauk 15. maí. . Heildarafli á vertíðinni var 3.018 lestir. Þar af landað heima 1.517 lestum úr 197 sjóferðum. Hæstu bátar á vertíðinni voru: Hafrún 366, lestir 55 róðrum Álaborg 349, lestir í 56 róðrum. Jóhann Þorkelsson 318,lestir í 53 róðrum Skipstjóri á Hafrúnu var Valdimar Eiðsson.( Hafrún brann í róðri 12 sep 1974 ) Aðrir bátar sem voru með aflahæstu bátum í einstaka róðrum voru: Sólborg, Sæfari og Guðmundur Tómasson VE (Var síðar keyptur til Eyrarbakka). sjöundi báturinn var Askur ÁR. Yfir sumarið stunduðu 4 bátar humarveiðar og 4 bátar veiðar með fiskitrolli. Þegar leið á haustið fækkaði bátum á sjó og aðeins einn bátur réri í desember og aflaði 6 lestir í 1 róðri. Heildarafli bakkabáta 1974 var 3.978 lestir.
15.10.2011 20:51
Björgun
Þyrla Landhelgisgæslunar TF-Líf tók þátt í björgunaræfingu með Björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka í dag, þar sem æft var með leitarhunda og sigmann.(Mynd t.v.: Linda Ásdísardóttir)
Hér eru nokkrar gamlar myndir þar sem þyrlur Gæslunar hafa komið við sögu á æfingum og björgunum með björgunarsveitinni á Eyrarbakka.
Æft með TF-Sif snemma á 8. áratugnum.
TF-Gná yfir Eyrarbakka eftir Suðurlandsskjálftan 2008.TF-Gró við björgunarstörf í brimgarðinum á Eyrarbakka 1983 ásamt björgunarsveitarmönnum. Saga þyrlanna er í stuttu máli þannig:
Fyrsta þyrlan sem skráð var hér á landi var smávél af gerðinni Bell-47. Hún var skrásett 10. júní 1949, en skilað aftur til Bandaríkjanna í september sama ár. Nr.2 var einnig Bell-47. Það var TF-EIR sem var i eigu Slysavarnafélags Íslands og Landhelgisgæslunnar. Hún var skrasett 30. apríl 1965. TF-EIR brotlenti á Rjúpnafelli 29. september 1971 og gjöreyðiiegðist. Nr. 3 var TF-GNÁ, stór Sikorsky þyrla i eigu Landhelgisgæslunnar. Hún var skrásett 21. febrúar 1972. TF-GNÁ eyðilagðist i nauðlendingu á Skálafelli 3. október 1975 eftir að drifkassi í stéli brotnaði. nr.4 var TF-HUG sem var af gerðinni BeIl-47 og í eigu Landhelgisgæslunnar. Hún var skrásett 29. mars 1973. Þessi þyrla skemmdist í nauðlendingu, eftir hreyfilbilun í grennd við Kópavogshæli, 13. febrúar 1977. Nr.5 var TF-MUN. Hún var einnig af gerðinni Bell-47 í eigu Landhelgisgæslunnar. Hún skemmdist í nauðlendingu, vegna hreyfilbilunar, i grennd við Vogastapa árið 1975. Nr. 6 var TF-GRO. Hún var af gerðinni Hughes 369 og í eigu Landhelgisgæslunnar. Hún var skráð hér á landi 7. apríl 1976. Þessi þyrla flaug á loftlínu, við Búrfellsvirkjun, og eyðilagðist, 17. nóvember 1980. Nr.7 var TF-Rán tekin í notkun 1980, en hún fórst í Jökulfjörðum 1983.
Heimild: DV 1981 og Wikipedia
12.10.2011 21:05
Horfinn tími, Eyrarbakki 1982


Efri mynd: Húsið "Vegamót" framan við Skjaldbreið.
Neðri mynd: Tekið af veginum sem lá út á höfn.
Heimild: Sjómannadagsblaðið 1982.
08.10.2011 20:23
Grímstaðir, bær á Eyrarbakka
Grímsstaðir var rifið seint á 7. áratug síðustu aldar og var þá ein síðasta bæjartóftin frá fyrri tíð, en þegar þessi mynd var tekin 1976 var torfbærinn löngu fallinn en yngra bæjarhús uppistandandi. Einn þekktasti búandinn á Grímstöðum var Toggi í Réttinni.
08.10.2011 20:11
Það brimar við bölklett
Það brast á SA stormur um stund snemma í morgun þegar meðalvindhraði fór í 22 m/s, versta vinhviðan var 28.7 m/s á veðurathugunarstöðinni. Mikil rigning fylgdi veðrinu, en kl. 9 í morgun voru mældir 14 mm og nú hafa 9 mm bæst við í dag. Nú er strekkingsvindur og hefur færst til suðvestanáttar með brimgangi.
06.10.2011 21:58
Vertíðin 1973
Vertíðin 1973 fór hægt af stað, en í janúar reru einungis tveir bátar, en eftir því sem leið á vertíðina fjölgaði bátum og voru þeir 11 þegar mest var á Bakkanum þetta árið, en þar á meðal voru þrír botnvörpubátar frá Vestmannaeyjum vistaðir á Eyrarbakka vegna eldgosins í Eyjum. Hæstu netabátarnir á vertíðinni voru Þorlákur helgi, 386 lestir í 46 róðrum Hafrún, 377 lestir í 59 róðrum, Askur, 374 lestir 53 í róðrum. Skipstjóri á Þorláki helga var Sverrir Bjarnfinnsson. Heildaraflinn á vetrarvertíð frá áramótum varð 3560 lestir og þar af landað heima 2371 lest úr 337 róðrum.
M/b Leó frá Vestmannaeyjum, sem landaði mestum afla sínum í Þorlákshöfn, var með 637 lestir. Skipstjóri á Leó var Óskar Matthíasson. Eftir því sem leið á haustið að lokinni humarvertíð fækkaði bátum til sjós og í nóvember voru aðeins þrír bátar að veiðum, en ekkert var róið í desember.
Ársaflinn mun hafa verið um 4.766 lestir, þ.m.t. humar og annar fiskur.
04.10.2011 21:39
Horfinn tími, Eyrarbakki 1972


Þessar myndir verða ekki teknar aftur, en þær segja sögu horfins tíma á Bakkanum. Myndirnar tók Stefán Nikulásson 1972 fyrir Tímann. (Stefán var blaðaljósmyndari, fæddur í Vestmannaeyjum 1915).
02.10.2011 20:54
Tvær teikningar

Halldór Pétursson teiknari gerði þessa teikningu eftir gamalli mynd, en hér má sjá verslun Guðlaugs Pálssonar og aðrar byggingar í grend. Atvik myndarinnar gerist á óljósum tíma, en Guðlaugur hóf verslun 1917. Á myndinni eru raflínur, frekar en símalínur s.br.lampinn ofan við dyrnar, en raflínurnar komu um 1920.

Þessi teikning er af Húsinu á Eyrarbakka, en hana gerði Sigurður Jónsson flugmaður. (Siggi flug var fæddur á Eyrarbakka) Takið eftir ljósastaunum til vinstri við Assisdenthúsið.
01.10.2011 20:32
Tíðin í september
Það var hlýtt sunnanlands fyrstu dagana í september og voru hæstu hitatölur á Eyrarbakka tæplega 19 stig. Eins var mánuðurinn tiltölulega hlýr. Aðeins einu sinni fór hiti undir 0°C og skemdust þá kartöflugrös nokkuð. Ösku og moldfok varði í nokkra daga og byrgði mönnum sýn til sunnlenskra fjalla. Tvisvar hafa komið hvassviðri með stormrokum og rigningu. Síðustu dagar mánaðarins voru fremur vætusamir hér við ströndina. Haustlitirnir eru alsráðandi í náttúrunni og laufin falla ört þessa dagana.
28.09.2011 22:41
Gamla gatan
Gamla gatan 1977. Hér má sjá að búið er að malbika austurbakkann, en malarvegurinn gamli og holurnar og pollarnir eru enn á vesturbakkanum. Á austurbakkanum eru járnstaurarnir komnir, en tréstararnir eru enn á vesturbakkanum og raflínurnar í loftinu. Malbikið endar austan við Skjaldbreið. Ekki var búið að leggja gangstéttir þegar hér er komið sögu, en voru byggðar í áföngum næstu árin á eftir. Þannig eru flestar gangstéttir á Bakkanum orðnar þrítugar og úr sér gengnar. Mikið hefur verið rætt um það meðal fólks hér í þorpinu að löngu sé orðið tímabært að endurnýja gamlar stéttar ásamt ljósastaurum sem komnir eru fram yfir leyfilegan notkunartíma. Hafði nokkru fé verið lofað af bæjaryfirvöldum á þessu ári til endurbóta 1. áfanga við austurbakkann, en nokkrir aðilar óskuðu eftir að þeim áfanga yrði frestað.
27.09.2011 23:31
Vertíðin 1972
Vetrarvertíðin 1972 hófst í byrjun febrúar á Eyrarbakka. Alls voru 7 bátar gerðir út þessa vertíð. Heildaraflinn var alls 1606 lestir. Aflahæstu bátar á vertíðinni voru: Álaborg með 484 lestir, Þorlákur helgi með 472 lestir,og Jóhann Þorkelsson með 457 lestir. Skipstjóri á mb. Álaborg var Karl Zophaniasson. Sumar og haustvertíð stunduðu 5-6 bátar, en ekkert var róið í oktober og aðeins einn bátur réri í desembermánuði. Heildaraflinn á Eyrarbakka frá 1. jan. til 31. des. var 2.147 lestir. (Humarafli er ekki meðtalinn).
Heimild: T.r. Ægir.
25.09.2011 19:33
Örebak gamle Faktorbolig
Húsið og skáldkonan: Hún hét Thit Jensen, systir Johannesar V. Jensens, hins mikla Danaskálds. Hún hafði verið unnusta Íslensks námsmanns i Kaupmannahöfn, en síðar slitnaði með þeim, en hún kom hingað á eftir honum og dvaldi tvö sumur I "Húsinu" á Eyrarbakka, 1904 og 1905. Þá orti hún um "Húsið" á Bakkanum, "örebak gamle Faktorbolig", og ibúa þess:
Gamle Specier i et gammelt Gemme, |
Í ljóðinu talar hún um hina fornu hluti |
Thit Jensen (Maria Kirstine Dorothea Jensen 1876-1957) var fædd á heimili dýralæknis í Farso og var elsta barn í 12 manna systkynahóp. Sem ung stúlka var hún kölluð "Himmerlands skønhed" (himnesk fegurð). Um aldamótin 1900 flutti hún til Kaupmannahafnar til að skrifa um vandamál sinnar tíðar og gaf hún út mörg rit t.d. um kvenréttindamál, en auk þess hélt hún fyrirlestra. Einhverju sinni kallaði einn áheyrandinn og vitnaði í söguna um Adam og Evu og eplið, "og þar með olli kona fyrstu syndinni", en Thit svaraði um hæl, "Má vera, en þegar Adam hafði barnaði Evu, kom fyrsti kjáninn í heiminn". Thit Jensen fékk margar viðurkenningar fyrir skrif sín um ævina. Hún var gift 1912-1918 málaranum Gustav Fenger
Heimild: Tíminn 06.02.72- Wikipedia.
20.09.2011 22:00
Gangstéttir og götuljós
Í kvöld var fundað á Eyrarbakka um endurnýjun gangstétta og götuljósa. Af því tilefni er gaman að rifja upp hugleiðingar Eyrbekkings árið 1910:
Hugleiðing á Bakkanum "er gerast kvöldin dimm og löng",
Sólin er að setjast. - Rökkurskuggainir eru þegar byrjaðir að teygja út armana. - Syrtir að í lofti. Mér er sem eg heyri dyn mikinn, sem af vængjataki. - Það er nóttin. Það fer um míg hrollur, eg flýti mér heim. - Eg kemst ekkert áfram, einlægur árekstur, hamingjan góða! Hvar eru götuljósin? spyr eg sjálfan mig og ætla að fara að blessa yflr bæjarstjórnina, en þá man ég það að hún er engin til hérna á Bakkanum, já, það var nú verra gamanið. Hver á þá að kveikja? Hreppsnefndin sagði einhver. Já, það hlýtur þá vist að vera hún, já, guð blessi hreppsnefndina, segi eg, hún veit hvað hún hefir að gera. - En það verður ekki kveikt á engu, maður lifandi, - onei, nei, fyrst að enginn vill taka sig fram um að nota vindinn, já það var líka satt, hann hefði ekki annað að gera en kveikja á kvöldin, nægur tími til fyrir hann, að sækja í sig veðrið í útsynningnum allan daginn og kveikja svo á kvöldin. - Hefir nokkur farið fram á það við hann "herra Storm", að hann gerði eitthvað til gagns, nei nei blessaður, - en hann á þó ef til vill, eða gæti átt rafurmagn í pokahorninu ef látið væri við hann beislið? Já, ekki vil eg nú bíða eftir þvi, og heldur fara í hreppsnefndina og eg læt ekki sitja við orðin tóm, og sest undir gluggana hjá henni og syng hana í svefn, geri henni galdra og risti henni rúnir, ef hún fer ekki að hugsa fyrir götuljósum áður en eg verð búinn að mola í mér hauskúpuna og skaðskemma nefið á náunganum. Mér er annars full alvara, eg ætla að biðja blessaða hreppsnefndina ósköp vel, að gleyma ekki þeim fáu, sem eru Ijóssins börn, en láta hitt ruslið sjá um sig sjálft - og hugsa fyrir götuljósum áður en mesta skammdegismyrkrið skellur á. Já, því má hún ekki gleyma.
Frá fundinum er það skemmst frá að segja að fundurinn samþykkti að fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við endurbyggingu fallina gangstétta á Eyrarbakka, en útboð stóð fyrir dyrum.
Heimild: Óþekktur Eyrbekkingur.
18.09.2011 21:46
Hvass sunnudagur
18.09.2011 20:36
Vertíðin 1971
Frá Eyrarbakka stunduðu 6 bátar vertíðina 1971: m/b Kristján Guðmundsson, m/b Jóhann Þorkellsson, m/b Þorlákur helgi, m/b Hafrún, m/b Fjalar og m/b Álaborg. Heildaraflinn á vertíðinni var alls 1.860 lestir, Aflahæstu bátar á vertíðinni voru: 1. Jóhann Þorkelsson 477 lestir 2. Þorlákur helgi 463 lestir. Skipstjóri á m/b Jóhanni Þorkelssyni var Bjarni Jóhannsson. Allir bátarnir gerðu út á sumarvertíð, ýmist með humartroll eða botnvörpu. Héðan var ekkert róið í desember en heildaraflinn frá 1. jan. til 1. des. var alls 2.436 lestir (þar af sl. humar 37 lestir) en var árið 1970 á sama tíma 2.770 lestir (þar af sl. humar 16 lestir).