18.07.2021 23:03

Mannfjöldi á Eyrarbakka 1927-30


Árið 1926 voru 692 skráðir til heimilis í Eyrarbakka kauptúni og þá enn með stærri kauptúnum landsins. Aðeins Akranes, Bolungarvík, Húsavík, Norðfjörður og Eskifjörður voru stærri kauptún.

Árið eftir (1927) fækkaði íbúum á Eyrarbakka um 52 einstaklinga og stóð íbúafjöldi í 640. Þá fóru Keflavík og Sauðárkrókur framúr í fólksfjölda.

1928 fjölgaði Eyrbekkingum í 648, en árið eftir (1929) féll íbúatalan niður í 621. Þá fóru Búðir í Fáskrúðsfirði framúr í fólksfjölda.

1930 var íbúafjöldinn á Bakkanum fallin í 608 skráða íbúa. Þessi þróun hélst næstu árin þar til íbúafjöldi komst í jafnvægi um 500 manns og hefur haldist á þessu bili 5 - 600 manns síðan. Í dag eru 590 íbúar skráðir á Eyrarbakka. (Á þessum árum var Selfoss rétt að byrja að byggjast upp og því ekki getið í heimildum)

Í Eyrarbakka læknishéraði (Flóinn) létust 208 manns á þessu tímabili. Úr barnaveiki 1, úr gíghósta 7, kvefsótt 2, taugaveiki 3, blóðsótt 1, gigtsótt 1, lungnatæringu 21, heilaberklabólga 5, berkum 3, sullaveiki 1, drukknun 9, slysförum 4, sjálfsmorð 2, meðfæddum sjúkdómum 3, elli 46, krabbameini 14, hjartaáfalli 12, aðrir hjartasjúkdómar 1, æðasjúkdóma 1, heilablóðfalli 18, flogaveiki 1, langvarandi lungnakvefi 2, lungnabólga 19, brjósthimnubólgu 3, garnakvefi 1, botlangabólgu 2, kviðslit 1, langvarandi nýrnabólgu 1 og önnur ótilgreind dauðsföll 7.

Heimild: hagskýrslur um mannfjölda þróun.

12.07.2021 22:44

Á sjó 1960


Þrír bátar gerðu út frá Eyrarbakka árið 1960. Það voru "Kristján Guðmundsson ÁR 15"  sem var aflahæstur þessa vertíð. Jóhann Þorkelsson ÁR 24 og Öðlingur Ár 10.
Nýtt salthús var tekið í notkun þetta ár.

Kristján var smíðaður í Svíþjóð 1956 53 tonna fiskibátur í eigu útgerðafélagsins Ásþór hf Eyrarbakka.  Báturinn hét áður Faxi GK 90 en kom upphaflega til Vestmannaeyja og hét þá Unnur VE 80.
Báturinn slitnaði upp 1964  og hafnaði í fjörunni lítið skemmdur. Bátnum var smokrað upp á vagna. Björgun hf. tók að sér verkið. Báturinn var dæmdur ónýtur sökum þurrafúa 1973 og brenndur.

Jóhann var í eigu Fiskivers hf. þeirra bræðra Jóhanns og Bjarna Jóhannssonar. Þeir áttu nokkra báta sem báru þetta nafn á sínum útgerðarferli. Síðasti bátur þeirra með þessu nafni strandaði á Eyrarbakka 1981 en hann var 56 tonna eikarbátur smíðaður 1975 og var dæmdur ónýtur á staðnum. (Mynd hér að ofan) Jafnframt áttu þeir Álaborg Ár 25  hið fyrra keypt 1970 og hið síðara lagalegur Íslanssmíðaður 138 tn. stálbátur sem þeir gerðu út frá 1996 - 2007 er hún var seld til Vestmannaeyja.

Öðlingur síðari var keyptur 1962 og var sænsk smíðaður 51 tonna eikarbátur frá 1946. Báturinn var í eigu Vigfúsar Jónssonar og Sverris Bjarnfinnssonar.  Árið 1964 kviknaði í honum í slippnum og var dæmdur ónýtur. 

04.07.2021 22:32

Óðinshús, hús með sögu og sál.

Óðinshús, lengst af í eigu útgerðafélagsins Óðinn hf. sem rak þar netaverkstæði. Útgerðafélagið var í eigu Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf. Þar var áður Rafstöðin á Eyrarbakka og Slökkvistöð síðar. Upphaflega byggt sem pakkhús fyrir Kaupfélagið Heklu árið 1913 og er eitt elsta steinsteypta húsið á landinu. Árið 2002 keypti Sverrir Geirmundsson í Ingólfi Óðinshús og rak þar vinsælt lista gallery og vinnustofu í allmörg ár. Þar hafa málverk margra núlifandi íslenskra listamanna prýtt veggi og ýmsir aðrir menningaviðburðir lítið dagsins ljós. Ýmsir listmálarar hafa fundið fyrir andardrætti listagyðjunar á Bakkanum,  t.d. Jón Ingi Sigurmundsson og Gunnsteinn Gíslason sem hefur haft vinnuaðstöðu í Ólabúð sem einnig er gamalt og merkilegt verslunarhús. Árið 2019 var Óðinshús auglýst til sölu. Dana Marlin Maltverskur efnafræðingur keypti húsið og hyggst opna þar brugg og kaffihús innan tíðar, þar sem sjávarþangið kryddar tilveruna.






27.06.2021 22:43

Leiklistin á Bakkanum

Fyrsta leiksýningin sem sem sett var upp á Eyrarbakka svo vitað sé var 'Narfi' árið 1880 - 1881 eftir Sigurð Pétursson frá árinu1799. -Narfi er í þremur þáttum og segir frá uppskafningnum Narfa, sem kemur á heimili Guttorms lögréttumanns undir fölsku flaggi, talar brogaða dönsku og reynir að ganga í augun á dóttur lögréttumannsins en þarf að lúta í lægra haldi fyrir Nikulási vinnumanni, sem nær ástum stúlkunnar. - Síðan voru oft settir upp sjónleikir, einkum eftir Bjarna Pálsson allt fram til 1898. Leikfélag Eyrarbakka hið eldra starfaði a.m.k. til ársins 1910 en það setti upp tvo sjónleiki þann vetur "Nábúarnir" og "Vinkonu áhyggjur".

Leikfélag Eyrarbakka hið yngra var stofnað 1943 en undanfari þess var þegar leikhópur félaga í ungmennafélaginu og verkamannafélaginu Bárunni hófu að æfa leikritið 'Ævintýri á Gönguför'  eftir leikritaskáldið Jens Christian Hostrup. - Það var vorið 1844 þegar Hostrup var orðinn húskennari hjá Justitsraad M. B. Nyegaard í Kokkedal nálægt Rungsted og í glæsilegu umhverfi þessa Norður-Sjálands landslags þegar hann fékk hugmyndina að dönsku sumarleikriti sínu "Ævintýri á gönguför". - Leikfélag Eyrarbakka  sýndi allmörg leiritið næstu árin og var 'Fjalla Eyvindur ' og 'Maður og kona sívinsælt viðfangsefni á fjölunum í Fjölni.

Eftir 1970 mun ekkert leikfélag hafa starfað á Bakkanum.

Heimildir: Skírnir 1998 - Ólöf H þórðardóttir háskólaverkefni Wikipedia  ofl.

12.06.2021 23:21

Dæmigerður smábóndi


Líf smábóndans á Bakkanum  á fyrri hluta 20. aldar:
Smábóndinn bjó í litlu íbúðarhúsi á einni hæð með kjallara, átti 2 til 3 kýr nokkrar kindur, hænsn og áburðarhesta. Fjós og lítið útihús ásamt hlöðu. Konu og krakkastóð. Stundaði vetrarvertíð hjá einhverjum útvegsbóndanum upp á hlut þegar gaf á sjó frá febrúar og fram í miðjan maí. Nokkuð af aflanum vann hann í skreið og lagði upp í versluninni sem af mátti missa. Um vorið og sumarið pjástraði hann við eigið skeppnuhald og heyskap. Fór í uppskipunarvinnu þegar bauðst, eða tók törn vegavinnu í nærliggjandi sveitum. Hann átti kanski árabát og lagði fyrir grásleppu, tíndi söl og verkaði og stundum heppnaðist honum að skjóta sel. Haustið fór mest í stúss heima fyrir, slátrun og sláturgerð, ullarverkun og aðdyttur. Um veturinn fram að vertíð var lítið við að vera annað en reglulegar gegningar.

Hjá húsmóðurinni var nægur starfi allt árið um kring. Hún kveikti upp í eldamaskínunni, sótti vatnið í brunninn sá um matseld, frágang og tiltekt. Barnauppeldið var á hennar herðum, klæði og skæði. Prjónelsi, saumaskapur og þvottar og baðvatn. Þegar bóndinn var fjarri bættust gegningarnar við og vinna við heyskap og sláturgerð var ekki undanskilin húsmóðurstarfinu. Stálpuð börn tóku virkan þátt í heimilisstörfum og hverju sem til féll við búskapinn.

Þá var farið til messu á sunnudögum að hlýða á predíkun prestsins. Á fremstu bekkjum sat fyrirfólkið, héraðslæknirinn, sýslumaðurinn lyfsalinn og kaupmennirnir ásamt frúum sínum og börnum. Framarlega voru líka sýsluskrifarinn, póstafgreiðslumaðurinn, vegaverkstjórinn, sandgræðslustjórinn og símaverkstjórinn með sínu liði. Útvegsmenn, bakarinn, steinsmiðurinn og trésmiðirnir, beykirinn, skósmiðurinn, úrsmiðurinn gullsmiðurinn, rokkadreyjarinn og ullarragarinn deildu þeim bekkjum sem eftir voru. Smábóndinn tróð á svalaloftinu með sínu skilduliði og öðru tómthúsfólki og ungdómi sem horfðu niður á hinn fagra flokk kirkjugesta og spáðu kanski meira í fagurkæddar og barmamiklar ungfrúrnar en tilkomumikla predikun guðsmannsins.

Þegar út var komið tóku menn spjallið um tíðarfarið og gæftirnar en konurnar krítiseruðu ræðu prestsins og hvort kirkjukórinn hafi mögulega sungið betur núna en síðast.





01.06.2021 22:26

Landnámsmennirnir í Árborg

Hásteinn Atlason jarls hins mjóva af Gaulum og félagi Ingólfs Arnasonar og síðar óvinur, nam land á Stokkseyri, kom hann þar með liði sínu á tveim skipum. Bjó hann að Stjörnusteinum. Nam hann Breiðumýri alla milli Ölfusá (Ölvis?) eða Fyllarlækjar (sá lækur rann í núverandi Öfusárós, en eldri Ölfusárós var um miðja vegu á núverandi sandrifinu) og Rauðá (rann hún í Knarrarós?) og upp að Súluholti (súla, var hún landmerki ?)


Ölvir og Atli voru synir Hásteins. Ölvir hafði landnám allt fyrir utan Grímsá, (síðar Skipá/ Grímsdæl) Stokkseyri og Ásgautstaði og bjó á Stokkseyri, eða Stjörnusteinum. Atli átti allt milli Grímsá og Rauðá og bjó hann að Traðarholti.

Hallsteinn var mágur Hásteins og kom hann með liði sínu frá Gaulum. Hásteinn gaf honum land ytri hluta Eyrarbakka og bjó hann að Framnesi (Suður af Gamla-Hrauni)

Þórir Ásason hersis nam Kallnesingahrepp (Kaldaðarnes/Sandvíkurhrepp) og bjó á Selfossi með liði sínu.


24.05.2021 22:32

Sú var tíðin 1986

 

Árið 1986 var flest í kalda koli á Bakkanum, laun almennings undir landsmeðaltali og atvinnumöguleikar afskaplega takmarkaðir og aðalega bundin við fislvinnslu og fangagæslu.  Hraðfrystistöð Eyrarbakka var legið út til Suðurvers í Þorlákshöfn sem skapaði verkafólki nokkra vinnu í bili. Hraðfrystihúsið var faktískt gjaldþrota og skuldaði hreppsjóði háar fjárhæðir svo hreppsnefnd sá sér ekki annað fært en að reyna að selja það eða leigja. Húsnæðisekla, verðbólga og dýrtíð var líka viðvarandi vandamál þessi árin svo margt ungt fólk sá ekki annað í stöðunni en að hypja sig í burtu. Vonir stóðu til að hægt yrði að bæta stöðu ungs fólks með byggingu verkamannabústaða.

Þetta ár var kosningaár og sat I listinn við völd, en aðrir í framboði voru E listi og sjálfstæðisflokkurinn.
Milli þessara framboða var einhugur um hvert skildi stefna. Atvinnumálin voru í brennidepli, Allir voru sammála um að reyna að leigja frystihúsið áfram og vonast eftir að fá skip og kvóta. Félagslega aðstöðu skorti líka. Leikvelli vantaði, raflínur voru enn í loftinu, malbik vantaði á götur víða og gangstéttar í lamasessi þar sem einhverjar voru. Holræsin voru lek, kalda vatnið lélegt og húshitun rándýr og höfnin að fyllast af sandi og verða ónýt.

Það var sameiginlegt verkefni hreppsnefndarmanna að heyja enn eina varnarbaráttuna fyrir þorpið með smáum og stórum sigrum hér og hvar næstu árin. En þrátt fyrir allt hallaði stöðugt undan fæti þar til svo var komið að hreppsnefndin gafst upp og lagði sig niður árið 1998 með sameiningunni við Selfoss.

21.05.2021 23:17

Jarðmyndun Eyrarbakka og Stokkseyrar

Þjórsárhraunið rann fyrir u.þ.b. 8000 árum, en ströndin á Eyrarbakka hefur líklega byrjað að myndast með jarðvegsefnum úr gjósku og gróðri fyrir 3.500 árum og síðan sjávarsandi og skeljum fyrir 2.740 árum (geislakolsárum) samkvæmt greiningu á jarðlögum.

Fyrir 5000 árum fór loftslag hlýnandi af einhverjum ástæðum og náði líklega 2-3° hærri meðalhita en er í dag. Það hafði þau áhrif að jöklar á Grænlandi og Suðurskautinu bráðnuðu meira en nokkurntíman áður og mikið leysingavatn streymdi til sjávar og hækkaði sjávarborð heimshafanna. Þetta hlýskeið virðist hafa staðið yfir í um 1000 ár. Hafði sjávarborð þá verið u.þ.b 4 m hærri en núverandi sjávarborð. Þá hafði sjór náð upp í miðjan Flóa. Fyrir 2.500 árum kólnaði á ný af einhverjum ástæðum og jöklar tóku að vaxa á nýjan leik. Sjávarborð lækkaði að sama skapi og jarðvegur byrjaði að myndast á sandeyrum í bland við skeljar og sjávargróður sem brimið braut og mótaði. Fyrir 2000 árum virðist ströndin komin í núverandi horf.

21.05.2021 23:13

Orkubúskapur Eyrbekkinga árið 1937 vs 2021


Árið 1937 bjuggu 585 manns á Eyrarbakka. Orkuþörf samfélagsins byggðist aðalega á 5  orkugjöfum:
 Rafmagn frá dísel rafstöð 9.344 kwst.
 Kol 4,25 tonn.
 Olía 10.000 litr.
 Mór 285 hestburðir.
 Tað, hrís ofl. 300 hestburðir.
Orkukostnaður þorpsins nam kr. 36.876

Í dag er aðalega notast við 3 megin orkugjafa sem ég áætla m.v sama mannfjölda.
 Rafmagn 975.000 kwst. (Kwh) = kr. 15.960.750
 Hitaveita 78.000 tonn. = kr. 12.168.000
 Olía/bensín á bifreiðar. 244.000 litr. = kr.60.268.000

Orkukostnaður þorpsins í dag kr. 88.396.750 þar af 24% vsk til ríkisins.

17.05.2021 22:33

Aldan nr. 205


Stúlkan Aldan nr 205 var stofnuð á Eyrarbakka árið 1926 af Guðmundi G Kristjánssyni. Fundað var í Fjölni. 

Árið 1928 sátu eftirfarandi í stjórn: Finnbogi Sigurðsson sýsluskrifari, Ingimar Jóhannesson kennari, Sigríður Ólafsdóttir frú, Herdís Jakopsdóttir frú, Aðalsteinn Sigmundsson skólastjóri. 

Aðrir meðlimir m.a. Bergsteinn Sveinsson, Þorleifur Guðmundsson, Ottó Guðjónsson, Aðalheiður Bjarnadóttir, Sigurður Guðmundsson, Jakopína Jakopsdóttir, Ágústa Jóhannesdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Elín Eyvindsdóttir, Áslaug Guðjónsdóttir, Þórdís Símonardóttir, Ingvar Jónsson, Jón Einarsson og Elínborg Kristjánsdóttir. 

Á Stokkseyri starfaði Stúkan Lukkuvon nr. 20 og á Selfossi stúkan Brúin nr. 221. 

Áður voru starfandi tvær stúlkur á Eyrarbakka, Eyrarrósin nr. 7 og Nýársdagurinn nr. 56. 

Árið 1899 vann Stúkan Eyrarrósin mikið þrekvirki á Bakkanum, lét hún þá rífa gamla Godtemplarahúsið og byggði nýtt veglegt samkomuhús og er því lýst þannig:
Tvílofta með veggsvölum,  fundarsalur 17 álnir að lengd og 10 álnir að breidd og hátt til lofts. Á loftinu eru tvö íbúðarherbergi fyrir dyravörð, eldhús og stór salur fyrir veitingar. Húsið var vígt 28. desember 1899.
Viðstaddir vígsluna voru m.a þáverandi Sýslumaður Sigurður Ólafsson og frú, þáverandi sóknarprestur og frú, P. Níelsen faktor og frú og sr. Ólafur í Arnarbæli Ólafsson og frú. Stokkseyringum var ekki boðið sökum þrengsla. Í stúlkunni voru 250 manns. 

Þetta hús fékk nafnið Fjölnir og þjónaði Eyrbekkingum sem samkomuhús í 70 ár en var þá rifið. Nú stendur þar nýmóðins bílskúr vestan við Káragerði.

Mynd:Þjóðminjasafnið

16.05.2021 22:34

Böllin á Bakkanum


Fyrir miðja síðustu öld og síðar var mikil ballmenning á Bakkanum. Í vertíðarlok ár hvert voru haldin hin  víðfrægu Báruböll í samkomuhúsinu Fjölni, sem verkamannafélagið stóð fyrir, og síðan slysavarnardeildin.  Stjórnmálaflokkarnir stóðu fyrir böllum, Framsóknarböll, sjálfstæðisböll og Krataböll voru vel sótt. Kvenfélagið stóð fyrir barnaballi um jólin og grímuballi sem og skemmtunum á þjóðhátíðar deginum og síðar fyrir þorrablótum með björgunarsveitinni þegar þau fóru að tíðkast.  Ungmennafélagið hélt einnig  skemmtanir og dansiböll sér til fjáröflunar stöku sinnum. Þegar Fjölnir var lagður af færðust böllin yfir í verbúðina á Stað sem var breytt í samkomuhús í skyndi, en um 1990 var húsnæðið stækkað og endurbætt. Helst voru það Sunnlenskir hljómlistamenn sem léku fyrir dansi frameftir 20. öldinni, svo sem Mánar, Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar (Steini spil) Karma, Kaktus o.fl. Stórhljómsveitir af landsbyggðinni hafa einnig brugðið fyrir sig betri fætinum og stígið á stokk á Bakkanum, ýmist til að fremja stuðdansleik  eða tónleika. Má þar nefna t.d Björgvin Halldórsson, Geirmund Valtýrsson,  Ómar Ragnarsson, Bubba Mortens ofl.

Heldur dró úr dansleikjahaldi á sjöunda og áttunda áratugnum enda sveitaballastemmingin þá í hávegum í uppsveitum sýslunnar, svo sem á Borg í Grímsnesi, Aratungu, Árnesi og Þjórsárveri með sætaferðum næstum hverja helgi. Í staðin voru haldin diskotek fyrir yngri kynslóðina og var það einkum diskotekið Dísa sem hélt uppi stemmingunni.

Venjulega voru dansleikir aðeins auglýstir í búðargluggum framan af, svo líklega var ekki óskað nærveru utanbæjarmanna. Þó spurðist þetta ávallt út og einhver reitingur aðkomumanna mættu í fjörið og gat þá orðið nokkur atgangur.


Hér eru nokkrar upptalningar á auglýstum Bakkaböllum.
 1964 Sjálfstæðisball. Hlómsveit Óskars Guðmundssonar, Elín og Arnór.
 1997 Dansiball á Stað  með Bubba Mortens.
 2001 Sjómannaball á Stað með hljómsveitinni Upplyfting.
 2002 Dansiball á Stað með Bubba Mortens og Heru.
 2005 Dansiball með vesturíslensku hljómsveitinni Glenn Kaiser band.
 2007 Stórdansleikur í Rauðahúsinu með hljómsveitinni Klaufarnir. Jólaball kvenfélagsins á Stað.
 2009 Sveitaball á Gónhól
 2011 Dansiball í Gónhól. Hjördís Geirs og Örvar Kristjánsson. - Hlöðuball í Gónhól. Hljómsveitin Sputnik.
 2012 Hlöðuball í Gónhól.
 2013 Aldamótaball á Rauðahúsinu með hljómsveitinni Síðasti Sjens. - Hrútaball á Stað með hljómsveitinni Granít.
 2014 Aldamótaball á Rauðahúsinu.?
 2015 Jónsmessuball á Hótel Bakka ? -Jólaball. Jón Bjarnason leikur fyrir dansi. - Bjórflóð á Rauðahúsinu með Jessi Kingan.
 2016 Bjórflóð á Rauðahúsinu með Bjórbandinu frá Selfossi.
 2018 Bjórflóð á Rauðahúsinu ? Jólaball kvenfélagsins á Stað.
 2020 Hátíðartónleikar á Stað í boði Hrútavina með hljómsveitinni Kiriyama Family.

Nokkrar Eyrskar hljómsveitir: NílFisk, Bakkabandið, HúnGraður, Hughrif, The Wicked Strangers, Kiriyama Family og Síðasti Sjens. Á árunum áður voru nokkur bílskúrsbönd sem sjaldan spiluðu opinberlega.

Þá má nefna músikfrömuðina Jón Tryggva og Úní, Valgeir Guðjónsson Stuðmann að ógleymdum Jhonny King sem hafa lyft upp menningarbragnum á Bakkanum undanfarin ár.

13.05.2021 23:05

Framvarðasveit Árnesinga 1880-1900



Tryggvi Gunnarsson (1835-1917) alþingismaður 1874-1885.
Gunnar Einarsson (1838-1919) bóndi á Selfossi.
Jón Steingrímsson (1862-1891) prestur í Gaulverjabæ.
Brynjólfur Jónsson (1838-1914) fræðimaður frá Minna-Núbi.
Jón Halldórsson (1853-1923) hreppstjóri í Þingvallasveit.
Þorlákur Guðmundsson (1834-1906) bóndi á Miðfelli í Þingvallasveit.
Bogi Th Melsteð (1860-1929) alþingismaður 1892-1893.
Stefán Stephensen (1832-1922) prestur á Mosfelli í Grímsnesi.
Guðmundur Ísleifsson (1850-1937) formaður, bóndi og kaupmaður á Háeyri Eyrarbakka.
Ólafur Helgason (1867-1904) prestur á Stokkseyri og Gaulverjabæ, heyrnleysingjakennari.
Valdimar Briem (1848-1930) prestur í Hruna, vígslubiskup.
Sæmundur Jónsson prestur í Hraungerði.
Steindór Briem aðstoðarprestur í Hruna.
Peter Nielsen (1844-1931) verslunarstjóri Lefolii verslunar á Eyrarbakka 1887-1910).
Ólafur Þormóðsson (1826-1900) bóndi í Hjálmholti.
Magnús Helgason (1857-1940) prestur á Torfastöðum í biskupstungum.
Þorvarður Guðmundsson (1841-1899) bóndi í Litlu Sandvík í Sandvíkurhreppi.
Þorkell Jónsson (1830-1893) hreppstjóri á Ormsstöðum í Grímsnesi.
Euginea Jakopína Níelssen (1850-1916) frú Eyrarbakka.
Sigurður Ólafsson (1855-1927) sýslumaður í Kaldaðarnesi Sandvíkurhreppi.
Jón Árnason (1835-1912) bóndi, kaupmaður og hreppstjóri í Þorlákshöfn.
Guðmundur Guðmundsson (1853-1946) læknir í Laugardælum Hraungerðishreppi.
Ólafur Sæmundsson (1865-1936) aðstoðarprestur í Hraungerði.
Símon Jónsson (1864-1937) bóndi, smiður og brúarvörður á Selfossi. 
Grímur Gíslason (1848-1898) sýslunefndarmaður í Óseyrarnesi. 
 

10.05.2021 22:02

Kvikmyndatökur á Bakkanum


 Brekkukotsannáll, ein sena 1972.
 Leikin heimildamynd um Húsið 2007, Andrés Indriðason samdi handrit og leikstýrði myndinni.
 Hemma, 2012 Framleiðendur myndarinnar eru Anna G. Magnúsdóttir og Anders Granström fyrir sænska framleiðslufyrirtækið Little Big Productions. Verðlaunamynd.
 Dead snow 2, 2014 leikstjóri Tommy Wirkola. 

09.05.2021 21:50

Alpan hf.

Haustið 1985 hófst starfsemi álpönnuverksmiðjunar Alpan á Eyrarbakka en verksmiðjan var keypt frá Danmörku og komið fyrir í 1.700 fm húsnæði sem áður tilheyrði útvegsfyrirtækinu Einarshöfn hf.

Hjá Alpan voru framleiddar pönnur og pottar af 35 mismunandi grunntegundum, en þær eru svo settar á markað í Þýskalandi. Auk þess var flutt út til Danmerkur, Sviss, Frakklands, Bretlands, Austurríkis, Spánar, Kanada og Bandaríkjanna og víðar.

Hráefnið var nær eingöngu innflutt endurunnið skrapál, nema í fyrstu var notað blöndun frá Ísal, auk þess sem fyrirtækið bræddi sjálft upp skilavöru til endurvinnslu.

Á fjórða tug starfsmanna unnu hjá fyrirtækinu, fyrst í stað eingöngu íslendingar en um aldamótin 2000 voru starfsmennirnir aðalega farandverkamenn frá Póllandi, Lettlandi og Englandi. Sigurður Bragi Guðmundsson var lengst af formaður stjórnar Alpans hf.

Árið 2006 flutti Alpan fyrirtækið til Targoviste Rúmeníu, þá var rekstrarumhverfið orðið óhagstætt hér á landi og starfsemin töluvert dregist saman. Þá unnu 25 manns hjá fyrirtækinu.

Húsnæðið á Bakkanum gekk síðan kaupum og sölum án þess að í það fengist virk starfsemi þar til að byggðasafn Árnesinga keypti húsið á síðasta ári undir starfsemi sína sem áður var við Hafnarbrú.

05.05.2021 22:51

Bækur um Eyrarbakka

 Saga Eyrarbakka 1946 eftir Vigfús Guðmundsson.
 Austantórur 1946- 1950 eru 6 hefti eftir Jón Pálsson.
 Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka 1958 eftir Guðna Jónsson.
 Saga Barnaskólans á Eyrarbakka 1952 eftir Árelíus Níelsson.
 Járnblómið skáldsaga eftir Guðmund Daníelsson.
 Margur í sandinn markaði spor 1998 eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur, ljósmynda og fræðirit.
 Eyrarbakkahreppur Örnefni 2008 samantekt eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur og Magnús Karel Hannesson, fræðirit.
 Saga bátanna 2013 eftir Vigfús Markússon, fræðirit
 Húsið á Eyrarbakka 2014 eftir Lýð Pálsson, fræðirit.
 Anna á Eyrarbakka 2015 eftir Elísabetu Jökulsdóttur, skáldsaga.
 Ljósmóðirin 2015 eftir Eyrúnu Ingadóttir, söguleg skáldsaga.
 Læknishúsið 2018 eftir Bjarna Bjarnason, skáldsaga.
 Eitrað barnið eftir Guðmund Bryjólfsson, skáldsaga.
 Lúðvík Norðdal Davíðsson 2020 eftir Lýð Pálsson, fræðirit.
Flettingar í dag: 415
Gestir í dag: 131
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260705
Samtals gestir: 33758
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:23:57