19.06.2012 22:47

Þorlákshöfn, aldargömul veiðistöð

Staðurinn er kenndur við Þorlák helga biskup Þórhallsonar í Skálholti en áður hafði þessi staður verið nefndur Elliðahöfn. Þrautalending Eyrbekkinga, Stokkseyringa og Loftstaðarmanna var fyrrum í Þorlákshöfn þegar hafnir lokuðust vegna brims. Lefolii verslun hafði þar einnig einhverja aðstöðu fyrr á tímum. Einhver útvegur hefur verið frá Þorlákshöfn í gegn um aldirnar [sbr. 1706 Skipstapi frá Elliðahöfn með 13 mönnum.] en regluleg útgerð þaðan hófst þegar Jón Árnason kaupmaður og útvegsmaður hóf búskap í Þorlákshöfn  árið 1862 og keypti  jörðina  sama ár, fyrir 500  kr.  Jón Árnason  andaðist í  nóvember 1912 og bjó  þar  stórbúi til  dauðadags, og ekkja  hans til fardaga  árið 1914;  Jón Árnason seldi Þorleifi  Guðmundssyni frá Háeyri á Eyrarbakka, jörðina árið 1910, fyrir 32 þúsund kr. Árið 1913, seldi Þorleifur "Hlutafélaginu Þorlákshöfn"  jörðina, en "bjó"  þar frá  fardögum 1914, til fardaga 1928. Þá  voru  orðnir  eigendur Þorlákshafnar, þeir Magnús Sigurðsson  bankastjóri, Halldór Þorsteinsson skipstj. o. fl. en eftir 1928, hafði  maður nefndur Guðmundur Jónsson  búið  þar, en þegar  talað er um ábúð  jarðarinnar frá 1911, er aðeins átt við grasnyt  hennar, því frá þvi ári, nutu eigendur þess arðs, er hún gaf af sér, sem fiskiver. Verstöðin fór þá smám saman að draga til sín fólk frá Eyrarbakka, Stokkseyri, Ölfusi og vestan úr Selvogi sem hafði þar viðveru í sjóbúðum um vertíðarnar.

Þegar Þorleifur Guðmundsson keypti jörðina, munu hafa róið  þaðan 14  áraskip, 10 og 12 róin, en  róðraskipin urðu flest árið 1916 eða 29 skip, en  úr því fór  þeim  smá fækkandi,  þar til ekki  var  orðinn eftir  nema 1 bátur sem gekk  þaðan til fiskveiða. Það var síðan eftir að Kaupfélag Árnesinga keypti jörðina 1937 að útgerð fór aftur vaxandi frá Þorlákshöfn en fólksfjölgun og þorpsmyndun fór þó hægt af stað. [1951 voru 14 manns með lögheimili í Þorlákshöfn] Trillubátaútgerð hófst  þar fyrst  árið 1928 og úr því var farið að gera  lendingarbætur, fyrir rikisfé, með tillagi frá Arnessýslu.

Árið 1912, voru helstu formenn í Þorlákshöfn, þeir Guðfinnur Þórarinsson, frá Eyri á Eyrarbakka, bræðurnir Páll Grímsson, og Bjarni Grímsson frá Óseyrarnesi, síðar fiskimatsmaður i Reykjavik. Fyrir höfnina var á sínum tíma hlaðinn mikill sjógarður sem  Jón Árnason lét  hlaða um 1880, stóð Ásbjörn Ásbjörnsson frá Brennu á Eyrarbakka fyrir hleðslunni. Hann var afarmenni að  burðum og  hleðslumaður ágætur.  Garðurinn var  hlaðinn á mörgum  árum, aðallega í  landlegum á vertiðum.

Vorið 1919,  sendi verkfræðingur N.P. Kirk, (f. 7.5.1882 d. 16.10.1919) fullkomna áætlun um hafnargerð í Þorlákshöfn, til  stjórnarráðs  íslands, og var þar gert ráð fyrir 2 hafnargörðum, 850 og 500 metra  löngum og 250 metra  langri bryggju með  bryggjuhaus.  Í  athugasemdum  sínum frá 1919, kemst Kirk, verkfræðingur svo að  orði: "Hversu nauðsynlegt sé að hafa stór steypubjörg garðinum til  verndar, sést vel af því, að á ferð minni  þar, mældi ég tvo  steina; var annar 9 smálestir að þyngd, en  hinn 40 smálestir, og hafði  brimið kastað  hinum fyrnefnda 25 metra og lyft honum 3 metra, en  hinum hafði það kastað 15 metra og lyft  honum 1,25 metra. Sýnir þetta best afl  sjávarins, á þessum stað". Síðar var byggð góð höfn í Þorlákshöfn og voru hugmyndir Kirks trúlega hafðar að leiðarljósi. Vorið 1933 hófst vinna við steinsteypta bryggju og  henni  haldið áfram  næstu sumur og var sú bryggja 74 m löng þegar gerð hennar lauk. Sumarið 1935, var  steyptur  brimvarnargarður,  sunnanverðu við  Norðurvör og við  hann bætt  nokkrum  metrum, 1936. Var sá garður 92 m. langur. Til að hlífa landi móti  austri fyrir sjávargangi, var fyrrum  hlaðinn öflugur  sjógarður úr stórgrýti sem áður er getið.  Hann var um  150 metrar á lengd, fláði  hann  inn lítið eitt (c. 20°) og þótti mikið  mannvirki, hlaðinn á  þeim  tímum, þegar aðeins var um að  ræða handaflið eitt. Samtímis og  byrjað var á  bryggjunni  var farið að  endurbæta  sjógarðinn,  þar sem  hann  var genginn  úr skorðum og sementslag steypt utan á, þannig, að á c. 50  metrum var hann  sléttur sem fjöl, á 3 m. hárri hleðslunni sem enn stóð óhögguð. Árið 1949 var hlutafélagið Meitillinn H/F stofnaður og óx þá hagur Þorlákshafnar jafnt og þétt.

Heimildir: Ægir 1936. /olfus.is/ Wikipedia/ http://www.ismennt.is/not/siggud/heimabaer/upphaf.htm http://eyrbekkingur.blogspot.com/2011/03/sjoslys-i-rorum-vi-eyrarbakka.html

17.06.2012 01:35

Áhöfnin á Kútter Nolsoy

Tvær Færeyskar skútur, sem voru að veiðum hér við land, fórust í stormi 7. mars 1934 með samtals 43 mönnum. Voru það skúturnar "Neptun" frá Vestmanhavn og " Nolsoy" frá Þórshöfn og var talið að þær hafi rekist saman. Þann 31. maí það ár rak lík hjá Stóra-Hrauni á Eyrarbakka og var talið að það hafi verið af matsveininum á  kútter "Nolsoy". Likið var óþekkjanlegt er  það fannst, en trúlofunarhringur, sem af tilviljun hafði tollað á fingri  hins  látna,  var  sendur til Færeyja og þektist. Hin látni hét Bernhard Henriksen og var frá Sandvági í Færeyjum. Hinn 21. maí 1936 kom minnisvarði með m/s. "Dronning Alexandrine", sem Færeyingar sendu og láta átti á leiði hans, en líkið var  jarðsett i  Eyrarbakkakirkjugarði og var vandað til  jarðarfararinnar eins og kostur var á. Með "Nolsoy" fórust alls 20 menn, bræður margir og feðgar, og eru nöfn  þeirra  allra  rituð á steininn, og eftirfarandi  erindi á  undirstöðu  hans:

Mugu  enn við sorg vit siga

kærum  vinum  her farval.

Góðandagin gleðiliga

tó í himli ljóða skal.

Auk Færeyinga, átti  þáverandi sendiherra Dana, Fontenay og  consul Jens Zimsen,  sinn þátt í að minnismerkinu yrði hingað komið, og  annaði  Zimsen bæði flutning  austur og sá  um, að því var komið fyrir á gröf  Bernhards Henriksens og var gengið frá því í  Eyrarbakkakirkjugarði þann 3.  júní 1936.

Auk Bernhards fórust með kútter Nolsoy: J. Henriksen, H.D. Hansen, V. Hansen, E. Hansen, M.Hansen, A.  Danberg, J. Olsen, M. Petersen, P. Poulsen, J.P. Petersen, M. Johansen, H. Leidesgaard, U.A. Johansen, M. Poulsen, J.G. Petersen, O.J. Jakopsen.

Heimild: Morgunbl.138 tbl 1934. Brot úr sögu Mykinesar http://heima.olivant.fo/~mykines/mykkrofo.htm Ægir 1936. Gömul færeysk skip: http://www.gomul-skip.dk/56256461?i=46539116 

15.06.2012 22:12

Búðarstígur

Götumynd af Eyrarbakka
Gömul götumynd af Eyrarbakka, Búðarstígur í byrjun 7. áratugsins. Fremst er hús Jóns Valgeirs Ólafssonar, þá kirkjan og handan götunnar er Götuhús hið eldra og þá næst Stíghús.

Mynd: Vilborg Benediktsdóttir.

06.06.2012 00:05

"Terpsichore"

Guðmundur ÍsleifssonÁrið 1890 hafði hinn þekkti formaður Guðmundur Ísleifsson á Háeyri, skip á leigu sem flutti  vörur til verslunar hans hér á  Eyrarbakka. í  leiguskilmálunum var það tekið fram, að hann mætti nota skipið til flutninga meðfram  ströndum  landsins og  um sumarið lagði hann upp  vörur í Vík í Mýrdal, til sölu þar  um  kauptíðina og til hægðarauka fyrir Skaftfellinga. Guðmundur var sjálfur  á  skipinu sem hét "Terpsichore" (Dansgyðjan) og var frá Borgmundarhólmi, en skipstjórinn hét Bayer að eftirnafni. Hélt Guðmundur svo  austur með  ströndinni, að  lokinni verslun í Vík, til þess  að athuga, hvort mögulegt væri að flytja  vörur sjóleiðis til Öræfa. Þegar þar kom var blíðviðri og stilltur sjór. Öræfingar  komu út að  skipinu á alls tórum  róðrabát og tóku í  hann  vörur, sem þeim farnaðist vel með í  land. Var þetta í fyrsta  sinn, sem þeir fengu  vörur sjóleiðis og voru þeir því afar kátir.

Eftir þetta hélt Guðmundur áfram verslun í Vík  og  mun það hafa flýtt fyrir, að  reglulegar samgöngur þangað sjóleiðis  komust á.  En það var M/s "Skaftfellingur", sem  um langt  skeið, hélt uppi  strandferðum á áðurnefndu svæði, og greiddi úr örðugleikum sýslubúa til viðskipta sem og önnur vöruflutningaskip, á þessum tímum sem vegsamgöngur voru engar.

Heimild: Guðmundur Ísleifsson, Ægir 1934

04.06.2012 21:31

Skipað á land á 8 dögum

Í  vikunni fyrir hvítasunnu 1934 láu tvö skip  hér á  Eyrarbakka, sem flutt höfðu hingað  vörur.  Var  annað  skonnortan "Pax", sem  flutti  inn timbur og lá á  sundinu. Hitt var  eimskipið "Eros", sem fermt var matvælum og  sementi og lá það fyrir  utan brimgarðinn  ( skerin).  Kaupfélagsstjóri var þá Egill  Thorarensen í Sigtúni og veitti  hann vörum  þessum móttöku fyrir kaupfélag Árnesinga.

Á átta dögum var  skipað á  land úr "Eros",  um 1100  tonnum, og  úr "Pax", 80  standard (búntum) af  timbri, og  auk þess 10 tonn af  öðrum  varningi. Þóttu þetta mikil afköst, en þó ekki met á Eyrarbakka.

Heimild: Ægir 1934

01.06.2012 22:35

Tíðarfarið í maí 2012

Maímánuður var fremur svalur hér við SV-ströndina framanaf og oft næturfrost sem var mest -7,4°C þann 10. Mánuðurinn var í þurrasta lagi og engin teljandi úrkoma, nema lítilsháttar þann 12. Allhvast var þann 14. en annars yfirleitt stinningsgola fyrrihluta mánaðarins og gola síðari hlutann. Heldur hlýnaði þann 21. þegar hitinn fór yfir 17 stig, en næstu dagana var heldur svalara. Síðustu 3 dagarnir voru þó álíka hlýir. Loftvog stóð jafnan fremur hátt allan mánuðinn, 1000 til 1025 mb.

Heimild: Veðurklúbburinn Andvari

26.05.2012 00:32

Vélbáturinn " Íslendingur" frá Stokkseyri

Um hádegisbil 2. maí 1931 var Línuveiðarinn "Pétursey " stödd um eina sjómílu frá Krísuvíkurbjargi. Heyra bátsmenn hvar blásið er í þokulúður uppi á bjarginu og bregður Guðjón Jónsson skipstjóri sjónauka sínum á loft. Verður hann þá var við vélbát í klettaskoru framan í bjarginu og sex menn á bjargsillu þar fyrir ofan veifandi þjóðfánanum. Var um að ræða vélbátinn Íslending frá Stokkseyri, en vökumaðurinn hafði sofnað á verðinum og bátinn rekið upp í klettana og brotnað. Guðjón sendi léttbát til þeirra undir bjargið og sigu mennirnir af Íslendingi niður í hann í tveimur hollum, þeir voru síðan selfluttir um borð í vélbátinn "Muninn" er þá kom að björgunaraðgerðum. Mennirnir, sem í skipreikanum lentu,  voru  Ingimundur  Jónsson  formaður, eigandi bátsins, Bjarni Sigurðsson, Kristján  og Sigurður  bræður, Hreinssynir, og Einar Vilhjálmsson, en þeir höfðu þá allir hangið á sillunni í 12 stundir.

Íslendingur II var 12 tn. 15 ha. Alpha motor. Smíðaður í Vestmannaeyjum 1915, (hét "Lára")

15.05.2012 22:22

Skýrsla um sjóslys á Eyrarbakka 1898

Þann 19. ágúst 1898 vildi svo til, að skip lá, fyrir utan Einarshafnarsund, sem var á leið í land, úr gufubátnum "Reykjavik". Þoka var, lágsjávað og brim, álitu þvi þeir sem í landi voru, að skipið sem úti fyrir lá, þyrfti 2 menn til viðbótar til að geta lent, svo afráðið var að senda skip út, með 11 mönnum, til hjálpar, og færu því þessir 2 menn [yfir], sem álitið var að skipið hefði vantað.

Þetta var gjört, og fór Jón Sigurðsson (formaður) af Eyrarbakka út með skipið. Skipinu gekk vel út úr sundinu, og lét hann 2 menn af þessum 11 í skipið, sem úti fyrir lá. Þegar það var gjört tók hann 3 bagga af harðfiski úr skipinu, sem hann lét mennina í, til að rýma til í því, því i þvi var töluvert af ýmsum munum, sem órýmindi gjörðu; að því búnu sneri áðurnefndur formaður Jón Sigurðsson frá skipinu, og með samráði við hásetana lagði hann á sundið aftur og komst tafarlaust inn i það mitt, þangað til alt í einu kom stór brimsjór, sem hvolfdi skipinu á augnabliki; strax komust 2 mennirnir á kjöl, en þá hvoldi því strax upp í loft, og komust þá þessir tveir menn, sem á kjöl komust, upp i það; smátt og smátt komust svo 7 alls upp í það, hinir 2 af þessum 9 mönnum, sem voru á skipinu, komust aldrei í skipið, annar hélt sér á sundi, en straumur bar hann frá skipinu, þar til að hann sökk, ,hinn sást aldrei frá því fyrst að skipinu hvolfdi.

Menn voru allir í landi, og skip ekki við hendina, nema vestur á skipalegunni lá hlaðinn áttæringur af salti, sem búið var að ferma úr saltskipi frá Lefolis- verslun, sem á höfninni Iá. Þegar sást úr landi, að skipinu hvolfdi, brá ég undirritaður Jónas Einarsson (form.) á Eyrarbakka, fljótt við, ásamt nokkrum mönnum sem við hendina voru, og hlupum sem við gátum niður í fjöruborð og að kletti neðst við sjóinn, þar sem fyrnefndur áttræðingur lá fullur af saltinu; við ruddum úr honum saltinu, og með sama á stað og vestur að sundi; voru þá komnir 2 bátar að sundinu, annar frá gufubátnum "Oddur" og hinn frá skipinu Thor.

Christensen skipstjóri af "Oddi" var á öðrum bátnum með háseta sinum, en stýrimaður og háseti af Thor á hinum. Bátarnir treystu sér ekki að leggja á sundið, til að gjöra björgunartilraun, því jafnt og þétt gekk fallandi brimsjór yfir það; ég lagði þó tafarlaust á sundið, og komst með illan leik út að skipinu, var það þá á réttum kili þversum í sundinu og mennirnir 7 í þvi. Gerðum við þá strax tilrunir að bjarga, og gekk það vel, því einmitt þá var sjórinn að miklu leyti kyrr. Björguðum við því að heita á samri stund þessum 7 mönnum, sem í skipinu voru; voru þeir þá nær dauða en lífi áður en við höfðum flutt þá í land. Var þeim veitt hin besta aðhlynning, sem mögulegt var að hafa, með læknisráði, enda eru þeir nú búnir að fá heilsu, utan einn af þeim, sem dó nokkru síðar. -

Að þessi skýrsla sé svo rétt að öllu, sem hægt er, vottum vér undirritaðir upp á æru og samvisku.

Eyrarbakka 1898. (Undirskriftir vanta).

Þetta er bókað í sýslubókum Árnessýslu 1898.

Formaðuraður fyrir þessari björgun var það Jónas Einarsson i Garðhúsum á Eyrarbakka; druknaði hann á "Sæfaranum" (Framtíðin), sem fórst utast á Bússusundi 5. apríl 1927. Einn af þeim, sem best gengu fram við björgunina, var Jóhann Gíslason frá Steinskoti á Eyrarbakka, síðar fiskimatsmaður í Reykjavik, og einn af þeim, sem var bjargað var Þorsteinn Þorsteinsson síðar kaupmaður í Keflavík.

Heimild: Ægir 1908

13.05.2012 23:00

Krían kominn

Þá er hún kominn, blessuð Bakkakrían, en það sást til kríuhópa um miðjan dag í gær 12.maí. Heldur fær hún óblíðar móttökur hjá veðurguðunum í norðan rokinu sem brast á í dag, en vindhviður allt að 26 m/s hafa mælst hér við ströndina. Það er svo spurning hvort krían finnur síli á næstu dögum og vikum, en ef ekki, þá er hætt við að hún ungi ekki út frekar en hin fyrri ár og kveðji okkur snemma þetta sumarið. Í fyrra kom krían 16. maí og það gerði hún líka 2006 en vorið 2010 og 2009 kom hún á sama tíma og nú eða 12.maí og 2008 þann 10. og 2007 þann 15. 

Kríukoman er ávalt fagnaðarefni á Bakkanum enda telst þá sumar komið hér við ströndina.

01.05.2012 22:20

Bátsmerki Stokkseyringa

Þann 10. febrúar 1926 var eftirfarandi merking veiðafæra samþykt fyrir Stokkseyrarbáta:

"Sylla", Ijósgrænt. "Björgvin", 2 Ijósgræn. "Baldur", blátt.  "Svanur", brúnt. "Fortúna", hvítt. "Aldan", dökkgrænt. "Friður", 2 dökkgræn. "Íslendingur"; svart. "Stakkur", 2 svört. "Heppnin", grænt, rautt. "Inga", hvítt, grænt. Var bátsmerkið nær ás (á linu) og fjær nethálsi.  

Sýslumerkið  var rautt.

Ægir 1927.

28.04.2012 23:54

Átta menn drukna

Brimið á BakkanumSnemma dags 5. april 1927 fóru allir bátar á Eyrarbakka að vitja um net sín. En vegna roks og brims gátu þeir ekki vitjað um nema sumt af netunum, og lögðu því snemma til lands aftur. Klukkan að ganga tvö e.h. sama dag voru allir bátar komnir, að undanteknum þremur. Einn þeirra var "Framtiðin"*.

Kom hún um kl. 13:30 upp að brimgarðinum og lagði strax inn á sundið. En það var allt einn hvítfyssandi brotsjór, bæði af hafsjó og stormöldu. Og er báturinn var kominn nokkuð inn á sundið skall yfir hann svo hár og mikill brotsjór, að hann bar ekki undan, og sást báturinn ekki framar - sökk á svipstundu. Á bátnum voru 8 menn. Nöfn þeirra voru : Guðfinnur Þórarinsson, formaður, kvongaður, tveggja barna faðir. Páll Guðmundsson, Leifseyri, kvongaður, margra barna faðir. Víglundur Jónsson, Björgum, giftur, átti eitt barn [* 2 börn]. Sigurður Þórarinsson, Vegamótum, ógiftur. Kristinn Sigurðsson, Túni, ungur maður ógiftur, 20 ára. Jónas Einarsson, Garðhúsum, aldraður maður, átti uppkomin börn. Gísli Björnsson, Litlu-Háeyri, ógiftur. Ingimar Jónsson, Sandvik, var hjá foreldrum sínum. Allir þesir menn voru af Eyrarbakka.

*Guðfinnur hafði þá nýlega keypt bátinn af Kristni Vigfússyni er þá hét "Framtíðin" en Guðfinnur breytti nafninu í "Sæfara", en svo hét einnig fyrri bátur Guðfinns.

* sjá athugasemd hér að neðan.


Nánar um þennan atburð má lesa hér>: http://brim.123.is/page/1205/ 

Heimild: Ægir 1927.

24.04.2012 23:13

Veiðafæramerki í Eyrarbakkaverstöð 1926

ÖðlingurSýsluliturinn var rauður. Á neti: ca. hálfhringur á miðri kúlu, en á lóð: á miðjum taumi. En merki hvers báts voru samsvarandi hálfhringur  í mismunandi litum og voru þau staðsett á lóð, milli önguls og sýslumerkis, en á netum voru þau höfð á botni kúlunnar. Litirnir voru þessir:

Mb. "Sæfari", Guðfinns Þórarinssonar hafði grænt merki.

- Halkion, Vilbergs Jóhannssonar var með ljósblátt merki.

- Freyja, Jóhanns E. Bjarnasonar hafði hvítt meki.

- Framtíðin, Kristinns Vigfússonar hafði gult merki.

- Öldungur, Jóns Bjarnasonar var með svart merki.

- Öðlingur, Árna Helgasonar var með brúnt merki.

- Olga, Jóns Gíslasonar hafði grátt merki.

- Trausti, Jóhanns B. Loftssonar var með hvítt og blátt.

- Freyr, Jóns Helgasonar hafði grænt og gult merki.

Heimild: Ægir 1926- Guðmundur Ísleifsson.

12.04.2012 22:52

Mótorbáturinn Atli frá Stokkseyri

StokkseyrarhöfnHinn 17. apríl 1922 kl. 4-5 að morgni fór mótorbáturinn "Atli" frá Stokkseyri vestur í Hafnarforir að vitja um net. Sjó brimaði mjög skyndilega á meðan. Rétt fyrir hádegisbilið kom báturinn að Stokkseyrarsundi og lá þar til lags um tíma, eins og venjulegt var, þegar mikið brimaði, lagði síðan á sundið er þeim þótti lag, en yst á sundinu, á boða þeim er Skotur (eða Skjótur) nefnist fyllti bátinn og fórst hann með allri áhöfn.

Formaðurinn var hinn ungi og efnilegi sjósóknari Bjarni Sturlaugsson frá Starkaðarhúsum, ekkjumaður um þritugt og átti hann eitt barn. Hásetar voru: Einar Gíslason, bóndi frá Borgarholti, alkunnur formaður á Stokkseyri; hann mun hafa verið á sextugs aldri og átt uppkomin börn. Þorvarður Jónsson, sonur Jóns kaupmanns Jónassonar á Stokkseyri, var þá á 17 ári. Þorkell Þorkelsson frá Móhúsum, sonur Þorkels sál. Magnússonar, sem lengi var talinn meðal mestu fiskimanna og sjósóknara á Stokkseyri, en druknaði þar nokkrum árum fyrr. Guðmundur Gíslason frá Brattholtshjáleigu, Markús Jónsson frá Útgörðum (ættaður úr Rangárvallasýslu) og Guðni Guðmundsson frá Móhúsum, ættaður af Rangárvöllum (Ekru -Oddahverfi). Frá Stokkseyri reru alls 4skip og af Eyrarbakka tvö þennan dag. En þeim tókst öllum að lenda, en við illan leik.

Atli var 10 tonn með  12ha Hein vél. Smíðaður á Stokkseyri 1916 af Gunnari M Jónssyni. Kristján Guðmundsson í Búðarhamri var formaður á honum um tíma.

Heimild: Lögrétta - 24. apríl 1922  Ægir - 1922. http://brim.skipasmidar

07.04.2012 00:25

"EOS" strandið

http://loregame.wikia.com/wiki/Naval_UnitsÍ janúar 1920 rak mannlaust skip inn fyrir brimgarðinn á Eyrarbakka og brotnaði í spón. Það var barkskipið "EOS" frá Hafnafirði og hafði áhöfnin yfirgefið skipið skömmu áður. Skipið fór frá Hafnarfirði 19. janúar og var förinni heitið til Svíþjóðar. Dró mótorskipið "Venus" það úr höfn og skildi við það um tveim tímum síðar. Barkskipið komst síðan klakklaust fyrir Reykjanes. En aðfaranótt 21. janúar um kl. 2 gerði svo mikið aftakaveður [Af suðaustri], að ekki varð við neitt ráðið. Mistu þeir þá stjórn á skipinu og virtist svo um tíma, sem skipinu væri mikil hætta búin. Tóku þá seglin að rifna, hvert af öðru, og reiðar gengu úr lagi. Seint um nóttina fór veðrinu heldur að slota og var þá farið að aðgæta, hvort leki hefði hefði komið að skipinu, og kom þá í ljós, að talsverður sjór var kominn í það. Vildu skipsmenn þá reyna að dæla, en dælurnar voru i ólagi, og vinddæla, sem mest var treyst á, hafði öll brotnað í veðrinu, svo að ekki var viðlit að gera við hana. Fleiri bilanir komu og í ljós og með því að enginn tiltök voru að gera við alt það í rúmsjó, sem bilað hafði, þá var siglt af stað, þegar stjórn náðist á skipinu og lensað austur, því að Vestmannaeyjar voru nú einasta höfnin, sem tök var að ná.

Í birtingu um miðjan morgun sáu þeir Vestmannaeyjar fyrir stafni og var þá veður tekið að hægja. Settu þeir upp öll segl, sem þeir gátu og stýrðu til eyja, en síðdegis lygndi og voru þeir þá skamt N.V. af Eyjum. En brátt fór að hvessa af suðaustri og var þá slegið undan. Undir kvöld reyndu þeir að vekja eftirtekt á sér með neyðarmerkjum (blysum), en enginn tók eftir því. Um kl. 8 var komið suðaustan rok og sigldu þeir þá undan' [á lensi vestur með landi], en brátt herti veðrið svo mjög, að segl þau, sem eftir voru, fóru í tuskur og fylgdi þessu veðri stjórsjór, þrumur og eldingar. Einni eldingu sló niður í skipið nálægt skipstjóra og tveim öðrum, en engan þeirra sakaði til muna, og má merkilegt heita.

Alt í einu datt í dúnalogn litla stund, en fór svo að hvessa af suðvestri. Var þá skipinu haldið upp að vindi. Um kl. 3 um nóttina var kominn álandsstormur, og rak skipið til lands, og voru þá gefin neyðarmerki seinni part næturinnar. Um kl. 6 árdegis kom enski botnvörpungurinn Mary A. Johnson (skipstjóri Nielsen) þeim til hjálpar og fylgdi þeim þar til bjart var orðið. Ekki treystist hann til að draga skipið til hafnar, en bauðst til að fara til Eyja og reyna að ná í björgunarskipið, en með því að skipið átti þá svo skamt til lands, sá hann, að enginn tími væri til þess og vildi að skipshöfnin yfirgæfi "Eos". Var þá ekki annað ráð vænna fyrir höndum og skaut hann út björgunarbáti til þeirra, (því að skipsbátur "Eos" hafði laskast), og gengu skipverjar af "Eos" allir í hann. Var það þó ekki auðsótt, því að sjór var mikill, en Englendingar heltu olíu i sjóinn og gerðu sér alt far um að hjálpa sem best. Sumum skipverja tókst að hafa nokkuð af fötum sínum með sér, en aðrir mistu alt, sem þeir höfðu meðferðis. Þetta mun hafa verið um hádegi á fimtudag og var svo beðið hjá barkinum, ef vera mætti, að honum yrði bjargað, en um kl. 4 var hann kominn upp í brimgarðinn við Eyrarbakka, og var þá haldið til Reykjavíkur. Skipstjóri á "Eos" var Davíð Gíslason. "Eos" var 456 smálestir að stærð (nettó). Eigendur h.f. Eos (þ. e. Jóhannes Reykdal, Guðm. Kr. Guðmundsson, Lárus Fjeldsted og Ásmundur í Hábæ).

Heimild: Ægir 1920. Austurland 1920. Alþ.bl.1920.

Flettingar í dag: 296
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1611
Gestir í gær: 156
Samtals flettingar: 412928
Samtals gestir: 44334
Tölur uppfærðar: 24.4.2025 02:42:54