23.09.2013 23:45

Af draugum fyrri tíma

MóriMóri: Þekktastur drauga í neðanverðum Flóa er óneitanlega "Sels-Móri" eða "Skerflóðsmóri" öðru nafni. Var honum lýst svo að klæddur væri í ullarföt eins og þá tíðkaðist um sveitabörn en þó í öllu úr mórauðu með barðastóran hatt gamlan og lúinn og var rifið úr hattbarðinu öðru meginn. Af klæðnaðinum fékk hann viðurnefnið Móri. Hann var flökkupiltur í sínu lifanda lífi og talin hafa flúið Skaftárelda er þá geisuðu (1783 ). Hann hafði síðan borist hingað í Flóann og leitað ásjár í bæjarþorpunum við ströndina eins og margt fólk austanað um þessar mundir. Hann kom við í Hraunshverfi, en var úthýst þaðan og hugði hann fara þvínæst upp að Efra-Seli, en á þeirri leið fæktist hann út í Skerflóð það er Hraunsá rennur úr og druknaði hann þar.

Móri gekk aftur og var í fyrstu ærsladraugur er framdi óhljóð og skarkala ýmiskonar og sjónhverfingar þegar skyggja tók og skaut það fólki á þessum slóðum skelk í bringu. Hann átti það til að bregða fyrir mönnum fæti þegar minnst varði eða birtast skyndilega við kynlegar aðstæður og hverfa jafn skjótt síðan. Oft hafði sést til Móra sitjandi á Hraunsárbrú er þá var og þorðu menn þá ekki yfir. Ferðamaður einn vestan að er þar kom að Móra sitjani á brúnni var þó hugaður og steypti honum í ána, en þá þorði hann ekki yfir hana heldur fór á vaði niður við sjó. Kom þá Móri undan vatninu og greip í fót hans. Ferðamanninum tókst skjótt að losa sig undan og hljóp hvað af tók til Stokkseyrar.  Það var svo síðar er Móri komst í kynni við aðra drauga að leikar tóku heldur betur að æsast í sjávarþorpunum.

SkottaSkotta: Stúlka ein varð úti skammt frá Móhúsum eftir úthýsingu þar nokkrum árum eftir að Sels-Móri kom fram og varð hún að illvígum draugi sem kölluð var "Móhúsa-Skotta". Skottu var mest kennt um brambolt manndráp og skemmdarverk.

Maður frá Ranakoti á Stokkseyri fannst kyrktur í brunni einum og var Skottu kennt um. Skömmu síðar lögðu þau Móri og Skotta lag sitt saman og drápu þau Tómas nokkurn frá Norðurkoti á Eyrarbakka eftir að hann fór austur á Stokkseyri um jólin þennan vetur. Þar hafði hann keypti sér hangiketskrof til hátíðarinnar. Í bakaleiðinni skömmu eftir sólsetur réðust þau skötuhjú að honum og drápu hvað menn héldu. Fannst hann morguninn eftir skamt frá Hraunsá dauður og allur sundur skorinn, blár og blóðugur.

TommiTommi: Eftir þetta sáust þrír draugar á ferð og var þá talið að Tómas hefði gengið í félag við Móra og Skottu. Kvað þá svo rammt að reimleikum að engum var fært milli Eyrarbakka og Stokkseyrar eftir að skyggja tók á kvöldin. Skotta, Tommi og Móri fóru líka hamförum á mörgum bæjum í nágreninu og komu stundum við í Norðurkoti á Eyrarbakka þaðan sem Tómas var upprunnin. Lék þá bærinn á reiðiskjálfi. Húsmunir, búsáhöld og leritau fóru á flug og lentu með af miklu afli í veggjum svo stórsá á.  Héldu þau þrjú saman um nokkur ár en svo tók Skotta að fylgja Jóni í Móhúsum og Móri fylgdi ætt Einars á Stéttum, einkum Þuríði Formanni. Jón í Móhúsum fékk Klaustur-Jón í Þykkvabæ til að kveða niður drauga þessa og tókst það nema hvað Sels-Móri slapp undan presti og hefur engum enn tekist að kveða hann niður.

MundiMundi: Einu sinni bar svo við að smali frá Stóru-Háeyri, á Eyrarbakka sem gegndi fé uppi á mýrinni, fór í beitarhúsin á aðfangadagskvöld jóla. Þegar liðið var á jólahátíðina þetta kvöld var farið að undrast um smalann sem ekki hafði komið til baka. Þegar smalinn hafði ekki skilað sér á jóladagsmorgun var farið að leita hans og var víða farið í eftirgrenslan, en árangurslaust.

Á annann dag jóla, þá um morguninn fannst hann dauður og illa útleikinn niður við sjó í Mundakotslendingu. Talið var að draugur eða óvættur hafi elt hann og flæmt fram í fjöru og drepið hann þar. Gerðist smali þessi nú draugur en meinlaus þó. Urðu margir varir við afturgöngu hans, skyggnir menn og óskyggnir. Leitaðist hann einkum við að villa menn, ef þeir voru einir síns liðs seint á ferð og teyma þá út í ófærur. Komust margir í hann krappan af völdum Munda. Þótti ekki síst verða vart við hann í Mundakoti, helst í fjárhúsunum þar og neðan við vörðuna og var hann því ýmist kallaður Mundakotsdraugur eða Vörðudraugur. Skammt fyrir austan vörðuna stóð rétt sem Steinskotsrétt var kölluð (Núverandi kirkjugarður) og bar oft við að menn villtust þar.

KeliKeli: Eitt sinn er er Skaftfellingar voru í verslunarferð á Eyrarbakka fældi strákur fyrir þeim hrossin. Sá var nefndur Keli og hafði ekki sem best orð á sér fyrir prakkaraskap. Skaftfellingum þótti þetta óþvera hrekkur og reiddust þessu mjög. Greip þá einn þeirra klyfbera og henti í strákinn. Varð það honum að bana og þótti sú hefnd meiri en til var ætlast, en varð þó ekki aftur tekin. Keli gekk aftur og varð draugur sem fylgdi banamanni sínum. Banamanni Kela tókst með hjálp lærðra manna  að koma Kela í skjóðu, en honum sjálfum ráðlagt að flytja sig til Vestmannaeyja og koma aldrei í land aftur.

 Skinnskjóðu þessa sendir svo banamaður Kela til hálfsystur sinnar í Holti í Álftaveri sem verður það á að opna skjóðuna, og gaus þá út blá gufa með því sama. Keli gekk síðan meðal Álftveringa og veitti þeim ýmsar skráveifur.

Þá eru ótaldar vofur sem sést hafa, en frægastar af þeirri gerð er "Stokkseyrardraugurinn" svokallaði er hélt sig í verbúð einni þar. Hafa vofur þann eginleik að geta breytt mynd sinni í næstum hvað sem vera skal, en þessi vofa sást oftast sem grár hnoðri eða í hestlíki. Þá kom vofa ein og hrekkti mann er í eina tíð gekk yfir Gónhól á Eyrarbakka, en þar var talinn forn kirkjugarður. Vofa sást síðast á bæ einum ofan við Eyrarbakka fyrir nokkrum árum. 

Bær er austan Stokkseyrar er Skipar heita. Þar út af klettunum við sjávarsíðuna nærri Baugstaðará var talið fyrr á tíð að sjódraugur byggi og gat sótt að mönnum er gengu veginn til Baugstaða eftir að skuggsýnt var orðið.

16.09.2013 23:43

Umsáturs ástand

Það má heita að Vesturbakkinn sé undir hernámi þessa daganna. Þó ekki eginlegum her, heldur afturgöngum úr síðari heimstyrjöld sem hafa tekið sér hér bólfestu og berjast nú á banaspjótum við ýmsa uppvakninga. Hin borgaralega lögregla reynir að stemma stigu við þessum óvættum, en fær litlu áorkað, því draugarnir hafa tekið skriðdreka frá sjóminjasafninu trausta taki og valta hér yfir lögguna. Þá er vonandi að þessi draugagangur verði ekki til þess að vekja upp Móra og aðra illvíga drauga. Íbúar götunnar eiga stundum erfitt með að komast leiðar sinnar sökum reimleikanna en njóta þess í stað einhverrar skemtunar af þessu óvenjulega draugastríði.

13.09.2013 15:44

Afturgöngur á Eyrarbakka

Nú standa yfir tökur á kvikmyndinni "Dauður Snjór" (Död sno) sem fjallar um uppvakninga þýskra og rússneskra stríðsárahermanna og eins og sjá má er skriðdreki mættur á svæðið. Undirbúningur fyrir tökur hefur staðið yfir í nokkrar vikur á Garðstúninu.

Þýskar afturgöngur tilbúnar í aksjón.

04.09.2013 19:55

Ingólfur kemur á Eyrarbakka

Húsið "Ingólfur" eitt elsta hús Selfyssinga var flutt til Eyrarbakka í dag. Þó ekki til fastrar búsetu, heldur sem leikmunur í kvikmynd sem verið er að undirbúa tökur á hér á Bakkanum. Ingólfur sómir sér vel hér innan um sína líka, gömlu húsin.


Eins og sjá má er Garðstúnið að verða svolítið þorpslegt.

29.08.2013 00:34

Skólinn lagfærður

Nýtt þakjárn og andyriri byggt við Barnaskólann á Eyrarbakka, en skólinn var settur í síðustu viku.

26.08.2013 22:27

Framkvæmdir við Eyrargötu

Í sumar hefur verið unnið að undirbúningi fyrir nýja gangstétt við Eyrargötu vestan Háeyrarvegar. Hefur sú vinna verið með hléum og mörgum þótt hægt ganga, en nú virðist kominn einhver skriður á verkið, búið að setja niður nýja ljósastaura og langur lagnaskurður hefur verið grafinn og brýr byggðar fyrir hvert hús. Vonandi lýkur verkinu fyrir veturinn.

23.08.2013 17:03

Leikmynd að fæðast

Eins og sjá má er komið heilt hús á Kaupmannstúnið, en það er hluti af leikmynd vegna norsku kvikmyndarinnar "Död snö 2" og væntanlega mun skriðdreki mæta á svæðið þegar tökur hefjast á næstu dögum. Miklar sprengingar og gauragangur munu að sjálfsögðu fylgja, enda um stríðsmynd að ræða og margir drepnir, en bara í þykjustunni.

19.08.2013 15:09

Óvenju mikið um álft

Óvenju mikið hafa álftir og andfuglar verið við strönd þorpsins í sumar. Jafnvel svo að skipti hundruðum saman, mest ungálftir, líklega ófleygar í sárum um þessar mundir. Álftapar með fimm unga siglir hér framhjá ljósmyndara BB þar sem þær halda sér í lygnu innan við brimið.

16.08.2013 01:13

Þar sem vegurinn endar

Bakkinn í svipmyndum. Snoturt myndband af húsum fólki og fénaði. Ath. að það getur tekið a.m.k. 2 mínútur að hlaða bandinu niður, en það er alveg þess virði.

.


Horfa á myndband: smellið á auða boxið til vinstri.

12.08.2013 11:14

Söguskilti

Skilti með ljósmyndum var nýverið sett upp við Stað á Eyrarbakka og segir þar frá hafnargerð og útgerð á árunum áður. Skiltið var vígt í tengslum við Aldamótahátíðina sem fór fram um liðna helgi. Margt var um að vera á Bakkanum enda viðburðir af ýmsu tagi jafnan á þessari bæjarhátíð sem nú var haldin í fimta sinn.

22.07.2013 20:15

Stríðsmynd tekin upp á Eyrarbakka

Ef öll tilskilin leyfi fást verður Eyrarbakki sögusvið kvikmyndar sem gerist í síðari heimstyrjöldinni. Atburðirnir eiga að gerast í Noregi en hagkvæmara þykir að taka upp meginefni myndarinnar hér á landi. Það er Sagafilm sem stendur að undirbúningi fyrirtækisins með norskum kvikmyndagerðarmönnum sem munu reisa hér allmikið kvikmyndasvið stríðsáranna, og m.a. mun alvöru skriðdreki leika stórt hlutverk á Bakkanum. Áætlað er að tökur muni hefjast í síðari hluta ágúst og standa fram í september. Þess er skemst að minnast að fyrir ári var tekin hér upp að stórum hluta sænsk kvikmynd, en fyrsta kvikmyndaskotið þar sem Eyrarbakki kom við sögu sem sviðsmynd var í íslensku kvikmyndinni Brekkukotsannál á 7. áratugnum. Þorpið og umhverfi þess þykir búa yfir eftirsóknarverðu og jafnvel dularfullu myndrænu sviði, svo hver veit nema "Hollywood" norðursins leynist hér.

17.07.2013 23:10

Eyrarbakki og náttúran

Fjölbreytt náttúran á Bakkanum er ferðamönnum hvatning til að staldra við og njóta umhverfisins. Þetta kort ætti að hjálpa til að finna áhugaverða staði til að munda myndavélina, en húsin, fjaran, víðáttumikil náttúra og fjöllin í kring hafa einmitt svo skemtilega myndrænt yfirbragð.

04.07.2013 21:06

Bardús á Bakkanum

Aðstöðuhús við tjaldsvæði
Aðstöðuhús rís við Tjaldsvæðið, en björgunarsveitin hefur haft umsjón með því síðustu ár.
Sjógarðsstígur
Göngustíg hafa ungmennin í sumarvinnunni á Eyrarbakka útbúið á Sjógarðinn á milli menningarsetranna "Gónhóls" og "Staðs", en á þeim síðari er Geiri-Staðarhaldari byrjaður á rampi með útsýnispalli uppi á garðinum.
Eyrargata
Gangstéttarlagning sveitarfélagsins er komin af stað á ný þar sem frá var horfið síðasta haust.

22.06.2013 23:55

15.Jónsmessuhátiðin

Jónsmessuhátíðin var haldin í 15. sinn á Bakkanum í dag og var þar margt um manninn í blíðskapar veðri. Hátiðin hófst kl 9 með flöggun að venju, en síðan tók við samfelld dagskrá til kvölds. Uppákomur voru í Byggðasafni Árnesinga, skottsölur, handverksmarkaðir, skemtanir, leikir og söguganga svo dæmi sé tekið. Þá kom út bókin "Saga bátanna" á Bakkanum sem Vigfús Markússon gefur út, en þar er rakin saga þeirra og afdrif. Hátíðinni lauk svo formlega með hinni víðfrægu "Jónsmessubrennu" í fjörunni.

23.05.2013 20:52

Skýrsla um björgun við Stokkseyri

"Sunnudaginn 8. april 1923 var mb. Svanur frá Stokkseyri i fiskiróðri og  flaggaði nauðsflaggi; sást það úr landi, var þá nálægt hádegi, og allir aðrir komnir i land er á sjó fóru um morguninn. Eftir nokkurn tíma varð Þórarinn Guðmundsson formaður á "mb.Frið" til búinn Svan til hjálpar, en hann krafðist þess að annar bátur kæmi með sér til hjálpar; fór ég undirritaður (Guðm. Karl Guðmundsson frá Gamla-Hrauni) þá með honum á mb. Baldur. Náðum við fljótt í Svan; hafði vél hans stansað og drógum við hann inn að Stokkseyrarsundi, en lengra var eigi mögulegt að koma tveim bátum við til að draga Svan. Vindur var snarpur á suðaustan og allmikið brim. Slepti nú Svanur dráttartaug Baldurs, en Friður bjóst til að draga Svan inn sundið, en ég til að bíða fyrir utan brimgarðinn á meðan. Þá er Friður er kominn með Svan nálægt hálfa leið inn sundið slitnar dráttartaugin milli bátanna. Friður gat ómögulega snúið við vegna þrengsla,rak þvi Svanur hjálparlaus fyrir straum og vindi þvert af leið, vestur í brimgarðinn; gáfu þá skipverjar af Svan neyðarmerki; brá ég þá strax við og fór með fylsta hraða af stað, en þar ég var staddur nokkuð út á þegar Svanur slitnaði aftan úr Frið, hafði Svan rekið all-langt af leið, og var kominn svo langt vestur í brimgarðinn, að ég taldi hina mestu hættu að hálgast hann; þó réði ég af að reyna það, vék af leiðinni, og þrátt fyrir að brotsjóir féllu bæði dýpra og grynnra, tókst mér að komast svo nærri Svan, að auðið varð að kasta til hans dráttartaug, og síðan að draga hann inn á rétta leið til lands. Það mátti sannarlega heldur ekki seinna vera að i Svan næðist, þar um geta borið bæði skipverjar beggja bátanna, og alkunnir formenn og aðrir, sem úr landi voru áhorfendur. En guði sé lof að mér og skipverjum mínum tókst að koma Svan og skipshöfn hans heilum á húfi til lands, jafn illa og áhorfðist". Að þessi skýrsla sé sannleikanum samkvæm er ég fús til að staðfesta hvenær sem þurfa þykir.

Stokkseyri 10. mars 1923.

Guðmundur Karl Guðmundsson.

Ægir 1908
Flettingar í dag: 275
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 686
Gestir í gær: 44
Samtals flettingar: 379356
Samtals gestir: 42980
Tölur uppfærðar: 1.4.2025 03:20:47