Flokkur: Annálar

18.11.2012 23:25

Sú var tíðin,1913

Þetta var árið sem óskabarn þjóðarinnar, Eimskipafélag Íslands braust úr eggi og íslendingar sáu í hendi sér þann möguleika að þjóðin gæti staðið á egin fótum þegar fram liðu stundir, eftir margra alda niðurlægingu undir erlendri stjórn. Nú máttu íslendingar stofna sinn eginn þjóðfána og var það tilhlökkunarefni, jafnvel hér í hálfdanska þorpinu við sjóinn þar sem "dannebrog" blakti ævinlega í hafgolunni til heiðurs konungi vorum Kristjáni IX.

Raflýsingarmálin voru efst á baugi í upphafi ársins 1913. Sveitafundir á Stokkseyri og Eyrarbakka lögðu dálítið fé til ransókna á mögulegri raflýsingu þorpana, en helst kom til greina að virkja Baugstaðarós ella sameiginleg Díselrafstöð á Stóra-Hrauni fyrir bæði þorpin. Kol og olía voru seld á afarverði hér í verslunum og þótti flestum nóg um. Fyrir héraðið þótti það vísa á framfarir þegar mælingum Indriða Reinholt á járnbrautarleiðinni frá Reykjavík austur að Þjórsá lauk og kostnaðaráætlun gerð, en þar var gert ráð fyrir að brautin kostaði 3½ miljón króna. Var frumvarp um járnbrautina lögð fyrir alþingi. Fyrirhuguð brautarleið frá Reykjavík lá um Mosfellsheiði - Þingvelli - niður með Þingvallavatni að austan og niður í Grimsnes, vestur yflr Sogið og niðureftir austan Ingólfsfjalls og yfir Ölfusá hjá Selfossi. Þaðan átti að leggja grein hingað niður á Eyrarbakka, en aðalbrautin héldi áfram beina leið að Þjórsárbrú. Þá hliðarbraut upp Skeið - Ytrihrepp og Biskupstungur til Geysis. Fyrr en varði hófust þó deilur um legu brautarinnar, því sumir vildu að brautin lægi um uppsveitir sýslunar, skemstu leið austur að Þjórsá. Sögðu þá aðrir að þegar bílarnir kæmu yrðu lestar óþarfar. Hér tóku menn sig hinsvegar til og máluðu kirkjuna hátt og lágt. Gestkvæmt var við ströndina, fyrirlesarar með fróðleik og tortryggilegir kaupsýslumenn úr Reykjavík að pranga með byggingalóðir þar í höfuðstaðnum, og svo hinsvegar útlendir betlarar sem gengu á milli manna hér um sumarið, eins og hin síðustu sumur. Þeim var hinsvegar minna fagnað og þóttu afar ógeðfeldir nágungar. Eyrarbakkahreppi var leyfð 6.000 kr. lántaka til nýrrar skólahússbyggingar og 3.450 kr. lán til endurbyggina sjógarða og þá var oddvita falið að selja fangaklefann á Eyrarbakka. Bifreiðar sáust nú ferðast um sunnlenska vegi, sem voru helst til þröngir og misjafnlega greiðfærir hestvagnabrautir. Hér voru byggð 4 íbúðarhús og veglegt barnaskólahús, stórt vörugeymsluhús og eitt hús fyrir fénað og hey - öll úr steinsteypu. Ekkert hús er bygt úr timbri hér á Eyrarbakka þetta sumar. Landsverkfræðingur kom hér til að athuga garðstæði fyrir garði til varnar jakaburði úr Ölfusá. Héðan fór hann út í Þorlákshöfn til að athuga lendingar og undirbúa væntanlegar endurbætur á þeim. Ekkert meira hafði frést af hafnarævintýrinu sem frakkar ætluðu að kosta í þorlákshöfn og höfðu kaupin líklega gengið til baka, því Þorleifur Guðmundsson hafði nú aftur selt Þorlákshöfn félagi einu fyrir 160 þús. kr. Formaður félagsins var P. I. Thorsteinsson, áður á Bildudal. Íbúar á Eyrarbakka og bæjum í kring árið 1913 voru samtals 879 manns.

Skipakomur: Venja var að flagga tveim rauðhvítum fánum (dannebrog) við skipakomur á Eyrarbakka og Stokkseyri. Fánanum danska var því óvenjutítt flaggað hér við ströndina árið 1913. Fyrsta vorskipið  kom 11. apríl, en það var strandferðaskipið "Hólar" með nokkuð af vörum til flestra verslana hér, kom það aftur tvívegis síðsumars. Einarshafnarskip komu tvö um vorið, "Svend" og "Irsa", með vörur til verslunarinnar. Þá kom "Elise" frá Halmstad  til Stokkseyrar með timbur og tvö skip önnur. Annað þeirra "Elin" með vörur til kaupfél. Ingólfur, hafði verið hér fyrir utan alllengi og ekki getað náð höfn vegna brims og storma fyr en í 9. viku sumars. Að áliðnu sumri kom til Stokkseyrar skonortan "Venus", hlaðin kolum til Ingólfsverslunar á Stokkseyri, kom hún aftur með kolafarm snemma hausts. Skonortan "Henry" kom með saltfarm til versl. "Einarshöfn" og "Vonin", seglskip til sömu verslunar, kom einig. "Ingólfur" kom að Stokkseyri og í Þorlákshöfn, til að sækja saltfisk. "Nordlyset" kom með olíu til verslananna hér á Eyrarbakka um miðjan ágúst. "Fanney", saltskip til Ingólfs á Stokkseyri og í Þorlákshöfn komu í sumarlok.  

Atvinna, sjósókn, landbúnaður og verslun: Vetrarvertíðin fór hægt af stað og lítið fiskaðist á miðum Eyrbekkinga í byrjun. Nýjum vélabáti [Búi ÁR 131] var hleypt af stokkunum, er Bjarni Þorkellsson hafði smíðað hér þennan vetur. Var báturinn stór og vandaður. Hann átti Ingólfsfélagið á Stokkseyri, en 23. febrúar slitnaði báturinn upp hér á Eyrarbakkahöfn og rak út í brimgarð, lögðu margir sig í hættu við að bjarga honum og tókst það slysalaust. Þá gerðist það í Gaulverjabæ, að maður gekk á reka, og sá hann þá sílatorfu mikla rétt við land i brimgarðinum, en mikil mergð þorska óð þar ofansjávar, hættu þorskarnir sér of nærri landi og skoluðu bylgjurnar þeim á land. Spurðist þetta út og náðu Gaulverjar í einni svipan 530 stórþoskum. Fengu þeir þar góðan "hlut á þurru landi", en þá tók líka að fiskast á öllum miðum hér við ströndina, þó dró talsvert úr afla hér á heimamiðum vegna gæftaleysis þegar á leið vertíðina sem var einhver sú lakasta fyrir sjósóknara hér. Sumar og haustveiðar urðu með lakasta móti og vart bein úr sjó að hafa og gekk svo fram á vetur. Magnús Gunnarsson frá Brú stofnaði til kramvöruverslunar á Stokkseyri. Andrés Jónsson stofnaði verslun í Kirkjuhúsi hér á Eyrarbakka, hafði áður verið verslunarmaður hjá versl. Ingólfi á Háeyri. Almennt gekk verslun ágætlega sunnanlands. Hey bænda hröktust talsvert í mikilli vætutíð sem gerði eftir sláttinn og brugðu sumir á það ráð að verka súrhey, en er á leið sumarið kom góður þurkakafli sem bjargaði mörgum en heyfengur var frekar rír. Vetrarverslunin var með daufasta móti og umferð lítil. "Nú sést ekki smjörögn fremur en glóandi gull", sagði kaupmaður nokkur.

Andlát: Tvö ung börn á fyrsta ári létust af veikindum sínum.

Menning og íþróttir: Ungmennafélagið á Stokkseyri var mjög virkt á árinu 1913 og hélt þar uppi fjölmennum skemtunum. Þá voru haldnar dansskemtanir í báðum þorpum hér á Eyrum um miðjan Þorra og var þar gnægð matar fram borinn. Sönglistin fékk líka að njóta sín hér við sjóinn, undir stjórn Guðmundu Níelsen. Sumir höfðu mestu skemtan af símahlerun, það var auðvelt fyrir þá sem áttu einkasíma, aðeins þurfti að lyfta tólinu og hlusta. Heldur dró úr íþróttaþáttöku almennt hér á þessu ári. Leikhús, hljómleikar og söngskemtanir voru hinsvegar stundaðar hér yfir vetrartímann og var verkið "Æfintýri á gönguför" m.a. sett upp í Fjölni. Hússtjórnarnámskeið var haldið hér á Eyrarbakka á haustmánuðum. Kensluna hafði á hendi ungfrú Halldóra Ólafsdóttir frá Kálfholti og voru nemendur 9 talsins.

Hamfarir og slys:  Þann 9. og 10. febr´ 1913 var hér afspyrnurok af suðri, gekk sjór mjög á land, svo ekki hafði um langa hríð jafn hátt gengið. Rofnuðu þá sjógarðar víða og sópuðust brott á löngum köflum í grunn niður. Voru menn naumast óttalausir í húsum inni, enda fyltust kjallarar á ýmsum stöðum og varð af tjón nokkurt. Kálgarðar skemdust og til muna. Tjón það er hér varð á Eyrum af sjógangi þessum, var áætlað þúsundir króna, en til allrar hamingju var smástreymt, ella hefði tjónið orðið meira. Rak í þessu flóði tré mikið í hinni svo nefndu Keflavík, sem er smá vogur, sem gengur inní strandbergið milli Þorlákshafnar og Selvogs.  Enskur togari bjargaði áhöfn Guðmundar Hannessonar í Túngu í Gaulverjabæjarhreppi, sem lokaðist úti í brimi og aftaka veðri. Kom togarinn að á Stokkseyri næsta dag. Fór þá Jón Sturlaugsson hafnsögumaður á vélbát sínum útí togarann og tókst honum að ná mönnunum og flytja í land. Í sumarbyrjun varð mönnum hér starsýnt til Heklu og þóttust sjá þar í grend gos mikið hafið. Fóru menn héðan austur, þeir Guðm. verslunarstjóri Guðmundsson, Kjartan Guðmundsson Ijósmyndari og Þorfinnur Jónsson i Tryggvaskála. Riðu þeir yfir Þjórsá á Nautavaði og síðan upp Land að Galtalæk og þaðan með fylgdarmann inn á Fjallabaksleið. Mætti þeim eldgos stórt vestur undir Hrafnabjörgum, austan við Heklu og hraun þar nýrunnið nefndu þeir "Hörpuhraun". Um sumarið fóru kaupmaður Lefolii og J. D. Nielsen austur að eldstöðvunum.

Náttúran og tíðarfarið: Umhleypingasamt var í byrjun ársins 1913 en þegar kom í febrúar urðu veður afar byljótt  svo sá ekki húsa á milli hér á Eyrum. Skóf mjög saman snjóinn i skafla, var ekki fært um veginn öðrum en karlmennum einum. Vepjur sáust upp við Laugarás um miðjan janúar og þótti markvert því fuglar þessir voru nær óþekktir hér austan fjalls, en höfðu sést sumstaðar á flækingi að vetri til og var fuglinn því oft nefndur "Ískráka".  [Um þessa fuglategund skráði P. Nielsen á Eyrarbakka: Haustið 1875 sáust nokkrir fuglar í Grímsnesinu og haustið 1876 var einn (karlfugl) skotinn í Mosvallahreppi í ísafjarðarsýslu. 1. jan. 1877 var einn (kvenfugi) tekinn lifandi í heygarði hér á Eyrarbakka, mjög aðfram kominn af sulti og kulda, og var hann drepinn samdægurs. Í maganum var ekkert annað en fáeinir smásteinar. Snemma í janúar 1879 kom hann í stórhópum og hélt sér um tíma við sjó hér sunnanlands. 2. febr. 1882 sáust 5 í Ölfusinu og var einn skotinn. 7. des. 1889 var einn (kvenfugl) skotinn hér við Eyrarbakka. Ennfremur var einn skotinn í Ölfusinu 17. febr. 1895 og seint í febrúar s. á. sáust þrír við Eyrarbakka. Áttunda mars 1901 sást einn við Stokkseyri og í miðjum desember s. á., hélt lítill hópur til við Gamlahraun. 6. marz 1907 var ungur karlfugl skotinn við Eyrarbakka og 17. jan. 1912 fanst einn með brotinn væng hér í þorpinu, hefir að líkindum flogið á símaþræðina. Norðanlands sést ísakrákan einstaka sinnum í janúar og febrúar... ]- Allan febrúar lágu á sífeldar hafáttir, sandbyljir, sjávarflóð og hregg og hrið, frostlaust þó. Fólki varla verið útkomandi fyrir ólátum í veðrinu og Spói kvað:

Ennþá Kári óður hvín,

æðir sjár á löndin. -

Ógna bára yfir gín,

Er í sárum ströndin.

Snjóalög voru mikil þegar vetur kvaddi og mesta frost var -18°C. Hettumáfurinn verpti hér í fyrsta sinn, gerði sér hreiður við tjörn hjá Stokkseyrarseli, en vorið var kalt og þurt og síðan tók við vætusumar og haustið rosasamt. Í nóvember hafði snjóað mikið milli fjalls og fjöru og hagbann orðið. Skömmu fyrir jól gerði ofsaveður mikið af útsuðri svo hús léku á reiðiskjálfi.  14 álna langan hval (andarnefju) rak á Skipafjöru, skamt fyrir vestan Baugstaðakamp svonefndan. Úr heimi skordýranna var fiskiflugan hér almennust.

Heimild: Suðurland 1913, Lögberg 1913 gardur.is, skátavefurinn. Skjal/Appendix F Population in Eyrarbakki 1910-1970

04.11.2012 22:40

Sú var tíðin,1912

Þetta gerðist hér við sjóinn árið 1912, árið sem Friðrik VIII danakonungur var til moldar borinn og Vilson varð forseti bandaríkjanna. Brauðgerðarhússfélagið var stofnað hér á Bakkanum á þessu ári. Hafist var handa við að draga að efni til byggingarinnar, sem reisa átti á lóð kaupfélagsins "Hekla", húsið var steypt og skildi heita "Skjaldbreið". Annars dró fátt til tíðinda á Eyrarbakka fyrstu mánuði þessa árs þar til kom hið sólblíða og söngljúfa vor. Menn veltu fyrir sér komu sjaldgæfra fugla hér um slóðir sem nefndust svartþrestir og starrar og álitu margir þá vera nýja landnema og enda varð sú raunin. Lífið gekk svo sinn vanagang við fiskiveiðar þegar á sjó gaf. Netatjón var þó allnokkuð í óveðrum er yfir gengu á útmánuðum.

Hlutafélag til hafnargerðar í Þorlákshöfn og annara fyrirtækja á suðurlandi, var stofnað í Frakklandi ("Sosiété d' Entreprise en Islande"). Við félagsmyndun þessa kváðust vera riðnir tveir stórbankar franskir ("Banque Francaise" og "Banque Transatlantique") og einhverjir fleiri stóreignamenn. Brillouin konsúll var framkvæmdarstjóri þessa fyrirtækis hér á landi, en þann 21. janúar þetta ár [1912] seldi Þorleifur á Háeyri frökkum Þorlákshöfn fyrir 432.000 kr.  Um þetta samdi Kjói:

Ef að Frakkar eignast hér

okkar litlafingur,

að hundrað árum hvar þá er

Höfn og íslendingur?

Hugmyndin var að höfnin yrði miðstöð fyrir ýms iðnaðarfyrirtæki; þar áttu að rísa upp verksmiðjur, knúðar rafmagni, til málmbræðslu o. fl. Hlutafélagið hafði umráð yfir 9 fossum á Suðurlandi, sem það sumpart var eigandi að, og sumpart hefði tekið á leigu og hugðust virkja, og leggja járnbrautir upp til sveita, en íslensk lög [fossalögin 1907] voru þó þrándur í götu fyrir þessa frakknesku auðjöfra. Helst sáu málsmetandi menn þessu til foráttu að mundi hefta viðgang Reykjavíkur til framtíðar. En á meðan um þetta var þráttað hófust miklar hafnarframkvæmdir í Reykjavík enda og mikil uppgangsár þar. Verktaki að hafnargerðinni var N. C. Monberg,( Niels Christensen Monberg) danskt fyrirtæki.  

Ákveðið var að sýsluvegur mundi liggja í gegnum Stokkseyrarkauptún, þar eð hann lá að því báðum megin. Óseyrarnesferju var hinsvegar neitað um styrk úr sýslusjóði. Um vorið varð vart við snarpan jarðskjálfta og hristust húsin hér duglega. Vandræði urðu með símtalsflutning til Reykjavíkur, en línan þangað annaði ekki þeim 18 stöðvum sem á henni voru allt austur til Vestmannaeyja og kom það versluninni hér brösuglega um kauptíðna. Hækkandi steinolíuverð var bagaleg þorpsbúum sem notuðu eingöngu steinolíu til lýsingar og hitunar. Danska steinolíufélagið DDPA átti mest ítök á íslenskum markaði á þessum tíma, en hækkunina mátti m.a. rekja til vaxandi eftirspurnar erlendis. Var þetta til að vekja upp hugmyndir um raflýsingu hér á Bakkanum með því að virkja Skipavatn, sem Baugstaðaá rennur úr ásamt nálægum vötnum og lækjum. Rangárbrúin var vígð um haustið. Hún var fyrsta járnbrúin hérlendis sem var alíslensk smíði, nema efnið og hugvitið sem kom erlendis frá, en landsmiðjan í Reykjavík sá um verkið. (Rangárbrúin var 137 álnir á lengd og jafnbreið Ölfusárbrúnni gömlu, eða rúm vagnbreidd. Skömmu síðar var lokið við steypta bogabrú yfir Hróarslæk og var hún að öllu leiti íslensk). Um haustið var gistihúsinu hér lokað og það hætt störfum. Var innbú og munir þess seldir á uppboði. Skipt var um glugga í kaupmannshúsinu og kom mönnum á óvart að viður húsins var alveg laus við fúa í þessu 200 ára gömlu húsi, en viðurinn er sagður upprunnin frá Pommern, [hérað í Póllandi/Þýskalandi].

Skipakomur og skipaferðir: Strandbáturrnn "Austri" átti að koma við á Stokkseyri á leið sinni til Reykjavíkur í fyrstu ferð þessa árs. Átti kaupfélagið Ingólfur allmiklar vörur í bátnum. En Austri gerði sér lítið fyrir og fór hér framhjá aðfaranótt þess 11. apríl. Snemma í maí komu "Svend" og "Vonin", til Einarshafnarverslunar, og timburskip til kaupfél. Ingólfur á Háeyri. Til Stokkseyrar kom "Skálholt"  frá útlöndum með vörur til Ingólfs, og timburskip til sama aðila nokkru síðar. Strandferðaskipið "Austri" kom hér við  á austurleið með dálitinn vöruslatta, og Perwie kom síðast vorskipa með brúarefni í Rangárbrúnna innanborðs, en því var ekki skipað hér upp eins og vænta hefði mátt. Perwie kom svo fyrst haustskipana hér við, en ekki komst það til Stokkseyrar sökum brims, en seglskipið Venus kom þar síðla í september með vörur til kf. Ingólfs. Í oktobermánuði strandaði kaupskipið "Svend" frá Einarshafnarverslun í svonefndri Skötubót, nálægt Þorlákshöfn og laskaðist mjög. Menn björguðust ekki fyr en morguninn eftir, ómeiddir allir nema skipstjórinn, sem fór úr axlarlið. Svend hafði lengi haustsins legið hér úti fyrir og beðið færis, en ekki gaf inn á höfnina sökum brims. Var þetta strand  skaði fyrir Einarshafnarverslun því mikið af nauðsynjavörum var í skipinu.

Franskt fiskiskip rak logandi að landi framundan Þykkvabæ. Liðaðist skipið sundur í brimgarðinum.    Færeysk fiskiskúta strandaði í Landeyjum. Annars var talsvert um skipatjón og mannskaða í sunnlenskum verstöðvum, en þó ekki hér. Þess má einnig geta að hið fræga risaskip "Titanic" fórst þetta ár.

Atvinna, viðskipti, landbúnaður og fiskveiðar: Jón Helgason prentari hóf að gefa út "Heimilisblaðið" Jón Helgason var að góðu kunnur, síðan hann gaf út blaðið "Fanney" með Aðalbirni Stefánssyni, en auk þess starfaði hann í Prensmiðju Suðurlands hér á Eyrarbakka. Jón Jónatansson alþm. á Ásgautsstöðum tók við ritstjórn vikuritsins Suðurland sem hér var gefið út. Hér var kosinn sr. Gísli Skúlason í framkvæmdastjórn Sunnlenskrar Lýðháskólastofnunar. Smjörsala rjómabúsins í Sandvíkurhreppi gekk framar vonum, en til þess hafði verið stofnað árið áður. Vetrarvertíðin fór rólega af stað á Bakkanum enda afli tegur á miðunum. Vélarbaturinn " Þorri " frá Stokkseyri, formaður Jón Sturlaugsson hafnsögumaður, stundaði vertíðina frá Vestmannaeyjum. Um miðjan mars mokaflaðist hér við ströndina, þá er gaf á sjó. Er kom fram í apríl fiskaðist lítið sem ekkert í net en reitingur á lóðin. Í maí barst hinsvegar mikill afli á land, en svo kvaddi þorskurinn miðin og ýsan kom í staðinn. Þegar vertíð lauk var hún talinn í meðalagi góð. Kauptíðin var umfangsmikil að venju og samkeppnin hörð. Verslun Þorleifs Guðmundssonar, "Dagsbrún" seldi verslun sína Kaupfélaginu Ingólfi á Stokkseyri á haustmánuðum en fyrir þeirri verslun fóru m.a. Helgi Jónsson á Stokkseyri og Jóhann V. Daníelsson Eyrarbakka. Þorleifur hafði sett upp verslunina í Regin nokkrum mánuðum fyr og auk þess samnefnda vefnaðarvöruverslun í Reykjavík. Heyskap lauk fyrir miðjan september og var heyfengur í besta lagi og nýtingin ágæt. Tilkoma sláttuvéla mun hafa létt mönnum mjög heyskapartíðina. (um 100 sláttuvélar voru til á Suðurlandi á árinu 1912) Sláturfé reyndist með rýrara móti þetta haustið. Fisklaust var um haustið, gæftarlítið og beitulaust þar eða síldin gekk ekki þetta sumarið. Verslunin hafði á árinu verið fremur óhagstæð, einkum vegna mikilla verðhækkana á erlendum vörum. Iðnaður var enn lítill og fábreyttur hér í sýslunni sem og annarstaðar, en helst voru það rjómabúin og ullarþvottarstöðin við Reykjafoss.

Fólkið: Lefolii stórkaupmaður dvaldi hér um sumarkauptíðina eins og hann átti vanda til. Þorlelfur Andrésson steinsmiður, sem mörgum var að góðu kunnur, dvaldi einnig hér við pípugjörð í Mundakoti. Kofoed Hansen, skógræktarstjóri, var hér á ferð síðsumars, hafði farið einsamall Vatnajökulsleið. Jóhanna Briem, dóttur Ólafs Briems þáverandi alþm. á Álfgeirsvöllum í Skagafirði, fékk kennarastöðu við Barnaskólann á Eyrarbakka. Hún tók við af frænda sínum cand. Jóhann Briem frá Hruna, sem þjónað hafði stöðunni en var nú skipaður prestur á Melstað í Miðfirði.[ Konan hans var Ingibjörg Jóna Ísaksdóttir verslunarmanns frá Eyrarbakka.] Jóhanna kenndi aðalega íslensku, dönsku, ensku og reikning og stúlkum hannyrðir.  P. Níelsen stundaði vísindalegar athuganir á fuglaflóru landsins og keypti til þess fuglhami af veiðimönnum. Brillouin, fyrv. ræðismaður, frakka kom með botnvörpuskipi frá Frakklandi til Þorlákshafnar, hélt þaðan til Reykjavíkur.

Íþróttir: Hinir víðfrægu glímumenn í U.M.F. Stokkseyrar skoruðu á eyrbekkska glímukappa í U.M.F.E. og átti keppnin að fara fram 27. janúar, en Eyrbekkingarnir höfnuðu áskoruninni. Héldu Stokkseyringar því veglega glímusýningu á Stokkseyri þess í stað. Ungmennafélag var á ný stofnað í Saudvikurhreppi, endurreist af rústum eldra félags. Stofnendur 47. Íþróttamót ungmennafélaganna hér austanfjalls var haldið að Þjórsártúni. Í glímu vann Páll Júníusson á Seli í Stokkseyrarhreppi skjöldinn.

Menning: Sjónleikir og skemtanir voru haldnar á Stokkseyri snemma á árinu og fram á vor við góðan orðstýr, en ágóðinn rann m.a. í samskot vegna drukknaðra sjómanna af Suðurnesjum. Verkamannafélagið Báran hélt tambólu til að efla styrktarsjóð félagsins og Kvenfélagið safnaði fyrir málningu á kirkjuna. Nokkuð var um skemtanir í Fjölni yfir jól og áramót.

Slys og hamfarir: Oft lá við að slys yrðu hér á götunum vegna myrkurs. Um miðjan vetur var riðið ofan á gangandi mann í myrkrinu, meiddist hann talsvert og var lengi óverkfær. Konur tvær voru á gangi á götunni eitt kvöld, mættu þeim tveir menn á harða hlaupum og ruddu um koll annari konunni svo hún hentist niður á götuna og meiddist nokkuð. Mánudaginn þann 6. maí. kl. um 6 að kveldi, varð vart við jarðskjálftakipp á Stokkseyri og Eyrarbakka. Stóð hann yfir um ½  mínútu og titruðu hús hér nokkuð; skemdir urðu þó engar hér en hinsvegar stórtjón í austursveitum, svo sem víða á Rángárvöllum og efri hreppum þar sem bæjarhús hrundu til grunna. Öllum bar saman um að þessi jarðskjálftakippur hafi riðið yfir eins og alda, frá austri til vesturs, eða eins og jafnan við svokallaðan "Suðurlandsskjálfta". Eftirkippir fundust víða í austursveitum. Lík rak við Einarshöfn af færeyskum sjómanni að talið var og jarðsett hér. Kona fannst örend í pytti við túnið í Eyði-Sandvík, var hún þaðan.

Andlát: Guðni Jónsson í Einarshöfn. Kona hans var Sigríður Vilhjálmsdóttir. Guðlaug Einarsdóttir, kona Þorfinns Jónssonar gestgjafa Jónssonar í Tryggvaskála við Ölfusárbrú , en hún var vel þekkt af Árnesingum flestum. Þorfinnur seldi þá Tryggvaskála ásamt slægjulandi og veiðirétti í Ölfusá en þau höfðu búið þar frá 1901. Ungfrú Sólveig Thorgrímsen í Reykjavík, dóttir Guðmundar Thorgrímsen, er lengi var verslunarstjóri hér á Eyrarbakka. Ísak Jónsson í Garðbæ lést af krabbameini. Hann var verslunarmaður við Lefolii verslun í nær 40 ár. Fyrri kona hans var Guðríður Magnúsdóttur frá Brandshúsum í Gaulverjabæjarhreppi, en seinni kona hans var Ólöf Ólafsdóttir, frá Árgilsstöðum í Hvolhreppi. Jón Jónsson í Einarshöfn, háaldraður bóka- og fróðleiksmaður og var hann mörgum að góðu kunnur. Margrét Eiríksdóttir, gömul kona á Litlu-Háeyri á Eyrarbakka. Sonur hennar var Jens S. Sigurðsson bóndi þar. Þórdis Þorsteinsdóttir frá Litlu-Háeyri en maður hennar var Jón bóndi þar Hafliðason. Sigurður Einarsson, tómthúsmaður hér á Eyrarbakka, hné niður máttvana úti við, var hann borinn heim og andaðist skömmu síðar. Lét eftir sig konu og 1 barn í ómegð. Þórunn Þorvaldsdóttir frá Eimu á Eyrarbakka, 84 ára, maður hennar var Guðmundur Þorsteinsson járnsmiður, var hún fædd í Króki í Grafningi 1828. Hér gerðu þau Þórunn og Guðmundur bæ á sandsléttu í landi Stóru-Háeyrar og kölluðu Eimu. Var það snotur bær, að því er þá þótti, en nú löngu horfinn. Ræktuðu þau þar matjurtagarða meiri en þá var títt og vörðu þá og bæinn með sterkum grjótgörðum. Því hætt var við sjávarflóðum meðan enginn var sjógarður þar fyrir framan. Guðmundur var hagleiksmaður, var hann sá fyrsti hér, sem smíðaði blikkbrúsa undir steinolíu. Ekkjan Guðríður Sæmundsdóttir að Foki í Hraunshverfi, hún var við 79 ára aldur. Jón Árnason í Þorlákshöfn, var hér vel kunnur, sonur Magnúsar Beinteinssonar hins ríka í Þorlákshöfn. Kona hans var Jórunn Sigurðardóttur frá Skúmsstöðum. Hallbera Petrína Hjörleifsdóttir frá Litlu Háeyri 8 ára. Nokkur ung sveinbörn dóu einnig þetta ár.

Tíðarfarið: Veturinn í upphafi árs var mildilegur og blíður sunnlendingum. Norðan og NV stormar voru ríkjandi í byrjun mars, en snjólaust þó og fljótt kom góðviðrið aftur. Í uppsveitum var eitthvað um snjókomu á útmánuðum. Dálítið hret gerði í apríl byrjun, en með sumardeginum fyrsta kom blíðan og gras tók að grænka. Í sumarbyrjun og frameftir var hún enn sama sólarblíðan og brakandi þurkar. Í byrjun ágúst kólnaði og gránaði niður undir kamba. Um sumarlok lá mikið misturloft yfir og var eldgosum í ameríku um kennt. Haustrosinn sunnlenski tók svo völdin en fyrri hluti vetrar var yfirleitt hægviðrasamur.

Heimild: Suðurland 1912, Reykjavík 1912. http://gummiste.blogcentral.is/ Wikipedia. Garður.is 

28.10.2012 21:41

Sú var tíðin, 1911

Vesturbúðir - Einarshafnarverslun 

Á þessu ári 1911 var verslun í hvað mestum blóma á Bakkanum og samkeppnin afar hörð, en þrátt fyrir það þótti verslunin vera arðbærustu og gróðvænlegustu fyrirtækin. Þær stóru verslanir sem kepptu um hituna voru, Einarshafnarverslun, Kaupfélagið Hekla, Ingólfsverslunin á Háeyri og Stokkseyri. Þá var verslun að vaxa við Ölfusárbrú, fyrir tilstuðlan "Brúarfélagsins" svokallaða. Um mitt sumar var byrgðastaðan orðin slæm og matvöru farið að skorta í búðunum. Þá var haframjölið vinsæla upp urið og ekki annað að gera en bíða og vona að haustskipin kæmu með fyrra fallinu. Harðar deilur urðu um hvort væri hyggilegra að leggja járnbraut til Reykjavíkur, eða byggja höfn í Þorlákshöfn. Franskir verkfræðingar komu um sumarið til að kanna hugsanlegt hafnarstæði ásamt fyrverandi ræðismanni Frakka, hr. Jean Paul Brillouin sem var tilbúinn til að koma með franskt fjármagn í hafnargerðina. Unnið var að símalagningu héðan af Bakkanum til Kaldaðarness. Áhöld til þess komu með strandferðaskipinu Perwie. Oddur Oddsson símstjóri í Reginn sá um það verk og var símalínan opnuð 26. ágúst 1911. Símalínan var lögð heim að Sandvík til Guðmundar hreppstjóra, og síðan frá Hraungerði upp að Kíðjabergi. Mannaferðir voru miklar á Bakkanum yfir sumarið, flestir á ferð ofan úr sveitum í verslunarerindum. Til halastjörnu sást á austurhimni frá 20. oktober og fram á vetur 3-4 stundir í senn. Atvinnuleysi gerði vart við sig þegar kom fram á veturinn og samgöngur spiltust. Þá dofnaði yfir þorpslífinu og lítið við að vera. Verslunin sem nú var vel byrg auglýsti jólaútsölur og staðgreiðsluafslætti.  Íbúafjöldi á Eyrarbakka var 750 manns árið 1911 og hafði þá fækkað um 13 frá fyrra ári. Fóru flestir til Reykjavíkur.

Skip inni á EinarshöfnSkipakomur og skipaferðir: "Perwie" kom hér að sundinu snemma vors, var þá ekki fært út sökum brims, hélt hún þá nær tafarlaust til Stokkseyrar og lá þar um nóttina, Í birtingu var orðið sjólaust, og beið hún þá ekki boðanna heldur hypjaði sig á braut hið snarasta, voru Stokkseyringar þá albúnir að fara út í skipið og sækja vörur sínar, en til þess kom ekki, Perwie var farin þegar fært var orðið, sumir sögðu jafnvel að hún væri farin til "helvítis". Vöruskip Einarshafnarverslunar,  Vonin og  Svend , komu bæði í byrjun maí og gátu þau komist hér að vandræðalaust. Kong Helge kom við hér um miðjan maí sem og Stokkseyri og skilaði af sér vörum og pósti. Aukaskip frá sameinaða gufuskipafélaginu hafnaði sig hér með vörur til Brúarinnar (Selfossi), Heklu og Einarshafnar. Timburskip til Ingólfsverslunar hafnaði sig hér einnig og annað timburskip til Ingólfs gekk á Stokkseyri. Faxaflóabáturinn Ingólfur kom hér við miðsumars og Perwie við sumarlok og sótti ull til Ingólfsverslunar. Um haustið snemma kom vöruskip Þorleifs kaupm. á Háeyri, Guðmundssonar dekkhlaðið varningi alskonar. Vonin, skip Einarshafnarverslunar kom svo 22. september eftir langa útivist.

Franskt saltflutningsskip, seglskipið Babette frá Paimpol strandaði á Fljótafjöru, í Meðallandi í marsbyrjun, en mikill floti franskra fiskiskipa var að veiðum við sunnanvert landið þá um veturinn og víða upp í landsteinum, innan um net heimamanna. Þilskipið Friða, bjargaði 6 skipshöfnum í Grindavík.

Íþróttir:

Nýjársdagurinn byrjaði með því að 5 ungir Eyrbekkingar þreyttu kappsund frá Einarshafnarbryggjunni, um 25 faðma. Varð þar skarpastur Ingvar Loftsson, synti hann leið þessa á 57 sek. og fékk að launum blekbyttu úr slípuðum kristalli. Hinir sem tóku þátt í sundinu voru: Ásgrímur Guðjónsson, Gísli Jóhannsson, Valgeir Jónsson og Jón Tómasson. Piltar þessir höfðu engrar sundkenslu notið, en lærðu að synda af egin ramleik. Í sjósund fóru þeir daglega þá um veturinn. J.D. Níelsen verslunarstjóri þjálfaði leikfimiflokk sinn af kappi þennan vetur og hélt leikfimisýningar í Fjölni við góðan róm. Lítið varð hinsvegar úr sumarmótinu á Þjórsártúni sökum óveðurs. Skotfélagið hélt æfingar úti við og dró að sér forvitna áhorfendur. Félag þetta var aðallega stofnað í því skyni að vekja áhuga á íþróttum, sérstaklega skotflmi. Stofnfélagar voru 20.

Fólkið:

Dbr. Brynjólfur Jónsson sagnaritari frá Minnanúpi sem dvalið hefur löngum á Bakkanum, kom til heilsu aftur, eftir slysfarir á fyrra ári. Geir Guðmundsson frá Háeyri kom til landsins, en hann bjó á Sjálandi og giftist þarlendri konu Marie Olsen. Stundaði hann hér jarðyrkju um sumarið ásamt Sjálenskum unglingi, Age Jensen er með honum kom. Geir seldi líka margskonar jarðyrkjuverkfæri til kartöfluræktunar, tæki, tól og vélar alskonar fyrir jarðyrkju. Simon Dalaskáld var hér á ferð að selja bækur sínar. Hann var förumaður frá Skagafirði, þó ekki umrenningur heldur einskonar skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Kjartan Guðmundsson ljósmyndari frá Hörgsholti opnaði hér á Eyrarbakka ljósmyndastofu. Bjarni Þorkellsson skipasmiður dvaldi hér við skipasmíði, hafði hann byggt vandaðan vélbát fyrir Þorleif Guðmundsson frá Háeyri. Var það fyrsti vélbáturinn sem smíðaður var á Eyrarbakka. Uppskipunarbát smíðaði hann einnig þetta sumar, og a.m.k. tvö róðraskip þá um veturinn, en Bjarni hafði á sinni tíð smíðað yfir 500 báta og skip. Verksmiðjueigandi einn, C. H. Thordarson, frá Chicago, (Uppfinningamaður ættaður úr Hrútaflrði) hafði hér nokkra daga dvöl ásamt konu og syni, en konan var systir Ingvars Friðrikssonar, beykis á E.b. Hér voru líka á ferð tveir Rússar sem tóku að sér að brýna hnífa fyrir fólk, og var mörgum starsýnt á. Þeir föluðust líka eftir litlum mótorbát til kaups, en enginn vildi þeim selja og héldu þeir þá til Stokkseyrar. Bjarni Eggertsson héðan af Eyrarbakka var við silungsveiði í Skúmsstaðavötnum í Landeyjum og þóttist veiða vel. Sigurður Eiriksson regluboði var hér á ferð í vetrarbyrjun að heimsækja Goodtemplarastúkur og endurvakti stúkuna "Nýársdagurinn". Bjarni Vigfússon frá Lambastöðum var hér á Bakkanum um veturinn við smíðar. Meðal annars smiðaði hann skiði úr ask, sem þóttu vel vönduð. Skíðin voru smíðuð eftir norskri gerð og fylgdu tábönd eftir sama sniði. Það mun hafa þótt nýstárlegt hér syðra, að gera skíðasmíði að atvinnu sinni. Páll Grímsson, verslunarmaður á Eyrarbakka keypti Nes í Selvogi ásamt jörðinni "Gata" í sama hreppi, af Gísla bónda Einarssyni er þar bjó.

Stórafmæli:  Jórunn Þorgilsdóttir í Hólmsbæ hér á Bakkanum varð áttræð, en hún þótti merkiskona og sömu leiðis Gestur Ormsson í Einarshöfn.

Andlát: Helga Gamalíelsdóttir í Þórðarkoti, andaðist 85 ára að aldri. Jóhann Jónsson á Stóru Háeyri, rúmlega 70 ára að aldri. Guðrún Einarsdóttir, gömul kona á Eyrarbakka. Steinunn Pétursdóttir, kennara á Eyrarbakka, 10 ára að aldri, hafði sumardvöl í Fljótshlíð og lést þar af lungnabólgu. Kristín Jónsdóttir í Norðurkoti, háöldruð. Hún hafði lengi búið ein í kofa sínum og þótti einkennileg um margt. Helgi Þorsteinsson, á Gamlahrauni, varð bráðkvaddur 59. ára að aldri. Guðni Jónsson, verslunarm. hér af Eyrarb. Var lengi við Lefoliisverslun hér áður, en hafði flutti til Rvíkur árið 1910. Sigríður Lára, yngsta barn Guðmundar Guðmundssonar kaupfélagsstjóra, ekki árs gömu.

Úr Manni og Konu í FjölniMenning: Leikfélagið á Eyrarbakka setti upp nokkur verk. Helstu leikarar voru Solveig Daníelsen, Jón Helgason prentari Karl H. Bjarnarson prentari, Pálína Pálsdóttir og Guðmunda Guðmundsdóttir. Ungmennafélag Eyrarbakka hélt upp á 3ja ára afmæli sitt með skemtisamkomu, sem haldin var í Fjölni. Sá ljóður var á menningu þorpsins sem og annara þéttbýlisstaða við sjávarsíðuna að götubörnum var gjarnt á að atast í fólki, einkum drykjumönnum með skrílslátum og að viðhöfðum óæskilegum munnsöfnuði í þeirra garð sér til skemtunar. Seint gekk að uppræta þessa menningarvörtu á samfélaginu. Lestrarfélagið hélt áfram að lána út bækur og var mikið í það sótt. U.M.F.E. stóð fyrir alþýþufræðslu, þar hélt Einar E. Sæmundsen skógfræðingur fyrirlestur um skógrækt og heimilisprýði, "Trjáreitur við hvert einasta heimili á landinu", kvað hann ætti að vera heróp ungmennafélaganna, en áhugi fyrir skógrækt hér reyndist dræmur.

Fiskveiðar, landbúnaður og atvinna: Þorskanet voru nú orðin almenn veiðarfæri á opnum skipum sunnanlands, en veiðar á færi eða lóðir á undanhaldi. Steyptir netasteinar sem var uppfinning Ísólfs Pálssonar á Stokkseyri gerðu veiðarnar meðfærilegri. Afli var tregur framan af vetrarvertíð og sjaldan gaf á sjó, en þegar leið fram í júní fiskaðist ágætlega en svo dró úr er á leið sumarið og vildu Eyrbekkingar kenna um erlendum trollurum sem krökkt var af. Lítið róið að haustinu og afli tegur þó róið væri. Bændur girtu lönd sín í auknum mæli, en slíkt nær óþekkt nokkrum árum fyr. Óðalsbóndi Guðmundur Ísleifsson á Stóru-Háeyri vélvæddi sinn búskap að nokkru er hann tók í notkun hestdráttar rakstrarvél og arfareytingarvél, fyrstur bænda hér við ströndina, fyrir átti hann hestdráttar sláttuvél. Um sláttinn var fátt fólk heima við, enda lágu margir í tjöldum við engjaheyskap. Heyfengur virtist ætla að verða góður þetta árið, en síðsumars brast á með vætutíð, en hey öll náðust þó með haustþurkinum. kartöflu-uppskera var í meðallagi þetta haustið. Bakkabúar nokkrir fóru um sumarið austur í silfurbergsnámuna sem starfrækt var í Helgustaðafjalli við Reyðarfjörð. Unnu þar 10 saman alls og létu vel yflr árangrinum. Einn stein fundu þeir 100 pund, [50 kg] sem mun hafa verið seldur afarverði sökum stærðar og fegurðar, en dýrt þótti þeim að lifa þar eystra því matvara var þeim seld háu verði.

Tíðarfarið: Framanaf var tíðin rosasöm með frosthörkum. Stundum var allt að -16°C í febrúar. Sjógangur oft mikill. Afspyrnurok gerði af landsuðri 3. mars, og gekk sjór mjög á land. Á Stokkseyri rak upp mótorbát Ingólfsversunar á Háeyri, brotnaði hann nokkuð, og í sama veðri fauk bátur frá Óseyrarnesi og brotnaði i spón, sömuleiðis tveir róðrarbátar úr Gaulveijarbæjarhreppi. Um páska var allt að 12 stiga frost. Kuldar og rosar voru í maímánuði, vorið var mjög vætusamt framanaf og kalt, en þurviðri og dálitlir hitar í júní og byrjun júlí, en frá 7. og framyfir miðjan júlí voru miklar rigningar. Eftir miðjan júlí gerði þurviðri og fádæmamikinn kulda og hnekti það mjög mikið gróðri. Dag einn hvíttnaði í vesturfjöllin þó hásumar væri. Svo kom ágúst með hina indælustu sumarbliðu svo að hver dagurinn var öðrum betri -hitar og stillur. Með höfuðdegi lagðist í rigningar og sunnanáttir fram á haust, þá þornaði á ný. Lítilega snjóaði i oktober, en annars ýmist froststillur, þoka og súld. Fyrstu snjóar komu í byrjun nóvember en síðan umhleypingar.

Heimild: Suðurland 1911

18.10.2012 23:51

Sú var tíðin, 1910

Þetta var árið sem Þorleifur á Háeyri keypti Þorlákshöfn fyrir 32.000 kr, og Leikfélag Eyrarbakka sýndi í Fjölni gaman-sjónleikina: "Vinnukonuáhyggjur" og "Nábúarnir" við góðan orðstýr. Gripasýning fór fram að Selfossi þann 28. júní og vakti óskipta athygli áhugasamra. Þetta var líka árið sem Grímsnesvegurinn var lagður og sömu leiðis vegurinn upp á Dyrhólaey. Gróðrarstöð hafði Búnaðarfél. Íslands sett á stofn á Selfossi við Ölfusárbrú á þessu herrans ári. Að henni starfaði Kjartan Guðmundsson frá Hörgsholti. Þetta ár dó Magnús mormóni Kristjánsson í Óseyrarnesi og Ólafur söðlasmiður Ólafsson í Sandprýði, báðir ágætis menn.

Tíðarfarið: Bændur hér austanfjalls höfðu liðið fyrir harðan vetur sem varð þeim heyfrekur fremur venju og þegar leið að vori gerði hret  sem var vetrinum öllu verri. Næturfrostin hófust strax í ágúst. September var kaldsamur með snjó í fjöllum og einn dag snjóaði niður undir sjávarmál. Kom svo góður kafli með auða jörð fram til jóla. Öskufalls varð vart í Landmannahreppi þann 18. júní og víðar um sunnlenskar svetir.

Skipakomur og skipaferðir:  Sumarið 1910 komu óvenju mörg seglskip til Eyrarbakka, komu þá fimm allstór seglskip, þ.a.m. "Kong Helge" Höfðu mótorbátarnir þá í nógu að snúast með uppskipunarbátanna í togi. Verkafólkið vann nótt sem dag við vörulöndun og útskipun. Þá kom "Gambetta", aukaskip Thorefélagsins frá útlöndum með vörur til Ingólfsfélagsins. Strandferðaskipin sem sigldu á Sunnlenskar hafnir á þessum árum hétu "Hólar" og "Perwie" mestu dallar báðir. Seint um haustið kom járnseglskipið "Vonin", en það skip átti fyrrverandi Lefolii verslun og síðar Einarshafnarverslun. Var hún búin að eiga 49 daga útivist frá Bergen i Noregi vegna mótbyrs og óveðra, og var hún "talin af" bæði hér og i Kaupmannahöfn. Hér hitti hún þó á besta sjóveður og var með snarræði og dugnaði losuð á 5 sólarhringum, af duglegum Eyrbekkingum. Sorglegt var það hinsvegar að þá er skipið var komið hér í höfn, sendi stýrmaður símskeyti til konu sinnar í Kaupmannahöfn, um að hann væri hingað kominn heill á húfi, en fékk að vörmu spori það svar, að um sama Ieyti og hann náði höfn hér, hafði kona hans andast ytra og vakti það almenna hluttekningu þorpsbúa með stýrimanninum.

Íþróttir: Hið fyrsta sambands-íþróttamót ungmennafélaganna á Suðurlandsundirlendinu og kent er við Skarphéðinn, fór fram að Þjórsártúni 9. júlí 1910. Glímuþátttakendur voru 18, hvatlegir piltar, vænir á velli og vel á sig komnir; allir í einkennisbúningi og undu áhorfendur vel við að virða þá fyrir sér áður en byrjað var, enda var veður hið besta, lofthiti og logn. 1. verðlaun, silfurskjöldinn, hlaut Haraldur Einarsson, frá Vík. 2. verðlaun Ágúst Ándrésson, Hemlu. 3. verðlaun Bjarni Bjamason, Auðsholti. Grísk-rómverska glímu sýndu þeir Sæmundur Friðriksson, Stokkseyri og Haraldur Einarsson, Vík. Var hún allflestum nýstárleg íþrótt og klöppuðu áhorfendur lof i lófa. Einnig var keppt í fjölmörgum hlaupa og stökkgreinum.

Atvinna: Landbúnaður var stundaður að kappi á Bakkanum 1910 og vart litið við sjó um sláttinn, en nokkuð um að gert var út á síld frá Eyrarbakka og Stokkseyri þá um sumarið.

Götulýsing: Tvö gasljós voru til hér á Bakkanum 1910. Annað var úti við Einarshafnarverslun, en hitt ljósið var inni í Ingólfs búð, og nýttist til að lýsa vefarendum þar hjá, þegar hlerarnir voru ekki fyrir gluggunum. Annars voru steinolíu-luktir brúkaðar víðast úti við á dimmum vetrarkvöldum.

Heimild: Suðurland 1910

28.09.2012 14:30

Sjóorsta við suðurströndina?

 German U-boat U 14 ( Frá Wikipedia)Föstudaginn 13 júlí 1917 kl. 6-7 e. hád., heyrðust hér með sjávarsíðunni drunur miklar, sem menn héldu vera fallbyssuskot. Víst var það, að þetta voru ekki þrumur, og að það heyrðist af hafi utan. Drunur þessar heyrðust á Eyrarbakka og Stokkseyri, en einkum þó í Gaulverjabæjarhreppnum. Giskuðu menn helst á, að vopnuðu varðskipi hafi lent saman við þýskan kafbát. 

[Heimild: Þjóðólfur 1917.]

 Um þessar mundir voru tvö íslensk fraktskip skotin í kaf "Vesta" [16.7.1917] og "Ceres", skip Samvinnufélagsins, Fórust 5 menn af "Vestu", en 2 af "Ceres" og var annar þeirra sænskur, en nokkrir íslenskir farþegar og erlendir  skipsbrotsmenn voru um borð og var þeim öllum bjargað. þá var seglskipiuu "Áfram" sökt á Ieið hingað frá Englandi, en mannbjörg varð.

Snemma árs 1917 þegar fyrri heimstyrjöldin stóð sem hæst, lýstu þjóðverjar yfir ótakmörkuðum kafbátahernaði á N-Atlantshafi og fyrirvaralausum aðgerðum gegn skipum sem stödd voru á átakasvæðum þeirra við breta, hvort sem um skip hlutlausra þjóða væri að ræða eða ekki. Var það ástæðan fyrir því að bandaríkin lýstu yfir stríði við þjóðverja skömmu síðar. Þegar yfir lauk höfðu þýskir kafbátar (U-boat) sökkt hálfum kaupskipaflota breta. Fyrri heimstyrjöldin hófst 28. júlí 1914 og stóð þar til 11. nóvember 1918.

Heimild: Wikipedia

01.07.2012 22:51

Knarrarósviti/ Baugstaðarviti

Loftstaðahóll var talinn heppilegasta vitastæðið á standlengjunni milli Ölfusár og Þjórsár. En  þegar farið  var að  bora í hólinn,  reyndist  þar ekki  fáanleg nógu traust  undirstaða og  var  þá horfið að því  ráði, að  reisa vitann við Knararós á Baugstaðakampi. Var byrjað á byggingunni í  september 1938 og lokið við að koma henni upp í nóv.  sama  ár. Sumarið 1939 var unnið að því að setja ljóstæki í vitann og ganga frá  honum að öðru leyti. -  Þann 31. ágúst það sama ár var vitinn vígður og tók hann samdægurs til starfa.

Vitinn stendur 4 m yfir sjávarmáli, en hæð hans frá jörðu er 26 metrar. Hann er byggður úr  járnbentri  steinsteypu. Veggirnir eru mjög  þunnir, m.v. vita erlendis, eða 20 cm. Að utan er hann  pússaður með  kvarsi. Í gluggunum var allsstaðar svokallað gangstéttargler sem var  grópað í veggina. Smíði vitans var meðal  annars miðað við  það, að viðhald  hans yrði sem ódýrast, en  jafnframt reynt að  hafa  hann  rammgeran og var því enginn viður notaður nema í stigann. Linsan í ljóstæki Knararós vita er 500 mm og  upphaflega var 50 l. gasbrennari til ljósgjafar og fékst með því 6100  kerta Ijósmagn. Ljóssvið vitans var þá 16 mílur. Fyrsti vitavörðurinn var Páll Gunnarsson bóndi á Baugsstöðum og þurfti hann að sinna vitanum annan hvern dag. Teikninguna af vitan um gerði Axel Sveinsson verkfræðingur, en verkstjóri  var Sigurður Pétursson frá Sauðárkróki.

Heimild: Ægir 1939

19.06.2012 22:47

Þorlákshöfn, aldargömul veiðistöð

Staðurinn er kenndur við Þorlák helga biskup Þórhallsonar í Skálholti en áður hafði þessi staður verið nefndur Elliðahöfn. Þrautalending Eyrbekkinga, Stokkseyringa og Loftstaðarmanna var fyrrum í Þorlákshöfn þegar hafnir lokuðust vegna brims. Lefolii verslun hafði þar einnig einhverja aðstöðu fyrr á tímum. Einhver útvegur hefur verið frá Þorlákshöfn í gegn um aldirnar [sbr. 1706 Skipstapi frá Elliðahöfn með 13 mönnum.] en regluleg útgerð þaðan hófst þegar Jón Árnason kaupmaður og útvegsmaður hóf búskap í Þorlákshöfn  árið 1862 og keypti  jörðina  sama ár, fyrir 500  kr.  Jón Árnason  andaðist í  nóvember 1912 og bjó  þar  stórbúi til  dauðadags, og ekkja  hans til fardaga  árið 1914;  Jón Árnason seldi Þorleifi  Guðmundssyni frá Háeyri á Eyrarbakka, jörðina árið 1910, fyrir 32 þúsund kr. Árið 1913, seldi Þorleifur "Hlutafélaginu Þorlákshöfn"  jörðina, en "bjó"  þar frá  fardögum 1914, til fardaga 1928. Þá  voru  orðnir  eigendur Þorlákshafnar, þeir Magnús Sigurðsson  bankastjóri, Halldór Þorsteinsson skipstj. o. fl. en eftir 1928, hafði  maður nefndur Guðmundur Jónsson  búið  þar, en þegar  talað er um ábúð  jarðarinnar frá 1911, er aðeins átt við grasnyt  hennar, því frá þvi ári, nutu eigendur þess arðs, er hún gaf af sér, sem fiskiver. Verstöðin fór þá smám saman að draga til sín fólk frá Eyrarbakka, Stokkseyri, Ölfusi og vestan úr Selvogi sem hafði þar viðveru í sjóbúðum um vertíðarnar.

Þegar Þorleifur Guðmundsson keypti jörðina, munu hafa róið  þaðan 14  áraskip, 10 og 12 róin, en  róðraskipin urðu flest árið 1916 eða 29 skip, en  úr því fór  þeim  smá fækkandi,  þar til ekki  var  orðinn eftir  nema 1 bátur sem gekk  þaðan til fiskveiða. Það var síðan eftir að Kaupfélag Árnesinga keypti jörðina 1937 að útgerð fór aftur vaxandi frá Þorlákshöfn en fólksfjölgun og þorpsmyndun fór þó hægt af stað. [1951 voru 14 manns með lögheimili í Þorlákshöfn] Trillubátaútgerð hófst  þar fyrst  árið 1928 og úr því var farið að gera  lendingarbætur, fyrir rikisfé, með tillagi frá Arnessýslu.

Árið 1912, voru helstu formenn í Þorlákshöfn, þeir Guðfinnur Þórarinsson, frá Eyri á Eyrarbakka, bræðurnir Páll Grímsson, og Bjarni Grímsson frá Óseyrarnesi, síðar fiskimatsmaður i Reykjavik. Fyrir höfnina var á sínum tíma hlaðinn mikill sjógarður sem  Jón Árnason lét  hlaða um 1880, stóð Ásbjörn Ásbjörnsson frá Brennu á Eyrarbakka fyrir hleðslunni. Hann var afarmenni að  burðum og  hleðslumaður ágætur.  Garðurinn var  hlaðinn á mörgum  árum, aðallega í  landlegum á vertiðum.

Vorið 1919,  sendi verkfræðingur N.P. Kirk, (f. 7.5.1882 d. 16.10.1919) fullkomna áætlun um hafnargerð í Þorlákshöfn, til  stjórnarráðs  íslands, og var þar gert ráð fyrir 2 hafnargörðum, 850 og 500 metra  löngum og 250 metra  langri bryggju með  bryggjuhaus.  Í  athugasemdum  sínum frá 1919, kemst Kirk, verkfræðingur svo að  orði: "Hversu nauðsynlegt sé að hafa stór steypubjörg garðinum til  verndar, sést vel af því, að á ferð minni  þar, mældi ég tvo  steina; var annar 9 smálestir að þyngd, en  hinn 40 smálestir, og hafði  brimið kastað  hinum fyrnefnda 25 metra og lyft honum 3 metra, en  hinum hafði það kastað 15 metra og lyft  honum 1,25 metra. Sýnir þetta best afl  sjávarins, á þessum stað". Síðar var byggð góð höfn í Þorlákshöfn og voru hugmyndir Kirks trúlega hafðar að leiðarljósi. Vorið 1933 hófst vinna við steinsteypta bryggju og  henni  haldið áfram  næstu sumur og var sú bryggja 74 m löng þegar gerð hennar lauk. Sumarið 1935, var  steyptur  brimvarnargarður,  sunnanverðu við  Norðurvör og við  hann bætt  nokkrum  metrum, 1936. Var sá garður 92 m. langur. Til að hlífa landi móti  austri fyrir sjávargangi, var fyrrum  hlaðinn öflugur  sjógarður úr stórgrýti sem áður er getið.  Hann var um  150 metrar á lengd, fláði  hann  inn lítið eitt (c. 20°) og þótti mikið  mannvirki, hlaðinn á  þeim  tímum, þegar aðeins var um að  ræða handaflið eitt. Samtímis og  byrjað var á  bryggjunni  var farið að  endurbæta  sjógarðinn,  þar sem  hann  var genginn  úr skorðum og sementslag steypt utan á, þannig, að á c. 50  metrum var hann  sléttur sem fjöl, á 3 m. hárri hleðslunni sem enn stóð óhögguð. Árið 1949 var hlutafélagið Meitillinn H/F stofnaður og óx þá hagur Þorlákshafnar jafnt og þétt.

Heimildir: Ægir 1936. /olfus.is/ Wikipedia/ http://www.ismennt.is/not/siggud/heimabaer/upphaf.htm http://eyrbekkingur.blogspot.com/2011/03/sjoslys-i-rorum-vi-eyrarbakka.html

15.05.2012 22:22

Skýrsla um sjóslys á Eyrarbakka 1898

Þann 19. ágúst 1898 vildi svo til, að skip lá, fyrir utan Einarshafnarsund, sem var á leið í land, úr gufubátnum "Reykjavik". Þoka var, lágsjávað og brim, álitu þvi þeir sem í landi voru, að skipið sem úti fyrir lá, þyrfti 2 menn til viðbótar til að geta lent, svo afráðið var að senda skip út, með 11 mönnum, til hjálpar, og færu því þessir 2 menn [yfir], sem álitið var að skipið hefði vantað.

Þetta var gjört, og fór Jón Sigurðsson (formaður) af Eyrarbakka út með skipið. Skipinu gekk vel út úr sundinu, og lét hann 2 menn af þessum 11 í skipið, sem úti fyrir lá. Þegar það var gjört tók hann 3 bagga af harðfiski úr skipinu, sem hann lét mennina í, til að rýma til í því, því i þvi var töluvert af ýmsum munum, sem órýmindi gjörðu; að því búnu sneri áðurnefndur formaður Jón Sigurðsson frá skipinu, og með samráði við hásetana lagði hann á sundið aftur og komst tafarlaust inn i það mitt, þangað til alt í einu kom stór brimsjór, sem hvolfdi skipinu á augnabliki; strax komust 2 mennirnir á kjöl, en þá hvoldi því strax upp í loft, og komust þá þessir tveir menn, sem á kjöl komust, upp i það; smátt og smátt komust svo 7 alls upp í það, hinir 2 af þessum 9 mönnum, sem voru á skipinu, komust aldrei í skipið, annar hélt sér á sundi, en straumur bar hann frá skipinu, þar til að hann sökk, ,hinn sást aldrei frá því fyrst að skipinu hvolfdi.

Menn voru allir í landi, og skip ekki við hendina, nema vestur á skipalegunni lá hlaðinn áttæringur af salti, sem búið var að ferma úr saltskipi frá Lefolis- verslun, sem á höfninni Iá. Þegar sást úr landi, að skipinu hvolfdi, brá ég undirritaður Jónas Einarsson (form.) á Eyrarbakka, fljótt við, ásamt nokkrum mönnum sem við hendina voru, og hlupum sem við gátum niður í fjöruborð og að kletti neðst við sjóinn, þar sem fyrnefndur áttræðingur lá fullur af saltinu; við ruddum úr honum saltinu, og með sama á stað og vestur að sundi; voru þá komnir 2 bátar að sundinu, annar frá gufubátnum "Oddur" og hinn frá skipinu Thor.

Christensen skipstjóri af "Oddi" var á öðrum bátnum með háseta sinum, en stýrimaður og háseti af Thor á hinum. Bátarnir treystu sér ekki að leggja á sundið, til að gjöra björgunartilraun, því jafnt og þétt gekk fallandi brimsjór yfir það; ég lagði þó tafarlaust á sundið, og komst með illan leik út að skipinu, var það þá á réttum kili þversum í sundinu og mennirnir 7 í þvi. Gerðum við þá strax tilrunir að bjarga, og gekk það vel, því einmitt þá var sjórinn að miklu leyti kyrr. Björguðum við því að heita á samri stund þessum 7 mönnum, sem í skipinu voru; voru þeir þá nær dauða en lífi áður en við höfðum flutt þá í land. Var þeim veitt hin besta aðhlynning, sem mögulegt var að hafa, með læknisráði, enda eru þeir nú búnir að fá heilsu, utan einn af þeim, sem dó nokkru síðar. -

Að þessi skýrsla sé svo rétt að öllu, sem hægt er, vottum vér undirritaðir upp á æru og samvisku.

Eyrarbakka 1898. (Undirskriftir vanta).

Þetta er bókað í sýslubókum Árnessýslu 1898.

Formaðuraður fyrir þessari björgun var það Jónas Einarsson i Garðhúsum á Eyrarbakka; druknaði hann á "Sæfaranum" (Framtíðin), sem fórst utast á Bússusundi 5. apríl 1927. Einn af þeim, sem best gengu fram við björgunina, var Jóhann Gíslason frá Steinskoti á Eyrarbakka, síðar fiskimatsmaður í Reykjavik, og einn af þeim, sem var bjargað var Þorsteinn Þorsteinsson síðar kaupmaður í Keflavík.

Heimild: Ægir 1908

07.04.2012 00:25

"EOS" strandið

http://loregame.wikia.com/wiki/Naval_UnitsÍ janúar 1920 rak mannlaust skip inn fyrir brimgarðinn á Eyrarbakka og brotnaði í spón. Það var barkskipið "EOS" frá Hafnafirði og hafði áhöfnin yfirgefið skipið skömmu áður. Skipið fór frá Hafnarfirði 19. janúar og var förinni heitið til Svíþjóðar. Dró mótorskipið "Venus" það úr höfn og skildi við það um tveim tímum síðar. Barkskipið komst síðan klakklaust fyrir Reykjanes. En aðfaranótt 21. janúar um kl. 2 gerði svo mikið aftakaveður [Af suðaustri], að ekki varð við neitt ráðið. Mistu þeir þá stjórn á skipinu og virtist svo um tíma, sem skipinu væri mikil hætta búin. Tóku þá seglin að rifna, hvert af öðru, og reiðar gengu úr lagi. Seint um nóttina fór veðrinu heldur að slota og var þá farið að aðgæta, hvort leki hefði hefði komið að skipinu, og kom þá í ljós, að talsverður sjór var kominn í það. Vildu skipsmenn þá reyna að dæla, en dælurnar voru i ólagi, og vinddæla, sem mest var treyst á, hafði öll brotnað í veðrinu, svo að ekki var viðlit að gera við hana. Fleiri bilanir komu og í ljós og með því að enginn tiltök voru að gera við alt það í rúmsjó, sem bilað hafði, þá var siglt af stað, þegar stjórn náðist á skipinu og lensað austur, því að Vestmannaeyjar voru nú einasta höfnin, sem tök var að ná.

Í birtingu um miðjan morgun sáu þeir Vestmannaeyjar fyrir stafni og var þá veður tekið að hægja. Settu þeir upp öll segl, sem þeir gátu og stýrðu til eyja, en síðdegis lygndi og voru þeir þá skamt N.V. af Eyjum. En brátt fór að hvessa af suðaustri og var þá slegið undan. Undir kvöld reyndu þeir að vekja eftirtekt á sér með neyðarmerkjum (blysum), en enginn tók eftir því. Um kl. 8 var komið suðaustan rok og sigldu þeir þá undan' [á lensi vestur með landi], en brátt herti veðrið svo mjög, að segl þau, sem eftir voru, fóru í tuskur og fylgdi þessu veðri stjórsjór, þrumur og eldingar. Einni eldingu sló niður í skipið nálægt skipstjóra og tveim öðrum, en engan þeirra sakaði til muna, og má merkilegt heita.

Alt í einu datt í dúnalogn litla stund, en fór svo að hvessa af suðvestri. Var þá skipinu haldið upp að vindi. Um kl. 3 um nóttina var kominn álandsstormur, og rak skipið til lands, og voru þá gefin neyðarmerki seinni part næturinnar. Um kl. 6 árdegis kom enski botnvörpungurinn Mary A. Johnson (skipstjóri Nielsen) þeim til hjálpar og fylgdi þeim þar til bjart var orðið. Ekki treystist hann til að draga skipið til hafnar, en bauðst til að fara til Eyja og reyna að ná í björgunarskipið, en með því að skipið átti þá svo skamt til lands, sá hann, að enginn tími væri til þess og vildi að skipshöfnin yfirgæfi "Eos". Var þá ekki annað ráð vænna fyrir höndum og skaut hann út björgunarbáti til þeirra, (því að skipsbátur "Eos" hafði laskast), og gengu skipverjar af "Eos" allir í hann. Var það þó ekki auðsótt, því að sjór var mikill, en Englendingar heltu olíu i sjóinn og gerðu sér alt far um að hjálpa sem best. Sumum skipverja tókst að hafa nokkuð af fötum sínum með sér, en aðrir mistu alt, sem þeir höfðu meðferðis. Þetta mun hafa verið um hádegi á fimtudag og var svo beðið hjá barkinum, ef vera mætti, að honum yrði bjargað, en um kl. 4 var hann kominn upp í brimgarðinn við Eyrarbakka, og var þá haldið til Reykjavíkur. Skipstjóri á "Eos" var Davíð Gíslason. "Eos" var 456 smálestir að stærð (nettó). Eigendur h.f. Eos (þ. e. Jóhannes Reykdal, Guðm. Kr. Guðmundsson, Lárus Fjeldsted og Ásmundur í Hábæ).

Heimild: Ægir 1920. Austurland 1920. Alþ.bl.1920.

09.03.2012 23:48

Frá vígslu Fjölnis

Indriði Einarsson segir frá:

"Fjölnir" húsið sem ber hæst hægramegin götunarÞann 29. des. 1899 hafði ég vígt Góðtemplarahúsið á Eyrarbakka, og um kvöldið og fram á nótt var þar hátíðahald mikið með dansi. Eyrbekkingar höfðu komið á fót góðum hornaflokki; lúðrarnir gullu allt kvöldið og fram undir morgun, en kl. 1 ætlaði ég að hætta að dansa og hvíla mig; því kl. 6 næsta morgun ætlaði ég að fara á stað, og ganga 66-68 rastir til Rvíkur. Gleðin skein á hverri brá í danssalnum; ég hafði þess vegna ekki tímt að fara þaðan, þegar ég settist fyrir, til þess að hvíla mig undir næsta dag. Ég var gestur, og Eyrbekkingar kunna því ekki, að gestunum leiðist. - Stúlkurnar buðu mér upp, hver á fætur annarri, og ég tók hverju boði með þökkum; því ég vissi, að ég mátti ekki láta mér leiðast. Og eftir mikinn dans, kom ég heim kl. 4 um nóttina, og var á fótum aftur kl. 6 um morguninn, og hélt með fylgdarmanni mínum út í vetrarnóttina....

Heimild: Eimreiðin 1915

21.01.2012 15:38

Tíðarfar og aflabrögð V

1835 fremur flskitregt, tveggja hundraða hlutir syðra.

1836 góður afli austanfjalls, 500 hlutir, minni við Faxaflóa; þá gekk fiskurinn um vorið inn að Þyrilsnesi í Hvalfirði og var róið úr Brynjudal.

1837 afli góður í Skaftafellssýslu og undir Eyjafjöllum, 600 hlutir; afli í minna meðallagi við Faxaflóa.

1838 afli fremur lítill syðra, en þó helzt netaflskur; 300 hæst í Keflavík.

1839-45 var oftast afli góður.

1846 fiskiafli góður nema í Selvogi og Grindavík.

1847 Hlýr vetur. Bezta fiskiár, i Höfnum og á Akranesi 8 hundraða hlutir.

1848 Veturinn mikill snjóavetur á Suðurlandi. Fiskiafli sérlega góður syðra og vestra, 12 hundraða hlutir syðra, meðalhlutir 5 og 6 hundruð. 49-50 var aflinn allgóður.

1851 Kuldatíð.  Bezta hlutaár nema kringum Vogastapa; þar brást fiskur í net.

1852 Hlýtt vor.

1853 fiskiafli sumstaðar mikið góður; á páskum komnir 8 hundraða hlutir undir Jökli og 6 hundruð á Innnesjum. Fremur fiskitregt í Vogum, Njarðvikum og í Keflavík. Hæstu hlutir í Húnavatnssýslu 1000.

1854 fiskilítið i Árnes- og Rangárvallasýslum, 60-80 fiska hlutur; góður afli við Faxaflóa, 9 hundruð hæst i Höfnum og 7 hundruð á Seltjarnarnesi. Hausthlutur við Eyjafjörð 10-16 hundruð.

1855 fiskiár allgott.

1856 fiskitregt austanfjalls sömuleíðis í Garði og Leiru, en afli á Innnesjum og i Höfnum; hæstur hlutur i Höfnum og á Akranesi 11 hundruð.

1857 fremur fiskilitið, afli hæstur á Akranesi 7 hundruð.

1858 afli i góðu meðallagi; meðalhlutir um vetrarvertið syðra 3-400. Mestir hlutir í Garði 1000 og 900 á Akranesi; vestra fiskitregt; vorvertíð syðra mjög fiskitreg, 4-500 af smáfiski mest.

1859 Kalt árferði, kalt vor. Bezti afli austanfjalls og við Faxaflóa; fiskilaust vestra og þar hinn mesti bjargarskortur.

1860 vetrarvertið innfjarðar við Faxaflóa ein með hinum rýrari; i Höfnum allgóður afli, 6-7 hundruð hæst; aflinn rýr við Jökul og austanfjalls nema í Hornafirði; vorvertíð góð á Innnesjum.

1861 vetrarvertíð hin bágasta við Faxaflóa, 25-100 fiska hlutur, austanfjalls vertíð nokkru betri. Undir Jökli var hæstur hlutur 350. Þá var fengið 14 þúsund króna lán handa bjargþrota fólki á Suðurlandi.

1862 góður afli austanfjalls; í Höfnum hæstur hlutur 10 hundruð tólfræð, minst 7 hundruð; minni afli innfjarðar við Faxaflóa.

1865 vetrarvertið við Faxaflóa hin allra bágasta ; þá fengu margir þar 5 -10 fiska hlut. Hæstur hlutur í Höfnum 3 hundruð.

1866 Kalt árferði. Vetrarvertið litlu eða engu betri en árinu áður; höfðu engar vertíðir syðra komið jafn bágar síðan 1892. Vorvertið mæta góð syðra og við Ísafjörð, en lakari við Jökul; þá fékk einn maður 9 hundruð til hlutar á Innnesjum í 11 róðrum.

1867 afli í góðu meðallagi um vetrarvertíð syðra og vestra, 200-250 meðalhlutur við Faxaflóa; 5 hundruð hæst i Höfnum.

1868 mishepnuðust svo flskiveiðar á Suðurlandi og austanfjalls, að fá varð korn að láni, en kaupmenn erlendis söfnuðu gjöfum handa Sunnlendingum.

1869 fiskiafli i tæpu meðallagi með allri suðurströnd landsins og inn á Faxaflóa, á vetrarvertið 200 að meðaltali; í Njarðvík, Keflavík og Garði 6 hundruð hæst.

1870 vetrarvertíð góð einkum austanfjalls, 8 hundraða hlutir komnir í marzmánaðarlok í Grindavík. Vorvertíð rýrari; haustafli góður nyrðra, 16 hnndruð hæst við Eyjafjörð, 8 hundruð i Skagafirði og 14 hundruð við Steingrímsfjörð.

1871 vetrarvertið i góðu meðallagi við Faxaflóa og ísafjörð; rýrari austanfjalls og við Jökul; haustafli góður við Hrútafjörð, Miðfjörð og Austfirði.

1872 fiskaðist vel syðra fyrri part vetrarvertíðar, en mikið minna seinni partinn, svo vertíðin varð ekki meira enn í meðallagi, en þó lökust i Vestmanneyjum. Vorvertíðin syðra tæplega i meðallagi, en á Austfjörðum góður afli mestan part ársins.

1873 vetrarvertíð syðra rýr; frá Hafnarfirði suður í Grindavik 90-120 flskahlutir og eins á Akranesi, 200 á Álftanesi, 250 á Seltjarnarnesi, 300 á Eyrarbakka. Við Jökul litill afli, en góðurum vetrarog vorvertíð við Ísafjarðardjúp. Á Austfjörðum ágætur afli að sumrinu.

1874 afli um vetrarvertíð heldur í minna lagi við Faxaflóa, 500 hæstur hlutur. Haust- og vorvertíðir allgóðar syðra. Vestra fremur aflatregt, en góður afli á Austfjörðum meiri part árs.

1875 vetrarvertíð við Faxaflóa hlutahá á færi, en aflalítið i net; rýrari vertið austan fjalls einkum í Vestmanneyjum. Vor- og haustvertíðir syðra rýrar. Vestra afli fremur í minna lagi, en góður afli á Austfjörðum.

1876 hið mesta fiskileysis ár á Suðurlandi , betra vestra, en gæðaafli nyrðra og eystra; þá var og allgóður afli á þilskip.

1877 fiskileysi hið mesta alt árið við Faxaflóa . Þessi tvö flskileysisár var safnað gjöfum víða um land handa nauðstöddum mönnum í flskileysissveitunum. Austanfjalls var afli sæmilegur, en nyrðra og á Austfjörðum fiskaðist oftast afbragðsvel.

1878 vetrarvertíð i góðu lagi við Faxaflóa; rýrari austanfjalls. Vetrarafli ágætur við ísafjarðardjúp. Nyrðra og á Austfjörðum gott aflaár.

Tímaritið Ægir 1906-1907 eftir ritgerð sr. Þorkels Bjarnasonar í tímariti Bókm.fél. 1883. o.fl. (http://www.vedur.is/loftslag/loftslag/fra1800/hitafar/bigimg/728?ListID=0)

15.01.2012 13:44

Tíðarfarsannáll og aflabrögð IV

1787 vetur hinn bezti fram yflr páska. Vor hart, ógæftir syðra en flskafli þar góður (hin mesta laxveiði).

1788 vetur kafaldssamur. Harðindi norðan og austur á landi. Hið mesta flskiár á Suðurnesjum og gott viða, þótt stormasamt væri og ógæftasamt.

1789 vetur harður eftir nýár, en betri syðra hafis frá þvi fyrir jól kringum Vesturland. Fiskiár ekki.

1790 gott haust, frostamikill vetur, vor kalt og hafis umhverfls mestalt land og fiskileysi.

1791 vetur hinn frostamesti, fiskiafli góður syðra, en þó nokkuð missagt um. Hafþök af ísum norðanlands.

1792 vetur þungur norðan og vestanlands en betri austan og sunnanlands, afli mjög lítill syðra, hákarlatekja mikil fyrir norðan og síldargegnd á Eyjafirði. Ís um vorið fyrir landi austur undir Horni.

1793 vetur allgóður, snjóasamur norðan og vestan; fiskifátt, en mikill afli af síld og hrognkelsum á Eyjaflrði.

1794 meðalár um flest, þá fekkst mikill hlýri á Barðaströnd, 300 á bæ og meira.

1795 vetur í meðallagi til þorra, en allgóður sunnan og vestan, hafís nyðra, afli í meðallagi; mikla mergð hlýra rak á Rauðasandi.

1796 vetur harður og hríðasamur víðast, en góður síðari hluta, hafís norðan og austan, hart vor; flskiafli til jafnaðar í betra lagi.

1797 vetur blíður, en veðrasamur; fiskiafli góður um sumarið norðanlands, en lítill í Múlasýslum, þurrviðri og haust vindasamt.

1798 vetur fyrst snjóasamur, síðan harður norðanlands, annarstaðar misjafn. Gæftir stirðar syðra til páska, en síðan stillur og afli mikill víðast, nema í Hafnarfirði og norðanlands, en þar hindraði rekís afla.

1799 vetur framan af harður, seinna góður og gott vor.

1800 vetur hinn besti.

1801 vetur góður til miðgóu, en þaðan af harður; mislægur afli og ógæftir stórar, vorfengur mikill á Innnesjum, þegar gaf, og þegar róið varð fyrir lagnaðarísum, jafnvel meir en 900 stór, allvel kringum Jökul, í Bolungarvík töpuðust veiðarfæri af 30 skipum af ís, er fylti alla fjörðu. Vor kalt, afli næsta mikill í Múlasýslum um sumarið og svo norðanlands, bátar í Eyjafirði fengu þá 300 af góðum þorski á hálfum mán., en tví og þríhlaðið á degi skamt undan Sléttu og Langanesströndum, þar ei hafði lengi fiskast. Margt fengu norrænir menn í síldarnetum og laxavoðum í Hafnarfirði og ætluðu sumir af því, að síld mætti veiða víðar í fjörðum, en á Eyjafirði og svo var um hrognkelsaveiðar, að þær voru tíðkaðar á Innnesjum.

1802 vetur mjög harður með blotum á milli, ísalög og hafísar vestantil. norðan og austan, vorkuldi, fiskitekja sumstaðar, helzt norðanlands, og slidarganga mikil á Eyjafirði.

1803 miðveturinn góður, en misjafn endrarnær. Afli víða lítili, harðrétti.

1804 [meðal vetur, en vor kalt] harðrétti enn, [því hafís lá við land langt fram á slátt].

1805 [vetur einhver hinn bezti, vor gott, gras-sumarið mikla] [Á Suðurlandi var fiskiár gott, en fyrir norðan aflaðist i bezta lagi flskur, heilagfiski og hákarl, líka síldin á Eyjafirði].

1806 vetur allharður; fiskafli lítill, því hann kom seint; en allgóður n. um sumarið, hákarlaafli mikill í Fljótum og á Siglufirði, [og laxveiði góð].

1807 hafísar mjög miklir umhverfís alt land, nema á parti af Faxafióa og lagnaðarís mikill, vetur mjög harður, vor hart og sumar mjög ílt (fiskiaust nyðra) [Hvarvetna var rír afli nema í Vestmannaeyjum, ollu þvi að miklu leyti haf- og lagnaðarísar, samt fiskaðist vel um haustið sunnan og vestanlands og síldarveiði mikil víða kringum Eyjafjörð].

1808 vetur allharður, og frostamikill, fátt um afla, kalt vor, hafís mikill nyrðra og þar fiskilaust, en aflasamt syðra um haustið (flsklítið sunnanlands um veturinn).

1809 vetur allgóður, afli lítill syðra á venjulegri vertíð, fiskileysi mikið úti á Nesjum, enginn afli norðan, afli mjög mikill sunnan (um haustið?) að gekk inn alt á grunn. [Sildarfengur var góður á Eyjafirði].

1810 vetur allgóður norðan, en harður sunnan, afli góður fyrir Jökli og syðra og hélst jafnan þegar róið varð, um sumarið mikill afli sunnanlands og í Múlaþingi, þar fekk 1 skip á 5 -6 dögum 9 1/2 hundr. Hallæri norðanlands af fiskileysi og matvöruleysi, langvint.

1811 vetur góður til þorra, menn lifðu þá á fiskinum einum saman sunnanlands, en fisklaust nyðra, litlir hlutir syðra, vor kalt og ílt; afli sunnanlands um sumarið og vorið, ís mikill norðanlands, veiðiskapur enginn, hallæri.

1812 vetur mjög harður, afli góður vestan, á góu kom lognsnjór syðra og tók þá fyrir afla. Skip sökk af ofhleðslu á Látrum v., hákarlar náðust sumstaðar i vökum fyrir norðan.

1813 afli nokkur fyrir Jökli, en lítill á Innesjums. Vetur góður framan af, en víða mjög umhleypingasamur, enginn afli norðantil um sumarið, lítill syðra.

1814 vetur misjafn, en góður víðast og vorið, lítill afli sunnanlands nema í Vestmanneyjum afli mikill og fyrir vesturlandi. björguðust menn við hvalreka.

1815 vetur misjafn, gæftalítið undir Jökli, en aflalítið annarstaðar, vor kalt og þurt, sæmilegur afli vestanlands, afli nokkur fyrir norðan um sumarið.

1816 vetur harður og snjóasamur, afli góður á honum öndverðum, en enginn síðar, lítill vestan nema i veiðistöðum úti, sjór gagnlítill nyðra semfyrri. í Múlasýslu ár gott, haust og vetur fram á JólaföstuJ. [Mikill fiskafli í Múlasýslu, Vestmannaeyjum, undir Eyjafjöllum og á Suðurnesjum, en á Innesjum mjög lítill um vertið, var og sumarafli þar betri, en undir Jökli aflalítið. í Grímsey fiskaðist vel um sláttinn, víða var laxveiði góð].

1817 vetur misjafn, en snjóasamur mjög og hafís um miðjan vetur, og lá ís vestan og norðan til miðsumars. Hrognkelsavaveiði hjálpaði mönnum á Tjörnesi mest. [Vertíðarafli var mikill í Vestmanneyjum, á Suðurlandi mjög lítill, en mikill afli þaðan af alt árið. Lítið fiskaðist undir Jökli. Hafísar hömluðu róðrum í Múlasýslu, Norðurlandi og Vestfjörðum, en þá ísinn fór af Ísafirði um mitt sumar, kom þar góður afli og hlaðfiski mikið um haustið].

1818 vetur víðast þungur af jarðbönnum nema vestra. Afli mikill við Ísafjarðardjúp, og ofanvert vetur undir Jökli, lítill um haustið. Syðra afli snemma vetrar, en minna ofanverðan, þó nokkur; rigningar um sumarið; góður vetrarafli syðra, en ögæftir, enginn afli fyrir norðan, (þá voru reistar fyrir nokkru 3 skútur i Hafnarfirði af Bjarna riddara Sigurðssyni, svo 2 aðrar, ein í Njarðvík og ein í Vogum), um sumarið. [Fyrir norðurlandi því nær fisklaust, en hákarlaveiði viðaminst. Hrognkelsaveiði víðast kringum land mikil um vorið, en laxveiði lítil. Silungsveiði lítil í Mývatni, enda var haft orð á, að þar hefði varla sést mýfluga um sumarið].

1819 góður afli syðra öndverðan vetur og höfðu menn þá sókt alt norður af Sléttu.

1820 vor kalt, góður afli fyrir sunnan um haustið fyrir nýár.

1821 vetur góður sunnan og vestan, en gerði hroða er á leið, norðantil góður til einmán., en þá kom ís. Afli góður í Vestmannaeyjum, alt að 800, sæmilegurs. Vetur mjög harður norðanlands frá góu, með hafís og lagnaðarís. Sumar og haust nyðra hið versta.

1822 Afli hinn mesti sunnan, austan og vestan og nokkur fyrir norðan (um haustið og sumarið) og var það þá nýtt. Vetur hinn bezti.

1823 sumar var þá harla ílt, nálega sem vetur væri, kalt og þurt syðra, afli mjög mikill sunnan og vestan í landsteinum uppi, þó var flskurinn rír mjög. Afli mikill fyrir norðan á útkjálkum.

1824 vor og sumar gott.

1825 Vetur kaldur og snjóamikill framanaf, en síðan umhleypingasamur. Fiskur mikill fyrir sunnan og austan og undir Jökli, en gæftir litlar, mikill afli undir Jökli, sótt úr ýnisum áttum, jafnvel af Akureyri. Hafís norðanlands, vor kalt og þurt eftir hvítasunnu, en aflaleysi syðra sökum ógæfta. [Í Grímsey var góður afli og á útsveitum Vaðlasýslu um sumarið].

1826 vor kalt og eigi gott sumarið. [Góður varð fiskiafli hvervetna kringum landið, en illa nýttist hann víða].

1827 vetur þungur og hart vor og sumar með fjúki og kulda, haust gott. [Góður fiskiafii víðast kringum landið, hákarlaveiði mikil norðanlands og mikil síld barst á land á Akureyri].

1828 vetur góður og vor gott, afli góður syðra síðan mikill afli alstaðar við land.

1829 vetur hinn bezti til góuloka; hákarlaafli hinn mesti í útsveitum norðanlands, alstaðar hið mesta bjargræði af sjó, sumir 17 hundr. syðra fyrir vertíð og hlaðafli vestra. Fyrir páska skipti um, kom þá ís og fyllti allt. Haustið var hið bezta, og fiskafli hvarvetna og inni í sundum syðra.

1830 vetur afar góður til miðs, en síðan ryskjóttur. Vor einkar gott á sjó og landi; ár enn gott til sjávar og haust gott.

1831 vetur varð góður eftir nýár, einkum ómuna góður einmán. Vor og sumar gott.

1832 vetur góður til miðs og hagfeldur á sjó og landi; vor kalt.

Heimildir: Árbækur Espólíns; annálar Jóns Haldórssonar prófasts, Annálar Jóns Ólafssonar lögréttumanns á Grímsstöðum, [viðbætur Hallgríms Jónssonar djákna á Þingeyrum]. Samantekt Bjarni Sæmundsson-Tímaritið Ægir 1906.

12.01.2012 21:15

Tíðarfarsannáll og aflabrögð III

1749 vetur mjög harður, vorveðrátta allgóð og þá afli vestan og sunnan.

1750 vetur harður frá Góu, is mikill vestan og norðan.

1751 vetur harður, afli lítill sunnan og norðan en allgóður undir Jökli.

1752 vetur harður seinni partinn, harðæri víða, duggurnar 200 tunnur fiska í afla. Fiskiafli allstaðar lítill.

1753 vetrarfar gott, en aflaskortur mikill. [Harðindaár bæði til sjós og lands].

1754 vetur hinn harðasti norðan. Fiskiafli mjög lítill; hæstir hlutir 1 hundr. sunnan og vestan, verra austan, hafís lá lengi.

1755 vetur góður til Einmán. en harðnaði svo, hafþök af ísi, vorkuldar og fiskileysi mikið, nema allgóður afli norðan um sumarið.

1756 vetur mjög harður frá nýári, helzt norðan og austan, mikill hafis frá Einmán. til hundadaga; afli litill.

1757 vetur í meðallagi og fiskafli lítill. [Sjóbönn og fiskifátt til sumarmála, bæði á Suðurlandi og fyrir

sunnan Jökul, meðal fiskiár um vertíð fyrir vestan hann, hundraðs hlutur í meðallagi.]

1758 vetur bezti; afli í meðall. sunnanlands en minni vestan, hungurdauði i Vestmannaeyjum.

1759 veðrátta allgóð, en hlutir litlir, betri um sumarið. [Fiskiár sæmilegt og nýttist vel, fiskifátt um haustið.]

1760 vetur hinn bezti og afli góður; fiskur nógur fyrir sunnan Jökul. [Fiskur nógur fyrir vestan Jökul á Góu, fiskiafli á seinni vertíð i meðallagi].

1761 vetur harður og stórvíðrasamur. Mikill afli í kringum Jökul, en i minna lagi annarstaðar.

1762 vetur góður; fiskigengd með Góu.

1763 vetur góður, bæði á sjó og landi, afli mikill, [en var grannur og meltist til helminga.]

1764 vetur hríðóttur, en fiskiafli allgóður.

1765 vetur góður sunnan og vestan, en hríðasamur norðan og austan Miklir hlutir sunnan og vestan, en selatekja ærin í Þingeyjarþingi.

1766 vetur góður frá nýári. Góðir hlutir sunnan og vestan, en hafísar bönnuðu björg norðan, frá Látrabjargi norður um að Reykjanesi.

1767 vetur og vor gott; miklir hlutir vestan en minni sunnan

1768 vetur, vor og sumar hið bezta; afli mikill um alt land, 20 vætta hlutur i Grímsey.

1769 haust og vetur hið bezta og fiskiár hið bezta sunnan og vestan

1770 vetur harður frá nýári, hafís lengi norðan, bezti afli um alt land. 10-12 hundr. hlutir í Njarðvikum og víðar sunnanlands.

1771 vetur í meðallagi, fiskiafli góður hvervetna.

1772 vetur mjög harður, hafísar miklir, kalt vor, en fiskiár allgott sunnan og vestan.

1773 vetur mjög harður; afli mjög mikill á Vestfj. góður nyrðra og kringum Jökul. Hafís nyrðra.

1774 vetur í betra lagi, góður afli víðast, nema austan og í Vestmannaeyjum.

1775 vetur mestallur góður norðan og vestan en harður sunnanlands; fiskileysi víða, helzt austan, afli víða lítill, nær enginn í Vestmannaeyjum.

1776 gott alt árferði. [Hlutir misjafnir sunnan, mjög litlir austan og í Vestmanneyjum, smáir undir Jökli, en góðir við Ísafjarðardjúp og norðanlands og hákarlatekja mikil.]

1777 góður vetur, vor kalt, hafís norðanlands, afli góður víðast. [Fiskiafli góður víðast, en litill samt í Vestmanneyjum og undir Eyjafjöllum, en minstur þó á Innnesjum og í Hafnarfirði].

1778 vetur stórhríðasamur, hart vor; fiskiár í meðall. víðast.

1779 vetur góður, en veður ókyr, hafís, gæfta og flskileysi öndverða vertíð.

1780 vetur upp og niður. Fiskiafli lítill.

1781 vetur slæmur, hallæri við sjó vestan og sunnanlands, því seinfiskið var.

1782 vetur kaldur, hafis lengi; fiskiár í lakara lagi.

1783 vetur hinn frostamesti; fiskiár fyrir austan og sunnan, lítið norðanlands; hákarlsafli mikill í Fljótum. Hafís fyrir norðan.

1784 vetur áhlaupasamur með útsynningum og mestu óáran. Fiskilitið og gæftir litlar. Hafísar alstaðar nema syðra um miðjan vetur.

1785 vetur góður frá nýári að veðráttu, 2 skipsfarmar af fiski fluttir vestan að norður.

1786 vor kalt, hafís. Sunnanlands gekk fiskur og austan og vestan í betra lagi en mjög lítt norðanlands.

(Framh.)

Heimildir: Árbækur Espólíns; annálar Jóns Haldórssonar prófasts, Annálar Jóns Ólafssonar lögréttumanns á Grímsstöðum, [viðbætur Hallgríms Jónssonar djákna á Þingeyrum]. Samantekt Bjarni Sæmundsson-Tímaritið Ægir 1906.

09.01.2012 22:01

Tíðarfarsannáll og aflabrögð II

1684 vetur bezti, lestarhlutur hjá flestum sunnanlands um vertið og hjá mörgum meir, [en undir Eyjafjöllum og austar lítill afli. Fiskileysi og harðindi á Langanesi og norðan.

1685 vetur snjóalitill, mannskaðar mjög miklir, hlutir i meðallagi, hafís frá Einmán. til Bartólómeusmessu.

1686 góður vetur, siðari hluta; miklir hlutir sunnan og vestan [en austur með landinu litlir].

1687 vetur góður syðra, stirður nyðra.

1688 harður vetur, litlir hlutir, en í meðall. sunnan og vestan. Í Vestmanneyjum hafði þá ekki aflast fiskur i 3 ár.

1689 vetur góður, fiskileysi sem mest [fiskaðist til bjargar um haustið, hlutir litlir].

1690 vetur harður, fiskileysi víðast meir en 1689. [Hlutir mjög litlir og austur i Mýrdal engir, svo Kirkjubæjarklausturshaldari fékk 24 fiska i 16 hluti, annar maður 10 fiska í 8 hluti; haustið gott og afiasamt suður með landinu].

1691 vetur mjög góður; hlutir i meðall. sunnan, en nær engir austan Þjórsár.

1692 vetur góður til Kyndilmessu, en eftir pað miklar frosthörkur. Á páskum enginn fiskur fenginn sunnanlands, fiskileysi austan og nnorðan.

1693 vetur hinn bezti, lítill afli sunnanlands.

1694 vetur öndverður með pokum og frosti fyrir jól, annars upp og niður. Hafís mikill norðan og austan og óáran; hlutir i meðallagi [sunnan en miklir vestan].

1695 hafisár ákaflega miklir kringum allt land; mikið fiskiár, en sjaldan róið; lestarhlutur sunnan og vestan og sumstaðar meira [en ónýttist mjög].

[1696 hlutir litlir fyrir vestan, nokkuð meiri fyrir sunnan].

1697 vetur hinn frostamesti, lá ís við land; mesta fiskileysi.

1698 vetur góður, sjógæftir bágar, en góður afli sunnan og vestan [Hlutir litlir austanlands.]

1699 vetur mjög harður og fjúkasamur, hlutir litlir nema austan. Ís fyrir norðan og enginn afli til þings [þá dó margt fátækt fólk af hungri og harðæri].

1700 vetur frost litill, en mjög stórviðrasamur, en enginn afli [stórt hallæri um allt land].

1701 vetur misjafn, harður norðan góður sunnan, en snjór mikill víða. Hlutir litlir sunnan og vestan betri eystra (bóndinn i Njarðvík hafði 30 hluti við sjó og fékk til samans 360 fiska. 12 menn reru út frá Hólum og fengu als 300. [Fiskileysi um alt land, sem menn mundu ei annað því líkt].

1702 vetur góður, afli nær enginn syðra. [Vertíðarhlutir mjög litlir, bjargræðisbreztur stór; manndauði við sjó].

1703 vetur þungur, mikill fiskigangur eystra, lítill á Innnesjum. [Vertíðarhlutir litlir, nema í Vestmanneyjum og undir Eyjafjöllum].

1704 vetur góður og frostlaus; harðæri við Ísafjörð. [Fiskiafli betri viðast, en á næst undangengnum árum].

1705 vetur þungur og stórviðrasamur. 6 hndr mestur afli við Stapa; miklir hlutir i Vestmanneyjum, fiskileysi og ís fyrir norðan. [Fiskiafli um sumarið og haustið góður].

1706 vetur i meðallagi, hinn mesti fiskur fyrir, stórmiklir hlutir og meira á Suðurnesjum. [Fiskiár hið bezta fyrir vestan og sunnan, meira en lestarhlutir. Sumstaðar var svo mikill fiskiafli, að sjóarbændur höfðu eigi hús til inn að láta. Í mörgum kaupstöðum eftir skilinn nærri farmur af fiski].

1707 vetur, góður litlar gæftir, fiskur fyrir þegar róið var.

1708 vetur góður sunnan og vestan, harður norðan og austan Hlutir góðir, en fá skip sökum mannfæðar (eftir bóluna).

1709 vetur góður alstaðar og hlutir miklir [nærri lestarhlutir sumstaðar].

1710 vetur hinn bezti, gott og þurt sumar, fiskur gekk til hlítar.

1711 ársamt og hlutasamt.

1712 vetur góður sunnan harður norðan, hlutir litlir, nema fyrir Stafnesi og umhverfis Jökul.

1713 gott ár á sjó og landi, vetur og sumar.

1714 vetur mislægur, gæftalitill, hinn bezti austan [hlutir viða litlir nema í Vestmanneyjum]. 10 hundr. hlutir um vorið á Innnesjum.

1715 vetur skakviðrasamur, ógæftir stórar [hlutir í minna lagi].

1716 vetur góður, hlutir litlir nema undir Jökli. [á Austfjörðum 12 hundr. hlutir í sumum fjörðum].

1717 harður vetur með snjóum. Miklir hlutir austan og i Vestmanneyjum, nál. engir á Suðurnesjum, litlir vestra. [góðir kringum Jökul].

1718 Vetur harður er á leið, ógæftir miklar og litill afli. Fólk sumt flosnaði upp á Innnesjum [víða góður afli fram eftir sumri af heilagfiski].

1719 litlir hlutir í útverum og víðast um Suðurnes nær engir [en bjarglegir undir Snæfellsjökli].

1720 Vetur allgóður nema norðan, afli mikill norðanlands ofanvert sumar, stopult vor, allgott sumar, hlutir í meðallagi.

1721 vetur góður, hlutir allgóðir, sumar vott og ógæftasamt.

1722 vetur allgóður; góðir hlutir í Vestmannaeyjum, annarstaðar i meðallagi. Fiskiföng góð norðan um sumarið.

1723 vetur i harðara lagi, vor gott, hlutir litlir nema í Vestmannaeyjum og Hafnarfirði; þar voru 6 hundr. hlutir og meiri og kom þá afli fyrir norðan fyrr en vant var.

1724 vetur harður með veðrum og snjóum, helst norðan, lítil hlutatekja, en vor allgott og gekk fiskur snemma norður fyrir land og fiskiafli þar um sumarið. [Hlutir sunnan mjög litlir, vestan bjarglegir, en góðir fyrir austan, helzt i Vestmannaeyjum].

1725 vetur allgóður og hlutir ei mjög miklir, vor kalt; afli fyrír norðan um sumarið [mjög litlir vetrarhlutir vestan vegna ógæfta, en um vorið og sumarið góður afli víða, einkum fyrir norðan hin mesta fiskigengd].

1726 vetur góður, vor hlýtt, hlutir í meðallagi sunnan og vestan, sumar gott og fiskur norðan sem fyrr [sjógæftir bágar, fiskigangur mikill].

1727 hlutir allgóðir, fiskur fyrir norðan land um sumarið. [Hlutir miklir bæði vestan og sunnan-lands, 6, 7-8 hundr., en fiskur mjög grannur og ónýttist mjög afli].

1728 vetur harður, hlutir voru miklir, 6-7 hundr., og að lestarhlulum. Ís mikill um vorið frá sumarmálum til fardaga, en þó góður afli fyrir norðan eftir að ísinn rak burt, og hélst lengi. [í Skaftafells- og Múlasýslum bezti vetur og nógur fiskur, hlutir með Jökli og annarstaðar miklir og nýttust vel; 6 og7 hundr. og lestarhlutur í Vestmannaeyjum; fiskileysi á Akranesi og Mýrum].

1729 vetur allgóður, hafíhsroði á þorra. Hlutir í meira lagi sunnan og í útverum. [í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum 7-8 hndr. hlutir og sumstaðar sunnan við Jökulinn, litlir vestanlands].

1730 vetur upp og niður. Hlutir góðir sunnan og vestan og í útverum [mjög lítill afli á Vestfjörðum].

1731 vetur snjóalitill og stórviðrasamur, gæftir litlar, sumar þurt. [Fiskiafli mjög lítill í útverum, svo sem á Suðurnesjum, en enginn sunnan Jökul, með öllum Heimsveitum. í Hafnarfirði mikill fiskigangur; fiskaðist þar eftir í umgetnum sveitum og í Hafnarfirði fengust framan af til góu 3 hundr.].

1732 vetur bezti og vor, en hlutir litlir allvíða. Ís á Góu norðan [í útverum víða litlir hlutir, en sunnan Jökul 3 og 4 hndr.; í Eyrarsveit og Eyjum miklir, á Mýrum litlir].

1733 vetur bezti, sumar hið bezta sunnan og vestan, verra norðan sakir ísa sudda. Fiskreki mikill eystra, 80 hndr. rak í Ólafsvik. [Vertíðarsjóbönn stór, hlutir eystra og fyrir vestan Jökul 3 hndr., mestir í Njarðvík og á innnesjum 7 hndr., í Eyrarsveit 5 hundr.].

1734 vetur rosasamur, ekki mikill afli, mestur í Hafnarfirði og á Álftanesi. [Í Vestmannaeyjum, á Suðurnesjum viðast, í útverum og kringum Jökul stærstu hlutir 3 hundr. og 2 hundr- 50; í Njarðvíkum, Hafnarfirði og á Álftanesi 7, 8 til 10 hndr. á einum báti].

1735 vetur allgóður, rosamikill, hlutir litlir sunnan, engir undir Jökli.

1736 vetur hinn bezti, blítt vor, mesta árgæzka. Vorhlutir i meðallagi vestan, litlir sunnan. Afli fyrir norðan um sumarið og þó meiri á Ströndum.

1737 Haust rosasamt, vetur snjómikill, litlir hlutir sunnan en nokkuð meiri undir Jökli. [Fiskaðist vel fyrir páskana sunnan Jökuls, en um vetrarvertíð eftir  páská gaf aldrei að róa].

1738 harður vetur og óstöðug veðrátta, gæftalítið, fiskilaust kringum Jökul [búðafólk nær útkomið].

1739 harður vetur vestan og norðan, fiskifátt [fram undir sumarmál, en gott fiskiár kringum Jökul á seinni vertíð].

1740 vetur hinn bezti að öllu. Ár mikið á sjó og landi. [Tókust engir hlutir fyrir páska, en mesti fiskigangur á seinni vertíð, tókust 4-7 hndr. hlutir].

1741 Vetur allgóður, fiskur mikill undir Jökli, um vorið miklir hafísar og harðindi á sjó og landi austan. [Fiskifátt til þorra, þá kom nóglegur fiskur vestan Jökul og fiskur nógur um seinni vertíð].

1742 vetur harður víða einkum n. til miðgóu. Afli í meðallagi vestan og sunnan [Fiskur nógur fyrir vestan Jökul; eftir sumarmál kom svo mikill fiskur, að menn mundu eigi meiri].

1743 vetur harður sunnan, en betri norðan og austan (í meðallagi fiskiár]. 1. marz rak 18 hundr. af brimrotuðum þorski á Eyrarbakka.

1744 vetur góður, afli sæmilegur sunnan og vestan [Fiskifátt kringum Jökul fram á góu].

1745 vetur ómuna harður. Ís kringum nálega allt land. Afli í meðallagi.

1746 vetur góður norðan, harður sunnan, lítill afli, illar gæftir.

1747 vetur harður sunnan, vestan og norðan; 4-5 dóu úr vesöld á Akranesi; aflaleysi mikið kringum land, hlutir engir hærri en hundrað [mesta harðindis og fiskileysisár, einkum á Suðurnesjum, hundraðs hlutir kringum Jökul og á Suðurnesjum].

1748 vetur harður framan af, síðar hinn bezti. Afli sunnan og vestan en lítíll norðan á því ári. [Fiskiár í betra lagi kringum Jökul fyrir páska, en í lakasta lagi eftir páska].

(Frh.)

 

Heimildir: Árbækur Espólíns; annálar Jóns Haldórssonar prófasts, Annálar Jóns Ólafssonar lögréttumanns á Grímsstöðum, [viðbætur Hallgríms Jónssonar djákna á Þingeyrum]. Samantekt Bjarni Sæmundsson-Tímaritið Ægir 1906.

07.01.2012 21:53

Tíðarfarsannáll og aflabrögð I

1337 Um sumarið drapst svo mikið af fugli á Vestfjörðum að öll fuglabjörg þar eyddust.

1340 var svo góður vetur, að enginn mundi annan slíkan; fundust egg undan fuglum í Flóa nær miðri Góu og aftur síðar á Einmánuði.

1601 var mjög harður vetur (Lurkur); tók pá fisk frá fyrir norðan.

1603 var mjög harður vetur og fiskileysi.

1604 var mjög harður vetur, en beztu hlutir fyrir sunnan og vestan.

1605 harður vetur, hlutir í útverum litlir, engir fyrir norðan land.

1608 vetur góður mjög, en is um vorið til Jónsmessu.

1609 vetur i meðallagi frá jólum, en hlutir mjög litlirí útverum.

1613 veðrátta stormasöm með sjávargangi, hlutasamt um Suðurnes.

1616 hlutasamt í útverum.

1617 hlutir góðir i útverum.

1619 hlutir i betra lagi og góður vetur.

1620 vetur góður og gerði hið bezta ár.

1621 vetur góður og hlutasamt.

1627 harðindavetur, hlutir góðir vestra og syðra.

1628 enginn afli, mikill ís.

1629 miklir hlutir i útverum syðra og vestra. Fiskileysi fyrir norðan, en hákarlaafli góður.

1630 Fiskileysi fyrir norðan, en snjóar miklir.

1631 er kvartað yfir að harðindi hafi verið í 7 ár, fiskur lagst frá landinu, svo þar af hafi hallæri orðið, einkum norðan og austan lands.

1634 5-6 hndr hlutir áSuðurnesjum. Vetur upp og niður.

1635 vetur góður, hlutasamt syðra og vestra.

1638 vetur misjafn; miklir hlutir á Suðurnesjum og svo austureftir, meiri en næstu 50 vetur, skip fengu lestarhlut, en hvergi minna en 5 hudr-tólfræð; góðir hlutir undir jökli, -þó eigi slíkir sem syðra.

1639 harður vetur; hlutir miklir syðra og vestra 4-5 hndr. Þá rak í Hornafirði, á land ekkju einnar, 7000 af skreiðarþorski, er hún og heimamenn komust yfir en lét þó hvern annan taka sem vildi og mátti: Þar rak og síld ótölulega.

1640 harður vetur, hlutir miklir fyrir sunnan land, 4- 10 hndr en magur fiskur.

1641 vetur góður til jóla en þaðan af harður; miklirhlutir með Suðurlandi öllu en lestarhlutur í Þorláksh'dfn.

1643 vetur góður. Fiskiafli mlkill.

1644 góðir hlutir syðra. [1645 fiskaðist vel]. [1646 fiskaðist vel].

1647 ómuna góður vetur. nógur fiskur vestra í miðjum Einmán. og hlutir miklir á sumarmálum, 16 hndr tólfr. á Álftanesi syðra, en annarsstaðar nokkru minni.

1648 harður vetur seinni part, fiskur var nógur fyrir, en menn komust ekki til sjávar. [10 hndr hlutir, og um sumarið nógur fiskur fyrir syðra].

1649 flskiár fyrir sunnan, mikill fengur víða, en nýttist illa vegna votviðra.

1650 vetur góður og spök veðrátta, hver fjörður fullur af fiski, og var hann á Breiðafirði þegar eftir jól og sumstaðar þar sem menn vissu engin dæmi. [Fskiár gott með öllu Suðurlandi og sumstaðar lestarhlutur].

1651 vetur var góður, en fiskur mikill vestra og nyðra, litill syðra i fyrstu, en urðu þó hlutir góðir.

1653 vetur allgóður og hlutir þá hæstir 9 hndr syðra, [sumstaðar lestarhlutur].

1654 vetur misjafn en löngum hlutasamt, 10 hndr hlutir. [9 hndr hlutir i Þorlákshöfn, 12 hndr i Njarðvík].

1655 vetur góður, misjafnir hlutir, en góðir víða, [meir en lestarhlutur í sumum stöðum].

1656 vetur góður og hlutaár gott, (lestarhlutur sumstaðar sunnanlands).

1657 vetur þýður og snjólaus og hlutir miklir umhverfis land allt.

1658 vetur stormamikill og fiskiár mikið, [þó eigi hið bezta]. [1659 hlutir i minna lagi].

[1660 hlutir misjafnir].

1661 vetur harður og alt árferði miður en fyrri hafði verið lengi. [hlutir litlir sunnanlands].

[1662 hlutir á Suðurnesjum og austurmeð, helzt í Vestmanneyjum, miklir, á Innnesjum litlir].

[1663 hlutir litlir sunnanlands].

1664 vetur góður og æskilegur, fiskiafli umhverfis land helzt eystra.

1665 vetur var góður og svo þaðan af ársæla um sumarið, [hlutir í útverum fyrir sunnan og vestan miklir, á Innnesjum litlir].

1666 vetur í meðallagi.

[1668 hlutir i meðallagi].

1669 frostavetur mikill og stórviðrasamur, hlutir miklir. [Fiskiár gott sunnanlands, meir en lestarhlutur í Vestmanneyjum].

1670 vetur góðurenharðnaði, gott flskiár nyrðra en meðallagi syðra.

1671 veiur harður, mikill fiskur syðra.

1673 vetur harður eystra, góður syðra, þar miklir hlutir, en litlir fyrir norðan. |Fiskileysi fyrir austan og norðan].

1674 vetur harður, fiskileysi fyrir norðan og austan mesti afli fyrir sunnan og vestan 15 hndr hlutar fyrir vestan jökul og því nær í Garði.

1675 meðal frosta vetur, fiskiafli góður sunnan og vestan þegar á leið [mikill fyrir austan og vestan].

1676 vetur harður, og stórviðrasamur nál. aldrei róið fyrir Suðurlandi til páska.

1677 vetur góður, miklir hlutir austur með landi og í útverum, litlir á Inn-nesjum.

1678 vetur meðal frostharður, hlutir 3-8 hndr á Suðurnesjum.

1679 vetur ágætur, hlutir miklir syðra.

1680 vetur mjög hríðasamur eftir jól, gæftir bágar, litlir hlutir viða.

1681 rosavetur, litlir hlutir syðra og eystra.

1682 fiskigangur mikill, góðir hlutir syðra og vestra en minni eystra.

1683 vetur rosasamur, litlir hlutir norðan, frostasamt sunnan og

vestan og þar miklir hlutir; hafís mikill norðan, eftir sumarmál

austan og sunnan.

(Framh)

Heimildir: Árbækur Espólíns; annálar Jóns Haldórssonar prófasts, Annálar Jóns Ólafssonar lögréttumanns á Grímsstöðum, viðbætur Hallgríms Jónssonar djákna á Þingeyrum. Samantekt Bjarni Sæmundsson-Tímaritið Ægir 1906.

Flettingar í dag: 2274
Gestir í dag: 196
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 178
Samtals flettingar: 266601
Samtals gestir: 34333
Tölur uppfærðar: 24.11.2024 13:06:26