Flokkur: Verzlunarsaga

04.11.2012 22:40

Sú var tíðin,1912

Þetta gerðist hér við sjóinn árið 1912, árið sem Friðrik VIII danakonungur var til moldar borinn og Vilson varð forseti bandaríkjanna. Brauðgerðarhússfélagið var stofnað hér á Bakkanum á þessu ári. Hafist var handa við að draga að efni til byggingarinnar, sem reisa átti á lóð kaupfélagsins "Hekla", húsið var steypt og skildi heita "Skjaldbreið". Annars dró fátt til tíðinda á Eyrarbakka fyrstu mánuði þessa árs þar til kom hið sólblíða og söngljúfa vor. Menn veltu fyrir sér komu sjaldgæfra fugla hér um slóðir sem nefndust svartþrestir og starrar og álitu margir þá vera nýja landnema og enda varð sú raunin. Lífið gekk svo sinn vanagang við fiskiveiðar þegar á sjó gaf. Netatjón var þó allnokkuð í óveðrum er yfir gengu á útmánuðum.

Hlutafélag til hafnargerðar í Þorlákshöfn og annara fyrirtækja á suðurlandi, var stofnað í Frakklandi ("Sosiété d' Entreprise en Islande"). Við félagsmyndun þessa kváðust vera riðnir tveir stórbankar franskir ("Banque Francaise" og "Banque Transatlantique") og einhverjir fleiri stóreignamenn. Brillouin konsúll var framkvæmdarstjóri þessa fyrirtækis hér á landi, en þann 21. janúar þetta ár [1912] seldi Þorleifur á Háeyri frökkum Þorlákshöfn fyrir 432.000 kr.  Um þetta samdi Kjói:

Ef að Frakkar eignast hér

okkar litlafingur,

að hundrað árum hvar þá er

Höfn og íslendingur?

Hugmyndin var að höfnin yrði miðstöð fyrir ýms iðnaðarfyrirtæki; þar áttu að rísa upp verksmiðjur, knúðar rafmagni, til málmbræðslu o. fl. Hlutafélagið hafði umráð yfir 9 fossum á Suðurlandi, sem það sumpart var eigandi að, og sumpart hefði tekið á leigu og hugðust virkja, og leggja járnbrautir upp til sveita, en íslensk lög [fossalögin 1907] voru þó þrándur í götu fyrir þessa frakknesku auðjöfra. Helst sáu málsmetandi menn þessu til foráttu að mundi hefta viðgang Reykjavíkur til framtíðar. En á meðan um þetta var þráttað hófust miklar hafnarframkvæmdir í Reykjavík enda og mikil uppgangsár þar. Verktaki að hafnargerðinni var N. C. Monberg,( Niels Christensen Monberg) danskt fyrirtæki.  

Ákveðið var að sýsluvegur mundi liggja í gegnum Stokkseyrarkauptún, þar eð hann lá að því báðum megin. Óseyrarnesferju var hinsvegar neitað um styrk úr sýslusjóði. Um vorið varð vart við snarpan jarðskjálfta og hristust húsin hér duglega. Vandræði urðu með símtalsflutning til Reykjavíkur, en línan þangað annaði ekki þeim 18 stöðvum sem á henni voru allt austur til Vestmannaeyja og kom það versluninni hér brösuglega um kauptíðna. Hækkandi steinolíuverð var bagaleg þorpsbúum sem notuðu eingöngu steinolíu til lýsingar og hitunar. Danska steinolíufélagið DDPA átti mest ítök á íslenskum markaði á þessum tíma, en hækkunina mátti m.a. rekja til vaxandi eftirspurnar erlendis. Var þetta til að vekja upp hugmyndir um raflýsingu hér á Bakkanum með því að virkja Skipavatn, sem Baugstaðaá rennur úr ásamt nálægum vötnum og lækjum. Rangárbrúin var vígð um haustið. Hún var fyrsta járnbrúin hérlendis sem var alíslensk smíði, nema efnið og hugvitið sem kom erlendis frá, en landsmiðjan í Reykjavík sá um verkið. (Rangárbrúin var 137 álnir á lengd og jafnbreið Ölfusárbrúnni gömlu, eða rúm vagnbreidd. Skömmu síðar var lokið við steypta bogabrú yfir Hróarslæk og var hún að öllu leiti íslensk). Um haustið var gistihúsinu hér lokað og það hætt störfum. Var innbú og munir þess seldir á uppboði. Skipt var um glugga í kaupmannshúsinu og kom mönnum á óvart að viður húsins var alveg laus við fúa í þessu 200 ára gömlu húsi, en viðurinn er sagður upprunnin frá Pommern, [hérað í Póllandi/Þýskalandi].

Skipakomur og skipaferðir: Strandbáturrnn "Austri" átti að koma við á Stokkseyri á leið sinni til Reykjavíkur í fyrstu ferð þessa árs. Átti kaupfélagið Ingólfur allmiklar vörur í bátnum. En Austri gerði sér lítið fyrir og fór hér framhjá aðfaranótt þess 11. apríl. Snemma í maí komu "Svend" og "Vonin", til Einarshafnarverslunar, og timburskip til kaupfél. Ingólfur á Háeyri. Til Stokkseyrar kom "Skálholt"  frá útlöndum með vörur til Ingólfs, og timburskip til sama aðila nokkru síðar. Strandferðaskipið "Austri" kom hér við  á austurleið með dálitinn vöruslatta, og Perwie kom síðast vorskipa með brúarefni í Rangárbrúnna innanborðs, en því var ekki skipað hér upp eins og vænta hefði mátt. Perwie kom svo fyrst haustskipana hér við, en ekki komst það til Stokkseyrar sökum brims, en seglskipið Venus kom þar síðla í september með vörur til kf. Ingólfs. Í oktobermánuði strandaði kaupskipið "Svend" frá Einarshafnarverslun í svonefndri Skötubót, nálægt Þorlákshöfn og laskaðist mjög. Menn björguðust ekki fyr en morguninn eftir, ómeiddir allir nema skipstjórinn, sem fór úr axlarlið. Svend hafði lengi haustsins legið hér úti fyrir og beðið færis, en ekki gaf inn á höfnina sökum brims. Var þetta strand  skaði fyrir Einarshafnarverslun því mikið af nauðsynjavörum var í skipinu.

Franskt fiskiskip rak logandi að landi framundan Þykkvabæ. Liðaðist skipið sundur í brimgarðinum.    Færeysk fiskiskúta strandaði í Landeyjum. Annars var talsvert um skipatjón og mannskaða í sunnlenskum verstöðvum, en þó ekki hér. Þess má einnig geta að hið fræga risaskip "Titanic" fórst þetta ár.

Atvinna, viðskipti, landbúnaður og fiskveiðar: Jón Helgason prentari hóf að gefa út "Heimilisblaðið" Jón Helgason var að góðu kunnur, síðan hann gaf út blaðið "Fanney" með Aðalbirni Stefánssyni, en auk þess starfaði hann í Prensmiðju Suðurlands hér á Eyrarbakka. Jón Jónatansson alþm. á Ásgautsstöðum tók við ritstjórn vikuritsins Suðurland sem hér var gefið út. Hér var kosinn sr. Gísli Skúlason í framkvæmdastjórn Sunnlenskrar Lýðháskólastofnunar. Smjörsala rjómabúsins í Sandvíkurhreppi gekk framar vonum, en til þess hafði verið stofnað árið áður. Vetrarvertíðin fór rólega af stað á Bakkanum enda afli tegur á miðunum. Vélarbaturinn " Þorri " frá Stokkseyri, formaður Jón Sturlaugsson hafnsögumaður, stundaði vertíðina frá Vestmannaeyjum. Um miðjan mars mokaflaðist hér við ströndina, þá er gaf á sjó. Er kom fram í apríl fiskaðist lítið sem ekkert í net en reitingur á lóðin. Í maí barst hinsvegar mikill afli á land, en svo kvaddi þorskurinn miðin og ýsan kom í staðinn. Þegar vertíð lauk var hún talinn í meðalagi góð. Kauptíðin var umfangsmikil að venju og samkeppnin hörð. Verslun Þorleifs Guðmundssonar, "Dagsbrún" seldi verslun sína Kaupfélaginu Ingólfi á Stokkseyri á haustmánuðum en fyrir þeirri verslun fóru m.a. Helgi Jónsson á Stokkseyri og Jóhann V. Daníelsson Eyrarbakka. Þorleifur hafði sett upp verslunina í Regin nokkrum mánuðum fyr og auk þess samnefnda vefnaðarvöruverslun í Reykjavík. Heyskap lauk fyrir miðjan september og var heyfengur í besta lagi og nýtingin ágæt. Tilkoma sláttuvéla mun hafa létt mönnum mjög heyskapartíðina. (um 100 sláttuvélar voru til á Suðurlandi á árinu 1912) Sláturfé reyndist með rýrara móti þetta haustið. Fisklaust var um haustið, gæftarlítið og beitulaust þar eða síldin gekk ekki þetta sumarið. Verslunin hafði á árinu verið fremur óhagstæð, einkum vegna mikilla verðhækkana á erlendum vörum. Iðnaður var enn lítill og fábreyttur hér í sýslunni sem og annarstaðar, en helst voru það rjómabúin og ullarþvottarstöðin við Reykjafoss.

Fólkið: Lefolii stórkaupmaður dvaldi hér um sumarkauptíðina eins og hann átti vanda til. Þorlelfur Andrésson steinsmiður, sem mörgum var að góðu kunnur, dvaldi einnig hér við pípugjörð í Mundakoti. Kofoed Hansen, skógræktarstjóri, var hér á ferð síðsumars, hafði farið einsamall Vatnajökulsleið. Jóhanna Briem, dóttur Ólafs Briems þáverandi alþm. á Álfgeirsvöllum í Skagafirði, fékk kennarastöðu við Barnaskólann á Eyrarbakka. Hún tók við af frænda sínum cand. Jóhann Briem frá Hruna, sem þjónað hafði stöðunni en var nú skipaður prestur á Melstað í Miðfirði.[ Konan hans var Ingibjörg Jóna Ísaksdóttir verslunarmanns frá Eyrarbakka.] Jóhanna kenndi aðalega íslensku, dönsku, ensku og reikning og stúlkum hannyrðir.  P. Níelsen stundaði vísindalegar athuganir á fuglaflóru landsins og keypti til þess fuglhami af veiðimönnum. Brillouin, fyrv. ræðismaður, frakka kom með botnvörpuskipi frá Frakklandi til Þorlákshafnar, hélt þaðan til Reykjavíkur.

Íþróttir: Hinir víðfrægu glímumenn í U.M.F. Stokkseyrar skoruðu á eyrbekkska glímukappa í U.M.F.E. og átti keppnin að fara fram 27. janúar, en Eyrbekkingarnir höfnuðu áskoruninni. Héldu Stokkseyringar því veglega glímusýningu á Stokkseyri þess í stað. Ungmennafélag var á ný stofnað í Saudvikurhreppi, endurreist af rústum eldra félags. Stofnendur 47. Íþróttamót ungmennafélaganna hér austanfjalls var haldið að Þjórsártúni. Í glímu vann Páll Júníusson á Seli í Stokkseyrarhreppi skjöldinn.

Menning: Sjónleikir og skemtanir voru haldnar á Stokkseyri snemma á árinu og fram á vor við góðan orðstýr, en ágóðinn rann m.a. í samskot vegna drukknaðra sjómanna af Suðurnesjum. Verkamannafélagið Báran hélt tambólu til að efla styrktarsjóð félagsins og Kvenfélagið safnaði fyrir málningu á kirkjuna. Nokkuð var um skemtanir í Fjölni yfir jól og áramót.

Slys og hamfarir: Oft lá við að slys yrðu hér á götunum vegna myrkurs. Um miðjan vetur var riðið ofan á gangandi mann í myrkrinu, meiddist hann talsvert og var lengi óverkfær. Konur tvær voru á gangi á götunni eitt kvöld, mættu þeim tveir menn á harða hlaupum og ruddu um koll annari konunni svo hún hentist niður á götuna og meiddist nokkuð. Mánudaginn þann 6. maí. kl. um 6 að kveldi, varð vart við jarðskjálftakipp á Stokkseyri og Eyrarbakka. Stóð hann yfir um ½  mínútu og titruðu hús hér nokkuð; skemdir urðu þó engar hér en hinsvegar stórtjón í austursveitum, svo sem víða á Rángárvöllum og efri hreppum þar sem bæjarhús hrundu til grunna. Öllum bar saman um að þessi jarðskjálftakippur hafi riðið yfir eins og alda, frá austri til vesturs, eða eins og jafnan við svokallaðan "Suðurlandsskjálfta". Eftirkippir fundust víða í austursveitum. Lík rak við Einarshöfn af færeyskum sjómanni að talið var og jarðsett hér. Kona fannst örend í pytti við túnið í Eyði-Sandvík, var hún þaðan.

Andlát: Guðni Jónsson í Einarshöfn. Kona hans var Sigríður Vilhjálmsdóttir. Guðlaug Einarsdóttir, kona Þorfinns Jónssonar gestgjafa Jónssonar í Tryggvaskála við Ölfusárbrú , en hún var vel þekkt af Árnesingum flestum. Þorfinnur seldi þá Tryggvaskála ásamt slægjulandi og veiðirétti í Ölfusá en þau höfðu búið þar frá 1901. Ungfrú Sólveig Thorgrímsen í Reykjavík, dóttir Guðmundar Thorgrímsen, er lengi var verslunarstjóri hér á Eyrarbakka. Ísak Jónsson í Garðbæ lést af krabbameini. Hann var verslunarmaður við Lefolii verslun í nær 40 ár. Fyrri kona hans var Guðríður Magnúsdóttur frá Brandshúsum í Gaulverjabæjarhreppi, en seinni kona hans var Ólöf Ólafsdóttir, frá Árgilsstöðum í Hvolhreppi. Jón Jónsson í Einarshöfn, háaldraður bóka- og fróðleiksmaður og var hann mörgum að góðu kunnur. Margrét Eiríksdóttir, gömul kona á Litlu-Háeyri á Eyrarbakka. Sonur hennar var Jens S. Sigurðsson bóndi þar. Þórdis Þorsteinsdóttir frá Litlu-Háeyri en maður hennar var Jón bóndi þar Hafliðason. Sigurður Einarsson, tómthúsmaður hér á Eyrarbakka, hné niður máttvana úti við, var hann borinn heim og andaðist skömmu síðar. Lét eftir sig konu og 1 barn í ómegð. Þórunn Þorvaldsdóttir frá Eimu á Eyrarbakka, 84 ára, maður hennar var Guðmundur Þorsteinsson járnsmiður, var hún fædd í Króki í Grafningi 1828. Hér gerðu þau Þórunn og Guðmundur bæ á sandsléttu í landi Stóru-Háeyrar og kölluðu Eimu. Var það snotur bær, að því er þá þótti, en nú löngu horfinn. Ræktuðu þau þar matjurtagarða meiri en þá var títt og vörðu þá og bæinn með sterkum grjótgörðum. Því hætt var við sjávarflóðum meðan enginn var sjógarður þar fyrir framan. Guðmundur var hagleiksmaður, var hann sá fyrsti hér, sem smíðaði blikkbrúsa undir steinolíu. Ekkjan Guðríður Sæmundsdóttir að Foki í Hraunshverfi, hún var við 79 ára aldur. Jón Árnason í Þorlákshöfn, var hér vel kunnur, sonur Magnúsar Beinteinssonar hins ríka í Þorlákshöfn. Kona hans var Jórunn Sigurðardóttur frá Skúmsstöðum. Hallbera Petrína Hjörleifsdóttir frá Litlu Háeyri 8 ára. Nokkur ung sveinbörn dóu einnig þetta ár.

Tíðarfarið: Veturinn í upphafi árs var mildilegur og blíður sunnlendingum. Norðan og NV stormar voru ríkjandi í byrjun mars, en snjólaust þó og fljótt kom góðviðrið aftur. Í uppsveitum var eitthvað um snjókomu á útmánuðum. Dálítið hret gerði í apríl byrjun, en með sumardeginum fyrsta kom blíðan og gras tók að grænka. Í sumarbyrjun og frameftir var hún enn sama sólarblíðan og brakandi þurkar. Í byrjun ágúst kólnaði og gránaði niður undir kamba. Um sumarlok lá mikið misturloft yfir og var eldgosum í ameríku um kennt. Haustrosinn sunnlenski tók svo völdin en fyrri hluti vetrar var yfirleitt hægviðrasamur.

Heimild: Suðurland 1912, Reykjavík 1912. http://gummiste.blogcentral.is/ Wikipedia. Garður.is 

28.10.2012 21:41

Sú var tíðin, 1911

Vesturbúðir - Einarshafnarverslun 

Á þessu ári 1911 var verslun í hvað mestum blóma á Bakkanum og samkeppnin afar hörð, en þrátt fyrir það þótti verslunin vera arðbærustu og gróðvænlegustu fyrirtækin. Þær stóru verslanir sem kepptu um hituna voru, Einarshafnarverslun, Kaupfélagið Hekla, Ingólfsverslunin á Háeyri og Stokkseyri. Þá var verslun að vaxa við Ölfusárbrú, fyrir tilstuðlan "Brúarfélagsins" svokallaða. Um mitt sumar var byrgðastaðan orðin slæm og matvöru farið að skorta í búðunum. Þá var haframjölið vinsæla upp urið og ekki annað að gera en bíða og vona að haustskipin kæmu með fyrra fallinu. Harðar deilur urðu um hvort væri hyggilegra að leggja járnbraut til Reykjavíkur, eða byggja höfn í Þorlákshöfn. Franskir verkfræðingar komu um sumarið til að kanna hugsanlegt hafnarstæði ásamt fyrverandi ræðismanni Frakka, hr. Jean Paul Brillouin sem var tilbúinn til að koma með franskt fjármagn í hafnargerðina. Unnið var að símalagningu héðan af Bakkanum til Kaldaðarness. Áhöld til þess komu með strandferðaskipinu Perwie. Oddur Oddsson símstjóri í Reginn sá um það verk og var símalínan opnuð 26. ágúst 1911. Símalínan var lögð heim að Sandvík til Guðmundar hreppstjóra, og síðan frá Hraungerði upp að Kíðjabergi. Mannaferðir voru miklar á Bakkanum yfir sumarið, flestir á ferð ofan úr sveitum í verslunarerindum. Til halastjörnu sást á austurhimni frá 20. oktober og fram á vetur 3-4 stundir í senn. Atvinnuleysi gerði vart við sig þegar kom fram á veturinn og samgöngur spiltust. Þá dofnaði yfir þorpslífinu og lítið við að vera. Verslunin sem nú var vel byrg auglýsti jólaútsölur og staðgreiðsluafslætti.  Íbúafjöldi á Eyrarbakka var 750 manns árið 1911 og hafði þá fækkað um 13 frá fyrra ári. Fóru flestir til Reykjavíkur.

Skip inni á EinarshöfnSkipakomur og skipaferðir: "Perwie" kom hér að sundinu snemma vors, var þá ekki fært út sökum brims, hélt hún þá nær tafarlaust til Stokkseyrar og lá þar um nóttina, Í birtingu var orðið sjólaust, og beið hún þá ekki boðanna heldur hypjaði sig á braut hið snarasta, voru Stokkseyringar þá albúnir að fara út í skipið og sækja vörur sínar, en til þess kom ekki, Perwie var farin þegar fært var orðið, sumir sögðu jafnvel að hún væri farin til "helvítis". Vöruskip Einarshafnarverslunar,  Vonin og  Svend , komu bæði í byrjun maí og gátu þau komist hér að vandræðalaust. Kong Helge kom við hér um miðjan maí sem og Stokkseyri og skilaði af sér vörum og pósti. Aukaskip frá sameinaða gufuskipafélaginu hafnaði sig hér með vörur til Brúarinnar (Selfossi), Heklu og Einarshafnar. Timburskip til Ingólfsverslunar hafnaði sig hér einnig og annað timburskip til Ingólfs gekk á Stokkseyri. Faxaflóabáturinn Ingólfur kom hér við miðsumars og Perwie við sumarlok og sótti ull til Ingólfsverslunar. Um haustið snemma kom vöruskip Þorleifs kaupm. á Háeyri, Guðmundssonar dekkhlaðið varningi alskonar. Vonin, skip Einarshafnarverslunar kom svo 22. september eftir langa útivist.

Franskt saltflutningsskip, seglskipið Babette frá Paimpol strandaði á Fljótafjöru, í Meðallandi í marsbyrjun, en mikill floti franskra fiskiskipa var að veiðum við sunnanvert landið þá um veturinn og víða upp í landsteinum, innan um net heimamanna. Þilskipið Friða, bjargaði 6 skipshöfnum í Grindavík.

Íþróttir:

Nýjársdagurinn byrjaði með því að 5 ungir Eyrbekkingar þreyttu kappsund frá Einarshafnarbryggjunni, um 25 faðma. Varð þar skarpastur Ingvar Loftsson, synti hann leið þessa á 57 sek. og fékk að launum blekbyttu úr slípuðum kristalli. Hinir sem tóku þátt í sundinu voru: Ásgrímur Guðjónsson, Gísli Jóhannsson, Valgeir Jónsson og Jón Tómasson. Piltar þessir höfðu engrar sundkenslu notið, en lærðu að synda af egin ramleik. Í sjósund fóru þeir daglega þá um veturinn. J.D. Níelsen verslunarstjóri þjálfaði leikfimiflokk sinn af kappi þennan vetur og hélt leikfimisýningar í Fjölni við góðan róm. Lítið varð hinsvegar úr sumarmótinu á Þjórsártúni sökum óveðurs. Skotfélagið hélt æfingar úti við og dró að sér forvitna áhorfendur. Félag þetta var aðallega stofnað í því skyni að vekja áhuga á íþróttum, sérstaklega skotflmi. Stofnfélagar voru 20.

Fólkið:

Dbr. Brynjólfur Jónsson sagnaritari frá Minnanúpi sem dvalið hefur löngum á Bakkanum, kom til heilsu aftur, eftir slysfarir á fyrra ári. Geir Guðmundsson frá Háeyri kom til landsins, en hann bjó á Sjálandi og giftist þarlendri konu Marie Olsen. Stundaði hann hér jarðyrkju um sumarið ásamt Sjálenskum unglingi, Age Jensen er með honum kom. Geir seldi líka margskonar jarðyrkjuverkfæri til kartöfluræktunar, tæki, tól og vélar alskonar fyrir jarðyrkju. Simon Dalaskáld var hér á ferð að selja bækur sínar. Hann var förumaður frá Skagafirði, þó ekki umrenningur heldur einskonar skemmtikraftur sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Kjartan Guðmundsson ljósmyndari frá Hörgsholti opnaði hér á Eyrarbakka ljósmyndastofu. Bjarni Þorkellsson skipasmiður dvaldi hér við skipasmíði, hafði hann byggt vandaðan vélbát fyrir Þorleif Guðmundsson frá Háeyri. Var það fyrsti vélbáturinn sem smíðaður var á Eyrarbakka. Uppskipunarbát smíðaði hann einnig þetta sumar, og a.m.k. tvö róðraskip þá um veturinn, en Bjarni hafði á sinni tíð smíðað yfir 500 báta og skip. Verksmiðjueigandi einn, C. H. Thordarson, frá Chicago, (Uppfinningamaður ættaður úr Hrútaflrði) hafði hér nokkra daga dvöl ásamt konu og syni, en konan var systir Ingvars Friðrikssonar, beykis á E.b. Hér voru líka á ferð tveir Rússar sem tóku að sér að brýna hnífa fyrir fólk, og var mörgum starsýnt á. Þeir föluðust líka eftir litlum mótorbát til kaups, en enginn vildi þeim selja og héldu þeir þá til Stokkseyrar. Bjarni Eggertsson héðan af Eyrarbakka var við silungsveiði í Skúmsstaðavötnum í Landeyjum og þóttist veiða vel. Sigurður Eiriksson regluboði var hér á ferð í vetrarbyrjun að heimsækja Goodtemplarastúkur og endurvakti stúkuna "Nýársdagurinn". Bjarni Vigfússon frá Lambastöðum var hér á Bakkanum um veturinn við smíðar. Meðal annars smiðaði hann skiði úr ask, sem þóttu vel vönduð. Skíðin voru smíðuð eftir norskri gerð og fylgdu tábönd eftir sama sniði. Það mun hafa þótt nýstárlegt hér syðra, að gera skíðasmíði að atvinnu sinni. Páll Grímsson, verslunarmaður á Eyrarbakka keypti Nes í Selvogi ásamt jörðinni "Gata" í sama hreppi, af Gísla bónda Einarssyni er þar bjó.

Stórafmæli:  Jórunn Þorgilsdóttir í Hólmsbæ hér á Bakkanum varð áttræð, en hún þótti merkiskona og sömu leiðis Gestur Ormsson í Einarshöfn.

Andlát: Helga Gamalíelsdóttir í Þórðarkoti, andaðist 85 ára að aldri. Jóhann Jónsson á Stóru Háeyri, rúmlega 70 ára að aldri. Guðrún Einarsdóttir, gömul kona á Eyrarbakka. Steinunn Pétursdóttir, kennara á Eyrarbakka, 10 ára að aldri, hafði sumardvöl í Fljótshlíð og lést þar af lungnabólgu. Kristín Jónsdóttir í Norðurkoti, háöldruð. Hún hafði lengi búið ein í kofa sínum og þótti einkennileg um margt. Helgi Þorsteinsson, á Gamlahrauni, varð bráðkvaddur 59. ára að aldri. Guðni Jónsson, verslunarm. hér af Eyrarb. Var lengi við Lefoliisverslun hér áður, en hafði flutti til Rvíkur árið 1910. Sigríður Lára, yngsta barn Guðmundar Guðmundssonar kaupfélagsstjóra, ekki árs gömu.

Úr Manni og Konu í FjölniMenning: Leikfélagið á Eyrarbakka setti upp nokkur verk. Helstu leikarar voru Solveig Daníelsen, Jón Helgason prentari Karl H. Bjarnarson prentari, Pálína Pálsdóttir og Guðmunda Guðmundsdóttir. Ungmennafélag Eyrarbakka hélt upp á 3ja ára afmæli sitt með skemtisamkomu, sem haldin var í Fjölni. Sá ljóður var á menningu þorpsins sem og annara þéttbýlisstaða við sjávarsíðuna að götubörnum var gjarnt á að atast í fólki, einkum drykjumönnum með skrílslátum og að viðhöfðum óæskilegum munnsöfnuði í þeirra garð sér til skemtunar. Seint gekk að uppræta þessa menningarvörtu á samfélaginu. Lestrarfélagið hélt áfram að lána út bækur og var mikið í það sótt. U.M.F.E. stóð fyrir alþýþufræðslu, þar hélt Einar E. Sæmundsen skógfræðingur fyrirlestur um skógrækt og heimilisprýði, "Trjáreitur við hvert einasta heimili á landinu", kvað hann ætti að vera heróp ungmennafélaganna, en áhugi fyrir skógrækt hér reyndist dræmur.

Fiskveiðar, landbúnaður og atvinna: Þorskanet voru nú orðin almenn veiðarfæri á opnum skipum sunnanlands, en veiðar á færi eða lóðir á undanhaldi. Steyptir netasteinar sem var uppfinning Ísólfs Pálssonar á Stokkseyri gerðu veiðarnar meðfærilegri. Afli var tregur framan af vetrarvertíð og sjaldan gaf á sjó, en þegar leið fram í júní fiskaðist ágætlega en svo dró úr er á leið sumarið og vildu Eyrbekkingar kenna um erlendum trollurum sem krökkt var af. Lítið róið að haustinu og afli tegur þó róið væri. Bændur girtu lönd sín í auknum mæli, en slíkt nær óþekkt nokkrum árum fyr. Óðalsbóndi Guðmundur Ísleifsson á Stóru-Háeyri vélvæddi sinn búskap að nokkru er hann tók í notkun hestdráttar rakstrarvél og arfareytingarvél, fyrstur bænda hér við ströndina, fyrir átti hann hestdráttar sláttuvél. Um sláttinn var fátt fólk heima við, enda lágu margir í tjöldum við engjaheyskap. Heyfengur virtist ætla að verða góður þetta árið, en síðsumars brast á með vætutíð, en hey öll náðust þó með haustþurkinum. kartöflu-uppskera var í meðallagi þetta haustið. Bakkabúar nokkrir fóru um sumarið austur í silfurbergsnámuna sem starfrækt var í Helgustaðafjalli við Reyðarfjörð. Unnu þar 10 saman alls og létu vel yflr árangrinum. Einn stein fundu þeir 100 pund, [50 kg] sem mun hafa verið seldur afarverði sökum stærðar og fegurðar, en dýrt þótti þeim að lifa þar eystra því matvara var þeim seld háu verði.

Tíðarfarið: Framanaf var tíðin rosasöm með frosthörkum. Stundum var allt að -16°C í febrúar. Sjógangur oft mikill. Afspyrnurok gerði af landsuðri 3. mars, og gekk sjór mjög á land. Á Stokkseyri rak upp mótorbát Ingólfsversunar á Háeyri, brotnaði hann nokkuð, og í sama veðri fauk bátur frá Óseyrarnesi og brotnaði i spón, sömuleiðis tveir róðrarbátar úr Gaulveijarbæjarhreppi. Um páska var allt að 12 stiga frost. Kuldar og rosar voru í maímánuði, vorið var mjög vætusamt framanaf og kalt, en þurviðri og dálitlir hitar í júní og byrjun júlí, en frá 7. og framyfir miðjan júlí voru miklar rigningar. Eftir miðjan júlí gerði þurviðri og fádæmamikinn kulda og hnekti það mjög mikið gróðri. Dag einn hvíttnaði í vesturfjöllin þó hásumar væri. Svo kom ágúst með hina indælustu sumarbliðu svo að hver dagurinn var öðrum betri -hitar og stillur. Með höfuðdegi lagðist í rigningar og sunnanáttir fram á haust, þá þornaði á ný. Lítilega snjóaði i oktober, en annars ýmist froststillur, þoka og súld. Fyrstu snjóar komu í byrjun nóvember en síðan umhleypingar.

Heimild: Suðurland 1911

06.06.2012 00:05

"Terpsichore"

Guðmundur ÍsleifssonÁrið 1890 hafði hinn þekkti formaður Guðmundur Ísleifsson á Háeyri, skip á leigu sem flutti  vörur til verslunar hans hér á  Eyrarbakka. í  leiguskilmálunum var það tekið fram, að hann mætti nota skipið til flutninga meðfram  ströndum  landsins og  um sumarið lagði hann upp  vörur í Vík í Mýrdal, til sölu þar  um  kauptíðina og til hægðarauka fyrir Skaftfellinga. Guðmundur var sjálfur  á  skipinu sem hét "Terpsichore" (Dansgyðjan) og var frá Borgmundarhólmi, en skipstjórinn hét Bayer að eftirnafni. Hélt Guðmundur svo  austur með  ströndinni, að  lokinni verslun í Vík, til þess  að athuga, hvort mögulegt væri að flytja  vörur sjóleiðis til Öræfa. Þegar þar kom var blíðviðri og stilltur sjór. Öræfingar  komu út að  skipinu á alls tórum  róðrabát og tóku í  hann  vörur, sem þeim farnaðist vel með í  land. Var þetta í fyrsta  sinn, sem þeir fengu  vörur sjóleiðis og voru þeir því afar kátir.

Eftir þetta hélt Guðmundur áfram verslun í Vík  og  mun það hafa flýtt fyrir, að  reglulegar samgöngur þangað sjóleiðis  komust á.  En það var M/s "Skaftfellingur", sem  um langt  skeið, hélt uppi  strandferðum á áðurnefndu svæði, og greiddi úr örðugleikum sýslubúa til viðskipta sem og önnur vöruflutningaskip, á þessum tímum sem vegsamgöngur voru engar.

Heimild: Guðmundur Ísleifsson, Ægir 1934

04.06.2012 21:31

Skipað á land á 8 dögum

Í  vikunni fyrir hvítasunnu 1934 láu tvö skip  hér á  Eyrarbakka, sem flutt höfðu hingað  vörur.  Var  annað  skonnortan "Pax", sem  flutti  inn timbur og lá á  sundinu. Hitt var  eimskipið "Eros", sem fermt var matvælum og  sementi og lá það fyrir  utan brimgarðinn  ( skerin).  Kaupfélagsstjóri var þá Egill  Thorarensen í Sigtúni og veitti  hann vörum  þessum móttöku fyrir kaupfélag Árnesinga.

Á átta dögum var  skipað á  land úr "Eros",  um 1100  tonnum, og  úr "Pax", 80  standard (búntum) af  timbri, og  auk þess 10 tonn af  öðrum  varningi. Þóttu þetta mikil afköst, en þó ekki met á Eyrarbakka.

Heimild: Ægir 1934

27.12.2011 20:16

Auglýsingar


Bræðurnir Kristjáns 1930

Verslun Guðlaugs Pálssonar 1930

Einarshöfn 1912

18.12.2011 19:37

Verslunin Dagsbrún auglýsir

Verslunin Dagsbrún var rekin bæði á Eyrarbakka og í Reykjavík. Á Bakkanum var verslunin í "Regin" árið 1912 ásamt skrifstofu undir stjórn Þorleifs Guðmundssonar frá Háeyri. Hús það sem stóð handan við Regin og Þorleifur verslaði í á árunum áður var með versluninni Dagsbrún notað sem pakkhús.

Í Reykjavík seldi verslunin aðalega vefnaðarvörur og föt. Þar var einnig saumastofa undir stjórn Guðmundar Sigurðssonar skraddara. En á Eyrarbakka voru einnig alhlhiða nauðsynja og munaðarvörur til sölu, eins og auglýsingin ber með sér.

Síðar stóð hús sem "Dagsbrún" hét þar skamt frá, sunnan götunar og austan við "Læknishús"

Heimild: Suðurland 1912

08.12.2011 21:57

Lyfjabúðin auglýsir

Eyrarbakka apotek
Um 1930 rak Lárus Böðvarsson apotekið á Eyrarbakka, en áratug  áður, 1919 var stofnuð fyrsta  lyfjabúðin á Eyrarbakka sem þjónaði sunnlendingum nær og fjær um árabil. Lyfsalinn K.C. Petersen var danskur og hafði áður verið við Apotek Reykjavíkur um nokkur ár, þar til hann flutti á Bakkann. Keypti hann Þá gömlu Heklu húsin, (Kf.Hekla)og lét breyta þeim að innan samkvæmt nýjustu týsku þess tíma. Árið 1928 varð lyfjaverslunin gjaldþrota og var henni þá lokað að kröfu erlends lánadrottins. Meðal þess sem var til sölu í lyfjabúðinni á Eyrarbakka var: Gerpúlver í bréfum og lausri vígt. Eggjaduft, sem var á við 6 egg. Sitrondropa. Vanilledropa. Möndludropa. Krydd allskonar í bréfum og Sodapulver.

Lyfjavörur: Álún. Borax. Kolodinm. Glycerin. Heftiplástur. Flugnalím. Magnesia. Kamillute. Kúrneti. Einiber. Vaselin o. fl. Meltingar- og styrkjaudi lyf: Barnamél. Agernkacao. Maltsaft, Lýsi. Hunang o. fl.
Sóttvarnarlyf: Klórkaik. Kreolin. Lysol. Blývatn. o. fl. - ilástalyf: Lakríslíkjör. Mentholtöblur. Montreuxpastillur. Terpinoltablettur. Sen Sen.
Tyggegumi o. fl.
Hreinlætisvörur: Tannpasta. Coldcream. Varasmyrsl. Kolodonia. Arnickiglycarín. Hárspiritus. Eau de Cologne. Frönsk ilmvötn. Handsápur o. fl.
Hjúkrunarvörur: Gumiléreft, Bómull. Sjúkrabindi. Kviðslitsbindi. Skolunaráhöld. Hitamælar. Greiður. Svampar. Sprautur. Tannburstar o. fl.
Tekniskar vörur: Brennisteinssýra. Saltsýra. Salmiakspirítus. Brennisteinn. Talcum. Viðarkvoða. Schellak. Krít. Gips. Linolía. Bæs. Terpentínolia. Suðuspiritus o. fl. - Sadol, aesti pólitúr á húsgögn,- hljóðfæri, ramma o. þ. h.
Ratín: Besta rottueitur; drepur aðeins rottur og mýs.
Einnig: Suðufsúkkulaði. Átsúkkulaði. Konfect. Brjóstsykur. Piparmintur. Af af bestu tegund. Lit í pökkum til ½ °og 1 punds. - Málningarvörur allskonar. Pensla af öllum stærðum. Niðursoðið, svo sem: Leverpostej. Kjötbollur. Fiskibollur. Soya. o. fl. Skósvertu. Fitusvertu. Ofnsvertu. Fægiefni. Bláma. - Flugnanet. Kraftskurepuiver o. fl. o, fl. Munntóbak. Vindlar. Cigarettur og Reyktóbak.

Heimild: Þjóðólfur 03.11.1919/ Skinfaxi 21.arg.1930 /Árb. HSK 4.arg.1929 <Timarit.is

13.11.2011 17:46

Verslun hefst á Sokkseyri.

Stokkseyri um 1900Eyrarbakkaverslun var á sínum tíma stórveldi í verslunarrekstri, en til hennar sóttu bæði Árnesingar, Rangæingar og Vestur-Skaptfellingar. Þá höfðu nokkrir einstaklingar verslun á Eyrarbakka með misjöfnum árangri og eru Einar borgari Jónsson og Þorleifur ríki Kolbeinsson kunnastir. Um 1880 bjó ungur maður, Bjarni Pálsson  í Götu í bæjarhverfinu á Stokkseyri og hafði hann starfað um skeið hjá Eyrarbakkaverslun. Hann sá hagnaðarvon í því að setja á fót  verslun á Stokkseyri, en lestirnar austan úr sýslum runnu þar hjá á leið sinni út á Bakka. Að vísu hafði hann ekki  verslunarleyfi, en það sem verra var, að á Stokkseyri  var engin löggilt höfn. Þá bar það til eitt vor, að sr. Stefán Stephenson  prestur á Ólafsvöllum  kemur að Götu og biður Bjarni hann að hefja máls á því  á þingmálafundi, að löggilt verði höfn á Stokkseyri. Prestur gerir svo  og hafði sitt mál fram á fundinum, þrátt fyrir nokkur andmæli. Um þingtímann var Bjarni í Reykjavík, til þess að útskýra  málið, því talsverður andróður var gegn því, en svo lauk, að höfnin var löggilt 1. apríl 1884. Ekkert varð þó úr verslun á Stokkseyri, að sinni, og drukknaði Bjarni á þrítugasta aldursári, árið 1887 er sexmannafar er hann var formaður fyrir, fórst við sjöunda mann í þrautalendingu við Þorlákshöfn.

Skúli Þorvarðsson /mynd:althingi.isUm þessar mundir var í bígerð að stofna pöntunarfélag í Árnessýslu. Gekkst Skúli alþingismaður Þorvarðsson á Berghyl fyrir því að nokkru. Sóttist hann eftir liðsinni Rangæinga. Var einn þeirra Þórður alþingismaður Guðmundsson á Hala, og boðaði hann til fundar á Stórólfshvoli árið 1888. Var þar pöntunardeild stofnuð, og Þórður kosinn deildarstjóri. Fjelagið var nefnt "Kaupfjelag Árnesinga". Tilgangur þess var að útvega "betri vörur og betra verð". Á þessum tímum voru allar ár í austursýslunum óbrúaðar, og olli það félaginu miklum erviðleikum. Félagið sótti og sendi vörur sínar til Reykjavíkur, og þótti þeim örðugt, sem lengsta áttu leiðina, eins og von var. Talsverður hagur þótti mönnum að því að versla við félagið, bæði með útlendar vörur og innlendar. Þeir sem ekki áttu mjög langa leið á »Bakkann«, en langt til Reykjavíkur, treystu sér ekki til að halda áfram viðskiptum við félagið, sökum erviðra ferðalaga. Var þetta til umræðu á fundi á Húsatóftum haustið 1889. Börðust þeir Þórður á Hala og síra Jón Steingrímsson í Þórður Guðmundsson frá Hala/mynd: althingi.isGaulverjabæ einna mest fyrir því, að skipta félaginu. Vildu uppsveitamenn í Árnessýslu versla áfram í Reykjavík, en Rangæingar og sumir Ámesingar mynduðu nýtt félag, sem kallað var "Stokkseyrarfélagið". Var ákveðið að fá vöruskip að Stokkseyri og kom fyrsta skipið 1891. Þetta skip kom tvisvar um sumarið, en sigldi nær því tómt til baka, í bæði skiptin. Aðalframkvæmdarmaðurinn í öllu þessu mun hafa verið Páll Briem, þá sýslumaður, en síðar amtmaður, fyrir norðan. Hann var formaður Stokkseyrarfélagsins, þangað til hann flutti norður.

Fyrsta verslunarskipið  sem kom til Stokkseyrar fór ekki inn á höfnina, en  árið eftir (11. Júlí 1892, ) kom Þýska skonnortan"Tankea", rúmlega 90 tonn að stærð og var það fyrsta skipið sem lagðist inn á Stokkseyrarhöfn. Þá var farið að versla með sauði til Englands, og námu viðskiptin 50 þús. kr. fyrsta árið. Verð á sauðum var 16-24 kr. Litlu síðar komust viðskiptin upp í 90 þús. kr. og urðu aldrei hærri síðan. Mestan hnekkir beið Stokkseyrarfæelagsins, þegar innflutningur á lifandi sauðfjé til Englands var bannaður. Komst félagið þá í 27 þús. kr. skuld við umboðsmann sinn, L. Zöllner.

Fyrsti afgreiðslumaður félagsins var ívar Sigurðsson, en hann varð fyrstur til að fá borgarabréf á Stokkeyri árið 1889. Hann hafði byrjað að versla í mars það ár í smábúð á Stokkseyri í litlu húsi, sem Grímur Gíslason í Óseyrarnesi átti þar. Hafði verið svo til ætlast, að þeir Grímur og Bjarni í Götu hefðu þar smáverslun, en það fórst fyrir við fráfall Bjarna sem fyrr er getið.

Grímur Gíslason í NesiÞað stóð verslun á Stokkseyri talsvert fyrir þrifum að þar var engin vörugeymsla fyrir hið nýja félag og rættist ekki úr því fyr en 1894, að Grímur í Nesi réðst í að byggja tvílyft geymsluhús, sem var 40 álna langt, 12 álna breitt. (brann til kaldra kola 1927) Ólafur Árnason var umsvifamikill kaupmaður á Stokkseyri um langt skeið. Hann stofnaði verslun árið 1894 í skjóli Stokkseyrarfélagsins í fyrstu en sá svo um pantanir þess síðustu árin. Árið 1907 stóð Ólafur að stofnun kaupfélagsins Ingólfs ásamt bændum einkum úr Rangárvallasýslu. Formaður fjelagsins var kosinn Eyjólfur Guðmundsson í Hvammi. Kaupfélagið Ingólfur rak mikla verslun fram yfir 1918 með útibúi á Eyrarbakka en starfsemin lognaðist útaf 1923.

Við manntalið 1890 voru á Stokkseyri 269 menn, þar af örfáir þurrabúðarmenn, en 1914 bjuggu þar 658 manns (allt þurrabúðarmenn) en þá var Stokkseyri  í mestum blóma. Á þessum árum voru flest allir torfbæirnir rifnir og timburhús byggð.

Aðrir verslanarekendur á Stokkseyri undir lok 19. aldar: Árið 1896 byrjaði Jón Þórðarson, kaupmaður í Reykjavík, með  verslun á Stokkseyri, en Björn Kristjánsson flutti þangað vörur um tveggja ára skeið. Árið 1898, keypti Edínaborgarverslunin í Reykjavík reksturinn og hafði hún þarna útibú í nokkur ár en þá tók Jón Jónsson & Co við henni. Umsvifamikil vínsala var í þessum verslunum og drykkjuskapur óhóflegur á þessum árum. Verslunarfélagið "Ingólfur" tók síðan þessa verslun yfir. Þá má geta þess að Lefolisverslun á Eyrarbakka hafði útibú á Stokkseyri um nokkur ár, til saltgeymslu og fisktöku, m. fl. Um 1928 var rekin verslun á Stokkseyri undir nafninu "Brávellir" en síðan var Kaupfélag Árnesinga lengst af með útibú á Stokkseyri.

StokkseyrarhöfnStokkseyrarhöfn: Eins og fyrr er getið hafði Bjarni Pálsson haft orð fyrir löggildingu hafnar á Stokkseyri skömmu eftir 1880. Grímur Gíslason í Óseyrarnesi lét síðan setja þar landfestar. Ólafur Árnason kaupmaður, hafði forgöngu um, að fengnir voru kafarar frá Danmörku, til að dýpka skipaleiðina og víkka höfnina. Var unnið að þessu í þrjú sumur og mun verkið hafa kostað um 24 þús. krónur. Lagði landssjóður til 16 þús., en Rangárvallasýsla, Árnessýsla og Ólafur Árnason afganginn. Höfnin var þó aldrei hættulaus, því alls hafa slitnað upp á höfninni fjögur verslunarskip, og þrjú hafa strandað annarstaðar, áður en þau næðu höfn. Af þessum 7 skipum strönduðu þrjú, sumarið 1906. Ekkert gufuskip komst inn á sjálfa höfnina, en fyrsta gufuskipið sem sigdi til Stokkseyrar var sænska skonortan "Toncea".

Heimildir: Páll Bjarnason /Tímarit kaupfjelaga og samvinnufélaga 1914. http://www.landogsaga.is/section.php?id=9&id_art=141&id_sec=172

http://www.heimaslod.is/index.php/Blik_1971/P%C3%A1ll_Bjarnason,_sk%C3%B3lastj%C3%B3ri,_fyrri_hluti

http://eyrbekkingur.blogspot.com/2011/03/sjoslys-i-rorum-vi-eyrarbakka.html

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2172714

http://brim.123.is/page/7811/

24.03.2010 22:51

Gufubáturinn s/s Njáll

Eftir að Eyrarbakkaverslun missti strandferðabátin Odd upp í Grindavíkurfjöru 1904 var þegar hafist handa við að útvega nýjan gufubát og árið eftir var keyptur bátur frá Leith í Skotlandi og fékk hann nafnið Njáll. Hann var 21.47 lestir nettó, eða nokkru stærri en Oddur og með gufuvél. Njáll kom í fyrsta sinn til Eyrarbakka 30. apríl 1905 og hóf fljótlega að vinna sömu störf og Oddur, þ.e.a. sinna strandsiglingum og aðstoða kaupskipin á Eyrarbakka. Hann sleit frá legufærum sínum ( Miðlegan svokölluð) á Eyrarbakkahöfn 13. sept. 1906 í suðaustan stórviðri og hafróti. Svo flóðhátt var, að hann barst yfir öll sker án þess að koma við, og kom heill upp í sand með fulla lestina af rúgmjöli, sem hann hafði komið með frá Reykjavík daginn áður og var því öllu skipað á land. Aðrir bátar skemdust mikið á Eyrarbakka í þessu veðri. 13 opin skip kvað hafa brotnað þar auk skútu sem var með vörur til Ólafs Árnasonar kaupmanns á Stokkseyri. Næsta vor náðist Njáll á flot, en ekki varð meira úr strandferðum hans, en í staðinn var keyptur mótorbátur, sem hét "Hjálpari".

Skipstjórinn á Njáli var danskur, og þótti að mörgu leyti góður drengur og prúðmenni, en vínhneigður um of. Stýrimaðurinn var Sigurjón P. Jónsson, duglegur og góður drengur fæddur og uppalinn á Eyrarbakka, en hafði verið í siglingum erlendis, og lokið þar stýrimannsprófi. (Sigurjón var síðar vel þekktur, sem skipstjóri á flóabátnum "Ingólfi"). Á skipinu var, auk skipstjóra og stýrimanns, 10 manna áhöfn: 4 Danir og 6 Eyrbekkingar, meðal þeirra Jón Sigurðsson síðar hafnsögumaður, og Jóhann Guðmundsson frá Gamlahrauni og Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli.
 
Heimild: Ingólfur 4.tbl 1906  Ísafold , 59. tbl. 1906  Sjómannablaðið Vikingur (Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.) Á sjó og landi- Tímagreinar eftir Sigurður Þorsteinsson.

11.03.2010 23:33

Kaupfélagið Hekla

Skip á sundinuVerslunarfélagið Hekla var í upphafi hlutafélag stofnað af Gesti Einarssyni (1880-1918) á Hæli, en samvinnufélag var stofnað 26.janúar 1907 og keypti það verslunina sem þá fékk nafnið Kaupfélagið Hekla. Með Gesti voru 15 bændur af Suðurlandi. Framkvæmdarstjóri félagsins var Guðmundur Guðmundsson glímukappi. Ársvelta félagsins var rúm 184 þúsund krónur og skilaði umtalsverðum hagnaði fyrstu árin. Árið 1913 greiddi félagið 11% arð til skuldlausra félagsmanna. Samkeppni á Eyrarbakka var enn nokkuð mikil, en áður hafði Lefolii verslun verið ein og ráðið lögum og lofum í verslunarviðskiptum, en 1.sept.1909 hafði þeirri verslun verið breytt í hlutafélagið Einarshöfn hf til þess aðalega að fríska upp á ímyndina. Árið 1919 keypti kaupfélagið Hekla allar eignir Einarshafnarverslunar hf, þar með talið jarðirnar Einarshöfn og Skúmstaði á 80 þúsund krónur. Þá fluttu samvinnumenn stöðvar sínar í vesturbúðirnar, en aðstaða Kf. Heklu austan Gónhóls var seld.

 Skonortunum var lagt eftir fyrri heimstyrjöld og stærri gufuskip hófu vöruflutninga á milli landa. Höfnin var orðin of lítil.    Það var margt sem var farið að hamla gegn stóru versluninni á Bakkanum og var það ekki síst fyrri heimstyrjöldin, en á styrjaldarárunum voru skipaferðir á Bakkann orðnar strjálar vegna víðsjár stríðsins og vörur af skornum skamti. Eftir stríð voru skipin orðin stærri og flest of stór fyrir hafnarlægið á Eyrarbakka. Þá voru samgöngur orðnar betri til Reykjavíkur og höfn þar í byggingu. Vaxandi samkeppni við smá kaupmennina og samvinnuverslunina varð til þess að draga máttinn úr verslunarrisanum. Danir höfðu séð sæng sína útbreidda, þróun verslunar til framtíðar  yrði ekki umflúin. Heklumenn sem sátu nú einir að bændamarkaðnum austanfjalls hugðu því gott til glóðarinnar.

  Dönsku verslunarhúsin komust í eigu Kaupfélagsmanna  Kaupfélagsmenn áttuðu sig of seint á aðstæðum og sátu nú fastir eins og mús í gildru. Árið 1920 varð mikið verðfall á vörum og fasteignum og sat því félagið uppi með óvinnandi skuldir. Það varð ekki til að bæta stöðuna að bændur fóru í æ meira mæli að sækja til Reykjavíkur sem var í örum vexti með tilkomu hafnar og aukinnar verslunar. Á meðan kaupfélagsmenn börðust í bökkum setti Egill Thorarensen í Sigtúnum upp verslun við Ölfusá (Selfoss) sem var í vegi bænda er komu austan úr héraðinu og gerði það útslagið. Bændaverslunin á Eyrarbakka hrundi síðla árs 1925 þegar Kf Hekla hætti starfsemi. Aftur kom það Reykvíkingum til góða, því þangað urðu sunnlenskir bændur að fara með afurðir sínar fyrst um sinn.

 

Heimild: Árnesingur II Lýður Pálsson  Morgunb. 91 tbl 1914  Þjóðólfur 1-2. tbl 1919

09.03.2010 00:34

Guðmundubúð

Guðmunda NíelsenÁ árunum eftir aldamótin 1900 voru allmargar verslanir á Eyrarbakka, svo sem Verslunin Einarshöfn, Verslunin Hekla, Verslun Andrésar Jónssonar frá Móhúsum ofl. Um 1920 stofnaði Guðmunda Nielsen (1885-1936) verslun í nýbyggðu steinhúsi er hún lét sjálf reisa og húsinu var gefið nafnið Mikligarður. Hún hugðist fara í samkeppni við risan á markaðnum, kaupfélagið Heklu sem þá nýverið hafði tekið yfir verslunina Einarshöfn, hina fornu Lefolii verslun. Verslun Guðmundu lifði aðeins í tvö ár, en þá varð hún gjaldþrota. Eyrarbakkahreppur eignast húsið á stríðsárunum. Fyrir tilstuðlan hreppsins setti Hampiðjan á stofn netagerð í Miklagarði árið 1942 en síðan hófst þar framleiðsla á einangrunarplasti. Eftir að Plastiðjan hf var seld í burtu stóð húsið autt um tíma. Mikligarður komst aftur í eigu Eyrarbakkahrepps eftir að hreppurinn og pönnuverksmiðjan  Alpan hf. höfðu makaskipti á eignum. Við sameiningu sveitarfélaganna færðist Mikligarður til Árborgar. Þar á bæ stóð hugur til að rífa bygginguna, en sem betur fer voru til menn sem töluðu um varðveislugildi þess út frá sögulegu sjónarhorni svo sem Lýður Pálsson safnvörður. Þá varð úr að hlutafélagið Búðarstígur 4 ehf eignast húsið árið 2005 með því skilyrði að gera það upp og hefur Rauða Húsið haft þar aðsetur síðan.  

Mikligarður skommu fyrir aldamótin 2000Guðmunda var einstök hæfileikakona á sinni tíð, safnaði m.a. nótum og uppskriftum, samdi ljóð og gaf út matreiðslubók. þá æfði hún talkór líklega þann fyrsta á Íslandi, sem talaði kvæði í stað söngs. Hún var organisti Eyrarbakkakirkju til fjölda ára. Eftir að verslun hennar varð gjaldþrota hóf hún að reka Hótel í Tryggvaskála við Ölfusá. því næst flutti Guðmunda til Reykjavíkur og stofnaði heimabakarí að Tjarnargötu 3. Guðmunda var afkomandi faktoranna í Húsinu.


Heimild: Morgunbl. 173 tbl 1928 36.tbl.1986 C2 1989 98 tbl.1999 http://husid.com/i-deiglunni/  

Þennan dag:1685, Góuþrælsveðrið, teinæringur fórst á Eyrarbakka með 9 mönnum.

04.03.2010 23:32

Ólabúð

Ólafur Helgason kaupmaðurÁrið 1920 setur Ólafur Helgason upp verslun í Túnbergi á Eyrarbakka en húsið var byggt af Eiríki Gíslasyni smið í Gunnarshólma 1914. Ólafur var fæddur 21. júlí 1888 að Tóftum í Stokkseyrarhreppi (d. 19.9. 1980). Hann fluttist til Eyrarbakka 1912 og réðist þá í þjónustu kaupfélagsins Ingólfs, en því veitti forstöðu Jóhann V. Daníelsson, síðar tengdafaðir Ólafs, en árið 1914 kvæntist hann Lovísu dóttur hans. Ólafur var meðal fyrstu manna í þorpinu sem eignuðust bíl og meðfram kaupmennskunni var Ólafur nokkurskonar leigubílstjóri á árunum 1919 1932 og ók farþegum út um sveitir eða flutti lækni og sýslumann erinda sinna um héraðið. Síðar var Ólafur oddviti Eyrarbakkahrepps og þar eftir hreppstjóri um áratuga skeið. Með versluninni hafði hann útsölu fyrir Olíuverzlun Íslands og voru dælurnar við götuna framan við búðina. Samkeppni í verslun var hörð á Bakkanum enda kepptu enn þrjár verslanir um hilli þorpsbúa, en það var auk Ólabúðar, Verslun Guðlaugs Pálssonar og Kaupfélag Árnesinga. Árið 1966 ákvað Ólafur að auglýsa verslunina til sölu og setjast sjálfur í helgan stein.

Árið 1971 setur kaupmaður úr Reykjavík upp lampa og gjafavöruverslun í Túnbergi og var hún í rekstri nokkur ár.

Frá 1. febr 1989 og fram til 1990 ráku hjónin Hjálmar Gunnarsson og Guðrún Melsteð verslun í Túnbergi undir sínu gamla nafni Ólabúð. Árið 2006 keypti svo þekktur listamaður Túnberg en ekki er þar lengur verslun.
Ólabúð annað hús frá hægri

Heimild: Mbl. 223 tbl 1990 44 tbl 1989 Alþbl. 157 tbl.1963 161 tbl 1958

 

02.03.2010 00:39

Verzlun Guðlaugs Pálssonar

Guðlaugur PálssonÞann 4. desember 1917 fékk Guðlaugur Pálsson (f. Á Blönduósi 1896) leyfi til að reka verslun á Eyrarbakka. Áður en Guðlaugur hóf rekstur eigin verslunar hafði hann unnið við verslunarstörf í tvö ár hjá Sigurði Guðmundssyni kaupmanni á Eyrarbakka, en þá bauðst honum að kaupa verslunina. Fyrstu tvö árin rak Guðlaugur verslun sína í Kirkjuhúsi sem er skammt vestan við verslunarhúsið sem kent er við hann (Laugabúð),en leiguna fyrir Kirkjuhús greiddi Guðlaugur með póstferðum á Selfoss og til Stokkseyrar tvisvar í mánuði á vetrum og fjórum sinnum á sumrin. Árið 1919 keypti Guðlaugur Sjónarhól, þar sem hann rak verslun sína allt til síðasta dags. Í upphafi var verslun hans nær eingöngu vöruskipptaverslun, þar sem íbúar nærsveitanna lögðu inn kartöflur, ull ofl sem hann svo kom í verð í Reykjavík. Á síðari tímum var Laugabúð helsta aðdráttarafl ferðamanna á Eyrarbakka, enda búðin nánast óbreytt frá fyrstu tíð og ekki þótti það síður athyglisvert sú hátta kaupmannsins að nota ekki reiknivélar, heldu voru öll verð lögð saman í hugarreikningi með aðstoð blýants og kartonpappírs. Guðlaugur andaðist 1993, en í lifanda lífi var hann þjóðkunnur og handhafi fálkaorðu fyrir að helga sig verslunarstörfum nær alla sína starfsæfi, sem spannaði 76 ár fyrir framan búðarborðið. Kona hans var Ingibjörg Jónsdóttir frá Garðhúsum(d.1984)  Búðarborðið er til sýnis í Húsinu, en búðin stendur á sínum stað. Fyrir nokkrum árum lét Magnús K Hannesson gera húsið upp í sinni upprunalegu mynd. Í búðarglugga kaupmannsins má nú oft sjá ýmislegt bregða fyrir frá fornu fari.
 Verslun Guðlaugs Pálssonar um 1920

Heimild Morgunbl. 167 tbl 1978 versl.blað 62 tbl 1983 267 tbl 1987

Á þessum degi:1976 Hafrún ÁR 28 ferst út af Reykjanesi með 8 mönnum. Skipið var stálskip smíðað í Þýskalandi 1957. 1987 Vinna hefst við Óseyrarbrú.

Flettingar í dag: 169
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 3167
Gestir í gær: 73
Samtals flettingar: 384280
Samtals gestir: 43270
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 02:37:20