Flokkur: Verzlunarsaga
05.04.2023 23:44
"Grútarnir" á Bakkanum
Árið 1930 Keypti Kaupfélag Árnesinga Verslunarhúsin á Eyrarbakka, steyptu löndunarbryggju þar sem áður voru brautarteinar frá verslunarportinu niður að sjó og létu smíða tvo uppskipunarbáta sem voru dregnir af vélbáti út á sundið þar sem gufuskip lögðu við festar. Þessir prammar gátu borið talsverðan farm. Það var ekki síst salt sem var flutt til lands og saltfiskur í skip til útflutnings á þessum prömmum. Þegar Kaupfélagið kom sér fyrir í Þorlákshöfn og lét rífa búðarhúsin stóðu þessir prammar eftir hlið við hlið sem dapur vitnisburður um hnignandi verslun á Bakkanum og fengu að grotna þar óáreittir áratugum saman. Fyrir krakka í hverfinu nýttust þeir þó sem leikvöllur í ímynduðum heimi víkinga og sæfara. |
02.05.2021 23:07
Bankamálið
09.05.2013 21:43
Sú var tíðin, 1927
Upp voru runnir hallæristímar fyrir Eyrbekkinga og Stokkseyringa. Stórverslunin var í kalda koli á báðum stöðum og upp leyst. Verslunarhús Stokkseyringa brunnin til ösku. Burðarás útgerðarinnar, sparisjóðurinn hruninn. Ótíð hamlaði róðrum stórum hluta vertíðar, svo ágóðinn var lítill sem enginn. Landbúnaður og garyrkja var þá eina bjargræðið um sinn. Kreppa ein blasti hinsvegar við með alla sína hnignun, og til að bæta grá ofan á svart, henti hörmulegt sjóslys og átta sjómenn féllu í valinn. Efiðleikar urðu með rekstur rafstöðvarinnar, og stefndi í óefni. Sitthvað ávannst í framfaramálum, þrátt fyrir allt: Símasamband komst á milli Eyrarbakka og Selvogs, sjómönnum héðan til öryggis er sóttu vestur á "Forir". Kvenfélagið fékk því áorkað að símasamband fékst að næturlagi við Tryggvaskála, svo unt yrði að kalla lækni upp til sveita, ef mikið lá við. Svo einhverstaðar í höfuðstaðnum skaut upp þeirri hugmynd að tómri sjúkrahúsbyggingunni okkar mætti breyta í betrunarhús og letigarð fyrir vandræðafólk úr Reykjavík. Kom þá dómsmálaráðherra hingað til að kanna aðstæður. Fleiri hugmyndir komust á kreik, t.d. að hefja þangbrennslu í stórum stíl. Kosið var til Alþingis og gengu yfir 300 mans til kjörklefans hér. Íbúar voru þá 701 og hafði fækkað um 53 frá fyrra ári. Á undangengnum fjórum árum höfðu íbúar á Eyrarbakka og Stokkseyri fækkað um 150 á hvorum stað. Eyrbekkingarnir fóru til Reykjavíkur, en Stokkseyringarnir til Vestmannaeyja. Hin svokallaða "borgarastétt" var nú að mestu horfin.
Verslun: Bændur hér í nærsveitum gerðu
núorðið stórinnkaupin í Reykjavík, enda hægara um vik á bílaöldinni.
Austanbændur fengu skip að Hallgeirsey og víðar í austursýslum. Það leiddi til
þess að verslunin á Eyrarbakka varð í kalda koli. Fyrir stærstu verslun
suðurlands, "Heklu" var ekki annað að gera en að reyna að sitja fyrir nærsveitarbændum
og bregða fyrir þá fæti, með því að flytja verslunina að þjóðbrautinni eða
deyja ella. Því tók Guðmundur Kaupfélagsstjóri það ráð að flytja verslunina á
Selfoss, undir merkjum Kf. Höfn, en kaupfélagið (Samvinnufélagið) Hekla var
leyst upp. [Hús öll voru seld eða leigð og vörubirgðir, vefnaðarvörur seldar á
útsölu í Reykjavík.] Þá var Andrés Jónsson verslunarmaður hættur með búð sína
hér og fluttur í höfuðstaðinn. Samt sem áður voru ekki allir verslunarmenn hér
við ströndina af baki dottnir, þó bændaverslunin væri liðin tíð. Otto
Guðjónsson klæðskeri kom sér fyrir í Skjaldbreið, húsi Guðmundar og saumaði föt
á sunnlendinga. Ólabúð, verslun Ólafs Helgasonar átti sína föstu viðskiptamenn
á austurbakkanum, auk þess sem þar var rekin leigubifreiðaþjónusta. Ágæt
byggingavöruverslun var í timburverslun Sigurjóns P Jónssonar. Guðlaugur Pálsson
átti sína föstu viðskiptamenn á vesturbakkanum. Aðrir höndlarar voru líka enn á
róli þó illa horfði með framtíðina. Á
Stokkseyri hélt Ásgeir Eiríksson o.fl. sínu striki, en verslun þar átti í sömu
vök að verjast. Bakarí var nú eitt hér eftir í brauðgerðarhúsinu, er keypt
hafði Lars Lauritz Andersen bakari af Kf. Heklu. Hafði hann fyrrum verið bakari
hjá Lefolii og Einarshafnarverslun. Hvað sem öllu leið þá var bændaversluninni á
Eyrarbakka með öllu lokið, en hún hófst árið 1578 þegar danir settu hér upp
selstöðuverslun.
[Johan Chr. Sunckenberg, keypti Eyrarbakkaverslun og jarðirnar
Einarshöfn og Skúmsstaði 25. júlí 1795 af hinni konunglegu íslenzku- og finnmersku-verzlunarnefnd,
fyrir 319 rd. 85 sk. Verzlunarstjóri Sunckenbergs var þá Niels Lambertsen.
Þegar Sunckenberg dó, gerðist Lambertsen kaupmaður á Eyrarbakka og keypti
jarðirnar af búi Sunckenbergs, 16. marz 1807, fyrir sama verð. Verslunin kemst í eigu Lefolii árið 1868]
Skipaferðir: "Bro" kom hingað til Eyrarbakka og
Stokkseyrar á vegum Eimskipafélagsins með vörur að utan. Þá kom norska
kolaskipið "Aglo" en þegar það var að leggja af stað héðan þann 13. júlí til
Grindavíkur að sækja fiskúrgang, bilaði vél þess og skipið strandaði, og gekk
kjölur þess undan, en veður var stilt og brimlaust. Skipið náðist út aftur 16.
ágúst, eftir að viðgerð á því hafði farið fram. "Aglo" var seglskip með hjálparvél og var um
250 tonn. Gullfoss kom hér við tvö skipti frá útlöndum. Lefolii eldri, gerði
skipaleguna
[Nokkuð örugg skipalega var á Eyrarbakka frá 1868 sem J.R.B. Lefolii lét útbúa með öflugum
járnhlekkjafestingum, þvert um lónin, sem skipin gátu svinglað við og snúist
sem vindhani. Áður voru skipin "svínbundin" við skerjafestur, og gat komið
fyrir að skip slitu sig frá. Bryggju lét hann byggja, með sporbraut heim að vöruhúsinu. Var ekið þar
nokkrum þungum hlössum í senn, og heilum förmum, á brautarvögnum, áratugum
saman, meðan kolin voru borin á bakinu í Reykjavík.]
Slys: Snemma dags 5. apríl fóru allir
bátar á Eyrarbakka að vitja um net sín.
En vegna roks og brims gátu þeir ekki vitjað um öll netin, og lögðu því til
lands aftur. Þá voru tvo
flögg dregin á stengur í landi til aðvörunar fyrir sjómenn héðan um að leita
sem skjótast til lands, því sjór var tekinn að brima [Þrjú flögg táknuðu ófær
sund]. Klukkan að ganga tvö e.h. voru allir bátar komnir, að undanteknum þremur.
Einn þeirra var "Framtiðin". [Sæfari 1] Kom hún um kl. 1:30 upp að brimgarðinum og sætti lægi [beið nokkra
stund við Bússusund]. Þá var kominn hornriðabrim [ afar háar kviköldur og
hvítfyssandi fallsjóir, bæði af hafsjó og stormöldu]. Báturinn lagði inn við hentugt lag og er hann var
kominn nokkuð inn á sundið [við "Brynka"2] skall yfir hann svo hár
og mikill brotsjór, að hann bar ekki undan, og sást báturinn ekki framar - sökk
á svipstundu. Á bátnum voru 8 menn, þeir hétu: Guðfinnur Þórarinsson, formaður,
kvæntur, tveggja barna faðir. Páll Guðmundsson, (rennismiðs Jónssonar) Leifseyri,
kvæntur, 6 barna faðir. Víglundur Jónsson, Björgvin (Smáskamtalæknis
Ásgrímssonar) giftur, átti tvö börn. Sigurður Þórarinsson, (sjómanns Jónssonar)
Vegamótum, ógiftur. Kristinn Axel Sigurðsson,(Sigmundssonar) Túni, ógiftur, hann
var 20 ára. Jónas
Einarsson, Garðhúsum, aldraður maður, átti uppkomin börn. Gísli Björnsson,
Litlu-Háeyri, ógiftur. Ingimar Jónsson, (Fæddur 1904, Skósmiðs Guðbranssonar)
Sandvik, var hjá foreldrum sínum. Allir þessir menn voru af Eyrarbakka, alvanir
sjómennsku og einvala lið3.
[1. Guðfinnur hafði þá
nýverið keypt hlut Kristins Vigfússonar í bátnum "Framtíðin" með mági sínum
Sigurjóni Jónssyni fiskimatsmanni og
nefndi hann "Sæfara" eftir eldri báti hans sem gjörónýtist í vonsku veðri á
síðustu vertíð.]
[2. Utarlega á sundinu
er boði, sem "Brynki" nefnist. Afar sterkur vestur-straumur (í vesturátt) er
í sundinu og ræður útfallið og fráfallið úr Ölfusá, miklu, hvað strauminn
snertir, svo og vindurinn, sem var afskaplega harður af austan þennan dag. Þegar
lagt er inn á sundið, þarf að gæta þess, að vera svo vestarlega "í
sundkjaftinum", sem mögulegt er og sneiðskera það síðan alla leið inn úr,
hálf-flötu skipi fyrir sjóunum og er skerið "Brynki" þá einna hættulegast,
enda varð sú raunin á, þegar báturinn fór þar framhjá tekur brot sig upp í
skyndi, án þess þó að falla, en skellur svo hart á hlið bátsins að hann veltur um
og sekkur ofan í brimgarðinn. Er það talið orsökin til þess að svona fór, að
boðinn var hár og svo þunnur og sjólítill, að báturinn hafði ekki nægan sjó til
stuðnings á hléborða.]
[3 Verkamannafélagsið Báran á Eyrarbakka fékk Rikarð Jónsson til að gera skjöld
til minningar um sjómennina, er fórust mað Sæfara. Efnið í skildinum; er eik.
Þar halda tvær hafmeyjar á hörpudiski, en utan um hann slöngva þær þarablöðum. Í
hörpudískinum er silfurplata, og eru þar á grafin nöfn hinna föllnu vikinga.
Skjöldurinn er alveg einstakur í sinni röð. Verkamannafélagið Báran gaf
kirkjunni síðan skjöldinn og er hann þar enn í dag. Meira en 20 íslenskir
sjómenn drukknuðu á þessu sama ári]
Svo orti Maríus Ólafsson um slys þetta:
Harmafregn minn huga grípur.
Hetjur lít með víkingsbrag
inn á sundið báti beita;
brimið virðist gefa lag.
Horfi eg á hafsins ógnir,
háan rísa öldufald.
Sé ég Ægi æðisgenginn
yfirstiga mannlegt vald.
Samfélagið: Á Eyrarbakka að tilhlutun
Alþýðusambands Íslands var stofnað
fulltrúaráð meðal jafnaðarmanna í Árnessýslu. Verklýðsfélögin "Báran" á
Eyrarbakka og "Bjarmi" á Stokkseyri voru þáttíakendur í fulltrúaráðinu, og
áttu sæti í því stjórnir beggja félaganna. Í stjórn voru kosnir: Ingimar
Jónsson, prestur að Mosfelli í Grímsnesi, Bjarni Eggertsson búfræðingur,
Eyrarbakka, Guðmundur Einarsson verkamaður, Stokkseyri, Bergsteinn Sveinsson
verkamaður, Eyrarbakka, og Nikulás Bjarnason verkamaður, Stokkseyri. Ungur
skáti Eiríkur J. Eiríksson, 16. ára tók að þýða skátabók "Ég lofa" af dönsku
eftir "Wilhelm Bjerregard" og var góður rómur gerður að.
Samgöngur: Bifreiðastöð Eyrarbakka sem Ólafur
Helgason átti, var nú gerð út frá
Lækjartorgi í Reykjavík. B.S.R og Steindór veittu stöðinni hörku samkeppni.
Sjávarútvegur: Vel fiskaðist þegar gaf á sjó, en
ótíð mikil hamlaði veiðum oft á tíðum. Þegar upp var staðið gaf vertíðin lítið
sem ekkert í aðra hönd. Haustvertíðin var stopul, en ýsuafli góður þegar gæftir
voru, 3 bátar réru. Nokkuð betur gekk á Stokkseyri, en þaðan réru 10 bátar.
Landbúnaður: Búnaðarfélagið hér lagði inn umsókn
um að fá að kaupa "þúfubana" til að slétta tún.
Heilsufar: Kighósti kom upp á Eyrarbakka og
Stokkseyri, en væg nema börnum nokkrum sem bólusett höfðu verið. Heilsufar
annars með ágætum.
Látnir: Margrét Jónsdóttir, bústýra
Einarshöfn (89?), Sigríður
Jónsdóttir, Litlu-Háeyri
(86), Guðbjörg
Árnadóttir, Torfabæ (84), Sólveig Magnúsdóttir, Kaldbak (78), Ingibjörg Jónsdóttir, Einarshöfn (77), Kristbjörg
Einarsdóttir, Skúmstöðum (77), Guðbjörg Gunnarsdóttir frá Litlu-Háeyri (64) [bjó
í Hafnarfirði], Jónas
Einarsson, sjómaður Garðhúsum (60) [fórst með "Sæfara"], Guðfinnur Þórarinsson, formaður Eyri (45)
[fórst með "Sæfara"], Sigurður
Þórarinsson Vegamótum (40) [fórst með "Sæfara"] Gísli Björnsson, þurrabúðarmaður Litlu-Háeyri (39)
[fórst með "Sæfara"], Páll Guðmundsson, sjómaður Leifseyri (31)[fórst með "Sæfara"],
Ingimar Jónsson, sjómaður Sandvík (23)[fórst með "Sæfara"], Kristinn Sigurðsson, sjómaður Túni (19)[fórst
með "Sæfara"], Gestur Jónsson, Nýjabæ (17), Vilhjálmur Kristinn Þorbjörnsson,
Blómsturvöllum (1).
[Eyrbekkingar fjarri: Guðmundur Sigurðsson fyrrum sparisjóðsstjóri
á Eyrarbakka. Jakob
Bjarnason (f.1874 í Sviðugörðum Gaulverjabæ) undirforingi í lögreglu Seattle U.S.A. Hann var maður mikill í vexti og bar
höfuð og herðar yfir annað fólk. Bar hann viðurnefnið "Big Jake". Jakop Andreas Lefolii kaupmaður, í danmörku. Ásgrímur Adólfsson í Washington Island, Wis., U. S. A.
en hann var frá Stokkseyri, og kona hans frá Eyrarbakka.]
Sveitin og Sýslan: Mjólkurbúi fyrir Sunnlendinga var fundinn
staður í "Flóanum" austan við Selfoss.
Tíðin: Í febrúar komst hitinn í 8°C og mesta frost -11°C. Í
mars var ekkert frost á Bakkanum, og hæst fór hitinn í 10°C. Apríl var
úrkomusamur, 30% yfir meðallagi. Mánuðurinn var frostlaus og mestur hiti 9,5°C.
Í maí steig hitinn í 18,5 stig, en frost mældist mest -4,8°C. Heldur bætti í
hitabylgjuna er kom fram í júní, mældist þá 21.7°C og í júlí 25,8 stig og 20
stig í ágúst. Enn var hlýtt í byrjun september og bar hæst 18,9°C, en svo kom
frostið er á leið. Í oktober var mest frost -6,3 stig.
Heimild: Morgunbl. Vísir, Alþýðubl.Lögberg, Lögrétta,
Heimskringla,Tíminn. gardur.is
Tímarit: Samvinnan, Veðráttan, Ægir, Verkamaðurinn.
18.03.2013 23:23
Sú var tíðin, 1921
Árið 1921 voru 930 íbúar á Eyrarbakka og hafði þá fækkað um
26 manns frá fyrra ári. Að frátöldum kaupstöðum var Eyrarbakki næst stærsta kauptún
landsins, en aðeins Akranes var litlu fjölmennara. P. Níelsen fyrrum
verslunarstjóri vildi láta friða "Sæörninn"* (Haförn) og veita verðlaun fyrir
hverja skotna tófu. Framfaraskref voru stiginn, því nú var lagður sími milli
Eyrarbakka og Þorlákshafnar og símstöð sett þar. Það kom til að yfir vertíðina hefði
nokkur fjöldi vermanna þar viðveru, en auk þess var lagður nýr símaþráður milli
Eyrarbakka og Ölfusárbrúar (Símstöð var í Tryggvaskála).
[*Þá var talið að einungis þrenn pör væru eftir í landinu auk
nokkurra geldfugla. Talið var að rekja mætti fækkun arnarstofnsins til þess að
eitrað var fyrir honum sem og tófum og ýmsum vargdýrum. ]
Verslun: Verslun Guðmundu Nielsen í Miklagarði var nú
ævinlega kölluð "Guðmundubúð" og þar fékst allt mögulegt á milli himins og
jarðar, nema "Bakkavínið". Væntingar stóðu til viðskipta við sveitir
Rángárvallasýslu að stærstum hluta. Kaupfélaginu Heklu var breytt í
pöntunarfélag* til að komast undan útsvars-álögum. Verslun Andrésar Jónssonar
var enn með stærri verslunum hér og að auki með búð á Stokkseyri og Reykjavík.
Þá var hér ásamt fleirum kaupmönnum, Ögmundur Þorkelsson, Guðlaugur Pálsson,
Ólafur Helgason í Túnbergi,
Jóhann V. ofl. Á Stokkseyri stóð Kf. Ingólfur** sem viðskiptamesta verslunin. Spíritus (Kogari) og brennsluspritt var hér
selt í lyfjabúðinni og þótti drykkjarhæft, en bannlög voru fyrir því að flytja
inn áfengi og lá við stríði hér milli "Templara" og "andbanninga". Nokkrir
andbanningar á Eyrarbakka, kaupmenn o. fl., með prestinn í broddi fylkingar, stormuðu
til boðaðs fundar hér um bannlögin, í þeim tilgangi að álykta um afnáms bannsins,
en þó varð ekki af þeirri kröfu, þar sem fjöldi Templara stóðu í vegi fyrir
framgangi þess.
[*Kf.Hekla var pöntunarfélag upphaflega. ** Einar Benediktsson og Ólafur Árnason
stofnuðu
á sínum tíma "Ingólf" á Stokkseyri.]
Skipaferðir: Mb. Víkingur kom í apríl með vörur úr Reykjavík*
og Mb. Njörður kom með vörur hingað frá Reykjavík í maí og skip
Eimskipafélagsins "Es. Suðurland" í sömu erindum til Eyrarbakka og stokkseyrar ýmist,
nokkrar ferðir yfir sumarið. Mótorkútterinn "Úlfur" einnig frá Vestmannaeyjum
með varning og fólk. Es. Vaagekallen kom hingað í nóvember með ýmsar vörur.
[*Sýslunefndin Skoraði á Alþingi að veita ríflegan styrk til
bátaferða milli Rvikur og Eyrarbakka eða Stokkseyrar.]
Útgerð: Bátaeigendur á Eyrarbakka gátu nú tryggt báta sína
fyrir skemdum vegna ísreks úr Ölfusá, sem öðrum hættum og skemdum. Fiskiþing
samþykkti að verja 25.000 kr. til bryggjugerðar hér á Eyrarbakka og Stokkseyri,
vélbátaútgerðinni til hagsbóta. Afli Bakkabáta var einna mestur á
haustvertíðinni. Olíuverð var hátt, en fiskverð lágt, þannig að útkoman var með
rírasta móti hjá mótorbátum, en betri á róðraskipum. Frá Þorlákshöfn gengu 7
róðraskip.
Samgöngur: Bifreiðaferðir milli Reykjavíkur og Eyrarbakka
voru orðnar mjög reglulegar og allnokkrir sem buðu upp á ferðir þessar, svo sem
Filipus Bjarnason í Reykjavík og bifreiðastöð Steindórs. Bifreiðar voru efnaðri
menn að eignast hér í þorpinu, svo sem Andres Jónsson kaupmaður og aðrir oft í
félagi um bifreið.
Skóli: Aðalsteinn barnakennari Sigmundsson fór með fimm
nemendur héðan í laugarnar í Laugardal. Fóru þeir á þrem reiðhjólum, en tilgangurinn
var m.a. að kenna þeim að synda. Skátafélagið "Birkibeinar"* stofnaði
Aðalsteinn hér um líkt leiti. Handavinnumunir, skólabarna héðan (einkum úr
basti,tágum og hrossatvinna) fóru á
Heimilisiðnaðarsýninguna í Reykjavík.
[
*Skátafélagið "Birkibeinar" stofnað í nóv. 1920]
Slysfarir: Magnús Jónsson frá Stokkseyri og Guðmundur Jónsson
frá Hæli, slösuðust nokkuð um borð í togaranum Agli Skallagrímssyni, er brot
reið yfir, en skipið var statt á Selvogsbanka. Tveir bátar rákust samann og sukku
á legunni á Stokkseyri eftir stórflóðs-öldu.
Látnir: Ragnhildur Þorsteinsdóttir (99). Hún var fædd 5.
október 1821. Ragnhildur var mágkona Þorleifs hins ríka á Háeyri. Var hún bústýra á Simbakoti meiri
hluta æfinnar, þar til kraftar hennar þrutu, en þá tóku þau hana hjónin Jakob
og Ragnheiður í Einarshöfn og önnuðust hana til dauða dags. Sólveig Árnadóttir frá Steinsbæ (89) Guðríður
Filippusdóttir frá Einarshöfn (84). Ólöf Jónsdóttir Neistakoti (84). Bergsteinn Pétursson
Garðhúsum (ungabarn). Meybarn
Þórdís Jónasdóttir Nýjabæ (Hvítvoðungur)
Sýslan og Sveitin: Magnús Torfason, tók við
sýslumannsemættinu og settist hann að á Selfossi. Skömmu síðar veiktist hann af
nýrnarbólgu og lagðist inn á Landakot. Steindór Gunnlaugsson tók þá við
embættinu til bráðabrigða. Var hann sá 15. sem gegnir embættisstörfum þessum síðan Sigurður sýslumaður
Ólafsson í Kaldaðarnesi sagði af sér árið 1915. Sýslubúar voru eitthvað á 7.
þúsund.
Ýmislegt: Fyrsta heimild um dúfu hér á Eyrarbakka, er þess
getið í auglýsingu að P.Nielsen hafi bjargað úr klóm ránfugls hér af götunni og
sent til Reykjavíkur. Auglýst var eftir eiganda dúfunar í Vísi 214.tbl.1921. Ástríður
Sigurðardóttur, 11 ára Bakkamær safnaði hér 191 kr. fyrir bágstödd börn í
Austurríki. "Lýsa" var höfð til matar heima fyrir.
Hagtölur 1921: Olía og veiðarfæri hækkuðu um 20% frá fyrra
ári, sem og annð verðlag. Gengi dollars var 5.75 kr. Gjaldeyrisskortur var í
landinu og höft þess vegna.
Heimild Dagblöð 1921: Morgunbl. Vísir, Alþýðubl. Lögrétta, Ísafold, Tíminn, Heimskringla.
Tímarit 1921: Ægir, Templar, 19.júní. Dýraverndarinn.
16.03.2013 01:03
Sú var tíðin 1920
Árið 1920 voru 956 íbúar á Eyrarbakka, hafði þeim þá fækkað
um 9 manns. Það má heita af ýmsum ástæðum hafi hér ríkt neyðarástand fyrstu
mánuði ársins. Kvillasamt var í upphafi árs þegar illvíg kvefpest gekk hér um
ásamt skarlatsótt. Kíghósti slæmur gekk í austur-Flóanum. Kolaskortur var
viðvarandi, enn einn veturinn og dýrtíð sem fyr. Kolin þraut og rúgmjölið svo
egi var bakað þann veturinn. Bændur voru heylitlir og jarðlaust fram á vor. "Þjóðólfur"
blað sunnlendinga hætti að koma út snemma árs. Ekki stóð hugur Bakkamanna til
að leggja árar í bát, því nú var hafist handa við að undirbúa gerð bátabryggju
og byggingu sjúkrahúsins* sem lengi hafði staðið til og fé safnað af sýslubúum.
Rafstöð var keypt og undirbúið fyrir raflýsingu þorpsins**. Framfarir með ýmsu
móti virtust á næstu grösum.
[*Teikninguna af sjúkrahúsinu hefði Guðjón Samúelsson
húsameistari gert. Húsinu þannig lýst: Húsið er 8,00 X 18,60 m. að stærð.
Kjallari, 1. og 2. bygð. Allir útveggir steyptir einfaldir, en innan á 1. og 2.
bygð verða settar korkplötur á útveggi. Öll gólf verða úr timbri, og röruð og
cementsdregin að neðan. Í kjallara er eldhús, búr, þvottahús og geymsla. Á 1.
bygð sjúkrastofur, skurðstofa, herbergi fyrir lækni og hjúkrunarkonu. Á 2. bygð
sjúkrastofur og herbergi fyrir vinnumann og vinnukonu. í sjúkrahúsinu er ætlað
rúm fyrir 25 sjúklinga. Þar er nú fangelsið Litla-Hraun]
[** Rafstöðin var prufukeyrð í fyrsta sinn þann 27.ágúst
1920]
Verslunin 1920: Ný verslun opnaði í Miklagarði,
nýbyggðu húsi Guðmundu Níelsen þetta sumar. Fékk hún vöruskip hingað fyrir verslun sína og fyrsta konan sem tekst slikt verkefni á hendur. Andrés Jónson kaupmaður hér á
Bakkanum, opnaði vefnaðarvöruverslun á Laugarvegi 44 í Reykjavík, en einig rak
hann verslun á Stokkseyri. Kf. Hekla (st.1904) var hér umfangsmesta verslunin*
og á Stokkseyri Kf. Ingólfur sem fyr**, en hagur þessara fyrirtækja var nú
orðinn vart meira en bærilegur. Smákaupmenn voru mýmargir hér við ströndina enn
sem fyr.
[*Kaupfélagið Hekla á Eyrarbakka hlaut 7000 kr. aukaútsvar
haustið 1919. Reindist það afarþung byrði fyrir félagið, sem í raun og veru hafði
engar tekjur til að mæta slíkum álögum, nema það sem leiddi af fremur litlum
skiftum við utanfélagsmenn. Var félagið þá nýbúið að kaupa verslunarhús og
aðrar eignir Einarshafnarverslunar.]
[** Áhrifamenn innan Samvinnufélaganna í héraðinu (Kf.
Grímsnesinga) komu sér saman um að allar erlendar vörur handa Árnesingum og
vesturhluta Rangárvallasýslu ættu að koma í land á Eyrarbakka eða Stokkseyri,
en ekki í Rvík. Eitt kaupfélag, eða bandalag félaga, yrði fyrir alt þetta svæði.
Félagið eignist 200-250 smálesta
skip, sem flytti vörur yfir sumartímann milli Eyrarbakka (eða Stokkseyrar) og
útlanda. Yfir veturinn fengi félagið vörur um Vestmannaeyjar, á vélbátum, því
höfnin yrði þá ófær stærri skipum.]
Skipaferðir: Þann 22. janúar sást til barkskips
frá Eyrarbakka, og mönnum ljóst að það var í nauðum statt, enda hið versta
veður. Áhöfninni bjargaði enskur togari*, en skipið rak inn í brimgarðinn austan
við þorpið og brotnaði í spón. Skpið hét "EOS" og var á leið til frá Hafnarfirði til Halmstad í Svíþjóðar til viðgerðar
ofl. Ms "Svanur" kom hingað til Eyrarbakka í apríl með vörur og fór aftur í lok
mánaðar. Hrepti þá allmikið veður og sjó fyrir Reykjanesi og brotnatði af annað
mastrið. Skonnortan "Iris" með timbur til Eyrarbakka kom hér ekki, en lagði farminn
upp í Reykjavík. M.b.
"Ingólfur", eign Lofts Loflssonar, útgerðarmanns í Reykjavík kom þaðan með
vörur hingað í vetrarbyrjun. Mb. "Úlfur", stærsti mótorbátur landsins, kom hér með hluta af skurðgröfu**, þeirri fyrstu hér um slóðir, til nota við Flóaáveituna. Þann 24. ágúst kom "Sieka IV" með vörur til Kf. Heklu.***
[*Togarinn var "Mary A. Johnson" frá Scarborough.
Skipstjóri á Eos hét Davíð Gíslason]
[** Skurðgröfupartarnir voru fluttir héðan á tveim vögnum, er spentir voru fyrir "Tractora" þeim fyrstu er hingað komu og voru notaðir við Flóaáveituna]
[*** Ms."Sieka IV" var Hollenskt leiguskip, er átti að leggja af stað 6.maí með sement, mjöl og kartöflur til Kf. Heklu en vél þess bilaði þá og kom skipið því ekki fyrr en 24. ágúst og var þá hluti vörunnar skemdur, er nam 15.842 kr. en leigan á skipinu var kr. 14.000.]
Útgerð: Margir bátar skemmdust á Stokkseyri
í óveðri sem gekk yfir á útmánuðum. Í byrjun vertíðar var góður afli þá sjaldan
gaf á sjó. Sumir mótorbátarnir sóttu allt vestur að Sandgerði svo sem mb/Freyr.
Mokafli var hér um páska, alveg upp við landsteina og brá við að fjaraði undan
fiskitorfunum. Frá Þorlákshöfn var róið á 15 skipum og hafði þeim fækkað mjög,
en mannekla háði útgerðinni sem engöngu var stunduð á róðraskipum þaðan.
Landbúnaður: Hrossaræktarfélagið "Valur"* reisti girðingu
fyrir stóðhross í landi Eyrarbakkahrepps, og var innanmál hennar 36-40
hektarar.
[*Hrossaræktarfélagið "Valur". tók yfir 3 hreppa í
neðanverðum Flóa, Eyrarbakkahr., Sandvíkurhr. og Stokkseyrarhr. Það var stofnað
24. febr. 1918. Félagar þess voru í árslok 1919, 102 alls.]
Slysfarir: Tveir menn drukknuðu í lendingu á
Eyrarbakka þann 6. apríl. Voru þeir að koma á smábát framan úr vélbát, er þeir
höfðu róið á til fiskjar út í Hafnarsjó, en lagt á legunni hér í höfninni og
tekið aflann í smábátinn. Fylti bátinn í lendingunni rétt við fjöruborð, og
soguðust tveir menn út og drukknuðu, en einn bjargaði sér á sundi. *
[*Jóhann Bjarnason var sá er bjargaðist, hélt sér og öðrum
félaga sínum um stund uppi á sundi, en þar kom að lokum, að hann varð að sleppa
honum. Bjargaðist Jóhann með naumindum.]
Menning: Drykkjuskapur þótti mjög almennur
hér um helgar meðal ungs fólks sem svo er lýst: "Svo segja kunnugir menn, að drykkjuskapur
hafi aldrei í manna minni verið jafn mikill hér og nú í vetur, (1920) og fer
óðum í vöxt. Kveður svo ramt að, að barnungir menn ganga i hópum, hröðum skrefum,
á eyðileggingarvegi. Kemur varla fyrir nokkur helgi* - mætti næstum segja:
nokkurt kvöld - svo að ekki séu ölvaðir menn á ferli og geri ónæði meira og
minna...." Stúka var stofnuð hér í
framhaldi með 43 félögum, en það gerði Halldór Teplar Kolbeinsson er hér var á
ferð. Hét stúkan "Eyrarrósin" og í stjórn voru: Sigurður Guðmundsson, féhirðir.
Elín Sigurðardóttir, frú. Ritari var Ingvar Jónsson, verslunarmaður. Jóhannes
Kristjánsson. Gjaldkeri var Vilhjálmur Andrésson, skósmiður. Þórdís
Símonardóttir, lósmóðir. Guðmunda G. Bergmann, frú. Guðmundur Jónsson, oddviti.
Jón Einarsson, hreppstjóri. Sigurður Kristjánsson, verslunarm. Konráð Gíslason,
verslunarmaður og Elínborg Kristjánsdóttir, ungfrú. Dró mjög úr drykkjuólátum í
þorpinu eftir það. Í Fjölni voru oft haldnir fundir um hin ýmsu mál.
[*Aðfaranótt sunnudags
14. mars voru drykkjulæti með meira móti hér í þorpinu, og áttu þó Eyrbekkingar
miklu að venjast af þeirri vöru.]
Sýslan og sveitin: Sýslumaður var Guðmundur Eggers en
síðan tók við sýslunni Steindór Gunnlaugsson. Hreppstjóri á Eyrarbakka var Jón Einarsson,
í Mundakoti. Nokkuð var um að jarðir og kot væru falar í sýslunni. Svo var um
Hafliðakot hér, tún var fyrir tvær kýr, fjöru og mýrarbeit fyrir nokkrar kindur
og hross og dálítið fjörugagn. Fóaáveitufélagið hélt fund hér í Gistihúsinu 14.
febr. Gróðabrallarar í höfuðborginni sáu ofsjónum yfir fjárhæðinni sem fara
átti í landumbætur hér í Flóanum, en það var talið tveggja togara virði. Læknir
var hér Gunnlaugur Einarsson, en fór utan þennan vetur til starfa á erlendum
sjúkrahúsum. Greiðasöluna í Tryggvaskála við Ölfusárbrú keypti Þórður bóndi Þórðarson
frá Björk í Grímsnesi. Leynileg áfengisverslun var talin vera rekin á Selfossi
og sjálfsagt komið út í gróða. Stórtap var hinsvegar hjá hinu nýja útibúi
Landsbankanns á sama stað, þó ekki hafi verið vegna þess að þar var í eldi
særður hrafn, heilan vetur.
Samgöngur: Steingrímur Gunnarsson og Sigurður
Óli Ólafsson gerði út leigubifreiðar*
héðan af Bakkanum, en bifreiðar úr Reykjavík komu einnig hingað reglulega, svo
sem frá Steidóri Einarssyni sem síðar var vel þekktur hér. Vestur-íslendingurinn Frank Fredriekson
hugðist fljúga frá Reykjavík til Eyrarbakka** á flugvél sinni. Flaug hann svo
austur 24. júlí og lenti henni á Kaldaðarnesi. Með í för var Mr. W. Turton
vélamaður. Var þetta í fyrsta sinn sem flugvél lendir hér í Flóanum. Þann 26.
júlí flaug Frank aftur hingað austur, kom fyrst að Kaldaðarnesi, en sýndi svo
listflug hér yfir Þorpinu daginn eftir og lenti síðan á túninu við Stóra-Hraun.
Vélin hélt héðan til Eyja, en þar reindist ekki lendandi er til kom
og varð vélin að nauðlenda á Fljótshólum bensínlaus, með dauðann hreyfil. Var
þá meira bensín sótt hingað til Eyrarbakka. Kom vélin svo hér daginn eftir og
lenti heilu og höldnu við Stóra-Hraun eftir svaðilför þessa. Mótorbátar gengu
af og til milli Eyrarbakka og Vestmannaeyja með fólk og farangur. Hingað kom einnig maður á mótorhjóli, reyndist það vera Guðmundur Ágústsson frá Birtingaholti.
[*bifr. Steingríms
var ÁR-7 og Bifreið Sigurðar var ÁR-15.]
[**Um þetta leyti hafði "Flugfélagið" er ætlaði að halda uppi
flugi milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja fundið sér ákjósanlegan lendingarvöll
á túninu við Stóra-Hraun og óskuðu íbúar hér á Eyrarbakka og Stokkseyri eftir
því að fá einnig flug héðan, félaginu að skaðlausu. (Sjá Mynd af vélinni)]
Skóli: Barnaskólanum á Eyrarbakka var lokað
8. mars vegna sóttvarna, sakir inflúensu. Var skólahúsið læst og ekkert um það
gengið. Einhverjir þá notað tækifærið, brotist inn og bramlað eitthvað
innanstokks og skilið þar eftir dauðan hrafn. Umdeildur ungur atorkumaður, Aðalsteinn
Sigmundsson var þá skólastjóri. Stofnaði hann ungmennafélag er tók aðsér
íþrótta og sundkennslu* hér. Fótboltafélag var einnig innan þess, vel sótt. Að auki tóku ungmennafélagar aðsér að sinna dýraverndunarmálum hér.
Kennarar voru þau Jakobina Jakobsdóttir, Ingimar Jóhannesson.
[*Sundkennarinn var Konráð Kristjánsson frá Litlu-Tjörnum í
S.-Þing. Sundlaug var þó ekki hér, en tjarnir margar og sjórinn.]
Látnir: Þóra Sigfúsdóttir (79). Hún var fædd
í Garðbæ á Eyrarbakka 12. nóvember 1841, en bjó að Vaðnesi í Grímsnesi. Magnús Ingvarsson, formaður frá Akri
(79). Margrét
Filippusdóttir frá Mundakoti (77). Ebeneser Guðmundsson, gullsmiður frá
Skúmstöðum (76). Katrín
Einarsdóttir frá Einkofa (74). Bjarni Halldórsson, Þurrabúðarmaður frá Túni
(63). Guðjóna Þórdís
Jónasdóttir frá Túni (57). Jóhann Pétur Hannesson sjómaður frá Blómsturvöllum,
druknaði í lendigu hér (47). Vigfús Helgason þurrabúðarmaður frá Gamla-Hrauni (46). Oddur Snorrason sjómaður frá Sölkutóft,(Þurrabúðarmaður
í Bráðræði) druknaði í lendingu hér (45). Jóhanna Margrét Jóhannsdóttir frá Sölkutóft (kornabarn)
Guðmundur Ragnar Friðriksson
frá kaupmannshúsi (kornabarn). Ingibjörg Pálsdóttir frá Skúmstöðum (kornabarn).
Tíðarfarið: Veður voru fremur válynd fyrstu
mánuði ársins. 'Í byrjun mars var jarðlaust og allar skepnur á gjöf, en bændur
heylitlir. Voru keyptar frá Ísafirði 1600 tunnur af síld til skepnufóðurs fyrir
sýslubúa er koma átti hingað með skipi. Í maí var ófærð mikil á Hellisheiði.
Sumarið og haustið með ágætum.
Hagtölur: Dollar gekk á 7 kr. og 25 aura, lækkaði síðar í 5
kr. og 75 aura. Síldartunna kr.40. Hálft rúgbrauð kostaði 90 aur. Fargjald frá
Reykjavík til Eyrarbakka með bifreið var um 20 kr.
Heimild: Dagblöð frá 1920: Skeggi, Morgunblaðið, Alþýðublaðið,
Ísafold, Ægir, Tíminn, Vísir, Rit frá 1920: Tímarit Verkfræðifélags Íslands.
Templar. Skólablaðið. Tímarit Íslenskra Samvinnufélaga. Búnaðarrit 1920-1921.
Dýraverndarinn 1921.
10.03.2013 21:42
Sú var tíðin, 1919
Árið 1919 voru íbúar á Eyrarbakka 965 talsins og höfðu fjölgað
um 48 frá árinu áður. Bjartsýni ríkti um framtíðina þrátt fyrir erfiðleika
ýmiskonar. Vikuritið "Þjóðólfur" hætti að koma út um tíma, en var endurvakin og
prentaður á Haga í Sandvíkurhreppi, í prentvél sem var hið mesta skran. Prentsmiðjan
var síðan flutt í nýja Landsbankahúsið* á Selfossi. Heilsufar var allgott síðan
spanskaveikin gekk. Skólar voru að hálfu starfandi, því kennarar sóttu í aðra
vinnu sem gaf betur af sér. Atvinnuhorfur voru þó daufar í vertíðarbyrjun.
Helsta áhugamál Árnesinga voru hafnarmál, áveitan, spítalinn, skólamálin og
járnbrautin. Kosið var til þings og reyndu verslunarmenn hér að hafa áhrif á
gang mála. Þingmenn Suðurlands urðu þeir Eiríkur bankastóri Einarsson frá Hæli
með 1032 atkv. og Þorl. Guðmundss. í Þorlákshöfn - 614 -aðrir í framboði voru Sigurður
ráðun. fékk 335 -og Þorst. Þórarinsson Drumboddastöðum 317atkv. Pöntunarfélög
voru stofnuð í mörgum hreppum sýslunar.
[*Timburhús 14x24 álnir. Þar er í dag m.a. blómabúð og lengi
var myndbandaleiga í þessu húsi.]
Verslun 1919: Hinn rauðhvíti dannebrog var dreginn
niður hinsta sinni á "Bakkabúðinni" gömlu þegar verslunin "Einarshöfn" á Eyrarbakka, var seld á vormánuðum. Kaupandinn var kaupfél. "Hekla" hér á
Bakkanum og flutti hún starfsemi sína í Vesturbúðirnar. Verðið mun hafa verið
um 200 þús. kr. Verslun þessi var um langan aldur aðal-kaupstaðurinn fyrir alt
suðurlandsundirlendið vestan Kúðafljóts, og ein allra stærsta verslun landsins.
Kf. Hekla sem nú var stærsta verslun Suðurlands þurfti að útvega sér
kauptíðarvörur sínar úr Reykjavík, þar sem vélarbilun kom upp í vöruskipi
þeirra í K. höfn. Verslun Andresar Jónssonar var önnur stærsta verslunin hér á
Bakkanum, en nú einnig á Stokkseyri og þá var Guðlaugur Pálsson vaxandi
kaupmaður hér auk fjölmargra annara smákaupmanna, svo sem J.D. Nielsen fv. verslunarstjóra
Einarshafnarverslunar, sem opnaði sölubúð í "Skjaldbreið" þetta haust og
Guðmund bóksala í Götuhúsum. Á Stokkseyri var öflugasta verslunin Kf. Ingólfur
og Egill Thorarensen í Sigtúnum var aðsópsmikill kaupmaður á Selfossi um þessar
mundir. Um mitt sumar var útflutningur allrar íslenskrar vöru gefinn frjáls á
ný af landsstjórninni, að frátöldum hrossamarkaði, er stjórnin hefði enn í
sínum höndum*. Bændur flestir afhentu ull sína kaupfélögunum og sláturfélaginu.
Markaðurinn var daufur og seinn á sér. Í einu af Heklu-húsunum var nú innréttuð
lyfjabúð (apotek), danskur maður K.C. Petersen, setti á fót, en hann seldi að
auki ýmsar aðrar vörur. Samkeppnin í verslun hér var nú harðari en nokkru sinni
fyr og stóru risarnir við ströndina byrjaðir að molna.
[*Bandamenn höfðu allt
verslunarvald íslendinga í hendi sér í stríðslok, og forkaupsrétt á allri
íslenskri vöru, svo mörg útlend skip lágu aðgerðalaus í höfnum hér við land í
lok stríðsins og vissu ekki hvert þau áttu að fara.]
Skipaferðir: Siglingar máttu aftur hefjast frá
Eyrum, þegar friður komst á, en "Vonin" seglskip Einarshafnarverslunar fylgdi
ekki með í kaupunum. Kf. Hekla hafði leigt gufuskip sem koma átti í maí
fullfermt, en þá gerðist það ólán að skipið varð fyrir vélarbilun í
Kaupmannahöfn og komst egi á kauptíðinni. Saltskip kom frá spáni til
Stokkseyrar snemma í apríl, en önnur skip komu ekki yfir kauptíð. Þegar kaupfar
kf. Heklu kom loks til Eyrarbakka, í lok ágústmánaðar, varð enn eitt ólánið uppvíst,
því vörurnar voru meira og minna skemmdar og að einhverju leyti ónýtar, eftir
langvint sjóvolk og vandræðaskap, er skipið hafði ratað í. Þann 8. september
var uppboð á Eyrarbakka og þar selt mikið af rúgmjöli og sykri. Komst mikið af
þessari vöru í ótrúlega hátt verð, stappaði nærri söluverði á óskemmdri vöru.
Um miðjan september kom loks hingað timburskip, en þar til hafði varla fengist
hér spíta í laupsrim um langan tíma.
Útgerð: Afli var ágætur hér við ströndina þá
er vertíðin hófst seint í febrúar en treg veiði í fyrstu hjá Þorlákshafnarbátum,
en síðan mokafli á köflum á öllum verstöðvum, þá er fiskur gekk nær landi en
venja var til. Sjór var hlýrri hér við ströndina en oft áður fyrri hluta
vetrar. Olíuskortur var orðinn mikill sunnanlands að áliðnu sumri og háði það
vélbátunum svo að ekki komust á sjó, en róðraskipin öfluðu vel á
haustvertíðinni.
Menning: Kvikmyndahús var sett á laggirnar
hér í Fjölni og nokkuð um pólitísk fundarhöld. Eitt hús var byggt hér,
Mikligarður sem hýsa átti verslun á komandi ári.
Sýslan: Settur sýslumaður Magnús Gíslason
tvítugur að aldri*. Flóaáveitufélagið samþykti að taka 1,5 milj. króna láa til
áveitunnar. Sparisjóður tók til starfa á Stokkseyri (okt 1918) og Landsbanki á
Selfossi.
[*Megn ágreiningur varð
á Eyrarbakka nokkru síðar út af meðferð sýslumannsembættisins í Árnessýslu.
Síðan Sigurður ÓLafsson sagði því af sjér sumarið 1915, höfðu verið hér ýmsir
sýslumenn settir. Upphaflega var Guðmundi Eggerz veitt sýslan vorið 1917, en
hann hafði oftast verið fjarverandi síðan, ýmist í R.vk (í fossanefndinni) eða
erlendis. þetta hafði héraðsbúum likað afar illa. Úr hófi keyrði haustið 1918 þegar Bogi Brynjólfsson fór frá
embætti. þá var enginn skipaður í staðinn, en einn hreppstjórinn látinn
afgreiða brýnustu erindi. Síðast kom Magnús Gíslason lögfr og rjeðist til vors,
en þá ætlaði Guðm. Eggerz að koma sjálfur. Svo varð þóekki heldur fjekk hann leyfi
stjórnarráðsins til að skipa Pál Jónsson lögfr. fulltrúa sinn. þessu gátu
hjeraðsbúar ekki unað, vildu ekki taka við Páli, en kröfðust, að sýslumaður
kæmi sjálfur eða að annar yrði skipaður á eigin ábyrgð. Stjórnarráðið skipaði
síðan þorst. þorsteinsson til að gegna embættinu á eigin ábyrgð fram á sumar.]
Andlát: Gestur Ormsson Einarshöfn, þurrabúðarmaður (87) Katrín
Hannesdóttir, húsfreyja Sandgerði (65). Guðrún Matthíasdóttir, Einarshöfn (52),
Jón Stefánsson, Brennu (45). Tómas Þórðarsson, þurrabúðarmaður Sandvík (44). Helgi Ólafsson, prests frá Stóra-Hrauni,
druknaði í Hólsós í Ölfusi, var sjómaður (23). Júlía Guðrún Ísaksdóttir,
Ísaksbæ (23). Ísleifur Haraldsson, Merkisteini (ungabarn).
Tíðin: Tíðafarið var misgott í byrjun árs.
Ofsaveður gerði um miðjan mars og allmikið snjóaði. Sumarfuglar, spóar, lóur og stelkar,
voru komnir fyrir pálmasunnudag, og flugu syngjandi um túnin og móana, en þá
brast á snjór og kuldahret. Í júlí snjóaði í sunnlensk fjöll, um stund hlýtt
mjög, en óþurkar yfirleitt þar til seint í ágúst. Veturinn ágætur og fénaður
gekk úti fram í desember, en eitt óveður gerði þann mánuð.
Samgöngur: Bílferðir voru tvisvar í viku milli
Eyrarbakka og Reykjavíkur, en um það sáu þeir Gunnar Ólafsson og Erling
Aspelund, en síðan hóf fólksflutninga Steingrímur Gunnarsson hér á Eyrarbakka.
Hagtölur: Erlend Kol og sykur lækkaði mikið í
verði eftir stríð*. Dagsbrúnarkaup var 90 aurar á rúmhelgum dögum, dagvinnu kaup
hjá Drífanda í Vestm. var 1,15 á klst. Steinolía var 300% dýrari en árið 1914. Á
Eyrarbakka hafði smjörverð lækkað og kostaði kr. 2,85 pundið, þurrabúðarmönnum
til góða. Laxpundið kostaði
90 aura til útsölumanna. Sparisjóður Árnessýslu átti 1.777.136 kr. sem var
mikið fé. Verð á saltfiski til útfluttnings var afar hátt, en sveitavörur fóru
lækkandi.
[*Landsstjórnin tók í sínar hendur einokun á alla verslun með
erlend kol og kornvörur hér á landi. Kolaverslun öll var í höndum breta og
olíuna áttu gróðabrallarar]
Ýmislegt: Vinnuvélar sáu dagsins ljós hér í
Flóanum, þegar skurðgrafa kom til Skeiða-
og Flóa áveitanna, heljarmikið bákn,
Dráttvélar (traktorar) tvær, með 20 hesta afli. Grjótkvörn á hjólum til
vegagerðar, valtari, til þess að þjappa mulningnum ofan í vegi, og trukkur, til
þess gerður að flytja möl. Kf. Hekla hafði símanúmer 8. Vörubifreiðar voru að
taka við af hestvögnum. Fyrsta flugvélin keypt til landsins.
Heimild: Skeggi 1919, Þjóðólfur1919, mbl.1919,eyrarbakki.is,
gardur.is, brim123.is.
06.03.2013 20:10
Sú var tíðin, 1918
917 íbúar áttu lögheimili á Eyrarbakka árið 1918 og hafði þeim fækkað um 25. Kom þar til mannskæð Inflúenza og brottfluttir, flestir til Reykjavíkur. Meðal brottfluttra var Ásgeir Blöndal f.v. héraðslæknir og hans frú Kirstín, en þau fóru til Húsavíkur. Fyrstu laufin voru tekin að falla og blikur á lofti um framtíð kauptúnsins. Áætlanir um Flóaáveituna voru í bígerð og fundir haldnir um stofnun áveitufélags, og þar kosnir í stjórn: Sigurður Ólafsson fyrv. sýslum., Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum og Bjarni Grímsson verslunarm. á Stokkseyri. Hagur manna hér um slóðir þótti yfirleitt góður, þrátt fyrir dýrtíð mikla og ýmiskonar erfiðleika, því skepnuhöld voru ágæt og tíðin yfirleitt góð og heilbrigði með ágætum framanaf. Katla gaus þetta ár og "spánska-veikin" gekk yfir og felldi 8 fulltíða sálir hér á Bakkanum (einhverstaðar getið um 31. látna). Settur sýslumaður Bogi Brynjólfsson, settist að á Stokkseyri, en húsnæðisekla var mikil hér á Bakkanum. Sambandslögin samþykkt og Ísland varð fullvalda ríki. Samninguinn við bandamenn hamlar verslun hér Heimstyrjöldinni lauk. Þorp að myndast á Selfossi, verðandi höfuðstað sýslunnar.
Verslun og Þjónusta: Ýmsir erfiðleikar hrjáðu nú verslunina hér, svo sem styrjöldin, viðskiptasamningur
við bandamenn*, stærri skip, ný höfn í Reykjavík, Ameríkuverslun Eimskipafélagsins
og landssjóðsverslunar gerði það að verkum að mun hagkvæmara og ódýrara var að
flytja mikið magn af vörum til Reykjavíkur, heldur en með litlu skonnortunum frá
dönskum höfnum hingað á Eyrarnar og víðar, þar að auki varð nú að tolla vörusendingar
af suðurlandi frá Reykjavík eða Vestmannaeyjum*. Nýtt skip "Skaftfellingur" gat
tekið vörur austanmanna frá Vík, beint til Vestmannaeyja og Reykjavík. Selstöðuverslanir
hér á landi voru nú óðum að hverfa vegna samningana við breta og svo fór um
Einarshafnarverslun**.
Ákveðið er að
reisa útibú fyrir Landsbankann á Selfossi, því á þessum krossgötum
kaupstaðarfara, var að myndast vísir að þorpi um þessar mundir. Á Eyrarbakka
var fyrir Sparisjóður Árnessýslu. Eitt brauðgerðarhús var hér í rekstri og eitt
á Stokkseyri. Kornvörur voru skamtaðar og brauð þar með. Kola og pappírsskortur
var landlægur enn eitt árið, m.a. vegna þess að pappírsskipið strandaði á
Meðallandsfjöru og kolaskip hér nálægt Eyrarbakka.
[*Samningurinn
við bretland ("bandamenn") um kaup á olíu og kolum, en það var í raun
nauðasamningur, sem ella hefði kostað, eða jafngillt aðflutningsbanni á landið
af hálfu bandamanna. þar fór landsstjórnin ("Útfluttningsnefnd") með
verslunarvald f.h. bandamanna og keypti með einokunarskilmálum og eignarnámi alla
ull, kjöt, fisk ofl. sem framleitt var í landinu og seldi "bandamönnum" sem
höfðu þá forkaupsrétt af öllum útflutningsvörum landsins á yfirstandandi ári og
því næsta sk. þessum samningi. (r.g. 31. maí 1918. 3. og 11. júní 1918) og til
frekari uppfyllingar á samningi við breta, mátti ekki flytja inn neinar vörur
nema með samþykki "Innfluttningsnefndar" og öll viðskipti þurftu að fara um
tilgreindar hafnir. Hafði stjórnaráð Íslands f.h. breta þannig yfirráð yfir
öllu skipsrúmi og vöruverslun landsins. Það voru breyttir tímar,
atvinnuvegirnir þurftu stöðugt meira utanaðkomandi eldsneyti til að halda úti
fiskveiðum og flutningum. Fyrir selstöðuverslunina voru þessi lög dauðadómur.(Bretar
afsöluðu sér síðar forkaupsrétti á íslensku kjöti)].
[**J. A.
Lifolii, stórkaupmaður, hafði um sumarið 1918 gefið 10,000 kr. til Eyrarbakka í minningu þess að verslun hans
var 50 ára gömul 3. apríl þ.á.
Helmingnum átti að verja til sjóðmyndunar er styrki verzlunar nemendur í Kaupmannahöfn
og höfðu Árnesingar og Rangæingar þar forgangsrétt; hinn helmingurinn átti að
ganga til sjúkrahúss í Arnessýslu. Enn
fremur sendi hann Eyrarbakka kirkju
vandaða turnstundaklukku].
Skipaferðir: Ferða flóabátsins "Ingólfs" hingað lagðist af um lengri tíma sökum
vélarbilunar. Bátur verslunarinnar "Hjálparinn" hafði því í nógu að snúast. Litlar
sögur fara af komu millilandaskipa hingað þó einhver hafi verið þetta ár, en útfluttningsvörur verslunarinnar hér þurfti nú
að tollafgreiða annaðhvort frá Vestmannaeyjum, eða Reykjavík með ærnum tilkosnaði.
Þó kom hingað seglskipið "Ludvig" en
á leið frá Eyrarbakka til Danmerkur var því sökt af kafbáti. Flutti kafbáturinn
skipverja upp undir Noreg og komust þeir þar á land eftir 32 stunda róður.
Skipið hafði ekki haft farm***, en sandur notaður til seglfestu (ballest).
Stórt Rússneskt þrímastra seglskip fórst í febrúar, við Þorlákshöfn í óveðri og
var tveim mönnum bjargað, [skipherrann og einn háseti er björguðust
á sundi í land] en fjórir fórust. Skipið var hlaðið kolum.
[*** Það var seint um kvöld að skipverjar skyndilega heyrðu skot og sáu
tundurskeyti, sem kom rétt fyrir aftan skipið. Rétt á eftir sáu þeir kafbát
koma siglandi, og skipaði hann að stöðva "Ludvig". Gaf kafbátsforinginn siðan
skipverjum 20 minútur til þess að komast i björgunarbátinn. Var skipinu siðan
sökt. Kafbáturinn dróg björgunarbátinn spölkorn, en hann sigldi svo hratt, að
vatnið streymdi inn í bátinn, svo skipverjar voru teknir yfir á kafbátinn.
Þegar komið var 30 mílur undan Noregsströndum var þeim slept í bátinn, og komust
skipverjar loks eftir 32 stunda róður að landi í Noregi, við Högholmene. "Ludvig"
var 110 smálestir brútto, hið vandaðasta skip að smíði og útbúnaði öllum meðferðis.] (mbl.1918)
Fiskveiðar og sjávarútvegur: Vertíðin byrjaði treglega sökum gæftaleysis en raknaði úr þegar á
leið. Vermenn sumir héðan fóru til Vestmannaeyja á vertíð. Eitthvað af
brimrotuðum þorski rak á fjörur við Stokkseyri. Í apríl var kominn ördeyða á
heimamiðum, en rættist úr fyrir vertíðarlok. Mótorbátar öfluðu hinsvegar vel
úti á "banka". Vorvertíð hófst hér seint í júní og aflaðist vel. Saltskortur gerði
þá vart við sig og hamlaði vinnslu. Haustafli góður þá róið var og gekk svo
fram á vetur. Laxveiðar voru óvenju góðar í Ölfusá, einkum við Selfoss.
Menning:
Söngfélagið "17" júní kom hér austur fyrir fjall og hélt samsöng í kirkjunni.
Um haustið og veturinn lögðust samkomur og messur af vegna spænskuveikinnar.
Látnir 1918: Guðrún Teitsdóttir frá Skúmstöðum (88). Styrgerður Filipusdóttir
frá Einarshöfn (86). Elín Símonardóttir frá Gamla-Hrauni (80). Símon Símonarson
sama stað andaðist á Landakotsspítala (?). Steinn Guðmundsson skipasmiður frá
Steinsbæ (78) en hann var landskunnur. Guðrún Hansdóttir frá Norðurbæ (76) Valgerður
Þórðardóttir frá Garðhúsum (67) í spænsku veikinni. Guðjón Ólafsson sparisjóðsgjaldkeri
frá Hólmsbæ (66). Ragnhildur Jónsdóttir frá Sandvík (66) í spænsku veikinni. Bjarni
Jónsson frá Eyvakoti (57). Margrét Eyjólfsdóttir frá Eimu (51) í spænsku
veikinni. Halldóra Þorsteinsdóttir frá Björgvin (46) í spænsku veikinni.
Siggeir Þorkelsson þurrabúðarmaður frá Merkisteini (37). Margrét
Jóhannsdóttir frá Gamla-Hrauni (30) í spænsku veikinni. Magnús Guðmundsson frá
Búðarhúsum (21) í spænsku veikinni. Sigurður Brynjólfsson, frá Nýhöfn,
Eyrarbakka, fórst með "Frí" VE-101 frá Vestmannaeyjum. (sr. Gísli Jónsson á
Mosfelli, druknaði í þverá, hjá Hemlu í Landeyjum. Hann var ættaður af
Eyrarbakka.)
Tíðin: Miklir kuldar
voru í byrjun janúar, en þýðviðri með Þorra og hagavænt í febrúar, en stórviðrasamt.
Jörð var tekin að grænka um miðjan febrúar og mars var mildur og hagstæð tíð. Vorið
var óvenju gott, en grasbrestur um sumarið, næturfrost oft í júní og tíð stirð,
svo lítið spratt í kálgörðum. Kalt var í byrjun júlí. Óþurkar um sláttinn, en
þurkar í byrjun september sem var óspart notað af fiskimönnum og búmönnum, þó
sunnudagar væru. Kuldar snemma haustsins og kartöflugrös fallin fyrir réttir.
Heyfengur með minsta móti. Þann 12 oktober gaus í Kötlugjá.
Hagtölur: Í
Reykjavík voru 57 bifreiðar, bjuggu þar milli 15 og 16 þús. manns 1918. [Fastar
bifreiðarferðir voru til og frá Reykjavík hingað á Eyrarbakka, tvisvar í viku
og sinntu þessu tvær bifreiðar]. Dollarinn var skráður á 3. kr og 60 aura. Kornvörur
höfðu hækkað um 59% á árinu og 279% frá upphafi heimstyrjaldarinnar 1914.
Steinolíuframleiðsla í heiminum árið 1916 er talin hafa verið um
461 miljón tunnur, 159 litra hver. Töðugæft úthey var
boðið í 30 kr. hvern hestburð (100 kíló) árið 1918. Hámarksverð á kartöflum úr
búð var 35 aurar.pr.kg, en síðan 44 au. kg haustuppskeru. Lambasvið kostuðu 75
aura.
Ýmislegt: Pétur
Sigurðsson stundaði trúboð hér á Eyrarbakka. Tvö hús voru byggð 1918, Steinsbær
I. og II. Land fengu Stokkseyringar
undir kirkjugarð.
Heimild:
Þjóðólfur 1918, Skeggi 1918, Fréttir 1918, Morgunbl. 1918. Gardur.is. Voröld
1918. Fram 1918. Norðurland 1918. Dagsbrún 1918.
25.02.2013 21:21
Sú var tíðin, 1917
Árið 1917 voru íbúar í Eyrarbakkahreppi 942. Vikublaðið
"Þjóðólfur", elsta blað landsins hóf að koma út á Eyrarbakka eftir nokkra ára
svefn. Ritstjóri þess var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Vikuritið
"Suðurland" hafði þá nýverið hætt útgáfu og þóttust sunnlendingar illa geta
verið án frétta úr héraði. Ýmsir erfiðleikar hrjáðu útgáfuna hér og svo fór að
blaðið var flutt til Reykjavíkur. - Margir fundir voru haldnir vegna
sjúkrahúsmálsins, en menn vonuðust eftir að sjúkrahúsið á laggirnar, þó skiptar skoðanir væru um stærð þess og byggingakostnað.
Atvinna: Þegar leið að vori fóru verkamenn að
hafa áhyggjur yfir því að siglingar hingað myndu stöðvast sökum stríðsins og
valda atvinnuleysi hjá þorpsbúum sem reiddu sig á vinnu við verslanirnar og
vöruskipin. Þá betur rættist um vinnu í vegagerð við að bera ofan í veginn frá
Selfossi til Eyrarbakka, og álmunar frá vegamótunum við Hraunsstekk að Hraunsárbrú.
Verslun & þjónusta: Verslun Andrésar Jónssonar flutti í
nýbyggtt verslunarhús sítt "Breiðablik". Guðlaugur Pálsson fékk
verslunarleyfi. Aðrar helstu verslanir voru eftir sem áður Einarshafnarverslun,
Kf. Hekla, Verslun Bergsteinns Sveinssonar og verslun Jóhanns V Daníelssonar.
Sigurður bóksali Guðmundsson, höndlaði nú einnig með nýlenduvörur, en 11 til 13
verslanir voru nú á Bakkanum. Kolalaskortur var hér að áliðnu vori, og
pappírsskorturinn var viðvarandi vegna tafa í siglingum. Fyrstu vörusendingar
vorsins hingað austur hafa að öllum líkindum verið sóttar til Reykjavíkur,
þegar skip Eimskipafélagsins komu þar snemma vors hlaðin vörum. Verslun
Andrésar Jónssonar var fyrst hér til að auglýsa nýkomnar vörur að þessu sinni.
-Kaupfélagið Hekla hafði átt
smjörsalt til rjómabúa geymt í Bretlandi á annað ár, en aldrei getað fengið það
flutt, en nú stóðu vonir til að það kæmi með "Ara" leiguskipi Elíasar
Stefánssonar í Reykjavík. -Haraldur Blöndal ljósmyndari hafði aðsetur í
Barnaskólanum og bauð þar þjónustu sína. Guðmundur úrsmiður Halldórson setti
upp vinnustofu sína í Nýjabæ, þá nýkominn frá þýskalandi (hafði hann einkaleyfi
á egin uppfinningu, sem var endurbættur cylinder í úrum). (Húsi Magnúsar
Magnússonar). Kf. Ingólfur á Stokkseyri fékk fyrstu vörur sínar á þessu ári um
mánaðarmót maí, júní og aðrar verslanir hér nokkru síðar. Vöruúrval í
verslununum hér var nú almennt orðið mun meira en áður, en dýrtíð enn mikil.
Afsláttarkjör voru þó almennt viðhöfð í desember, fram til jóla.
Skipakomur 1917: Erfitt var um siglingar sökum
stríðsins, þar sem bretar kröfðust þess að öll vöruskip kæmu við í breskri höfn
og að auki kafbátahættan mikil. Dæmi voru um að skip á leið til landsins væru
skotin í kaf (Sjá hér).
Útlitið var því ískyggilegt á þessu vori. Ekki er getið um skipakomur á
Eyrarbakka og Stokkseyri vorið 1917, þó líklegast að skip Einarshafnarverslunar
hafi komið hér, en til Reykjavíkur var skipaumferð töluverð og voru sum hver
stærri en áður hafði þekkst. Vélbátar Eyrbekkinga og Stokkseyringa voru
hinsvegar talsvert notaðir til að sækja vörur til Reykjavíkur og var það
nýlunda. Strandferðaskipið "Ingólfur"
kom hér við í ágústmánuði með steinolíufarm (300 tunnur) til
Einarshafnarverslunar. Spænskt
seglskip "Espano" kom til Stokkseyrar 3. sept. hlaðið salti til Kf. Ingólfs og
tók saltfisk frá þeim og Kf. Heklu hér á Bakkanum. (Það kom frá Cadiz, gömul
hafnarborg á Spáni).
Sjávarútvegur 1917: Þrír vélbátar héðan stunduðu veiðar
frá Sandgerði, fram í vertíðarbyrjun. Vertíðin byrjaði dauflega hjá róðrabátum,
en mótorbátarnir öfluðu dável. Mótorbáturinn "Suðri" frá Stokkseyri fórst þann
3. febrúar og mótorbátur Jóns Sturlaugssonar á Stokkseyri fórst þar í
september, á leið frá Reykjavík með kolafarm og fl. til Stokkseyrar, mannbjörg
varð. Mótor-námskeið var haldið á Stokkseyri og tóku 10 nemar vélstjórapróf.
Eyrarbakkahreppur: Hæstu greiðendur aukaútsvars voru:
Einarshafnar-verzlun, Kaupfélagið
Hekla, Andrés Jónsson, kaupm. Jóh. V. Daníelsson, kaupm. sr.GísliSkúIason,
StóraHrauni. Guðm.ísIeifss.óðalsb.St.Háey.
J. D. Nielsen, verzlunarstj. Bergsteinn Sveinsson, kpm. Guðm.
Sigurðsson, verzlm. Gíslí Pétursson, héraðsl. Guðm. Guðmundss., kaupf.stj.
Sigurður Guðmundss., bóksali Einar Jóns. þurrab.m.,Einarsh. Árni Tómasson,
Stóra-Hrauni Friðr.Sigurðss. GamlaHrauni Ásg. Blöndal, læknir, Búðarst. Jakob Jóns.
þurrab.m.,Einarsh. G. Jónson, verzlm.,Einarshöfn.
Sveinbjörn Ólafsson, Hvoli. Ingvar Jónsson, verzlm.
Menning og samfélag: Skarlatsótt stakk sér niður í
héraðinu og kom veikin upp í einu húsi hér (Nýjabæ). -Sjúkrasjóðurinn
"Vinaminning" hlaut konunglega staðfestingu, en hann var stofnaður árið 1916.
Tilgangur sjóðsins var að styrkja
fátæka sjúklinga, er leituðu heilsubótar á sjúkrahæli í Árnessýslu. Stjórn
sjóðsins skipuðu: Gísli Skúlason, P. Nielsen og
Gísli Pjetursson. -Það komst í tísku hjá ungu fólki hér og ungmennum sem
höfðu ráð á, að kaupa sér líftryggingu. Flestir sem keyptu tryggingar þessar
höfðu samning um, að þeir fái þær útborgaðar um sextugsaldur og þótti þetta góð
lífeyristrygging. Flestir skiptu við lífsábyrgðarfélagið "Danmark" er Þórður Jónsson, verslunarmaður á Stokkseyri var
umboðsmaður fyrir.- Söngfélagið "17. júní" heimsótti Bakkann og stóð fyrir
söngskemtun og Ólafur Magnússon í Arnarbæli hélt hér söngnámskeið um veturinn.
Andlát: Aðalbjörg Eyjólfsdóttir (87). Pétur
Gíslason faðir Gísla læknis (86). Hannes Bergsson, þurrabúðarmaður Einarshöfn
(64). Magnús Brynjólfsson, þurrabúðarmaður frá Björgvin, andaðist úr
lungnabólgu (55). Katrín Jónsdóttir, Einarshöfn (54). Kristinn Þórarinsson,
bóndi frá Naustakoti [Neistakoti], en hann drukknaði 12. janúar þ.á.(37). Ólafur
söðlasmiður Guðmundsson í Einarshöfn (50). [hafði þar söðlasmíðaverkstæði til
margra ára. Magaveiki hrjáði hann lengi og hugðist hann fá bót meina sinna á
Landakotsspítala, en lést þar]. Sigríður Grímsdóttir, Ingólfi (44). Rósa María Brynjólfsdóttir frá
Merkisteini á Eyrarbakka,druknaði norður í landi á leið til skips. Filipus
Gíslason frá Stekkum, af slysförum (18). Sveinbarn Kristjánssonar í Stíghúsi
(0).
Tíðarfarið 1917: Frost í janúar voru -14 til -16°C og
stillur oft. Tíðin fram í mars var harðneskjuleg um allt land og mikið frost (6
til 19 stig). apríl var einnig kaldur um land allt, Ekki er getið um tíðarfarið
hér við ströndina þetta ár.
Hagtölur 1917: Verð á rjómabúsmjöri var ákveðið af
verðlagsnefnd 3,30 kr. pr. kg. Óslægður þorskur 28 au. pr.kg. ýsa 24 au. pr.
kíló. lúða 40 au.pr.kg.- Ær seldust á 37-40 kr., kýr á tæp 400 kr. og hross um
300 kr. upp til hópa. Verð á innfluttum kolum voru 40 kr. skipspundið (Rvík).
Heimild: Þjóðólfur 1917, gardur.is, Ægir 1917. ofl.
17.02.2013 22:01
Sú var tíðin, 1916
Íbúar í Eyrarbakkahreppi voru 931 árið 1916, en á sama tíma bjuggu í Reykjavík 14.200 manns. Fólksfjöldi á Íslandi var þá ríflega 87.000 manns. Hugmyndir um raflýsingu þorpsins komust aftur á dagskrá eftir 3ja ára hlé. Ákveðið var að stofna raflýsingarnefnd sem í sátu: Guðm. Guðmundsson, kaupfélagsstjóri í Heklu, J. D. Nielsen verslunarstjóri hjá Einarshafnarverslun og Páll Bjarnason kennari. -Sýslan undirbjó kaup á Þorlákshöfn og átti kaupverð að vera 150.000 kr. -Þetta ár var kosningaár. Kosið var í ágúst. Af 272 kjósendum á Eyrarbakka sóttu 92 kjörfund, þar af 35 konur. Flestir voru þó að heiman í vinnu út um land, þennan tíma árs. Á Stokkseyri kusu á milli 50-60 kjósendur, þar af 10 konur; þar voru á kjörskrá hátt á þriðja hundrað manns. Karlar urðu að vera 30 ára og konur 40 ára og ekki máti hafa þegið fátækrastyrk til að öðlast kosningarétt. Valið stóð um 6 flokka. A:Heimastjórnarmenn, B:Þversummenn, C:Verkamenn, D:Óháðir bændur, E:Langsummenn, og F:Þingbændur. Þá var kosið til hreppsnefndar hér á Eyrarbakka og hlutu kosningu, Guðmundur Jónsson, oddviti (Versl.m. hjá Kf. Heklu). Tómas Vigfússon, bóndi og formaður, og Eiríkur Gíslason, trésm.
Verslun og Þjónusta: Helstu verslanir árið 1916 voru hér
sem áður, Einarshafnarverslun stærst, þá Kf. Hekla. Verslun Andrésar Jónssonar,
Verslun Jóhanns V Daníelssonar og Verslun Bergsteins Sveinssonar í Nýjabæ.
Sérvöruverslanir voru nokkrar, svo sem bókaverslun Sigurðar Guðmundssonar og
Úraverslun Sigurðar Tómassonar, en sú verslun hætti um haustið er Sigurður
flutti erlendis. Haraldur Blöndal var hér með ljósmyndastofu. Páll Bjarnason á
Stokkseyri stundaði einhverja höndlun þar, aðalega með ræktunarvörur, fræ og
bækur og Magnús Gunnarsson með vefnaðarvörur o.fl. Þórður Jónson rak ritfanga
og bókaverslun, Sigurður Ingimundarson, vefnaðar og nýlenduvöruverslun og Jón
Jónasson matvöruverslun. Kf. Ingólfur var sem fyr stærst verslana á Stokkseyri.
Í júlí stóðu "lestirnar" sem hæst og voru ullarlestir óvenju miklar þetta
sumar. Um miðjan júlí voru verslanir hér þrotnar af nauðsynjavörum, en fyrstu haustskipa
var ekki von fyrr en í byrjun ágúst. Um haustið var Einarshafnarverslun orðin
vel byrg þegar lestað hafði verið úr tveim skipum félagsins og að auki fékk
verslunin vörur auk annara kaupmanna hér með gufuskipinu "Botníu" þegar það kom
til Reykjavíkur í vetrarbyrjun. Verr gekk Kf. Heklu að byrgja sig upp fyrir
veturinn, því eitt leiguskip þeirra "Venus" strandaði í Færeyjum.- Verðlag á innfluttum
nauðsynjavörum hafði nú hækkað um 70% frá því að heimstyrjöldin hófst 1914.
Innlend framleiðasla í landbúnaði og sjávarútvegi hafði hækkað í verði að sama
skapi. - Í vetrarbyrjun hóf Einar Jónsson bifreiðastjóri rekstur leigubifreiðar.
Fréttablaðið Suðurland hætti útgáfu að sinni eftir 6 ára sögu.
Skipakomur: Þó sjófarendum stæði stuggur af
styrjöldinni, herskipum og kafbátum, sem og tundurduflum, létu margir
skipstjórnarmenn það lítt á sig fá og héldu uppi siglingum sem áður. Faxaflóabáturinn
"Ingólfur" kom hér þann 17. maí og
síðan alls í 5 skipti milli Reykjavíkur og Eyrarbakka þetta sumar, en Kf. Hekla
annaðist hann hér. -Sund voru ófær þegar vöruskip kaupfélaganna og Einarshafnarverslunar
komu hér að síðla maímánaðar og lögðu þau til hafs á ný og biðu þess að fært
yrði. -Fyrra vorskip til Einarshafnarverslunar var seglskipið "Víking" með matvæli, nýlenduvörur,
járnvörur og vefnaðarvörur, en hið síðara var seglskipið "Vonin" með sement og timburfarm. -Um haustið kom skonortan "Bonavista" að Stokkseyri með timbur
ofl. til Ingólfsverslunar. - "Venus"
leiguskip kaupfélaganna "Heklu og "Ingólfs" strandaði í Færeyjum, hafði verið
hertekið af bretum, Skipið var að mestu hlaðið nauðsynjavörum og byggingarefni,
en á þilfari hafði það áhöld til rjómabúa og mótorbátaefni. Skipið var eign þeirra Johnsons og
Kaabers. Seglskipin "Vonin" og "Katrine" komu með haustvörurnar til
Einarshafnarverslunar, aðalega matvörur og byggingaefni.
Sjávarútvegur 1916:
Sjómenn komu í verið um miðjan febrúar, en vertíðin hófst síðan undir
mánaðarlokin og var þá unglingaskólanum slitið, enda biðu beituskúrarnir eftir
þeim. Mótorbátar sem gengu héðan af Bakkanum voru 7 að tölu og voru 5 þeirra
nýsmíðaðir, en opin róðraskip voru fjögur. Frá Stokkseyri gengu 17 vélbátar og
eitt róðraskip. Í þorlákshöfn var selstöðuútvegur og gengu þaðan 29 róðraskip
en enginn vélbátur. Vertíðin byrjaði vel hjá mótorbátunum sem sóttu stíft út á
"Selvogsbanka" en verr hjá róðraskipum sem sóttu hér á grunnið, en hjá þeim
aflaðist ekkert fyrri en í lok mars. Vermenn í Þorlákshöfn sátu auðum höndum
mun lengur og biðu eftir þeim gula fram í apríl, en áður en mánuðurinn leið að
fullu var orðið fisklaust á miðunum, bæði hér og fyrir Þorlákshöfn og lauk
vertíðinni þannig. -Um sumarið gengu nokkrir vélbátar héðan og eitthvað var róið
frá Gamla-Hrauni og Stokkseyri á opnum bátum, en djúpmiðin voru fengsæl þetta
sumar. Þrír vélbátar héðan gengu frá Sandgerði frá vertíðarlokum og fram á mitt
sumar. Sumaraflinn var mestmegnis þorskur, ýsa og langa og eitthvað af smálúðu
og skötu. Beituleysi hamlaði oft róðrum. Sjómenn vissu þó um síld á Selvogsbanka,
en þá vantaði net að veiða hana í.- Gæftarleysi og brim hömluðu veiðum þegar
leið á sumarið og var því sjósókn með minsta móti. Haustvertíðin byrjaði betur
og vel fiskaðist. Þá er gaf á sjó fram í desember fiskaðist ágætlega, helst ýsa,
væn.
Atvinnuástand: Atvinna fyrir verkafólk var oft
stopul hér við sjávarsíðuna. Helst var það verslunin sem þurfti á verkafólki að
halda og svo landeigendur um sláttinn. Margir fóru í vegavinnu út um landið á
sumrum, eða byggingavinnu, einkum í Reykjavík og einhverjar stúlkur í
fiskverkun á Kirkjusand við Reykjavík. Kaupamenn höfðu að jafnaði 30 kr.
vikulaun til sveita og kaupakonur að hámarki 18 kr. í vikulaun og því
augljóslega mikill kynbundin launamunur í landbúnaði. Almenn verkamannalaun við
sjávarsíðuna voru talsvert hærri, en vinnan þó stopulli hér eins og fyrr getur.
Sótti því fólk, héðan og þó einkum úr sveitum til Reykjavíkur þar sem
togaraútgerð var að stóreflast, þó skorti marga húsnæði er þangað fóru.
Menning og samfélag
1916: Samskot voru
haldin hér í hreppi og víðar til stuðnings héraðslækninum Gísla Pétursyni,
eftir að hús hans brann seint á síðasta ári. -Ungfr. Guðmunda Nielsen og Helgi
Hallgrímsson kennari voru hið söngelskasta fólk á þessum slóðum og stýrðu
fjöldasöng á mannamótum og stóðu fyrir tónleikum. J.D. Níelsen stóð fyrir
leikfimisýningu og skotæfingum eins og undanfarin ár. Verkamannafélagið "Báran"
hélt sína árlegu skemmtun og dansleik. -Bifreið kom hingað úr Reykjavík á
góunni hlaðinn fólki og tók ferðalagið 4 klst.-Gísli Pétursson héraðslæknir hóf
að byggja læknishúsið nýja og var það gert úr steinsteypu, (Innanveggjaplötur
voru steyptar úr vikurmöl að ráði Jóns Þorlákssonar, en hann hafði gert
tilraunir í þessa veru. Einar Finnson í Rvík var yfirsmiður) og Andrés Jónsson verslunarmaður
byggði einnig steinsteypt hús (Breiðablik) þetta sumar, bæði eru húsin á Háeyrarlóðinni.
- Vindlar og vindlingareykingar voru að komast mjög í tísku um þetta leiti og
margir fóru að ganga í tréskóm (klossum). -Mislingasótt kom hér upp og varð
hennar fyrst vart í Gunnarshúsi- Sumarhitinn var íbúum til baga, "Leggur nú
fiskýlduþefinn í hitanum um alt þorpið, götur og torg vaða út í allskonar
óþverra, rykið þyrlast inn umglugga og smugur allar í húsum og þá ofan í
lungun, vatnsból mörg illa hirt og vatnið lítið og mórautt, skolpi er helt út
fyrir húsdyrnar og aska og rusl borið rétt ofan í flæðarmál".- Barnaskólinn var
settur 1. nóvember og voru nemendur 80. Unglingaskóli var ekki þetta árið.-Einhverjir
höfðu það sér til dægrastittingar að híma í sölubúðum daginn út og daginn inn,
þó illa séð væri af kaupmönnum. Jólatréskemtun fyrir börn var hér haldin og
hefð var fyrir.
Andlát: Ingveldur Þorgilsdóttir í Hraungerði
Eb, en hún var háöldruð, (80) móðir Þorgerðar og Guðmundar úrsmiðs Halldórsbarna. Helga
Tómasdóttir í Nýjabæ (76). Jón Jakopsson frá Skipagerði í V-Landeyjum, háaldraður
maður (86). Valgerður Guðlaugsdóttir frá Neistastöðum, (50). Eugenía
Nielsen,(f.Thorgrímsen) andaðist
úr blóðeitrun (66), afleiðing gamallrar
gallsteinaveiki. Henni til heiðurs var samin drápa sem eftirfarandi vers eru
úr:
Eins og friðarengill þín
endurminning lifir,
hún í vina hjörtum skín
og "húsinu" gamla yfir.
Eyrarbakki þakkar þér
þína hjartagæzku,
sem þú öllum sýndir hér
síðan þú varst í æsku.
Göfuglynd og góð þú varst,
gæðakonan sanna!
Ættarmerkið á þér barst
íslands beztu svanna.
Tíðarfarið og
landbúnaður:
Aðfararnótt hins 21. janúar 1916 gerði óvenju mikið brim og sjógang við
suðurströndina og kom það mönnum að óvörum, því stillulogn var þá nótt. Braut flóðið
sjógarðinn milli Einarshafnar og Óseyrarness til grunna, svo að tjón það
taldist um 1000-1500 krónur að frátöldum skemdum á ræktarlandi. Sjór fæddi inn
í sjóbúðir í Þorlákshöfn og braut húsgafla og hleðslur. Tvö skip eiðilögðust á
Stokkseyri og olíuskúr Einarshafnarverslunar brotnaði niður. -Janúar var helst
til umhleypingasamur en snjóléttur, hvass á köflum og eitt sinn gerði mikið
þrumuveður og olli það foktjóni víða í uppsveitum. - Í febrúar fór frost niður
í -20°C - "Fjöruhross" voru þau kölluð, útigangshrossin hér sem gengu sjálfala
í fjörunni, heilu og hálfu daganna. -Í mars var einmunatíð og snjólaust með
öllu á Eyrum og gaf á sjó dag hvern, sem þótti með afbrigðum fátítt, en undir
lok mánaðarins brast á norðan stormur og lentu einhverjir bátar af ströndinni í
hrakningum, en engir mannskaðar urðu. -Snemma í apríl féll mesti snjór
vetrarinns og tíðin stirð, sást þá fyrsti vorboðinn, en það var skógarþröstur.
Ísingarveður gerði þá mikið og braut það niður 30 símastaura. Tók svo að brima
mjög svo ekki varð sjófært. Vorið var kalt, norðan skafrenningur og frost. Í
lok aprílmánaðar brast á með einmuna tíð, en stóð stutt og kuldinn tók við á ný
fram í maí.-Eftir miðjan maí tók jörð að grænka þegar sumarið hélt innreið sína,
og skin og skúrir skiptust um.- Um miðjan júní mældist 19 stiga hiti í forsælu,
en mánuðurinn var sólríkur nær hvern dag.-Þurkar miklir voru í byrjun júlí,
sólskín og hiti hvern dag á Eyrum fram á miðjan mánuð, en þá gerði dumbungs
veður. Gerði þá eitt mesta brim sem komið hefur að sumri, að sögn eldri manna.
Tíðin var stirð yfir sláttinn og brim stöðugt, rættist þó úr er leið á
ágústmánuð og menn hér náðu heyjum sínum. -Jarðskjálftakipp allsnarpann fundu
menn hér síðla ágústmánaðar. September byrjaði með blíðviðri sem hélst allann
oktober, brim þó stöku sinnum. Í fyrstu viku oktober snjóaði í fjöllin.
Nóvember var stormasamur í fyrstu en svo rættist úr svo fé var útigengt.
Desember var kaldur, stormar og stillur. Náði frostið iðulega í -14°C síðari
hluta desember.
Hagtölur úr sýslunni: Árið 1914 veiddust 2.365 laxar í ám
og vötnum Árnesinga. Árið 1915 veiddust 1.280 laxar og var u.þ.b. helmingur
aflans veiddur í Sandvíkurhreppi. Árið 1914 nam dúntekja 25 kg. Árið 1915 nam
dúntekja 29 kg. í sýslunni (Dúnninn var aðallega frá Laugardælum, og lítið eitt
frá Skipum og Baugsstöðum). Verkfærir karlmenn voru á þessum árum 1.196 að
tölu. Sauðfé 153.971 á Suðurlandi öllu.
Heimild: Suðurland 1916, Gardur.is, 1 óþekkt skjal.
07.02.2013 22:51
Sú var tíðin, 1915
Árið 1915 voru íbúar í Eyrarbakkahreppi 925 að tölu. -Sjóðliðsforingjar
tveir af danska varðskipinu "Valnum", voru um þessar mundir að mæla hafnargerð
hér á Eyrarbakka, fyrir stórkaupm. Lefolii, en hann var hér sjálfur staddur um lestirnar
eins og venja hans var, til að kaupa upp ull bænda. -Nokkra mánaða hlé var á
útgáfu fréttablaðsins Suðurland vegna pappírsskorts af völdum heimstyrjaldarinnar,
en með vorskipum barst loks nægur pappír til að halda útgáfunni áfram. -Ensk
herskip voru á sveimi hér skamt undan landi -Konurnar á Bakkanum fögnuðu
kosnngarétti sínum, hér sem og í Reykjavík og víðar í kaupstöðum landsins. -Í
þjórsárdal var höggvið mikið hrís til eldiviðar og fleytt ofan Brúará og Hvítá,
mest svo tekið upp á land nærri Útverkum á Skeiðum, en hrísið átti að spara
kolainnfluttning. -Erlendir ferðamenn voru óvenju fáir hér við sjávarsíðuna
þetta sumar af völdum styrjaldarinnar. Helstu umgangspestir voru "Rauðir hundar"
sem lögðust þungt á fullorðna, en þó vægar á börn og svo "Barnaveiki". Um
veturinn kviknaði í húsi héraðslæknisins Gísla Péturssonar og skemdist mikið,
en eldinn tókst að slökkva. Bifreiðar voru hér á ferð að vetrarlagi og þótti
tíðindum sæta, en færðin var með ágætum.
Skipakomur: Ekki eru til tæmandi upplýsingar um
skipakomur vorið 1915, en þó hafa að líkindum komið hér mörg er hingað komu
vorið áður en þó ljóst að styrjöldin hafi oft tafið skipaferðir hingað til
lands: "Vonin'', skip Einarshafnarverslunar
kom með vörur að utan og fór héðan með ull til Reykjavíkur. "Venus", skip Ingólfsverslunar á
Stokkseyri kom hlaðið kolum og fór aftur til útlanda með ull. Vestmannayjabáturinn,
"Óskar", kom að Stokkseyri og á
Eyrarbakka með eitthvað af vörum. Um mitt sumar kom skonnortan "Nauta" með timbur, steinolíu, sement,
tjöru og járn til Einarshafnarverslunar. -Í ófriðnum áttu bretar það til að
hertaka skip sem sigldu frá Íslandi með vörur út til Danmerkur og "kaupa úr
þeim ullina", sem var stríðandi þjóðum einkar verðmæt. -Tvö seglskip að
minnstakost komu um haustið auk strandferðaskipsins Ingólfs, en síðasta
haustskipið fór héðan 23.oktober áleiðis til Ameríku. -Fjórir smábátar komu hér
að vetrarlagi, hlaðnir vörum úr Reykjavík og var Faxaflóabáturinn "Ingólfur"
þeirra stæstur, hlaðinn steinolíu.
Verslun, þjónusta og
viðskipti: Hið víðfræga "Bakkavín" fékst ekki lengur. Áfengisbann hafði verið í lög leidd. Verslunin
fékk flestar aðrar vörur sem óskað var eftir, en vegna stríðsins voru vöruútlát
aðeins veitt gegn staðgreiðslu hjá mörgum verslunum hér. Verslunina skorti þó til
þess skiptimynnt, sem virtist vera hörgull á í landinu. -Á nokkrum liðnum árum
var verslun hér á Eyrarbakka í miklum vexti og siglingar stöðugt tíðari milli
landa, en með styrjöldinni kom mikill afturkippur í þessa atvinnugrein sökum
dýrtíðar. -Þessar voru helstu verslanir á Eyrarbakka og Stokkseyri 1915:
Verslunin Einarshöfn, Kaupfélagið Hekla, Verslun Andrésar Jónssonar og Verslun
Jóhanns V Daníelssonar á Eyrarbakka auk smærri höndlara, svo sem skartgripaverslun
Sigurðar Tómassonar úrsmiðs. Kaupfélagið Ingólfur var öflugasta verslunin á
Stokkseyri, en þar höndluðu einnig Sigurður Ingimarsson, Magnús Gunnarsson og
Jón Jónsson. Á Selfossi stofnaði Þorfinnur Jónson í Tryggvaskála, verslun þar
og keppti við Símon í Sigtúnum um viðskiptin. -Verð á útfluttningsvörum hækkaði
mikið vegna stríðsins og högnuðust framleiðendur, kaupahéðnar og útflytjendur oft
stórlega á þessum árum, t.d. hækkaði ull þrefallt í verði, verð á hrossum var
afar hátt, og sömu sögu má segja um saltfisk og lýsi. Fyrir almenning snerist
dæmið við. Verð á innfluttum kolum var afar hátt, sama gilti um sykur og
kornvöru. Vextir á lánsfé var einnig hátt og hamlandi framþróun í samfélaginu. Verkamenn
höfðu nokkra kauphækkun með tilliti til dýrtíðarinnar. Fyrsta smjörsendingin frá
Baugsstaðarjómabúinu 1915 vóg 820 pund, en smjörið var selt erlendis, en
verslanir hér fluttu hinsvegar inn smjörlíki (Margarine). Grammifónsplötur voru
nú líklega seldar í fyrsta skipti á Bakkanum, í verslun Andrésar Jónssonar, sem
var að mestu leiti vefnaðarvöru og krambúð. Þakjárn og Þakpappa var nú farið að
flytja inn í stórum stíl af verslunum hér ásamt ofnum og eldavélum. Af innfluttum
nauðsynjavörum er helst að nefna: Rúgmjöl, Hveiti, Valshafra, Grjón, Kaffi, Export, Kandís, Melis,
Púðursykur, Strausykur, Rúsínur, Sveskjur, Sagogrjón, laukur og saft. Góð færð af
Suðurlandi til Reykjavíkur langt fram eftir hausti dró til sín meiri viðskipti
þangað en venjulega og bitnaði það nokkuð á verslun hér við ströndina.
Atvinna,fiskveiðar og útgerð: Sjómenn héðan sækja veiðar daglega á
Selvogsbanka og öfluðu vel, en tilkoma mótorbáta gerir það mögulegt. Létu
sjómenn vel af aflahlut sínum þessa vertíð -Laxveiðar voru stundaðar af kappi í
Ölfusá og höfðu fengist suma daga allt að 40 fimmtán punda laxar, einkum við
Selfoss og þótti fiskurinn vera almennt stærri en hin fyrri ár, en
heildarveiðin var þó aðeins í meðallagi.- Um sumarið gekk einn bátur af Eyrarbakka og þrír af
Stokkseyri. Allir mokfiskuðu en aflinn var aðalega langa, þorskur og keila. Síld
höfðu sumir bátarnir veitt þetta 10-20 tn. í róðri. Síldin var seld jafnóðum
til Vestmanneyja, það sem ekki var notað til beitu í bráðina. Langræði var svo
mikið héðan þetta sumar, að bátarnir voru 2 sólarhringa i róðri, en allt gekk vel,
enda var gæðatíð til sjávarinns. Það mátti heita að ekki hafi sést brimboði allann
júlí mánuð. Frá Gamla-Hrauni var róið sem fyrr á árum. -Pál Jónsson vélsmiður úr
Reykjavík, settist upp á Stokkseyri til að sinna vélbátaútgerð þeirra.-
Daglaunamenn þóttust illa úti, þrátt fyrir hærri laun, en dýrtíðin var svo
mikil að ekki jafnaðist við verðlagshækkanir. Vörukarfa með algengustu
vörutegundum til heimabrúks hafði hækkað um 48,5% milli áranna 1913 og 1915. Sjómenn
sem greiddu vöru með þorski komu út á sléttu, en bændur sem greiddu í ull
högnuðust vegna hins háa ullarverðs. Sexpunda rúgbrauð kostaði hér 90 aura,(mjólkurpottur
22 aura í Rvík). -Atvinnuleysi um veturinn sem fyr. -Haustaflinn var góður og
mokfiskaðist oft á tíðum fram á vetur. -Um haustið voru smíðaðir 6 nýir
mótorbátar á Eyrarbakka og Stokkseyri, en aðeins eitt opið skip var smíðað á
árinu. -Fyrirhugað var að stofna hásetafélag hér og undirbúningur langt kominn,
þegar þessar fyrirætlanir runnu út í sandinn.
Menning og samfélag:
Þann 7. júlí 1915 fögnuðu kvenfélagskonur á Eyrarbakka auknum réttindum
kvenna, þar sem nýja stjórnaskráin veitti konum kosningarétt og kjörgengi til
alþingis. Um kveldið kl. 9 söfnuðust flestar konur þorpsins saman fyrir framan barnaskólann,
og þaðan lögðu þær svo í skrúðfylkingu. Gengu þrjár fremstar í íslenskum
skautbúningi og báru íslenskan fána - og fleiri íslenska smáfána mátti þar sjá.
Gengu þær sem leið liggur vestur að Einarshöfn, héldu þá til baka aftur og að
gisti og samkomuhúsinu Fjölni og staðnæmdust þar. Þá var sungið kvæði er ort
hafði Þröstur :
Nú er um landsins bygðir bjart,
nú blómgast dalur fagur.
Nú býst hann í sitt bezta skart
hinn bjarti frelsisdagur!
- - Hún móðir okkar fríkka fer
því fleiri hirða um skóginn:
Úr aldaloðing leyft oss er
að leggja hönd á plóginn.
Og fánann glaðar hefjum hátt
- það hitnar barmur okkar. -
Sjá! austur loftið er svo blátt
það út til starfsins lokkar.
- - Með nýjum kröftum, nýjum dug
skal nýjar brautir ryðja!
Með nýju frelsi, nýjum hug
að nýrri framsókn styðja.
Að söngnum loknum kom út á veggsvalirnar frú Guðrún
Torfadóttir og flutti ávarp. Þá var sungið: Eldgamla ísafold, og að því loknu
hrópað húrra fyrir kvenfólkinu. Síðan gengu konur inn í gistihúsið, og skemtu
sér þar við samræður og kaffidrykkju, eitthvað frameftir.-Ungfrú Karítas
Ólafsdóttir frá Stóra-Hrauni hélt hússtjórnarnámskeið í boði kvenfélagsins.-
Fyrsta ljósmyndin birt í vikublaðinu "Suðurland". Dönsk hjú héldu hér í
þorpunum fjölsótta myndasýningu ásamt töfrabrögðum ýmiskonar. Enskar húfur voru
að komast mjög í tísku hér um þessar mundir.
Skóli og fræðsla: Barna og unglingaskólinn voru settir að venju í oktober og voru þar kend íslenska, saga, náttúrufræði, landafræði, reikningur, söngur, leikfimi, danska, (enska ef óskað var). Unglingaskólinn stóð í 4 mánuði á meðan atvinnuleysið var mest yfir vetrartímann, en aðsókn ávalt dræm. Aðeins 15 nemendur sóttu þetta skólaár. -Námskeið var haldið á Stokkseyri fyrir vélamenn á bátum. -Sjómannanámskeið haldið hér á Eyrarbakka og kenndar siglingareglur. -Hússtjórnarnámskeið hélt Karitas Ólafsdóttir á Stóra-Hrauni. -Nielsen verslunarstjóri stýrði leikfimiflokk og kendi samskonar æfingar og ástundaðar voru í danska hernum. Jólatréskemtun var haldinn fyrir yngri og eldri börn í plássinu, en sá siður hafði lengi verið við líði hér áður fyr.
Eyrarbakkahreppur 1915: Íbúar 925. -Tekjur, 12,901. kr sem dreifðust þannig: Til
framfærslu fátækra kr. 4.717
- mentamál (barnask.) - 2.100
- vaxtagreiðslu .. - 1.450
-afborgana af skuldum 1.080
- ýmissa útgjalda , . - 1.100
Aðrir liðir voru undir 1000 kr.
Andlát 1915: Jónina Árnadóttir í Einarshúsi, kona
Guðmundar Jónssonar hreppsnefndaroddvita á Eyrarbakka. -Sigurður Árnason frá Hafliðakoti í
Hraunshverfi úr lungnabólgu, 68 ára gamall. Hann var 36 vertíðir formaður á
Stokkseyri. -Sigurður
Bjarnason frá Eyfakoti Jónssonar þar. -Hallfríður Guðlaugsdóttir 15 ára frá Nýjabæ. -Andrés Kristinn Bjarnason 7 ára frá
Brennu.- -Jóhanna Ingibjörg Valdimarsdóttir 3 ára frá Norðurkoti.
Konráð Ragnar Konráðssonar
læknis, hvítvoðungur.
Tíðarfarið, ræktun og
landbúnaður: Þann
11. og 12. júlí gerði ofsarok er hér á Eyrarbakka
og kulda mikinn. Nóttina á milli snjóaði á Reykjanesfjallgarðinn niður undir
bygð í ofanverðu Ölfusi. Lá snjór liður eftir öllu fram að hádegi. Stormurinn lamdi
niður kartöflugrös og annan gróður i görðum. -Slátturinn byrjaði um miðjan júlí
og voru túnin víða dável sprottin, en sumstaðar kalin og skemd. Mýrar voru þá flestar
illa sprotnar og óvænlega horfði með þær. -Þurkatíð í ágúst fór illa með
kartöflugrös í sandgörðunum hér en menn reindu að vökva öðru hvoru til að halda
þeim á lífi. Sendin tún fóru einnig illa í þurkunum og komu á þau bleikir
blettir. -Garðauppskera var með miklum ágætum þetta haust og höfðu sumir
þrítugfalda kartöfluuppskeru. Guðmundur Ísleifsson á Háeyri leigði nokkrum
mönnum land til jarðyrkju á flötunum austan Barnaskólanns, fékk þó ræktunin egi
frið fyrir skemdarvörgum. -Fáeinum sauðum var slátrað á Bakkanum þetta haustið,
þá aðeins sláturfé heimamanna. -Haustrigningar hófust í byrjun oktober. Ripsberjagræðling
hafði maður nokkur sett niður hér í garð sinn og þótti það til tíðinda þegar á
það kom eitt ber um haustið. Gæðatíð var til lands og sjávar haust og fram
eftir vetri. Eftir jól tók að brima hér við ströndina og veður öll að færast í
umhleypinga.
Heimild: Suðurland 1915
20.01.2013 15:14
Sú var tíðin,1914
Árið 1914 voru 925 íbúar í Eyrarbakkahreppi. Fyrir vestan Eyrarbakka var mælt
fyrir ísvarnargarði vegna bátalægis hér og áætlun og teikningar gerðar um
verkefnið. Mælingamenn voru líka að störfum fyrir væntanlega Flóaáveitu. Sjúkrahúsmálin
voru mikið í umræðunni, en fé til byggingar sjúkrahúsins skorti. Afla og
atvinnuleysi var hér mikið að vetrinum og sætti reindar furðu hversu menn
komust hér af við þessar aðstæður. Garðræktin, sem hér var stunduð, átti mikinn
þátt í þvi, enda var Eyrarbakki annar mesti kartöfluræktarhreppur landsins, á
eftir Ytri-Akraneshrepp. Hagur almennings á þessu ári, var samt æði erfiðari en
næstu árin á undan. Aðalega urðu verkamenn einna harðast úti. Síðsumars brast á
heimstyrjöld og áhrifa þess átti eftir að gæta hér í verslun og þjónustu mjög
fljótt og ekki bætti það atvinnuhorfur verkafólksins. Vöruverð hækkaði grimmt
og lánsverslun hættu kaupmenn. Nú varð að staðgreiða allar vörur. Ullarverð
hækkaði talsvert á móti og kom sauðfjárbændum vel. Kvillasamt var þetta ár, því hér gekk Barnaveiki,
Kíghósti, Taugaveiki og lungnabólga. Ingólfsverslunin á Háeyri brann til kaldra
kola þetta ár, en litlu munaði að tök næðust á eldinum með nýjum slökkviáhöldum
er keypt voru hingað á fyrra ári.
Fiskveiðar og útgerð: Fiskifélagsdeildin "Framtíðin" á Eyrarbakka
taldi 180 manns árið 1914 og voru félagsmenn víða að úr Árnessýslu. Einn
æfifélagi var í deildinni, A. J. Lefolii stórknupmaður. Aflalaust var í byrjun
vertíðar, en af Stokkseyri gengu 10 mótorbátar og Bakkamenn höfðu 2 til 3, auk
hinna opnu róðrarbáta sem fækkaði nú með ári hverju. Hafnaraðstæður voru
kannaðar í Þorlákshöfn öðru sinni, nú með hugsanlega vélbátahöfn í huga, en áður
höfðu hafnaraðstæður verið kannaðar í Þorlákshöfn vegna hugmynda um
hafskipahöfn. Erlendir botnvörpungar sópuðust að fiskimiðunum en afli
heimamanna var engu að síður ágætur því fiskgengd var mikil. Brimdagar háðu þó oft
sjósókn. Um sumarið gekk ekki fiskur og síldin kom seint. Haustvertið gekk
einnig illa og oft aflalaust. Á Stokkseyri voru 4 vélbátar í smíðum, en aðeins
tveir róðrabátar gengu þaðan 1914. Samtals áttu Stokkseyringar 14 vélbáta við árslok og
voru þetta ár að byggja bryggju fyrir þá.
Skipakomur: Mótorskipið "Venus" kom til Stokkseyrar eftir harða og
langa útivist, með vörur til Ingólfsverslunar, fór utan á miðju sumri hlaðið
ull kom aftur frá Noregi síðsumars hlaðið salti o.fl. til sömu verslunar. Þá
kom þar gufuskipið "Magnhild" með vörur til Stokkseyrarfélagsins, en það var
1.300 smálestir að stærð. Skipstjóri var M. Clausen. Skipið hélt síðan austur
til Vík í Mýrdal. "Hjálparinn" var í ferðum héðan milli lands og Eyja. Svo kom "Vonin"
til Einarshafnarverslunar eftir mánaðar útivist og Faxaflóabáturinn Ingólfur
kom við tvisvar með vörur til Kf. Heklu. Í sumarbyrjun kom skonnortan "Laura"
til Einarshafnar með timbur. Gufuskipið "Agder" kom hér tvívegis um vorið, með
kolafarm, hlekktist á skeri í seinna skiptið er stýrið bilaði og skemdi
skrúfuna, "Steinar" eimskip frá Noregi kom síðan til að sækja "Agder" og
var með því kafari til að sinna viðgerðum. Sennilega var það í fyrsta sinn sem
kafari kemur við störf á Eyrarbakka. Nýtt stýri sem kafarinn kom fyrir, var
smíðað hér á Eyrarbakka. Skonnortan "Yrsa" með timbur til Kf. Heklu. Skonnortan
"Eva" með kol til Kf. Ingólfs á Stokkseyri. Vélbáturinn "Ásdís" frá
Vestmannaeyjum kom við á leið til Reykjavíkur, hafði í togi vélbát er Guðmundur
Ísleifsson á Háeyri hafði keypt frá Vestmannaeyjum, kom "Ásdís" aftur við í
bakaleið og sótti farþega til Eyja. Flóabáturinn "Ingólfur" kom til
Þorlákshafnar með búslóð Þorleifs Guðmundssonar er þangað flutti búferlum.
Seglskipið "Svanen" kom til Stokkseyrar með timbur til Kf. Ingólfs. Fyrsta
haustskipið á Bakkann að þessu sinni, "Vigelant" með kol til Kf. Heklu. Til
Stokkseyrar kom "Gústav E. Falck" til Kf. Ingólfs. Eimskipið "Anglo Dane" kom
hér með vörur til Kf. Heklu. Seglskipið "Vonin" kom frá Reykjavík með vörur úr flutningaskipinu
"Botníu" til Einarshafnarverslunar.
Verslun og þjónusta: Kaupfélagið Ingólfur greiddi hæsta útsvar í
Eyrarbakka og Stokkseyrarhreppi árið 1914, en verslanir félagsins voru á báðum
stöðum. Í byrjun vetrar var Ingólfsverslunin á Eyrarbakka seld Jóhanni V
Daníelssyni, er henni hafði veitt forstöðu, en skömmu fyrir jól brann
verslunarhúsið til kaldra kola. Verslanirnar Einarshöfn, Hekla og Ingólfur báru
hæstar skattgreiðslur þetta ár. Smáverslanir voru nokkrar, svo sem Jóns
Jónssonar á Stokkseyri og Andrésar Jónssonar á Eyrarbakka. Konráð R Konráðsson settur
læknir hér á Eyrarbakka hafði aðsetur í Kirkjuhúsi og rak þar litla lyfjabúð en
síðan í Gunnarshúsi Jónssonar trésmiðs. Gísli Pétursson frá Húsavík fékk svo Eyrarbakkalæknishérað,
en þeir kepptu um. Gísli kom sér fyrir í húsi Sveinbjörns Ólafssonar verslunarmans.
Símon Jónsson opnar verslun sína í Sigtúni á Selfossi. Vöruverð tók strax að
hækka þegar fregnir af heimstyrjaldarhættu og bankahruni í evrópu bárust hingað
til lands. Stóru verslanirnar brugðu á það ráð að fækka starfsfólki og tóku af
þann sið að lána út á krít. Smákaupmenn sáu sér þá leik á borði. Ljósmyndarinn
Kjartan Guðmundsson setti upp ljósmyndastofu í barnaskólanum um sumarið. Haraldur
Blöndal ljósmyndari hafði aðsetur sitt í húsakynnum Kf. Heklu. Sigurður
Tómasson úrsmiður í Reykjavík undirbjó úrsmíðastofu á Eyrarbakka.
Í
þróttir og skóli: Íþróttanamskeið var haldið hér á Eyrarbakka í byrjun ársins á vegum íþróttasambands íslands. HeIgi Agústsson frá Birtingaholti sá um kennslu. Knattspyrnufélag Eyrarbakka, keppti við Norðmenn af skipum þeim er hér láu inni og var leikið 3 kvöld í röð. Fyrsta kvöldið höfðu Eyrbekkingar 4 mörk á móti 2 mörkum Norðmanna. Annað kvöldið var jafntefli og þriðja kvöldið höfðu Eyrbekkingar sigur 5 mörk gegn 1 marki Norðmanna. Einn Dani var í liði Norðmanna, lék sá allra manna best, en af Eyrbekkinga hálfu lék best verslunarmaðurinn. Tómas Hallgrímsson. Fjölmennt Íþróttamót Skarphéðins var haldið að Þjórsártúni samkv. venju. Í unglingaskólanum voru kennd þessi fög: íslenaka (skrift og lestur) Saga, landafræði, náttúrufræði, (heilsufr og eðlisfr.) stærðfræði (reikn.) danska, enska, söngur og líkamsæfingar. Fyrir skólanum gekk Helgi Hallgrímsson kennari, nemendur þó fáir. Sigurður Þorkelsson kenndi börnum sem voru undir skólaskildualdri að stafa. Foreldrafundur var haldinn í fyrsta sinn. Þar var ákveðið var að skólanefnd Barnaskólans léti framvegis fara fram læknisskoðun á börnum í byrjun hvers skólaárs, en það var Helgi kennari Hallgrímsson sem lagði til. Konráð læknir tók að sér skólaskoðun hér á Eyrarbakka og Stokkseyri, en hún var þá í fyrsta sinn framkvæmd hér. Reindust um 80% barna vera með skemdar tennur og meira en helmingur barna voru meira og minna kirtlaveik.
Menning: Leiklist og dansleikir voru vel sóttir hér við sjávarsíðuna.
Það lá við uppþoti þegar skemmtannaglaður karlpeningurinn hugðist framlengja
dansleik Kvennfélagsins á Sumardaginn fyrsta í Fjölni um eina klukkustund eða
til kl. 3 um nóttina og greitt aukreitis fyrir leiguna. Framákona ein, fröken Guðmunda
Nielsen formaður skemmtinefndar, brást reið við og hvatti stúlkurnar heim með fortölum
og máttu þá herrarnir hafa þann kost einan að dansa við sjálfan sig.
Samgöngur: Bifreiðaumferð jókst til muna á sunnlenskum vegum, þó
ferðalög með þeim þætti dýr lúxus.
Andlát: Þórey Guðmundsdóttir, Tómassonar, prests í Villingaholti. Hún þótti einkennleg að ýmsu leyti, fremur vel gefin, minnug og fróð um margt. Fór hún lengi um með ýmsan varning, gamlan og nýjan, og seldi þeim er hafa vildu. Háöldruð var hún og hrum orðin. Guðrún Magnúsdóttir í Túni, var 59 ára gömul. Brynjúlfur Jónsson, fornfræðingur og heimspekingur var víða kunnur fyrir ljóð sín og rit. Hann hafði ávalt vetrardvöl á Bakkanum, en jafnan á faraldsfæti að sumrum, (Barnsmóðir hans Guðrún vinnukona Gísladóttir dó sama ár). Erlendur Jónsson þurrabúðarmaður. Guðmundur Jónsson þurrbabúðarmaður. Guðrún Oddsdóttir. Jón Þórarinsson ársgamalt barn, Magnús Magnússon. Margrét Leonhartsdóttir. Sigríður Vigfúsdóttir. Sigurborg Magnúsdóttir. Viktoría Þorkellsdóttir. Þorbergur vinnumaður Magnússon í Nýjabæ. Þórey Guðmundsdóttir.
Tíðarfar og landbúnaður: Þorrinn var umhleypingasamur og
harðneskjulegur. Vorið hélt innreið sína með sól og blíðu. Marinn bræddi snjóinn
og hagavænt var fljótt, en þá gerði harðinda vorhret. Síðan þokugjarnt og
suddarigning algeng. Svo orti Brúsi:
Alt er hauðrið hjarni
slótt,
hvergi er skjól við
næðing,
- þó hefir sólin blett
og blett
brætt úr klakalæðing.
Hjá öllum þorra útaf
ber,
ef ei batinn kemur.
Heyjafengur horflnn er,
hurð við jarka nemur.
Vætusumar brast svo á og gerði
bæði bændum og fiskimönnum erfitt um vik að þurka afurðir sínar. Grasvöxtur góður
og brakandi þerririnn eftir hundadaga stóð stutt því fljótlega lagðist í rosa
og stórrigningar svo slægjur velktust og fóru á flot, engjar kaffærðust í vatni
svo fá dæmi voru um að sumri. Rættist þó úr er leið á ágústmánuð. Við sumarlok
gerði mikið hvassviðri, Vélarbátur nýr sem lá í Þorlákshöfn og Þorleifur kaupm.
Guðmundsson átti, sökk og brotnaði svo að aftan að vélin fór úr honum. Þar
sleit upp uppskipunarskip frá Einarshafnarverslun. Vélarbát sleit upp hér á
Eyrarbakka og lenti hann á skeri, brotnaði þó ekki til muna. Hey fuku nokkuð
frá bændum hér. Kindur Guðmundar Ísleifssonar á Háeyri þóttu vænstar hér um
slóðir. Vænsta ærin vóg 61,5 pund og vænsta lambið 35 pund. Veturinn var
umhleypingasamur.
Heimild: Suðurland 1914 ofl.
18.11.2012 23:25
Sú var tíðin,1913
Þetta var árið sem óskabarn
þjóðarinnar, Eimskipafélag Íslands braust úr eggi og íslendingar sáu í hendi
sér þann möguleika að þjóðin gæti staðið á egin fótum þegar fram liðu stundir,
eftir margra alda niðurlægingu undir erlendri stjórn. Nú máttu íslendingar stofna
sinn eginn þjóðfána og var það tilhlökkunarefni, jafnvel hér í hálfdanska
þorpinu við sjóinn þar sem "dannebrog" blakti ævinlega í hafgolunni til heiðurs
konungi vorum Kristjáni IX.
Raflýsingarmálin voru efst á baugi í upphafi ársins 1913.
Sveitafundir á Stokkseyri og Eyrarbakka lögðu dálítið fé til ransókna á
mögulegri raflýsingu þorpana, en helst kom til greina að virkja Baugstaðarós ella
sameiginleg Díselrafstöð á Stóra-Hrauni fyrir bæði þorpin. Kol og olía voru seld á afarverði hér í verslunum og þótti flestum
nóg um. Fyrir héraðið þótti það vísa á
framfarir þegar mælingum Indriða Reinholt á járnbrautarleiðinni frá
Reykjavík austur að Þjórsá lauk og kostnaðaráætlun gerð, en þar var gert ráð
fyrir að brautin kostaði 3½ miljón króna. Var frumvarp um járnbrautina lögð
fyrir alþingi. Fyrirhuguð brautarleið frá Reykjavík lá um Mosfellsheiði -
Þingvelli - niður með Þingvallavatni að austan og niður í Grimsnes, vestur yflr
Sogið og niðureftir austan Ingólfsfjalls og yfir Ölfusá hjá Selfossi. Þaðan
átti að leggja grein hingað niður á Eyrarbakka, en aðalbrautin héldi áfram
beina leið að Þjórsárbrú. Þá hliðarbraut upp Skeið - Ytrihrepp og Biskupstungur
til Geysis. Fyrr en varði hófust þó deilur um legu brautarinnar, því sumir
vildu að brautin lægi um uppsveitir sýslunar, skemstu leið austur að Þjórsá.
Sögðu þá aðrir að þegar bílarnir kæmu yrðu lestar óþarfar. Hér tóku menn sig hinsvegar til og máluðu kirkjuna hátt og lágt. Gestkvæmt var við ströndina,
fyrirlesarar með fróðleik og tortryggilegir kaupsýslumenn úr Reykjavík að pranga
með byggingalóðir þar í höfuðstaðnum, og svo hinsvegar útlendir betlarar sem
gengu á milli manna hér um sumarið, eins og hin síðustu sumur. Þeim var
hinsvegar minna fagnað og þóttu afar ógeðfeldir nágungar. Eyrarbakkahreppi var leyfð 6.000 kr. lántaka til nýrrar skólahússbyggingar
og 3.450 kr. lán til endurbyggina sjógarða og þá var oddvita falið að selja
fangaklefann á Eyrarbakka. Bifreiðar
sáust nú ferðast um sunnlenska vegi, sem voru helst til þröngir og misjafnlega
greiðfærir hestvagnabrautir. Hér voru
byggð 4 íbúðarhús og veglegt barnaskólahús, stórt vörugeymsluhús og eitt
hús fyrir fénað og hey - öll úr steinsteypu. Ekkert hús er bygt úr timbri hér á
Eyrarbakka þetta sumar.
Landsverkfræðingur kom hér til að athuga garðstæði fyrir garði til varnar
jakaburði úr Ölfusá. Héðan fór hann út í Þorlákshöfn til að athuga lendingar og
undirbúa væntanlegar endurbætur á þeim. Ekkert meira hafði frést af
hafnarævintýrinu sem frakkar ætluðu að kosta í þorlákshöfn og höfðu kaupin
líklega gengið til baka, því Þorleifur Guðmundsson hafði nú aftur selt
Þorlákshöfn félagi einu fyrir 160 þús. kr. Formaður félagsins var P. I.
Thorsteinsson, áður á Bildudal. Íbúar á Eyrarbakka og bæjum í kring árið 1913 voru
samtals 879 manns.
Skipakomur: Venja var að flagga tveim rauðhvítum fánum (dannebrog)
við skipakomur á Eyrarbakka og Stokkseyri. Fánanum danska var því óvenjutítt
flaggað hér við ströndina árið 1913. Fyrsta vorskipið kom 11. apríl, en það var strandferðaskipið "Hólar" með nokkuð af vörum til flestra
verslana hér, kom það aftur tvívegis síðsumars. Einarshafnarskip komu tvö um
vorið, "Svend" og "Irsa", með vörur til verslunarinnar.
Þá kom "Elise" frá Halmstad til Stokkseyrar með timbur og tvö skip önnur.
Annað þeirra "Elin" með vörur
til kaupfél. Ingólfur, hafði verið hér fyrir utan alllengi og ekki getað náð
höfn vegna brims og storma fyr en í 9. viku sumars. Að áliðnu sumri kom til
Stokkseyrar skonortan "Venus",
hlaðin kolum til Ingólfsverslunar á Stokkseyri, kom hún aftur með kolafarm
snemma hausts. Skonortan "Henry"
kom með saltfarm til versl. "Einarshöfn" og "Vonin", seglskip til sömu verslunar, kom einig. "Ingólfur" kom að Stokkseyri og í
Þorlákshöfn, til að sækja saltfisk. "Nordlyset"
kom með olíu til verslananna hér á Eyrarbakka um miðjan ágúst. "Fanney", saltskip til Ingólfs á
Stokkseyri og í Þorlákshöfn komu í sumarlok.
Atvinna, sjósókn, landbúnaður og verslun: Vetrarvertíðin fór hægt
af stað og lítið fiskaðist á miðum Eyrbekkinga í byrjun. Nýjum vélabáti [Búi ÁR 131]
var hleypt af stokkunum, er Bjarni Þorkellsson hafði smíðað hér
þennan vetur. Var báturinn stór og vandaður. Hann átti Ingólfsfélagið á
Stokkseyri, en 23. febrúar slitnaði báturinn upp hér á Eyrarbakkahöfn og rak út
í brimgarð, lögðu margir sig í hættu við að bjarga honum og tókst það
slysalaust. Þá gerðist það í Gaulverjabæ,
að maður gekk á reka, og sá hann þá sílatorfu mikla rétt við land i
brimgarðinum, en mikil mergð þorska óð þar ofansjávar, hættu þorskarnir sér of
nærri landi og skoluðu bylgjurnar þeim á land. Spurðist þetta út og náðu
Gaulverjar í einni svipan 530 stórþoskum. Fengu þeir þar góðan "hlut á þurru landi",
en þá tók líka að fiskast á öllum miðum hér við ströndina, þó dró talsvert úr
afla hér á heimamiðum vegna gæftaleysis þegar á leið vertíðina sem var einhver
sú lakasta fyrir sjósóknara hér. Sumar og haustveiðar urðu með lakasta móti og
vart bein úr sjó að hafa og gekk svo fram á vetur. Magnús Gunnarsson frá Brú
stofnaði til kramvöruverslunar á Stokkseyri. Andrés Jónsson stofnaði verslun í Kirkjuhúsi hér á Eyrarbakka,
hafði áður verið verslunarmaður hjá versl. Ingólfi á Háeyri. Almennt gekk
verslun ágætlega sunnanlands. Hey bænda
hröktust talsvert í mikilli vætutíð sem gerði eftir sláttinn og brugðu
sumir á það ráð að verka súrhey, en er á leið sumarið kom góður þurkakafli sem
bjargaði mörgum en heyfengur var frekar rír. Vetrarverslunin var með daufasta
móti og umferð lítil. "Nú sést ekki smjörögn fremur en glóandi gull",
sagði kaupmaður nokkur.
Andlát: Tvö ung börn á fyrsta ári létust af veikindum sínum.
Menning og íþróttir: Ungmennafélagið á Stokkseyri var mjög virkt á árinu
1913 og hélt þar uppi fjölmennum skemtunum. Þá voru haldnar dansskemtanir í
báðum þorpum hér á Eyrum um miðjan Þorra og var þar gnægð matar fram borinn. Sönglistin
fékk líka að njóta sín hér við sjóinn, undir stjórn Guðmundu Níelsen. Sumir
höfðu mestu skemtan af símahlerun, það var auðvelt fyrir þá sem áttu einkasíma,
aðeins þurfti að lyfta tólinu og hlusta. Heldur dró úr íþróttaþáttöku almennt
hér á þessu ári. Leikhús, hljómleikar og söngskemtanir voru hinsvegar stundaðar
hér yfir vetrartímann og var verkið "Æfintýri á gönguför" m.a. sett upp í
Fjölni. Hússtjórnarnámskeið var haldið hér á Eyrarbakka á haustmánuðum.
Kensluna hafði á hendi ungfrú Halldóra Ólafsdóttir frá Kálfholti og voru
nemendur 9 talsins.
Hamfarir og slys: Þann 9. og
10. febr´ 1913 var hér afspyrnurok af suðri, gekk sjór mjög á land, svo ekki
hafði um langa hríð jafn hátt gengið. Rofnuðu þá sjógarðar víða og sópuðust
brott á löngum köflum í grunn niður. Voru menn naumast óttalausir í húsum inni,
enda fyltust kjallarar á ýmsum stöðum og varð af tjón nokkurt. Kálgarðar
skemdust og til muna. Tjón það er hér varð á Eyrum af sjógangi þessum, var
áætlað þúsundir króna, en til allrar hamingju var smástreymt, ella hefði tjónið
orðið meira. Rak í þessu flóði tré mikið í hinni svo nefndu Keflavík, sem er
smá vogur, sem gengur inní strandbergið milli Þorlákshafnar og Selvogs. Enskur
togari bjargaði áhöfn Guðmundar
Hannessonar í Túngu í Gaulverjabæjarhreppi, sem lokaðist úti í brimi og aftaka
veðri. Kom togarinn að á Stokkseyri næsta dag. Fór þá Jón Sturlaugsson
hafnsögumaður á vélbát sínum útí togarann og tókst honum að ná mönnunum og
flytja í land. Í sumarbyrjun varð mönnum
hér starsýnt til Heklu og þóttust sjá þar í grend gos mikið hafið. Fóru
menn héðan austur, þeir Guðm. verslunarstjóri Guðmundsson, Kjartan Guðmundsson
Ijósmyndari og Þorfinnur Jónsson i Tryggvaskála. Riðu þeir yfir Þjórsá á
Nautavaði og síðan upp Land að Galtalæk og þaðan með fylgdarmann inn á
Fjallabaksleið. Mætti þeim eldgos stórt vestur undir Hrafnabjörgum, austan við
Heklu og hraun þar nýrunnið nefndu þeir "Hörpuhraun". Um sumarið fóru kaupmaður
Lefolii og J. D. Nielsen austur að eldstöðvunum.
Náttúran og tíðarfarið: Umhleypingasamt var í byrjun ársins 1913 en
þegar kom í febrúar urðu veður afar byljótt
svo sá ekki húsa á milli hér á Eyrum. Skóf mjög saman snjóinn i skafla,
var ekki fært um veginn öðrum en karlmennum einum. Vepjur sáust upp við
Laugarás um miðjan janúar og þótti markvert því fuglar þessir voru nær óþekktir
hér austan fjalls, en höfðu sést sumstaðar á flækingi að vetri til og var
fuglinn því oft nefndur "Ískráka". [Um þessa fuglategund skráði P. Nielsen á
Eyrarbakka: Haustið 1875 sáust nokkrir fuglar í Grímsnesinu og haustið 1876 var
einn (karlfugl) skotinn í Mosvallahreppi í ísafjarðarsýslu. 1. jan. 1877 var
einn (kvenfugi) tekinn lifandi í heygarði hér á Eyrarbakka, mjög aðfram kominn
af sulti og kulda, og var hann drepinn samdægurs. Í maganum var ekkert annað en
fáeinir smásteinar. Snemma í janúar 1879 kom hann í stórhópum og hélt sér um
tíma við sjó hér sunnanlands. 2. febr. 1882 sáust 5 í Ölfusinu og var einn
skotinn. 7. des. 1889 var einn (kvenfugl) skotinn hér við Eyrarbakka. Ennfremur
var einn skotinn í Ölfusinu 17. febr. 1895 og seint í febrúar s. á. sáust þrír
við Eyrarbakka. Áttunda mars 1901 sást einn við Stokkseyri og í miðjum desember
s. á., hélt lítill hópur til við Gamlahraun. 6. marz 1907 var ungur karlfugl
skotinn við Eyrarbakka og 17. jan. 1912 fanst einn með brotinn væng hér í
þorpinu, hefir að líkindum flogið á símaþræðina. Norðanlands sést ísakrákan
einstaka sinnum í janúar og febrúar... ]- Allan febrúar lágu á sífeldar
hafáttir, sandbyljir, sjávarflóð og hregg og hrið, frostlaust þó. Fólki varla verið
útkomandi fyrir ólátum í veðrinu og Spói kvað:
Ennþá Kári óður hvín,
æðir sjár á löndin. -
Ógna bára yfir gín,
Er í sárum ströndin.
Snjóalög voru mikil þegar vetur kvaddi og mesta frost var -18°C. Hettumáfurinn verpti hér í fyrsta sinn,
gerði sér hreiður við tjörn hjá Stokkseyrarseli, en vorið var kalt og þurt og
síðan tók við vætusumar og haustið rosasamt. Í nóvember hafði snjóað mikið
milli fjalls og fjöru og hagbann orðið. Skömmu fyrir jól gerði ofsaveður mikið
af útsuðri svo hús léku á reiðiskjálfi. 14 álna langan hval (andarnefju) rak á
Skipafjöru, skamt fyrir vestan Baugstaðakamp svonefndan. Úr heimi skordýranna
var fiskiflugan hér almennust.
Heimild: Suðurland 1913, Lögberg
1913 gardur.is, skátavefurinn. Skjal/Appendix F Population in Eyrarbakki 1910-1970
04.11.2012 22:40
Sú var tíðin,1912
Þetta gerðist hér
við sjóinn árið 1912, árið sem Friðrik VIII danakonungur var til moldar borinn
og Vilson varð forseti bandaríkjanna. Brauðgerðarhússfélagið var stofnað hér á
Bakkanum á þessu ári. Hafist var handa við að draga að efni til byggingarinnar,
sem reisa átti á lóð kaupfélagsins "Hekla", húsið var steypt og skildi
heita "Skjaldbreið". Annars dró fátt til tíðinda á Eyrarbakka fyrstu mánuði
þessa árs þar til kom hið sólblíða og söngljúfa vor. Menn veltu fyrir sér komu
sjaldgæfra fugla hér um slóðir sem nefndust svartþrestir og starrar og álitu
margir þá vera nýja landnema og enda varð sú raunin. Lífið gekk svo sinn
vanagang við fiskiveiðar þegar á sjó gaf. Netatjón var þó allnokkuð í óveðrum
er yfir gengu á útmánuðum.
Hlutafélag til
hafnargerðar í Þorlákshöfn og annara fyrirtækja á suðurlandi, var stofnað í
Frakklandi ("Sosiété d' Entreprise en Islande"). Við félagsmyndun þessa
kváðust vera riðnir tveir stórbankar franskir ("Banque Francaise" og
"Banque Transatlantique") og einhverjir fleiri stóreignamenn. Brillouin
konsúll var framkvæmdarstjóri þessa fyrirtækis hér á landi, en þann 21. janúar
þetta ár [1912] seldi Þorleifur á Háeyri frökkum Þorlákshöfn fyrir 432.000 kr. Um þetta samdi Kjói:
Ef að Frakkar
eignast hér
okkar
litlafingur,
að hundrað árum
hvar þá er
Höfn og
íslendingur?
Hugmyndin var
að höfnin yrði miðstöð fyrir ýms iðnaðarfyrirtæki; þar áttu að rísa upp
verksmiðjur, knúðar rafmagni, til málmbræðslu o. fl. Hlutafélagið hafði umráð
yfir 9 fossum á Suðurlandi, sem það sumpart var eigandi að, og sumpart hefði
tekið á leigu og hugðust virkja, og leggja járnbrautir upp til sveita, en
íslensk lög [fossalögin 1907] voru þó þrándur í götu fyrir þessa frakknesku
auðjöfra. Helst sáu málsmetandi menn þessu til foráttu að mundi hefta viðgang
Reykjavíkur til framtíðar. En á meðan um þetta var þráttað hófust miklar
hafnarframkvæmdir í Reykjavík enda og mikil uppgangsár þar. Verktaki að
hafnargerðinni var N. C. Monberg,( Niels Christensen Monberg) danskt fyrirtæki.
Ákveðið var að
sýsluvegur mundi liggja í gegnum Stokkseyrarkauptún, þar eð hann lá að því
báðum megin. Óseyrarnesferju var hinsvegar neitað um styrk úr sýslusjóði. Um
vorið varð vart við snarpan jarðskjálfta og hristust húsin hér duglega. Vandræði
urðu með símtalsflutning til Reykjavíkur, en línan þangað annaði ekki þeim 18
stöðvum sem á henni voru allt austur til Vestmannaeyja og kom það versluninni hér
brösuglega um kauptíðna. Hækkandi steinolíuverð var bagaleg þorpsbúum sem
notuðu eingöngu steinolíu til lýsingar og hitunar. Danska steinolíufélagið DDPA
átti mest ítök á íslenskum markaði á þessum tíma, en hækkunina mátti m.a. rekja
til vaxandi eftirspurnar erlendis. Var þetta til að vekja upp hugmyndir um
raflýsingu hér á Bakkanum með því að virkja Skipavatn, sem Baugstaðaá rennur úr
ásamt nálægum vötnum og lækjum. Rangárbrúin var vígð um haustið. Hún var fyrsta
járnbrúin hérlendis sem var alíslensk smíði, nema efnið og hugvitið sem kom
erlendis frá, en landsmiðjan í Reykjavík sá um verkið. (Rangárbrúin var 137
álnir á lengd og jafnbreið Ölfusárbrúnni gömlu, eða rúm vagnbreidd. Skömmu
síðar var lokið við steypta bogabrú yfir Hróarslæk og var hún að öllu leiti
íslensk). Um haustið var gistihúsinu hér lokað og það hætt störfum. Var innbú
og munir þess seldir á uppboði. Skipt var um glugga í kaupmannshúsinu og kom
mönnum á óvart að viður húsins var alveg laus við fúa í þessu 200 ára gömlu
húsi, en viðurinn er sagður upprunnin frá Pommern, [hérað í
Póllandi/Þýskalandi].
Skipakomur og skipaferðir: Strandbáturrnn
"Austri" átti að koma við á Stokkseyri á leið sinni til Reykjavíkur í fyrstu
ferð þessa árs. Átti kaupfélagið Ingólfur allmiklar vörur í bátnum. En Austri
gerði sér lítið fyrir og fór hér framhjá aðfaranótt þess 11. apríl. Snemma í
maí komu "Svend" og "Vonin", til Einarshafnarverslunar, og timburskip
til kaupfél. Ingólfur á Háeyri. Til Stokkseyrar kom "Skálholt" frá útlöndum með vörur til Ingólfs, og
timburskip til sama aðila nokkru síðar. Strandferðaskipið "Austri" kom hér við á austurleið með dálitinn vöruslatta, og Perwie
kom síðast vorskipa með brúarefni í Rangárbrúnna innanborðs, en því var ekki
skipað hér upp eins og vænta hefði mátt. Perwie kom svo fyrst haustskipana hér
við, en ekki komst það til Stokkseyrar sökum brims, en seglskipið Venus kom þar
síðla í september með vörur til kf. Ingólfs. Í oktobermánuði strandaði kaupskipið
"Svend" frá Einarshafnarverslun í svonefndri Skötubót, nálægt Þorlákshöfn og
laskaðist mjög. Menn björguðust ekki fyr en morguninn eftir, ómeiddir allir
nema skipstjórinn, sem fór úr axlarlið. Svend hafði lengi haustsins legið hér
úti fyrir og beðið færis, en ekki gaf inn á höfnina sökum brims. Var þetta strand skaði fyrir Einarshafnarverslun því mikið af nauðsynjavörum var í skipinu.
Franskt
fiskiskip rak logandi að landi framundan Þykkvabæ. Liðaðist skipið sundur í
brimgarðinum. Færeysk fiskiskúta
strandaði í Landeyjum. Annars var talsvert um skipatjón og mannskaða í
sunnlenskum verstöðvum, en þó ekki hér. Þess má einnig geta að hið fræga
risaskip "Titanic" fórst þetta ár.
Atvinna, viðskipti, landbúnaður og
fiskveiðar: Jón Helgason prentari hóf að gefa út "Heimilisblaðið" Jón
Helgason var að góðu kunnur, síðan hann gaf út blaðið "Fanney" með Aðalbirni
Stefánssyni, en auk þess starfaði hann í Prensmiðju Suðurlands hér á
Eyrarbakka. Jón Jónatansson alþm. á Ásgautsstöðum tók við ritstjórn vikuritsins
Suðurland sem hér var gefið út. Hér var kosinn sr. Gísli Skúlason í
framkvæmdastjórn Sunnlenskrar Lýðháskólastofnunar. Smjörsala rjómabúsins í
Sandvíkurhreppi gekk framar vonum, en til þess hafði verið stofnað árið áður.
Vetrarvertíðin fór rólega af stað á Bakkanum enda afli tegur á miðunum. Vélarbaturinn
" Þorri " frá Stokkseyri, formaður Jón Sturlaugsson hafnsögumaður,
stundaði vertíðina frá Vestmannaeyjum. Um miðjan mars mokaflaðist hér við
ströndina, þá er gaf á sjó. Er kom fram í apríl fiskaðist lítið sem ekkert í
net en reitingur á lóðin. Í maí barst hinsvegar mikill afli á land, en svo
kvaddi þorskurinn miðin og ýsan kom í staðinn. Þegar vertíð lauk var hún talinn
í meðalagi góð. Kauptíðin var umfangsmikil að venju og samkeppnin hörð. Verslun
Þorleifs Guðmundssonar, "Dagsbrún" seldi verslun sína Kaupfélaginu Ingólfi á
Stokkseyri á haustmánuðum en fyrir þeirri verslun fóru m.a. Helgi Jónsson á
Stokkseyri og Jóhann V. Daníelsson Eyrarbakka. Þorleifur hafði sett upp
verslunina í Regin nokkrum mánuðum fyr og auk þess samnefnda vefnaðarvöruverslun
í Reykjavík. Heyskap lauk fyrir miðjan september og var heyfengur í besta lagi
og nýtingin ágæt. Tilkoma sláttuvéla mun hafa létt mönnum mjög heyskapartíðina.
(um 100 sláttuvélar voru til á Suðurlandi á árinu 1912) Sláturfé reyndist með rýrara
móti þetta haustið. Fisklaust var um haustið, gæftarlítið og beitulaust þar eða
síldin gekk ekki þetta sumarið. Verslunin hafði á árinu verið fremur óhagstæð,
einkum vegna mikilla verðhækkana á erlendum vörum. Iðnaður var enn lítill og
fábreyttur hér í sýslunni sem og annarstaðar, en helst voru það rjómabúin og
ullarþvottarstöðin við Reykjafoss.
Fólkið: Lefolii stórkaupmaður dvaldi
hér um sumarkauptíðina eins og hann átti vanda til. Þorlelfur Andrésson
steinsmiður, sem mörgum var að góðu kunnur, dvaldi einnig hér við pípugjörð í Mundakoti.
Kofoed Hansen, skógræktarstjóri, var hér á ferð síðsumars, hafði farið einsamall
Vatnajökulsleið. Jóhanna Briem, dóttur Ólafs Briems þáverandi alþm. á Álfgeirsvöllum
í Skagafirði, fékk kennarastöðu við Barnaskólann á Eyrarbakka. Hún tók við af
frænda sínum cand. Jóhann Briem frá Hruna, sem þjónað hafði stöðunni en var nú
skipaður prestur á Melstað í Miðfirði.[ Konan hans var Ingibjörg Jóna
Ísaksdóttir verslunarmanns frá Eyrarbakka.] Jóhanna kenndi aðalega íslensku, dönsku,
ensku og reikning og stúlkum hannyrðir. P. Níelsen stundaði vísindalegar athuganir á
fuglaflóru landsins og keypti til þess fuglhami af veiðimönnum. Brillouin,
fyrv. ræðismaður, frakka kom með botnvörpuskipi frá Frakklandi til
Þorlákshafnar, hélt þaðan til Reykjavíkur.
Íþróttir: Hinir víðfrægu glímumenn í
U.M.F. Stokkseyrar skoruðu á eyrbekkska glímukappa í U.M.F.E. og átti keppnin
að fara fram 27. janúar, en Eyrbekkingarnir höfnuðu áskoruninni. Héldu
Stokkseyringar því veglega glímusýningu á Stokkseyri þess í stað. Ungmennafélag
var á ný stofnað í Saudvikurhreppi, endurreist af rústum eldra félags.
Stofnendur 47. Íþróttamót ungmennafélaganna hér austanfjalls var haldið að
Þjórsártúni. Í glímu vann Páll Júníusson á Seli í Stokkseyrarhreppi skjöldinn.
Menning: Sjónleikir og skemtanir voru haldnar
á Stokkseyri snemma á árinu og fram á vor við góðan orðstýr, en ágóðinn rann m.a.
í samskot vegna drukknaðra sjómanna af Suðurnesjum. Verkamannafélagið Báran
hélt tambólu til að efla styrktarsjóð félagsins og Kvenfélagið safnaði fyrir
málningu á kirkjuna. Nokkuð var um skemtanir í Fjölni yfir jól og áramót.
Slys og hamfarir: Oft lá við að slys
yrðu hér á götunum vegna myrkurs. Um miðjan vetur var riðið ofan á gangandi
mann í myrkrinu, meiddist hann talsvert og var lengi óverkfær. Konur tvær voru
á gangi á götunni eitt kvöld, mættu þeim tveir menn á harða hlaupum og ruddu um
koll annari konunni svo hún hentist niður á götuna og meiddist nokkuð. Mánudaginn
þann 6. maí. kl. um 6 að kveldi, varð vart við jarðskjálftakipp á Stokkseyri og
Eyrarbakka. Stóð hann yfir um ½ mínútu
og titruðu hús hér nokkuð; skemdir urðu þó engar hér en hinsvegar stórtjón í
austursveitum, svo sem víða á Rángárvöllum og efri hreppum þar sem bæjarhús
hrundu til grunna. Öllum bar saman um að þessi jarðskjálftakippur hafi riðið
yfir eins og alda, frá austri til vesturs, eða eins og jafnan við svokallaðan "Suðurlandsskjálfta".
Eftirkippir fundust víða í austursveitum. Lík rak við Einarshöfn af færeyskum
sjómanni að talið var og jarðsett hér. Kona fannst örend í pytti við túnið í
Eyði-Sandvík, var hún þaðan.
Andlát: Guðni Jónsson í Einarshöfn.
Kona hans var Sigríður Vilhjálmsdóttir. Guðlaug Einarsdóttir, kona Þorfinns Jónssonar
gestgjafa Jónssonar í Tryggvaskála við Ölfusárbrú , en hún var vel þekkt af
Árnesingum flestum. Þorfinnur seldi þá Tryggvaskála ásamt slægjulandi og
veiðirétti í Ölfusá en þau höfðu búið þar frá 1901. Ungfrú Sólveig Thorgrímsen
í Reykjavík, dóttir Guðmundar Thorgrímsen, er lengi var verslunarstjóri hér á
Eyrarbakka. Ísak Jónsson í Garðbæ lést af krabbameini. Hann var verslunarmaður
við Lefolii verslun í nær 40 ár. Fyrri kona hans var Guðríður Magnúsdóttur frá
Brandshúsum í Gaulverjabæjarhreppi, en seinni kona hans var Ólöf Ólafsdóttir, frá
Árgilsstöðum í Hvolhreppi. Jón Jónsson í Einarshöfn, háaldraður bóka- og fróðleiksmaður
og var hann mörgum að góðu kunnur. Margrét Eiríksdóttir, gömul kona á
Litlu-Háeyri á Eyrarbakka. Sonur hennar var Jens S. Sigurðsson bóndi þar. Þórdis
Þorsteinsdóttir frá Litlu-Háeyri en maður hennar var Jón bóndi þar Hafliðason.
Sigurður Einarsson, tómthúsmaður hér á Eyrarbakka, hné niður máttvana úti við,
var hann borinn heim og andaðist skömmu síðar. Lét eftir sig konu og 1 barn í
ómegð. Þórunn Þorvaldsdóttir frá Eimu á Eyrarbakka, 84 ára, maður hennar var
Guðmundur Þorsteinsson járnsmiður, var hún fædd í Króki í Grafningi 1828. Hér
gerðu þau Þórunn og Guðmundur bæ á sandsléttu í landi Stóru-Háeyrar og kölluðu
Eimu. Var það snotur bær, að því er þá þótti, en nú löngu horfinn. Ræktuðu þau
þar matjurtagarða meiri en þá var títt og vörðu þá og bæinn með sterkum
grjótgörðum. Því hætt var við sjávarflóðum meðan enginn var sjógarður þar fyrir
framan. Guðmundur var hagleiksmaður, var hann sá fyrsti hér, sem smíðaði
blikkbrúsa undir steinolíu. Ekkjan Guðríður Sæmundsdóttir að Foki í
Hraunshverfi, hún var við 79 ára aldur. Jón Árnason í Þorlákshöfn, var hér vel kunnur,
sonur Magnúsar Beinteinssonar hins ríka í Þorlákshöfn. Kona hans var Jórunn Sigurðardóttur
frá Skúmsstöðum. Hallbera Petrína Hjörleifsdóttir frá Litlu Háeyri 8 ára.
Nokkur ung sveinbörn dóu einnig þetta ár.
Tíðarfarið: Veturinn í upphafi árs var
mildilegur og blíður sunnlendingum. Norðan og NV stormar voru ríkjandi í byrjun
mars, en snjólaust þó og fljótt kom góðviðrið aftur. Í uppsveitum var eitthvað
um snjókomu á útmánuðum. Dálítið hret gerði í apríl byrjun, en með sumardeginum
fyrsta kom blíðan og gras tók að grænka. Í sumarbyrjun og frameftir var hún enn
sama sólarblíðan og brakandi þurkar. Í byrjun ágúst kólnaði og gránaði niður
undir kamba. Um sumarlok lá mikið misturloft yfir og var eldgosum í ameríku um
kennt. Haustrosinn sunnlenski tók svo völdin en fyrri hluti vetrar var yfirleitt
hægviðrasamur.
Heimild: Suðurland 1912,
Reykjavík 1912. http://gummiste.blogcentral.is/
Wikipedia. Garður.is
28.10.2012 21:41
Sú var tíðin, 1911
Á þessu ári 1911 var verslun í hvað mestum blóma á Bakkanum og samkeppnin afar hörð, en þrátt fyrir það þótti verslunin vera arðbærustu og gróðvænlegustu fyrirtækin. Þær stóru verslanir sem kepptu um hituna voru, Einarshafnarverslun, Kaupfélagið Hekla, Ingólfsverslunin á Háeyri og Stokkseyri. Þá var verslun að vaxa við Ölfusárbrú, fyrir tilstuðlan "Brúarfélagsins" svokallaða. Um mitt sumar var byrgðastaðan orðin slæm og matvöru farið að skorta í búðunum. Þá var haframjölið vinsæla upp urið og ekki annað að gera en bíða og vona að haustskipin kæmu með fyrra fallinu. Harðar deilur urðu um hvort væri hyggilegra að leggja járnbraut til Reykjavíkur, eða byggja höfn í Þorlákshöfn. Franskir verkfræðingar komu um sumarið til að kanna hugsanlegt hafnarstæði ásamt fyrverandi ræðismanni Frakka, hr. Jean Paul Brillouin sem var tilbúinn til að koma með franskt fjármagn í hafnargerðina. Unnið var að símalagningu héðan af Bakkanum til Kaldaðarness. Áhöld til þess komu með strandferðaskipinu Perwie. Oddur Oddsson símstjóri í Reginn sá um það verk og var símalínan opnuð 26. ágúst 1911. Símalínan var lögð heim að Sandvík til Guðmundar hreppstjóra, og síðan frá Hraungerði upp að Kíðjabergi. Mannaferðir voru miklar á Bakkanum yfir sumarið, flestir á ferð ofan úr sveitum í verslunarerindum. Til halastjörnu sást á austurhimni frá 20. oktober og fram á vetur 3-4 stundir í senn. Atvinnuleysi gerði vart við sig þegar kom fram á veturinn og samgöngur spiltust. Þá dofnaði yfir þorpslífinu og lítið við að vera. Verslunin sem nú var vel byrg auglýsti jólaútsölur og staðgreiðsluafslætti. Íbúafjöldi á Eyrarbakka var 750 manns árið 1911 og hafði þá fækkað um 13 frá fyrra ári. Fóru flestir til Reykjavíkur.
Skipakomur og skipaferðir: "Perwie" kom hér að sundinu snemma vors, var þá ekki fært út sökum brims, hélt hún þá nær tafarlaust til Stokkseyrar og lá þar um nóttina, Í birtingu var orðið sjólaust, og beið hún þá ekki boðanna heldur hypjaði sig á braut hið snarasta, voru Stokkseyringar þá albúnir að fara út í skipið og sækja vörur sínar, en til þess kom ekki, Perwie var farin þegar fært var orðið, sumir sögðu jafnvel að hún væri farin til "helvítis". Vöruskip Einarshafnarverslunar, Vonin og Svend , komu bæði í byrjun maí og gátu þau komist hér að vandræðalaust. Kong Helge kom við hér um miðjan maí sem og Stokkseyri og skilaði af sér vörum og pósti. Aukaskip frá sameinaða gufuskipafélaginu hafnaði sig hér með vörur til Brúarinnar (Selfossi), Heklu og Einarshafnar. Timburskip til Ingólfsverslunar hafnaði sig hér einnig og annað timburskip til Ingólfs gekk á Stokkseyri. Faxaflóabáturinn Ingólfur kom hér við miðsumars og Perwie við sumarlok og sótti ull til Ingólfsverslunar. Um haustið snemma kom vöruskip Þorleifs kaupm. á Háeyri, Guðmundssonar dekkhlaðið varningi alskonar. Vonin, skip Einarshafnarverslunar kom svo 22. september eftir langa útivist.
Franskt saltflutningsskip,
seglskipið Babette frá Paimpol strandaði á Fljótafjöru, í Meðallandi í marsbyrjun,
en mikill floti franskra fiskiskipa var að veiðum við sunnanvert landið þá um
veturinn og víða upp í landsteinum, innan um net heimamanna. Þilskipið Friða,
bjargaði 6 skipshöfnum í Grindavík.
Íþróttir:
Nýjársdagurinn byrjaði með því að 5 ungir Eyrbekkingar
þreyttu kappsund frá Einarshafnarbryggjunni, um 25 faðma. Varð þar skarpastur
Ingvar Loftsson, synti hann leið þessa á 57 sek. og fékk að launum blekbyttu úr
slípuðum kristalli. Hinir sem tóku þátt í sundinu voru: Ásgrímur Guðjónsson,
Gísli Jóhannsson, Valgeir Jónsson og Jón Tómasson. Piltar þessir höfðu engrar sundkenslu
notið, en lærðu að synda af egin ramleik. Í sjósund fóru þeir daglega þá um veturinn.
J.D. Níelsen verslunarstjóri þjálfaði leikfimiflokk sinn af kappi þennan vetur
og hélt leikfimisýningar í Fjölni við góðan róm. Lítið varð hinsvegar úr
sumarmótinu á Þjórsártúni sökum óveðurs. Skotfélagið hélt æfingar úti við og
dró að sér forvitna áhorfendur. Félag þetta var aðallega stofnað í því skyni að
vekja áhuga á íþróttum, sérstaklega skotflmi. Stofnfélagar voru 20.
Fólkið:
Dbr. Brynjólfur Jónsson sagnaritari frá Minnanúpi sem
dvalið hefur löngum á Bakkanum, kom til heilsu aftur, eftir slysfarir á fyrra
ári. Geir Guðmundsson frá Háeyri kom til landsins, en hann bjó á Sjálandi og
giftist þarlendri konu Marie Olsen. Stundaði hann hér jarðyrkju um sumarið
ásamt Sjálenskum unglingi, Age Jensen er með honum kom. Geir seldi líka margskonar
jarðyrkjuverkfæri til kartöfluræktunar, tæki, tól og vélar alskonar fyrir
jarðyrkju. Simon Dalaskáld var hér á ferð að selja bækur sínar. Hann var
förumaður frá Skagafirði, þó ekki umrenningur heldur einskonar skemmtikraftur
sem ferðaðist um og stytti fólki stundir. Kjartan Guðmundsson ljósmyndari frá
Hörgsholti opnaði hér á Eyrarbakka ljósmyndastofu. Bjarni Þorkellsson
skipasmiður dvaldi hér við skipasmíði, hafði hann byggt vandaðan vélbát fyrir Þorleif
Guðmundsson frá Háeyri. Var það fyrsti vélbáturinn sem smíðaður var á
Eyrarbakka. Uppskipunarbát smíðaði hann einnig þetta sumar, og a.m.k. tvö
róðraskip þá um veturinn, en Bjarni hafði á sinni tíð smíðað yfir 500 báta og
skip. Verksmiðjueigandi einn, C. H. Thordarson, frá Chicago, (Uppfinningamaður
ættaður úr Hrútaflrði) hafði hér nokkra daga dvöl ásamt konu og syni, en konan
var systir Ingvars Friðrikssonar, beykis á E.b. Hér voru líka á ferð tveir
Rússar sem tóku að sér að brýna hnífa fyrir fólk, og var mörgum starsýnt á.
Þeir föluðust líka eftir litlum mótorbát til kaups, en enginn vildi þeim selja
og héldu þeir þá til Stokkseyrar. Bjarni Eggertsson héðan af Eyrarbakka var við
silungsveiði í Skúmsstaðavötnum í Landeyjum og þóttist veiða vel. Sigurður
Eiriksson regluboði var hér á ferð í vetrarbyrjun að heimsækja
Goodtemplarastúkur og endurvakti stúkuna "Nýársdagurinn". Bjarni Vigfússon frá
Lambastöðum var hér á Bakkanum um veturinn við smíðar. Meðal annars smiðaði
hann skiði úr ask, sem þóttu vel vönduð. Skíðin voru smíðuð eftir norskri gerð
og fylgdu tábönd eftir sama sniði. Það mun hafa þótt nýstárlegt hér syðra, að
gera skíðasmíði að atvinnu sinni. Páll Grímsson, verslunarmaður á Eyrarbakka keypti
Nes í Selvogi ásamt jörðinni "Gata" í sama hreppi, af Gísla bónda Einarssyni er
þar bjó.
Stórafmæli: Jórunn Þorgilsdóttir
í Hólmsbæ hér á Bakkanum varð áttræð, en hún þótti merkiskona og sömu leiðis Gestur
Ormsson í Einarshöfn.
Andlát: Helga Gamalíelsdóttir í Þórðarkoti, andaðist 85 ára að
aldri. Jóhann Jónsson á Stóru Háeyri, rúmlega 70 ára að aldri. Guðrún Einarsdóttir,
gömul kona á Eyrarbakka. Steinunn Pétursdóttir, kennara á Eyrarbakka, 10 ára að
aldri, hafði sumardvöl í Fljótshlíð og lést þar af lungnabólgu. Kristín
Jónsdóttir í Norðurkoti, háöldruð. Hún hafði lengi búið ein í kofa sínum og
þótti einkennileg um margt. Helgi Þorsteinsson, á Gamlahrauni, varð bráðkvaddur
59. ára að aldri. Guðni Jónsson, verslunarm. hér af Eyrarb. Var lengi við Lefoliisverslun
hér áður, en hafði flutti til Rvíkur árið 1910. Sigríður Lára, yngsta barn Guðmundar
Guðmundssonar kaupfélagsstjóra, ekki árs gömu.
Menning: Leikfélagið á Eyrarbakka setti upp nokkur verk. Helstu
leikarar voru Solveig Daníelsen, Jón Helgason prentari Karl H. Bjarnarson
prentari, Pálína Pálsdóttir og Guðmunda Guðmundsdóttir. Ungmennafélag Eyrarbakka
hélt upp á 3ja ára afmæli sitt með skemtisamkomu, sem haldin var í Fjölni. Sá
ljóður var á menningu þorpsins sem og annara þéttbýlisstaða við sjávarsíðuna að
götubörnum var gjarnt á að atast í fólki, einkum drykjumönnum með skrílslátum
og að viðhöfðum óæskilegum munnsöfnuði í þeirra garð sér til skemtunar. Seint
gekk að uppræta þessa menningarvörtu á samfélaginu. Lestrarfélagið hélt áfram
að lána út bækur og var mikið í það sótt. U.M.F.E. stóð fyrir alþýþufræðslu,
þar hélt Einar E. Sæmundsen skógfræðingur fyrirlestur um skógrækt og heimilisprýði,
"Trjáreitur við hvert einasta heimili á landinu", kvað hann ætti að vera heróp
ungmennafélaganna, en áhugi fyrir skógrækt hér reyndist dræmur.
Fiskveiðar, landbúnaður og atvinna: Þorskanet voru nú orðin almenn
veiðarfæri á opnum skipum sunnanlands, en veiðar á færi eða lóðir á undanhaldi.
Steyptir netasteinar sem var uppfinning Ísólfs Pálssonar á Stokkseyri gerðu
veiðarnar meðfærilegri. Afli var tregur framan af vetrarvertíð og sjaldan gaf á
sjó, en þegar leið fram í júní fiskaðist ágætlega en svo dró úr er á leið
sumarið og vildu Eyrbekkingar kenna um erlendum trollurum sem krökkt var af. Lítið
róið að haustinu og afli tegur þó róið væri. Bændur girtu lönd sín í auknum
mæli, en slíkt nær óþekkt nokkrum árum fyr. Óðalsbóndi Guðmundur Ísleifsson á
Stóru-Háeyri vélvæddi sinn búskap að nokkru er hann tók í notkun hestdráttar
rakstrarvél og arfareytingarvél, fyrstur bænda hér við ströndina, fyrir átti
hann hestdráttar sláttuvél. Um sláttinn var fátt fólk heima við, enda lágu
margir í tjöldum við engjaheyskap. Heyfengur virtist ætla að verða góður þetta
árið, en síðsumars brast á með vætutíð, en hey öll náðust þó með haustþurkinum.
kartöflu-uppskera var í meðallagi þetta haustið. Bakkabúar nokkrir fóru um sumarið
austur í silfurbergsnámuna sem starfrækt var í Helgustaðafjalli við Reyðarfjörð.
Unnu þar 10 saman alls og létu vel yflr árangrinum. Einn stein fundu þeir 100
pund, [50 kg] sem mun hafa verið seldur afarverði sökum stærðar og fegurðar, en
dýrt þótti þeim að lifa þar eystra því matvara var þeim seld háu verði.
Tíðarfarið: Framanaf var tíðin rosasöm með frosthörkum. Stundum var
allt að -16°C í febrúar. Sjógangur oft mikill. Afspyrnurok gerði af landsuðri
3. mars, og gekk sjór mjög á land. Á Stokkseyri rak upp mótorbát
Ingólfsversunar á Háeyri, brotnaði hann nokkuð, og í sama veðri fauk bátur frá
Óseyrarnesi og brotnaði i spón, sömuleiðis tveir róðrarbátar úr
Gaulveijarbæjarhreppi. Um páska var allt að 12 stiga frost. Kuldar og rosar
voru í maímánuði, vorið var mjög vætusamt framanaf og kalt, en þurviðri og
dálitlir hitar í júní og byrjun júlí, en frá 7. og framyfir miðjan júlí voru
miklar rigningar. Eftir miðjan júlí gerði þurviðri og fádæmamikinn kulda og hnekti
það mjög mikið gróðri. Dag einn hvíttnaði í vesturfjöllin þó hásumar væri. Svo kom
ágúst með hina indælustu sumarbliðu svo að hver dagurinn var öðrum betri -hitar
og stillur. Með höfuðdegi lagðist í rigningar og sunnanáttir fram á haust, þá
þornaði á ný. Lítilega snjóaði i oktober, en annars ýmist froststillur, þoka og
súld. Fyrstu snjóar komu í byrjun nóvember en síðan umhleypingar.
Heimild: Suðurland 1911
06.06.2012 00:05
"Terpsichore"
Eftir þetta hélt Guðmundur áfram
verslun í Vík og mun það hafa flýtt fyrir, að reglulegar samgöngur þangað sjóleiðis komust á.
En það var M/s "Skaftfellingur", sem
um langt skeið, hélt uppi strandferðum á áðurnefndu svæði, og greiddi
úr örðugleikum sýslubúa til viðskipta sem og önnur vöruflutningaskip, á þessum
tímum sem vegsamgöngur voru engar.
Heimild:
Guðmundur Ísleifsson, Ægir 1934
- 1
- 2