Flokkur: Sjóslys
31.03.2010 00:01
Togarinn Loch Morar strandar
Að morgni 31.mars 1937 veittu menn á Eyrarbakka því eftirtekt að skip var strandað í brimgarðinum milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, um það bil 500 faðma frá skerjagarðinum út undan Gamla Hrauni á stað sem kallast Framnesrif eða Hraunstangar. Var þegar brugðist við til að grenslast frekar eftir þessu, en sökum brims var ekki hægt að komast nærri skipinu. Bjuggust menn helst við að skipið hafi farið þar upp um nóttina, en þá hafði gengið á með suðaustan stormi. Aftaka brim gekk yfir skipið og þótti mönnum til þess lítil von að nokkur gæti verið þar á lífi lengur og vonlaust um björgun þó strandið hefði uppgötvast fyrr. Þegar líða tók á daginn fóru ýmsir hlutir að reka úr skipinu, þar á meðal björgunarhringur. Kom þá í ljós að skipið var enski togarinn Loch Morar Lo 252 frá Aberdeen. Magnús Oddson var þá hreppstjóri á Eyrarbakka og hafði hann tal af manni frá Stokkseyri sem fyrr um nóttina hafði séð ljósagang á þessum stað, líklega flugelda, en vitneskja um þetta hafði ekki borist yfirvöldum á staðnum fyrr en um seinan.
Af 12 manna áhöfn komst enginn lífs af og voru lík þeirra að reka á land öðru hvoru þá um sumarið.Tvívegis tókst björgunarmönnum frá Eyrarbakka að komast um borð í skipið á stórstraumsfjöru, en þá stóð aðeins stjórnborðshliðin upp úr sjó. Björgunarmenn náðu að saga gat á hvalbakinn og komust þaðan í þau rými sem stóðu upp úr sjó en fundu engin lík. Skipið liðaðist smám saman í sundur og hvarf í hafið.
Loch Morar lagði úr höfn í Aberdeen 22. mars áleiðis til Íslandsmiða undir stjórn Walter Edward Barber sem var reyndur og dugandi skipstjóri. En hvað varð til þess að skipið strandaði í brimgarðinum á Eyrarbakka verður víst aldrei vitað.
Minningarathöfn vegna skipverjanna sem fórust með Loch Morar var haldinn í Aberdeen þann 11 apríl fyrir tilstuðlan Royal National Mission to Deep-Sea Fishermen. Lík skipverjanna voru jarðsett á Eyrarbakka.
Nöfn sem skipið hafði áður borið voru: Giovanni Guinti 1918, Idaho 1919 Cymrea 1920, Sir Mark Sykes 1932, og síðast Loch Morar (A361) 1935. Skipið var byggt hjá Ailsa Ship Building Co Ltd 1918 og var 277 tonn að stærð.
Himild: Alþýðublaðið 74.tbl.1937. http://www.llangibby.eclipse.co.uk/Technical%20details/joseph_barret_lo252.htm
24.03.2010 22:51
Gufubáturinn s/s Njáll
Eftir að Eyrarbakkaverslun missti strandferðabátin Odd upp í Grindavíkurfjöru 1904 var þegar hafist handa við að útvega nýjan gufubát og árið eftir var keyptur bátur frá Leith í Skotlandi og fékk hann nafnið Njáll. Hann var 21.47 lestir nettó, eða nokkru stærri en Oddur og með gufuvél. Njáll kom í fyrsta sinn til Eyrarbakka 30. apríl 1905 og hóf fljótlega að vinna sömu störf og Oddur, þ.e.a. sinna strandsiglingum og aðstoða kaupskipin á Eyrarbakka. Hann sleit frá legufærum sínum ( Miðlegan svokölluð) á Eyrarbakkahöfn 13. sept. 1906 í suðaustan stórviðri og hafróti. Svo flóðhátt var, að hann barst yfir öll sker án þess að koma við, og kom heill upp í sand með fulla lestina af rúgmjöli, sem hann hafði komið með frá Reykjavík daginn áður og var því öllu skipað á land. Aðrir bátar skemdust mikið á Eyrarbakka í þessu veðri. 13 opin skip kvað hafa brotnað þar auk skútu sem var með vörur til Ólafs Árnasonar kaupmanns á Stokkseyri. Næsta vor náðist Njáll á flot, en ekki varð meira úr strandferðum hans, en í staðinn var keyptur mótorbátur, sem hét "Hjálpari".
Skipstjórinn á Njáli var danskur, og þótti að mörgu leyti góður drengur og prúðmenni, en vínhneigður um of. Stýrimaðurinn var Sigurjón P. Jónsson, duglegur og góður drengur fæddur og uppalinn á Eyrarbakka, en hafði verið í siglingum erlendis, og lokið þar stýrimannsprófi. (Sigurjón var síðar vel þekktur, sem skipstjóri á flóabátnum "Ingólfi"). Á skipinu var, auk skipstjóra og stýrimanns, 10 manna áhöfn: 4 Danir og 6 Eyrbekkingar, meðal þeirra Jón Sigurðsson síðar hafnsögumaður, og Jóhann Guðmundsson frá Gamlahrauni og Sigurður Þorsteinsson frá Flóagafli.
Heimild: Ingólfur 4.tbl 1906 Ísafold , 59. tbl. 1906 Sjómannablaðið Vikingur (Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri.) Á sjó og landi- Tímagreinar eftir Sigurður Þorsteinsson.
21.03.2010 00:42
Bakka-Oddur
Strandferðabátar Lefolii verslunar voru í þessari röð: "Skjöldur" gufubátur í notkun um og eftir 1884. "Den Lille" frá 1889 og var skipstjóri á honum Bjarni Elíasson. "Oddur" gufubátur um og eftir 1895 og var dani Theilland Hansen að nafni skipstjóri á Oddi. "Njáll" einig gufubátur í notkun frá 1905 og til ársins 1906 er hann strandaði á Eyrarbakka. "Hjálparinn" vélbátur tekinn í notkun 1907 og var skipstjóri lengst af Jón Sigurðsson í Túni. Þessir bátar sigldu á flestar nálægar hafnir, svo sem til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Hafnarfjarðar, Keflavíkur, Þórshafnar, Sandgerði og Reykjavíkur venjulega einu sinni í mánuði yfir sumarið. Þess utan var siglt til Stokkseyrar, Landeyjar (Hallgeirseyjar), Vestmannaeyja, Þorlákshafnar, Selvogs og Grindavíkur þegar svo bar undir. Stundum var siglt undir Eyjafjallasand (Holltsvör) Víkur í Mýrdal, Loftstaða, Gaðs, Hafnarleirs og jafnvel til Borgarness. Voru ferðir þessar eftir samningi við Sýslunefndir og jafnan auglýstar í dagblöðum. Ferðir þessar hafa örugglega skipt miklu máli fyrir veglausar byggðir Suðurlands á sínum tíma.
Gufubátnum Oddi á
ég mun héðan flakka,
þegar kæri knörrinn sá
kemur frá Eyrarbakka.
(Jón Þórðarson Fljótshlíðarskáld)
Oddur var 35-40 tonn að stærð. Hann var talinn ágætis sjóskip og vel gerður að lagi. Skipstjóri á Oddi var danskur maður, Theilland Hansen, sömuleiðis vélstjórinn. Hásetar voru fjórir, allt íslendingar. Helsta verkefni bátsins var að aðstoða seglskipin sem athöfnuðu sig á Einarshöfn. Ferðalög með Oddi þóttu spennandi fyrir almenning sem gáfu sig oft til vinnu við uppskipun á salti út á verstöðvarnar. Eitt af mörgum verkefnum bátsins var að sækja skreið og herta þorskhausa til umboðsmanns verslunarinnar í Grindavík. Lefolii átti hús í Grindavík sem kallað var "Anleggshús" sem var vörugeymsla þar, en auk þess flutti báturinn salt og matvæli til vertíðarmanna. Í þessa ferð fór Oddur venjulega um lokin (Vertíðarlok 11. maí) og svo aftur á haustin. Með Oddi fóru einnig vertíðarmenn austan úr Árnessýslu. Í síðustu strandferð sinni haustið (9. nóvember) 1904 var Oddur á leið til Hafnafjarðar með viðkomu í Grindavík, en um þá ferð ritaði sr. Gísli Brynjólfsson frá Járngerðarstöðum í sjómannablaðið Víking:
"Veður var gott þegar báturinn kom, en þegar hann var nýlagstur gerði suðaustan rok og svo vondan sjó að báðar akkeriskeðjurnar slitnuðu. Var þá ekki að sökum að spyrja. Odd rak á land. En svo happalega vildi til, að hann komst yfir alla fjöru og lenti uppí kampi lítið brotinn og allir mennirnir komust í land óhraktir. En svo fór, að sjórinn braut hann að nokkru. Var hann svo rifinn og fluttur um borð í þýzka skonnortu, sem "Minna" hét, sem var að taka annað brotajárn til útflutnings. En nú tókst svo illa til, að nokkru eftir að Oddur var allur kominn þar í lest sem brotajárn, að aftur gerði versta veður. Þá sleit "Minnu upp og rak hana á land, einmitt í lendingunni í Járngerðarstaðahverfi. Varð þá Odddur strand í annað sinn. Og enn var hann fluttur út ásamt því skipi, sem áður hafði hann í lest sinni. Svo að ekki verður annað sagt en að örlög Bakka-Odds hafi orðið allsöguleg áður en lauk". Heimild: Sjómannablaðið Vikingur 6.tbl.1972 sr.Gísli Brynjólfsson. -10.tbl 1972 Sigurður Guðjónsson Litlu Háeyri. Þjóðólfur 22.tbl. 1895
07.02.2010 23:58
Hús-Magnús
Hús- Magnús var frægur formaður á Bakkanum fyrir aldamótin 1900. Hann var ættaður úr Sölkutóft og fékk viðurnefnið af því að hann var lengi vinnumaður í Húsinu og síðar formaður á skipum dönsku verslunarinnar. Hann var afburða formaður og hugrakkur með eindæmum. Hann kom mörgum sjómanninum til bjargar á ögurstund þegar skip þeirra urðu fyrir áföllum í brimgarðinum og vílaði hann sér ekki við að æða út á móti þeim á skipi sínu fram í bandvitlausan brimgarðinn. Eitt sinn runnu þó tvær grímur á Hús-Magnús:
Jón í Mundakoti og Loftur í Sölkutóft [þá ungir menn] voru hásetar hjá Hús-Manga er hann bjargaði áhöfn Jóns frá Fit þegar skipi hans hlektist á og það fyllti á Rifsósi. Þeir Jón og Loftur voru þeir einu af hásetum Hús-Manga sem eitthvað höfðust að en hinum féllust hendur. Loftur fór um borð í marandi skipið til að skera einn hásetann úr lóðinni sem hann var flæktur í. Meðan á því stóð nálgaðist ólag mikið og skipaði Hús-Mangi að skilja þá eftir og róa til lands en Jón í Mundakoti þreif þá í báða mennina og vippaði þeim eins og ullarballa um borð í skip Hús-Manga og björguðust þeir þannig.
Heimild:SA/ Eyrarbakki - Saga og Atburðir
04.01.2010 22:36
Skúta í hrakningum
Að kvöldi þjóðhátíðardagsins 17. júní 1961 urðu menn á Eyrarbakka þess varir að skúta nokkur var að hrekjast upp í skerjagarðinn. Áhöfn skútunnar skaut upp neyðarblysum og virtust mönnum líklegast að hún myndi stranda. Skipverjar skútunnar töldu að þeir gætu siglt inn til hafnar á Eyrarbakka, en var alls ókunnugt um siglingaleiðina auk þess sem ekki var mögulegt fyrir hana að leggjast við bryggju. Skipstjórarnir Sigurður Guðmundsson og Sigurður Guðjónsson fóru út á fiskibátnum Birninum ásamt nokkrum öðrum til móts við skútuna og lóðsuðu hana til Þorlákshafnar þar sem hafnarskilyrði voru betri. Skútan var á leið til Reykjavíkur en varð að snúa við út af Reykjanesi vegna veðurs.
Hér var um að ræða 15 lesta þýska skútu búna hjálparmótor. Hún var frá Austur Berlín og bar nafnið Viking. Áhöfnin var að æfa sig undir kappsiglingu á Atlantshafi, en þetta fólk 6 karlar og ein kona voru meðlimir siglingaklúbbs í A Berlín. Leið þeirra lá þaðan til Hamborgar og síðan Færeyjar og lentu þau síðan í hrakningum í brimgarðinum vegna óhagstæðra vinda. Skútan komst síðan til Reykjavíkur 24 júní. Þetta var í fyrsta skipti sem skútunni var lagt á Atlantshaf.
Heimild: Alþýðubl.136-139 tbl. og Morgunbl.135.tbl
Þennan dag: 1965 var mikil ófærð í þorpinu vegna snjóa.
12.12.2009 22:03
Barist við brimið
Það er bjartur og fagur vetrarmorgun á Eyrarbakka skömmu fyrir aldamótin 1900 og sjómennirnir ganga rösklega til skipa sinna. Veðurglöggir formenn leggja eyrarð við sandinn og hlusta efir dynum og dynkjum hafsins. Hin margvíslegu sjávarhljóð virðast boða gott veður þennan dag. Það er asi á piltunum, enda hefur verið fiskisæld á miðunum undanfarna daga.
Páll Andrésson formaður frá Nýjabæ og fleiri formenn af Bakkanum reru teinæringum sínum út af svo kölluðum Hafnarslóðum og dvöldust þar fram eftir degi. Seinni hluta dags bregður til hafáttar og eftir skamma stund er komið snarvitlaust hríðarveður með vaxandi sjávargangi. Teinæringurinn brýst í gegnum hafrótið og ekki sér áralengdina gegnum hríðarmugguna og fjallháar öldurnar kasta þessari bátskel eins og korktappa.
Einn hásetanna er Jón Ásgrímsson, þá rösklega þrítugur og harðreyndur sjómaður eftir margar vertíðir. Hann situr undir einni árinni, þriðji maður til hlés og hver vöðvi og hver sin er spennt til hins ítrasta í sameiginlegu átaki þessa lífróðurs. Þeir ná sundinu og marhvítur brimskaflinn gín við sjónum þegar þeir undirbúa síðasta sprettinn til lands. Allt í einu rís brotsjór fyrir aftan skipið og þeir hverfa í hvítfyssandi flauminn.
Jón hélt enn fast um árinna þegar honum var bjargað ásamt skipsfélögum sínum um borð í annan teinæring sem var undir formennsku Guðmundar Steinssonar. Ekkert sást til Páls Andressonar og annars félaga þeirra og voru þeir brátt taldir af.
Þrjátíu ár líða í tímans ólgu sjó og vélbátar hafa leyst teinæringanna af. Dag einn stendur sextugur öldungur við gluggann sinn og hugar að veðrinu og hann hefur rokið upp í hafátt og undirspilið eru þungar drunur Eyrabakkabrimsins. Fólk tekur að safnast saman í vestasta sjógarðshliðinu og öldungurinn slæst í ört stækkandi hópinn. Jón Ásgrímsson hómopati horfir á litlu ljósdepplanna á mótorbátunum þegar þeir birtast hver af öðrum úti á Bússusundi. Öldungurinn þekkir einn bátinn öðrum fremur því einn af sjómönnunum er einkasonur hans Víglundur að nafni og 30 ára gamall. Allt í einu rís sjór undir hekkið og bátnum hvolfir og hverfur í sortan með manni og mús á þeim sömu slóðum og hann sjálfur barðist við klær brimsins með eina ár að vopni á öld teinæringanna.
Þau voru lengi í minnum höfð, þau orð sem öldungurinn lét falla á þessari stundu. "Þá er Villi minn farinn og mér ber að ganga heim og huga að konu hans og börnum"
Þessi bátur var Sæfari (áður Framtíðin) og var eigandi hans Sigurjón Jónsson á Litlu- Háeyri og Guðfinnur mágur hans. Báturinn fórst 5. apríl 1927. Jón Ásgrímsson hómopati var fæddur á Stærribæ í Grímsnesi og átti hann 21 systkini. Hann flutti síðar með foreldrum sínum að Gljúfri í Ölfusi og þá næst til Eyrarbakka, en Jón varð hvað manna elstur.
Heimild: Þjóðviljinn 122 tbl.
http://fiskimann.blogspot.com/2004/09/sjslysi-bssu-1927.html
Sjóslysið á Bússu 1927
Skipasmíðar
25.11.2009 21:45
Svaðilför á Jóni Krók
Þrír ungir menn kvöddu dyra á húsi einu á Eyrarbakka kl 5 aðfaranótt mánudagsins 11 oktober 1965. Þegar húsráðandi kom til dyra spurðu þeir hann hvar á landinu þeir væru staddir. Piltarnir sem voru allir úr Vestmannaeyjum höfðu komist í hann krappann í brimgarðinum á vélarvana bát sínum og hrakist upp í fjörusandinn í þoku og svarta myrkri. Þeir höfðu lagt upp á sunnudagsmorgni frá Vestmannaeyjum á litlum bát og ætlað út í Surtsey. Á leiðinni skall á svarta þoka svo þeir viltust af leið, enda voru engin siglingatæki um borð í kænunni, eða nokkuð annað til að gera vart við sig. Síðar um daginn bilaði vélin í bátnum og tók þá að reka undan vindum og straumi.
Á sunnudagskvöldinu var gerð mikil leit að þeim frá Vestmannaeyjum. Björgunarsveitir gengu fjörur og allur síldveiðiflotinn í eyjum tók þátt í leitinni. Bátarnir sigldu vítt og breitt umhverfis eyjarnar í niða þoku og lýstu upp fjörurnar með ljóskösturum. Lóðsinn fór út í Surtsey en urðu þar einskins varir og líklegt að menn hafi verið farnir að óttast um afdrif piltanna.
Báturinn sem piltarnir voru á var frambyggður álbátur og hét Jón Krókur. Eigandi hans var Páll Helgason sem fyrstur sté á land á Syrtlingi, en eyjan kom upp í gosi þetta sama ár en hvarf síðan í hafið um það leiti sem þessi saga gerist. Þessa ferð fór Páll á Jóni Krók. -Þegar piltarnir þrír þeir Kristján Laxfoss, Gretar Skaftason og Helgi Leifsson voru komnir inn á Eyrarbakkabaug var talsverður sjór og ekkert skyggni. Þeir gátu ekkert aðhafst þegar þeir ráku inn í brimgarðinn en gátu skýlt sér með segldúk, en það var þeim til happs að háflóð var og skolaði þeim alla leið upp í sand óskaddaðir. Strax og þeir voru komnir í hús á Bakkanum voru þeir háttaðir upp í rúm og veitt hin besta aðhlynning. Daginn eftir fóru skipbrotsmennirnir með Herjólfi til Eyja og hafa eflaust fengið þar góðar móttökur.
Heimild:Alþýðubl.1965 229tbl ofl.
Bátsnafnið er líklega í höfuðið á Jóni Krók Þorleifssyni d. 1229. Prestur í Gufudal.
26.04.2009 23:20
Hrakningar á miðunum
Að morgni þriðjudagsins 13 apríl 1926 var stórsteymt en afbragðs sjóveður og sást ekki bára á víðáttumiklum haffletinum þegar skipstjórar af Eyrarbakka og Stokkseyri komust á ról og gáðu til veðurs. Því var ákveðið að róa út á miðin enda afla von og lögðu 11 vélbátar út frá Stokkseyri en 7 frá Eyrarbakka. Meðal þeirra var Öðlingur vélbátur Árna Helgasonar í Akri. Þegar leið á hádegi brast hann á með þvílíkum sunnan stormi og sjógangi að þess voru fá dæmi hér um slóðir. Var nú öllum bátum stefnt til lands en aðeins 5 bátar náðu höfn á Stokkseyri og 4 á Eyrarbakka. Hinir 9 sem eftir voru lokuðust úti sökum brims og hröktust undan veðrinu sem stöðugt fór versnandi.
Þegar mönnum í landi þótti útséð með að bátarnir næðu höfn, var símað til Reykjavíkur og aðstoðar óskað. Var þegar brugðist við og þau skip sem til náðist látin vita og ekki leið á löngu, þar til 5 til 10 togarar voru komnir á vettvang og björguðu þeir áhöfnum tveggja báta frá Eyrarbakka og höfðu þá í togi. Meðal þessara togara var Skallagrímur RE, en hann hafði bjargað skipshöfninni af Öðlingi en báturinn sjálfur brotnaði og sökk. Um nóttina lágu togararnir fyrir flestum bátunum, en tveggja báta var þó enn saknað. Annar þeirra komst til Vestmannaeyja næsta morgun og hinn til Reykjavíkur. Stokkseyrarbátarnir komust svo síðar um daginn til Vestmannaeyja í fylgd með togurunum og varð enginn mannskaði af þessum hrakningum.
Heimild: Alþýðublaðið , 86. tölublað, Veðráttan apr.1926
19.04.2009 00:19
Ekki er ein báran stök
Vélbáturinn Guðbjörg ÁR 25 (áður GK 220) var 57 lesta eikarbátur smíðaður í Hafnarfirði 1946 og var eign Sigurðar Guðmundssonar á Eyrarbakka. Veturinn 1965 rak hvert óhappið annað á skipastól Eyrbekkinga. Í byrjun árs strandaði Jón Helgason og gjör eiðilagðist. Hann endaði þjónustu sína sem áramótabrenna. Hann hét áður Maggý VE111 43.tn smíðaður 1944. Eigandi Jóns Helgasonar var Eyrar hf. Skipstjóri Erlingur Ævar Jónsson. Skömmu síðar kom eldur upp í vélbátnum Öðlingi þar sem hann stóð í slippnum og skemdist hann töluvert. Þá komst fjörumaðkur í Emmuna og var hún dreginn í slipp þar sem hún dagaði uppi. Í febrúar þennan vetur strandaði svo Guðbjörgin skömmu eftir að henni var rennt úr slippnum. Þennan vetur voru aðeins fjórir bátar gerðir út frá Bakkanum og hofði nú illa þegar allt leit út fyrir að aðeins einn yrði sjófær.
10.12.2008 21:06
Waldemar
Kaupskip eitt nefnt Waldemar 70 lestir að stærð strandaði á skeri utan við höfnina í innsiglingunni á Eyrarbakka 14. september árið 1855. Um borð í skipinu voru m.a. um 800 tunnur af matvæum sem skipa átti upp í Eyrarbakkaverslun. Skipið brotnaði í spón áður en tókst að bjarga farminum. Flestar tunnurnar hurfu í hafið en annað ónýttist. Það sem síðar náðist að bjarga úr skipsflakinu var selt á uppboði. Skipsskrokkurinn seldist á 270 ríkisdali, korntunnan á 2 rd, en sykur, kaffi, brennivín og fleyra seldist ærnu verði.
Heimild: Norðri 3.árg. 22.tbl. 1855
09.06.2007 21:38
Ískyggilegt veður!
Fimtudagurinn 29.mars árið1883 lögðu menn á sjóinn eins og endranær þegar færi gafst á vetrarvertíðum. Að morgni þessa svala vetrardags var kafalds fjúk en þó hægur norðan kaldi og laust við brim. Staðkunnugir töldu þó að horfurnar væru heldur ískyggilegar. En þrátt fyrir það létu formenn á Bakkanum kalla vermenn sína til skips. Þá var einnig róið í öðrum verstöðvum í nágreninu þennan dag, svo sem Þorlákshöfn,Selvogi og Herdísarvík.
Um kl 11 um morguninn tók hann að hvessa og að lítilli stundu liðinni gerði blindbil,svo varla sást handa skil. Voru þá nær allir formenn rónir héðan af Eyrarbakka öðru sinni. Þó náðu flestir landi eftir kl 2 e.h. Siðasta skipið sem náði landi þennan dag lenti kl 4 e.h. en tvö skip náðu ekki lendingu fyrr en kl 10 að mogni næsta dags.Voru þá mennirnir aðfram komnir af þreitu, kulda og vosbúð en allir á lífi þó sumir væri lítið eitt kalnir. Mennirnir höfðu þá barist gegn veðrinu og snjóbilnum í nær sólarhring sleitulaust þar til veður tók að ganga niður.
Í Þorlákshöfn náðu allir landi nema tvö skip sem voru talin af þar sem ekkert hafði spurst til þeirra næstu daga á eftir. Formenn þessara skipa voru Ólafur bóndi Jóhannesson frá Dísarstöðum í Flóa og Þorkell Þorkelsson frá Óseyrarnesi báðir miklir efnismenn til sjós og lands.
Ólafur hafði fiskað vel um morguninn (39 í hlut) en hafði síðan róið öðru sinni þann dag. Á skipi Ólafs voru 15 menn að honum meðtöldum en á skipi Þorkells voru mennirnir 14 eða samtals 29 sem saknað var. Veðrið var svo mikið að í landi var ekki stætt og má því leiða að því líkum að vindhraðinn hafi verið vel yfir 25 m/s eða nærri 30m/s auk þess sem snjóbilurinn var það mikill að ekki hafi sést milli húsa.
Frá Herdísarvík hafði frést að eitt skip hafði brotnað þar í lendingu en allir komist af þrátt fyrir veðurhaminn. Í þessu sama veðri varð unglingspiltur úti frá Hróaskeldu í Villingaholti er hann ætlaði til sauðahúsa og einig kona frá Seli í Stokkseyrarhreppi. Því má ætla að töluvert frost hafi verið þennan dag og vindkæling mikil.
Eyrbekkingar þóttust heppnir að hafa heimt áhafnir sínar úr helju þennan dag, því nokkru áður eða 9.mars fórst skip 10 manna far af Eyrarbakka í miklu brimi þá er þeir voru að koma úr róðri og fóru allir í sjóinn en 5 mönnum tókst að bjarga í land. Þetta var skip Sigurðar Gamalíusonar frá Eyfakoti og fórst hann ásamt fjórum hásetum sínum,allt giftir menn nema einn. Skipið sjálft brotnaði í spón og tapaðist með öllu.
Nokkrum vikum eftir þennan stormasama dag rak flösku á land er kastað hafði verið í sjó frá Vestmannaeyjum og í flöskunni var bréf þar sem tekið var fram að þeim Þorkeli og Ólafi hafi verið bjargað ásamt mönnum sínum um borð í franska skútu úti á regin hafi og verið settir í land í Vestmannaeyjum. Skip þeirra félaga sem voru nánast ný og smíðuð á Eyrarbakka fundust síðan þann 4 apríl molbrotin á Staðarfjörum við Grindavík.
Vermenn á Eyrarbakka sátu oft við þröngann kost í gamladaga, en þó höfðu þeir sem réru hjá Torfa Sigurðsyni í Norðurbæ nokkur hlunnindi umfram aðra vermenn á Bakkanum. Torfi var formaður á skipi sem Peter Nielsen faktor í Húsinu átti og útvegaði hann vermönnum er réru hjá Torfa brauðið frítt. Aðrir vermenn sáu sér fljótt leik á borði þegar lítið var um brauð og þóttust róa hjá Torfa þegar þeir komu í Vesturbúðina til innkaupa. Svarði þá Nielsen einnat á þessa leið, " Ja först du róer hjá Torfur so skal du ha bröd"
- 1
- 2