Flokkur: Dagbókin

29.12.2007 23:10

þannig var 2007

 Í janúar var tíðin mild og skíðaiðkan varð næstum úrelt sport á landi ísa og margir hugðust gefa sjóminjasafninu skíði sín og stunda bara golf héðan í frá, en svo rættist úr, því þann 10.janúar tók að snjóa og snjóa og snjóa og kaldir vindar blésu um lönd og láð og á endanum fór allt á bólakaf í snjó og gekk svo fram á Bóndadag. Svo kom Þorraþýða og þá héldu 80 börn úr barnaskólanum á Bakkanum heim til sín í mótmælaskyni vegna meints sleifarlags bæjaryfirvalda við framkvæmdir á skólalóð elsta barnaskóla Íslands. Þá var  vor í lofti á Bakkanum."Ekkert vor í Árborg" sagði þá bæjarstýran á Selfossi. 
 Í febrúar urðu snemmkomnar leysingar til þess að fjaran fylltist af ísruðningi úr Ölfusá. Þetta gerist árlega, en oftast þó í mars mánuði. Í þýðunni hófu Bakkamenn að byggja ný hús, bæta og breyta eins og aðrir landsmenn. Þá fór mb. Álaborgin til Vestmannaeyja og kom ekki aftur því síðasta fiskverkunarhúsið lokaði og seldi bátinn og kvótann með. "Lífið er ekki lengur saltfiskur" sagði Jói. Það voru fleiri sem lögðu upp laupana þennan mánuðinn. Á meðan febrúarsólin bakaði húsveggina á Bakkanum hætti Jón Bjarni með sjoppuna sína og Íslandspóstur fór líka sama dag. "Kreppa" sagði einhver. (Þorpsbúar senda nú bréf með vinum og vandamönnum!)
 Í mars komu fyrstu farfuglarnir. það voru nokkrar hungraðar rituskjátur sem settust að í fjörunni. Veðrið var milt í fyrstu svo að nokkrir vorlaukar rugluðust eins og landsmenn og tóku að springa út of snemma, því dag einn kom skyndilega fimbulvetur svona upp úr þurru. Svo skiptust á stormar og stillur. Unnarsdætur létu dansinn duna við mararbakkann sem aldrei fyrr og þeyttu stórgrýti og smásteinum undan faldi sínum upp í fjörukambinn. Um það leiti opnuðu bræðurnir frá Merkisteini nýja verslun á Eyrarbakka og skömmu síðar kom Tjaldurinn og Lóan sem slapp við að kveða burt snjóinn að þessu sinni.
 Páskahretið kom ekki eins og menn áttu von á og var aprílmánuður í mildari kantinum. Bakkamönnum dreymdi um endurbyggingu Vesturbúðarinnar eins og höfuðborgarbúum sem dreymir um músikkhöll, þessa þýðu aprílnætur. "Hér er verk að vinna" sagði Mangi. Sumar og vetur frusu svo saman og Harpa gekk í garð með sinureyk.
 Strax í maí fór að hitna í kolunum og hvert hitametið á fætur öðru var slegið víða um land. Í hafinu skorti Sandsíli en krían kom samt og túnfíflar gægðust upp úr grasflötinni. Hátíðin Vorskipið kemur var haldin með glæsibrag."Hvar er vorskipið?" spurði aðkomumaður einn langt að kominn, en svo kom hret. Það snjóaði í fjöll og niður á láglendi eins og feigðarboði. Um Hvítasunnu andaði enn köldu, en um síðir birti upp öll él og svo tók að hlýna heldur betur og undir lok mánaðarins var ríflega 17 stiga hiti á Bakkanum.
 Í byrjun júní fór að rigna með sunnanáttum og brimið hjó klappirnar. Svo kom sólin og þurkaði upp engjar, tjarnir og tún. Bakkamenn héldu sína árlegu Jónsmessuhátíð í blíðskaparveðri í fjöruni og undu glaðir við sitt, enda oft séð það svartara. Bjarni hélt ræðu og blés mönnum eld í brjóst. Þá urðu menn  varir við hlýnun loftslagsins þegar hitastigið tók að rjúka upp í 20°C hvað eftir annað síðustu dagana í júní.
 Sólin vermdi Bakkann í júli, en stöku þrumuskúrir brustu á eins og í heitum og fjarlægum löndum. Þurkurinn hélst við allann mánuðinn með hita allt að 22°C. Verulega hægði á grasvexti og svörð tók að brenna. Bændur svitnuðu! 
 Ágústmánuður byrjaði með sama sniði, þurr og hlýr, svo elstu menn kunnu ekki frá að segja öðru eins, en svo kom næturfrost kartöflubændum að óvörum. Undir lokin kom svo rigningin og rokið í öllu sínu veldi og krían hélt suður án ungviðis eina ferðina enn.
 Í byrjun september fóru stormar að gera vart við sig með rigningartíð og leiðindarveðri sem hélst út mánuðinn. Úrkomumetin voru víða slegin á meðan Bakkamenn tóku upp karöflurnar sínar þetta haustið. "Þetta er bara smælki" sagði Gvendur á Sandi. "Kreppa" sagði einhver.
 Áfram ringdi í oktober og stormar feyktu laufum af trjánum á meðan Selfoss hristist í jarðskjálftum. Selfyssingunum tókst að stöðva jarðskjálftana um stund með því að syngja Selfosslagið í sífellu undir stjórn sýslumannsins í lúðrasveitarbúningnum. Svo kom fyrsti vetrardagur með svala í lofti og daginn eftir féll fyrsti snjórinn á Bakkann.
 Nóvember byrjaði með stormi og Flóinn skalf í jarðskjálftahrinu og Selfosslagið tók að glymja á ný í útvarpinu. Rigningartíðin hélt áfram og mánuðurinn leið út eins og hann byrjaði.
 Desember var einnig óvenju stormasamur með ofsaveðri á köflum og tóku Ægisdætur að skvettast á land og róta upp í fjörunni svo sumum stóð vart á sama. "Nei" sagði siglingamálastjóri þegar hann var beðinn um lengri sjóvarnargarð. "Kreppa" sagði einhver. Svo komu jólin með bílfarma af gjafapappír og þá fór að snjóa og veður urðu köld fram til áramóta. Árinu lýkur svo með hvelli. þ.e. asahláku, grenjandi rigningu og kolvitlausu veðri að sögn.

25.10.2007 10:50

Selfoss leikur á reiðiskjálfi.

Jarðskjálftar skekja nú Selfoss svo hús leika þar á reiðiskjálfi með undarlegum hvin. Bækur féllu úr hillum á Sunnlenska bókakaffinu í hádeginu samkv.heimildum. Skjálftahrinan hófst kl. 3 í nótt undir Ingólfsfjalli. Í hádeginu höfðu um 15 skjálftar mælst, sá stærsti kl. 12:06 um 3 stig segir á vef Veðurstofunar.
Sjá töflu!

Eflaust er uggur í mörgum, því enn er beðið eftir seinnihluta suðurlandsskjálft á þessum slóðum.

16.10.2007 14:30

Sjógarðurinn stenst vel tímans tönn.


Á árunum 1990-1997 var gerður voldugur sjóvarnargarður framan við hina fornu sjógarða á Eyrarbakka og eru nú 10 ár liðin frá því að þessum áfanga var lokið. Árið 1999 var sjóvörnin svo framlengd austur fyrir barnaskólann og sjóvörn gerð fyrir Gamla-Hrauni. Ekki verður annað séð en að garður þessi hafi staðið sig með mestu prýði þó ekki hafi enn reint verulega á hann af völdum stórsjóa. Garðurinn veitir þorpinu einnig gott skjól fyrir svalri hafgolunni á sumrin og söltu særoki vetrarins. Fyrstu sjóvarnargarðarnir voru hlaðnir um 1788 og eftir svokallað Stóraflóð árið 1799 en skipulögð sjógarðshleðsla meðfram allri byggðinni hófst í kringum1830

Meira:

01.09.2007 00:18

Sú var tíðin á ströndinni.


Á ströndinni þar sem brimið svarrar og tröllaukin úthafsaldan utan af Atlantshafi teygjir hvítfextan fald sinn á þessum fyrstu haustdögum standa sjávarþorpin Eyrarbakki og Stokkseyri eins og hljóð systkyni hlið við hlið og bíða þess að eftir þeim verði tekið.

Sú var tíðin að þessi þorp voru aðeins tvö í Flóanum og áttu sitt blómaskeið en svo kom tími hnignunar eins og hjá svo mörgum sjávarþorpunum nú til dags. Bakkinn var á sínum tíma snertipunktur Suðurlands við umheiminn. Þangað komu skip og þaðan fóru skip yfir Atlantsála suður til framandi landa og þar var miðstöð verslunar og viðskipta fram eftir öldum. Á Bakkanum er líka eina húsið á landinu sem skrifað er með stórum staf, þar stóð vagga menningar við músik og selskapslíf fína fólksinns. Á Stokkseyri bjó þá Þuríður formaður, Jón í Móhúsum og draugurinn Móri þar sem sjósókn, landbúnaður og verslun var stunduð af mikilli eljusemi.

Svo kom sá dagur að verslunin hvarf á braut til hins nýja staðar sem Selfoss heitir og þá hljóðnaði músikin í heilan mannsaldur frá píanóinu góða í Húsinu. En þorpsbúar lögðu ekki árar í bát heldur efldust í útgerð og fiskvinnslu, byggðu höfn og frystihús og virtust bara geta horft björtum augum til framtíðar, en svo fór allt öðruvísi en ætlað var og þessi undirstöðu atvinnuvegur þorpana hvarf í kalda brimöldu kvótakerfis og uppkaupa Sægreifa.

Þá var brugðið á það ráð að sameina Flóafjölskylduna í það sem Árborg heitir í von um að hefja mætti þessi þorp til vegs og virðingar á ný og á meðan brimið þvær hin skreypu sker tóku heimamenn, einkum á Stokkseyri að sækja ný mið sem byggir á ferðaþjónustu. Þar er Töfragarðurinn og Drauga og álfasafn svo eitthvað sé nefnt og á báðum stöðum eru eftirtektaverðir veitingastaðir og ekki má gleima Húsinu með stórum staf og Sjóminjasafninu á Bakkanum.

Þorpin sjálf eru þó mesta aðdráttaraflið, gömlu húsin, sjóvarnargarðurinn, fjaran og brimið og þennan vísir að ferðamannaiðnaði þarf að hlúa að og byggja undir. Það sem hér þarf að rísa er ferðamannamiðstöð þar sem ferðafólk getur haft athvarf, hreinlætisaðstöðu og fengið upplýsingar um það sem þorpin hafa upp á að bjóða, merkja gönguleiðir og sögulega staði annara en Hússins og Þuriðarbúðar sem nú þegar eru gerð góð skil og mætti nefna þar til Sandvarnargarðinn, höfnina fornu, sjógarðinn og þau hús sem hafa sögulega tilvísun ásamt helstu örnefnum á gönguleiðum og stígunum sem var eitt sinn lofað. Nú mættu forsvarsmenn sveitarfélagsinns líta upp frá þungbæru miðbæjarskipulagi Selfoss litla stund og koma að þessu máli og hrinda í framkvæmd.

11.04.2007 12:35

Dagur umhverfisins - maí 2007 -

Umhverfisnefnd Árborgar hefur ákveðið að dagarnir 3. - 7. maí verði sérstaklega tileinkaðir umhverfinu. Umhverfisverðlaun 2007 verða veitt fimmtudaginn 3. maí í Tryggvagarði og verkefninu "Tökum á - tökum til" ýtt úr hlaði í tengslum við þessa daga segir á vef Árborgar.

Fjörurnar á Eyrarbakka og Stokkseyri eru einhverjar þær fegurstu perlur sem landsmenn eiga og njóta vaxandi vinsælda sem útivistarsvæði. En því miður valda stormar vetrarinns því að ýmislegt rusl rekur á fjörurnar, alskonar plasthlutir sem er óvistvænt efni og eyðist ekki.

Þarna þyrfti bæjarfélagið að koma til og skipuleggja hreinsun og koma fyrir bekkjum svo fólk geti tillt sér og horft yfir hafið og notið hreinnar náttúru.

Margar hendur vinna létt verk og því mættu ávalt vera til staðar rusladallar fyrir þá sem vilja hjálpa til með að halda ströndinni snyrtilegri og hreinni.

08.04.2007 23:06

Um Hrafnahret.

Lítið fór nú fyrir páskahreti því sem spáð var,en þó er ekki úti öll nótt enn um smá hret á glugga. Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret. En nú er eimitt 9 nætur til sumars og nú er spáð slyddu í mesta lagi hér syðra en snjókomu noðan til á landinu. Ein vísa er til um Hrafnahret og hljóðar svo:






Gat ei þolað hrafnahret
héðan flýði úr Bólu.
Um blindan svola brátt ég get.
Brenndi stolið sauðaket.

Höfundur:
Stefán Tómasson læknir á Egilsá f.1806 - d.1864

18.02.2007 22:46

Bakkasögur frá því í gamladaga!

Að undanförnu hef ég tekið saman nokkrar sögur af Eyrarbakka og skipt þeim í tvo flokka, annarsvegar Sjóferðasögur en þar er t.d.lítil saga af samskiptum Þorleifs Þorleifssonar á Háeyri við hinn norska kaptein Jacopsen sem endaði á voflegan hátt. Svo  Brennusögur en þar eru teknar saman helstu sagnir um eldsvoða á 19 og 20 öld.

 

Fleiri sögur koma svo við hentugleik.

 

Tíðin: Mild og góð með frískandi sjávarlofti,en dálítið vætusöm.

 

Lítil verðkönnun: 1 lítr.nýmjólk frá MBF í Bónus á Selfossi kr.75 Smjörvi 300gr kr.158 MS Matreiðslu rjómi 1/2 ltr. kr.167 og Bónusbollur fyrir Bolludaginn 14stk á kr.259

 

Í Samkap á Selfossi kostar 1ltr.nýmjólk kr.85 Matreiðslurjómi 1/2 ltr. kr.185

09.02.2007 10:56

Bakkamenn byggja.

Talsverðar byggingarframkvæmdir standa yfir á Bakkanum þessa dagana og ný hús dúkka upp hér og hvar í þorpinu. Í gær hélt Klaudiuzs reisugildi á "Figlarskistöðum" og óskar Nýtt Brim honum til hamingju.

Í hinum enda þorpsinns er Halldór Forni að gera sinn "Fornalund" fokheldann.Þetta er reisulegt hús sem Forni hefur byggt upp á egin spítur.

Við "Bráðræði" er verið að byggja í stíl úr stáli og staurum en í engu bráðræði.

Nú er búið að selja Álaborgina til Eyja og er þá útséð með það að útgerð og fiskvinnsla á Eyrarbakka heyrir nú sögunni til. Það eru breyttir tímar og tækifærin liggja nú á öðrum sviðum.

Tíðin:

Bjart en en dálítið frost með norðlægum áttum.

01.02.2007 12:36

Jakaburður

Mikill jakaburður er nú um þessar mundir á Eyrarbakkafjörum en leysingarnar að undanförnu valda því að Ölfusá ber með sér mikið íshrafl og brimið hleður síðan ísinn upp í flæðarmálinu.

29.01.2007 22:00

Sleifarlagi mótmælt.

Eyrbekkingar eru aldir við að taka til hendinni þegar mikið liggur við og kunna því egi við leti og sleifargang þegar þess gerist þörf að taka hendur úr vösum og bretta upp ermar og því brugðu kennarar og starfsfólk í barnaskólanum á Eyrarbakka á það ráð að senda áttatíu börn í efstu bekkjum skólans heim til sín um tíuleytið í morgun til þess að mótmæla því sem þeir kalla sleifarlag bæjaryfirvalda við framkvæmdir á skólalóðinni á Eyrarbakka.

 

Nánar um þetta: www.stokkseyri.is

Fréttatilkynning frá Árborg varðandi málið

29.01.2007 09:40

300 ár frá Stóru bólu.

Á þessu ári eru 300 ár síðan  stóra bóla barst til Eyrarbakka með farskipi sem kom með varning og farþega inn á Einarshöfn. Sóttin herjaði um allt Ísland og var mannskæð farsótt sem barst um land allt árið 1707.

 

220 ár frá því að einokun á verslun var aflétt.

 

110 ár eru liðin frá því að Eyrarbakkahreppur og Búnaðarfélag Eyrarbakkahrepps var stofnað.

 

90 ár eru síðan hinn þekkti kaupmaður Guðlaugur Pálsson hóf verslunarrekstur á Eyrarbakka.

 

80 ár frá því að Sæfari ÁR fórst á Bússusundi.

 

60 ár frá stofnun ræktunarsambands Eyrbyggja.

 

50 ár frá því að Eyrbekkingar eignuðust fyrsta slökkvibílinn.

 

30 ár frá Aðventuflóðinu svokallaða árið1977 þegar Eyrbekkingar og Stokkseyringar urðu fyrir stórtjóni af völdum sjávarflóða. Einnig eru 30 ár frá því að fyrsti og eini togari Eyrbekkinga og nágranabyggðalaga Bjarni Herjólfsson var vígður.

 

20 ár frá því að dvalarheimili aldraðra að Sólvöllum var tekið í notkun.

 

10 ár frá því að framkvæmdum lauk við hina nýju sjógarða.

28.01.2007 17:18

Íslands forni fjandi.

Þeir fréttir berast nú á netmiðlum að hafís fyllir nú Dýrafjörð á Vestfjörðum og nær hann langt inn fyrir Þingeyri og hamlar siglingum og sjósókn. Slíkt hefur ekki gerst svo lengi sem allra elstu menn muna á þessum slóðum. Þessu veldur öflug hæð suður af landinu sem orsakað hefur stöðugar suðvestanáttir að undanförnu.

 

Það er hinsvegar 313 ár síðan  eða árið 1694 sem fyrst er heimilda getið um svo mikinn hafís að hann náði inn á Eyrarbakka og suður fyrir Vestmannaeyjar og kom í veg fyrir að vorskipin kæmust með varning sinn til Eyrarbakka. Ekki var orðið skipafært inn á Einarshöfn fyrr en um Jónsmessu það ár og líklega hafa Íslendingar þá mátt þreyja Þorran og Góuna og gera sér súpu úr handritum og skinnskóm.

 

Tíðin.

Hér á Bakkanum hefur  tíðin verið mild, hiti frá 3-6 °C og hægar vestanáttir með þokusúld. Einungis stæðstu skaflar og snjóruðningar standa eftir hér og hvar og jörð virðist koma vel undan snjó.

 

Úr þorpinu.

Eyrbekkingar héldu sítt árlega þorrablót nú um helgina og ku hafa verið uppselt á þann vinsæla mannfögnuð nú sem endranær og þeir Skúmstæðingar sem héldu sig heima við máttu heyra óm af gleði og söng bergmála um hverfið. Væntanlega munu einhverjar fréttir af þessari Jöfragleði upplýsast á Eyrarbakki.is

08.01.2007 12:37

Halastjarna!

Dularfullt ljós á himni, hélt það væri háfleyg risaþota en þarna er á ferðinni halastjarnan  McNaught. Hægt er að sjá hana bjarta og skæra í suð austri snemma morguns. Það var ástralski stjörnufræðingurinn Robert McNaught sem uppgötvaði stjörnuna og er hún kennd við hann. Hann sá hana 7. ágúst í fyrra á mynd sem tekin var með stjörnusjónauka í Ástralíu. Þá var stjarnan of dauf til að sjást með berum augum, en síðan hefur braut hennar legið inn í sólkerfið og eftir því sem hún hefur nálgast sólina hefur hún orðið bjartari.

 

Elstu heimildir um halastjörnu er að finna í kínverskri bók frá 1057 f.Kr. Árið 66 e.Kr. skrifar sagnaritarinn Jósefus um halastjörnu sem hékk á himninum yfir Jerúsalem eins og glóandi sverð í heilt ár. Þúsund árum síðar, árið 1066, sáu normenn halastjörnu á himinum og töldu hana boða fall einhvers konungsdæmis.

 

Haldið þið nokkuð að bæjarstjórnin í Árborg sé  í fallhættu?

Í sögu jarðar kom oft fyrir að halastjörnur rákust á jörðina. Slíkir árekstrar léku stórt hlutverk í þróun jarðar, sér í lagi snemma í sögu hennar, fyrir milljörðum ára. Margir vísindamenn telja að vatnið á jörðinni og lífræn efnasambönd sem komu lífinu af stað hafi að hluta til komið frá halastjörnum. Þetta er ein helsta ástæðan fyrir því hve vísindamenn eru spenntir fyrir því að rannsaka halastjörnur. Af sömu ástæðu er líklegt að einhverskonar lífræn efnasambönd eða lífsform hafi tekið sér bólfestu á öðrum plánetum t.d. á Mars. Vísindamenn telja meira að segja að lífsform í míkró formi hafi þrifist á Mars fram til ársins 1976 þegar plánetan var heimsótt af  Víking farinu sem átti að finna jarðlíkar lífverur á Mars en gerðu ekki ráð fyrir að hugsanlega þrifist þar lífverur í míkró formi. Nú telja sumir vísindamenn eins og Dirk Schulze-Makuch prófisor við Washington State University að NASA hafi eitt öllu lífi á plánetuni Mars með því að senda þangað "Viking" geimfarið.


Nasa found life on Mars and killed it

 

Flettingar í dag: 1591
Gestir í dag: 254
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 261881
Samtals gestir: 33881
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:21:11