Flokkur: Dagbókin

26.02.2009 18:00

Mundakot mulið undir tönn

Mið Mundakot

Mundakot undir tönn
Mið-Mundakot er þriðja skjálftahúsið sem hefur orðið vinnuvélum að bráð. Húsið er holsteinshús, en hús sem þannig eru byggð þola síður öfluga jarðskjálfta en timbur og steinhús.

08.02.2009 14:54

Vesturbúð opnar.

Bakkabúð opnar á ný.Bakkabúðin hefur nú opnað undir nafninu Vesturbúð en undir því gælunafni gekk ein stæðsta verslun landsins á Eyrarbakka á sínum tíma. Eingin verslun hefur verið á þessum forna verslunarstað síðan Merkisteinn hætti rekstri í október á síðasta ári og er því þetta framtak kærkomið fyrir íbúa þorpsins. Það eru þeir Agnar og Finnur Kristjáns sem hafa reksturinn með höndum.

08.12.2008 21:37

Sögulegt atvik

Líkan af herskipiÞann 5.ágúst árið 1809 lá enska herskipið Talbot við akkeri á ytrihöfninni á Eyrarbakka. Skipið hafði leitað þar vars undan óveðri undir stjórn kapteins Alexander Jones. Á Eyrarbakka fær hann þær fréttir að í Reykjavik liggi þrjú ensk skip (þ.á.m.ensku víkingakaupskipin Margrét og Anna, þau höfðu uppi hinn nýja íslenska fána, bláfeld með þrem hvítum þorskflökum)  og að enskur sápukaupmaður (Samuel Phelps)  væri orðinn höfuðsmaður eyjarinnar. Alexander Jones lét þegar létta akkerum og stefndi skipi sínu til Hafnafjarðar til þess að taka málin í sínar hendur.

 

Þetta sumar hafði orðið "bylting" á Íslandi á meðan Napoleonsstyrjöldin geysaði í Evrópu og landið var í raun stjórnlaust frá dönsku yfirvaldi. Danskur túlkur Samúels Phelps, Jörgensen að nafni (Jörundur hundadagakonungur) fór þá með völd landsins í umboði sápukaupmannsins. Hann lýsti því yfir að Ísland væri laust og liðugt frá dönsku ríkisvaldi og hefði frið um alla veröld. Kanski gat Jörgensen kent Eyrbekkingum óbeint um að valdatíð hans og "sjálfstæði Íslands" lauk svo skindilega.

 

Jörgensen þessi hafði sem ungur maður verið á kolaflutningaskipi, en síðar munstraður sem miðskipsmaður á einu skipa breska flotans þar til hann gekk til liðs við Samúel kaupmann sem sérlegur túlkur í viðskiptum hans við íslendinga.

Heimild: Bréf frá Alexander Jones-Íslensk sagnablöð 1816-1820

11.10.2008 23:19

Þjóðin eignast Ísland aftur

Þjóðfáni Íslands hin fyrsti. Bankafánar blakta ekki lengur.Nú þegar kardínálar bankanna og aðrir útrásarvíkingar eru flúnir land eftir að hafa ekki bara selt ömmu sína, heldur og mömmu sína, börn og barnabörn í áralanga skuldafjötra, þá hefur þjóðin í þessu alsherjar hruni þó eignast landið sitt aftur og við getum vissulega óskað okkur til hamingju með það. En þjóðin þarf líka að eignast fiskimiðin á ný til að tryggja framfærslu sína þrátt fyrir ógnvænlegar skuldir þjóðarbúsins. Ekki er lengur boðlegt að fiskurinn í sjónum sé í höndum fárra útvalinna einkaaðila því nú er of mikið í húfi.

 

Við getum nú byrjað upp á nýtt rétt eins og við gerðum þann 17. júní árið 1944 þegar við tókum okkar fyrstu skref sem fullvalda þjóð. Þá var haldin mikil hátíð á Eyrarbakka. Þennan dag var Eyrabakki ekki lengur undir dönskum fána því hinn Íslenski bláhvíti fáni hafði verið dreginn að húni í fyrsta sinn. Ísland hafði nú hlotið sjálfstæði á ný. Hvarvetna blöktu fánar í þorpinu, hús og garðar víða skreyttir blómum. Samkomusalurinn í Fjölni allur vafin blómafléttum og lyngsveigum.

 

Dagskráin hófst með skrúðgöngu kl.1.30 eh. Gengið var frá barnaskólanum til kirkju. fremst gengu fánaberar, stúlka á íslenskum búningi og piltur í búningi með íslensku fánalitunum. Næst gekk yngsta kynslóðin allt niður í 3 ára börn. Kynslóðin sem erfa skildi landið og verja sjálfstæði hennar alla sína æfidaga. Öll héldu þau á fánum, og voru hvítklædd með bláum skrautböndum. Þannig voru nálæga 50 börn búinn litum okkar frjálsu þjóðar og litum okkar Eyrarbekkinga. Síðan komu eldri börn og unglingar og svo fullorðnir. Alls tóku 400 manns þátt í skrúðgöngunni eða 2/3 íbúa þorpsins.

 

Kirkjan okkar var skreytt á hinn virðulegasta hátt með íslenskum blómum en þar messaði sr. Árelíus Níelsson fyrir fullu húsi sem lauk með því að kirkjukórinn söng íslenska þjóðsönginn. Úr kirkju var gengið á samkomusvæði Bakkamanna, en þar hafði verið gert hið fegursta skrauthlið með yfirskriftinni "Ísland lýðveldi 17.júní 1944" Þar hófst skemtun með ávarpi Ólafs Helgasonar oddvita. Ræður héldu Kjartan Ólafsson form. UMFE og Sigurður Kristjánsson kaupmaður og kirkjukórinn söng ættjarðarljóð undir stjórn Kristins Jónassonar organista.

 

Síðdegis var svo dagskránni framhaldið í Samkomuhúsinu Fjölni, en þar flutti fjallkonan ávarp í ljóðum sem ort voru í tilefni dagsins. Síðan komu fram sögupersónur í búningum síns tíma. Fyrstur var Þorgeir ljósvetningagoði, þá Snorri Sturluson, svo Jón biskup Vidalín o.s.fr. Lásu þeir upp viðeigandi kafla úr egin ritum. Þætti þessum lauk með upplestri sr. Árelíusar úr Fjallræðunni og nýrri bók um og eftir Jón Sigurðsson forseta hins nýstofnaða lýðveldis. Lúðvík Nordal læknir fór með hátíðarljóð sem hann hafði sjálfur samið í tilefni dagsins. Að endingu söng kirkjukórinn "Ó guðs vors lands"

 

Margt annað var til skemmtunar gert, t.d. skrautsýning sem nefndist "Jónsmessunóttin" en það var ung stúlka íklædd búningi áþekk brúðarslæðum, skreyttum lifandi blómum sem fór með þetta atriði. Hún studdist við blómaskreyttan sprota, en á meðan hún sveif um sviðið í ljósaskrúði, var flutt hið draumfagra kvæði Jóhannesar úr Kötlum: Jónsmessunótt, en það er einmitt sú nótt sem Eyrbekkingar hafa haldið hvað hátíðlegastan, bæði fyrr og síðar.

 

Nú höfðu Eyrbekkingar sem og aðrir landsmenn eignast nýjan hátíðisdag, þjóðhátíðardaginn 17.júní. Á þessi merku tímamót var rækilega minnt í búðarglugga Sigurðar Kristjánssonar kaupmanns, en þar hafði hann sett upp myndasýningu þar sem saga stjórnarfars á Íslandi var rakin með hinn bláhvíta fána í bakgrunni.

 

Þó okkar kynslóð hafi klúðrað málunum þá megi næsta kynslóð vonandi vera frelsinu jafn fegin og glöð og sú sem gekk undir bláhvíta fánanum niður Búðarstiginn á 17.júní 1944.

 

En fyrst þarf almenningur að taka til og skipta um mennina í brúnni sem áttu að vaka yfir velferð þjóðarinnar, en þess í stað flut þetta lið sofandi að feigðar ósi. Þeir vöknuðu ekki upp við vondan draum, nei þeir vöknuðu upp við ömurlegan veruleika. Veruleika sem ekki verður afmáður úr Íslandsögunni.

 

Nú er það í vorum höndum að gera það sem gera þarf. Að byrja upp á nýtt af miklum þrótti í betra landi vonandi og reynslunni ríkari. Svo lengi sem Íslenski fáninn fær að blakta á björtum himni verður hinn almenni borgari að halda vöku sinni.emoticon
 

  

29.09.2008 11:10

Haust

Haust á BakkanumÞað er komið haust, hitastigið lækkar með hverjum deginum. Trén fella laufin hvert af öðru í takt við gengi krónunar íslensku og maríuerlunar á Bakkanum eru nú flognar suður eins og aðrir farfuglar sem dvöldu hér í sumar. Kaupmennirnir í Gónhól taka saman pjökkur sínar eins og kaupmennirnir í Rauðubúðum fyrir nokkrum öldum síðan. Þorpsbúar búa sig undir veturinn og kreppuna miklu. Taka sumarhýruna úr bankanum áður en hún brennur upp í óðaverðbólgunni og hamstra slátur, sulta ber og rabbabara, koma kálinu og kartöflunum og öllu grænmetinu sem þeir keyptu í Gónhól vel fyrir í búrinu. Söl og fjallgrösum troðið í tunnur og móinum staflað í stæður. Það vantar bara fiskinn sem eitt sinn var nóg til af og var alltaf til bjargráða í gengisfellingum og kreppum liðins tíma. Nú fer enginn á sjó því það má engin gera nema hafa verið gefið, keypt eða leigt kvóta og útgerð héðan er nú bara eitt af því sem menn lesa um í gömlum sögum og æfintýrum. Nú þarf bara að þreyja Þorran og Góuna og alla hina mánuðina líka. Annars var þjóðin að eignast fjárfestingabanka í dag og borgaði fyrir með heilum helling af evrum, nema hvað?emoticon

26.09.2008 11:03

Rigning,rigning,rigning.

Hundatíð.Ekkert lát er á rigningartíðinni og fólk er orðið hundleitt á veðurlaginu þessar vikurnar og víst að tíðarfarið leggst illa í sálina á fólki, svona til viðbótar við óhuggulegt efnahagsástandið. Dumbungur í lofti alla daga svo vart sést sólarglæta svo vikum skipti. þó má búast við smá sólarglætu snemma á laugardagsmorgun segja spárnar en aðeins litla stund því skjótt mun aftur draga fyrir og sama veðurlagið tekur við langt fram í næstu viku. Það sem verra er að með hverjum deginum sígur hitamælirinn nær og nær bláu tölunum þannig að um miðja vikuna gæti farið að grána í fjöllin. Já vetur konungur er að læðast að okkur með sinn hvíta her.emoticon

26.05.2008 12:41

Eyrbekkingar eru nú 604

18. maí 2008 eru 7.753 skráðir íbúar í Árborg.
Á Selfossi eru skráðir 6.425
Í Sandvík 168
Á Eyrarbakka og dreifbýli 604
Á Stokkseyri og dreifbýli 542
Óstaðsettir 14

Íbúaþróun hefur sveiflast nokkuð í gegnum tíðina og eru Eyrbekkingar nú einum fleyri en árið 1940.
Íbúafjöldi á Eyrarbakka 1885-2008:

  • 483 íbúar 1.des 1885
  • 483 íbúar 1.des 1886
  • 484 íbúar 1.des 1887
  • 534 íbúar 1.des 1888
  • 654 íbúar 1.des 1892

  • 716 íbúar 1.des 1902
  • 703 íbúar 1.des 1905
  • 730 íbúar 1.des 1910
  • 750 íbúar 1.des 1911
  • 837 íbúar 1.des 1920
  • 770 íbúar 1.des 1924
  • 737 íbúar 1.des 1925
  • 603 íbúar 1.des 1940
  • 577 íbúar í des. 2003
  • 580 íbúar í nóv. 2005
  • 595 íbúar í okt. 2007
  • 608 íbúar í feb. 2008

08.05.2008 12:46

Galleri Gónhóll opnar í dag.

Árni Valdimarsson við opnun Galleri Gónhóls.Nýtt gallerí, Gallerí Gónhóll opnar í dag, 8. maí kl. 18. Í tilefni af Vor í Árborg verður haldin sýning á verkum eftir Eddu Björk Magnúsdóttur, Jón Inga Sigurmundsson, Dóru Kristínu Halldórsdóttur og Þórdísi Þórðardóttur. Einnig verður handverksmarkaður þar sem fleiri listamenn sýna og selja verk sín.
Gallerí Gónhóll er í gamla frystihúsinu á Eyrarbakka. Það eru Árni Valdimarsson og fjölskylda sem hafa blásið nýju lífi í gamla frystihúsið.

Kolaportsstemning verður í  einum hluta hússins þar sem fólk getur leigt bása og selt sínar vörur. Einnig verður þar listasmiðja ungu kynslóðarinnar.

Sjá nánar  fétt í Glugganum.

02.05.2008 11:16

Vinabæir Eyrarbakka.

   
Um áramótin 1986-87 hóf Eyrarbakki vinabæjarsamstarf við Kalundborg í Danmörku, Kimito í Finnlandi, Lillesand í Noregi og Nynäshamn í Svíþjóð.
Eyrarbakki tók þátt í vinabæjaráðstefnum við þessi sveitarfélög annað hvert ár frá árinu 1987.

Við stofnun Sveitarfélagsins Árborgar árið 1998 ákvað hin nýja sveitarstjórn að fella niður öll samskipti við vinabæji Eyrarbakka.
Jafnframt ákvað hin nýja sveitarstjórn að viðhalda vinabæjasamskiptum sem Selfossbær stofnaði til á sínum tíma.
 
Barnaskólinn á Eyrarbakka hefur þó verið  í einhverjum samskiptum við grunnskóla í Kalundborg í Danmörku.

Bæjarstjórn Árborgar mætti sýna okkur þann sóma á 10 ára afmælisárinu að endurnýja vinabæjartengslin í einhverri mynd. Það gæti verið góð afmælisgjöf.

25.04.2008 10:22

Kvenfélagið 120 ára

Eugenia ThorgrímsenKvenfélagið á Eyrarbakka á 120 ára afmæli í dag en félagið var stofnað hinn 25. apríl 1888 af 16 konum, að tilstuðlan stúkunnar Eyrarrósarinnar og lagði hver til 1 krónu í stofnfé. Eugenia Thorgrímsen var ein stofnenda og fyrsti formaður Kvenfélagsins á Eyrarbakka.

Á undanförnum árum hefur félagið veitt ýmsa styrki til góðgerðamála.

Núverandi formaður félagsins er Eygerður Þórisdóttir.

15.04.2008 10:52

Eyrarbakkahreppur verður 111 ára í vor.


Árborg, sameinað sveitarfélag Eyrarbakka ,Stokkseyrar, Sandvíkur og Selfoss verður 10 ára í vor og af því tilefni verður skipulögð 10 daga afmælis- og menningarhátíð sem hefst 8. maí n.k.

Þess er skemst að minnast að sl. haust var haldið upp á 60 ára afmæli Selfoss og þar með gefin tónninn fyrir að halda upp á afmæli hvers staðar fyrir sig í sveitarfélaginu.

Afmælis og menningarhatíðinni lýkur 18.maí en einmitt þann dag á Eyrarbakkahreppur 111 ára afmæli og væri því vel við hæfi að halda sérstaklega upp á þann dag á Eyrarbakka og draga fánann að húni.

05.02.2008 14:22

40 ár frá harmleiknum á Ísafjarðardjúpi.

Ross ClevelandFárviðri og ísingarveður á Íslandsmiðum tóku stóran toll af sjómannastéttinni á síðustu öld og skemst er að minnast Halaveðursins fræga árið 1925 þegar þrír íslenskri togarar fórust og með þeim 67 menn, þar af 61 Íslendingur og 6 Englendingar. Laugardaginn 7. febrúar 1925 skall á mikið norðanveður með særoki og ísingu á Vestfjörðum en flestir togaranna voru þá að veiðum á svonefndum Halamiðum. þ.á.m. togararnir Leifur Heppni og Robinson sem tíndust í hafi en þau voru stödd norðvestur af Hala þegar veðrið skall á, en með þeim voru 68 menn. (þriðji báturinn var Sólveig frá Sandgerði)
Fyrir 40 árum (febr.1968) kom veður úti fyrir Vestfjörðum sem svipaði að mörgu til Halaveðursins, en í því veðri fórust 25 sjómenn, meðal annars áhöfnin á breska togaranum Ross Cleveland H-61 frá Hull.
 
Á fyrri hluta síðustu aldar fórust að meðaltali 40 sjómenn á Íslandsmiðum árlega, en þá var björgunarbúnaður fábrotin í flestum skipum og fjarskipti ekki eins örugg og í dag og engin björgunartæki í landi sem hægt var að beita við þessar aðstæður. Veðurfræðin hefur einnig tekið stórstígum framförum frá þessum árum til hagsbóta fyrir sjófarendur auk tilkynningaskyldunar og GPS eftirlits. Það var bresk sjómannskona Lily Bilocca að nafni sem barðist fyrir því að tilkynningaskylda yrði tekin upp meðal breskra togara í kjölfar atburðanna á Ísafjarðardjúpi fyrir 40 árum.

Frá Eyrarbakka og Stokkseyri hefur margur sjómaðurinn fengið vota gröf þær tvær síðustu aldir sem útræði var stundað frá þessum sjávarplássum, en meira um það síðar.

20.01.2008 09:24

Lognflóðið 1916

Gömul mynd frá Eyrarbakka
Aðfararnótt 21.janúar árið 1916 var stillilogn og blíðu veður á Bakkanum. Það kom því íbúum hér við ströndina á óvart þegar skyndilega gerði óvenjumikinn sjógang og brimöldur sem gengu upp á land og ollu töluverðu tjóni. Sjórinn braut sjóvarnargarðinn vestur af Bakkanum milli Einarshafnar og Óseyrarnes á pörtum til grunna og var talið að tjónið hafi numið á bilinu 1000 til 1500 kr. sem þá var töluverður peningur eða um tvö árslaun verkamanns.

Olíugeimsluskúr frá versluninni Einarshöfn brotnaði í spón og 30 til 40 olíuföt frá kaupfélaginu Heklu skoluðust út í sjó, en þau náðust þó aftur lítið skemd. Nokkrar skemdir urðu einnig á bryggjum og dráttarbrautum. Á Stokkseyri brotnuðu tvo skip í spón, en þau höfðu staðið fyrir neðan sjóvarnargarðinn. Í Þorlákshöfn gekk sjórinn inn í sjóbúðir og braut gafl í nýrri steinsteyptri sjóbúð sem stóð á hátt á sjávarkambinum framan við lendingarnar, auk þess sem mörg önnur mannvirki löskuðust.

Í framhaldi var það mikið rætt hvernig mætti styrkja sjóvarnargarðana betur og var einn fróðasti maður um garðhleðslur kallaður til og þótti honum augsýnilegur galli hversu lóðréttir garðarnir væru sjávarmeginn og þyrftu þeir að hlaðast með meiri flága, auk þess væri til mikilla bóta að steinlíma þá með sementssteypu. Bjarni Eggertsson sem einnig var vel aðsér um garðhleðslur og hafði tilsjón með viðhaldi sjóvarnargarðanna fyrir landi Einarshafnar fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands sem kostaði gerð þeirra, lagði til að þeir yrðu byggðir upp ávalir og þannig myndu þeir standast betur þunga sjávarinns. Ekki var þó farið í þá framkvæmd að steinlíma sjóvarnargarðana á Bakkanum nema rétt í endana, í svokölluðum 'hliðum' en tvö hlið voru á görðunum við Skúmstaði og var annað svokallað Vesturbúðarhlið þar sem gengið var út á bryggjuna, en hún var rifin fyrir allmörgum árum og Skúmstaðahlið gengt Skúmstalendingu, en þar fyrir innan var skipanaust allt frá kaþólskri tíð.

Garðarnir fyrir landi Einarshafnar sem voru endurhlaðnir eftir flóðið eru nú komnir á kaf í sand og uppgrónir svo af þeim sést vart tangur né tetur. Það gæti orðið staðnum mikið aðdráttarafl að grafa upp þessar fornminjar, a.m.k þeim megin sem snýr inn til lands og þannig fengju þessi mannvirki fyrri aldar að njóta sín til fulls.

10.01.2008 21:56

Heimavarnarliðið á Eyrarbakka

Danskir búningar frá 1911Það var eitthvað í fréttum ekki alls fyrir lögu að við íslendingar ættum einn hermann sem í haust var kallaður frá störfum í hinu stríðshrjáða landi Írak og er hér náttúrlega um valkyrju að ræða og þokkadís af Bakkanum.
Fyrir margt löngu áttu Eyrbekkingar vel æfðann og vígreifan her, þó ekki stór væri og ekki hátt færi. Þegar fyrri heimstyrjöldin skall á 1914 tók  J.D.Níelsen (f.1883) í húsinu sig til og æfði um 15 menn undir strangri herþjálfun að danskri fyrirmynd. Herflokkur þessi hlaut fljótt viðurnefnið "Leikfimiflokkurinn". Níelsen var þaulvanur æfingum úr danska hernum og þeim aga sem þar tíðkaðist. Þannig þjálfaði hann mannskapinn bæði í líkamsæfingum og byssuæfingum, sem og skotfimi. Æfingarnar minntu íbúa þessa friðsæla þorps einkennilega á ófriðarbálið út í heimi þegar Leikfimiflokkur Níelsens gekk marserandi fram og aftur með byssur við öxl í garðinum við Húsið. Ekki er vitað til að nokkur maður hafi meiðst við æfingarnar eða að nokkurn tíma hafi þurft að grípa til vopna þessa heimavarnarliðs í raun.

J.D. Nielsen verslunarstjóri hélt þessum æfingum áfram um nokkur ár og báru æfingarnar stöðugt meiri keim af íþróttum, en skotæfingar voru þó fastur liður eins og áður. Stöðugt bættust fleiri ungir menn í hópinn og voru einkum tveir sem sköruðu fram úr, en það voru þeir Níls Ísakson og Gísli Jóhannsson. 

(Byggt á heimildum úr Suðurlandi 1915-1916.) 

02.01.2008 12:44

Á þessu ári.

Kvenfélag Eyrarbakka verður 120 ára 25. apríl nk. Stofnendur félagsins voru 12 konur og meðal þeirra var Eugenia Nielsen fædd á Eyrarbakka 1850 og ein af dætrum Guðmundar Thorgrímsen verslunarstjóra og Sylvíu konu hans. Eugenia var hjálparhella fátækra og sjúkra þorpsbúa. Hún sat yfir hinum veiku og hjúkraði og sendi eftir meðulum. Einhverju sinni var Eugenia spurð hvort hún væri læknir, þá svaraði hún: "Nei það er ég ekki, en ég hef vit á því hvenær þarf að sækja lækni"!  Formaður Kvenfélags Eyrarbakka er Eygerður Þórisdóttir

Ungmennafélag Eyrarbakka verður 100 ára þann 5.maí nk. Núverandi formaður er Bjarni G. Jóhannsson.

Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka verður 80 ára. Hún var stofnuð 21.desember 1928 fyrir tilstuðlan Jóns E Björgvinssonar erindreka SVFÍ. Fyrstu stjórn deildarinnar skipuðu Þorleifur Guðmundsson fv.alþ.m. Jón Hegason skipstjóri og Jón Stefánsson ritari. Áður hafði Bergsteinn Sveinsson í Brennu verið skipaður umboðsmaður SVFÍ á Eyrarbakka. Formaður sveitarinnar í dag er Guðjón Guðmundsson.

Óseyrarbrú verður 20 ára. Brúin er 360 metra löng og kostaði smíði hennar um 280 miljónir króna. Öflug barátta fyrir brúargerðinni hófst upp úr 1975 (brúin hafði í raun verið lengi á óskalista og komst á brúarlög árið 1952 fyrir tilstilli Sigurðar Ó. Ólafssonar og Jörundar Brynjólfssonar) og var markmiðið með henni að efla atvinnustarfsemi á Eyrarbakka og Stokkseyri tengdri útgerð frá Þorlákshöfn. Einn ötulasti baráttumaður fyrir brúnni var Vigfús Jónsson fyrrum oddviti á Eyrarbakka.




Brimið á Bakkanum óskar svo öllum lesendum sínum gleðilegs árs.

Flettingar í dag: 2069
Gestir í dag: 258
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 262359
Samtals gestir: 33885
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 22:03:21