Flokkur: Dagbókin
08.12.2011 21:57
Lyfjabúðin auglýsir
Um 1930 rak Lárus Böðvarsson apotekið á Eyrarbakka, en áratug áður, 1919 var stofnuð fyrsta lyfjabúðin á Eyrarbakka sem þjónaði sunnlendingum nær og fjær um árabil. Lyfsalinn K.C. Petersen var danskur og hafði áður verið við Apotek Reykjavíkur um nokkur ár, þar til hann flutti á Bakkann. Keypti hann Þá gömlu Heklu húsin, (Kf.Hekla)og lét breyta þeim að innan samkvæmt nýjustu týsku þess tíma. Árið 1928 varð lyfjaverslunin gjaldþrota og var henni þá lokað að kröfu erlends lánadrottins. Meðal þess sem var til sölu í lyfjabúðinni á Eyrarbakka var: Gerpúlver í bréfum og lausri vígt. Eggjaduft, sem var á við 6 egg. Sitrondropa. Vanilledropa. Möndludropa. Krydd allskonar í bréfum og Sodapulver.
Lyfjavörur: Álún. Borax. Kolodinm. Glycerin. Heftiplástur. Flugnalím. Magnesia. Kamillute. Kúrneti. Einiber. Vaselin o. fl. Meltingar- og styrkjaudi lyf: Barnamél. Agernkacao. Maltsaft, Lýsi. Hunang o. fl.
Sóttvarnarlyf: Klórkaik. Kreolin. Lysol. Blývatn. o. fl. - ilástalyf: Lakríslíkjör. Mentholtöblur. Montreuxpastillur. Terpinoltablettur. Sen Sen.
Tyggegumi o. fl.
Hreinlætisvörur: Tannpasta. Coldcream. Varasmyrsl. Kolodonia. Arnickiglycarín. Hárspiritus. Eau de Cologne. Frönsk ilmvötn. Handsápur o. fl.
Hjúkrunarvörur: Gumiléreft, Bómull. Sjúkrabindi. Kviðslitsbindi. Skolunaráhöld. Hitamælar. Greiður. Svampar. Sprautur. Tannburstar o. fl.
Tekniskar vörur: Brennisteinssýra. Saltsýra. Salmiakspirítus. Brennisteinn. Talcum. Viðarkvoða. Schellak. Krít. Gips. Linolía. Bæs. Terpentínolia. Suðuspiritus o. fl. - Sadol, aesti pólitúr á húsgögn,- hljóðfæri, ramma o. þ. h.
Ratín: Besta rottueitur; drepur aðeins rottur og mýs.
Einnig: Suðufsúkkulaði. Átsúkkulaði. Konfect. Brjóstsykur. Piparmintur. Af af bestu tegund. Lit í pökkum til ½ °og 1 punds. - Málningarvörur allskonar. Pensla af öllum stærðum. Niðursoðið, svo sem: Leverpostej. Kjötbollur. Fiskibollur. Soya. o. fl. Skósvertu. Fitusvertu. Ofnsvertu. Fægiefni. Bláma. - Flugnanet. Kraftskurepuiver o. fl. o, fl. Munntóbak. Vindlar. Cigarettur og Reyktóbak.
Heimild: Þjóðólfur 03.11.1919/ Skinfaxi 21.arg.1930 /Árb. HSK 4.arg.1929 <Timarit.is
04.10.2011 21:39
Horfinn tími, Eyrarbakki 1972
Þessar myndir verða ekki teknar aftur, en þær segja sögu horfins tíma á Bakkanum. Myndirnar tók Stefán Nikulásson 1972 fyrir Tímann. (Stefán var blaðaljósmyndari, fæddur í Vestmannaeyjum 1915).
21.01.2011 00:15
Kirkjan fyrir 120 árum
Kirkjan á Eyrarbakka var byggð 1890 og eru þessar myndir frá þeim tíma. Hún var því 120 ára í desember sl. Járnblómið komið á turnspýrunna. Í bakgrunni er Vesturbúðin og barnaskólinn, bakaríið og nokkur bæjarhús, (líklega hjáleigur frá Skúmstöðum) Búðarstígur óbyggður enn. Neðri myndin sýnir lestarhesta með heyfeng ofan af engjum við kirkjuna sem er með vinnupall umhverfis turninn í byggingu.
20.12.2010 23:52
"Landaflugur" af fiski
Það dró heldur betur til tíðinda á Bakkanum í byrjun mars 1950. Þann 1. og 2. mars hafði verið foráttubrim á Eyrarbakka með strekkings sunnanátt. Urðu menn þess þá varir að fisk var farið að reka í talsverðu magni á fjörurnar. Þegar farið var að gefa þessum reka frekari gætur kom það í ljós að lygnan inn af brimgarðinum var vaðandi í fiski sem óð lifandi á land og menn gogguðu hann hreinlega í fjöruborðinu. "Öfluðu" menn nálega 200 rígaþorska án þess að setja út bát eða veiðarfæri. Bakkamenn kölluðu þetta "landaflugur" og sennilegast þótti að fiskitorfan hafi verið á eftir síli sem skolaði inn fyrir brimgarðinn. Ekki er vitað til þess að sambærilegt atvik hafi orðið síðan.
04.12.2010 20:46
Leikfélagið á Eyrarbakka
Leikfélag var stofnað formlega á Eyrarbakka 1943. Þetta var áhugamannaleikhús með 9 leikurum, 5 körlum og 4 konum. Meðal leikara og vildarvina Leikfélagsins voru Guðrún Bjarnfinnsdóttir, Kjartan Ólafsson, Sigurveig Þórarinsdóttir, Guðmundur Þorvaldsson, Helga Guðjónsdóttir, Kristján Guðmundsson og Lárus Andersen. Félagið var mjög virkt fram á 6. áratug síðustu aldar.
Með vinsælustu sýningum félagsins var "Lénharður fógeti" eftir Einar H Kvaran og undir leikstjórn Ævars Kvaran. Aðstaða leikfélagsins var í samkomuhúsinu "Fjölni" á Eyrarbakka. Leiklist ýmiskonar var þó stunduð á Bakkanum löngu fyrr eða frá 1880.
sr. Þorvarður Þorvarðsson síðar prófastur í Vík, dvaldi á Eyrarbakka um eða fyrir 1890 og stóð þá að sjónleikjahaldi á Bakkanum og samdi sjálfur leikrit.
22.11.2010 01:37
Ýlir eða Frermánuður
Annar mánuður vetrar heitir Ýlir (um tíma nefndur Ýlir hinn fyrri) og hefst alltaf á mánudegi. er talið af sumum að nafnið sé dregið af gotneska orðinu "Jiuleis", sem er skylt orðinu" jól" eða Jólmánuður sem endar á "höggunótt" þ,e, aðfararnótt "Þorra". Þannig að 2 og 3 mánuður vetrar hafa um tíma borið sama nafn og er sá ruglingur líklega til orðin vegna tilfærslu jólanna eftir krisnitöku. Í Heiðni heitir 3. mánuður vetrar "Ýlir" (um tíma Ýlir hinn síðari) og endar á höggunótt en einnig nefndur "Mörsugur". Í Eddu heitir 2. mánuður vetrar "Frermánuður" þ.e. frostmánuður.
Heimild Reykjavík 9.árg.1908/Ingólfur 7.tbl 1909/Wikipedia
12.10.2010 23:50
Blómstrandi Oktober
Þessi Garðasól kærir sig kollótta um almanakið.
þetta blóm reynir að ná upp til síðustu sólargeisla dagsins.
Snjóberjaplantan gefur hinum ekkert eftir og býst ekki við snjóum í bráð.
29.08.2010 23:48
Uppskeran með besta móti
Kartöflu uppskeran er með besta móti í ár, enda hefur tíðarfarið verið með ágætum í sumar til hverskonar ræktunar og ekki er ósennilegt að aska frá Eyjafjallajökkli hafi auk þess bætt jarðveginn hér sunnanlands. Þó ekki sé lengur stunduð jafn stórtæk kartöflurækt og áður fyrr, þá eru enn ræktaðar kartöflur víða í görðum hér á Bakkanum og þykir mikil búbót af því. Saga kartöflunar á Eyrarbakka er líklega orðin 166 ára gömul, en það var Hafliði Guðmundsson, einn Kambránsmanna sem sat af sér dóm á Brimarhólmi og kom hann að utan með kartöflur í farteskinu árið 1844 og hóf að rækta þær í garði sínum á Eyrarbakka eftir heimkomuna. Nefdist sá garður "Hafliðagarður" Sagt er að refsifangar á Brimarhólmi hafi ekki fengið annað að éta en kartöflur, en þær þykja nú sjálfsagðar í hvert mál. Það var svo í kreppu millistríðsáranna sem stórtæk karöfluræktun hófst á Eyrarbakka og ekki síst fyrir tilstuðlan Bjarna Eggertssonar búfræðings.
Best er að geyma kartöflur á þurrum og dimmum stað, því þær þola illa dagsbirtu eða sterkt rafljós. Kartöflur þurfa góða öndun, þannig að forðast ætti að geima kartöflur í plasti eða lokuðum ílátum. kartöflur þola ekki að frjósa, en ekki er heldur gott að hafa þær í miklum hita, því þá er þeim hætt við að ofþorna. Hiti á bilinu 5-10° er ágætur geimsluhiti.
26.07.2010 10:14
Tundurdufl gert óvirkt á Eyrarbakka
Í sunnanátt og nokkru hafróti að kvöldi hins 29. oktober 1946 rak tundurdufl upp í fjöru inni í kauptúninu á Eyrarbakka, og var mkil vá fyrir dyrum af þessum ástæðum. En um kvöldið á fyrstu fjöru, sem duflið kenndi grunns, kom á vettvang kunnáttumaðurinn Árni SigurJónsson frá Vík í Mýrdal og gerði duflið óvirkt. Duflið var breskt seguldufl. Sami Árni Sigurjónsson hafði auk þessa dufls í þessum sama mánuði gert óvlrk tvö samskonar tundurdufl, annað á Bryggnafjöru í Landeyjum og hitt á Klaustursfjöru undan Alviðruhömrum.
Ekki er ósennilegt að hér sé um að ræða duflið sem síðar var notað sem olíutankur á Símstöðinni á Eyrarbakka (Mörk) og er nú í eigu byggðasafns Árnesinga. Duflið er nú til sýnis við Sjóminnjasafnið á Eyrarbakka. Duflið svipar mjög til dufla sem notuð voru í fyrri heimstyrjöldinni, en sennilegast er að því hafi verið plantað í byrjun seinni heimstyrjaldarinnar 1939 eða 1940.
Um líkt leiti, eða miðja síðustu öld rak tundurdufl á Gamlahraunsfjörur. Helgi Þorvaldsson á Gamla -Hrauni ( í vestur bænum) gerði duflið óvirkt og nýtti það sem olíutank.
Í byrjun september 1946 rak tundurdufl upp í sker á Stokkseyri, það var einnig breskt seguldufl eins og duflið sem rak upp á Bakkanum. Haraldur Guðjónsson duflabani úr Reykjavík gerði það dufl óvirkt.
Tundurdufl eða hlutir úr þeim hafa stundum komið upp í dragnót skipa. Þannig kom sprengitunna úr tundurdufli í dragnót Aðalbjörgu RE-5 út af Þorlákshöfn sumarið 2005 og Ævarr Erlingsson á Eyrúnu ÁR 66 fekk eitt dufl í nótina suður af Krísuvíkurbjargi 1997. Bendir það til þess að fjöldi tundurdufla hafi verið lögð á siglingaleiðum á þessum slóðum í heimstyrjöldinni síðari.
Í tundurdufli geta verið meira en 200 kg. af sprengiefni. Áætlað er að á fyrstu 3 árum styrjaldarinnar hafi bretar lagt um 110.000 tundurdufl á siglingaleiðum umhverfis Færeyjar og Ísland.
Heimild Tíminn 209.tbl.1947. Ársæll Þórðarson frá Borg.
Fréttablaðið 168.tbl.2005 ofl.
06.06.2010 14:47
Björgunarsveitin með nýjan bát
Björgunarsveitin Björg á Eyrarbakka hefur keypt notaðn björgunarbát frá Konunglega breska sjóbjörgunarfélaginu (RNLI) en Landsbjörg hefur keypt báta frá félaginu síðan árið 1929.
Hér á myndinni er hinsvegar einnn elsti Zodiac bátur sveitarinnar.
12.04.2010 23:20
Um Helský
Mestu eldgos á jörðinn eru sprengigos sem framleiða gjóskuflóð eða helský. Fundist hafa forn gjóskuflóð í Þórsmörk úr Tindfjöllum o.fl. stöðum sem benda til gosa af þessari gerð. Helský valda gjöreyðingu þar sem þau flæða yfir en yfirleitt eru íslensk þeytigos of kraftlítil til að fara í þennan ham. Helský getur orðið til ef gjóska streymir með svo miklum hraða í stróknum sem stendur upp úr gígnum að hún nær ekki að blandast andrúmslofti, og fær því ekki lyftingu við að hita loftið, heldur þeytist skammt upp eins og í gosbrunni og fellur síðan til jarðar umhverfis gíginn eins og glóðandi snjóflóð.
Þegar gjóskuflóð renna yfir land rýkur úr þeim fín aska, gas og heitt loft og rís því mikill mökkur upp frá yfirborði flóðsins. Það er þó einungis fínasta askan sem losnar úr flóðinu og myndar stóran gjóskustrók upp í 20 til 50 km hæð, strók sem á rætur sínar í flóðinu en ekki yfir gígnum.
Ekki ljóst hvaða þættir stjórna krafti þeytigosa en margt bendir til að þar ráði stærð kvikuþróar mestu, því sterk fylgni er milli heildargosmagns og streymishraða í sprengigosum.
Helstu dæmin um helský eru þegar Mount St Helens sprakk 1980 og Mount Pelee á Martinique eyju sem gaus árið 1902 og varð 28.000 manns að aldurtila á einu auga bragði, og einnig gosið í Pinatubo á Filippseyjum 1991 sem var næstmesta gos á 20. öldinni. Mesta gos á síðustu öld var sprengigosið í Movarupta í Alaska 1912 og heyrðist sprengidrunan í 750 km fjarlægð. Öskuflóðið lagði allt í rúst í 30 km. fjarlægð. Samskonar gos varð í eldfjallinu Tambora á eyjunni Jövu 1815. Þessi eldfjöll eiga það allt sameginlegt að vera ævagömul og með afarstóra kvikuþró.
Heim.:Haraldur Sigursson, Náttúrufr.63, 1993/ publicbookshelf.com/ geology.com > Geology Articles
06.04.2010 15:49
Skjálfti 3.6
Eyjafjallajökull í kröppum dansi
15:32:19 ML 3,6
Bullandi kvika þarna undir og mikil læti, bara tímaspursmál hvenær þetta bræðir sig upp styðstu leið að mínu mati. Þarf ekki að vera að það geri frekari boð á undan sér fremur en fyrri daginn.
05.04.2010 00:21
Þá fóru allir í sauna
"Á Eyrarbakka hefir verið opnuð gufubaðstofa á vegum Ungmennafélagsins á staðnum". Svo hljóðandi fyrirsagnir mátti finna í víðlesnustu blöðum landsins árið 1940. Gufubaðstofa þessi var byggð haustið 1939 fast við samkomuhúsið Fjöni og var þetta baðhús einkum í tengslum við leikfimisalinn. Baðstofan var 22 fermetrar og innréttuð á þrem pöllum að hætti finnskra baðhúsa eða Sauna. Ofninn var einnig af finnskri gerð sem hitar grjót, sem vatni er síðan stökkt á. Þá var í húsinu aðstaða fyrir gæslumann. Baðhúsið var fjármagnað með styrkjum og samskotafé. Í forustu fyrir þessu framtaki voru að öðrum ólöstuðum, hinir drífandi ungu menn Vigfús Jónsson og Bergsteinn Sveinsson.
Viða tíðkuðust gufuböð á vegum ungmennafélaga í tengslum við héraðsskólanna þar sem aðgangur var að heitu vatni, svo sem á Laugarvatni, en sennilega var gufubaðstofan í Reynishverfi í Mýrdal sú fyrsta hérlendis að finnskum hætti, eða a.m.k. til almenningsnota og naut hún mikilla vinsælda. Var sú baðstofa tekin í notkun 1939, en ungmennafélagið Reynir stóð að gerð hennar og var hún byggð við barnaskóla sveitarinnar.
Hér má sjá uppdrátt af saunabaði UMFE sem var áfast samkomuhúsinu Fjölni.
27.03.2010 00:28
Fer Katla á kreik ?
Kötlugosið 1625 mun vera það sem glöggar sagnir eru um, en af heimildum má ráða, að Katla hafi oft gosið áður eftir að land var numið. Fyrsta hlaupið niður Mýrdalssand eftir að land byggðist hefur trúlega orðið árið 1000. Sigurður Þórarinsson hefur i ritinu Jökli 1959 gert yfírlit yfir þau Kötlugos, sem sennilegt er að hafi orðið en tiltekur þó ekki gos árið 1000.
Fyrsta hlaupið, sem söguleg vissa er fyrir að farið hafi niður Mýrdalssand, mun hafa orðið laust fyrir árið 1179. Eitt þeirra Kötlugosa, sem óglögglegar heimildir eru um, er gos sem olli svonefndu "Sturluhlaupi" árið 1311. Um það segir m.a.: "að tók af alla byggðina, sem eftir var á Mýrdalssandi. Það svæði var kallað Lágeyjarhverfi". "Um vorið var farið að leita, þar sem bæirnir höfðu staðið, því að hlaupið hafði svo gersamlega sópað burtu bæjum, húsum, engjum og högum, mönnum og öllum fénaði, að það sást ekki að þar hefði nokkurntíma byggð verið, heldur aðeins eyðimörk, hulin sandi og vikri, marga faðma djúpt niður".
Kötlugosið 1918 er líklega eitt mesta eldgos, sem orðið hefir hér á landi síðan 1875. Laust eftir hádegi laugardaginn 12. okt. 1918 fundust snarpir jarðskjálftakippir í Mýrdal, og litlu síðar sást mökkur yfir Mýrdalsjökli. Var hann hvítleitur í fyrstu, en sortnaði síðan, og þótti mönnum þá augljóst, að Katla væri komin á stúfana. Um nónbil hljóp jökullinn. Kom vatnið fram í tveim stöðum: austast og vestast á sandinum. Vestara hlaupið braust fram milli Hafurseyjar og Höfðabrekkuafréttar, uns það skall á Selfjalli. Féll þá nokkur hluti þess yfir í farveg Múlakvíslar og eftir honum til sjávar, en meginfóðið ruddist suður sandinn, milli Selfjalls og Hafurseyjar, og á haf út beggja megin við Hjörleifshöfða. Náði það, að sögn, frá hæð þeirri á sandinum, sem Lambajökull nefnist, og vestur undir Múlakvísl, svo að þessi hluti hlaupsins hefir verið um 12 km. á breidd við fjörur frammi. Austara hlaupið féll fram úr jöklinum nálægt Sandfelli. Lagði það undir sig austanverðan sandinn og klofnaði í ýmsar kvíslar um öldur og fell. Nyrsta kvíslin féll í Hólmsá, fyllti gljúfur hennar og svipti burt brúnni, en aðalvatnið tók stefnu á Álftaverið, og féll sumt fram yfir það og út í Kúðafljót, einkum eftir farvegum Skálmar og Landbrotsár, en sumt rann beint út í sjó vesur af Álftaveri, og er talið, að það hafi náð vestur að svonefndu Dýralækjarskeri.
Sagan kennir okkur að gos í Kötlu koma jafnan eftir gos í Eyjafjallajökli. En hvort gosið á Fimmvörðuhálsi sé undantekning er alveg óvíst.
Heimild: Tíminn Sunnudagsblað , 5. tölublað 1969- Náttúrufræðingurinn 1-3 tbl 1934
14.03.2010 00:09
Þennan dag 1968
Á þessum degi: 14. mars 1968 Mb Fjalar ÁR 22 frá Eyrarbakka rak upp í fjöru eftir að vél bátsins bilaði. Engann mann sakaði enda gott veður þegar strandið varð. Gert var við bátinn í fjörunni og hann síðan sjósettur. Fjalar var 49 tonna eikarbátur. Eyrar hf gerðu bátinn út.