Flokkur: Dagbókin

19.02.2018 13:04

Sú var tíðin, 1959

HINN 1. janúar urðu eigendaskipti að jarðeignunum Einarshöfn, Skúmstöðum og Stóru-Háeyri, ásamt Kjáleigunum Litlu-Háeyri, Sölkutóft, Mundakoti og Steinskoti, eystra og vestra. Allar þessar jarðir voru í Eyrarbakkahreppi. Jarðakaupasjóður ríkisins varð eigandi þessara jarða 1. nóv. 1935 og hafði þá Landsbanki íslands átt þær um nokkurra ára bil. Eyrarbakkahreppur hefur byggst upp á þessum jörðum,  sem eru 970 ha. að stærð. Var þetta talið nauðsynlegt vegna framkvæmda og skipulagsmála í þorpinu. Áður átti Eyrarbakkahreppur jarðirnar Óseyrarnes og eystri jörðina Gamla-Hraun, sem hafa fylgt Eyrarbakkahreppi frá upphafi, eins og fyrr nefndar jarðir. Upp úr aldamótunum 1900 keypti Eyrarbakkahreppur jarðirnar Flóagafl, Gerðiskot, Valdakot og Hallskot og hálfa svonefnda Flóagaflstorfu í Sandvíkurhreppi. Þessar jarðir voru síðan með lögum frá 6. maí 1946 innlimaðar í Eyrarbákkahrepp. Þarna hafa Eyrbekkingar frá því um aldamótin 1900 aflað heyja og notið beitar fyrir búfe sitt, enda voru jarðir þessar sérlega góðar slægjujarðir svo að óvíða var stærra samfellt slægjuland en þar. Eyrbekkingar hugðu gott til þessara kaupa og fögnuðu því að vera orðnir eigendur að landi því sem þeir búa á og höfðu lagt mikla vinnu í að rækta, bæði í tún og garða. Einnig höfðu Eyrekkingar lagt fram mikla fjármuni í ýmiskonar framkvæmdir, svo sem gatna og hafnargerð.

 

Útgerðin: Aðeins tveir bátar gerðu út frá Eyrarbakka á vetrarvertíðinni, [Helgi ÁR 10 skistj, Sverrir Bjarnfinnsson og Jóhann Þorkellsson ÁR 24, Skipstjóri Bjarni Jóhannsson] en sá þriðji [Faxi ÁR 25] gerði út frá Þorlákshöfn. Vélbátinn Jóhann Þorkelsson ÁR 24 rak á land upp vestan við Eyrarbakka með jakaburði, þegar Ölfusá ruddi sig þann 29. jan. Farsællega tókst að bjarga bátnum af strandstað, en þá var prófað í fyrsta skipti að skjóta dráttarvögnum undir bát sem trukkar drógu síðan til aftur til hafnar.  Fjórir bátar gerðu út á humarveiðar.  [Síðastliðið haust hafði vb. "Ingólfur" verið keyptur til Eyrarbakka frá Höfn í Hornafirði.]                    

 

Félagsmál: Alþingiskosningar voru yfirvofandi og málefni líðandi stundar í brennidepli. Stjórn vörubílstjórafélagsins Mjölni skipuðu: Formaður Sigurður Ingvarsson Eyrarbakka, varaformaður Óskar Sigurðsson Stokkseyri, ritari Jón Sigurgrímsson Holti, gjaldkeri Ólafur Gíslason Eyrarbakka. Stofnað var félag ungra Jafnaðarmanna í Árnessýslu, meðal stofnenda var Ási Markús Þórðarson kaupmaður. Formaður v.l.f. Bárunnar á Eyrarbakka var  Bjarni Þórarinnsson. Vigfús Jónsson, oddviti Eyrarbakka bauð sig fram fyrir Alþýðuflokkinn. Fyrsta sætið skipaði Unnar Stefánsson, viðskiptafræðingur, Hveragerði, en hann var ættaður af Eyrarbakka [Sonur Elínar Guðjónsdóttur frá Eimu. Guðjón fórst 19. ágúst 1898 er hafnsögubáti hvolfdi við Eyrarbakka.] Eyrbekkingar áttu ekki fulltrúa á framboðslista Framsóknarflokksins, en þó mátti svo kalla að þeir ættu þar tvo fulltrúa, því Ágúst Þorvaldsson bóndi á Brúnastöðum (al.þ.m.) var af Bakkamönnum kominn, en foreldrar hans voru Þorvaldur Björnsson, verkamaður og sjómaður á Eyrarbakka, og Guðný Jóhannsdóttir. Sigurður Ingi Sigurðsson oddviti á Selfossi var fæddur á Eyrarbakka, sonur Ingibjargar Þorkelsdóttir og Sigurðar Þorsteinssonar skipstjóra frá Flóagafli. Eyrbekkingar áttu einnig dulinn frambjóðenda á lista Sjálfstæðisflokksins, en Sigurður Óli Ólafsson al.þ.m. og kaupmaður fæddist á Eyrarbakka, Foreldrar hans voru Ólafur bóndi og söðlasmiður á Stað Eyrarbakka og Þorbjörg, frá Neistakoti Sigurðardóttir Teitssonar. Á lista Aþýðubandalagsins var Bjarni Þórarinsson kennari á Eyrarbakka.

 

 

Kirkja: Prestur á Eyrarbakka var Magnús Guðjónsson, hans prestsfrú var Anna Sigurkarlsdóttir, formaður kvenfélagsins. [Kvenfélag Eyrarbakka mun hafa verið stofnað formlega hinn 25. apríl 1888, og var talið annað kvenfélag, sem stofnað var á Íslandi.] Haukur Guðlaugsson, Pálsonar kaupmanns hélt tónleika í kirkjunni og var honum vel fagnað, en hann hafði þá dvalið mörg ár erlendis við tónlistanám.

 

Hjónaefni: Guðbjörg Kristinsdóttir, Skúmstöðum, Eyrarbakka og Jón Áskell Jónsson, Söndu, Stokkseyri. Sigríður Vilborg Vilbergsdóttir frá Eyrarbakka og Magnús Grétar Ellertsson ráðunautur úr Reykjavík. Ungfrú Áslaug Ólafsdóttir frá Eyrarbakka og Hallberg Kristinsson  Rvík.

 

Afmæli:

80. Aðalbjörg Jakobsdóttir Læknishúsi, Bergsteinn Sveinsson, Brennu, Guðmundur Þórðarsson Gýjasteini,

70. Jón B Stefánsson Hofi, Kolfinna Þórarinsdóttir Bakaríinu, Oddný Magnúsdóttir Stígprýði,

60. Guðmundur H Eiríksson og  Sigurlína Jónsdóttir Merkigarði. Guðrún Ingibjörg Oddsdóttir Bráðræði, (varð 99 ára) Regína Jakopsdóttir Steinsbæ.

50.  Steinfríður Matthildur Thomassen að Litlu-Háeyri á Eyrarbakka. Elísabet S Kristinsdóttir Skúmstöðum, Karl Jónasson Björgvin, Magnús Guðlaugsson Mundakoti, Sigurveig Jónasdóttir Vorhúsum.

 

Andlát: Jack Oliver ( Fæddur á Eyrarbaka 1873 Þorgils Þorsteinsson), [Sonur Þorsteins Þorsteinssonar og Sigríðar Þorgilsdóttur, er fluttu til Canada] Gunnar Halldórsson frá Strönd.[ Börn: Halldóra, Steingrímur og Guðrún].  Guðbjörg Guðmundsdóttir frá Stóru-Háeyri á Eyrarbakka. [Guðbjörg (f. 1876.) var dóttir Sigríðar Þorleifsdóttur Kolbeinssonar hins ríka á Stóru Háeyri og Guðmundar Ísleifssonar, formanns, kaupmanns og landeigenda á Háeyri, en á landi hans stóð hálft þorpið. (Austurbakkinn)] Gíslína Jónsdóttir Rvík.[Gíslína Jónsdóttir var f. á Litlu - Háeyri, Eyrarbakka. Hún var dóttir Jóns Andréssonar f. 1. ágúst 1850 d. 31. ágúst 1929 og konu hans, Guðrúnar Sigmundsdóttur f. 24. ágúst 1859 d. 26. júlí 1932. Jón og Guðrún bjuggu enn á Litlu Háeyri 1910.] Finnbogi Sigurðsson frá Suðurgötu [Sýsluskrifari á Selfossi og Eyrarbakka, síðar bankafulltrúi í Reykjavík, f. 7. des. 1898, hann var ættaður úr Dýrafirði] Kristín Guðmundsdóttir frá Björgvin. [f.1894, Maður hennar var Víglundur Þorsteinn Jónsson, f. 25.6. 1892. þau áttu tvö börn, Halldóru og Stefán. Víglundur druknaði á Bússusundi 1927 en hann var einkasonur Jóns hómópata Ásgrímssonar í Björgvin.] Guðrún Vigfúsdóttir ekkja frá Skúmstöðum. [ Maður hennar var Guðjón Jónsson á Skúmstöðum og eignuðust þau 9 börn.] Vilhjálmur Gíslason járnsmiður, Ásabergi. [f. 1874 að Stóra-Hofi á Rangárvöllum. Kona hans var Guðbjörg Jónsdóttir (frá Vetleifsholti) og áttu þau 6 börn. Villi var fyrrum ferjumaður og sá síðasti á Óseyrarnesi. Orðfæri hans þótti fornt mjög.] Jónína Jónsdóttir frá Skúmstöum. [Hún var dóttir Jóns Jónssonar og Kristbjargar, er lengi bjuggu að Skúmstöðum. Jón var einn hinn fengsælasti formaður á Eyrarbakka og sókndjarfasti. Maður Kristínar Jónsdóttur var Sigurður Gíslason múrari, Hann var móðurbróðir Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara. Þau Sigurður og Kristín áttu 6 börn].

 

Landbúnaður: Bústofn Eyrbekkinga (1957) taldi 187 nautgripi, 1.154 sauðkindur, 136 hross, og 400 alífugla. Hafði þá öllum tegundum fjölgað umtalsvert, nema alífuglum frá 1955.

 

Sandkorn:

  • Útsvarstekjur Eyrarbakkahrepps voru 365.000 þær næst hæstu í sýslunni, en Selfoss var með um 4x hærri útsvarstekjur.
  • Veðurathuganir frá Eyrarbakka voru lesnar tvisvar á dag í útvarpi.
  • Slysavarnardeildin Björg á Eyrarbakka hélt upp á 30 ára afmæli sitt með hófi og balli í Fjölni í byrjun árs. Formaður deildarinnar var Guðlaugur Eggertsson. [Þar sýndu karlar m.a. nýjustu kjólatískuna og þótti afar feminískt atriði. Þá voru hinir öldnu sjómenn Árni og Jón Helgasynir heiðrarðir. Kvenfélagið sá um veitingar.]
  • Flest símanúmer á Eyrarbakka höfðu aðeins tveggja stafa tölu. Símanúmer Plastiðjunar var t.d. 16
  • Tveir Eyrbekkingar af erlendum uppruna fengu ríkisborgararétt, Lemaire, Gottfried Friedrich, verkamaður á Eyrarbakka, og . Lemaire, Jutta Marga Anneluise, húsmóðir á Eyrarbakka. Þau bjuggu á Grund.
  • Sjúkrasamlag Eyrarbakkahrepps: Form. Ólafur Bjarnason, Eyrarbakka, varaform. Jónatan Jónsson, Heiðmörk.
  • Hampiðjan strafrækti netastofu á Eyrarbakka frá árinu 1939, var sú vinna aðalega á haustinn. 1958 voru greiddar kr. 232.000. fyrir netahnýtingu á Eyrarbakka.
  • Stofnuð var ný deild í Bindindisfélagi ökumanna, (B.F.Ö) fyrir Eyrarbakka, Selfoss og Þingvallasveit. Formaður var kjörinn Bragi Ólafsson, héraðslæknir, Eyrarbakka. Sigurður Kristjánsson, kaupmaður, Eyrarbakka var einig í hópi stofnenda.
  • Mikla laxagöngu gerði í Ölfusá sem stóð í sólarhring 22. júlí. Veiddust þá 300 laxar í net á Eyrarbakka og um 600 í net á Selfosssvæðinu. En aðeins 11 laxar höfðu þá veiðst á 3 leifðar stangir það sem af var veiðitímabilinu.
  • Vesturíslendingurinn Frank Fredriksson var fyrsti maðurinn sem flaug flugvél á Íslandi. Ein fyrsta flugferðin var austur að Eyrarbakka til að sækja þangað Harald Sigurðsson pínóleikara. Þetta gerðist 1920.
  • Gamall maður, Kristmann Gíslason lést í umferðaslysi við afleggjarann að Borg í Hraunshverfi. Hann var hjólandi er langferðabíll ók á hann. Kristmann var frá Móakoti á Stokkseyri. Hann var 72 ára að aldri.
  • Læknir á Eyrarbakka var Bragi Ólafsson, héraðslæknir.
  • Formaður Sjúkrasamlag Eyrarbakkahrepps: Ólafur Bjarnason, Eyrarbakka, varaform. Jónatan Jónsson, Heiðmörk.

 

 

Heimild: Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga, Hagskýrslur um landbúnað. Hagskýrslur um sveitarsjóðareikninga 1959. Húsfeyjan 1959. Umferð 1959. Alþýðublaðið, Fylkir, Morgunbl. Tíminn, Vikan - 1959 Þjóðviljinn, Ægir.

Meira: 

26.03.2014 22:38

Sú var tíðin, 1937

Í Eyrarbakkahreppi 1937 voru 585 íbúar. Hreppstjóri var Magnús Oddson stöðvarstjóri, sem og þetta ár gekk að eiga Guðnýju Sigmundsdóttur símamær. Oddviti var Sigurður Kristjánsson kaupmaður. Um heilsufarið sá Lúðvík Nordal læknir. Forstjóri á andlega sviðinu var sr. Gísli Skúlason. Andinn yfir þorpsbúum var frekar daufur þetta árið, því sorglegt sjóslys var skamt frá þorpinu í vonsku veðri, og án þess að nokkur vissi fyrr en um seinan varð og engum bjargað.

 

Sjóslys:  Tólf breskir sjómenn farast.

Enski Togarinn Lock Morar frá Aberdeen fórst þann 31. mars út af Gamla-Hrauni á Eyrarbakka með 12 manna áhöfn. Hinir látnu voru jarðsungnir á Eyrarbakka. Hin fyrsti var jarðsunginn 7. apríl og var líkfylgdin allfjölmenn. Breski fáninn var breiddur yfir kistuna á meðan á athöfninni stóð. Samkomubann var víð líði, en aflétt um stundarsakir, svo greftrun gæti farið fram. Eitt líkið rak alla leið til Grindavíkur.  Nánar um þetta sorglega sjóslys: http://brim.123.is/blog/2010/03/31/444333/  Þá druknuðu tveir piltar á kajak við Þorlákshöfn, er bátnum hvolfdi. Ungu mennirnir voru frá Hafnarfirði. Þá strandaði skonnortan "Hertha", en hún var með timburfarm. Mikið brim var og suðaustan rok, svo festar slitnuðu, en menn höfðu verið teknir í land nokkru fyr. Skipið brotnaði í fjörunni og ónýttist, en ýmislegt dót úr flakinu var selt. [ Hertha var frá Marstal í danmörku, þrímöstruð skonnorta með 100 hestafla vél, 200 smálestir að stærð, byggt 1901.]

Kaupfélag Árnesinga átti þrjá trillubáta sem gerðir voru út á Bakkanum, "Framsókn", "Hermann" og "Jónas Ráðherra". Það óhapp vildi til í stormviðri að hinn síðastnefndi sökk í höfninni.

 

Eyrarbakki hafnarbær fyrir Reykjavík:

Svo bar við um vorið að timburlaust var í höfuðstaðnum, svo hvergi fanst spíta þó leitað væri í hverjum krók og kima. Á Eyrarbakka voru hinsvegar til heilu skipsfarmarnir af byggingatimbri sem kaupfélagið flutti inn og brugðu húsasmiðir í Reykjavík á það eina ráð að senda bílalest eftir timbrinu og flytja til Reykjavíkur. Einhvern vegin gátu íhaldsmenn fundið það út í sínu sinni, að þessi skipan mála væri bölvun kommúnismans.

 

 

Félagsmál: Stokkseyringar halda veislu.

Í stjórn verkamannafélagsins Bárunnar á Eyrarbakka voru : Þorvaldur Sigurðsson skólastjóri, formaður. Vigfús Jónsson, ritari og Jón Tómasson, gjaldkeri. Á Stokkseyri var formaður Bjarma: Björgvin Sigurðsson, en félagið var nú 33 ára og Stokkseyringum var haldin mikil veisla. Þann 27. oktober var haldinn fundur í Bárunni, en þar var þess krafist að Alþýðuflokkurinn tæki þegar upp samvinnu við Kommúnistaflokkinn,  sem leitt gæti til sameiningu þeirra. Í kjaramálum bar hæst áskorun til Alþýðusambandsþings að segja upp samningi um vegavinnukjörin, sem þóttu léleg.

 

Félag Iðnaðarmanna í Árnessýslu: Formaður þess var Eiríkur Gíslason trésmíðameistari á Eyrarbakka og félagsmenn all nokkrir. Iðnfélagið gekk í Landsamband iðnaðarmanna á árinu.

 

Fískifélagsdeild var hér, sem bjarni Eggertsson veitti forustu og á Stokkseyri Jón Sturlaugsson, en þessi félög beittu sér fyrir ýmsum framfaramálum í sjávarútvegi.

 

Skóli: Presturinn kom án hempunar, skilin eftir norður í Saurbæ.

Unglingaskóli starfaði nú annan veturinn sinn, en honum veitti forstöðu sr. Gunnar Benediktson frá Saurbæ. Námsgreinar voru íslenska, reikningur og danska. Skólahaldi þessu var mjög vel tekið af þorpsbúum og höfðu flestir drengir 14- 17 ára sótt skólann. Um sr. Gunnar var sagt að hempuna hafði hann skilið eftir norður í Saurbæ, því nóg væri um presta á Bakkanum.

 

Stjórnmál: Kommúnistar fengu ekki að hlýða á hina ungu Íhaldsmenn.

Það var kosið til Alþingis þetta ár. Ungliðar "Breiðfylkingingarinnar", boðuðu til opinbers fundar á Eyrarbakka og Stokkseyri, en fáir mættu. Almennum borgurum sem mættu til fundarins, en voru ekki hliðhollir Breiðfylkingunni var vísað á dyr. [ Samtök íhaldsamra þjóðernissinna, eða m.ö.o Nasistaflokkur.] Skömmu síðar, eða um hvítasunnu hélt Samband ungra Sjálfstæðismanna fund á báðum stöðum, og var Stokkseyrarfundurinn fjölmennari. Á Eyrarbakkafundinn fengu Kommúnistar ekki aðgang, [ Fyrir kommúnista var Gunnar Benediktsson rithöfundur í forsvari, en hann var einig skólastjóri unglingaskólans.] en fundurinn var  engu að síður opinn öðrum flokkum. Ræðumenn á Eyrarbakka voru Bjarni Benediktsson, Jóhann G. Möller og Guðmundur Benediktsson. Á Stokkseyri töluðu Kristján Guðlaugsson, Björn Snæbjörnsson og Jóhann Hafstein. [Framsókn var sigurvegari kosninganna, en Alþýðuflokkur og Bændaflokkurinn tapa. Aðrir flokkar standa í stað]. Um haustið var stofnað Alþýðuflokksfélag á Eyrarbakka fyrir tilstilli Jónasar Guðmundssonar, sérlegum erindreka Alþýðuflokksins. Stofnendur voru 23 verkamenn og sjómenn á Bakkanum. Formaður var kjörinn Þorvaldur Sigurðssson skólastjóri,  Guðmundur J Jóanatan ritari og Gestur Ólafsson sjómaður, gjaldkeri. Endurskoðendur voru Vigfús Jónsson og Jón Tómasson. Skömmu síðar var stofnað Alýþuflokssfélag á Stokkseyri, formaður var kjörinn Björgvin Sigurðsson, Helgi Sigurðsson ritari, Jón Guðjónsson gjalkeri. Stofnendur voru 33. [Alþýðuflokksfélagið var stofnað á 33. afmælisdegi "Bjarma" 31. oktober, en það var stofnað 1904, á sama ári og Báran á Eyrarbakka.]

 

Látnir: Þorvaldur Magnússon, kona hans var Ragnhildur Sveinsdóttir. Sigríður Þorleifsdóttir (80) frá Háeyri. Maður hennar var Guðmundur Ísleifsson kaupmaður, (88) en hann andaðist sama ár. Hann var einnig víðfrægur formaður. Anna Diðriksdóttir (86) frá Stokkseyri. [Hún var móðir Ólafs Helgasonar í Túnbergi (Ólabúð). Anna var jörðuð á Stokkseyri.] Guðmundur Einarsson frá Þórðarkoti. [jarðsettur á Stokkseyri.] Ragnhildur Einarsdóttir (80) frá Inghól. Sigurbjörg Hafliðadóttir (77)  frá Litlu-Háeyri. Ingibjörg Gíslína Jónsdóttir (69) frá Gamla-Hrauni. [Hún var fædd að Miðhúsum í Sandvíkurhreppi, en var tökubarn hjónanna Guðmundar Þorkelssonar og Þóru Símonardóttur, að Gamlahrauni. Ingibjörg gekk að eiga Jón Guðmundsson, formann frá Gamla-Hrauni og áttu þau 17 börn. Þau bjuggu í Vestmannaeyjum.] Vilborg Sigurðardóttir (69) frá Gamla-Hrauni. [bjó á Stokkseyri og jörðuð þar.]  Ólafía Ebenezardóttir (61) að Háeyri. Þórunn Jónsdóttir [Árnasonar kaupmanns í Þorlákshöfn] frá Hlíðarenda, en hún dvaldi hér í Gistihúsinu í elli sinni. Þorbjörg Ólafsdóttir (40) í Garðbæ. Maður hennar var Jón Gíslason. Guðbjörg Sveinsdóttir (47) frá Eiði-Sandvík. Ingimar Helgi Guðjónsson (7) frá Kaldbak. Dista Friðriksdóttir (1) frá Brennu. Meybarn (1) frá Sólvangi.

Alexander Stevenson (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Charles Milne (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Duncan Lownie (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Frederick Jackman (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.  George Duthie (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. John Connell (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. John Scott (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Thomas McKay (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. Walter E. Barber, (?)  sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen. William Bradley, (?) sjómaður á Lock Morar, frá Aberdeen.

 

Látnir fjarri. Jón Einarsson, er starfaði á Bakkanum nokkur ár, við verslun Guðmundar Ísleifssonar, en síðar kaupmaður í Vestmannaeyjum. Guðmundur Guðmundsson fv. bóksali. Hann bjó þá í Reykjavík. Samúel Jónsson trésmíðameistari í Reykjavík, en hann lærði trésmíði á Bakkanum og bjó hér og starfaði í um áratug, um aldamótin 1900, en hann var ættaður austan af Síðu.

 

Sandkorn: Steypireiður rak á land.

Áætlanir lágu fyrir um lagningu Sogslínu, til Eyrarbakka og Stokkseyrar. Enskur togari fórst með allri áhöfn, í skerjagarðinum austur af Eyrarbakka. Aflabrögð á vetrarvertíð voru sæmileg hér við ströndina. Um 30 Eyrbekkingar unnu í sjálfboðastarfi með Ungmennafélagi Ölfusinga að byggingu sundlaugar í Hveragerði. Presturinn flutti af Stóra-Hrauni og í "prestsetrið" á Eyrarbakka, sem kirkjan hafði nýlega keypt. Mannabein fundust á Hellisheiði, voru það bein Dagbjartar Gestssonar, bátasmiðs, er úti varð á Hellisheiði í desember 1921. - Dagbjartur ætlaði frá Eyrarbakka til Reykjavíkur einn og gangandi. Steypireyður 12 til 13 metra langur rak á fjörur Eyrarbakka. Við sporð hvalsins hékk 14 metra langur kaðall.

 

Herta strandSkipakomur:  "Skeljungur" kom hér með olíu. Tvær danskar skonnortur losuðu fullfermi af vörum til kaupfélagsins. Þriðja skútan, "Hertha" hlaðin timbri, til K.Á. strandaði við höfnina.

 

 

Af nágrönum: Við Ölfusárbrú er risið talsvert þorp með öflugu kaupfélagi og fleiri verslunum. Er það af ýmsum nefnt Selfoss. Óþurkatíð var um allt suðurland og fóðurskorti brá við.

 

Alþýðubl. Kirkjurit, Morgunbl. Tímarit  Iðnaðarmanna, Vísir, Þjóðviljinn

01.04.2013 20:37

Að áliðnum vetri

Það er sem vorið liggi í loftinu, enda eru farfuglarnir farnir að streyma til okkar. Álftir og gæsir eru löngu komnar. Tjaldurinn kom fyrir skemstu, sannkallaður vorfugl og vera má að einhver hafi heyrt í lóu. Ferðamannatíminn er handan við hornið og brátt mun gamli Bakkinn iða af lífi og fjöri, eins og í þá gömlu góðu daga, þegar Eyrarbakki var upp á sitt besta. Veturinn hefur farið mildum höndum um okkur hér á Bakkanum, og varla hægt að segja að nokkur vetur hafi orðið, stórviðri engin, né frosthörkur og nánast ekkert snjóað. Svona mildir vetur koma hér af og til, stundum tveir eða þrír hver á eftir öðrum. Myndin er tekin á síðasta degi marsmánaðar og sólin rís upp á austurloftið.

08.01.2013 23:08

Sporin í sandinum

             

  Á nýju ári er venjan að líta yfir farinn veg og líta á spor sín í sandinum og sjá hve langt þau leiða. Það er hinsvegar venja hér á "Briminu" að horfa enn lengra til baka og sjá hvers minnast má af sporum liðins tíma áður en alda gleimskunar máir þau út. Á þessu ári verða 40 ár liðin frá því að sr.Valgeir Ástráðsson stofnaði Æskulýðsfélag Eyrarbakkakirkju (Æ.F.E) og er sá félagsskapur eflaust mörgum hálfrar aldar Eyrbekkingum enn í fersku minni. Höfuðstöðvar félagsins voru í Brimveri, þar sem nú stendur leikskóli með sama nafni. En Brimver eldra var gömul vegasjoppa utan af landi sem U.M.F.E. fékk undir félagsstarfsemi sína. Þarna komu saman ungmenni til leiks og starfa. Um tíma var mikil gróska í þessu félagi en skammlíft varð það. Haldin voru m.a. kvikmynda og tónlista kvöld og skipulögð ferðalög víða um land. Húsið var fyrst staðsett austur á íþróttavelli, en síðan flutt þar sem leikskólinn stendur nú. Var það mikið afrek hjá litlu félagi að gera húsið upp og halda í því gróskumikla starfsemi á sínum tíma. Síðar var þetta hús notað sem fyrsti leikskólinn hér á Bakkanum og sjálfsagt að margir uppkomnir Eyrbekkingar eigi þaðan minningar, en því miður á ég ekki mynd af þessu ágæta húsi sem síðan vék fyrir nýjum leikskóla.

 

Þá eru einnig 40 ár síðan þorpsbúum fjölgaði skyndilega í einni svipan svo að segja, þegar allmargar fjölskyldur úr Vestmannaeyjum settust hér að í kjölfar eldgossins þar áHeimaey. Ungir Eyjapeyjar og Bakkameyjar, Bakkapeyjar og Eyjameyjar renndu hýru auga hvort til annars, er mæst var á stéttinni við Laugabúð.

 

70 ár eru liðin síðan hlutafélag um Hraðfrystistöð Eyrarbakka (H.E.) var stofnuð og Útgerðarfélagið Óðinn og urðu þessi félög lengi helstu máttarstólpar þorpsins þó ýmsir erfiðleikar væru þó alltaf handan við hornið. Flestar konur á Bakkanum og eldri karlar margir unnu hjá þessu ágæta fiskvinnslufyrirtæki á sínum tíma. Ungt fólk margt hóf þar sína fyrstu atvinnu, einkum þegar farið var að vinna humar, en mörg ungmennin unnu einnig í saltfiski á sumrin og ætið var einhver leyndardómsfull stemming yfir þessum vinnustað yfir há vertíðina. Yngri menn og frískari fóru margir til sjós á þeim bátum sem gerðir voru út héðan. Með tíð og tíma lagðist þessi starfsemi niður hér á Bakkanum.

15.12.2012 18:06

Ný götulýsing

Götuljós
Hún er björt og falleg nýja götulýsingin sem sett var upp síðastliðið sumar ásamt lágri og breiðri gangstéttinni sem lögð var á sama tíma. Það mun hafa verið fyrir góðum mannsaldri síðan, eða á árinu 1920 sem fyrsta rafljósið var tekið í notkun á Bakkanum. Áætlanir um framkvæmdir Sveitarfélagsins Árborgar hér á Eyrarbakka hafa verið unnar í góðu samstarfi við Hverfisráð Eyrarbakka, en formaður þess Þór Hagalín er nú nýlega fallinn frá. Ráðgert er að halda áfram endurnýjun gangstétta og götulýsingar fram til ársins 2017.

18.10.2012 23:51

Sú var tíðin, 1910

Þetta var árið sem Þorleifur á Háeyri keypti Þorlákshöfn fyrir 32.000 kr, og Leikfélag Eyrarbakka sýndi í Fjölni gaman-sjónleikina: "Vinnukonuáhyggjur" og "Nábúarnir" við góðan orðstýr. Gripasýning fór fram að Selfossi þann 28. júní og vakti óskipta athygli áhugasamra. Þetta var líka árið sem Grímsnesvegurinn var lagður og sömu leiðis vegurinn upp á Dyrhólaey. Gróðrarstöð hafði Búnaðarfél. Íslands sett á stofn á Selfossi við Ölfusárbrú á þessu herrans ári. Að henni starfaði Kjartan Guðmundsson frá Hörgsholti. Þetta ár dó Magnús mormóni Kristjánsson í Óseyrarnesi og Ólafur söðlasmiður Ólafsson í Sandprýði, báðir ágætis menn.

Tíðarfarið: Bændur hér austanfjalls höfðu liðið fyrir harðan vetur sem varð þeim heyfrekur fremur venju og þegar leið að vori gerði hret  sem var vetrinum öllu verri. Næturfrostin hófust strax í ágúst. September var kaldsamur með snjó í fjöllum og einn dag snjóaði niður undir sjávarmál. Kom svo góður kafli með auða jörð fram til jóla. Öskufalls varð vart í Landmannahreppi þann 18. júní og víðar um sunnlenskar svetir.

Skipakomur og skipaferðir:  Sumarið 1910 komu óvenju mörg seglskip til Eyrarbakka, komu þá fimm allstór seglskip, þ.a.m. "Kong Helge" Höfðu mótorbátarnir þá í nógu að snúast með uppskipunarbátanna í togi. Verkafólkið vann nótt sem dag við vörulöndun og útskipun. Þá kom "Gambetta", aukaskip Thorefélagsins frá útlöndum með vörur til Ingólfsfélagsins. Strandferðaskipin sem sigldu á Sunnlenskar hafnir á þessum árum hétu "Hólar" og "Perwie" mestu dallar báðir. Seint um haustið kom járnseglskipið "Vonin", en það skip átti fyrrverandi Lefolii verslun og síðar Einarshafnarverslun. Var hún búin að eiga 49 daga útivist frá Bergen i Noregi vegna mótbyrs og óveðra, og var hún "talin af" bæði hér og i Kaupmannahöfn. Hér hitti hún þó á besta sjóveður og var með snarræði og dugnaði losuð á 5 sólarhringum, af duglegum Eyrbekkingum. Sorglegt var það hinsvegar að þá er skipið var komið hér í höfn, sendi stýrmaður símskeyti til konu sinnar í Kaupmannahöfn, um að hann væri hingað kominn heill á húfi, en fékk að vörmu spori það svar, að um sama Ieyti og hann náði höfn hér, hafði kona hans andast ytra og vakti það almenna hluttekningu þorpsbúa með stýrimanninum.

Íþróttir: Hið fyrsta sambands-íþróttamót ungmennafélaganna á Suðurlandsundirlendinu og kent er við Skarphéðinn, fór fram að Þjórsártúni 9. júlí 1910. Glímuþátttakendur voru 18, hvatlegir piltar, vænir á velli og vel á sig komnir; allir í einkennisbúningi og undu áhorfendur vel við að virða þá fyrir sér áður en byrjað var, enda var veður hið besta, lofthiti og logn. 1. verðlaun, silfurskjöldinn, hlaut Haraldur Einarsson, frá Vík. 2. verðlaun Ágúst Ándrésson, Hemlu. 3. verðlaun Bjarni Bjamason, Auðsholti. Grísk-rómverska glímu sýndu þeir Sæmundur Friðriksson, Stokkseyri og Haraldur Einarsson, Vík. Var hún allflestum nýstárleg íþrótt og klöppuðu áhorfendur lof i lófa. Einnig var keppt í fjölmörgum hlaupa og stökkgreinum.

Atvinna: Landbúnaður var stundaður að kappi á Bakkanum 1910 og vart litið við sjó um sláttinn, en nokkuð um að gert var út á síld frá Eyrarbakka og Stokkseyri þá um sumarið.

Götulýsing: Tvö gasljós voru til hér á Bakkanum 1910. Annað var úti við Einarshafnarverslun, en hitt ljósið var inni í Ingólfs búð, og nýttist til að lýsa vefarendum þar hjá, þegar hlerarnir voru ekki fyrir gluggunum. Annars voru steinolíu-luktir brúkaðar víðast úti við á dimmum vetrarkvöldum.

Heimild: Suðurland 1910

12.10.2012 00:01

Prentsmiðja Suðurlands á Eyrarbakka

Það voru nokkrir Árnesingar sem keyptu prentsmiðju árið 1910 og stofnuðu í framhaldi þess, Prentfélag Árnesinga og blaðið "Suðurland", sem þeir gáfu út á Eyrarbakka, og kom fyrsta blaðið út 13.júní 1910 og taldi 4 síður. Ritstjórar voru Oddur Oddson í Regin og Karl H. Bjarnason, en gjaldkeri var sr. Gísli Skúlason á Stóra-Hrauni. Kom blaðið út nokkur ár en síðar var keypt annað blað, "þjóðólfur" hinn gamli og gefinn út um tíma hér á Bakkanum. Hann hætti að koma út 1918 og var prentsmiðjan síðan flutt til Reykjavíkur. Prentsmiðjan á Bakkanum var til húsa í kjallara í Nýjabæ (Vestara húsi). Oft var ekki hægt að prenta ef gerði mikið frost, því hitunarbúnaður var ekki fyrir hendi í fyrstu, þá háði starfseminni stundum pappírsskortur á stríðsárunum fyrri. Heimilisblaðið var einnig prentað og gefið út á Eyrarbakka auk bóka, bæklinga og rita ýmiskonar. Prentarar voru þeir Jón Helgason og Karl H Bjarnason. Í stjórn Prentfélags Árnesinga voru: sr. Gísli Skúlason á Stórahrauni, Guðmundur Þorvarðarson hreppstjóri í Sandvík, og Oddur Oddson gullsmiður í Regin. Í ritnefnd voru Gísli Skúlason áður nefndur, Guðmundur Sigurðsson sýslunefndarmaður, Helgi Jónsson sölustjóri, Jón Jónsson búfræðingur og Oddur Oddson áður nefndur.

Heimild: Suðurland 1910, Þjóðþólfur 1917, Skeggi 1919

28.09.2012 14:30

Sjóorsta við suðurströndina?

 German U-boat U 14 ( Frá Wikipedia)Föstudaginn 13 júlí 1917 kl. 6-7 e. hád., heyrðust hér með sjávarsíðunni drunur miklar, sem menn héldu vera fallbyssuskot. Víst var það, að þetta voru ekki þrumur, og að það heyrðist af hafi utan. Drunur þessar heyrðust á Eyrarbakka og Stokkseyri, en einkum þó í Gaulverjabæjarhreppnum. Giskuðu menn helst á, að vopnuðu varðskipi hafi lent saman við þýskan kafbát. 

[Heimild: Þjóðólfur 1917.]

 Um þessar mundir voru tvö íslensk fraktskip skotin í kaf "Vesta" [16.7.1917] og "Ceres", skip Samvinnufélagsins, Fórust 5 menn af "Vestu", en 2 af "Ceres" og var annar þeirra sænskur, en nokkrir íslenskir farþegar og erlendir  skipsbrotsmenn voru um borð og var þeim öllum bjargað. þá var seglskipiuu "Áfram" sökt á Ieið hingað frá Englandi, en mannbjörg varð.

Snemma árs 1917 þegar fyrri heimstyrjöldin stóð sem hæst, lýstu þjóðverjar yfir ótakmörkuðum kafbátahernaði á N-Atlantshafi og fyrirvaralausum aðgerðum gegn skipum sem stödd voru á átakasvæðum þeirra við breta, hvort sem um skip hlutlausra þjóða væri að ræða eða ekki. Var það ástæðan fyrir því að bandaríkin lýstu yfir stríði við þjóðverja skömmu síðar. Þegar yfir lauk höfðu þýskir kafbátar (U-boat) sökkt hálfum kaupskipaflota breta. Fyrri heimstyrjöldin hófst 28. júlí 1914 og stóð þar til 11. nóvember 1918.

Heimild: Wikipedia

29.08.2012 21:51

Ýmislegt smálegt

Staður. Húsið "Staður" stóð rétt við verslunarhúsin gömlu, þar sem samkomuhúsið "Staður" er nú, og hafði Ólafur faðir Sigurðar Óla alþingismanns reist það. Húsið "Staður" var síðar flutt til Selfoss. 

Eyrbekkingur nokkur segir svo frá: "Til skamms tíma var vindhani á turni kirkjunnar á Eyrarbakka. Var vindhaninn annað mesta stolt Eyrbekkinga á eftir "Húsinu". Illu heilli flutti svo hingað Snæfellingur af alkunnu  Axlarætt. Var þá vindrhaninn tekinn niður af kirkjuturninum og upp settur kross byggðarlaginu til sáluhjálpar. - Voru það slæm skipti á vindhönum".


Efnabóndi: Þorkell Jónsson skipasmiður á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka bjó í Simbakoti á Eyrarbakka 1798-1802, á Stóru-Háeyri 1802-1812 og síðan á Gamla-Hrauni til dauðadags 28. des. 1820. Þorkell eignaðist 5 jarðir, Gamla-Hraun, Salthól, Syðsta-Kökk, Dvergasteina og Hárlaugsstaði í Holtum, var og allauðugur að lausafé, svo að hann var með efnuðustu bændum á þeim tímum. Hann var hreppstjóri um skeið með Jóni ríka í Móhúsum og fleiri trúnaðarstörf voru honum falin. Kona Þorkels var Valgerður Aradóttir frá Neistakoti.

Kindin: Jóhanna Sigríður Hannesdóttir frá Stóru-Sandvík í Flóa, f. 4.5. 1897, d. 26.12. 1971 og Ketill Finnbogi Sigurðsson frá Garði í Dýrafirði, f. 7.12. 1898, d. 19.7. 1959, sýsluskrifari, síðar bankafulltrúi.

Þau bjuggu í Suðurgötu á Eyrarbakka til skams tíma í kringum 1935. Jóhanna átti eina kind sem alltaf var kölluð "Kindin" og ekkert annað.

Boðaði komu rafmagnsaldar. Guðmundur Þorvaldsson bóndi á Bíldsfelli í Grafningi, virkjaði bæjarlækinn. Þar hlóð hann neðst í gilinu í hefðbundnum íslenskum byggingarstíl húskofa úr torfi og grjóti. Fór Guðmundur þar að ráðum Dana nokkurs, Rostgaard að nafni, sem einnig vildi selja honum efni í rafstöðina. Rafstöðin var svo gangsett í febrúar 1912, lýsti hann upp öll bæjarhúsin og auk þess útihús. Var það fyrsta bændabýlið sem rafvæddist á íslandi. 

Kartöflubransinn: Seint á sjöunda áratugnum ætluðu tveir ungir menn að gerast hinir stórtækustu kartöflubændur hér sunnanlands og létu plægja mikinn kartöflugarð á Eyrarbakka. Höfðu þeir keypt 50 tonn af útsæði sem öllu var potað niður. Svo var beðið uppskerunnar, en áætlanir gerðu ráð fyrir að upp úr garðinum fengjust 500 tonn af fyrsta flokks matarkartöflum sem selja mátti með góðum hagnaði í helstu matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Þegar grös féllu þá um haustið var hafist handa við úppúrtektina en heldur reindist hún rýr uppskeran. Þegar allt var talið og vegið, skilaði garðurinn aðeins 40 tonnum af kartöflum.

22.07.2012 22:50

Brim

Það brimaði talsvert á Bakkanum í dag eftir storminn sem slóst með suðurströndinni í gær. Það var strekkingur á Bakkanum og nokkrar rokur af og til, en ekkert aftakaveður. Talsvert hefur ringt í dag eftir einn lengsta þurkakafla sem komið hefur á þessum slóðum, en vart hefur komið dropi úr lofti í allt sumar og jörð því orðin skraufa þurr. Einhver dýpsta sumarlægð sem komið hefur hér við land er um þessar mundir að færast yfir landið, en hún mælist nú 973.8 hPa hér á Bakkanum.

01.07.2012 22:51

Knarrarósviti/ Baugstaðarviti

Loftstaðahóll var talinn heppilegasta vitastæðið á standlengjunni milli Ölfusár og Þjórsár. En  þegar farið  var að  bora í hólinn,  reyndist  þar ekki  fáanleg nógu traust  undirstaða og  var  þá horfið að því  ráði, að  reisa vitann við Knararós á Baugstaðakampi. Var byrjað á byggingunni í  september 1938 og lokið við að koma henni upp í nóv.  sama  ár. Sumarið 1939 var unnið að því að setja ljóstæki í vitann og ganga frá  honum að öðru leyti. -  Þann 31. ágúst það sama ár var vitinn vígður og tók hann samdægurs til starfa.

Vitinn stendur 4 m yfir sjávarmáli, en hæð hans frá jörðu er 26 metrar. Hann er byggður úr  járnbentri  steinsteypu. Veggirnir eru mjög  þunnir, m.v. vita erlendis, eða 20 cm. Að utan er hann  pússaður með  kvarsi. Í gluggunum var allsstaðar svokallað gangstéttargler sem var  grópað í veggina. Smíði vitans var meðal  annars miðað við  það, að viðhald  hans yrði sem ódýrast, en  jafnframt reynt að  hafa  hann  rammgeran og var því enginn viður notaður nema í stigann. Linsan í ljóstæki Knararós vita er 500 mm og  upphaflega var 50 l. gasbrennari til ljósgjafar og fékst með því 6100  kerta Ijósmagn. Ljóssvið vitans var þá 16 mílur. Fyrsti vitavörðurinn var Páll Gunnarsson bóndi á Baugsstöðum og þurfti hann að sinna vitanum annan hvern dag. Teikninguna af vitan um gerði Axel Sveinsson verkfræðingur, en verkstjóri  var Sigurður Pétursson frá Sauðárkróki.

Heimild: Ægir 1939

04.03.2012 00:24

Ferskfisk-flutningurinn

Notaðir voru 2-3 tonna vörubílarEinu sinni sem oftar var talsvert atvinnuleysi á Eyrarbakka  vegna fiskleysis, en 30 manns störfuðu jafnan við fiskvinslu í frystihúsinu á fyrstu árum þess. Til að bregðast við vandanum tóku Eyrbekkingar upp á því haustið 1954 að kaupa togarafisk úr Reykjavík og fluttu hann austur yfir Hellisheiði til vinnslu í frystihúsinu á Eyrarbakka. Að öllum líkindum var þetta í fyrsta sinn sem flutningar á ferskum fiski fór fram á þjóðvegi  milli landshluta. Til flutninganna voru notaðir 2-3 tonna vörubifreiðar. Ekki máttu Eyrbekkingar  alfarið sjá um þessa flutninga, þar sem bifreiðastjórafélagið "Þróttur" í Reykjavík kom í veg fyrir það. Var það því að samkomulagi að flutningunum yrði skipt jafnt á bifreiðastjóra frá Eyrarbakka og Reykjavík og var venjulega flutt 15-20 tonn í einu. Ekki höfðu Eyrbekkingar þó stöðuga atvinnu af þessu fyrirtæki, þar sem togarafiskurinn fékkst ekki keyptur, nema þegar þannig stóð á að fiskvinnslur í Reykjavík hefðu ekki undan að vinna afla sem barst á land. Flutningarnir þóttu þó það kosnaðarsamir að vinnslan gerði ekki meira en að standa undir sér. Síðarmeir var ekki óalgengt að fiskur væri sóttur suður til Hafnafjarðar og lengri leiðir til vinnslu á Eyrarbakka.

Heimild: Morgunblaðið 19.02.1954

21.02.2012 23:15

Egill og klaufjárnið

Teiknimyndin sem byrtist í "Speglinum" 1950 sýnir Egil Thorarinsen kaupfélagsstjóra í Sigtúnum munda kúbeinið að einu af mestu fornminjum Íslandssögunnar, þ,e, "Vesturbúðunum". Heimamenn háðu harða baráttu  fyrir verndun húsanna og leituðu m.a. til Kristjáns Eldjárns þáverandi þjóðminjavaðrar og hétu á hann til liðveislu. En allt kom fyrir ekki, svo bardagalokin milli Eldjárns og klaufjárns urðu á þann veg, að kaupfélagsvaldið hafði sitt fram. Íslendingar stóðu fátækari eftir en nokkru sinni, síðan handritin voru rituð, hvað varðar sögu og menningu þjóðarinnar þegar Vesturbúðirnar hurfu af þessum forna verslunarstað fyrir fullt og allt.

18.02.2012 23:37

Undir árum

"Þuríður Einarsdóttir hét á Strandakirkju. Hún var mörg ár formaður í brimhöfnum (á Eyrarbakka, Stokkseyri og Þorlákshöfn) á stórskipum og bát, þar til hún var fult sextug; fiskaði bæði og fórst vel".
-----------------
Bjarni bóndi Jónsson í Garðbæ á Eyrarbakka gaf Strandakirkju 1813 hökul "saminn af list" "með silfurskildi" og á letrað: "haf i minni á krossi Krist".

-----------------
Þeir frændur Sigurður Ísleifsson trésmiður á Eyrarbakka og Þorleifur  á Garði Guðmundsson Ísleifssonar á Háeyri áttu saman mótorbátinn "Höfrungur" sem gerður var út frá Þorlákshöfn 1914 og var þá nýr, en veigalítll súðbyrtur með trekvartommu furuborðum. Í óveðri sem gekk yfir aðfararnótt 27. ágúst 1914 sökk vélbáturinn, en 30 ára gamall feyskinn uppskipunarbátur frá Vesturbúð sem hafði verið festur við mótorbátinn hélst á floti. Daginn eftir skaut "Höfrungi" upp úr kafinu en þá var vélin gengin úr bátnum. (Þorleifur Guðmundsson var þingmaður Árnesinga um skeið fyrir Framsóknarflokkinn.)
--------------------------

Engjavegurinn varð bílfær 1928 fyrir tilstilli Bjarna Eggertsssonar.

--------------------------
Flugvélaplágan 1944 "Við höfum átt því að venjast um alllangt skeið, að ungir flugvélaglannar leiki sér hérna yfir þorpinu í silfurfuglum sínum og eru þeir svo nærgöngulir að þeir strjúkast við húsaþökin eða yfir höfðum okkar, þar sem við erum að vinna í görðum og á túnum., Hér er bersýnilega um algeran leik að ræða hjá hinum ungu flugmönnum en enga nauðsyn og skiljum við ekki í öðru en að herstjórnin myndi banna þetta ef hún vissi um þetta gráa gaman flugmannanna." < "Við hérna þökkum þér fyrir bréfið um daginn um flugvélapláguna. En því miður hefur þetta ekki borið árangur. Flugvélarnar hendast hérna fram og aftur yfir reykháfunum og stríða okkur og egna ,til reiði eftir öllum kúnstarinnar reglum. Það virðíst sannarlega svo að það þurfi önnur og bitmeiri vopn en penna til að kenna þessum herrum."

---------------
Eyrbekkingurinn, Tómas Vigfússon, formaður fyrir verslunarstjóra P. Nielsen, dró þorsk á vertíðinni 1907, sem vóg 72 pund óslægður (144 kg.). Hausinn var 12 '/2 pnd., hrognin 9 pd., lifrin 5,'/2 pd. og fiskurinnflattur og dálklaus 37 pd
----------------
Lomber, "9 matadora" í laufi, keypti fyrv. verslunarstjóri P. Nielsen eitt kvöld (7.des.1923). Var það í sjötta sinn síðan í ársbyrjun 1912, að slíkt fyrirbrigði kom fyrir við hans spilaborð, og í annað sinn, sem hann fékk þá sjálfur. Á undangengnum 12 árum mun hann hafa spilað nálægt 160000 spil.
----------------



 

Flettingar í dag: 1780
Gestir í dag: 255
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 262070
Samtals gestir: 33882
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 21:42:12