Flokkur: Dagbókin

03.04.2023 16:07

Versti vetur í mannaminnum

Ófærð á Eyrarbakka:

 

Nú er liðinn versti vetur í mannaminnum hér um slóðir og frost að fara úr jörðu. Framanaf vetri var tíðin með ágætum, allt þar til 7. desember síðastliðnum að það tók að frysta og nokkuð duglega. Brostin var á kaldasti desember í einhver 100 ár. Var frost oft á bilinu -17 til - 20°C. Fór mest í - 22,8°C. Úrkoma var þó lítil sem engin framanaf en undir 19 dag mánaðarins gerði mikla snjóstorma ófærð og stórskafla svo að ekkert var við ráðið. Þorpið var einangrað um nokkra daga og grafa varð fólk úr sumum húsum. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að opna götur bæjarins. Ófærð var á þjóðvegum víðast sunnanlands í þessu veðri og aðalleiðir lokaðar. 

Janúar var sá kaldasti á öldinni og nokkuð bætti í snjóinn. Snjór í vetur var þurr púðursnjór og hlóðst mjög á húsþök og harðnaði þar eins og steypa. Mest fór frost í tæpa -21°C. Svo breytti um þann 20 með hlýju lofti að sunnan. Febrúar var umhleypingasamur og úrkoma oft einhver en hvassviðrasamur svo að úr hófi gekk og olli víða vandræðum. Mesta frost var -9°C og mesti hiti 9,6°C. Í mars var tíðarfarið orðið eðlilegt og eins og menn eiga að venjast hér um slóðir. Sólskínsdagar all nokkrir og sólbráð svo snjó tók fljótt upp. Helst urðu tjón á girðingum og trjágróðri í vetrarveðrunum að þessu sinni, en stórfelld tjón engin. Umgangspestir og flensur sóttu mjög fólk heim þennan veturinn og lungnapestir þó sérstaklega. 
 
 

18.07.2021 23:03

Mannfjöldi á Eyrarbakka 1927-30


Árið 1926 voru 692 skráðir til heimilis í Eyrarbakka kauptúni og þá enn með stærri kauptúnum landsins. Aðeins Akranes, Bolungarvík, Húsavík, Norðfjörður og Eskifjörður voru stærri kauptún.

Árið eftir (1927) fækkaði íbúum á Eyrarbakka um 52 einstaklinga og stóð íbúafjöldi í 640. Þá fóru Keflavík og Sauðárkrókur framúr í fólksfjölda.

1928 fjölgaði Eyrbekkingum í 648, en árið eftir (1929) féll íbúatalan niður í 621. Þá fóru Búðir í Fáskrúðsfirði framúr í fólksfjölda.

1930 var íbúafjöldinn á Bakkanum fallin í 608 skráða íbúa. Þessi þróun hélst næstu árin þar til íbúafjöldi komst í jafnvægi um 500 manns og hefur haldist á þessu bili 5 - 600 manns síðan. Í dag eru 590 íbúar skráðir á Eyrarbakka. (Á þessum árum var Selfoss rétt að byrja að byggjast upp og því ekki getið í heimildum)

Í Eyrarbakka læknishéraði (Flóinn) létust 208 manns á þessu tímabili. Úr barnaveiki 1, úr gíghósta 7, kvefsótt 2, taugaveiki 3, blóðsótt 1, gigtsótt 1, lungnatæringu 21, heilaberklabólga 5, berkum 3, sullaveiki 1, drukknun 9, slysförum 4, sjálfsmorð 2, meðfæddum sjúkdómum 3, elli 46, krabbameini 14, hjartaáfalli 12, aðrir hjartasjúkdómar 1, æðasjúkdóma 1, heilablóðfalli 18, flogaveiki 1, langvarandi lungnakvefi 2, lungnabólga 19, brjósthimnubólgu 3, garnakvefi 1, botlangabólgu 2, kviðslit 1, langvarandi nýrnabólgu 1 og önnur ótilgreind dauðsföll 7.

Heimild: hagskýrslur um mannfjölda þróun.

17.05.2021 22:33

Aldan nr. 205


Stúlkan Aldan nr 205 var stofnuð á Eyrarbakka árið 1926 af Guðmundi G Kristjánssyni. Fundað var í Fjölni. 

Árið 1928 sátu eftirfarandi í stjórn: Finnbogi Sigurðsson sýsluskrifari, Ingimar Jóhannesson kennari, Sigríður Ólafsdóttir frú, Herdís Jakopsdóttir frú, Aðalsteinn Sigmundsson skólastjóri. 

Aðrir meðlimir m.a. Bergsteinn Sveinsson, Þorleifur Guðmundsson, Ottó Guðjónsson, Aðalheiður Bjarnadóttir, Sigurður Guðmundsson, Jakopína Jakopsdóttir, Ágústa Jóhannesdóttir, Sólveig Guðmundsdóttir, Elín Eyvindsdóttir, Áslaug Guðjónsdóttir, Þórdís Símonardóttir, Ingvar Jónsson, Jón Einarsson og Elínborg Kristjánsdóttir. 

Á Stokkseyri starfaði Stúkan Lukkuvon nr. 20 og á Selfossi stúkan Brúin nr. 221. 

Áður voru starfandi tvær stúlkur á Eyrarbakka, Eyrarrósin nr. 7 og Nýársdagurinn nr. 56. 

Árið 1899 vann Stúkan Eyrarrósin mikið þrekvirki á Bakkanum, lét hún þá rífa gamla Godtemplarahúsið og byggði nýtt veglegt samkomuhús og er því lýst þannig:
Tvílofta með veggsvölum,  fundarsalur 17 álnir að lengd og 10 álnir að breidd og hátt til lofts. Á loftinu eru tvö íbúðarherbergi fyrir dyravörð, eldhús og stór salur fyrir veitingar. Húsið var vígt 28. desember 1899.
Viðstaddir vígsluna voru m.a þáverandi Sýslumaður Sigurður Ólafsson og frú, þáverandi sóknarprestur og frú, P. Níelsen faktor og frú og sr. Ólafur í Arnarbæli Ólafsson og frú. Stokkseyringum var ekki boðið sökum þrengsla. Í stúlkunni voru 250 manns. 

Þetta hús fékk nafnið Fjölnir og þjónaði Eyrbekkingum sem samkomuhús í 70 ár en var þá rifið. Nú stendur þar nýmóðins bílskúr vestan við Káragerði.

Mynd:Þjóðminjasafnið

16.05.2021 22:34

Böllin á Bakkanum


Fyrir miðja síðustu öld og síðar var mikil ballmenning á Bakkanum. Í vertíðarlok ár hvert voru haldin hin  víðfrægu Báruböll í samkomuhúsinu Fjölni, sem verkamannafélagið stóð fyrir, og síðan slysavarnardeildin.  Stjórnmálaflokkarnir stóðu fyrir böllum, Framsóknarböll, sjálfstæðisböll og Krataböll voru vel sótt. Kvenfélagið stóð fyrir barnaballi um jólin og grímuballi sem og skemmtunum á þjóðhátíðar deginum og síðar fyrir þorrablótum með björgunarsveitinni þegar þau fóru að tíðkast.  Ungmennafélagið hélt einnig  skemmtanir og dansiböll sér til fjáröflunar stöku sinnum. Þegar Fjölnir var lagður af færðust böllin yfir í verbúðina á Stað sem var breytt í samkomuhús í skyndi, en um 1990 var húsnæðið stækkað og endurbætt. Helst voru það Sunnlenskir hljómlistamenn sem léku fyrir dansi frameftir 20. öldinni, svo sem Mánar, Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar (Steini spil) Karma, Kaktus o.fl. Stórhljómsveitir af landsbyggðinni hafa einnig brugðið fyrir sig betri fætinum og stígið á stokk á Bakkanum, ýmist til að fremja stuðdansleik  eða tónleika. Má þar nefna t.d Björgvin Halldórsson, Geirmund Valtýrsson,  Ómar Ragnarsson, Bubba Mortens ofl.

Heldur dró úr dansleikjahaldi á sjöunda og áttunda áratugnum enda sveitaballastemmingin þá í hávegum í uppsveitum sýslunnar, svo sem á Borg í Grímsnesi, Aratungu, Árnesi og Þjórsárveri með sætaferðum næstum hverja helgi. Í staðin voru haldin diskotek fyrir yngri kynslóðina og var það einkum diskotekið Dísa sem hélt uppi stemmingunni.

Venjulega voru dansleikir aðeins auglýstir í búðargluggum framan af, svo líklega var ekki óskað nærveru utanbæjarmanna. Þó spurðist þetta ávallt út og einhver reitingur aðkomumanna mættu í fjörið og gat þá orðið nokkur atgangur.


Hér eru nokkrar upptalningar á auglýstum Bakkaböllum.
 1964 Sjálfstæðisball. Hlómsveit Óskars Guðmundssonar, Elín og Arnór.
 1997 Dansiball á Stað  með Bubba Mortens.
 2001 Sjómannaball á Stað með hljómsveitinni Upplyfting.
 2002 Dansiball á Stað með Bubba Mortens og Heru.
 2005 Dansiball með vesturíslensku hljómsveitinni Glenn Kaiser band.
 2007 Stórdansleikur í Rauðahúsinu með hljómsveitinni Klaufarnir. Jólaball kvenfélagsins á Stað.
 2009 Sveitaball á Gónhól
 2011 Dansiball í Gónhól. Hjördís Geirs og Örvar Kristjánsson. - Hlöðuball í Gónhól. Hljómsveitin Sputnik.
 2012 Hlöðuball í Gónhól.
 2013 Aldamótaball á Rauðahúsinu með hljómsveitinni Síðasti Sjens. - Hrútaball á Stað með hljómsveitinni Granít.
 2014 Aldamótaball á Rauðahúsinu.?
 2015 Jónsmessuball á Hótel Bakka ? -Jólaball. Jón Bjarnason leikur fyrir dansi. - Bjórflóð á Rauðahúsinu með Jessi Kingan.
 2016 Bjórflóð á Rauðahúsinu með Bjórbandinu frá Selfossi.
 2018 Bjórflóð á Rauðahúsinu ? Jólaball kvenfélagsins á Stað.
 2020 Hátíðartónleikar á Stað í boði Hrútavina með hljómsveitinni Kiriyama Family.

Nokkrar Eyrskar hljómsveitir: NílFisk, Bakkabandið, HúnGraður, Hughrif, The Wicked Strangers, Kiriyama Family og Síðasti Sjens. Á árunum áður voru nokkur bílskúrsbönd sem sjaldan spiluðu opinberlega.

Þá má nefna músikfrömuðina Jón Tryggva og Úní, Valgeir Guðjónsson Stuðmann að ógleymdum Jhonny King sem hafa lyft upp menningarbragnum á Bakkanum undanfarin ár.

10.05.2021 22:02

Kvikmyndatökur á Bakkanum


 Brekkukotsannáll, ein sena 1972.
 Leikin heimildamynd um Húsið 2007, Andrés Indriðason samdi handrit og leikstýrði myndinni.
 Hemma, 2012 Framleiðendur myndarinnar eru Anna G. Magnúsdóttir og Anders Granström fyrir sænska framleiðslufyrirtækið Little Big Productions. Verðlaunamynd.
 Dead snow 2, 2014 leikstjóri Tommy Wirkola. 

09.05.2021 21:50

Alpan hf.

Haustið 1985 hófst starfsemi álpönnuverksmiðjunar Alpan á Eyrarbakka en verksmiðjan var keypt frá Danmörku og komið fyrir í 1.700 fm húsnæði sem áður tilheyrði útvegsfyrirtækinu Einarshöfn hf.

Hjá Alpan voru framleiddar pönnur og pottar af 35 mismunandi grunntegundum, en þær eru svo settar á markað í Þýskalandi. Auk þess var flutt út til Danmerkur, Sviss, Frakklands, Bretlands, Austurríkis, Spánar, Kanada og Bandaríkjanna og víðar.

Hráefnið var nær eingöngu innflutt endurunnið skrapál, nema í fyrstu var notað blöndun frá Ísal, auk þess sem fyrirtækið bræddi sjálft upp skilavöru til endurvinnslu.

Á fjórða tug starfsmanna unnu hjá fyrirtækinu, fyrst í stað eingöngu íslendingar en um aldamótin 2000 voru starfsmennirnir aðalega farandverkamenn frá Póllandi, Lettlandi og Englandi. Sigurður Bragi Guðmundsson var lengst af formaður stjórnar Alpans hf.

Árið 2006 flutti Alpan fyrirtækið til Targoviste Rúmeníu, þá var rekstrarumhverfið orðið óhagstætt hér á landi og starfsemin töluvert dregist saman. Þá unnu 25 manns hjá fyrirtækinu.

Húsnæðið á Bakkanum gekk síðan kaupum og sölum án þess að í það fengist virk starfsemi þar til að byggðasafn Árnesinga keypti húsið á síðasta ári undir starfsemi sína sem áður var við Hafnarbrú.

05.05.2021 22:51

Bækur um Eyrarbakka

 Saga Eyrarbakka 1946 eftir Vigfús Guðmundsson.
 Austantórur 1946- 1950 eru 6 hefti eftir Jón Pálsson.
 Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka 1958 eftir Guðna Jónsson.
 Saga Barnaskólans á Eyrarbakka 1952 eftir Árelíus Níelsson.
 Járnblómið skáldsaga eftir Guðmund Daníelsson.
 Margur í sandinn markaði spor 1998 eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur, ljósmynda og fræðirit.
 Eyrarbakkahreppur Örnefni 2008 samantekt eftir Ingu Láru Baldvinsdóttur og Magnús Karel Hannesson, fræðirit.
 Saga bátanna 2013 eftir Vigfús Markússon, fræðirit
 Húsið á Eyrarbakka 2014 eftir Lýð Pálsson, fræðirit.
 Anna á Eyrarbakka 2015 eftir Elísabetu Jökulsdóttur, skáldsaga.
 Ljósmóðirin 2015 eftir Eyrúnu Ingadóttir, söguleg skáldsaga.
 Læknishúsið 2018 eftir Bjarna Bjarnason, skáldsaga.
 Eitrað barnið eftir Guðmund Bryjólfsson, skáldsaga.
 Lúðvík Norðdal Davíðsson 2020 eftir Lýð Pálsson, fræðirit.

02.05.2021 23:19

Skipskaðar við ströndina á skútuöld


Þekktir skipskaðar á Eyrarbakka og nágrenni 1879 - 1902

1879 þann 3. maí slitnaði seglskipið Elba frá Fredericia í Danmörku 108,48 tn upp í höfninni á Eyrarbakka þegar skipsfestar slitnuðu vegna veðurs, hafróts og strauma frá Ölfusá. Skipshöfnin fór sjálf í land á fjöru. Veður var á suðvestan.

1882 þann 16. apríl kl.7 árd. Strandaði seglfiskiskipið Dunker-que frá Dunkerque í Frakklandi 133,33 tn á skerjunum fyrir framan Eyrarbakka vegna aðgæsluleysis. Skipshöfninni var bjargað á bátum úr landi. Veður var á norðaustan.

1883 þann 18. júlí strandaði seglskipið Sylphiden frá Reykjavík við innsiglinguna á Eyrarbakka vegna óvenju mikils straums sem bar skipið af leið og hafnaði á skeri. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var með  suðvestanátt.

1883 þann 12. september sleit seglskipið Active frá Stavanger í  Noregi 118, 68 tn skipsfestar í höfninni á Eyrarbakka í suðaustan roki og brimi og rak á land og brotnaði á klöppunum. Skipshöfnin var í landi. Veður gekk á með stormi og hafróti, skipið var þó rígbundið. Þessi skipalega var heldur austar en hinar og var lögð niður í kjölfarið.

1883 þann  12. september kl. 4 árd. rak seglskipið Anna Louise 109, 93 tn frá Fanö fyrir akkerum upp í þorlákshöfn. Skipið kom til Eyrarbakka  frá Liverpool. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var á suðaustan.

1892 þann 24. júní ml. 3 árd. fórst seglskipið Johanne frá Mandal í Noregi 63,50 tn á leið frá Eyrarbakka til Vestmannaeyja. Skipið lét ekki að stjórn í vendingu og rak á land í sunnanátt og hafnaði á skeri framundan Rauðárhólum í Stokkseyrarhverfi. Skipshöfnin var flutt í land á bátum úr landi.

1895 þann 27. apríl kl.6 árd. strandaði seglskipið Kamp frá Mandal í Noregi í Stokkseyrarhöfn þegar bólfesting slitnaði þegar verið var að leggja skipinu og rak skipið á skerin. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var með suðvestanátt.

1895 þann 3. maí snemma morguns rak seglskipið Kepler frá Helsingborg 81,51tn á akkerum upp í þorlákshöfn. Skipið var að koma frá Kaupmannahöfn. Skipshöfnin var bjargað á bátum úr landi. Veður var á suðaustan.

1896 þann 16.ágúst strandaði seglskipið Allina frá Mandal í Noregi þegar hafnfestur slitnuðu þar sem skipið lá í Stokkseyrarhöfn og rak skipið á skerin. Skipshöfnin bjargaðist á skipsbátnum. Veður var á suðaustan.

1896 þann 23. október kl. 10 árd. var seglskipinu Andreas 172,76 tn frá Mandal í Noregi siglt upp í fjöru faramundan Strandakirkju í Selvogi vegna leka á leiðinni til Reykjavíkur. Skipshöfninni  var bjargað á bátum úr landi. Veður að norðan.

1898 þann 15. apríl kl. 9 árd. Seglfiskiskipinu Isabella frá Dunkerque Frakklandi 122,33 tn var siglt á land við Stokkseyri vegna leka eftir að skipið hafði rekist á skipsflak við Vestmannaeyjar. Skipshöfninni var bjargað á bátum úr landi. Vindur var af norðvestan.

1900 þann 11. apríl kl. 4 síðdegis strandaði seglskipið Kamp 80,68 tn frá Mandal í Noregi á Þykkvabæjarfjöru á leið frá Leith til Stokkseyri. Veður var  suðvestanátt.

1902 þann 24. mars kl.2:30 árd. strandaði seglfiskiskipið Skrúður 84 tn frá Dýrafirði á skeri undan bænum Vogsósum. Skipshöfnin gekk á land með fjöru. Veður með norðan stórhríð.
---
Heimild: Landhagskýrslur 1905

02.05.2021 23:07

Bankamálið


Árið 1914 sendu þrír frammámenn verslananna á Eyrarbakka erindi til sýslumaður Árnessýslu um að hún reyndi að fremsta megni að stuðla að því að annar hvor bankinn, sem þá voru Landsbankinn og Íslandsbanki, settu upp útibú í sýslunni. Sýslunefndin skoraði þá á landsstjórnina að beita sér fyrir stofnun útibús sem styddi verslun og atvinnuvegi á suðurlandi. Landsstjórnin tók þessu erindi fálega og vísaði þessum hugmyndum frá 1915. Að vísu var á Eyrarbakka öflugur sparisjóður sem starfaði með blóma, en útlánaheimildir hans þó mjög takmarkaðar.

Menn lögðu þó ekki árar í bát, því bankamálið er flutt fyrir alþingi 1917 þannig að heimilt sé að stofna bankaútibú í Árnessýslu. Það datt því engum annað í hug en að bankaútibú yrði stofnað á Eyrarbakka sem þá var fjölmennasta byggðarlagið á suðurlandi og húsakostur betri en annarstaðar þekktist austan fjalls.

Á Selfossi var aðeins eitt hús og örfá kot. Tryggvaskáli sem Tryggvi Gunnarsson lét byggja sem vinnuskála og smiðju fyrir brúarsmiði sína árið 1890. Skálinn var úr timbri og lítt við haldið en þó sæmilega byggt, en þar ákvað Landsbankinn að setja niður útibú sitt þann 4 október  1918 mörgum til mikillar furðu.

Eina skýringin á þessari ákvörðun bankanns getur aðeins verið sú að þeir hafi ekki haft áhuga á versluninni eða útgerðinni við ströndina því sparisjóðurinn gat séð um þá, heldur hinni fjölmennu bændastétt í fjósömustu sveitum landsins.  Þarna var brúinn sem tengdi saman Ölfusið, Flóann, uppsveitirnar, Skeiðin og hreppanna. Þá var tekið að hilla undir vélvæðingu landbúnaðarinns, en það sama ár kom fyrsta dráttarvélin til landsins af gerðinni Avery. Sunnlenskir bændur voru hinsvegar íhaldssamir og lítt ginkeyptir fyrir nýjungum þó þeir eigi í dag heimsmet í traktorum  á hvern hektara. Sennilega hafa fyrstu traktorar sunnlendinga komið í sveitirnar einhverntíman eftir 1930.

Starfsfsmönnum útibúsins  þeim Eiríki Einarssyni útibústjóra, Guðmundi Guðmundssyni féhirði og Guðmundi Helgasyni bókara var komið fyrir í Tryggvaskála sem annars var lítt heppilegur fyrir bankastafsemi, enda átti áinn það til að flæða inn á gólf.

Fyrstu árin var afgreiðslutími stopull viðskiptin sára lítil og innlán óveruleg. Þrátt fyrir það var bankinn þegar farinn að huga að nýju húsnæði. Var það úr að flytja vandað norskt timburhús sem Landsbankinn átti vestur í Búðardal hingað austur þó slík framkvæmd svaraði engan veginn kostnaði. Húsið var tekið niður og flutt sjóleiðina til Eyrarbakka og síðan sleðaflutt á ís upp á Selfoss þar sem það var reist á ný og tekið í notkun seint á árinu 1919.  Framundan voru erfið ár, gjaldeyriskreppur og bankakreppan 1930 sem Landsbankinn tórði en Íslansbanki féll.
Nýtt húsnæði var byggt fyrir útibúið, vandað og veglegt steinhús sem tekið var í notkun 1953 og hefur sett svip sinn á bæinn síðan. Hagur útibúsins vænkaðist til muna enda byggðarlagið í örum vexti er hér er komið sögu. Árið 1967 námu innlán 246 milljónum en fyrsta starfsárið aðeins 50 þúsundum.

Seint og um síðir setti Landsbankinn upp útibú á Eyrarbakka og Stokkseyri. Það mun hafa verið árið 1970, fyrst í aðstöðu frystihúsins á Eyrarbakka,  síðan í kaupfélagshúsinu og að síðustu með afgreiðslu á hreppskrifstofunni. Tímarnir breytast og þörfin fyrir útibú minnkaði óðum. Afgreiðslunum á Eyrarbakka og Stokkseyri var lokað 2012 og mörg minni sveitarfélög máttu upplifa það sama eftir bankahrunið 2008. Á tímum snjallvæðingar er öll bankaþjónusta komin í snjalltækin og útibú því orðin úrelt.

Bankarnir munu því hverfa sjónum manna í hinum stærri bæjum líka og ráp og biðröð í bankann heyrir sögunni til. Snjalltækin hafa leyst þetta fyrirbæri af hólmi. Þann 27. nóvember 2020 var hið veglega Lansbankahús á Selfossi selt Sigtún þróunarfélagi sem m.a. stendur að uppbyggingu miðbæjar á Selfossi í anda horfinna íslenskra húsagerðar.

01.05.2021 22:08

Plastiðjan


Plastiðjan hf. hóf starfsemi árið 1957 í miðri atvinnukreppu sem þá var á Bakkanum. Hreppurinn átti húsnæði sem áður hýsti verslun Guðmundu Nielsen og leigði það fyrirtækinu fyrst um sinn, eða þar til fyrirtækið gat eignast það sjálft. Hjá því störfuðu á milli 20 og 30 manns þegar mest var. Þar var framleitt aðalega einangrunarplast, báruplast, umbúðuðir, plaströr og röraeinangrun. Fyrirtækið var selt um 1980 og fluttist þá hluti framleiðslunnar á Selfoss. 

30.04.2021 23:23

Sjóminjasafnið og Farsæll

Það mun hafa verið árið 1962 þegar Sigurður Guðjónsson á Litlu-Háeyri byrjaði að sinna safnamálum á Eyrarbakka við litla hrifningu hreppsnefndarmanna. Hóf hann því þetta þrekvirki upp á eigin spýtur. Hann byrjaði á að grafa skipshræ nokkurt upp úr sandinum við Háeyrarvör, það eina sem eftir var sinna tegundar og hét Farsæll og Páll Grímsson þá nýfluttur vestur í Nesi í Selvogi átti og gerði út frá Þorlákshöfn. Þetta er mikið skip, svokallur teinæringur sem Steinn Guðmundsson í Steinsbæ skipasmiður á Eyrarbakka hafði smíðað árið 1915.

Hið næsta verkefni Sigurðar var að byggja skýli yfir skipið það sama ár og á eigin kostnað, því hvorki hreppurinn né aðrir vildu gefa þessu gaum eða styrkja á nokkurn hátt. Skýlið mun hafa staðið á þeim slóðum sem þvottaplan 'sjoppunnar' stendur í dag og fékkst reist fyrir velvilja lóðarhafa. Þessi skúr stóð þar til Sjóminjasafnið var reist. Sigurður reif síðan skúrinn og stóð skipið þar úti í eitt ár, þar til unt var að koma því fyrir í nýja húsinu.

Nýja húsið reisti Sigurður á tímabilinu 1969 til 1979 einnig upp á eginn reikning, því enginn hreppsmaður eða opinber aðili vildi leggja nafn sitt við varðveistlu á gömlu og úreltu skipsflaki.
Húsið er háreist svo skipið geti notið sín undir fullum seglum.

Það var ýmislegt annað tengt sjósókn og lífinu í þorpinu sem Sigurður dró í skjól og varðveitti.

Farsæll er tólfróið skip, en hér um slóðir þurftu sjómenn að reiða sig meira á árarnar fremur en seglin, því hér er stöðugt vesturfall sem erfitt var viðureignar og máttu menn stundum þakka fyrir að geta haldið í horfinu.

Árið 1923 seldi Páll skipið Kristni Jónssyni, síðar byggingameistara á Selfossi. Hann gerði það út nokkur ár, en þá tók við Halldór Magnússon frá Hrauni í Ölfusi í tvö ár. Þá tók við skipinu Jón Jakobsson frá Einarshöfn. Þá kemur skipið austur á Eyrarbakka og notað sem "farþegaskip". En það var kallað svo á Bakkanum þegar hóað var í mannskap til að taka einn og einn róður þegar vel gaf á sjó og aflavon var.

Mótor var settur í skipið til að gera það nýtískulegra þegar ekki fengust lengur menn undir árar, en það dugði skamt og var skipinu lagt upp í Háeyrarvör skamt vestan við Sunnuhvol og grófst þar í sandinn og skældist undan farginu.
Skipið var nokkuð illa farið og mjög fúið í umgjörð og efstu borðum. Áður hafði Fiskifélagið látið gera nokkuð við skipið því þeir voru með áform um að varðveita það, en þau áform runnu út í sandinn bókstaflega.

Jóhannes Sigurjónsson skipasmiður á Gamla-Hrauni gerði síðan við skipið að fullu og lauk því tæpu ári fyrir andlát sitt.

Skip af þessu tægi voru mæld með hnefamáli, t.d var einn hnefi frá þóftu undir hástokkinn. Farsæll var smíðaður úr furu og voru 14 menn í áhöfn.

Í dag er sjóminjasafnið mikil þorpsprýði og hið eistaka djásn kúrir þar til sýnis forvitnum ferðalöngum.

Páll Grímsson var frá Óseyrarnes, en þegar hann var formaður á Stokkseyri var ort um hann þessi vísa:
Bjarni slynga happa-hönd, 
hefir á þingum vanda, 
djarfur þvingar ára-önd 
út á hringinn-landa. 

Frækinn drengur fram um ver, 
fiskað lengi getur. 
Stýrir "Feng" og eitthvað er 
ef öðrum gengur betur.

26.04.2021 22:43

Byggðamerkið

Árið 1983 auglýsti Eyrarbakkahreppur meðal íbúa eftir hugmyndum að merki fyrir byggðarlagið. Nokkrar tillögur bárust og var ákveðið að taka upp byggðamerki sem byggt var á hugmyndum Rutar Magnúsdóttur á Sólvangi og Eiríks Guðmundssonar í Hátúni. Merkið er í bláum lit og sýnir sundmerkin gömlu á stílfærðri mynd á sjógarðinum sem á í dag 222 ára gamalt upphaf.
Nýtt byggðarmerki sveitarfélagsins Árborgar var tekið í notkun 12. nóvember 2000. Sérstök nefnd valdi merkið úr 48 tillögum sem bárust í opinni samkeppni um nýtt byggðarmerki. 
Þó byggðamerki Eyrarbakka sé ekki lengur opinbert sveitarfélagsmerki er það enn við lýði sem félagslegt tákn þorpsbúa og óspart flaggað á tillidögum.

20.04.2021 22:05

Iðnaðarmannafélagið


Iðnaðarmannafélag Árnessýslu var stofnað á Eyrarbakka 1943 og í framhaldi af því var stofnaður Iðnskóli sem starfaði í 10 ár eða þar til skólinn var fluttur á Selfoss. Þetta var fyrsti dagskólinn á landinu, en annars voru iðnskólar almennt kvöldskólar. Hver önnur stóð í tvo mánuði.
Eiríkur Gíslason trésmiður var fyrsti formaður og upphafsmaður að félaginu. Árið 1959 var stofnað félag byggingamanna í Árnessýslu FBÁ á Selfossi og tók það við hlutverki Iðnaðarmannafélagsins. FBÁ sameinaðist síðar félagi iðn og tæknigreina FIT.

Heimild: Vigfús Jónsson/Sveitastjórnarmál 1985. /FIT.is

04.04.2021 22:23

Rafstöðin 1920

Árið 1905 voru hugmyndir um að virkja Hólavatn á Stokkseyri fyrir bæði þorpinn til að framleiða rafmagn til ljósa, en ekkert varð af framkvæmdum þótt físilegar þættu.

Árið 1920 var keypt díselrafstöð fyrir Eyrarbakkahrepp sem hreppurinn rak þar til Útvegsbankinn tók reksturinn yfir. Kristinn Jónasar í Garðbæ sá síðan um rekstur stöðvarinnar lengst af. Þegar Sogsvirkjun hafði tekið til starfa og lína lögð niður á strönd var rekstri stöðvarinnar sjálfhætt.

Áður voru tvær litlar díselrafstöðvar í notkun á Bakkanum og var önnur í Fjölni, en þar rak Haraldur Blöndal samkomu og kvikmyndahús.

28.03.2021 22:13

Útgerðarfélagið Árborg hf.


Bjarni Herjólfsson ÁR 200. Mynd af internetinu Vigfús Markússon.


Eyrarbakkahreppur ásamt Selfoss og Stokkseyrarhreppi stofnuðu útgerðarfélagið Árborg hf. árið 1975 ásamt nokkrum einstaklingum af svæðinu. Félagið var stofnað um kaup og útgerð á togaranum Bjarna Herjólfssyni (Eftir farmanninum Bjarna sem fyrstur evrópubúa sigldi upp að ströndum Ameríku) Hraðfrystihúss Eyrarbakka og Stokkseyrar urðu síðan aðaleigendur útgerðarinnar. Útgerðarfélagið náði sér aldrei á flug og var togaranum lagt haustið 1984 og síðan seldur.
Aðal hvatamaður að stofnun útgerðafélagsins var Ásgrímur Pálsson framkvæmdastjóri hraðfrystistöðvarinnar á Stokkseyri og kom togarinn heim frá Póllandi 9. mars 1977 til Þorlákshafnar sem var hans heimahöfn þessi árin.

Bjarni Herjólfsson ÁR 200 var 500 tonna skuttogari og gekk um 15 mílur á klst. Skipstjóri var ráðinn Axel Schöith.
Útgerðin gekk brösulega alla tíð og var togarinn seldur til Akureyrar eins og áður sagði og fékk þá nafnið Hrímbakur EA. Síðar hét skipið Klakkur SK og síðast Klakkur ÍS.

https://www.mbl.is/200milur/skipaskra/skip/1472/ 
Flettingar í dag: 600
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229873
Samtals gestir: 29884
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 05:13:40