Flokkur: Veðurklúbbur

24.08.2008 11:30

Jasmín sendir okkur súldina.

Það er löng hefð hjá þjóðverjum að gefa hæðum og lægðum nöfn. Síðan 1954 hefur veðurstofa Free University of Berlin gefið þessum veðurfyrirbærum viðeigandi heiti. Sérhver hæð og lægð í miðevrópu hefur þannig fengið ýmist kvenmanns eða karlmanns nafn sem sjá má í mörgum veðurspám sem birtast í blöðum eða útvarpi og sjónvarpsstöðvum og nú einnig á netinu.

Þetta er þó ekki gert til skemmtunnar heldur er um ákveðna ástæðu að ræða. Með því að gefa loftþrýstisvæðunum nöfn er betur unnt fyrir almenning t.d. sjófarendur og flugmenn að fylgjast með stöðu og breytingum á viðkomandi loftþrýstisvæði.

Annað hvert ár skipta nöfnin um kyn. Árið 2008 fá háþrýstisvæðin karlmannsnöfn og láþrýstisvæðin kvenmannsnöfn. Árið 2009 fá svo hæðirnar kvenmannsnöfn og lægðirnar karlmannsnöfn.

Ekki veit ég hvort Veðurstofa Íslands hafi hugleitt að taka upp þetta nafnakerfi en óneitanlega yrðu veðurfréttirnar mun skemmtilegri ef svo bæri við. Þetta árið gætum við til dæmis notað nöfn strákanna í íslenska handboltalandsliðinu og stúlknanna í fótboltanum.

Annars má til gamans geta þess að lægðin sem nú dormar suður af landinu og sendir til okkar súld og rigningu heitir upp á þýsku Jasmín.

02.06.2008 23:58

Enn bifast jörð.

Skrifstofa
Eftirskjálftar eftir þann stóra á fimtudag eru nú að nálgast 1.300 á sólarhring en allflestir það smáir að þeir finnast ekki. Í kvöld kom þó snarpur kippur sem fannst vel hér á Bakkanum og finnst mörgum komið æði nóg af þessum hristingi. Íbúar Árborgar, Hveragerðis og Ölfus hafa upplifað gríðarlegar náttúruhamfarir en þó tekið öllu með stakri ró eins og Íslendingum er tamt í endalausri baráttu sinni við hina óblíðu náttúru og það má segja þessari þjóð til hróss að íslensk húsagerð hefur þolað þessa raun með stakri príði. Helst eru það holsteinshús sem byggð voru um og eftir miðja síðustu öld sem hafa farið á límingunum.

Á Bakkanum eru amk. tvö hús ónýt eftir hin tröllslegu átök náttúrunnar og annað nokkuð laskað. Jarðskjálftinn sem þessu olli átti uptök sín í sprungu sem liggur rétt austan Ölfusárósa og upp að Hveragerði. Það má sjá hér á myndinni fyrir ofan af Bragganum hversu gríðarleg átökin hafa orðið, en austurstafninn hefur hreinlega kubbast í sundur.

Vísindamenn telja skjáftann núna vera framhald Suðurlandsskjálftanna árið 2000. Einig hefur komið í ljós að gufuþrýstingur í borholum á Hellisheiði snar jókst skömmu fyrir stóra jarðskjálftann sem gæti bent til ákveðinna tengsla þar á milli.

Í Suðurlandsskjálftunum1784 féllu bæjarhúsin á Drepstokki við Óseyrarnes og því ekki ólíklegt að þessi Óseyrarsprunga hafi verið að verki þá. Í jarðskjálftunum 1889 og Suðurlandsskjálftum 1896 er ekki getið tjóns á Eyrarbakka. Í Suðurlandskjálftum.6- 10 maí 1912 kom hinsvegar sprunga í húsið Skjaldbreið sem þá var nýlega steypt og má sjá þá sprungu enn í dag. Í jarðskjálftunum árið 2000 varð hinsvegar ekkert tjón á þessu svæði enda voru upptökin þá austar í Flóanum

Myndir.

29.05.2008 21:14

Suðurlandsskjálftar.


Stór jarðskjálfti
6,2 stig reið yfir kl.15:45 í dag. Fjöldi eftirskjálfta fylgdu í kjölfarið, smáir sem stórir. Mikið tjón varð á húsmunum flestra heimila á Árborgarsvæðinu og Ölfusi. Skemdir urðu á Óseyrarbrú og á veginum milli Eyrarbakka og Ölfusárósa. Á Bakkanum hrundu húsmunir og annað lauslegt niður á gólf í mörgum húsum. Garðhleðsla hrundi við eitt hús og einhverjar skemdir urðu á "Bragganum" svo dæmi sé nefnt. Fólki er talsvert brugðið og hyggjast einhverjir ætla að sofa í tjöldum eða fellihýsum í nótt.
Hér eru nokkrar nyndir af atburðum dagsins.

06.05.2008 22:02

Jarðskjálftinn 1912

Þann 6. maí 1912 reið yfir allstór jarðskjálfti og varð hans vart um allt land. Skjálftinn átti upptök sín Í Landsveit við Heklu. Á Rángárvöllum hrundu 10. bæir: Svínhagi, Næfurholt, Haukadalur, Selsund, Kot, Hornlaugarstaðir, Rauðustaðir, Eiði, Bolholt og Dagverðarnes. Á Landi hrundu bæirnir: Galtalækur, Vatnagarður og Leirubakki. Á mörgum húsum urðu verulegar skemdir svo sem bærinn Völlur í Hvolhreppi, Tungu og Litla- Kollabæ í Fljótahlíð. Á Reyðarvatni féllu 8 útihús, en á Reynifelli og Minna- Hofi féllu einnig mörg hús. Merkurbæirnir og Eyvindarholt voru austustu hrunbæirnir. Stærð skjálftans mældist 7,0 á Richter kvarða. Sprungur eftir skjálftann 1912 má m.a. sjá í landi Selsunds suðvestur af Heklu þar þornaði tjörn og bæjarlækurinn hvarf. Skjálftarnir stóðu yfir í nokkra daga. Jarðskjálftamælir var settur upp í Reykjavík árið 1909.


Heimild: Ingólfur, Ísafold, Vísir,1912

23.04.2008 09:18

Síðasti vetrardagur.

Gróðurinn er að vakna til lífsins og grasið grænkar. Á morgun er sumardagurinn fyrsti og er nú að vita hvort sumar og vetur frjósi saman, því samkvæmt þjóðtrúnni veit það á gott sumar ef það gerist. Veðurspár eru þó ekki bjartsýnar um að það gerist hér á suðurlands undirlendinu. Um miðnætti er spáð 6 stiga hita og skúrum á Bakkanum.

13.04.2008 16:11

Hrafnahret.

Allt komið á kaf í snjó á Bakkanum, en vonandi að þetta sé síðasta hretið og þessi skelfilegur vetur senn að baki. Einhver spáði því að vorið kæmi á þriðjudaginn og víst er að öllum er farið að hlakka til að taka á móti því.

Áður fyrr var almennt álitið, að hrakviðri fylgdi oft sumarmálum. Það var oft nefnt sumarmálahret, eða hrafnahret Var því trúað, að tíð myndi batna, er slíkt hret var um garð gengið. Sagt er að hrafninn verpi 9 nóttum fyrir sumar og verði þá oft hret um þetta leiti og því nefnt Hrafnahret.

01.04.2008 13:25

Kaldur marsmánuður að baki, en lóan er komin.


Marsmánuður var kaldur venju fremur og úrkoma oft í hvítu formi. Norðaustanáttir viðvarandi flesta daga. Nú er hádegissólin tekin að verma og nær að bræða vakir á ísinn á Hópinu eins og sést hér á myndinni.

Lóan er komin:
Fulgalífið hefur tekið kipp að undanförnu eins og fuglatalningin hér gefur til kynna.

Tjöldum tjölgar og fyrsta heiðlóa ársins í fjörunni.

28.02.2008 09:28

Snjókoma

það eru eflaust margir orðnir langþreyttir á þessum snjóa og frostavetri. Áfram er spáð köldu veðri fram í næstu viku að minsta kosti.
Það byrjaði að snjóa seint í gærkvöldi og enn snjóar á köflum. Í morgun var komin 15 cm jafnfallinn snjór á Bakkanum.

Brim hefur verið með mesta móti í allan vetur og vestlægar áttir óvenju algengar.

25.02.2008 09:59

Köld nótt.

Nóttin var köld á Bakkanum enda var frostið á bilinu -14 til -15°C um miðnættið. Áfram er spáð köldu veðri svo betra er að búa sig vel.

Í miklu frosti getur vindkæling verið afar varasöm og er vert að benda á grein Traust Jónssonar um þetta efni, en hana má finna hér.

Mesta frost sem mælst hefur áður á stöð 923 var árið 1957  25 febrúar -12,3 en á miðnætti mældist -13°C á sömu stöð svo hér teljum við þetta nýtt dagsmet.

24.02.2008 09:29

Mesta frost á Landinu

Kl.09 í morgun mældu veðurathugunarstöðvarnar á Eyrarbakka mesta frost á landinu. Þannig sýndi  sjálvirka stöðin -12,1 °C meðaltalsfrost á klukkustund og athugunarstöðin sýndi litlu minna eða -12°C.
Lágmarkshiti á sjálvirku stöðinni milli kl. 08-09 sýndi -13,3°C sem er yfir dagsmetinu frá 1989 fyrir 24.febrúar en þá mældist -13,2°C (tímabilið 1958 til 2007)

Á stæðan fyrir því að nú er kaldast hér við sjóinn er sú að í norðan hægviðri sígur kaldaloftið ofan af fjöllunum vegna eðlisþyngdar sinnar og sest að þar sem lægst er við sjávarsíðuna.

19.02.2008 09:13

Vöxtur í Hópinu.

Að undanförnu hefur verið súld, þokuloft og rigning og  langt er síðan að sést hefur til sólar. Tjarnir hafa vaxið stórum síðustu daga svo sem Hópið eins og sést á myndinni hér að ofan. Í þurkunum síðasta sumar var Hópið skraufaþurt. Í bakgrunni standa Steinskotsbæirnir. Einhvern tíman í fyrndinni var þessi tjörn sjávarlón, en smám saman hlóð hafið upp malarkambi sem lokaði lónið af og heitir þar nú Háeyrarvellir.

17.02.2008 10:26

Súld og suddi

Suðlægar áttir með súld og rigningu hafa verið ríkjandi undanfarna daga með hita á bilinu 5-7 stig. Úrkoma síðasta sólarhrings var 17 mm og daginn þar áður 14 mm og þar sem klaki er ekki farinn úr jörð þá eru tún víða umflotin vatni.

Áfram er spáð sulægum áttum með súld og skýjuðu veðri. Á þriðjudag er spáð kólnandi veðri með éljalofti.

09.02.2008 14:40

Skafrenningur.

Óveðrið er nú gengið hjá og var eitt það versta sem gert hefur í vetur. Lægðin sem olli þessu veðri var einhver sú dýpsta sem komið hefur yfir landið a.m.k. á seinni árum, eða 932 mb. Ekki er vitað um neitt tjón af völdum veðursins hér um slóðir þó eflaust hafi hrikt duglega í húsum þegar verst lét. Talsverðar eldglæringar fylgdu þessu veðri og mikið úrhelli á köflum. Það er víst að menn séu að verða ýmsu vanir hér sunnanlands, eftir þennan vetur.

Gríðarlegt brim er á Bakkanum í dag og er það eitthvert það allramesta sem sést hefur í vetur.

08.02.2008 22:08

STORMUR

 stormur SA 25 m/s með "eldglæringum".
Mesta hviða 34 m/s
Veðurhæð á nokkrum stöðum:
Straumsvík við Hafnarfjörð 22 m/s
Reykjavík 24 m/s
Keflavíkurflugvöllur 28 m/s
Skálafell 53 m/s
Botnsheiði 38 m/s
Stórhöfði 40 m/s
Kálfhóll 31 m/s
Þingvellir 22 m/s

06.02.2008 12:30

Hvítur Öskudagur.

Snjór hefur nú verið lengur yfir en mörg undanfarin ár á Bakkanum og frost hefur verið alla daga það sem af er vikunni og mánuðinum og jafnvel að miklu leyti það sem af er árinu og virðist veturinn ætla að verða æði langur og strangur.

Ekki er spáin björt fyrir morgundaginn því kröpp hraðfara lægð fer norður með austurströndinni í nótt og fer suðvestan stormur eftir henni yfir landið seint í nótt og á morgun segir veðurstofan og  það þýðir líklega hellirigningu fyrir okkur, en þó líkur á að hláni og kólni á víxl, eða semsagt umhleypingar fram í næstu viku.

Í dag er Öskudagur, en við hann er kennt sjávarflóð eitt þ.e. Öskudagsflóðið árið 1779, en þá tók af bæinn Salthól í Hraunshverfi skamt vestan við Gamlahraun.

Flettingar í dag: 678
Gestir í dag: 187
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260968
Samtals gestir: 33814
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 20:18:00