Flokkur: Veðurklúbbur
22.07.2009 14:34
Ótíðindi
Framundan er sólarlítil helgi hjá okkur. Hitinn verður slakur í norðanáttinni á fimmtudag og föstudag en við gætum verið að tala um eins stafs tölu í því samhengi. Þá mun eitthvað skvettast úr honum , einkum á sunnudagsmorgun. Þeir sem hyggja á ferðalög til fjalla þurfa vetrarútbúnað, því gert er ráð fyrir snjókomu á hálendinu norðanverðu.
16.07.2009 08:57
Milt sumar
Fram til þessa hefur sumarið á Bakkanum verið með ágætum, fremur þurt og nokkuð sólríkt og hægviðrasamt, en engin hitamet sleginn. Í gær var mestur hiti um 18°C, en 20°C í dag. Mesti hiti sem mælst hefur á Eyrarbakka var 29.9°C þann 30.júlí árið 1924. Á sjálfvirku stöðinni sem sett var upp 2005 mældist mesti hiti 28.4°C sama mánaðardag (30.júlí) í fyrrasumar.
Á vef veðurstofunnar má nálgast hitametstölur alstaðar af landinu http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/1615
31.05.2009 22:14
Suðurlandsskjálftar fyrri tíma
Nú þegar jörðin skelfur undir Grindavík réttu ári frá Suðurlandsskjálftunum miklu, er tilvalið að rifja upp Sunnlenska skjálftasögu. Hér koma nokkur brot úr sögu landskjálfta á Suðurlandi:
1013. Landskjálftar miklir og létust 11 menn. 1164. Landskjálfti í Grímsnesi og létust 19 menn . 1182. Landskjálfti og dóu 11 menn . 1308. Landskjálfti mikill fyrir sunnan land og víða rifnaði jörð og féllu niður 18 bæir, en 6 menn dóu 1339. Landskjálfti svo mikill fyrir sunnan land að fénaði kastaði til jarðar svo að ónýttist. Hús féllu um Skeið og Flóa og Holtamannahrepp og víðast hið neðra milli Þjórsár og Eystri-Rangár. Fjöldi bæja féll til jarðar eða hús tók úr stað. Létust nokkur börn og gamalmenni. 1370. Landskjálfti svo mikili um Ölfus, að ofan féllu 12 bæir, en 6 menn fengu bana. 1391. Lajdskjálftar um Grímsnes, Flóa og Ölfus. Nokkrir bæir féllu alveg, en aðra skók niður að nokkru, rifnaði víða jörð. Létust nokkrir menn . 1546. Landskjálfti um fardaga, mestur í Ölfusi. Hús hrundu víða. Allt Hjallahverfi hrapaði. 1581. Mikill jarðskjálfti. Hröpuðu víða bæir á Rangárvöllum og 6 í Hvolhrepp og mannskaði varð þá víða. 1630. Jarðskjálftar þrír um veturinn. Hrundu margir bæir í Árnessýslu, fórust þar menn nokkrir og fénaður. Gerði og mikið tjón í Rangárvallasýslu. Urðu 6 menn undir húsum fyrir austan Þjórsá. 1671. Mikill landskjálfti í Grímsnesi og Ölfusi, hröpuðu hús víða. 1706. Miklir jarðskjálftar, hrundu 24 lögbýli u m Ölfus og utarlega í Flóa og margar hjáleigur. Hrundi staðurinn í Arnarbæli og 11 hjáleigur þar umhverfis. Viðir í húsum mölbrotnuðu og húsin veltust um, svo undirstöður veggjanna urðu efstar. Sumstaðar snerust hey um í heygörðum svo botninn stóð upp, en torfið niður. 1732. Landskjálfti svo mikill á Rangárvöllum. að spilltust nær 40 bæir þar og í Eystrihrepp, en 11 bæir hrundu í grunn . 1734. Afar harður landskjálfti í Árnessýslu. Hrundu þar 30 bæir, en 60-70 býli spilltust. 7 menn eða 8 dóu undir húsbrotunum og margt af nautpeningi. 1784. Í ágúst gengu um Suðurland einhverjir hinir mestu landskjálftar, sem komið hafa á Íslandi. Voru þeir harðastir í Árnessýslu, en einnig mjög skæðir í Rangárvallasýslu. Þeirra gætti og mjög við Faxaflóa. Margir urðu undir húsum í Árnessýslu og varð að grafa þá upp úr rústunum . Hlutu ýmsír meiðsl, en aðeins þrír týndu lífi, tveir í Árnessýslu og einn í Rangárvallasýslu. Í Árnessýslu féllu 69 bæir til grunna, 64 gjörspilltust, og alls urðu 372 bæir fyrir stórskaða. 1459 hús féllu algerlega. Í landskjálftum þessum féllu eða skemmdust öll hús í Skálholti, önnur en kirkjan. 1838. Jarðskjálftar í Árnessýslu, urðu harðastir á Eyrarbakka . Nokkrir menn meiddust. 1896. Miklir jarðskjálftar á Suðurlandi, urðu stórkostlegar skemmdir í Árness og Rangárvallasýslum. Fjöldi fólks meiddist og 2 hlutu bana. Samkvæmtskýrslum presta gjörféllu í Rangárvallasýslu 603 bæjarhús, 1507 skemmdust mikið, 1038 skemmd ust lítið, en aðeins 170 voru óskemmd með öllu. í Árnessýslu gjörféllu 706 bæjarhús, 1260 urðu fyrir miklumskemmdum , 1849 skemmdust lítið og 644 ekkert. Fjöldi peningshúsa féll einnig og skemmdist, þó allmiklu færri hlutfallslega en bæjarhús. Ölfusárbrúin varð fyrir miklum skemmdum. Þjórsárbrúin skemmdist einnig, en minna.
1912. Öflugur Jarðskjálfti sem átti upptök sín að rekja til Heklu enda var skjálftinn mestur á svæðinu í kringum eldfjallið og mældist 7.0M. Tjón af völdum skjálftans varð umtalsvert. 30 bæir hrundu frá Þjórsá og að Eyjafjöllum. Fólkið sem missti heimili sín átti erfitt uppdráttar og varð það að búa í útihúsum þar sem bæirnir voru óíbúðarhæfir. Eina mannfallið í skjálftanum varð þegar sperra féll á barn sem sat í örmum móður sinnar og lést það samstundis. Skjálftinn fannst vel á Eyrarbakka, sprunga kom í húsið Skjaldbreið og er hún þar enn. 2000 Tveir öflugir jarðskjálftar. Kom sá fyrri 17. júní og voru upptök hans austarlega í Holtum, en hinn síðari reið yfir 21. júní og átti upptök í Flóa, skammt sunnan Hestfjalls. Skemmdir urðu talsverðar á upptakasvæðum jarðskjálftanna. ,,Sérstaklega má nefna Hellu, en þar varð umtalsvert tjón í fyrri skjálftanum. Þar fyrir utan voru það sveitabæir og sumarhúsabyggðir sem urðu helst fyrir tjóni. 2008. Þann 29. maí kl. 15.46 tók jörð að skjálfa suðvestanlands, skjálftinn fannst reyndar alla leið norður til Akureyrar og vestur á Ísafjörð. Tvöfaldur Suðurlandsskjálfti upp á 6,3 á Richter skók jörðina samtímis og olli miklu tjóni á húseignum í Hveragerði, Ölfusi, Selfossi og Eyrarbakka en litlum sem engum slysum á fólki.
Þess er vert að geta í sambandi við skjálftahrinuna á Reykjanesi þessa dagana að árið 1926 þá um vorið og fram á haustið gekk yfir mikil skjálftahrina. Í oktober þ.á. gekk orðið svo mikið á að slökkva þurfti á Reykjanesvita sökum titrings sem ágerðist svo mjög að vitinn sprakk þvert yfir.
Heimild: Frjáls þjóð 1960, Veðurstofa Íslands, Lifandi Vísindi. islandia.is, Veðráttan.
26.05.2009 23:15
Þrumuveður í Þrengslum
Það gránaði í vesturfjöllin eftir þrumuveðrið sem gekk yfir Hellisheiði í dag og slabb gerði ökumönnum erfitt fyrir á leið sinni yfir heiðina. Þessu veðri olli óstöðugt loft og kuldi í háloftunum ásamt miklu hitauppstreymi sökum sólarhita. Eyrarbakki var með þriðja hæðsta hitastig á landinu í dag 13.5°C sem varla telst mikið á þessum árstíma. Á hálendinu var víða frost og var hámarkið við Brúarjökul -6,8 °C
13.05.2009 22:52
Vindasöm vika
Frá 7.-13.maí hefur vindhraðinn aðeins einu sinni farið undir 5 m/s á stöð 1395, en það var á miðnætti 9-10. maí en þá sneri vindátt úr hvassri norðanátt í hvassa suðaustanátt. Þá hlýnaði jafnframt úr 7° hádegishita í 11° hádegishita. Á þessu tímabili hafa vindhviður farið upp í 22 m/s eða sem jafngildir stormi, en vindur hefur verið að jafnaði 10-15 m/s sem verður að teljast óvenjulegt í svo langan tíma. Vonast menn nú til að sjá fyrir endann á þessari veðráttu, enda biðin orðin löng eftir reglulegu grillveðri, en allt bendir líka til þess að hægt verði að grilla á hverjum palli um komandi helgi.
02.04.2009 23:21
Gáð til veðurs
Þjóðminjasafn Íslands er með í undirbúningi spurningaskrá um alþýðlegar veðurspár og veðurþekkingu. Á 20. öld kunnu margir að gá til veðurs en þessi þekking er nú smám saman að glatast, enda hefur þjóðin haft öfluga veðurstofu svo áratugum skiptir. Þjóðminjasafnið hefur áhuga á komast í samband við fólk, einkum sjómenn sem á einn eða annan hátt býr yfir upplýsingum um alþýðlegar veðurspár.
Veðurklúbbnum Andvara á Eyrarbakka barst spurningalisti sem áhugasamir geta svarað og sent Þjóðminjasafni Íslands. Spurningaskra110_gw.doc
Svörum er hægt að skila Hér
29.01.2009 17:00
Púðursnjór og frostþoka
Það hefur kingt niður snjó síðustu daga og vetrarlegt um að lítast. Fyrir stuttu var vor í lofti en nú hefur vetur konungur vaknað aftur af værum blundi. Í morgun var púðursnjór yfir öllu og frostþoka.
Veðurspáin hljóðar upp á hæga vestlæga eða breytilega átt, skýjað með köflum og stöku él. Norðaustan 3-8 og léttir heldur til á morgun. Frost 0 til 5 stig. Áfram kalt.
Snjór í matinn.
Snjórinn á rafstöðvarhjólinu myndar stjörnu.
Stráin standa stjörf í snjóklæðum gengt briminu á Bakkanum.
27.11.2008 13:18
Norðan bál
Það blæs víðar en í þjóðlífinu. Norðan hvassviðri er nú á Bakkanum 17-23 m/sek. Stormur er í Vestmannaeyjum og undir Eyjafjöllum. Líklega hægari í kvöld og nótt en áfram norðan garri fam yfir helgi segir veðurspáin.
Slæmt ferðaveður er á öllu norðanverðu landinu, ófært og stórhríð. Óveður er á Holtavörðuheiði og Vatnsskarð er ófært. Þæfingur og stórhríð er á Öxnadalsheiði. Víkurskarð og Hólasandur eru ófær, þar er stórhríð. Á sunnanverðum Vestfjörðum er ófært og stórhríð á Klettshálsi. Fjarðarheiðin er ófær og óveður er í Fagradal.
02.10.2008 22:58
Fyrstu snjóar falla.
Kalt er það fannars lín sem færir nú allt á kaf. Það harðnar á dalnum og morgunverkin verða unninn með rúðusköfum og skóflum. Vetur konungur er genginn í garð og víst er að smáfólkið mun fagna komu hans og færa honum heilan her af snjókörlum og snjókerlingum.
Í fyrra féll fyrsti snjórinn á Eyrarbakka þann 28. oktober og árið þar á undan þann 8. nóvember. Veturkoma er því með fyrra fallinu nú, en eftir helgi er spáð rauðum tölum og rignigu þannig að ævintýri snjókarlanna verður ekki langt að sinni.
29.09.2008 11:10
Haust
Það er komið haust, hitastigið lækkar með hverjum deginum. Trén fella laufin hvert af öðru í takt við gengi krónunar íslensku og maríuerlunar á Bakkanum eru nú flognar suður eins og aðrir farfuglar sem dvöldu hér í sumar. Kaupmennirnir í Gónhól taka saman pjökkur sínar eins og kaupmennirnir í Rauðubúðum fyrir nokkrum öldum síðan. Þorpsbúar búa sig undir veturinn og kreppuna miklu. Taka sumarhýruna úr bankanum áður en hún brennur upp í óðaverðbólgunni og hamstra slátur, sulta ber og rabbabara, koma kálinu og kartöflunum og öllu grænmetinu sem þeir keyptu í Gónhól vel fyrir í búrinu. Söl og fjallgrösum troðið í tunnur og móinum staflað í stæður. Það vantar bara fiskinn sem eitt sinn var nóg til af og var alltaf til bjargráða í gengisfellingum og kreppum liðins tíma. Nú fer enginn á sjó því það má engin gera nema hafa verið gefið, keypt eða leigt kvóta og útgerð héðan er nú bara eitt af því sem menn lesa um í gömlum sögum og æfintýrum. Nú þarf bara að þreyja Þorran og Góuna og alla hina mánuðina líka. Annars var þjóðin að eignast fjárfestingabanka í dag og borgaði fyrir með heilum helling af evrum, nema hvað?
26.09.2008 11:03
Rigning,rigning,rigning.
Ekkert lát er á rigningartíðinni og fólk er orðið hundleitt á veðurlaginu þessar vikurnar og víst að tíðarfarið leggst illa í sálina á fólki, svona til viðbótar við óhuggulegt efnahagsástandið. Dumbungur í lofti alla daga svo vart sést sólarglæta svo vikum skipti. þó má búast við smá sólarglætu snemma á laugardagsmorgun segja spárnar en aðeins litla stund því skjótt mun aftur draga fyrir og sama veðurlagið tekur við langt fram í næstu viku. Það sem verra er að með hverjum deginum sígur hitamælirinn nær og nær bláu tölunum þannig að um miðja vikuna gæti farið að grána í fjöllin. Já vetur konungur er að læðast að okkur með sinn hvíta her.
23.09.2008 13:15
Svartur september!
September er búinn að verða ansi blautur, svona rétt eins og í fyrra og lítil von um uppstyttu það sem eftir er mánaðarins. Einhver sagði að rigningin væri góð en víst er nú að þetta er orðið fullmikið af hinu góða. Sunnan rokið að undanförnu hefur auk þess dempt yfir okkur óhemju mikilli sjávarseltu með þeim afleiðingum að haustlitirnir á Bakkanum verða nú svartir þetta árið.
17.09.2008 23:28
Enn blæs stormurinn Ike
Stormurinn Ike ætlar að verða landsmönnum erfiður og margt tjónið vítt og breitt um landið má skrifa á hans blessaða nafn. Einkum eru það trampolín eigendur sem ekki hafa farið varhluta af viðskiptum sínum við storminn Ike og þeir sem enn eiga ófokin trampolín í görðum sínum ættu nú fljótlega að huga að því pakka þeim niður fyrir veturinn, því hver veit nema verri storma beri að garði fyrr en varir og trampolínin verði einhverjum að fjörtjóni.
Ike er þó aldeilis ekki enn búinn að blása úr sér og á Bakkanum er búið að vera bálhvast í kvöld með úrhellis skúrum og stormhviðum frá 21-28 m/s.
10.09.2008 12:43
Rignir fram að jólum?
Það bendir margt til þess að við munum búa við vætutíð næstu vikurnar a.m.k. Veðurstofur gera ráð fyrir suðlægum áttum á næstu misserum og votviðri. Hitafar mun lítið breytast frá því sem nú er og talsvert langt í Frosta gamla. Þessu ástandi valda háþrýstisvæði við Asoreyjar og Skandinavíu en þó telja menn að lægðagangur hér verði ekki eins hressilegur og í fyrrahaust þannig að flesta daga mun verða hægviðrasamt og skiptast á með rigningu skúrum og þokusúld fram í oktober en svo getum við farið að búst við stöku stormviðrum eftir því sem lengra líður að vetri.
Leifarnar af fellibylnum Hönnu eru nú við Bretlandsstrendur og veldur þar hvassviðri og ausandi rigningu. Gert er ráð fyrir að Hanna litla banki svo á dyrnar hjá Hornfyrðingum á föstudag, en þá verður hún máttvana og úr henni allur vindur.
29.08.2008 08:59
Höfuðdagslægðin lætur móðann mása.
Það styrmir yfir suðurlandið því fyrsta haustlægðin ríður nú yfir með roki og rigningu á sjálfan höfuðdaginn. Kl. 08 í morgun var hann skollinn á með 20 m/s eða stormi á Bakkanum. Heldur var hann hvassari á Stórhöfða í nótt en þar var þá komið fárviðri eða 33 m/s sem er allnokkuð svona í lok sumars. Þetta er þó vonandi ekki fyrirboði um það sem koma skal, því þjóðtrúin segir að næstu þrjár vikur muni ríkja sama veður og á sjálfan höfuðdaginn. Veðurstofan spáir hinsvegar mun mildara veðri fram eftir næstu viku og það verður örugglega bara fínt haust á Bakkanum.