Flokkur: Veðurklúbbur

03.04.2023 16:07

Versti vetur í mannaminnum

Ófærð á Eyrarbakka:

 

Nú er liðinn versti vetur í mannaminnum hér um slóðir og frost að fara úr jörðu. Framanaf vetri var tíðin með ágætum, allt þar til 7. desember síðastliðnum að það tók að frysta og nokkuð duglega. Brostin var á kaldasti desember í einhver 100 ár. Var frost oft á bilinu -17 til - 20°C. Fór mest í - 22,8°C. Úrkoma var þó lítil sem engin framanaf en undir 19 dag mánaðarins gerði mikla snjóstorma ófærð og stórskafla svo að ekkert var við ráðið. Þorpið var einangrað um nokkra daga og grafa varð fólk úr sumum húsum. Það þurfti stórvirkar vinnuvélar til að opna götur bæjarins. Ófærð var á þjóðvegum víðast sunnanlands í þessu veðri og aðalleiðir lokaðar. 

Janúar var sá kaldasti á öldinni og nokkuð bætti í snjóinn. Snjór í vetur var þurr púðursnjór og hlóðst mjög á húsþök og harðnaði þar eins og steypa. Mest fór frost í tæpa -21°C. Svo breytti um þann 20 með hlýju lofti að sunnan. Febrúar var umhleypingasamur og úrkoma oft einhver en hvassviðrasamur svo að úr hófi gekk og olli víða vandræðum. Mesta frost var -9°C og mesti hiti 9,6°C. Í mars var tíðarfarið orðið eðlilegt og eins og menn eiga að venjast hér um slóðir. Sólskínsdagar all nokkrir og sólbráð svo snjó tók fljótt upp. Helst urðu tjón á girðingum og trjágróðri í vetrarveðrunum að þessu sinni, en stórfelld tjón engin. Umgangspestir og flensur sóttu mjög fólk heim þennan veturinn og lungnapestir þó sérstaklega. 
 
 

29.04.2021 22:50

Veðurfar í Árborg

Veðurfar í Árborg telst milt m.v. landið í heild en úrkomusamt.  Veðurathuganir hafa lengst af verið stundaðar á Eyrarbakka en fyrir áratug var bætt við sjálfvirkri veðurstöðin sem hefur nú alfarið tekið við hlutverki veðuathugunarmannsinns. Fyrir fáum árum gekkst bæjarfélagið   fyrir veðurstöð á Selfossi og  vegagerðin kom upp stöð við Ingólfsfjall.
Haldbær langtímagögn eru hinsvegar frá veðuathugunarstöðinni á Eyrarbakka.

[ ] Meðal hiti áranna 1931 -1960 var 4,6°C
[ ] Meðal hiti áranna 1975 - 1987 var 4,0 °C
[ ] Meðal hiti ársins 2019 var 5,2°C
[] Júlí er hlýastur en janúar og febrúar kaldastir.
[ ] Meðalúrkoma er um1342 mm á ári.
[ ] Október er úrkomusamastur en maí og júní þurrastir. Úrkomusamara er ofan til á svæðinu en þurrara við ströndina.
[ ] Algengustu vindáttir í þessari röð: NA-SA-SV-N-NV-S-A-V
[ ] Nóvember, desember, janúar og febrúar eru vindasamastir. Maí, júní, júlí og ágúst eru lygnastir.

Nýtt hitamælaskýli og úrkomumælir var settur niður á Eyrarbakka 1961 og var í notkun til 2018. Sama ár var byrjað á veðurathugunum í Hveragerði.

05.10.2012 00:03

Frostaveturinn 1918

Sjaldan hafa eins miklir kuldar hrjáð landsmenn eins og veturinn 1918, nema ef vera skildi veturinn 1880 til 1881 sem talinn er að hafi verið mun kaldari. Engu að síður var veturinn 1918 nefndur "Frostaveturinn mikli". Mesta kuldatíðin hófst 6. janúar og stóð tæpar þrjár vikur hér sunnanlands en lengur fyrir norðan. Á sama tíma hafði verið viðvarandi kolaskortur í landinu til upphitunar vegna veraldar stríðsins sem þarfnaðist óhemju magns kolaeldsneytis. Á Stokkseyri og Eyrarbakka voru menn hræddir um að ísalög mundi brjóta bátana og þann veg eyðileggja útræðið í byrjun vetrarvertíðar, því með ströndinni mældist stundum -22°C og hefur þá mörgum þótt kalt í beituskúrunum á Bakkanum. Sumstaðar á landinu var þó mun meira frost, eða allt að -30 stigum. Hagalaust var á suðurlandi um veturinn alveg fram í febrúar, en þá tók að hlána hratt við suðurströndina með austan stórviðrum í stað norðan kaldviðra og um miðjan febrúar voru grös tekin að grænka. Hafþök voru þá fyrir öllu Norðurlandi, vestan fyrir Horn og suður með Austurlandi, en rekís eða íshrafl alveg suður að Papey. Tvö bjarndýr að minstakosti voru skotin á þessum vetri, annað í Sléttuhlið, hitt á Melrakkasléttu. Hvalir sáust dauðir í hafísvök norður af Siglufirði. Mannheldur ís var um tíma á höfninni í Reykjavík og á Seyðisfirði var lagnaðarísinn 10 þumlunga þykkur. Þá skemdist mikið af útsæðiskartöflum landsmanna vegna kuldana og sumstaðar fraus í brunnum. Í Vestmannaeyjum var sjávarhitinn aðeins 1 gráða þegar kaldast var. Drapst þá koli og sandsíli þar í hrönnum í höfnni. Sunnlenskir sjómenn töluðu um að hafstraumar væru harðari en venjulega þennan vetur, en yfirleitt er talið að óvenju mikil hafísmyndun, norðanstormar og háþrýstingur  hafi orsakað þennan mikla kulda á landinu. 

26.09.2012 22:54

Veðrið 1881-1910

Samfeldar veðurathuganir voru gerðar á vegum dönsku veðurstofunnar á Eyrarbakka frá 1. jan. 1881 til 31. des. 1910. Peter Nielsen var þá veðurathugunarmaður fyrir dönsku veðurstofuna.  Á þessu tímabili  var meðalúrkoma á Eyrarbakka 1094 mm á ári. Mesta úrkoma var árið 1884 (1384 m.m.); minst árið 1891 (777 m.m.). Flestir úrkomudagar voru árið 1884, (212),fæstir árið 1892 (139). Árið 1900 var nákvæmlega meðalár (177 dagar), hið eina í þessi 30 ár. Árs meðalhiti á Eyrarbakka var 3,6 °C og meðal lágmark + 0,5 stig. Mestur hiti, sem mældist á þessu tímabili, var 22,6°C 17. júlí 1891. Mesta frost var -24,8 stig  28. mars 1892. Peter skilgreindi vindaflið á eftirfarandi hátt frá kvarðanum 0-6: 0= Logn, kaldi: 0-3 m/s 1=andvari samsv: 4-5 m/s, 2=gola: 6-10 m/s ,3=stinnur: 11-15 m/s, 4=harður: 16-20 m/s, 5=stormur: 21-30 m/s, 5=ofviðri yfir: meira en 30 m/s. Að meðaltali var hægviðri í 84 daga á ári eða 0 kvarðinn. Kvarðinn 5 eða ofviðri varði í 8 skipti, einn dag hvert í þessi 30 ár. Að jafnaði blæs hér á ári: 38 daga úr norðri; 73 daga úr landnorðri; 15 daga úr austri; 61 dag úr landsuðri; 25 daga úr suðri; 42 daga úr útsuðri; 13 daga úr vestri, og 14 daga úr útnorðri.

Heimild P. Nielsen/Þjóðólfur 1917.

Veðustofa Íslands setti upp veðurathugunarstöð á Eyrarbakka árið 1923 og var fyrsti veðurathugunarmaðurinn Gísli Pétursson læknir, en  hann andaðist 19. júní árið 1939  og tók Pétur sonur hans þá við og starfaði til ársins 1980. Sigurður Andersen, póst- og símstöðvarstjóri, annaðist mælingar til ársins 2001. Emil Frímannsson tók svo við og hefur hann verið veðurathugunarmaður á Eyrarbakka síðan. Sjálfvirk veðurathugunarstöð var sett upp í nóvember 2005 og hefur hún mælt ýmsa þætti veðurs síðan. Á seinni stríðsárunum dvöldu tveir bretar í Húsinu á Eyrarbakka og gerðu veðurathuganir fyrir breska flugherinn sem hafði aðsetur í Kaldaðarnesi. Nýtt hitamælaskýli var reist á Eyrarbakka i júlí 1961, og um leið var þar settur úrkomumælir með vindhlíf og eru þessi tæki enn í notkun.

Veðurklúbburinn Andvari/Heimildir: eyrarbakki.is, þjóðólfur 1917, Veðráttan 1939, 1961.

19.09.2012 20:24

Norðurskautið á undanhaldi

Myndin frá NOAA hér að ofan sýnir norðurskautsísinn eins og hann er í dag, en sú neðri eins og hann var fyrir fimm árum, eða í ágústmánuði árið 2007. Sumarbráðnunin hefur því sjaldan eða aldrei verið meiri en nú eins og glöggt má sjá.

06.09.2012 21:37

Þurkasumarið 2012/1907

Þurkasumur koma öðru hverju og eflaust mörgum bóndanum þótt nóg um þurkana hér sunnanlands þetta sumarið þó allur almenningur og ferðamenn láti sér vel líka sólskínið og góða veðrið. Kartöfluuppskera er frekar rír og grasvöxtur víðast sunnanlands í lágmarki af völdum þurka. Sumarið 1907 var einnig mikið þurkasumar hér sunnanlands, þornuðu upp lækir og lindir sem og vatnsbrunnar svo að vatnslaust mátti heita á öðruhverju heimili. Sumstaðar þurftu smjör og rjómabú að hætta starfsemi þegar lækir þornuðu með öllu. Í Reykjavík þornaði lækurinn sem og flestir brunnar. Var því oft að flytja vatn um langann veg þá um sumarið, en í september tók loks að rigna rétt eins og nú.

Heimild: Veðurklúbburinn Andvari / Huginn 1907.

15.08.2012 23:02

Heiti vindstiga

Veðurklúbburinn Andvari

Eftirfarandi er heiti vindstiga samkv. gamla Beaufort kvarðanum.

5 vindstig eru 8-10 m/s (1 meter á sekúndu er 3,6 kílómetrar, 1,9 hnútar og 2,2 mílur á klukkustund)

 
 Vindstig íslenska
Beaufort
 FæreyskaDanska 
 0 Logn Logn             Stille
1 Andvari  Fleyr           Svag luftning
2 Kul  Lot              Svag brise
3 Gola Gul            Let brise
4 Kaldi  Andövsgul   Jævn brise
5 Stinningsgola Stívt andövsgul   Frisk brise
6 Stinningskaldi                                 Strúkur í vindi 

 Kuling
7 Allhvass vindur Hvassur vindur 

 Stiv kuling
8 Hvassviðri    Skrið 

  Haard kuling
9 Stormur     Stormur     

  Storm
10 Rok Hvassur stormur 

 Stork storm
11 Ofsaveður   Kolandi stormur 

Orkanagtig storm  
12 FárviðriÓdn   

 Orkan                                                                                                                                   

Heimild: Veðurklúbburinn Andvari Eyrarbakka

05.03.2012 23:06

Tíðin í febrúar

Tjaldurfebrúar var frekar mildur, öfugt við desember og janúar var mánuðurinn afar snjóléttur. Yfirleitt hiti fyrir ofan frostmark og var hann mest um 8 stig. Nokkuð hvass á köflum og voru mestu hviður 27,5 m/s . Stöðugar vestanáttir voru einkennandi fyrri hluta mánaðarins, en óvenjulega mildir vindar og var víða hlýtt inn til landsins. Síðari hluti febrúar einkenndist einkum af umhleypingum. Skúraveðri og éljum. En nú í marsbyrjun sást til farfugla, svo sem tjaldsins og einhver heyrði í lóu, svo nú hlýtur vorið að vera á næsta leiti.

01.01.2012 14:05

Tíðarfarið í desember 2011

Tíðarfarið hefur verið afleitt hér við suðvesturströndina vegna fannfergis og hagaleysis. Þann 28. nóvember hófust fyrstu vetrarhörkurnar með snjókomu og frostum. Örfáir þýðudagar hafa komið í desember, en ekki nægt til að snjó tæki alfarið upp. Snjóruðningstæki hafa verið í önnum nær hvern dag mánaðarins.  Mánuðurinn hófst með tæplega 16 stiga frosti og var svo talsvert frost næstu daga með snjókomu og skafrenningi. Þann 7. desember fór frostið niður í -19°C og daginn eftir mældist -20 stiga frost á Eyrarbakka. Þann 10. til 13. desember fór hitastigið aðeins uppfyrir frostmark í fyrsta sinn í mánuðinum en þó snjóaði áfram og kólnaði á ný en eftir miðjan mánuðinn urðu dálitlar umhleypingar og gerði rigningu um vetrarsólstöður 21-22. en tók þó ekku upp snjóinn. Ein dýpsta lægð síðari ára kom yfir ströndina á aðfangadag 948.4 Hpa með illviðri víða um land og gekk svo á með hvössum éljum á jóladag. Þann 29. féll talsverður snjór eða 25 cm, síðan dálitlar umhleypingar fram til áramóta.

Mestu snjóavetrar hér á landi á síðari tímum: 1909, 1918, 1920, 1931,1949,1952,1968,1979,1982,1990,1995.

02.11.2011 21:45

Tíðarfarið á Bakkanum í oktober.


Veðrið á Bakkanum þennan mánuð hefur einkennst af NA -SA lægum áttum, næturfrost nokkur en fátítt yfir daginn. Hæsta hitastig í mánuðinum var 12,3°C þann 3. en mest fór frostið í -2.2°C þann 7. Mesta úrkoma á sólarhring voru 16mm annan dag mánaðarins. Enginn snjór féll á láglendi í mánuðinum. Stormur var þann 8. meðalvindur 22 m/s og mest  29 m/s í hviðum. Þá gerði suðaustan hvassviðri þann 12. Þann 17 gerði norðan hvassviðri. Þrumuveður gerði þann 14. með stormhviðum, 23,5 m/s  Sérstakt góðviðri gerði þann 10 og á fyrsta vetrardegi þann 22.

08.10.2011 20:11

Það brimar við bölklett

Það brast á SA stormur um stund snemma í morgun þegar meðalvindhraði fór í 22 m/s, versta vinhviðan var 28.7 m/s á veðurathugunarstöðinni. Mikil rigning fylgdi veðrinu, en kl. 9 í morgun voru mældir 14 mm og nú hafa 9 mm bæst við í dag. Nú er strekkingsvindur og hefur færst til suðvestanáttar með brimgangi.

01.10.2011 20:32

Tíðin í september

Haust á BakkanumÞað var hlýtt sunnanlands fyrstu dagana í september og voru hæstu hitatölur á Eyrarbakka tæplega 19 stig. Eins var mánuðurinn tiltölulega hlýr. Aðeins einu sinni fór hiti undir 0°C og skemdust þá kartöflugrös nokkuð. Ösku og moldfok varði í nokkra daga og byrgði mönnum sýn til sunnlenskra fjalla. Tvisvar hafa komið hvassviðri með stormrokum og rigningu. Síðustu dagar mánaðarins voru fremur vætusamir hér við ströndina.  Haustlitirnir eru alsráðandi í náttúrunni og laufin falla ört þessa dagana.

09.09.2011 22:45

Fregnir af ferðum fellibylsins KATIA

Ferðir Katia

Fellibylurinn Katia (1. stigs) er nú suður af Nova Scotia og hefur hvergi komið að landi en stefnir austur og norðaustur á Írlandshaf. Þar mun fellibylurinn fara yfir kaldari sjó og verða öflugur stormur og því mögulega valdið einhverjum usla á Bretlandseyjum norðanvert nú um helgina. Ekki er talið að Katia muni hafa áhrif hér við land að svo komnu máli.

01.09.2011 22:49

Tíðarfarið á Bakkanum í ágúst

LitlahraunÁgústmánuður var hægviðrasamur þurr, sólríkur og hlýr á Bakkanum líkt og í fyrra. Heitustu dagar voru 6. ágúst með 19 stiga hita og 17. ágúst með 18 stiga hita, en oftast var hámarkshitastig 15-17°C.  Næturfrost varð aðfararnótt 27. ágúst, en kartöflugrös sluppu að mestu við skemdir. Úrkoma var helst síðustu daga mánaðarins, en þann 31. hafði sólarhringsúrkoma mælst 16mm.

28.08.2011 23:12

Fregnir af ferðum Irenar

Spá um ferðir Irenu
Irene er nú 975 mb. hitabeltisstormur (POST-TROPICAL CYCLONE ) og veikist, en að sama skapi breiðir stormurinn sig yfir stærra svæði. Vindhraði er um 24 m/s. Stormurinn mun fara yfir Kanada í nótt og á morgun.  Stormurinn mun síðan taka stefnu á Íslands strendur og munu áhrifa Irenu fara að gæta víðsvegar um land á fimtudag með austan strekkingi. Gert er ráð fyrir að stormurinn muni síðan þrengja sér inn á Grænlandssund með vindhraða um 21m/s. Hinsvegar bendir allt til þess að besta veðrið verði á Bakkanum á meðan íslandsheimsókn Irene stendur, en að öllum líkindum mun brima talsvert hér við ströndina í kjölfarið.

Flettingar í dag: 135
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2887
Gestir í gær: 206
Samtals flettingar: 229408
Samtals gestir: 29867
Tölur uppfærðar: 14.10.2024 03:49:09