Flokkur: Fólkið.
13.02.2010 23:54
Jón Helgason frá Bergi
Einn hinna fræknu formanna í upphafi vélbátaaldar var Jón Helgason frá Bergi. Hann var fæddur í Nýjabæ á Eyrarbakka 24.janúar 1886 sonur Helga Jónssonar bónda og formanns í Nýjabæ (síðar á Litlu Háeyri) og Guðríðar Guðmundsdóttur frá Gamla Hrauni.
Árið 1915 lét Jón smíða sér skip á Eyrarbakka stórt og veglegt með kútterlagi, því honum líkaði ekki alskostar við hið Sunnlenska skipslag, en Jón hafði varið sínum ungdómsárum á þilskipum við Faxaflóa og þekkti því vel til skútulagsins. Hann fékk því smið sem kunni til verka á kantsettum skipum með skútulagi og lét búa skip sitt seglum eins og þilskipunum. Kútterarnir þóttu góð sjóskip og vildi Jón geta bjargað sér á seglunum ef vélin bilaði. Skip hans var það stæðsta sem gert var út héðan á þessum árum.
Freyr hét skipið góða og stýrði Jón því í hart nær 30 ár, bæði héðan frá Eyrarbakka og Sandgerði. Jóni farnaðist alltaf vel þó fast væri sótt á sjóinn og Freyr reyndist happasælt og aflaskip mikið. Dag einn varð Jón þó að sjá á eftir þessu happaskipi sínu í fang Ægisdætra þar sem það lá við festar í Þorlákshöfn. Það hafði brostið á aftaka veður með austan roki og stórsjó sem varð til þess að Freyr slitnaði upp af legufærum sínum og rak upp í kletta og brotnaði í spón. Það var bæði honum og áhöfn hans mikill harmur að missa Frey, enda þót Jón léti ekki árar í bát, þá varð engin af bátum hans eins aflasælt og Freyr.
Jón var fróður um margt, gjafmildur þeim er þurftar voru og glettin við börn, enda eltu þau hann gjarnan í halarófu. Jón lést 81 árs að aldri (10.10.1967), en hann hafði átt við vanheilsu að stríða hin síðari ár.
Heimild: Morgunblaðið.239 tbl.
Fólkið.
07.02.2010 23:58
Hús-Magnús
Hús- Magnús var frægur formaður á Bakkanum fyrir aldamótin 1900. Hann var ættaður úr Sölkutóft og fékk viðurnefnið af því að hann var lengi vinnumaður í Húsinu og síðar formaður á skipum dönsku verslunarinnar. Hann var afburða formaður og hugrakkur með eindæmum. Hann kom mörgum sjómanninum til bjargar á ögurstund þegar skip þeirra urðu fyrir áföllum í brimgarðinum og vílaði hann sér ekki við að æða út á móti þeim á skipi sínu fram í bandvitlausan brimgarðinn. Eitt sinn runnu þó tvær grímur á Hús-Magnús:
Jón í Mundakoti og Loftur í Sölkutóft [þá ungir menn] voru hásetar hjá Hús-Manga er hann bjargaði áhöfn Jóns frá Fit þegar skipi hans hlektist á og það fyllti á Rifsósi. Þeir Jón og Loftur voru þeir einu af hásetum Hús-Manga sem eitthvað höfðust að en hinum féllust hendur. Loftur fór um borð í marandi skipið til að skera einn hásetann úr lóðinni sem hann var flæktur í. Meðan á því stóð nálgaðist ólag mikið og skipaði Hús-Mangi að skilja þá eftir og róa til lands en Jón í Mundakoti þreif þá í báða mennina og vippaði þeim eins og ullarballa um borð í skip Hús-Manga og björguðust þeir þannig.
Heimild:SA/ Eyrarbakki - Saga og Atburðir
06.01.2010 23:00
Vesturfarar
Í kreppum fyrri tíma héldu margir íslendingar út í atvinnuleit rétt eins og um þessar mundir.
Saga Íslendingabyggðarinnar á Washingtoneyju í Michigan vatni USA hófst á Eyrarbakka um 1865. Þá er á Eyrarbakka kaupmaðurinn Guðmundur Thorgrímsen og í þjónustu hans dani nokkur, William Wickman að nafni. Guðmundur studdi Wickman til ferðar vestur um haf til að kynnast landkostum. Wickman fer til Wisconsin og af einhverjum ókunnum ástæðum lendir hann á Washingtoneyju. Þar bjuggu þá aðallega Indíánar og nokkrar danskar og norskar fjölskyldur.
Mikil fiskveiði var þá í Michiganvatni og mun Wickman hafa skrifað um það heim til Eyrarbakka. Aldrei sneri hann aftur til íslands en ílentist á Washingtotieyju og bjó þar til dauðadags.
Árið 1870 flytjast svo fjórir einhleypingar frá Eyrarbakka til Washingtoneyjar og næstu ár þar á eftir er straumur íslendinga um Milwaukee til eyjarinnar m.a.14 frá Eyrarbakka 1872. Svo margir íslendingar fluttust á þessar slóðir á þeim árum að níu árum eftir að Wickman fór vestur um haf, héldu íslendingar samkomu í Milwaukee til að fagna 1000 ára afmæli íslandsbyggðar árið 1874 og voru þar saman komnir um 200 manns.
Meðal þeirra Eyrbekkinga sem fóru til Washingtoneyju voru Teitur Teitsson, hafnsögumaður og faðir hans Teitur Helgason, Ólafur Hannesson, sonur Hannesar Sigurðssonar og konu hans Guðrúnar Jónsdóttur á Litlu-háeyri. Björn Verharðsson, Sigurður Sigurðsson, Magnús Jónsson, Bárður Nikulásson og Þorgeir Einarsson.
Heimild: http://www.vesturfarinn.is/iwashisl.html Þjóðviljinn 219.tbl.1961
Þennan dag: 1966 komu hingað 20 færeyingar til að manna Bakkabátana.
22.11.2009 23:07
Öld frá opnun símstöðvar.
Þegar vorskipanna var von, þá var þegar farið að skyggnast eftir þeim, en það var undir byr komið hve lengi þurfti að stunda þá iðju. En það var nú til nokkurs að vinna því að sá sem fyrstur sá skipið fékk að launum brennivínsstaup í Vesturbúðinni. Með skipunum bárust Eyrbekkingum fyrstu fréttirnar utan úr heimi, en þetta átti eftir að breytast með tilkomu símans.
Símstöð var opnuð hér á Eyrarbakka 1. september 1909 og var þá í fyrsta sinn talað í síma milli Eyrarbakka og Reykjavíkur og þann 8. september var hún opnuð til almennra afnota. Fyrsti símstöðvastjórinn var Oddur Oddsson gullsmiður í Reginn og ritstjóri fréttablaðsins Suðurlands. Hann var maður óvenju vel gefinn, fjölfróður og hagur mjög til allra hluta. Kona hans var Helga Magnúsdóttir frá Vatnsdal í Fljótshlíð og féll það í hennar hendur að hafa daglega vörslu símans. Hún þótti lipur og greiðvikin og þjónustaði viðskiptavini jafnan meira en skyldan bauð. Þau þjónuðu hér í 39 ár, en þá tók við Magnús sonur þeirra og sá um hana til ársins 1947, er hann fluttist héðan. þá tók við stöðinni Jórunn dóttir þeirra hjóna og veitti hún stöðinni forstöðu í 20 ár. Þannig hafði sama fjölskyldan veitt símstöðinni forstöðu í hart nær 58 ár. Árið 1967 tók Sigurður Andersen við Símstöðinni og ári síðar tók sjálvirki síminn til starfa en eflaust muna margir eftir gráa Ericson símanum sem kom í stað sveifarsíma með rafhlöðum. Sigurður veitti símstöðinni forstöðu til ársins 1997 en nokkru síðar var afgreiðslan lögð niður, en sjálvirka stöðin er enn í notkun.
Heimild; Að hluta Pálína Pálsdóttir Mbl.1968
Símtal til Reykjavíkur ()
Sigurður Andersen
14.11.2009 19:59
Saga um verkamann í litlu þorpi
Hann gerðist ungur einn af stofnendum Bárufélagsdeildar og varð einn fremsti forustumaður alþýðufólksins í þorpinu og um leið einn af merkustu brautryðjendum íslenskrar verkalýðshreyfingar. Þorpið er Eyrarbakki og maðurinn Krisján Guðmundsson. Þegar hann var að alast upp á Bakkanum á árunum 1908-1920 var stéttskiptingin aðalega fólgin í því að stór hópur fólks hafði mjög lítið eða alls ekkert að borða, en hinn hópurinn sem var lítill hafði nóg en þó ekkert umfram það. Oft voru hörð átök milli þessara tveggja hópa, mikil tortryggni og jafnvel hatur sem stafaði öðrum þræði af ótta en annars af skorti.
Forustumennirnir voru fáir, en þeir voru harðir í horn að taka og það kom sjaldan fyrir að þeir væru sömu skoðunar í nokkru máli, enda áttu þessi átök sér djúpar rætur í langri þróun sem enginn skildi þó til fulls, en helgaðist af því að sumir vildu engar breytingar sem raskað gætu því öryggi sem þó var til staðar fyrir þann hóp, en aðrir kusu að feta nýjar slóðir og jafnvel umbylta því kerfi sem fyrir var, en sá hópur bjó við viðvarandi öryggisleysi. Þessar tvær fylkingar voru annarsvegar verslunarmenn og landeigendur, en hinsvegar Verkamannafélagið Báran.
Kristján Guðmundsson fæddist á Iðu í Biskupstungum 1.júní 1885. Þar ólst hann upp við fábrotið nám. Um aldamótin var jörðinni sagt lausri og allt selt, því foreldrar hans Guðmundur Guðmundsson og Jónína Jónsdóttir hugðust flytja til vesturheims. Þegar búið var að greiða allar skuldir, þá var ekki lengur til fyrir fargjaldinu og lentu þau því á Bakkanum. Á Eyrarbakka var mikið líf á þessum árum. Þar starfaði leikfélag, lestrarfélag, hornafélag, söngfélag, fimleikafélag og skautafélag svo eitthvað sé nefnt. Ljósker lýstu upp götur og þegar einhvern viðburður var á dagskrá, gengu drengir í hvítum strigafötum götuna á enda og börðu trumbur. Það voru faktorarnir og assistentarnir í Húsinu sem voru helstu menningarfrömuðir á Bakkanum í þá tíð og driffjaðrirnar í þessum félögum.
Saga verkamannsins á Eyrarbakka hófst með Lefolii versluninni, sem var þá og lengi síðan aðal vinnuveitandinn. Karlmenn unnu aðalega við uppskipunina en konur á ullarloftinu um og eftir lestarferðirnar. Oft kom til árekstra er menn vildu hækka kaupið um svo sem einn aur á tímann. Tildæmis eitt sinn þegar tókst að fá kaupið hækkað um þrjá aura á tímann var hætt að láta fólkið fá ókeypis skonrokskökur, sem það hafði fengið eftir hvern vinnudag.
Kristján stundaði þá vinnu sem til féll á Bakkanum og fór á sjóinn á vertíðum og í kaupavinnu um sláttinn eða vegavinnu út á land. Kristján var enn kornungur þegar Sigurður regluboði stofnaði deild árið 1904 úr sjómannafélaginu Báran og var Kristján á meðal stofnenda, en það má heita að allur almenningur á Bakkanum hafi verið stofnfélagar að deildinni, en hún var sú fjórða í röð þeirra Bárudeilda sem sem stofnaðar voru á Íslandi. Félagið hóf þegar kraftmikið og öflugt starf fyrir hagsmuni almennings á Eyrarbakka og stöðugt urðu afskipti félagsins víðtækari í bæjar og atvinnumálum. Fyrr en varði var þetta félag komið með öll völd í málefnum byggðarlagsins. Kristján lá ekki á skoðunum sínum á fundum félagsins og fljótlega naut hann fulls trausts félagsmanna og var kosinn í ráð og nefndir. Hann var síðan kosinn formaður félagsins og gengdi því í áratugi en þó ekki samfellt. Með honum starfaði eldhuginn og hugsjónamaðurinn Bjarni Eggertsson og samann voru þeir máttarstólpar félagsins um langa hríð. Þeir stjórnuðu hvor sínu skipi, hver með sinni áhöfn og hver með sínu lagi, en saman höfðu þeir það afl sem þurti til að sækja fram. Kristján fékk að reyna fátækt og alsleysi þegar hann stofnaði sína fjölskyldu á Bakkanum eins og var um flesta og oft kárnaði gamanið þegar ekkert var til svo halda mætti jól. Kaupmenn lánuðu oft upp á krít, en ekki var endalaust hægt að bæta á þann reikning, ef vertíðir brugðust. Kristján var virkur í leikfélaginu og lék þar ýmis hlutverk, en jafnaðarstefnan og Alþýðuflokkurinn áttu þó hug hans mestann.
Það má skipta sögu Bárunnar upp í tímabil eins og Kristján nefnir sjálfur í einu viðtali og líkir félaginu við akuryrkju. "Fyrstu árin ruddum við jörðina, undirbjuggum sáningu,
svo sáðum við og hlúðum að fræjunum í fjölda mörg ár og loks fórum við að skera upp"
Þegar aldurinn færðist yfir tók Kristján að þjást af gigt og varð hann að hætta sínu daglega striti. Hann kom sér upp kindastofni og gerðist nokkurskonar fjárbóndi hér í þorpinu.
Heimild: Alþýðublaðið 122 tbl.1960
Kristján líkti verkalýðsbaráttu við akuryrkju og nú er þörf á að ryðja akurinn að nýju. Flokkur alþýðunnar er löngu horfinn til feðra sinna og nú ráða jafnaðarstefnunni menntaklíkur ættaðar úr háskólanum og sjálfri verkalýðshreyfingunni hefur verið stolið af sömu klíku þori ég að fullyrða. Það er kominn tími til að taka fram plóginn að nýju og herfa og sá. Til þess þurfum við frumkvöðla eins og Kristján Guðmundsson og eldhuga eins og Bjarna Eggerts sem voru foringjar sprottnir úr jarðvegi alþýðunnar.
Ráðning í vegavinnu! () Enn lifir bára. (30.4.2008 23:21:39) Róið til fiskjar um aldamótin 1900 ()
25.06.2009 22:02
Fólkið við ósinn- Óseyrarnes
Vestasta jörðin í Eyrarbakkahreppi heitir Óseyrarnes, en hefur áður heitið Nes og Ferjunes og sameinast gömlu landnámsjörðinni Drepstokki. Nesbærinn hafði verið fluttur fimm sinnum frá ánni, síðast 1728. Þar var ferjustaður og þjóðbraut allt frá miðöldum og oft tvíbýlt. Lögferjan gaf vel af sér í eina tíð en með tilkomu brúar yfir Ölfusá við Selfoss náði ferjubóndinn vart upp í kosnað við ferjuhaldið. Má enn sjá rústir þar sem bærinn stóð síðast nokkuð austan við ósinn. Sjávarflóð höfðu alloft valdið tjóni á slægjulöndum og kálgörðum Óseyrarness, eða allt þar til sjóvarnargarður var byggður laust eftir aldamótin 1900, en allt kom þó fyrir ekki því sjóvarnargarður þessi sópaðist burt að stórum hluta árið 1916 og tók þá út annann ferjubát staðarins og tíndist hann.(Ferjubátar í Óseyrarnesi voru jafnan 17 manna far, róinn 4 árum.) Í kjölfarið átti landið undir högg að sækja sökum sandblásturs. Garðurinn var endurbyggður og uppgræðsla hófst, en í stóraflóðinu 21.janúar 1925 hrundi garðurinn í annað sinn og sagan endurtók sig. Óseyrarnesi fylgdi góð laxveiði og fengust jafnan 200 til 500 laxar á sumri þegar best lét, en einnig var stunduð þar selveiði í stórum stíl og var selnum smalað niður ánna með bátum og mannsöfnuði.
Jón hét maður og var Ketilsson (1710-1780) hreppstjóri, formaður í Þorlákshöfn og ferjubóndi í Ferjunesi eins og bærinn hét í þá daga, faðir Hannesar lögréttumanns í Kaldaðarnesi, er bjó í Ferjunesi 1778-1782. Þess skal getið hér til gamans, að árið 1789 skipaði Steindór sýslumaður Finnsson þá Hannes lögréttumann og Þórð bónda Gunnarsson í Þorlákshöfn til þess að vera "forstjórnar og forgangsmenn" til undirbúnings og varnar gegn erlendum sjóræningjum, ef þeir legðu að landi í Þorlákshöfn á vertíðinni.
Jón Jónsson hét einn afkomandi Jóns Ketilssonar og var hann óðalsbóndi á Óseyrarnesi á fyrri hluta 19.aldar, ekkjumaður með 5 fyrrikonubörn öll ung að árum, en kona hans var Ólöf Þorkellsdóttir frá Simbakoti. Eitt þeirra barna var Þorkell (d.1897) sem síðar var hreppstjóri og bjó hann alla tíð á Óseyrarnesi. Annar sonur Jóns hét einnig Jón og var hann formaður á Farsæl í Þorlákshöfn og fræðimaður í Simbakoti á Eyrarbakka. (Jón í Simbakoti var af ríku fólki kominn, en dó sjálfur í fátækt. Bækur hans og rit voru boðin upp ásamt kistunni sem þær voru geymdar í, en hana keypti Gísli Eiríksson í Bitru). Jón eldri giftist aftur 1836 Guðrúnu Guðmundsdóttur f.1801 frá Arnarholti í Biskupstungum og áttu þau saman 4 börn, en eitt dó í æsku. Jón dó 1858 en Guðrún hóf þá búskap með Sigurði syni sínum (1843-1876) og konu hans Ragnheiði Hannesdóttur frá Kaldaðarnesi að Björk í Grímsnesi. Guðrún dó 1871. Eitt barna Þorkells Jónssonar hreppstjóra í Óseyrarnesi hét Þorkell og var hann m.a. formaður í Þorlákshöfn. Á vertíðinni 1883 hvarf skip Þorkels í vonsku veðri og var talið af, en skipshöfnin bjargaðist í erlent skip og kom fram að mörgum dögum liðnum. Bjarni Hannesson hét maður fæddur á Baugstöðum í Stokkseyrarhreppi (1816-1878). Um vorið 1839 flutti hann til vinnumensku að Óseyrarnesi, en árið eftir giftist hann heimasætunni á bænum Sigríði Guðmundsdóttur (1817-1901). Sigríður fæddist á Sléttum í Hraunshverfi, en flutti með foreldrum sínum að Óseyrarnesi 1823. Bjarni tók síðan við búi af tengdaföður sínum árið 1842 og bjó á Óseyrarnesi í 33 ár. Bjarni og Sigríður eignuðust eina dóttur, Elínu f.1842. Hún giftist Grími ríka Gíslasyni (1840-1898) frá Syðra-Seli á Stokkseyri sem þá var vinnumaður á Óseyrarnesi, en hann tók við búinu af tengdaföður sínum 1875. Bjarni Hannesson var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps um nokkur ár. Grímur óðalsbóndi í Óseyrarnesi var atorkusamur bóndi og aflasæll formaður. Hann átti m.a. aðkomu að Stokkseyrarfélaginu, (1889-1895) sem var nokkurskonar undanfari Kaupfélags Árnesinga ásamt hafnarbótum, vöruhúsbyggingum (Ingólfshúsið og Zöllnershúsið sem brunnu 1926) og sjóvörnum þar á Stokkseyri. Börn Gríms og Elínar urðu 8. Meðal þeirra voru Páll hreppstjóri í Nesi í Selvogi en síðar að Flóagafli. Bjarni yngri f.1870 ferjumaður, formaður í Þorlákshöfn, verslunarmaður á Stokkseyri og stjórnarmaður Flóaáveitufélagsins en síðar fiskmatsmaður í Reykjavík. Guðmundur en hann gekk í lærða skólann í Reykjavík, Sigríður kona Þorkells Þorkellssonar frá Óseyrarnesi og Valgerður kona Gísla skósmiðs í Íragerði. Aðfararnótt 8. nóvember árið 1900 brann íbúðarhúsnæðið að Óseyrarnesi til kaldra kola ásamt öllum innanstokksmunum og vetrarforða, en mannbjörg varð. Þá bjuggu þar bændunir Gísli Gíslason formaður í Þorlákshöfn og Eiríkur Jónsson. Eftir brunann var bærinn endurbyggður og árin 1912- 1915 bjuggu á öðru býlinu Vilhjálmur ferjumaður Gíslason Felixsonar frá Mel i Ásahreppi og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Móðir Vilhjálms var Styrgerður Filippusdóttir frá Bjólu í Rángárvallasýslu, en hún bjó í Einarshöfn hin síðari ár. Vilhjálmur tók jafnan skrýngilega til orða. Bjarni Eggertsson á Eyrarbakka sauð saman þessa vísu upp úr sumum skringilyrðum hans: Skjóðuglámur skjótráður skýzt yfir ána í kasti glyrnupínu grjótharður gefur í rótarhasti. Einhvern tímann um svipað leiti átti heima á Óseyrarnesi Magnús mormóni Kristjánsson, en hann hafði áður búið í Stokkseyrarhverfi og í Vestmannaeyjum. Hann var hér orðinn gamall og þrotinn heilsu og kominn á sveitina. Hann þótti einkennilegur maður en var gáfaður að upplagi þó ekki hefði gengið menntaveginn. Til var handrit af söguþætti um Magnús mormóna, (Íslenskir sagnaþættir II eftir Brynjúlf Jónsson). Eiríkur Jónsson frá Hlíð í Skaftártungu bjó um hríð i Óseyrarnesi en hann druknaði á Ísafirði. Kona ein Margret að nafni sem átti heima á Óseyrarnesi 1931 náði eitt sinn í landselskóp og tamdi hann sem gæludýr. Fór kópurinn aldrei í sjó né vatn en fékk þó bað á hverjum degi. Lifði kópurinn þar góðu lífi eins og einn af hundunum á bænum. Ekki er vitað um hvort selur þessi hafi orðið gamall. Árið 1898 var Eyrarbakkahreppi veitt heimild til að kaupa Óseyrarnes og gekk það eftir árið 1906. Margt fleira fólk en hér er greint frá átti heimili á Óseyrarnesi í lengri eða skemmri tíma, svo sem vinnuhjú og afkomendur ferjubændanna. Óseyrarnes mun hafa farið í eyði um seinna stríð. Eyrarbakki.is. Þjóðólfur , 5. tölublað 1864 Þjóðólfur , 12.-13. tölublað 1873 Þjóðólfur , 15. tölublað 1880 Þjóðólfur , 11. tölublað 1898 Fjallkonan , 19. tölublað 1901 Suðurland , 11. tölublað 1910 Suðurland , 32. tölublað 1912 Lögrétta , 30. tölublað 1919 Morgunblaðið , 286. tölublað 1926 Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1927 Alþýðublaðið , 196. Tölublað 1931 Sjómannablaðið Víkingur , 21.-24. Tölublað 1940 Lögberg , 27. tölublað 1952 Sjómannablaðið Víkingur , 11.-12. Tölublað 1944.
17.06.2009 19:31
Fólkið frá Flóagaflshverfi- Þórðarkot
Norður af Gerðiskotsmóa við hreppamörk Sandvíkur og Eyrarbakka er Þórðarkot. þar eru miklar rústir eftir fallin hús og eydda byggð.
Á Þórðarkoti bjó Eiríkur Árnason (f.1854 d.1943) en hann tók við búi föður síns Árna Eiríkssyni á Þórðarkoti. Kona Árna var Margrét Gísladóttir. Eiríkur stundaði búskap þar til 1935 er hann flutti niður á Bakka. Bróðir Eiríks var Ólafur (d.1935) faðir Sigurjóns myndhöggvara. Eiríkur þótti góður bóndi og komst því vel af þó jörðin væri smá. Kona hans var Helga Guðmundsdóttir. Synir þeirra voru Ásmundur bóndi á Háeyri og Guðmundur trésmiður á Eyrarbakka, en þau tóku einnig börn í fóstur eða réðu til vinnu.
Hin 3. apríl 1882 handsamaði bóndinn í Þórðarkoti lifandi sefhænu í einni heytóft sinni, en það var í fyrsta sinn sem Sefhæna fannst hér á landi.
Árin 1935 til 1937 stunda búskap í Þórðarkoti Valdimar Þorvarðsson frá Klasbarða V-Landeyjum (Síðar trésmiður í Kirkjuhúsi á Eyrarbakka) og kona hans Elín Jónsdóttir frá Laug í Biskupstungum. Þá Ólafur Gíslason frá Björk og Guðbjörg Pálsdóttir frá Halakoti í Biskupstungum til 1941 er þau fluttu þaðan og lagðist þá bærinn í eiði.
Heimildir: Morgunblaðið , 82. tölublað 1943 Tíminn , 58. tölublað1957 Eyrarbakki.is
16.06.2009 18:59
Fólkið frá Flóagaflshverfi- Hallskot
Hallskot er syðstur þeirra bæja er eitt sinn stóðu í Flóagaflshverfi og dregur líklega nafn sitt af Halli þeim er þar fyrstur byggði og sést þar enn móta fyrir bæjarstæðinu. Þar er brunnur góður sem aldrei þraut og nutu nágranar jafnan góðs af. Á fyrrihluta 19. aldar var bóndi í Hallaskoti Gísli Hannesson, síðar bóndi á Kotferju og kona hans Anna Jóhannsdóttir frá Kotferju. Um 1850 bjuggu hjón að nafni Vilhjálmur Kristinn Vilhjálmsson, Sigurðssonar og Guðný Kristín Magnúsdóttir Skaftfeld, Magnússonar í Hallskoti. Þá bjó til ársins 1901 Guðmundur bóndi Jónsson er lést það ár, Magnússonar í Koti á Rángárvöllum. Þá synir hans Einar d.1940 og Jón d.1933, en þeir voru síðustu ábúendur í Hallskoti sem fór í eiði 1924. Dætur Guðmundar voru Sigríður,Guðrún, Halldóra og Halla,(d.1964) en hún gifti sig í annað sinn á gamals aldri (83 ára) Jóni Ólafssyni útgerðarmanni úr Þorlákshöfn.
Eyrarbakkahreppur keypti hálfa jörðina undir slægjuland en á helmingi hennar stendur nú sumarbústaður. Jarðarkaup Eyrbekkinga hófst með kaupum á Óseyrarnesi og Gamla-Hraun eystri um aldamótin 1900, en síðan jafnharðan og eftirtaldar jarðir féllu úr ábúð: Flóagafl, Gerðiskot, Valdakot og hálft Hallskot eins og fyrr er getið. Þessar jarðir voru síðan með lögum frá 6. maí 1946 innlimaðar í Eyrarbakkahrepp og fékk Eyrarbakkahreppur þannig að auki töluverð veiðiréttindi í Ölfusá með þessum jarðarkaupum sínum. Hinn 1. janúar 1959 urðu svo eigendaskipti að jarðeignunum Einarshöfn, Skúmstöðum og Stóru-Háeyri, ásamt hjáleigunum Litlu-Háeyri, Sölkutóft, Mundakoti og Steinskoti, eystra og vestra eftir kaup Eyrarbakkahrepps á þeim.
Heimild: m.a. Fjallkonan , 1. tölublað 1901 Suðurland , 32. tölublað 1912 Morgunblaðið , 259. tölublað 1940 Alþýðublaðið , 181. Tölublað 1955 Eyrarbakki.is Morgunblaðið , 70. tölublað 1997 Alþýðublaðið , 5. Tölublað 1959
16.06.2009 12:10
Fólkið frá Flóagaflshverfi- Flóagafl
Flóagafl var elstur bæja á Flóagaflstorfunni og hefur sennilega verið byggður nokkuð snemma á 10 öld í upphafi. Árið 1857 bjuggu á Flóagafli Þorsteinn Guðmundsson frá Svarfhóli og Guðrún Bjarnadóttir. Þau bjuggu við talsverða rausn og voru stöðugt með hæstu gjaldendum í Sandvíkurhreppi. Sonur hans Sigurður Þorsteinsson og Ingibjörg Þorkellsdóttir frá Óseyrarnesi, (sjá Gerðiskot) tóku við búinu árið 1898 en Þorsteinn hafði þá látist úr lungnabólgu á 70 aldursári Sigurður flutti síðar til Reykjavíkur og gerðist rithöfundur og útvarpsmaður ásamt pólitísku vafstri fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Þá bjó þar um tíma Páll Grímsson bóndi, sem kenndur var við Nes. 1903 bjó á Flóagafli Guðmundur Ólafsson sjómaður og fátækur barnamaður. Eyrarbakkahreppur kaupir svo jörðina sem og aðrar í nágreninu undir slægjulönd og Flóagafl fer þá í eiði.
Heimild: m.a. Þjóðólfur , 16. tölublað 1898. Fjallkonan 10. tölublað 1903
14.06.2009 18:38
Fólkið frá Flóagaflshverfi - Valdakot
Valdakot í Flóagaflshverfi stóð skammt norðan Hallskots og hafði verið í ábúð a.m.k. frá aldamótunum 1800 en þá bjó þar maður er Helgi hét. Jörðin var oft erfið vegan flóða og klakaburðar úr Ölfusá. 1876 bjó í Valdakoti Vigfús Jónsson bóndi og sjómaður við fremur kröpp kjör. Um skamma hríð 1883 bjó þar þórunn Jónsdóttir frá Kirkjubæjarklaustri ásamt syni sínum Olgeiri og barnabarni Þórunni Gestsdóttur, en eftir það bjó Jón Þorsteinsson bóndi og kona hans Þuríður Árnadóttir í Valdakoti fram til 1896 er Suðurlandsskjálftar gengu yfir og bæjarhúsin hrundu. Lagðist jörðin þá í eiði, en fjölskyldan flosnaði upp og stóð alslaus eftir. Var börnum komið í fóstur vítt og breytt. Eftir aldamótin1900 keypti Eyrarbakkahreppur jörðina undir slægjulönd.
Heimildir: Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1884 Morgunblaðið , 74. tölublað 1984 Þjóðólfur 29. tölublað 1877 ofl.
12.06.2009 22:52
Fólkið frá Flóagaflshverfi -Gerðiskot
Áður fyrr var þéttbýlt í Flóanum og mannmargt á hverjum bæ sem mörg hver eru aðeins tóftarbrot, en um marga aðra sér þess ekki merki að bær hafi staðið. Gerðiskot í Flóagaflshverfi eru tóftir einar norðaustan Hallskots. Jörðin þótti góð til ábúðar, tún og engjar voru talin ágætt, eggslétt flæðiengi; af þeim féll kringum 1500 hestar, töðugæft kúgresi. Sömuleiðis fylgdi selveiði og fjörubeit jörðinni.
þar var um árabil aðsetur sýslumannsins í Árnessýslu. Þar sat Þórður Guðmundsson sýslumaður 1857 er hann dæmdi sauðaþjófinn Ólaf frá Breiðumýrarholti og annað heimilisfólk fyrir ýmsar sakir. Þá bjó þar Stefán Bjarnarson sýslumaður en honum var veitt Árnessýsla 6. nóvember 1878, en hann tók ekki við henni fyr en 24. júní 1879 og sat til 1890. Árið 1883 mátti hann eiga við ræningjaflokk á ferð um Súluholtsmúla sem verður gerð nánari skil hér síðar. Stefán Bjarnarson var fæddur á Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð 29. júli 1826, sonur Björns Sigurðssonar, bónda þar, og konu hans þorbjargar Stefánsdóttur prests á Presthólum Lárussonar Schevings. Stefán var sýslumaður í Ísafjarðarsýslu 1859-1878. Kona hans var dönsk, Karen Emelie f. Jörgensen. Stefán andaðist úr lungnabólgu í Gerðiskoti 3.júlí 1891. Sama ár hafði Stefán selt kaupmanninum á Eyrarbakka um 22 hektara af mýri sinni sem síðar rann til Kaupfélagsins Heklu og heitir nú Heklumýri.
(Hjá honum var um hríð (1884-1887 ) skrifari Ívar Sigurðsson. Fæddur á Gegnishólaparti í Árnessýslu 31. júlí 1858. Ólst þar upp hjá foreldrum sínum, Sigurði Ívarssyni og Guðrúnu Halldórsdóttur, og dvaldi þar hjá þeim fram yfir tvítugsaldur. Eftir veruna hjá sýslumanninum var hann 3 sumur verslunarmaður við Lefolis-verslun á Eyrarbakka en umgangskennari að vetrinum til. Byrjaði hann svo fyrstur allra smáverslun á Stokkseyri.) Eftir Stefán bjó þar um hríð (til 1902) Þorkell bóndi þorkellsson og hans frú Sígríður Grímsdóttir frá Óseyrarnesi. Þá bjuggu þar fram til 1906 eða 1907 Þórarinn Snorrason frá Læk í Flóa og kona hans Gíslína Ingibjörg Helgadóttir frá Eyrarbakka.
Ásgeir Sigurðsson skipstjóri fæddist 28. nóvember árið 1894 í Gerðiskoti í Flóagaflshverfi og af merkum bændaættum kominn. Faðir hans var Sigurður Þorsteinsson (1867-1950) frá Flóagafli, bóndi í Gerðiskoti , fræðimaður og rithöfundur. Móðir Ásgeirs, Ingibjörg Þorkelsdóttir (d.1950) var frá Óseyrarnesi, en þeir Þorkell hreppstjóri og Grímur í Óseyrarnesi voru í þann tíð taldir meðal dugmestu og bestu manna og var mikill kunningsskapur milli Gerðiskotshjóna og Óseyrarnessheimilisins. Þau hjónin Ingibjörg og Sigurður eignuðust átta börn, en tvö dóu á tólfta ári og sex komust upp, þau Árni (d.1949) fríkirkjuprestur, Ásgeir skipstjóri, Þorkell skipstjóri, Sigrún á Rauðará, Þóra Steinunn húsfrú og Sigurður Ingi, síðar sveitarstjóri á Selfossi. Sigurður gerðist fljótt virkur félagi í verkamannafélaginu "Bárunni" og formaður félagsins var hann um nokkurt skeið. Lenti félagið þá í fyrsta verkfalli sínu meðan hann var formaður, en þá deilu leysti hann vel.
Ásgeir gerðist beitustrákur á Eyrarbakka og í Þorlákshöfn fyrir fermingu en þeir sem þann starfa fengu, máttu þola kuldann í beitu körunum og uppistöður, því að þegar mikill fiskur var, voru drengirnir .rifnir upp um miðjar nætur um leið og róið var og síðan urðu þeir að standa við beitinguna til kvölds, enda oft margróið. Ásgeir fór í sveit á hverju sumri fyrst framan af, en síðan eftir fermingu fór hann að róa á opnum áraskipum af Bakkanum og úr Höfninni, en fór í vegavinnu með föður sínum á sumrin. Árið 1910 fluttust Sigurður og Ingibjörg með börnin til Reykjavíkur. Þá réðist Ásgeir á skútur og á togara, var um skeið á brezkum togurum. Ásgeir fór í sjómannaskólann og útskrifaðist úr honum árið 1914. Eftir prófið fór hann aftur á togara, en í júlí 1917 varð hann 2. stýrimaður á gamla Lagarfossi og var hann á Eimskipafélagsskipum þar til Skipaútgerð ríkisins var stofnuð um áramótin 1929 og 1930. Var hann síðan skipstjóri á tveimur Esjum og síðan á Heklu.
Ásgeir Sigurðsson lét sig félagsmál sjómanna miklu skipta. Hann stofnaði Skipstjórafélag íslands og var for maður þess um sinn. Hann var einn af helstu hvatamönnum að stofnun Farmanna og fiskimannasambands íslands og forseti þess frá upphafi til dauðadags. Ásgeir varð bráðkvaddur 1961 úti í Noregi, þar sem hann var í ferð á skipi sínu MS Heklu.
Þá bjó í Gerðiskoti frá 1911 Brynjúlfur Jónsson skáld og fræðimaður frá Minnanúpi með syni sínum Degi Bryjúlfssyni búfræðingi (Síðar oddvita í Gaulverjabæ) er hóf búskap á jörðinni 1907. Kona Dags var Þórlaug Bjarnadóttir (1880-1966) frá Sviðugörðum í Gaulverjabæjarhreppi. Brynjúlfur kvæntist aldrei, en hann átti Dag með stúlku Guðrúnu að nafni Gísladóttir, frá Káragerði í V-landeyjum.
Brynjúlfur er fæddur að Minnanúpi í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu 26. sept. 1838. Foreldrar hans voru Jón Brynjúlfsson og Margrét Jónsdóttir, er lengi bjuggu að Minnanúpi. Brynjúlfur er kominn í beinan karllegg frá Þorláki biskupi Skúlasyni, en móðir afa hans var dóttir Halldórs biskups Brynjúlfssonar. 17 ára fór hann fyrst til sjóróðra, og reri upp frá því 13 vetrarvertíðir, flestar í Grindavík og nokkrar vorvertíðir í Reykjavík. Þar komst hann í kynni við ýmsa mentamenn, og má helst lil þess nefna dr. Jón Hjaltalín landlækni Árna Thorsteinsson landfógeta, Jón Pjetursson yfirdómara, Jón Árnason bókavörð og Sigurð Guðmundsson málara. Þeir tveir er fyrst voru nefndir vöktu áhuga hans á ýmsum greinum náttúrufræðinnar, en hinir þrír á fornum fræðum íslenskum: ættvísi, þjóðsögum og fornmenjarannsóknum. Þá kom það fyrir vorið 1866, að hann misti snögglega heilsuna. Var það helst kent bilun við byltu af hestsbaki. Heilsubilun þessi lýsti sér einkum í magnleysi, er kvað svo ramt að, að hann mátti ekkert á sig reyna. Þótt hann að nafninu til væri oftast á ferli, átti hann erfitt með allan gang og riðaði sem dauðadrukkinn maður; gat hann og hvorki klætt sig né afklætt sjálfur, né heldur lesið eða skrifað og þegar hann aftur styrktist svo mikið að hann fór að geta lesið og skrifað þá gat hann það þó því að eins að hann héldi bókinni eða blaðinu og skiffærunum beint fram undan augunum. Smám saman komst hann aftur til nokkurnveginn heilsu, en um venjulega líkamsáreynslu var ekki framar að tala. En þá kom fróðleikur sá er hann hafði aflað sér honum að notum. Stundaði hann þá barnakenslu nokkra vetur á Eyrarbakka og las og samdi ýmislegt í hjáverkum. En á sumrin ferðaðist hann á milli kunningjanna. Árið 1892 komst hann svo í þjónustu Fornleifafélagsins. Síðar fékk hann titilinn "dannebrogsmaður". Brynjúlfur lést úr lungnabólgu 1914. En það ár flytja Dagur og Þórlaug frá Gerðiskoti.
Upp frá því lagðist Gerðiskot í eiði en nokkrar deilur hafa spunnist um landamerki á þessum slóðum, en Eyrarbakkahreppur keypti jörðina þegar hún féll úr ábúð.
Heimild: m.a. Tímaritið Óðinn 01.10.1908 og 01.11.1916. Alþýðublaðið , 223. Tölublað.1961 Konur fyrir rétti eftir Jón Óskar. Frjáls Þjóð 1959 Alþýðubl. 10.9.1947 & 5.10.1961 Morgunbl. 297 tbl.1983
22.05.2009 00:35
Siggi Guðjóns
Sigurður Guðjónsson á Litlu Háeyri (1903- 1987) var þjóðkunnur skipstjóri um áratuga skeið, fræðimaður og rithöfundur. Hann hóf sjósókn frá Eyrarbakka um fermingaraldur eins og þá var alsiða meðal ungra manna við sjávarsíðuna. Síðan lá leiðin til Reykjavíkur, en þar gerðist Sigurður háseti á togurum. Þá lá leið hans í Stýrimannaskólann þar sem hann lauk meira fiskimannaprófi 1930 en síðan var hann stýrimaður á kveldúlfstogurunum þórólfi RE 134 sem frændi hans Kolbeinn Sigurðsson stýrði og síðan skipstjóri á Skallagrím RE 145, en á honum sigldi hann margsinnis um kafbátaslóðir þjóðverja á stríðsárunum og lét ekkert aftra sér að koma skipreka mönnum til hjálpar ef svo bar undir. Hápúnktur skipstjórnarferils Sigurðar var þegar hann stýrði bæjarútgerðartogaranum Hallveigu Fróðadóttur RE 203. Sigurður lauk farsælum togaraferli sínum á Ingólfi Arnarsyni RE, en eftir það fór hann að starfa að ýmsu heima á Eyrarbakka. Sigurður var um skeið stjórnarformaður Skipstjóra og stýrimannafélagsins Ægis í Reykjavík og skrifaði hann oft greinar í sjómannablaðið Víking. Helsta áhugasvið hans var siglingatækni íslendinga á miðöldum. Honum var einkar hjartfólgin saga Eyrbekkingsins Bjarna Herjólfssonar frá Drepstokki, er sigldi fyrstur manna meðfram austurströnd Ameríku ásamt áhöfn sinni nokkru áður en Leifur heppni steig þar fæti.
Þegar Sigurður var kominn í land stóðu framfaramál þorpsins honum næst. Hann hóf að vinna að lendingarbótum fyrir báta Eyrbekkinga, stóð að rekstri Slippsins og upbyggingu Sjóminjasafnsins sem og varðveislu áraskipsins Farsæl, en það var eitt af mörgum sem Steinn Guðmundsson í Steinsbæ smíðaði á sínum tíma. Hann var um tíma í stjórn Hraðfrystistöðvarinnar og var forgöngumaður um tilraunir til humarveiða ásamt Vigfúsi Jónssyni oddvita og Magnúsi Magnússyni í Laufási.
Sigurður kenndi um nokkur ár í Barnaskólanum á Eyrarbakka, m.a. íslandssögu og smíðar, en einnig sjóvinnu. Þá kenndi hann sjóvinnu og siglingafræði við gagnfræðaskólann á Selfossi um skeið. Sigurður stundaði einnig stórtæka kartöflurækt á Eyrarbakka og hafði af því lífsviðurværi fram á efri ár.
Sigurður var sonur Guðjóns Jónssonar bónda og formanns á Litlu Háeyri og Jóhönnu Jónsdóttur frá Minna Núpi. Faðir Guðjóns var Jón Jónsson bóndi og formaður frá Litlu Háeyri, en kona hans var Þórdís Þorsteinsdóttir frá Simbakoti, systir Elínar seinni konu Þorleifs Kolbeinssonar ríka á Stóru Háeyri.
Byggt á minningagreinum Mogunblaðsins um Sigurð Guðjónsson.
10.05.2009 21:15
Fiskhaldari biskups
Klemens Jónsson hét bóndi er bjó í Einarshöfn á Eyrarbakka. Hann var bæði skipasmiður og formaður á egin skipi, en auk þess hafði hann umsjón með fiski Skálholtsbiskups á Eyrarbakka. Þann 7.júli 1728 lagði Jón Árnason biskup (1722-1743) fyrir Klemens að hann sýni kaupmanninum á Eyrarbakka gamlann fisk sem biskup átti og velja eitthvað úr honum ef hann vilji. Þar næst skuli hann láta Norðlendinga þá er beðið höfðu um fisk, hvern um sig hafa það er hann hafi þeim ávísað og það af þeim fiski sem kaupmaður vildi ekki, en væri þó sæmilegur fyrir íslenska. Þar á eftir mátti Klemens að selja öðrum á 5 hesta fyrir 20 álnir hvert hundrað fiska. En það af fiskinum sem maltur væri orðinn eða það lélegur að ekki gengi út á þessu verði, vildi biskup eiga sjálfur til heimabrúks og handa flökkulýðnum er gerði sig heimankomna að Skálholti dag hvern. Jón var með stjórnsamari biskupum landsins en gerði ekki betur en að halda í horfinu um fjárhag stólsins og var hann þó fjárgæslu- og reglumaður. Það kann að vera skýringin á því að hann valdi sér lélegasta fiskinn. Áður hafði Jón verið skólameistari á Hólum og er það líklega ástæðan fyrir því að honum þótti vænna um norðanmenn en aðra.
Heimild: m.a.(Saga Eyrarbakka) Lesb.Morgunbl.22.tbl.1959
18.03.2009 21:22
Tóta gamla Gests í Garðbæ
Þórunn Gestsdóttir var fædd 17.mars 1872 að Króki í Meðallandi. Foreldrar hennar voru Gestur Þorsteinsson (Sverrissonar) og Guðrún Pétursdóttir frá Hrútafelli undir Austur Eyjafjöllum. Þórunn ólst upp hjá ömmu sinni og nöfnu Þórunni Jónsdóttur á Kirkjubæjarklaustri. Árið 1883 á 11. ári Þórunnar flutti hún búferlum með ömmu sinni úr V-Skaftafellssýslu og að Valdastöðum í Kaldaðarneshverfi til Olgeirs sonar síns, en Olgeir flutti ári síðar út í Selvog og fór þá gamla konan aftur að basla við búskap.
Þarna var Þórunn hjá ömmu sinni ásamt mállausum föðurbróðir sínum þangað til kaldaðarneskotin (Valdastaðir, Lambastaðir og Móakot) voru sameinuð í eina jörð og Kaldaðarnes (Kallaðarnes) gert að stórbýli af Sigurði sýslumanni Ólafssyni.
Á vetrum fór föðurbróðir Þórunnar til sjáróðra á Eyrarbakka en nöfnunar tvær gengdu húsverkunum á Valdastöðum. Bústofninn var 30 kindur, 3 kýr og 6 hross. Það gat komið fyrir á vetrum að Ölfusá gerði óskunda þegar hún flæddi yfir bakka sína með jakaburði og skildi tún eftir í sárum full af sandi og grjóti. Ölfusá átti það líka til að flæða inn í fjárhúsin án þess að nokkrum vörnum yrði við komið og verða skepnum þar að fjörtjóni.
Þegar amma Þórunnar hætti búskap fóru þau öll til vinnu hjá sýslumanninum og voru þar til gamla konan dó. Næstu fimm árin eftir lát ömmu sinnar var Þórunn vinnukona á Valdastöðum, en þaðan fór hún svo til Eyrarbakka og gerðist lausakona. Þá fór hún í kaupavinnu á sumrin og var lengst af á Bjóluhjáleigu. Á vetrum var hún oftast hjá Jóni Árnasyni kaupmanni í Þorlákshöfn og kyntist hún þar tilvonandi manni sínum, Ólafi í Garðbæ á Eyrarbakka, en hann var þá sendisveinn Guðlaugs Pálssonar kaupmanns á Eyrarbakka. Ólafur var maður stór, þrekinn, prúðmenni, hæglátur og góðgjarn í tali, en Þórunn aftur fjörug og hláturmild. Árin 1902 til 1903 vann Þórunn í eldhúsinu hjá frú Guðmundu Nilsen í Húsinu og lærði þar matreiðslu. Þórunn og Ólafur eignuðust tvær dætur, Ragnheiði og Karen en hún dó um tvítugt.
Þórunn fékk vinnu við verslunina á Eyrarbakka en féll ekki við að troða ull í poka allt sumarið. Hún var vön á sumrin við að vinna úti í hinni lifandi náttúru við grös og skepnur. Hún braut heilan um það hvernig hún gæti eignast kind, bara eitt lítið lamb. Og svo kom að því að hún keypti lamb. En Ólafi leist ekki á þetta framtak og sagði: "Tja, hvað ætlar þú nú að gera við þetta?
Þórunn dró af kaupinu sínu 4 krónur og fyrir það fékk hún fallega svarta gimbur. Þetta gerði hún á hverju ári þar til hún hafði eignast 7 kindur. Kindunum fjölgaði og hún hætti að troða ull í poka og fór að heyja á engjunum handa kindunum sínum. Þegar fyrra stríðið skall á þá sagði Ólafur" Tja, nú er gott að þurfa ekki að kaupa kjöt"
Þórunn hafði rétt á engjastykki í Straumnesi, en tjald sitt hafði hún á Stakkhól og dvaldi þar 6 vikur á sumri og heyjaði 100 til 114 hesta af stör. Á engjunum heyjuðu flestir Eyrbekkingar og lágu þar við yfir sláttin en komu aðeins heim um helgar. Allir hjálpuðust að við heybindingar og flutning niður á Bakka.
Þórunn ann kindunum sínum af lífi og sál. Á vorin vaknaði hún snemma morguns til að fara út á mýri, til þess að líta eftir blessuðum kindunum,og lét ekki aftra sér þó oft væri þar kalsamt og blautt. Engu skipti hvort var dagur eða nótt þegar kindurnar voru annars vegar. Stundum var henni ekki svefnsamt fyrir áhyggjum af litlu lömbunum og dreif hún sig þá út á mýri um miðjar nætur. En svo kom mæðuveikin og varð Þórunn að fella sínar 30 kindur vegna þess. En Tóta ætlar ekki að troða ull, og því tók hún það til bragðs að kaupa kú sem *Búkolla hét og eina kvígu og nokkrar hænur, auk þess sem hún ræktaði kartöflur og gulrætur. Lifði hún á þessu eftir að Ólafur hennar féll frá og var hún enn að þó kominn væri á tíræðis aldur. Eflaust muna margir Eyrbekkingar enn þann dag í dag eftir henni Tótu Gests. Þórunn dó 19. júní 1967 þá 95 ára gömul.
Heimild: Morgunblaðið 63.tbl.1952
*Kýrin hét "Gulrót" og hana keypti Þórunn af Lýð Pálssyni í Litlu Sandvík fyrir gulrætur sbr. blogg Lýðs yngri.
22.11.2008 21:31
Sigurjón teiknaði í fjörusandinn
Sigurjón Ólafasson myndhöggvari fæddist í Einarshöfn á Eyrarbakka 21. oktober 1908 og var þar til heimilis fyrstu fjórtán ár æfi sinnar. Hann var sonur Ólafs Árnasonar (1855-1935) verkamanns og Gurúnar Gísladóttur (1867-1958). Nafngift Sigurjóns kemur til af þakkarskuld foreldra hans við hjónin Sigríði Gísladóttur og Jóns Gamalíelssonar frá Eystri Loftstöðum í Flóa, en þau höfðu tekið Árna, bróður Sigurjóns í fóstur vegna fátæktar þeirra Ólafs og Guðrúnar.
Sigurjón hafði snemma mikinn áhuga á teikningu og nýtti hann sér fjörusandinn til að iðka þessa listgrein. Í sandinn teiknaði hann andlitsdrætti þekktra manna á Eyrarbakka, t.d. Jón hafnleiðsögumann í Norðurkoti og áttu önnur börn sem léku þennan teiknileik með Sigurjóni að geta upp á hverjir ættu þá andlitsdrætti sem hann dró upp og þótti þetta hinn skemtilegasti leikur.
En fjörusandurinn nægði Sigurjóni ekki einn og sér og því tók hann það til bragðs að snapa umbúðarpappír í einni krambúðinni sem hann notaði heima í Einarshöfn til að teikna á seglskip sem lónuðu úti fyrir höfninni.
Á barnaskólaárunum teiknaði Sigurjón fjölda mynda af húsunum á Bakkanum og öllu því sem fyrir augu bar. Sigurjón flutti til Reykjavíkur árið 1923, en árið 1928 fer hann út til náms í myndhöggi við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn.
Sigurjón lést í Reykjavík 1982. Hann vann jafnhliða abstrakt- og raunsæisverk og er talinn einn fremsti portrettlistamaður sinnar samtíðar.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar
Heimild: Úr ritgerð Sigurjóns B Hafsteinssonar: Lesb.mbl.10.jún.1990