Flokkur: Fólkið.
03.04.2011 00:29
Skankaveldi
Svo var fyrirtæki nefnt er stýrði Jón Geirmundsson í Norðurkoti á Eyrarbakka. Jón keypti aflóga húðjálka til slátrunar fyrir lítið sem ekkert og seldi síðan af þeim kjötið, en reyktar hrossalappirnar seldi hann fátækum fyrir slikk. Kölluðu gárungarnir því fyrirtæki þetta "Skankaveldi", en af þessu efnaðist hann nokkuð. Jón hafði reikning í Eyrarbakkaverslun er hann tók út á ýmsan búðarvarning og seldi svo dýrar á vetrum þegar vöruskortur gerði vart við sig eins og aðrir smáhönlarar þess tíma. Sumt af því sem var til sölu í "Skankaveldi" var talið illa fengið, en Jón var kenndur við þjófafélag nokkurt er í voru Snorri Geirmundsson lausamaður og Páll Hafliðason tómthúsmaður á Skúmstöðum, en þeir voru grunaðir um að sækja sér varning í verslunina að næturlagi.
Fyrri kona Jóns hét Halla dóttir Jóns-lána. Hún þótti forkunnar fríð og efnileg. Gerði hún sér gjarnan dælt við Sigurð stúdent Sívertsen er þá var við Eyrarbakkaverslun, en þó í mesta sakleysi. Jón var hinsvegar afbrigðissamur mjög og er hann gallt líku líkt með Gróu Jónsdóttur vinnukonu á Skúmstöðum leiddi það til óléttu. Það var til þess að Halla gekk frá honum og fór til Sigurðar stúdents sem hún giftist síðar. Jóni varð svo um þennan eftirmála að hann lokaði sig inni, bar grjót fyrir hurð og kveikti í kotinu. Menn sáu reykinn stíga upp, en komust eigi inn fyrr en Eiríkur Sverrisson kom á staðinn. Hann var tveggja manna maki að afli og hljóp hann á hurðina sem brotnaði í spón. Tókst þá að bjarga Jóni er nær var andaður og lá hann lengi á eftir. Um þennan atburð var ort vísa:
Heiftin geisar hart um torg,
herðir kölski ganginn.
Skankaveldis brunnin borg,
buðlung hennar fanginn.
Jón fór næst að Stóra-Hrauni árið 1823 og bjó þar í eitt ár, en fór síðan að Stéttum í Hraunshverfi. Hann kvæntist þar Kristínu Hannesdóttur frá Litla-Hrauni. Þá gekk hann í flokk Kambránsmanna sem frægt var og dæmdur til æfilangrar refsivistar eftir þann atburð, en brotamennirnir fengu sakaruppgjöf 1844 að Sigurði Gottsveinssyni undanskildum, en hann var líflátinn fyrir að drepa fangavörð. Jón var ættaður frá Götu á Stokkseyri.
Heimild: Saga Þuríðar formanns.
29.03.2011 23:36
Ei skal flana að fuglsins ráði
Markús gamli Á Hellum var eitt sinn að leita að vaði yfir Hraunsá, en brú var þá ekki komin þar yfir. Markús er á gangi meðfram árbakkanum þegar fugl kemur fljúgandi og segir: "Viddivi, viddivi". Markúsi heyrist fuglinn vera að spyrja hvort hann vilji yfir og segir því "já, já" við fuglinn. "Vaddútí, Vaddútí" sagði þá fuglinn og hlýddi Markús þessum boðum refjalaust og óð út í ána. Markús sökk þegar upp að höku og varð bálreiður ófétis fuglinum fyrir að ginna sig í hyldjúpa ána og hellti yfir hann skömmum og svívirðingum. Segir þá fulinn "Vaddu voduj, vaddu votuj"? Ó já, víst var ég votur eins og þú sérð skömmin þín, sagði Markús og síst er þér að þakka að ég sé enn á lífi. "Viddudi, viddudi" sagði fuglinn. Já einmitt sagði Markús og tók til við að vinda föt sín, en á meðan flaug fulinn burt og sagði "ó, hæ, ó, hæ, ó, hæ".
Stríðnisfuglinn er "jarðrakan" en sagan er til í tveim útgáfum, Önnur eftir frásögn P. Nielsen en þessi í meginatriðum eftir Jóni Pálssyni í Austantórum.
26.03.2011 00:24
"Svona var að senda flöskuna tóma"
Kolbeinn hét maður Jónson ættaður af Lómatjörn í S-Þingeyjasýslu (f.15.09.1756). Það hafði verið mikill snjóavetur á Suðurlandi og skömmu eftir nýár 1788 var Jón Þórðarson (ríki í Móhúsum) þá ungur að árum, að byggja snjóskála fram af fjósinu hjá fósturforeldrum sínum á Refstokki. Hann verður þess þá var að ókunnur maður stendur og starir þögull á sig. Jóni bregður í brún og spyr hver maðurinn sé, en hinn ansar engu. Spyr Jón þá aftur " Hvaðan ber þig að og hvert er erindið"? Svarar þá maðurinn "Kolur er ég nefndur og kem að norðan, en fái ég gistingu í nótt má vera að meir fáir þú að vita af mér og ferðum mínum, en skaltu nú láta þetta, þér nóg vera". Eftir litla þögn sagði Jón " Þú er drjúgur yfir þér, en svo líst mér að þú sért ekki allur þar sem þú ert séður" Fékk Kolur þá gistinguna og var þeim vel til vina.
Kolbeinn var faðir Jóns Kolbeinssonar eldri (f.1789), Hafliða (f. 1756-Kambránsmanns), Steingríms (f. 1824- drukknaði ásamt Hafliða 1846) og Þorleifs ríka á Háeyri (f. 1798), Sigríðar (f. 1793-Sigga Kola var einsetukona) Helgu (f. 1749-dó ung) Guðbjargar vinnukonu (f.1799), Jóns yngra (f. 1800-Kambránsmanns) Málfríðar (f. 1806-Vesturfara) og Ólafar vinnukonu (f.1807), en kona hans fyrri hét Þuríður Jónsdóttir frá Eyrarbakka, en önnur kona hans var Ólöf Hafliðadóttir úr Holtum, og sú þriðja hét Aldís. Eftir að Jón ríki fór að búa á Móhúsum byggði Kolbeinn bæ þar skamt frá á "Stelpuheiði" er nefdist Upp-Ranakot.
Sagt er að draugur eða álfur hafi haft Kolbein með sér um þriggja daga skeið, en hann lét þó aldrei uppi hvað með þeim fór, en víst var að skuggalegur náungi með skotthúfu hafi leitað Kolbein uppi um langan veg uns þeim bar saman að Upp-Ranakoti. Oft var þröngt í búi hjá Kola og kvað hann svo um sjálfan sig þegar hann kom heim af vertíð með fimm fiska:
Heldur Kolur heim úr veri,
hlut með rýran,
Engan mola á af sméri,
og illa býr hann.
Kolbeinn átti sérstaka og fágæta flösku er af sjó hafði rekið. Hún var áttstrend og þótti forkunnar fögur. Flösku þessa var Kolur vanur að senda Þorleifi á Háeyri og fékk hana til baka fulla af brennivíni, en dag einn kom flaskan tóm aftur frá Þorleifi og setti Kol þá hljóðan. Flöskuna sendi hann ekki oftar. Þegar Kolur var látinn, vildi Þorleifur skenkja líkmönnum brennivín úr flöskunni fögru og lagði hana ofur varlega á borðið, en í þeim svifum klofnar flaskan að endilöngu svo vínið flóði fram og ekki dropi varð eftir. Brá Þorleifi og varð hann fölur og fár við, en sagði svo hálfhátt "Svona var að senda flöskuna tóma"! Var þetta síðan haft að orðatiltæki þegar menn sáu um seinan hvað rétt bar að gera.
Heimild: Austantórur, Saga Þuríðar formanns.
13.03.2011 00:50
Hafnsögumenn
Það þótti heiðursstarf að vera "lóðs" á Eyrarbakka í þá tíð sem kölluð hefur verið "skútuöld". Það voru jafnan tveir til þrír menn sem gengdu þessu starfi á hverjum tíma. Árið 1754 voru laun hafnsögumanna, sómasamleg föt og 80 skildingar á viku á meðan skip voru á legunni. Hlutverk þeirra var að "lóðsa" skipin inn og út um sundið og báru þeir ábyrgð á að festur væru tryggar á legunni, stjórnuðu öllum tilfærslum í höfninni og voru nokkurskonar yfirvald á meðan skipin lágu fyrir.
Eftirtaldir Eyrbekkingar gengdu þessu starfi:
1754 Tómas Þorsteinsson og Heller.
1764 Bjarni Magnússon og Jón Bjarnason.
1776 Jón Bjarnason (lóðs í 17 ár) og Bjarni Jónsson á Skúmstöðum.
1785 Jón Jónsson í Eyvakoti og Jón Magnússon í Mundakoti.
1794 Kristján Bergson í Garðinum og Jón Bjarnason á Litlu-Háeyri.
1826 Helgi Vernharðsson og Guðmundur Þórðarsson á Skúmstöðum.
1831 Vernharður Helgason og Guðmundur Þórðarsson á Skúmstöðum.
1867 Ólafur Teitsson í Einarshöfn og Vernharður Helgason.
1887 Magnús Ormsson í Einarshöfn og Ólafur Teitsson og Sigurður Teitsson.
1899 Jón Sigurðsson í Túni og Ólafur Teitsson og Magnús Ormsson.
1900 Árni Helgason Akri og Jón Sigurðsson í Túni.
Á Stokkseyri voru hafnsögumenn undir lok skútualdar "Jónarnir fjórir".
Jón Sturlaugsson, Jón Jónsson, Jón Grímsson og Jón Adólfsson.
Heimild: Austantórur, Saga Stokkseyrar.
10.03.2011 00:47
Skipasmiðir
Fyrsta hafskipið sem smíðað var á Eyrarbakka svo vitað sé, var kaupskip smíðað árið 1338 og gekk það til Noregs það sama sumar. Ekki er vitað um önnur farmskip smíðuð á Eyrarbakka, þar til Brynjólfur biskup Sveinsson lét smíða stórt skip árið1652 á Bakkanum. Var það farmskip, 20 álnir um kjöl. Ormur Indriðason, (d.1661) sem kenndur var við Skúmstaði á Eyrarbakka var sagður skipasmiður og má leiða líkum að því að hann hafi komið að smíði þess ásamt Brynjólfi skipasmið á Rekstokki, Sveinbjarnarsonar, bónda á Skúmstöðum, en Brynjólfur var samtíða Ormi.
Klemenz Jónsson (1687-1746) frá Einarshöfn var formaður í Þorlákshöfn og umsjónarmaður með fiski biskups á Eyrarbakka. Hann var einnig sagður skipasmiður og hefur eflaust smíðað skip það er hann var formaður fyrir.
Tómas Þorsteinsson (1699-1754) frá Skúmstöðum var sagður skipasmiður.
Brandur Magnússon (1727-1821) í Roðgúl á Stokkseyri var hagleikssmiður á járn og tré og afar uppfyndingasamur. Hann var einnig rammur að afli svo af var látið. Hann smíðaði mörg skip, en sjálfur var hann formaður í 60 ár á "Bæringi" er hann smíðaði með sínu sérstaka lagi og þótti það betra sjóskip en önnur á þeim tíma. (Stærð þess var 9.5 X 4,5 alin). Hann tók upp á því að járnslá árahlumma og stafn og var skip hans kallað "Járnnefur" upp frá því. Smíðahamar hans var tvískallaður og vóg 3 pund, en þennan hamar eignaðist Helgi Jónsson (1810-1867) á Ásgautsstöðum. Jón Snorrason (1764-1846) skipasmiður í Nesi, nam skipslagið af Brandi og hafði öll skip sín með "Brandslagi". Samtíða honum var Þorkell Jónsson (1766-1820) á Háeyri, en hann smíðaði mörg skip og sauminn sló hann sjálfur í smiðju sinni, enda jafn hagur á járn og tré.
Jón Gíslason frá Kalastöðum var skipasmiður en auk þess listasmiður á járn og kopar. Árið 1859 smíðaði hann skipið "Fortúna" úr viðjum kaupskipsins "Absalon" sem strandaði á Eyrarbakka 15. maí 1859 og átti Grímur bróðir hans þann bát. Um 1860 smíðaði hann áttróinn sexæring fyrir Guðmund Þorkellsson á Gamla-Hrauni. Hét sá bátur "Bifur" og var mjórri og í minna lagi en gerðist með sexæringa á þeim tíma. Báturinn þótti hinsvegar einstök gangstroka og léttur undir árum.
Steinn Guðmundsson í Einarshöfn var skipasmiður góður. Skip hans voru með nýju lagi er kallaðist "Steinslag" og tóku öðrum skipum fram í brimsiglingu og voru vönduð og góð sjóskip. Fyrir það var hann heiðraður af konungi Christian IX. Þá hafði hann smíðað 138 skip með þessu nýja lagi, en í allt smíðaði Steinn 300 skip. Hann var það afkastamikill að hann gat smíðað eitt skip á 12 dögum. Á Sjóminjasafninu er eina eintakið sem eftir er af skipum Steins, en það er "Farsæll" sem Steinn smíðaði fyrir Pál hreppstjóra Grímssonar í Nesi, en þessu skipi var bjargað á elleftu stundu frá eyðileggingu af Sigurði Guðjónssyni á Litlu-Háeyri. "Farsæll" er seglbúið skip, en Steinn var fyrstur skipasmiða sunnanlands til að búa áraskip seglum. Skip hans þóttu happafleytur, en aðeins er vitað um eitt skip frá honum sem farist hefur.
Samtíða Steini Guðmundssyni var Jóhannes Árnason (1840-1923) á Stéttum. Skip hans voru einnig með hinu nýja "Steinslagi" en þau þóttu öruggari og viðtaksbetri á brimsundunum og svipurinn fallegur með skásett stefni. Meðal skipa hans var "Svanur" er áttu Gamla-Hraunsfeðgar. Síðasta skipið smíðaði hann árið 1916 og voru smiðslaun þá 70 kr fyrir skipið.
Hallgrímur Jóhannesson (1851-1912) skipasmiður frá Borg í Hraunshvefi (Síðar Kalastöðum og brimvörður á Stokkseyri) tók einnig upp nýja skipslagið hans Steins, en Hallgrímur var einnig hagur járnsmiður og voru skautar hans annálaðir og eftirsóttir af skautaunnendum, en þeir voru ófáir í þá tíð.
Sigurjón Jóhannesson (1865-1946) á Gamla-Hrauni var meðal síðustu skipasmiða á skútuöld ásamt Einari syni sínum (1889-1948) frá Sunnuhvoli á Stokkseyri. Einar var hinsvegar með fyrstu vélbátasmiðum Sunnlendinga, en hann smíðaði vélbátinn "Björgvin" ásamt Jóhannesi bróður sínum og Þorkeli þorkellssyni á Gamla-Hrauni. Bát þennan gerðu þeir út frá Stokkseyri.
Heimildir: Saga Stokkseyrar,Saga Eyrarbakka, Austantórur.
07.03.2011 23:18
Einar í Útgörðum
Einar Loftsson í Útgörðum var fátækur maður. Einhverju sinni fór hann út á Bakka og teimdi sína einu bikkju og var hún með einhverjum baggaskjöttum á. Mætir þá honum maður nokkur og segir við hann. " Hún er ekki löng lestin þín Einar minn". "Onei" sagði Einar, "ég hermmdi ekki nema í þessa einu bikkju úr stóðinu mínu í morgun".
Heimild: Austantórur.
06.03.2011 01:17
Stína í Koti og Þórey gamla
Þær stöllur Kristín í Norðurkoti og Þórey gamla í Eyvakoti Guðmundsdóttir, höfðu þau forréttindi að meiga fyrstar opna glervörukörfurnar í Vesturbúð, þá er skip hafði komið. Máttu þær velja það sem þær gátu komist yfir og keypt. Kerlingar þessar riðu um Sunnlenskar sveitir og gáfu völdum frúm og bændakonum þessi djásn, ásamt orlofskökum, silkihandalínum, svuntu og peisufataefnum í skiptum fyrir ýmsa bændavörur. Þær nutu þessara forréttinda til margra ára, enda leit verslunin á þetta framtak sem bestu auglýsinguna sína.
Heimild: Austantórur.
20.02.2011 01:23
Att kappi við tímann
Einhverju sinni sem oftar lá Segskipið "Elbo Frederica" á höfninni á Eyrarbakka og beið þess að skipað væri út í það saltfisk sem lá þar tilbúinn til útskipunar, en brim og sjávargangur hafði hamlað því um daga að fiskurinn kæmist um borð í Elbo. Morgunn einn þegar menn komu til vinnu sinnar í bráðabítið, var Lefolii gamli þar fyrir og ræddi við verkstjórann, sem lét að því búnu það boð út ganga að svo væri um samið við verslunina, að farmurinn seldist mun hærra verði ef skipið væri fullfermt í síðasta lagi þennan dag og ef það kæmist út af höfninni egi síðar en næsta dag. Ef þetta gengi ekki eftir myndu vátryggingargjöldin hækka til mikilla muna.
Lefolii gamli bað því alla að gera sitt svo að þetta mætti verða og hét hverjum manni 2 króna kauphækkun daginn þann, auk 10 króna verðhækkun á hvert skipspund fiskjar er þá væri komið í hús, hvort sem rúmaðist í skipi eða ekki. Það sem Lefolii gamli sagði gátu menn gengið að sem vísu, því sjaldan brá það við að hann efndi ekki gefin loforð. Komst þá hver fiskuggi um borð fyrir kl. 10 um kvöldið og skjöl öll og pappírar undirritaðir skömmu fyrir miðnætti. Elbo komst svo út fullhlaðið á morgunflóðinu þrátt fyrir nokkuð ókyrran sjó og kaupmaðurinn stóð við sitt.
Heimild. Austantórur 2
17.02.2011 00:10
Siggi-fjórði
Kona ein á Bakkanum hafði haft nokkra vinnumenn, hvern á eftir öðrum og hétu þeir allir Sigurður. Einn þeirra var sá fjórði í röðinni og hlaut hann viðurnefnið "Siggi-fjórði". Hans lífsstarf varð síðan að salta og pækla lax í Vesturbúð, en laxinn var þá verðmætasta útflutningsvara verslunarinnar. Hann fékk árlega sérstaka viðurkenningu fyrir starf sitt, enda vandvirkur mjög og fagmannslegur. Siggi-fjórði átti fagurgerða græna tunnu (4ra potta) með svörtum gjörðum. Í tunnu þessa fékk hann bónusinn sem greiddur var í góðu brennivíni, þann daginn sem skipið sigldi heilu og höldnu út úr Bússusundi með laxinn innbyrðis, en svo hafði um samist.
Siggi-fjórði vaknaði eldsnemma daginn þann, er skipið átti að fara. Með græna kútinn undir hendinni stóð hann í sjógarðshliði og vonaði að um háflæðið mundi skútan losa festar og sigla út sundið með laxinn góða. En eitthvað var "Ægir gamli" kenjóttur þessa dagana og gerði Sigurði nokkurn hrekk. Skömmu fyrir flóð brast hann á með brimróti, svo ekki lagði skipið út þennan daginn né heldur hina næstu. Siggi leitaði fregna hjá hafnsögumanninum, en hann gat engu lofað um hina langþráðu stund. Siggi var þó sífelt á höttunum framm í hliði, til að sjá hvað sjónum leið og bað fyrir sjálfum sér, skipinu og laxinum og jafnvel til vonar og vara, bað hann fyrir Lefolii gamla líka.
Svo rann sá dagur upp að skipið fékk losað festar. Lóðs og hásetar voru komnir um borð og lagt var á sundið þó svo sjór væri enn nokkuð ókyrr. Siggi-fjórði stóð á sínum stað með öndina í hálsinum, blýskorðaður við vegginn frammi í sjógarðshliði með kútinn undir hendinni og mændi á skipið, en mælti ekki orð af vörum uns skútan skreið fyrir ysta boðann. Sagði þá við sjálfan sig, en hálf hátt svo aðrir heyrðu-"Gussé lof, þa'slappann". Hljóp hann síðan sem fætur toguðu fram í búð og fékk sína umbun úti lagða, s.s. gott brennivín.
Heimild: Austantórur 2
23.01.2011 23:41
Ránka mjóva
Rannveig Jónsdóttir mjóva (um 1584-1654) sat á Háeyri árin 1635-1654. Hún var yngsta dóttir Jóns sýslumanns Björnssonar prófasts á Melstað og Guðrúnar Árnadóttur sýslumanns á Hlíðarenda. Ránka var aldrei við karlmann kend en stundaði útgerð af Eyrarbakka og Þorlákshöfn. Hún var nafntoguð fyrir örlæti í garð fátækra og þurfandi. Ráðsmaður hjá henni var lengi frændi hennar Sigurður Bjarnason frá Stokkseyri, föðurbróðir galdrakvendisinns Stokkseyrar-Disu. Skip eitt lét Rannveig smíða á efri árum sínum, áttæring er fórst spónnýr í jómfrúarferð sinni frá Eyrarbakka 2. febrúar 1653 með allri áhöfn 9 mönnum og urðu þá 20 börn á hennar heimili föðurlaus.
Um Þorrakomu ári síðar rak mikinn karfa austur með Eyrarbakka og Hafnarskeiði, og var fiskurinn seldur upp um sveitir, hundraðið á 5 álnir og var stórt gagn þeim sveitum. Á Háeyri á Eyrarbakka báru tveir menn á lítilli stundu úr flæðarmáli og upp á land 16 hundruð karfa og höfðu helming þar af fyrir ómakið. Á Háeyri var þriggja stafgólfa grindahús kjaftfullt af fiski milli gafls og gáttar og öllu útbýtt til þurfandi og fátækra næstu tvær vikur, en það voru margir sem þurftu með. Þetta var seinasta góðverk Rannveigar, því að hún andaðist aðfaranótt 23. febrúar þá um veturinn. Hún hafði alltaf haft bænhús á Háeyri fyrir sig og heimafólk sitt, en hún var jörðuð í Stokkseyrarkirkjugarði að norðanverðu.
Heimild: V.G. Saga Eyrarbakka- Lesb.mbl.5.tbl.1955
19.01.2011 00:04
Elín í Akbraut
Nærri því hvert hús á Eyrarbakka á sína sögu. Sum hús fá ef til vill meiri athygli en önnur vegna þess að þar hafði einhvern tíman búið frægt eða auðugt fólk. Önnur hús eiga kanski ekki síður merkilega sögu vegna þess að tilvist þeirra ber þeirri lífsbáráttu vitni sem háð var, oft að litlum efnum og erfiðleikum. Mörg litlu snotru húsin á Bakkanum eiga á margan hátt sammerka sögu í átakanlegri lífsbaráttu alþýðufólks um aldamótin 1900.
Um og eftir 1870 voru vesturferðir (til Kanada) mjög í tísku og einn af þeim mörgu sem brá búi sínu í þeim tilgangi var Páll Andrésson í Gróf í Hrunamannahreppi Magnússonar frá Syðra-Langholti og kona hans Geirlaug Einarsdóttir Jónssonar frá Húsatóftum á Skeiðum. Það var árið 1872 sem þau héldu til niður á Eyrar, en þar sem Geirlaug var með barni, hugnaðist henni ekki að halda út á hafið mikla þegar tíminn kom að ýtt skildi úr vör. Þau settust því að á Grjótalæk austan Stokkseyrar. Þar fæddist Andrea Elín Pálsdóttir (1872-1950 ) og fluttu þau þá í Nýjabæ á Eyrarbakka næsta vor, þar sem Páll stundaði sjósókn á egin skipi og búskap jöfnum höndum. Páll fórst með skipi sínu við annan mann á Einarshafnarsundi 1894, en aðrir björguðust, þar á meðal Björgúlfur Ólafsson, er þá var trúlofaður Elínu. Þau settust að í Litlu-Háeyrarhverfi 1897. Eftir stutta sambúð missti hún Björgúlf frá kornungu barni (Pálína) og öðru ófæddu (Björg) og stóð hún ein og vann fyrir sér og börnum með saumaskap og handavinnu þar til árið 1907 að hún giftist Þorbirni Hjartarsyni (1879-1956) frá Auðsholtshjáleigu í Ölfusi og eignuðust þau fjögur börn. Þar sem fyrir var lítill torfbær breytti Þorbjörn í snoturt timburhús og nefndi Akbraut og stendur það enn og er friðað. Eftir þeirra dag bjó Geirlaug dóttir þeirra, (1914-2007) nær alla sína æfi í Akbraut.
Heimild: Tíminn 34.tbl. 1950-Morgunbl.31.tbl.1950. www.minjasafnreykjavikur.is www.mbl.is/mm/gagnasafn eyrarbakki.is
Sögur margra merkra húsa á Bakkanum má finna á eyrarbakki.is
http://www.eyrarbakki.is/um-eyrarbakka/husin-a-bakkanum
12.01.2011 22:22
Hraungerðismæðgur
Pálína Pálssdóttir í Hraungerði var fædd 9. maí 1891 að Háakoti í Fljótshlíð, en hún ól allan sinn aldur á Eyrarbakka. Faðir Pálínu, Páll Guðmundsson frá Strönd í Meðallandssveit, vertíðarmaður á Eyrarbakka dó af lungnabólgu áður en hún fæddist og ólst hún upp hjá móður sinni Þorgerði Halldórsdóttir frá Rauðnefsstöðum í Rangárvallasýslu og ömmu sinni sem þá var ekkja. Þær mæðgur, Ingveldur móðir Þorgerðar og Pálína fluttu sig til Eyrarbakka og voru þær jafnan kallaðar Hraungerðismæðgur. Pálína vann í mörg ár í "Húsinu" á Eyrarbakka, en það þótti góður skóli fyrir ungar stúlkur að ráðast þangað. Þær mæðgur Þorgerður og Pálína sáu um kirkjuna í mörg ár, og var þar ekki kastað til höndum. Pálína giftist árið 1913 ekkjumanni, Guðmundi Ebenesersyni skósmið, en ekki varð þeim barna auðið. Pálina var mikil söng og félagsmálakona. Hún gaf sig einnig að pólitík og var á hægri væng litrófsinns. Guðlaugur Pálsson kaupmaður ólst upp hjá þeim mæðgum í Hraungerði, en hann var sonarsonur Ingveldar.
Eitt sumar, er þær mæðgur voru í kaupavinnu, Þorgerður með dóttur sína á einum stað, en amman á öðrum, brann litla húsið sem þær leigðu á Bakkanum. Þar misstu þær hvert tangur og tetur, sem þær áttu, utan ígangsklæða í kaupavinnunni. Allt var þá ein öskuhrúga þegar þær komu aftur heim. Þar brunnu þrír skautbúningar með silfurbeltum, koffrum og dýrri handavinnu, arfur frá ríkari formæðrum. Enginn maður gaf þeim neitt, engin samskot voru höfð af efnaðra fólki eins og annars var venja á Bakkanum, þegar heldra fólk átti í hlut. Ef til vill varð sá atburður til að móta Pálinu sem öfluga félagsmálakonu, bæði á andlegum sem og pólitískum vettvangi.
Heimild: Morgunblaðið , 218. tbl.1983 - http://brim.123.is/blog/record/433319/ - www.eyrarbakki.is
09.01.2011 21:40
Heyrnleysingjaskólinn
Á Stóra-Hrauni á Eyrarbakka var heyrnleysingjaskóli 1893-1908. Það bar þannig til að á alþingi 1891 bar Magnús landshöfðingi Stephensen fram tillögu um, að landssjóður legði fram 1000 kr. til þess að styrkja mann til að læra málleysingjakennslu. Var það samþykkt í einu hljóði, og fór séra Ólafur Helgason í Gaulverjabæ samsumars til Danmerkur í því skyni. Séra Ólafur var ungur maður, fæddur 25. ágúst 1867, sonur Helga lektors Hálfdanarsonar og Þórhildar Tómasdóttur prófasts á Breiðabólsstað, Sæmundssonar. Skóli séra Ólafs hófst 1. október 1892. Hann var fyrst í Gaulverjabæ, en síðan að Stóra-Hrauni, þar sem hann byggði sér reisulegt hús 1893. Í skólanum voru 9-12 börn, enda var þar ekki rúm fyrir fleiri. Námstíminn var 6 ár. Séra Ólafur starfrækti skólann í 12. ár. Þá andaðist hann á leið til Kaupmannahafnar 19. febrúar 1904. Ekkja séra Ólafs, Kristín Ísleifsdóttir prests í Arnarbæli, Gíslasonar, hélt skólanum áfram næsta ár. En haustið 1905 tók séra Gísli Skúlason við stjórn skólans. Hann var fæddur 10. júní 1877, sonur Skúla prófasts á Breiðabólstað, Gíslasonar, og Guðrúnar Þorsteinsdóttur prests í Reykholti, Helgasonar. Málleysingjakennslu hafði hann numið í Kaupmannahöfn veturinn áður. Hann hafði skólann 3 ár, þangað til haustið 1908, en þá var skólinn fluttur til Reykjavíkur og gerður ríkisskóli.
sr. Gísli gekk að eiga Kristínu ekkju fyrirrennara síns 15. apríl 1909, og var allan sinn aldur prestur að Stóra-Hrauni. Hann andaðist 19. ágúst 1942. Ekki var málleysingjunum kennd önnur handiðn á Stóra-Hrauni en prjón, enda slæm aðstaða til annara hluta. Var þá um það rætt að flytja skólann til Eyrarbakka, þar sem betri væri aðstaðan að þessu leyti. Af því varð þó ekki, heldur var hann fluttur til Reykjavíkur haustið 1908, eins og fyrr var sagt.
Svo kvað Magnús Teitsson um sr. Ólaf:
Miðlar Guði af málunum,
með því þjóðin launi.
Sorgarinn fyrir sálunum
situr á Stóra-Hrauni.
(Stórbýlið og prestsetrið Stóra- Hraun var rifið og jafnað við jörðu árð 1937)
06.01.2011 22:55
Helga í Regin og Oddur
Helga Magnúsdóttir talsímakona f. 2.10.1867 í Vatnsdal í Fljótshlíð og maður hennar Oddur gullsmiður Oddsonar hreppstjóra á Sámstöðum fluttu til Eyrarbakka og byggðu sér hús á flötunum skammt frá Merkisteini árið 1898 og var húsið 8 x 11 m á stærð, loftbyggt með skúr fyrir annari hlið og gafli, mjög vönduðum. Húsið brann til kaldra kola tæpu ári síðar (Um miðnætti 19. janúar 1899). Það vildi þó til happs að Þorgrímur í Réttinni, kunnur Eyrbekkingur, var á leið til skips. Varð hann eldsins var og vakti heimilisfólkið. Mátti ekki tæpara standa og tókst fjölskyldunni með naumindum að komast úr eldslogunum. Einungis sængurfötum af einu rúmi var bjargað. Skautbúningar, ættargripir fjölskyldunnar og allir innanstokksmunir brunnu með húsinu. Talið var að eldsupptök hefðu verið frá skari af kertaljósi sem notað var við mjaltir kýrinnar þá um kvöldið. Helga og Oddur bjuggu síðan í Túni, Regin og Ingólfi. Þau hjónin tóku að sér símstöðina á Eyrarbakka þegar hann var lagður 1909 og mun Helga einkum hafa sinnt talsímaþjónustunni, en Oddur sá um línulagnir, viðgerðir og framkvæmdir auk gull og silfursmíði. Í þá daga var síminn handvirkur, þannig að tengja þurfti hvert símtal á skiptiborði og gat það orðið ærin vinna. Börn þeirra Magnús og síðan Jórunn tóku við símstöðinni í fyllingu tímans. Helga lést 7. mars 1949 en Oddur 1938.
Um Helgu orti Björn Bjarnason í Grafarholti eftirfarandi:
"Undra tól er talsíminn
töframætti sleginn.
Heyrir gegnum helli sinn
hún Helga mín í Reginn."
("Merkisteinn" brann fyrir nokkrum árum. "Réttin" stóð nokkurn vegin þar sem Litla Hraun er nú.)
Heimild: Eyrarbakki.is-mbl.is-tímarit.is, Dagskrá 29.tbl 1899. Þjóðviljinn ungi 23.tbl.1899
04.01.2011 23:42
Bakkakonur- Ólöf í Simbakoti
Ólöf Gunnarsdóttir f. 1868 í Moldartungu (Marteinstungu í Holtum) var einsetukerling er bjó í Simbakoti. Hún þótti stór og stæðileg og varð fjörgömul. Hún flæktist um og bætti flíkur fyrir fólk út um sveitir í mörg ár, þar til hún þurfti að leita til læknis á Eyrarbakka og upp frá því vildi hún hvergi annarstaðar vera. Hún gerðist ráðskona í Kirkjubæ um skamma hríð en keypti síðan Simbakotið af ekkju einni er Bjarghildur hét og bjó hún þar í fjölda mörg ár og stundaði, hænsnabúskap og kartöflurækt, þar til hún flutti í Vinaminni, það fræga hús sem nú var eitt minnsta og hrörlegasta timburhúsið á Bakkanum, þegar henni var gert að flytja þangað árið 1950, því til stóð að reisa samkomuhús og skóla á Simbakotslóðinni, en aldrei varð þó úr þeim framkvæmdum á þessum stað, annað en nokkuð stór hola. Hænsnabúskap hennar lauk þegar minnkur komst í búið sem enn var í uppistandandi baðstofunni í Simbakoti, og drap þær flestar, en hún hafði þá átt 20 verpandi hænur. Þá var Ólöf á níræðis aldri, en hún dó 1970 þá 102 ára. Í hjáverkum spann hún þráð og prjónaði og bætti flíkur á börn. Hafði hún af þessu lífsiðurværi sitt þar til hún fluttist á elliheimili í Hveragerði.
Heimild: Guðmundur Daníelsson-Þjóð í Önn 1965
Í Vinaminni bjuggu frægir menn, eins og Vilhjálmur S Vilhjálmsson rithöfundur og Hannes á Horninu kallaður. Sigurður Gíslason trésmiður og fleiri mætir menn og konur.