Flokkur: Fyrirbæri

29.09.2013 22:59

Álfar og Huldufólk.

ÁlfurFyrr á öldum hófst landnám álfa og huldufólks á Eyrarbakka og var byggð þeirra nokkuð víðfem um lönd þorpsins á 18 og 19. öldinni, en a.m.k tíu álfaheimili eru þekkt enn í dag. Sumir telja að íslensku álfarnir séu náskyldir hinum færeysku álfum, þó er ekki vitað með neinni vissu hvernig og hvaðan þeir bárust hingað, en álfatrúin hefur þó lifað lengi með þjóðinni. Álfar eru ósýnilegt fólk sem birtast aðalega í draumi, eða við sérstakar aðstæður og búa þeir yfirleitt í hólum eða klettum. Á Hulduhóli í landi Steinskots er bústaður álfa, en sagt er að álfar geti orðið mörghundruð ára gamlir. Simbakotshóll var álfabústaður í eina tíð og er sú þjóðsaga um hann, að strákur einn hafi tekið upp á því, að reka staf svo langt sem hann gat inn í hraunglufu, sem var á hólnum. Nóttina eftir vitjaði álfkona móður sveinsins í draumi og lagði fast að henni að vanda svo um við son sinn, að hann hætti þessum óvanda, gerði hún það eftir megni, en kom þó fyrir ekki, því strákur færist heldur í aukana, gengur svo þrisvar sinnum, en í hið síðasta sinn er álfkonan kom til móðurinnar er hún reiðilegust og segir, að nú hafi svo illa til tekist, að sonur hennar hafi meitt barn sitt með stafnum og skuli hann fyrir það aldrei ná þeim þroska, sem honum sé ætlaður og bera alla æfi sína merki heimsku sinnar og óhlýðni. Hermir þjóðsagan svo frá, að strákur hafi náð Iitlum þroska, orðið haltur og bægslaður og hinn mesti ólánsmaður.

Medía álfdrottningÍ Medíuhól vestan Álfstéttar bjuggu álfar fyrr á tímum. Fyrir neðan hann var staraflóð er nefndist Medíuflóð, segir ein þjóðsagan, að nýgiftur bóndi frá Steinskoti, hafi spýtt frá sér í allar áttir yfir þeim bábiljum og kerlingaþvaðri er af því gengu, að ekki mætti slá flóðið og ýmsum öðrum álögum staðanna og vísað því öllu norður og niður, haldið svo einn góðan veðurdag til flóðsins með orf og ljá um öxl og slegið flóðið, en við sláttinn hafi hann skyndilega veikst og dregist heim með veikum burðum og síðan aldrei meir á fætur stigið.

Í Skollhól við Hjalladæl er trúlega enn bústaður álfa, en um hann er sú þjóðsaga, að strákur frá Eyvakoti, hafi haft þar í frammi ærsl mikil, þess vegna hafi álfkona komið til móður sveinsins í draumi og beðið móðurina, sem hét Guðrún, að sjá um að sonur hennar legði niður ferðir sínar á hólinn, því annars muni hann sjálfa sig fyrir hitta. Vandar nú Guðrún um við son sinn og leggur ríkt á við hann að koma aldrei framar á Skollhól. Ekki er þess getið að hann héti móður sinni neinu góðu um það, en skamma stund mundi hann skipan hennar, því fám dögum síðar fannst hann dauður norður á Skollhól og var nálega brotið í honum hvert bein.

í Gunnhildarhól á Háeyrartúni bjuggu álfar, en ekki fara sögur af samskiptum þeirra við menn.

Í landi Hrauns neðan þjóðvegar eru hólarnir, Strokkhól, Miðmorgunshól og Krókhóll er voru bústaðir huldufólks og í eina tíð heyrði fólk þar rokkhljóð og strokkhljóð og sá loga þar ljós á kvöldum.

Í Litla-Hraunsstekkum búa álfar og flóðið þar mátti ekki slá því það var engi huldufólksins í Litla-Hraunsstekk. Er sú saga sögð, að Gísli Einarsson á Litla-Hrauni, hafi einu sinni slegið flóðið. Gísli átti þá tvær kýr, var önnur tímalaus, en hin snemmbær. Seint um haustið ætlaði Gísli að slátra tímalausu kúnni og fór með hana út á Bakka til þess, en þegar búið var að slátra kúnni, kom í ljós, að hann hafði tekið snemmbæruna í misgripum og mátti sjá á kálfinum, að kýrin var komin að burði. Eitt sinn tók Gísli Gíslason á Hrauni einn stein úr hólnum. Fótbrotnaði þá hryssa er hann átti og festi fótinn í holu, og varð að skera hana á staðnum þar sem fóturinn náðist ekki upp úr. Var þó fóturinn laus um leið og búið var að skera hana. Jónas Halldórsson í Borg, hafði eitt sinn reynt það að taka starartuggu úr flóðinu, er kýr veiktist og gefið henni það, og brást þá varla að henni batnaði.

Í Landi Skúmstaða norður af Einarshafnarhverfi, rétt norðan við þorpið, er lítill strýtumyndaður grjóthóll, sem heitir Katthóll og er hann bústaður álfa, en fyrir norðan hann er flóð, sem heitir Katthólsflóð. Enginn mátti slá flóðið og börnum var stranglega bönnuð öll ólæti við hólinn. Sagan segir að þegar Guðmundur kaupmaður á Eyrarbakka rak búskap með versluninni lét hann slá flóðið. Tvö fyrstu árin missti hann sinn stórgripinn hvort árið. Þriðja árið lét hann slá tjörnina, en þá dó Jónína dóttir hans. Hætti hann þá búskap og sigldi.

Í landi Óseyrarnes í svokallaðri Nautagirðingu eru Skollhólar og átti þar að vera álfakirkja og hvíldi mikil helgi á þeim.

Efst og austast í Háeyrarlandi er Vestri-Blakktjörn. Gömul munnmæli eru um að í henni sé nykur annað hvert ár, en hitt árið sé hann í Traðarholtsflóði.

Heimild: Eyrarbakki.is (Þjóðsögur Jóns Árnasonar og Guðna Jónssonar) http://sagnagrunnur.razorch.com.Álfar og Huldufólk.


25.09.2012 00:13

Moðsuða íslenskra húsmæðra

Moðsuða var stundum notuð af íslenskum húsmæðrum á fyrri styrjaldarárunum (1914-1918) þegar kol skorti mjög hér á landi: Aðferðin fólst í því, að taka matarpottana af eldinum, þegar soðið hafði hæfilega lengi í þeim, og birgja þá síðan svo vel, að ekkert loft komist að; við þessa einföldu aðferð hélst suðan í pottinum nægilega lengi til þess að sjóða matinn að fullu. Að þessu var eldiviðarsparnaður,og tímasparnaður við eldamennskuna, því ekki þurfti að standa við pottana til þess að hræra í þeim; grauturinn passaði sjálfan sig í moðsuðunni. Kassarnir sem pottarnir voru byrgðir í, voru venjulegast troðnir upp með moði eða heyi vegna þess að hey fellur svo vel að pottunum, en vel mátti nota fleira en hey til þessa, t. d. gamlar, hreinar tuskur eða samanundin dagblöð. Aðferð þessi var oftlega notuð í Húsinu á Eyrarbakka á fyrrihluta 20. aldar, en var einnig alþekkt aðferð erlendis á fyrri tímum.

Íslendingum mörgum þykir orðið "moðsuða" vera eitthvert skammaryrði um illa gerðan hlut, en vel má vera að landanum hafi sjaldan tekist vel með moðsuðuna og því tileinkað sér þetta orðfæri í þessari merkingu. Guðmunda Nielsen lýsir útbúnaðinum svo: Venjulegast eru notaðir algengir trékassar, en vel má nota ýms önnur ílát, t. d. ker, kirnur, tunnur o. fl. Á stórum heimilum er ágætt að nota tunnur, sem sagaðar eru sundur í miðju, og getur maður þannig fengið tvö góð moðsuðuílát úr einni tunnu. Lok eiga að vera í öllum moðsuðuílátum og falla þétt og vel. Ef trékassar eru notaðir, er bezt að hafa lokin á hjörum og festa þau niður með hespu og keng. Það er skemtilegast að láta smíða hæfilega kassa, en oftastnær má fá hjá kaupmönnum tilbúna kassa, sem geta verið ágætir. Hlemmarnir þurfa að vera góðir og falla vel að pottunum, því komist gufan upp úr þeim, fer suðan fljótlega af og maturinn verður kaldur og slæmur. Bezt er að hafa tréhlemma. Koddarnir þurfa helzt að vera tveir, annar minni og hinn stærri; litli koddinn er lagður beint ofan á pottinn, þegar byrgt er, og stóri koddinn þar ofan á; hann þarf að vera það stór, að hægt sé að troða honum niður með potthliðinni. Báða koddana má fylla með heyi, en þó er enn betra að hafa fiður í hinum minni. Utan um koddana þarf að hafa ver, sem hægt er að taka af og þvo þegar þörf gerist. Þá segir Guðmunda m.a. að grautar þurfa að standa í moði 2-3 tíma, en þola þó vel 5-6; sumir grautar, t. d. hafragrautur, geta vel staðið í moði heila nótt, en eru þá farnir að kólna töluvert að morgni.

Heimild: Guðmunda Nielsen, Þjóðólfi 1917

31.12.2011 12:00

Snjókarlakeppnin

Snæfinnur snjókarlSunna Bryndis og snjókallinn
Þessi  snjókarl (Snæfinnur) var búinn til af Sunnu Bryndísi og Söndru Dís í garðinum við Silfurtún 28.nóv sl.  Hann lifði í hálfan mánuð en þá komu einhverjir óprúttnir aðilar í garðinn þeira og spörkuðu hann niður, líklegt má þó telja að það hefði farið illa fyrir honum hvort sem er nokkrum dögum síðar þegar hlánaði all verulega hér á Bakkanum ;-)
Litli Snjómaðurinn
Litli Snjómaðurinn frá Hofi. (Harald og Stefanía)

Hákon Hugi & Snæfríður
Hákon Hugi og Snæfríður.

Þessar myndir bárust í snjókarlakeppnina 2011, Kosning um fegursta snjókarlinn fór fram á gamlársdag hjá veðurklúbbnum andvara og var "Snæfinnur" frá Silfurtúni hlutskarpastur og fær því titilinn Snjókarl ársins 2011.

Fyrir næstu fegurðarsamkeppni snjókarla má senda myndir til  brimgardur@gmail.com

04.07.2011 21:25

Lítil skrímslasaga

Stóra-HraunEinar Guðmundsson hét maður er átti heima að Stóra-Hrauni. Eitt sinn að morgni dags gekk hann til sjávar austur að Stokkseyri og sá hann þá til skrímslis sem var með tvo hnúða á baki og á stærð við húskofa. Öslaði skrímsli þetta í tjörnunum austan við Hraunsá en stefndi brátt til sjávar mót Einari. Þegar ferlíki þetta hafði nálgast hann nokkuð, brá Einar á það ráð að taka til fótanna og linnti ekki hlaupunum fyrr en heim var komið. Sá hann ekki meir af skrímsli þessu.

Heimild: Austantórur

21.12.2010 22:59

Í myrkum mánafjöllum

Tunglmyrkvinn að hefjast í morgunVetrarsólhvörf, eða vetrarsólstöður, eru þegar sól er lægst á lofti á norðurhveli jarðar og dagurinn stystur, en það er einmitt þessi dagur. Það er þó ekki fyrr en þann 25. des sem sól fer að rísa fyrr að morgni, en sólarlaginu er þó farið að seinka og á morgun lengist því dagurinn. Þá vildi svo til að í morgun um kl. 7:30 var tunglmyrkvi og sást hann vel héðan af Bakkanum. Við tunglmyrkva verður tunglið riðrautt um nokkurn tíma eins og sjá má hér á Í algleymingimyndunum sem teknar voru í morgun.

Það er svo ætið fagnaðrefni þegar daginn tekur að lengja og bæði kristnir og heiðnir halda sín blót af þessu tilefni.

 Tunglmyrkva að ljúka

12.04.2010 23:20

Um Helský

Mikil öskugos geta orðið í HekluMestu eldgos á jörðinn eru sprengigos sem framleiða gjóskuflóð eða helský. Fundist hafa forn gjóskuflóð í Þórsmörk úr Tindfjöllum o.fl. stöðum sem benda til gosa af þessari gerð. Helský valda gjöreyðingu þar sem þau flæða yfir en yfirleitt eru íslensk þeytigos of kraftlítil til að fara í þennan ham. Helský getur orðið til ef gjóska streymir með svo miklum hraða í stróknum sem stendur upp úr gígnum að hún nær ekki að blandast andrúmslofti, og fær því ekki lyftingu við að hita loftið, heldur þeytist skammt upp eins og í gosbrunni og fellur síðan til jarðar umhverfis gíginn eins og glóðandi snjóflóð.

Þegar gjóskuflóð renna yfir land rýkur úr þeim fín aska, gas og heitt loft og rís því mikill mökkur upp frá yfirborði flóðsins. Það er þó einungis fínasta askan sem losnar úr flóðinu og myndar stóran gjóskustrók upp í 20 til 50 km hæð, strók sem á rætur sínar í flóðinu en ekki yfir gígnum.

Ekki ljóst hvaða þættir stjórna krafti þeytigosa en margt bendir til að þar ráði stærð kvikuþróar mestu, því sterk fylgni er milli heildargosmagns og streymishraða í sprengigosum.

Heklugosið 1980 ÖskustrókurHelstu dæmin um helský eru þegar Mount St Helens sprakk 1980 og Mount Pelee á Martinique eyju sem gaus árið 1902 og varð 28.000 manns að aldurtila á einu auga bragði, og einnig gosið í Pinatubo á Filippseyjum 1991 sem var næstmesta gos á 20. öldinni. Mesta gos á síðustu öld var sprengigosið í  Movarupta í Alaska 1912 og heyrðist sprengidrunan í 750 km fjarlægð. Öskuflóðið lagði allt í rúst í 30 km. fjarlægð. Samskonar gos varð í eldfjallinu Tambora á eyjunni Jövu 1815. Þessi eldfjöll eiga það allt sameginlegt að vera ævagömul og með afarstóra kvikuþró.


Heim.:Haraldur Sigursson, Náttúrufr.63, 1993/ publicbookshelf.com/ geology.com > Geology Articles

03.04.2010 00:23

Gullregn

Horft í eldinn

Glóðagullið úr Fimmvörðuhálsi seiðir til sín áhorfendur víða að. Hér er fólk saman komið við Mögugil undir Þórólfsfelli í Fljótshlíð, en þaðan sést vel til gosstöðvana. Þangað er hægt að komast á jeppling, en yfir einn lítinn ársvelg þarf að fara til að komast inn á aurarnar. Best er á að horfa í ljósaskiptunum.


Gufar úr gosi
Þessi mynd er tekin við Fljótsdal. Þangað er nokkuð greiðfært litlum bílum, en minna sést til eldstöðvana þaðan í björtu. Stöðugur straumur ferðamanna inn í Fljótshlíð og á gosstöðvarnar hefur gert Rángvellingum kleift að blása kreppuna af.
Súmmað á gosið

Brunnin jörð og bráðið hraun,

bjart er fjallablóðið.

Eld er mörgum gangan raun,

er upp vill mannaflóðið.

Þessi mynd er ekki í fullum gæðum en hún er tekin með aðdrætti úr Fljótshlíð. Gott er að hafa góðan sjónauka meðferðis hafi menn hug á að fara þar inneftir. Ekkert útvarpssamband næst þar innfrá svo vissara er að skoða veðurspá og tilkynningar áður en lagt er af stað.

Þá má benda á flottar gosmyndir á vefnum: http://chris.is/ 

31.01.2010 19:50

Janúar í myndum

Eyjar rísa í hyllingum
Eyjarnar rísa í hillingum. Stokkseyrarfjara í forgrunni.
Baugstaðarviti
Baugstaðaviti. Eyjafjallajökull í bakgrunni.
Hekla
Hekla skartar sínu fegursta og tilbúinn í næsta gos.
Janúarsólin kveður
Janúarsól kveður með skrautsýningu.
Sólsetur á Eyrarbakka
Maðurinn og hafið.

29.01.2010 18:08

Þegar túnglið verður fullt

Túnglið rís ofan við Selfoss í dag.Venjulega er tunglið fullt einu sinni í mánuði, en stöku sinnum gerist það tvisvar. Á miðöldum trúðu margir Evrópubúar að fullt túngl ylli andlegri ringulreið hjá mannfólkinu og var það kallað "Lunar áhrifin" og þá gátu menn orðið "lunancy" þ.e. geðveikir. Á morgun er hinsvegar fullt tungl og hvort það hafi einhver áhrif á þjóðarsálina á eftir að koma í ljós. Tunglið hefur þó sannarlega áhrif á hafið og næstu þrjá daga verður verulega stórstreymt, sem þýðir  hátt sjávarmál á flóði, en að samaskapi afar lágsjávað á fjöru.

28.04.2009 23:04

Kanínurnar komnar til að vera

Kanínur gera sig heima komnar á Bakkann
Það eru komnir nýbúar af kanínukyni í námunda við þorpið og þetta par var í óða önn að undirbúa vorverkin þegar ljósmyndara Brimsins bar að garði. Á nokkrum stöðum hérlendis eru kanínur orðnar hluti af dýralífi landsins. Í Öskjuhlíðinni eða Heiðmörk sjást iðulega kanínur á vappi og finnst mörgum þetta vera góð viðbót við fátækt dýralíf landsins. Í Heimakletti í Vestmannaeyjum hafa kanínur lagt undir sig lundaholur og verið þar lundaveiðimönnum til ama. En nú hafa kanínurnar greinilega komið sér fyrir á Bakkanum. En hvort þessir nýbúar séu upprunnir úr Eyjum eða af höfuðborgarsvæðinu verður vart um að spá, en hitt er víst að erfitt getur verið að stunda gulrófnarækt upp frá þessu.

16.02.2009 17:17

Skjálftavirkni við Kaldaðarnes

Skjálftakort VÍNokkuð hefur borið á skjálftavirkni á Kaldaðarnessprungunni nú síðasta sólarhringinn og eru flestir kippirnir á bilinu 1-2 stig. Sterkasti kippurinn kom um kl.16:00 og var um 2,5 stig. Hann fannst vel á Bakkanum og hefur sennilega rifjast upp fyrir mörgum skjálftabylgjurnar síðasta sumar.

Þessi skjálftahrina hófst seint á laugardagskvöld norður og suður eftir sprungunni eins og sjá má á korti Veðurstofu Íslands  hér til hliðar.

Nokkur hreifing hefur verið á þessum slóðum allt frá stóraskjálftanum 29. maí á síðasta ári.

11.08.2008 12:36

Vatnalilja blómstrar á Bakkanum

Vatnalilja.
Vatnaliljur eru upprunalega hitabeltisplöntur en þær eru nú algengar um norðlægar slóðir evrópu og vinsæl jurt í skrauttjarnir í görðum. Vatnaliljur fundust t.d. fyrst í Tiveden skógi í Svíþjóð snemma á 19.öld en hana má nú finna í allflestum vötnum Svíþjóðar og Finnlands. Í hitabeltinu þarf plantan að verða minsta kosti 7 mánaða gömul til að blómstra. En eins og sumarið er stutt hér hjá okkur á Fróni þá ætti hún vart að geta átt sér lífs von hér eða hvað? Vatnaliljur virðast þó geta alveg unað við loftslagið hér á norðurslóð sem er nú reyndar alltaf að hlýna. Þessa vatnalilju fengum við í Hveragerði og gróðursettum  í litlu tjörnina okkar í júní og nú tveim mánuðum síðan blómstrar hún með sínum fegurstu rósum.

Plantan þarf að helst að vera á um 30cm dýpi til þess að ræturnar frjósi ekki yfir veturinn. Einnig má láta renna 20 til 25° heitt vatn í tjörnina og skapa plöntunni þannig bestu skilyrði. Ræturnar þurfa góðan leir eins og víða er að finna í mýrlendi. Plöntunni má koma fyrir í potti með mýrarleir og þá er gott að setja net yfir svo plantan fljóti ekki upp.

18.06.2008 00:00

Skjálftar í rénun,


Heldur hefur dregið úr skjálftavirkni við bakka Ölfusár á undanförnum dögum. Á síðustu 48 klst. hafa mælst 155 skjálftar á Suðurlandi að styrkleika 0,1-2, en í síðustu viku voru þeir vel yfir 200. Skjálftavirknin hefur nú verið viðvarandi í hart nær 20 daga, en allflestir það smáir að þeir koma aðeins fram á mælum. Hægt er að fylgjast með Skjálftavirkninni á Gogle Eart-VÍ
Jarðskjálftarnir 29. maí 2008 voru þeir mestu frá því stóru skjálftarnir tveir urðu hinn 17. og 21. júní árið 2000. Tjónið í skjálftanum 29.maí sl. var þó mun meira enda nær þéttbýli. Allflest heimili á Eyrarbakka,Hveragerði og Selfossi urðu fyrir töluverðu tjóni á innanstokksmunum og allnokkur hús á svæðinu teljast ónýt eftir skjálftanna.

Sunnlendingar hafa margir hverjir alist upp við þessa vá og glotta bara við þegar jörðin bifast undir fótum þeirra, en margir af erlendum uppruna búa einnig á svæðinu. Fólk sem er að upplifa jarðskjálfta í fyrsta sinn og bera kvíðboga fyrir hverjum degi og hverri nótt í þessu undarlega og framandi landi eldfjalla, jökla, gufuhvera og titrandi jarðar.

08.06.2008 23:48

Enn skelfur Óseyrarsprunga.


Nú eru liðnir 10 dagar frá Stóraskjálftanum undir Ingólfsfjalli. Í kjölfarið færðist mikið líf í sprungusvæðin við Ölfusá og ekki síst Óseyrarsprungu, en þar hafa mælst um 30 smáskjálftar á sólarhring og einn til tveir snarpir kippir (2-3 stig) sem hafa haft það að venju að koma reglulega að kvöldi hvers dags og segja gárungarnir á Bakkanum að eftir kl.19 sé kominn jarðskjálftatími. Mest hefur virknin verið ofarlega í Flóagafls og Kaldaðarneshverfi.

Skjálftavaktin.

02.06.2008 23:58

Enn bifast jörð.

Skrifstofa
Eftirskjálftar eftir þann stóra á fimtudag eru nú að nálgast 1.300 á sólarhring en allflestir það smáir að þeir finnast ekki. Í kvöld kom þó snarpur kippur sem fannst vel hér á Bakkanum og finnst mörgum komið æði nóg af þessum hristingi. Íbúar Árborgar, Hveragerðis og Ölfus hafa upplifað gríðarlegar náttúruhamfarir en þó tekið öllu með stakri ró eins og Íslendingum er tamt í endalausri baráttu sinni við hina óblíðu náttúru og það má segja þessari þjóð til hróss að íslensk húsagerð hefur þolað þessa raun með stakri príði. Helst eru það holsteinshús sem byggð voru um og eftir miðja síðustu öld sem hafa farið á límingunum.

Á Bakkanum eru amk. tvö hús ónýt eftir hin tröllslegu átök náttúrunnar og annað nokkuð laskað. Jarðskjálftinn sem þessu olli átti uptök sín í sprungu sem liggur rétt austan Ölfusárósa og upp að Hveragerði. Það má sjá hér á myndinni fyrir ofan af Bragganum hversu gríðarleg átökin hafa orðið, en austurstafninn hefur hreinlega kubbast í sundur.

Vísindamenn telja skjáftann núna vera framhald Suðurlandsskjálftanna árið 2000. Einig hefur komið í ljós að gufuþrýstingur í borholum á Hellisheiði snar jókst skömmu fyrir stóra jarðskjálftann sem gæti bent til ákveðinna tengsla þar á milli.

Í Suðurlandsskjálftunum1784 féllu bæjarhúsin á Drepstokki við Óseyrarnes og því ekki ólíklegt að þessi Óseyrarsprunga hafi verið að verki þá. Í jarðskjálftunum 1889 og Suðurlandsskjálftum 1896 er ekki getið tjóns á Eyrarbakka. Í Suðurlandskjálftum.6- 10 maí 1912 kom hinsvegar sprunga í húsið Skjaldbreið sem þá var nýlega steypt og má sjá þá sprungu enn í dag. Í jarðskjálftunum árið 2000 varð hinsvegar ekkert tjón á þessu svæði enda voru upptökin þá austar í Flóanum

Myndir.

Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 2390
Gestir í gær: 1368
Samtals flettingar: 260597
Samtals gestir: 33734
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 16:02:39