Flokkur: Veðrið
28.10.2007 13:05
Fyrsti snjórinn.
Fyrsti snjórinn féll á Bakkanum í nótt og í morgun. Í fyrra féll fyrsti snjórinn á Eyrarbakka 8.nóvember, þannig að veturinn er fyrr á ferðinni þetta árið.
Frostið er 0-4°C í Flóanum í dag, hlýjast við ströndina.
27.10.2007 22:39
Fyrsti vetrardagur
Það er fyrsti vetrardagur og orðið svalt í Flóanum og því vissara að vera við öllum veðrum búinn með góða lambhúsettu og vetlinga eins og hann Eiki sem lætur ekkert á sig fá þó hvessi með skúrum og slydduéljum öðru hvoru.
Það hefur gránað í Sunnlensku fjöllin og vísast er að veturinn er að banka uppá hjá Flóamönnum.
Heldur er að draga úr briminu á Bakkanum sem hefur verið með mesta móti síðustu daga. Margir hafa lagt leið sína í fjöruna og upplifað hina ógnþrungu krafta ægis sem hér áður fyrr var sjómönnum mikill farartálmi milli strandar og gjöfulla fiskimiða.
25.10.2007 09:11
Nesvað
það vex í Hópinu dag frá degi, enda hefur verið mjög úrkomusamt siðustu tvo mánuði. Í Hópið rann eitt sinn lækur sem hét Nesvað og frá því rann Háeyrará til sjávar en báðir lækirnir eru löngu horfnir og nú er aðeins regnvatnið sem safnast í þessa tjörn á haustin en yfir sumarið þornar hún upp. Á vetrum þegar frýs myndast þarna fyrirtaks skautasvell.
Stórbrim er á Bakkanum þessa dagana og sinfónía ægis ómar um allar eyrarbyggðir og slær Bethoven alveg út í kingimögnuðum leik sínum.
Nú er enn spáð stormi á þessum slóðum og má því búast við að faldar ægis feykist um.
23.10.2007 22:29
Kossar hafsins
Það gekk á með dimmum og hvössum skúrum í dag, eða með öðrum orðum "Leiðindartíð" Sjávarhæð er talsverð eftir beljandi sunnan storma að undanförnu. Þó enn séu nokkrir dagar í stórstreymi þá kyssir brimið gráan sjógarðinn þungum kossum enda stórbrim í dag.
22.10.2007 22:33
Rok
Það gekk á með stormi og úrhellis rigningu síðdegis og náðu sumar hviður 28 m/s um kl. 16 en þessi vindstyrkur var kallaður ROK í gamla daga. Úrkomumagnið sem helltist niður í dag mældist 21 mm á veðurathugunarstöðinni á Bakkanum og náði það ekki að fella dagsmetið frá 1983 sem var 23,3 mm.
Mesti vindur sem Veðurstofan mældi á láglendi kl.21 var 29 m/s á Skjaldþingsstöðum í Vopnafjarðarhreppi.
Annars finnst manni að búið sé að rigna mikið alveg frá því í lok ágúst eftir eitt þurrasta sumar í manna minnum og hlaut hann að hefna fyrir það.
Til gamans má geta þess að blautasti Oktobermánuður á Bakkanum var árið 1959 en þá mældist mánaðarúrkoman 321 mm. Blautasta árið á Bakkanum var hinsvegar árið 1953 en þá var ársúrkoman 1943,5 mm.
14.10.2007 20:17
Stígvéladagar
Það hefur verið fremur blautt og vindasamt í Flóanum að undanförnu og töluvert brim úti fyrir. Úrkoma mældist 11 mm Eyrarbakka í dag sem er þó engin ósköp miðað við sl.föstudag (12/10), en þá heltust einir 26 mm ofan úr skýjunum í mæliglasið hjá veðurathugunarmanni okkar á Bakkanum og vantaði aðeins 4mm til að jafna dagsmetið frá 2004
það gæti látið nærri að það sem af er mánuðinum sé úrkoman yfir meðallagi,en það er þó ágiskun því meðaltalstölur fyrir Eyrarbakka eru ekki sérstaklega aðgengilegar.
11.10.2007 23:24
Margt býr í þokunni
Í morgun lá dularfull þokan dökk og dimm yfir Flóanum svo vart sá á milli húsa.Veðurspár höfðu gert ráð fyrir góðum degi með sól og blíðu hér sunnan heiða sem þó ekkert varð af því þokan þvöl læddist inn af hafi og þvældist upp í sveitir þögul og þung á brún eins og illur fyrirboði um hverfuleika heimsinns.
Um síðir létti þokunni,en þá dró að bliku (einnig í pólitíkinni) með regni eins og það sé ekki komið nóg af þessum sudda! og nú er beðið enn eins stormsinns sem veðurstofan hefur verið að vara við í dag. Þetta fer nú að verða ansi leiðinlegt.
01.10.2007 22:10
Hvasst og blautt-úrkomumet!
Það var víða hvassviðri í morgun og úrhellis rigning, einkum á vestanverðu landinu og Faxaflóa svæðinu. Hvassast var á Bakkanum kl. 5 í morgun þegar vindhviður náðu 21 m/s og sópuðu laufunum af trjánum sem eru nú flest að verða berstrýpuð.
Sólahringsúrkoma dagsins var 42 mm sem er dagsmet fyrir úrkomu. Eldra dagsmetið var 33mm 1988
Þann 27 síðasta mánaðar var einig úrkomumet þegar mældist 31 mm á stöð 923 en eldra met var frá 1993 þann 27 sept 30,9 mm
27.09.2007 21:58
Brimið í dag
Brim í súld og sudda.
Það gekk á með hvössum rokum og rigningarsúld í dag og mældist úrkoma 31 mm á Bakkanum (31mm úrkoma/24klst mælist nýtt dagsmet á Bakkanum) en er þó ekkert miðað við 220 mm á Ölkelduhálsi í Henglinum eins og fram kemur á veðurbloggi Einars Sveinbjörnssonar
Í uppsveitum var rigningin drjúg, t.d. 38mm á Hjarðarlandi í Biskupstungum. Stormur var á Stórhöfða að venju en einnig sló í storm á Sámstöðum á Rángárvöllum.Á Bakkanum fóru hviður mest í 19 m/s en annars var strekkingsvindur fram eftir degi,en síðdegis tók að rofa til. Þetta veður á rætur sínar að rekja til hitabeltisstormsins Jerry sem þaut hér framhjá og er líklega núna kominn á Norðurpólinn.
26.09.2007 21:26
Leiðindaveður.
24.09.2007 12:02
Hvassviðrið
Það var ansi hvasst á landinu um helgina og hér sunnanlands fór meðalvindur upp í 34m/s á Stórhöfða um miðnætti aðfaranætur sunnudags með hviðum allt að 41m/s sem er 147,6 km/klst en það mundi nægja til að teljast styrkur 1.stigs fellibyls. En mesta hviðan var á bænum Steinum undir Eyjafjöllum þar sem vindur fór í 47 m/s á laugardagskvöldið. Á Bakkanum fóru hviður öðru hvoru upp í 20 m/s sem telst stormur en annars var allhvast eða strekkingsvindur.
Í dag eru tvö ár frá því að fellibylurinn Ríta gekk á land í Texas og varð 100 manns að bana. Fellibylurinn skildi eftir sig eiðileggingu upp á 5.8 billjón dollara í Texas og Louisana.Meðalvindhraði Rítu var um 192 km/klst sem svarar 53 m/s eða ríflega12 gömul vindstig.
22.09.2007 20:30
Beðið eftir storminum
Það var strekkingsvindur af NA á Bakkanum í dag og stormur á miðunum.
Úti fyrir ströndinni við Ölfusárósa liggur þessi fraktari fyrir akkerum og gæti verið að bíða af sér óveðrið suður af landinu.
Í Vestmannaeyjum hafa vinhviður farið upp í 38m/s þó veðrið hér sé skaplegra eða allt að 19 m/s í hviðum.
Eins og sést á myndinni þá er brimlaust á Bakkanum í dag.
21.09.2007 15:57
Blíðu veður á Bakka.
það var ekki svona gott veður 21.september árið 1865, en þá olli stórflóð miklu tjóni á fiskiskipum og sjógarðshleðslum á Bakkanum.
Undanfarið hefur verið rigningartíð Sunnanlands en þrátt fyrir það hefur lítið vatn safnast í Hópið framan við Steinskotsbæina. Hópið er reyndar gamalt sjávarlón sem lokaðist af þegar sjórinn hlóð upp malarkambi fyrir framan það endur fyrir löngu. Síðan rann lítil á úr því til sjávar þegar hópið hafði nóg aðrensli ofan af mýrunum, en í dag er þarna aðeins smá pollur.
18.09.2007 08:44
Skolmórautt síki, gruggað upp af gröfu.
Nú í rigningartíðinni hafa hálf uppgrónir skurðir vart haft undan að flytja regnvatnið til sjávar og því ekki úr vegi að stinga niður skóflu. þetta síki sem hér er verið að dýpkva er rétt norðan við Bakkan á svokölluðu "Flóðasvæði" eins og það heitir á skipulagi.
Veðurstofan spáir norðanátt næstu dægrin svo þá byrtir til hér syðra en norðanmenn fá þá blessuðu rigninguna.