Flokkur: Veðrið

19.12.2007 14:52

Vaxandi líkur á hvítum jólum.

Líkur á hvítum jólum aukast.Flestar veðurspástöðvar gera nú ráð fyrir snjókomu sunnanlands á Aðfangadagskvöld og fram á annan í jólum.
Veðurspá 
The Weather Underground, Inc. hljóðar þannig fyrir Eyrarbakka.



Mánudagskvöld Aðfangadag:
Möguleiki á snjókomu. Léttskýjað. Lágm. 30° F. / -1° C. Vindur VNV 35 mph. / 57 km/h./15 m/s Chance of precipitation 50%.

Þriðjudagur Jóladagur:
Möguleiki á snjókomu. Alskýjað. Hám. 32° F. / 0° C. Vindur VNV 38 mph. / 61 km/h./16 m/s Chance of precipitation 40%.

Þriðjudagskvöld Jóladagskvöld:
Möguleiki á snjókomu. Alskýjað. Lágm. 28° F. / -2° C. Vindur VNV 38 mph. / 61 km/h/16 m/s. Chance of precipitation 40%

18.12.2007 15:41

Verða jólin rauð?

Við fáum líklega ekki hvít jól!Brimið á Bakkanum hefur rýnt stuttlega í veðurspárnar fyrir aðfangadag og samkvæmt þeim er útlit fyrir rólega vestanátt og fremur björtu veðri á Bakkanum. Hitastigið verður hinsvegar lágt og jafnvel nokkuð frost. Einhver úrkoma verður á Þorláksmessu. e.tv. lítilsháttar él eða skúrir.

16.12.2007 14:21

Sjávarhamur.


Í óveðrinu á dögunum náði úthafsaldan að ganga inn fyrir enda sjóvarnargarðsins vestan við Einarshöfn og þeytt stórgrýti á land þrátt fyrir að smástreymt væri. Spurning hve langt sjórinn hefði gengið ef það hefði verið stórstreymi þessa stormdaga.

14.12.2007 22:42

Aðventustormur 2 kveður.

Í dag kl. 15:00 náði vindraðinn mestum styrk þegar hann fór í 25 m/s meðalvind og 27 m/s í hviðum á Bakkanum sem er ekki langt frá því sem var í fyrri aðventustorminum í gær.





Á línuritinu má sjá hvernig loftvogin á Bakkanum féll ört og nánast lóðrétt á miðnætti 13 des sl þegar fyrri lægðin barst að landinu og lægðarinnar í dag sem ekki var eins snörp og einnig fjær landi eins og lesa má úr línuritinu því lægðarmiðjan var með 941mb loftþrýsting.

Þessu veðri fylgir stórsjór og því mikið brim úti fyrir og stóröldur dansa á grynningunum. Vestan við Óseyrarbrú hefur verið mikið sandfok í kjölfar veðursins og hefur töluvert sest á veginn við brúarsporðinn.

13.12.2007 01:51

Kolbrjálað veður þessa stundina

Kolbrjálað veður er á Suðurlandi, vinhviður mælast 30-50m/s víða Sunnanlands og meðalvindur frá 25 til 38 m/s og ljós blikka öðru hvoru.
Eyrarbakki Fim 13.12
kl. 03:00
Vindur Sunnan 20 m/s Hviða 23 m/s / 33 m/s 6°C Rakastig 86 %

Stórhöfði Fim 13.12
kl. 03:00
Léttskýjað VindurSunnan 34  m/s Hviða 39 m/s / 49 m/s 5°C Rakastig 79 %

12.12.2007 21:25

Bombulægð á leiðinni?

Sérkennilegar skýjamyndun lægðarinnar.Veðurfræðingar eru nú að gera úr því skóna að lægðin sú sem er í þann mund að taka völdin hér og sú sem á eftir kemur séu af þeirri gerðini að nú sé betra að passa sig, því að lægðin sé hratt dýpkandi og geti farið niður í 940 mb. Lægðarmiðjan er þessa stundina skammt vestur af Reykjanesi og um það bil að læsa í okkur klónum svo betra er að vera nú viðbúnari en síðast og fergja nú laust byggingarefni og annað sem getur fokið út í buskan.

11.12.2007 10:58

Á eftir stormi lifir alda

Öll óveður lægir um síðir og nú er veður orðið stillt en hafið ólgar með beljandi brimi á Bakkanum. Vest var veðrið hér frá kl.23 í gærkvöld og til kl.01 um nóttina en þá var vindhraðinn að meðaltali 21m/s og hviður allt að 32. m/s sem er þó hálfu minna en undir Hafnarfjalli þar sem hviður skutust í 60 m/s eða 216 km/klst sem er álíka og i 2 stigs fellibyl en víða á Faxaflóasvæðinu náðu vindhviður 40 m/s.

Þessu veðri fylgdi talsverð úrkoma eða 13 mm á Bakkanum og 14 mm í Reykjavík. Við Surtsey var 6 m ölduhæð í morgun en þar var stórsjór í nótt.



10.12.2007 23:30

Versta veður skollið á!

ÓveðurÞað hefur gengið á með stormi í kvöld og náði meðalvindhraðinn 20 m/s um tíu leitið og hviður fóru í 27m/s á Bakkanum og eftir það hefur. Öllu verra er veðrið þessa stundina á Faxaflóasvæðinu,en á Skrauthólum hafa vindhviður verið að fara upp í 44 m/s en það eru 12 gömul vindstig eða 158.4 km/klst, svo gott sem í fellibyl. Fréttir herma að þök fjúki í heilu lagi í Hafnafirði og Kópavogi svo ástandið þar er afar slæmt. En Stórhöfði í Vestmannaeyjum á líklega metið að venju, en þar eru nú 45 m/s í hviðum og þar í grend er ferjan Herjólfur að berjast við að ná landi.

07.12.2007 10:27

Svalir desemberdagar.

2 cm snjór.Það hefur verið svalt á Bakkanum síðustu dægur og allt að 8 stiga frost og norðaustan áttin ríkjandi flesta daga vikunar. Dálítil snjóföl er yfir sem gerir myrkrið bjartara ásamt jólaljósum sem Bakkamenn eru óðum að hengja á hús sín og limgerði. Í gærmorgun snjóaði nokkuð og mældist snjódýptin 2 cm. en hefur hjaðnað mikið síðan.

Himininn hefur verið bjartur og stjörnur næturinnar glitra í miljóna tali. Sumar bera nöfn eins og t.d. Vega í stjörnumerkinu Hörpunni og er hún fimmta bjartasta stjarna himinsins í 26 ljósára fjarlægð frá jörðu. Á http://www.stjornuskodun.is/ má finna stjörnukort yfir þau merki sem sjást frá Íslandi.

Einhver poppupp gluggi hefur verið að bögga síðuna undanfarið og virðist sleppa í gegnum poppuppvarnarkerfi. Það sem veldur þessu er eitthvað "netstatbasic". Ef einhver kann ráð við þessm ófögnuði væri það vel þegið.

01.12.2007 12:06

Nóvember leið út með stormi.

Það var víða hvassviðri og stormur í gær og um miðnætti náði vindhraðinn upp í storm á Bakkanum, en víða var hvassara á landinu. t.d. komust einstaka hviður á Stórhöfða upp í 48.m/s en vindarnir á Bakkanum voru okkur mildari, þar sem mestu hviður náðu aðeins 24 m/s.

Úrkoma mánaðarins reiknast 188 mm.

23.11.2007 11:32

Veðrið var á harðaspretti í morgun

Það byrjaði að hvessa af SA á Bakkanum um kl. 4 í nótt og náði hámarki um kl 8 þegar einstaka hviður náðu stormstyrk og komust hæst í 22,7 m/s og jafnframt hlýnaði hratt á undan skilunum og var kominn  tæplega 7 stiga hiti kl.10
Úrkoma var sú næstmesta á landinu með 11mm en Stórhöfði hafði vinninginn með 12 mm.

22.11.2007 10:38

Frost á Fróni.

það er ansi kalt á landinu í dag og allar stöðvar sýna frost nema í Bolungarvík og Sauðanesviti,en þar er 2°hiti. Frostið á Bakkanum er nú - 11°C og er það mesta frost hér á þessum vetri. Kaldast á láglendi kl.10 í morgun var -14°C á Hæl í Gnúpverjahreppi, en undir Langjökli var -18°C.

Það fer s.s. lítið fyrir gróðurhúsaáhrifunum í dag, en nú er lægð á leiðinni með rigningu og hlýnandi veðri.

07.11.2007 17:54

Hitastigið hríðféll

Fallhraðinn á hitamælinum var mikill í dag. Á 6 tímum féll hitinn úr 6°C niður í 0°C eða sem nemur einni gráðu á klst. Það leiddi til þess að úrkoman síðdegis komst í hvítan búning.

31.10.2007 12:36

Allur snjór farinn.

Allur snjór er nú horfinn úr Flóanum eftir úrhellis rigningu í gærkvöldi. Flestum (88%) þótti liðið sumar hið allra besta í manna minnum samkv. skoðanakönnun. Íslendingar voru líka á útopnu að eyða sumrinu og peningum í ferðalög, nýja bíla, glæsihús, hjólhýsi og bókstaflega keyptu allt sem mögulegt var að kaupa, meira að segja lopapeysur á alla fjölskylduna, hundinn og köttinn. Ég sá að útlendingarnir hristu bara hausinn!


Veðurlýsingin á Bakkanum var þannig í hádeginu: Eyrarbakki NNV 6 m/s Skýjað Skyggni 18 km Dálítill sjór . 2,6°C 1000,1 hPa og stígandi loftvog.

30.10.2007 11:03

Vetrarríki


Flóinn klæðist hvítri dulu því nú ríkir vetur konungur og aðeins stráin standa upp úr mjöllini. Það er komin kafalds snjókoma og spáin hljóðar upp á umhleypingar næstu daga með rigningu,frosti og éljum.

Frostið fór mest upp í -4°C í gær á Bakkanum en heldur svalara var á Þingvöllum þar sem frostið náði -11°C í gærkvöldi og nótt.
Veðurlýsingin í hádeginu hljóðar svo: Eyrarbakki  ANA 7 m/s Snjókoma  Skyggni 0.6 km Dálítill sjór . 0,0°C 997,9 hPa og fallandi loftvog.

Flettingar í dag: 355
Gestir í dag: 58
Flettingar í gær: 2159
Gestir í gær: 262
Samtals flettingar: 262804
Samtals gestir: 33947
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 07:26:47