Flokkur: Veðrið

25.02.2008 09:59

Köld nótt.

Nóttin var köld á Bakkanum enda var frostið á bilinu -14 til -15°C um miðnættið. Áfram er spáð köldu veðri svo betra er að búa sig vel.

Í miklu frosti getur vindkæling verið afar varasöm og er vert að benda á grein Traust Jónssonar um þetta efni, en hana má finna hér.

Mesta frost sem mælst hefur áður á stöð 923 var árið 1957  25 febrúar -12,3 en á miðnætti mældist -13°C á sömu stöð svo hér teljum við þetta nýtt dagsmet.

24.02.2008 09:29

Mesta frost á Landinu

Kl.09 í morgun mældu veðurathugunarstöðvarnar á Eyrarbakka mesta frost á landinu. Þannig sýndi  sjálvirka stöðin -12,1 °C meðaltalsfrost á klukkustund og athugunarstöðin sýndi litlu minna eða -12°C.
Lágmarkshiti á sjálvirku stöðinni milli kl. 08-09 sýndi -13,3°C sem er yfir dagsmetinu frá 1989 fyrir 24.febrúar en þá mældist -13,2°C (tímabilið 1958 til 2007)

Á stæðan fyrir því að nú er kaldast hér við sjóinn er sú að í norðan hægviðri sígur kaldaloftið ofan af fjöllunum vegna eðlisþyngdar sinnar og sest að þar sem lægst er við sjávarsíðuna.

19.02.2008 09:13

Vöxtur í Hópinu.

Að undanförnu hefur verið súld, þokuloft og rigning og  langt er síðan að sést hefur til sólar. Tjarnir hafa vaxið stórum síðustu daga svo sem Hópið eins og sést á myndinni hér að ofan. Í þurkunum síðasta sumar var Hópið skraufaþurt. Í bakgrunni standa Steinskotsbæirnir. Einhvern tíman í fyrndinni var þessi tjörn sjávarlón, en smám saman hlóð hafið upp malarkambi sem lokaði lónið af og heitir þar nú Háeyrarvellir.

17.02.2008 10:26

Súld og suddi

Suðlægar áttir með súld og rigningu hafa verið ríkjandi undanfarna daga með hita á bilinu 5-7 stig. Úrkoma síðasta sólarhrings var 17 mm og daginn þar áður 14 mm og þar sem klaki er ekki farinn úr jörð þá eru tún víða umflotin vatni.

Áfram er spáð sulægum áttum með súld og skýjuðu veðri. Á þriðjudag er spáð kólnandi veðri með éljalofti.

14.02.2008 15:00

Súld og svarta þoka.

Dimma og drungi á þessum Valentínusardegi, þoka og súld. Sagt er að margt búi í þokunni og hvur veit nema rómantíkin blómstri í dulúðlegu þokuloftinu.

12.02.2008 22:10

Blíða í dag.

Það sást til sólar í dag og er það farið að teljast til tíðinda. Auk þess var hægviðri og bara hið besta útivistarveður. Annað eins hefur vart gerst um langt misseri.

Endur og álftir eru farnar að sjást á lónunum og landselir á útskerjum svo það má segja að það sé allt að lifna við í fjörunni þessa dagana.

Brimið að koðna í bili en nú er hann að spá aftur austan hvelli en með rigningu þó í þetta sinn.

11.02.2008 13:04

Snjórinn farinn og bjartsýni ríkir.

Það má heita orðið snjólaust á Bakkanum og aðeins stöku skafl sem lifir.

Það er óhætt að segja að Bakkinn dafni og fólki fjölgar, því á Eyrarbakka teljast nú 608 búandi. Nú stendur til að hefja framkvæmdir við stækkun Sólvalla. Dvalarheimilið Sólvellir var tekið í notkun 1.nóv.1987 fyrir forgöngu samtaka áhugamanna á Eyrarbakka um dvalarheimili, en sporgöngumaður þessara samtaka var Ási Markús Þórðarson. Gömul fiskvinnsluhús fá ný hlutverk, ný hús rísa og þau eldri fá andlitslyftingu og tækifærin liggja víða eins og frækorn sem bíður vorsins.

Nú eru uppi hugmyndir hjá athafnamönnum á Bakkanum um að taka upp gamla Bakk-öls þráðinn hans Sigurðar Þórarinssonar sem hugðist koma ölgerðarstofu á fót á Bakkanum árið 1927 en þá sögu má lesa á http://www.eyrarbakki.is/Um-Eyrarbakka/Frodleikskorn

09.02.2008 14:40

Skafrenningur.

Óveðrið er nú gengið hjá og var eitt það versta sem gert hefur í vetur. Lægðin sem olli þessu veðri var einhver sú dýpsta sem komið hefur yfir landið a.m.k. á seinni árum, eða 932 mb. Ekki er vitað um neitt tjón af völdum veðursins hér um slóðir þó eflaust hafi hrikt duglega í húsum þegar verst lét. Talsverðar eldglæringar fylgdu þessu veðri og mikið úrhelli á köflum. Það er víst að menn séu að verða ýmsu vanir hér sunnanlands, eftir þennan vetur.

Gríðarlegt brim er á Bakkanum í dag og er það eitthvert það allramesta sem sést hefur í vetur.

08.02.2008 22:08

STORMUR

 stormur SA 25 m/s með "eldglæringum".
Mesta hviða 34 m/s
Veðurhæð á nokkrum stöðum:
Straumsvík við Hafnarfjörð 22 m/s
Reykjavík 24 m/s
Keflavíkurflugvöllur 28 m/s
Skálafell 53 m/s
Botnsheiði 38 m/s
Stórhöfði 40 m/s
Kálfhóll 31 m/s
Þingvellir 22 m/s

08.02.2008 10:24

Ógnarlægð nálgast.


Lægðin mikla nálgast landið óðum með úrhellis rigningu og asahláku. Búist er við að loftþrýstingur hennar verði minstur 936 mb. seint í kvöld en það táknar að kraftur lægðarinnar er hvað mestur. Lægsti þrýstingur sem vitað er um hér á landi mældist í Vestmannaeyjum 2. desember 1929 um 920 mb.

Rétt er að vekja athygli á að nú fer saman lágur loftþrýstingur og há sjávarstaða ásamt töluverðri ölduhæð.

06.02.2008 12:30

Hvítur Öskudagur.

Snjór hefur nú verið lengur yfir en mörg undanfarin ár á Bakkanum og frost hefur verið alla daga það sem af er vikunni og mánuðinum og jafnvel að miklu leyti það sem af er árinu og virðist veturinn ætla að verða æði langur og strangur.

Ekki er spáin björt fyrir morgundaginn því kröpp hraðfara lægð fer norður með austurströndinni í nótt og fer suðvestan stormur eftir henni yfir landið seint í nótt og á morgun segir veðurstofan og  það þýðir líklega hellirigningu fyrir okkur, en þó líkur á að hláni og kólni á víxl, eða semsagt umhleypingar fram í næstu viku.

Í dag er Öskudagur, en við hann er kennt sjávarflóð eitt þ.e. Öskudagsflóðið árið 1779, en þá tók af bæinn Salthól í Hraunshverfi skamt vestan við Gamlahraun.

02.02.2008 15:31

Hel frost

Það var mikið frost á Suðurlandi í dag og hér í suðvesturhéruðum fór frostið víða yfir -20°C, en þó einna mest var frostið í uppsveitum. Á Kálfhóli var t.d.-22°C kl.03 í nótt sem leið. Á Bakkanum var mest -17.8°C kl.04 í nótt og telst það dagsmet fyrir 2.febrúar. Áður hafði mælst mesta frost þennan dag á Eyrarbakka -15,8°C 1985 en mesta frost á Eyrarbakka í febrúarmánuði var -19,3°C árið 1969.

Það er efitt hjá smáfuglunum í þessum kulda sem hýma á trjágreinum og bíða þess að hlýni, en spár gera ráð fyrir að eitthvað dragi úr frostinu.

02.02.2008 00:09

Á Kyndilmessu 2.febrúar

Um þennan dag er kveðið:

Ef í heiði sólin sést
á sjálfa kyndilmessu,
frosta og snjóa máttu mest
maður vænta úr þessu.

(Höf. ókunnur)

En það er einmitt spá dagsins, sól í heiði og 12 stiga frost. En einhvern veginn finnst manni nóg komið af snjó!

Í byrjun janúar var hægviðri á Bakkanum af norðaustri, en smám saman kólnaði í veðri og um miðjan mánuðin voru norðanáttir ríkjandi með vægu frosti og fyrstu snjókornin létu kræla á sér. Þriðjudaginn 15 janúar var kominn kafalds snjókoma og slæm færð á vegum enda var sjódýptin á Bakkanum komin í 20 cm undir kvöld. En þetta var bara byrjunin á öllum ósköpunum þennan janúarmánuð. það hélt áfram að snjóa og færðin var slæm hvern dag því illa gekk að sinna snjómokstri. Þann 19. gekk enn á með éljum og helkalt því frostið rauk upp í -19°C. Þann 22. gerði SA hvassviðri með asahláku og stórbrimi með miklu særoki. Síðan tók snjókoman aftur völdin og setti allt á kaf og þann 24 var 29cm snjódýpt á Bakkanum og svo fór að hvessa með skafrenningi á Bóndadag sem setti allt úr skorðum og þurfti að loka Þrengslunum um tíma en síðan Hellisheiði. Ef menn hafa dreymt um að nú væri nóg komið, þá var það bara byrjun á nýrri veðurfarslegri martröð því enn einn stormurinn gekk á land þann 27. og fóru vindhviður yfir 30m/s og lá veðrið yfir allann þann dag. Ekki var hér öllu lokið því vonskuveður af norðan gerði síðasta dag mánaðarins með miklum kulda.

Úrkoma mánaðarins var 163mm á Bakkanum sem gæti verið í meðallagi.
 

01.02.2008 11:16

Sjálvirk veðurspá- áfram frost.

Á vef veðurstofunar má nú finna sjálvirka veðurspá fyrir Eyrarbakka og er hægt að nálgast hana á myndrænan hátt hér. annars lítur spáin svona út.
Fös 1.feb  kl.12 Vindur: 5 m/s Hiti:-9°
Lau 2.feb  kl.12 Vindur: 11 m/s Hiti:-9°
Sun 3.feb  kl.12 Vindur: 11 m/s Hiti:-2°
Mán 4.feb kl.12 Vindur: 10 m/s Hiti:1°
Þri 5.feb   kl.12 Vindur: 7 m/s Hiti:1°
Mið 6.feb  kl.12 Vindur: 10 m/s Hiti:1°
Heildarúrkoma hvers sólarhrings:
Fös: 0 mm Lau: 0 mm Sun: 0 mm Mán: 1 mm Þri: 7 mm Mið: 5 mm

Búist er við mikilli heitavatnsnotkun nú um helgina í Árborg vegna kuldakastsins og hafa báðar sundlaugarnar í Árborg, það er að segja Sundhöll Selfoss og sundlaugin á Stokkseyri verið lokaðar í dag vegna heitavatnsskorts.
 Verður svo um óákveðinn tíma segir á vísir.is 

31.01.2008 21:45

Vonskuveður

Það er vonskuveður sögðu fréttirnar í dag og er það að sönnu, því þetta veðurlag er hrein og bein vonska!

Það hefur verið hvöss norðanátt á Bakkanum í dag og talsverður skafrenningur ofan til á Breiðumýri og lá kófið yfir hina nýju Tjarnarbyggð en þar liggur oft hvass vindstrengur í norðan og sunnanáttum. Frostið er að harðna og á Hveravöllum var komið -15°C kl.20 í kvöld.

Lægðin sem stjórnar þessu er nú á Norðursjó og veldur snarvitlausu veðri í Færeyjum og Danmörku en þar er veðrið verst á Vesturjyllandi en vindhraði hefur náð 24 m/s þar í kring. En okkur þykir það varla mikið, er það?

Í svona veðri er mikil vindkæling og samkvæmt danskri reiknisformúlu mv. frost -10°C og vind 10m/s sem er nokkurnvegin veðrið núna þá mun vindkælingin samsvara -20°C

Nokkuð er mismunandi hvernig vindkælingartöflur segja til um vindkælingu og gætu mismunandi þættir legið þar til grundvallar, einnig getur rakastig loftsins skipt miklu máli. það má gúggla ýmsar vindkælingartöflur á netinu og ef miðað er við eina slíka töflu þá mundi vindkælingin vera m.v. ofangreindar forsendur -29°C

Dönsku vindkælingarformúluna hef ég sett upp hér.

Heimskautafararnir Paul Allen Siple og Charles Passel fundu út hina upprunalegu formúlu fyrir vindkælingu árið 1939 sú formúla er hér.

Á netinu má einnig finna reikningsstokk þar sem vind og hitatölum er slegið inn eins og t.d. hér. ath. að hér þarf að breyta m/s í km/klst en 10 m/s eru 36km/klst.
 

Flettingar í dag: 346
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 2159
Gestir í gær: 262
Samtals flettingar: 262795
Samtals gestir: 33944
Tölur uppfærðar: 22.11.2024 07:04:57