Flokkur: Viðburðir
29.06.2008 17:10
Fjöldi fólks sótti Bakkann heim.
Í einn dag og eina nótt færist borgarbragur yfir friðsælt þorpið við sjóinn. Fáni Bakkamanna dreginn á hún og fólk kemur hvaðanæva til að hafa gaman á Jónsmessuhátíðinni. Líf færist í tuskurnar í gamla þorpinu því margt er um að vera og hvern viðburðinn rekur annann langt framm á kvöld sem nær hápunkti með Jónsmessubrennu, söng og gleði í fjöruborðinu. Svo er dansað fram undir morgun. Nú er kominn nýr dagur og gamla þorpið er aftur orðið jafn friðsælt sem fyrr.
Jónsmessumyndir.
27.06.2008 00:35
Jónsmessuhátíðin hefst í dag.
Eyrbekkingar halda sína tíundu miðsumarhátíð um helgina. Dagskráin hefst á föstudagskvöld með fuglaskoðun í friðlandið. Ferðalagið hefst við Eyrarbakkakirkju kl, 21:30. Síðan geta menn baðað sig upp úr dögginni eða hlustað á rómantískan orgelleik í kirkjunnu á miðnætti. Á laugardaginn kl. 11 verða skátastúlkur með leiki á Garðstúninu fyrir yngstu kynslóðina. Kl. 13 mun jarlin af Gónhól standa fyrir uppákomu á Gónhól ( Hóllinn við sjógarðinn en ekki galleríið.) Á sama tíma munu listamenn verða með sýningar í Gónhól.(Galleríið en ekki hóllinn) Þar verður einnig grillpartý kl.18 og sölubásar opnir og stífbónaðar drossíur um allar trissur. Kl.14 verða opin hús á Garðafelli, Háeyrarvegi 2 og Gunnarshólma.Te að hætti Hússins í Húsinu borið fram kl 15 af husens damer. Orgelið í kirkjunni verður svo þanið til hins ýtasta kl 17. Söguganga Magnúsar Karels "í dúr og moll" hefst við Vesturbúðarhólinn kl.19 og kl.20:45 verður svo sungið hátt og leikið dátt á píanóið góða í Húsinu. Húsið hið rauða verður einnig opið allann daginn þar sem fimlegir kokkarnir töfra fram Jónsmessurétti og fiðlutóna. Svo flæðir músikin frá "Svarta Skerinu" út í hina rauðu nótt. Dagskránni lýkur formlega kl. 22 með Jónsmessubrennu og brimsköflum af bjór í flæðarmálinu þar sem hafmeyja ein mun ávarpa lýðinn undir bárugljáfri og silfurtónum Bakkabandsins.
17.06.2008 22:40
17.júní
17. júní var haldinn hátíðlegur á vegum Kvenfélagsins á Eyrabakka að venju. Hátíðarhöldin fóru fram við Vesturbúðarhólinn, vestan við samkomuhúsið Stað í góðu veðri en dálítilli gjólu. Eftir drekkutíma voru m.a útileikir og hestar teymdir undir börnum.
Hér á myndinni leikur trúður listir sínar fyrir ungum "Gaflara" í heimsókn á Bakkanum.
15.05.2008 23:10
Lesið á ljósastaura.
Venjulega eru ljósastaurar til þess ætlaðir að lýsa upp náttmyrkrið fyrir vegfarendur, en á Bakkanum eru þeir einnig notaðir til að lýsa upp sálartetrið með dálítilli lesningu, t.d. fallegu ljóði, skondinni vísu eða skemtilegri sögu. Það er því upplagt að fara í dálítinn labbitúr í vorblíðunni og lesa á ljósastaurana í leiðinni.
Það er bókasafn UMFE sem stendur fyrir þessu uppátæki í tengslum við hátíðina Vor í Árborg.
13.05.2008 16:28
Margt um manninn á vori í Árborg.
Það var margt um manninn á Bakkanum á vori í Árborg nú um helgina. Fjölsótt var á hina ýmsu viðburði og sannkölluð markaðsstemming ríkti í menningarhúsinu þegar "Vorskipið" kom. Gallerí Gónhóll opnaði með pompi og pragt að viðstöddu miklu fjölmenni og fór sýning nokkura listamanna þar vel af stað.
Söfnin stóðu opin almenningi sem og höfðingjum og má segja að menningin blómstri nú eins og endur fyrir löngu.
Myndir.
05.05.2008 12:51
U.M.F.E. 100 ára .
Ungmennafélag Eyrarbakka fékk fyrir skömmu úthlutað úr menningasjóði Árborgar kr. 50.000 til að gefa út afmælisrit í tilefni 100 ára afmælis félagsins.U.M.F.E var stofnað 4.feb. 1908. Í forsvari fyrir félagið var í fyrstu P.Níelsen í Húsinu en hann var mikill frumkvöðull um íþróttir og þjálfaði ungmenni á Eyrarbakka um langt skeið. Þann 5. maí 1920 var U.M.F.E endurreist, en fyrir því stóð Aðalsteinn Sigmundsson kennari á Eyrarbakka, en auk þess gekk hann fyrir stofnun skátafélagsins Birkibeina ári síðar.
Í gegnum tíðina hefur félagið staðið að eflingu íþróttaiðkunar ungmenna á Eyrarbakka og má nefna í því sambandi hið víðfræga Hópshlaup sem var afar vinsælt fyrir all nokkrum árum og er enn.
Endurreisn UMFE:
Stofnfundur U. M. F. E. var haldinn í Barnaskólahúsinu á Eyrarbakka að kvöldi 5. mai 1920. Voru stofnendur 43. Tuttugu þeirra voru 14 ára unglingar, er lokið höfðu fullnaðarprófi í barnaskólanum fáum dögum áður. Nokkir hinna voru nemendur úr ungmennaskóla, er starfað hafði í þorpinu veturinn fyrir. Heita mátti, að allir væru stofnendur kornungt fólk, nema tveir, er komnir voru yfir þritugt, þau Jakobina Jakobsdóttir kennari og Gísli Pétursson héraðslæknir. Aðalforgöngumaður endurreisnarinnar var Aðalsteinn Sigmundsson, er flutst hafði til Eyrarbakka haustið fyrir og tekið við forstöðu barnaskólans.
Heimild: Skinfaxi 1930
24.04.2008 15:24
Gleðilegt sumar.
Í dag er sumardagurinn fyrsti og þar sem vetur og sumar frusu ekki saman að þessu sinni getum við vænst þess að sumarið verði í blautara lagi samkvæmt þjóðtrúnni en vonum náttúrulega að ekkert sé að marka þessa gömlu hjátrú og sumarið verði bara gott. Vonum bara að sólin fari að láta sjá sig.
Á Bakkanum er ýmislegt um að vera í dag og fánar dregnir á húni á hverjum bæ. Kvenfélagið heldur upp á 120 ára afmæli sitt á Stað og börnin í Brimveri halda listasýningu svo eitthvað sé nefnt.
Þorpsbúum fjölgar ört þegar sumarhúsin fyllast af fólki og líf færist yfir göturnar. Út úr hverri skemmu streyma húsbílarnir í röðum eins og lömb á vorin að fagna sumrinu. Hafið kyrrist og brimaldan stríða kveður að sinni.
Gleðilegt sumar.
23.04.2008 09:18
Síðasti vetrardagur.
Gróðurinn er að vakna til lífsins og grasið grænkar. Á morgun er sumardagurinn fyrsti og er nú að vita hvort sumar og vetur frjósi saman, því samkvæmt þjóðtrúnni veit það á gott sumar ef það gerist. Veðurspár eru þó ekki bjartsýnar um að það gerist hér á suðurlands undirlendinu. Um miðnætti er spáð 6 stiga hita og skúrum á Bakkanum.
15.04.2008 10:52
Eyrarbakkahreppur verður 111 ára í vor.
Árborg, sameinað sveitarfélag Eyrarbakka ,Stokkseyrar, Sandvíkur og Selfoss verður 10 ára í vor og af því tilefni verður skipulögð 10 daga afmælis- og menningarhátíð sem hefst 8. maí n.k.
Þess er skemst að minnast að sl. haust var haldið upp á 60 ára afmæli Selfoss og þar með gefin tónninn fyrir að halda upp á afmæli hvers staðar fyrir sig í sveitarfélaginu.
Afmælis og menningarhatíðinni lýkur 18.maí en einmitt þann dag á Eyrarbakkahreppur 111 ára afmæli og væri því vel við hæfi að halda sérstaklega upp á þann dag á Eyrarbakka og draga fánann að húni.
22.12.2007 23:30
Dagurinn rúmir 4 tímar.
Í dag var skemmstur sólargangur ársins. Frá sólarupprás á Bakkanum til sólarlags liðu aðeins 4 klukkustundir og 16 mínútur. Sólarupprás var kl.11:15 og sólarlag kl.15:31. Á morgun Þorláksmessu lengist dagurinn um eina mínútu og verður það að teljast fagnaðarefni.
15.09.2007 14:01
Selfoss á afmæli.
www.yr.no/sted/Island/Suðurland/Selfoss
Brim á Bakkanum óskar Selfyssingum til hamingju með daginn.
22.06.2007 09:43
Sólstöðublót.
Nú um stundir eru svokallaðar sólstöður (sólhvörf), þ.e.sú stund þegar sól kemst lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári, á tímabilinu 20.-22. júní ?sumarsólstöður og 20.-23. desember vetrarsólstöður.
Það hefur lengi verið siður meðal margra evrópuþjóða að halda upp á þessi tímamót með einhverjum mannfögnuði þar sem fólk safnast saman á einhverjum tilteknum stað með söng og dansi.
Talið er að Stonehenge í Wiltshire á suðvestur Englandi sé einn af þeim stöðum sem sólstöðublót voru haldin af hinum fornu Drúitum. En hvort sem það var þannig þá hefur Stonehenge fengið þetta hlutverk í nútímanum og í gær komu þar saman 24.000 nútíma"Drúitar" sem sungu og dönsuðu í takt við bumbuslátt og blótuðu að heiðnum sið.
Summer solstice
Í 10 viku sumars ár hvert, gjarnan á Þórsdegi komu víkingar saman til blóts um sumarsólstöðurnar og hafa eflaust verið víða hér á landi tilteknir blótstaðir þó slíkir staðir séu lítt þekktir og fá ummerki sem má setja í samhengi við þennan forna sið. Vísast er að slík blót voru haldin á þingvöllum þegar eftir að alþingi var sett þar á landnámsöld. Ekki er með fullu vitað hve mörg blót víkingar héldu á ári hverju,en líklega hafa þeir blótað um jafndægur að vori og hausti, um sumar og vetrarsólstöður,en jafnvel hvern mánuð en alþekkt eru Þorrablót og Höfuðblót sem haldið var að hausti,einnig er talið að vorblót eða sumarblót hafi verið haldið á Sumardeginum fyrsta. Fornar heimildir segja til um að landnámsmenn í neðanverðum Flóa hafi komið saman á flötunum við Baugstaðarós eða nokkurn vegin þar sem Baugstaðarviti stendur í dag til þinghalds,blóts, mannfagnaðar og leikja ýmiskonar,svo sem glýmu og skilminga um þetta leiti árs.
En gaman væri að vita fyrir víst hvort örnefnið "Baugstaðir" sem hefur verið kent við kalmansnafnið Baug, hafi orðið til í þessu samhengi sem "Hringur" samanber "Stonehange".
18.06.2007 11:47
Jónsmessuhátíð
Jónsmessa hefur alla tíð verið með öðru sniði á Íslandi en sunnar í Evrópu nema ef vera skildi á Eyrarbakka. Í Evrópu er hún miðsumarshátíð. Þar tíðkuðust svallveislur miklar, brennur og dansleikir sem fyrr á tímum tengdust ýmsum yfirnáttúrlegum verum, nornum og djöflum. Á norðurlöndum er miðsumarhátíðin gjarnan haldin með brennum og bjórdrykkju og á upphaf sitt sem bændahátíð en á ekkert skilt við galdrabrennur miðalda heldur var það trú manna að með bálinu mátti fæla burt nornir og tröll og ýmsa djöfla sem lögðust á bændasamfélagið til forna og var þá stundum haldin svona brenna á Valborgarmessu í maí. Um næstkomandi helgi munu Eyrbekkingar halda í þennan forna sið og leggja eld að brennu í 9 sinn eftir að þessi siður var endurvakinn og kyrja miðsumarsöngva í heila nótt og fram á morgun.
Danir kalla sína brennur "Sankti Hans bál" Sankti Hans er gælunafn á Jóhannesi skírara. Dagsetningu Jónsmessu má rekja til ákvörðunar Rómarkirkjunnar að haldið skyldi upp á fæðingardaga Jesú Krists og Jóhannesar skírara á fornum sólstöðuhátíðum, á stysta (24.des)og lengsta degi (24.júní) ársins á norðurhveli jarðar, en Rómverjar hafa ekki reiknað þetta alveg rétt því lengsti sólargangur er 21 júní og sá skemsti 21.des. Jónsmessan var reyndar ekki um miðsumar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu, sumarið taldist þá ekki hálfnað fyrr en um miðjan júlí. Einhventíman á síðustu öld tóku danir upp þann sið að setja "Heksen på båled" þ.e að brenna brúðu af galdrakellingu á bálinu og er talið að sá siður hafi komið með þýsku verkafólki sem fluttist til Kalundborg um 1920.
Jónsmessuhátíð lagðist af hér á landi einhventíman fyrir löngu en var þó haldin á Eyrarbakka á fyrrihluta síðustu aldar og stóðu danskir verslunarmenn aðalega fyrir uppákomum í tilefni Jónsmessunar. Líklega lagðist hátíðin af á landsvísu vegna kólnandi veðurfars sem tafði fyrir öllum vorverkum og kom enn frekar í veg fyrir að menn gætu gert sér glaðan dag á Jónsmessu. Strjálbýli landsins gerði samkomur allar erfiðar og vegna skógleysis voru litlar forsendur fyrir því að halda miklar brennur á þessum tíma með tilheyrandi söng og dansi og síðan þegar verslunin lagðist af á Bakkanum og danirnir hurfu á braut hvarf þessi siður með þeim þaðan þar til hann var endurvakinn árið 1998.
Jónsmessunótt þykir þó enn með mögnuðustu nóttum ársins en þá yfirleitt tengd náttúrutrú ýmiss konar. Jónsmessunæturdöggin á að vera heilnæm, hvort sem fólk veltir sér upp úr henni nakið eða lætur sér nægja að ganga í henni berfætt. Jónsmessunótt er einnig góður tími til að finna steina með ýmsa dulda krafta og til að tína jurtir til lækninga. Hlýnandi veðurfar ætti ekki að skemma fyrir að þessi hátíð skipi sér fastan sess sem til forna.
21.05.2007 09:47
Skelfilegt hretviðri.
Fjöllin voru hvít í morgun og kuldi í lofti.Á Eyrarbakka var 4° hiti kl 8 í morgun en aðeins 1°C, slydda og krapi á vegum tæpum þrem kílómetrum fyrir ofan þorpið. Á Hellisheiði var 0°C og á Hveravöllum var 1 stiga frost.
Þetta kalda loft er upprunnið ofan úr háloftunum yfir Grænlandsjökli og berst með öflugri lægð sem ruddist yfir jökulinn í gær og er nú stödd á Grænlandssundi.
Í fyrravor 22 apríl var einnig kalt í veðri en þó ekki snjór eins og nú.en í byrjun maí mánaðar í fyrra komst hitinn hæðst í 20°C ,en það sem er af þessum mánuði nú hefur hitinn vart farið hærra en 12°C á Eyrarbakka og finnst mörgum vorið nú vera kalt.
Sterkt og víðáttumikið háþrýstisvæði yfir Azoreyjum spilar stóra rullu í þessu veðurfari hér á norðurslóðum þessa dagana.
Vorskipsleiðangur fékk gott veður!
Það var margt um manninn á Bakkanum um helgina enda var veðrið gott,bæði föstudag og laugardag en dálítið ringdi síðdegis á sunnudeginum og má segja að veðurspá Brimsins hafi gengið nákvæmlega eftir.
Fjölbreytt dagskrá með handverki, söng og sýningum á gömlum ljósmyndum og handverki auk markaðstorgs og veitingum stóð fólki til boða á hátíðinni. Á Rauða naflanum héldu Swing bræður uppi fjörinu og krambúð var í verslun Guðlaugs Pálssonar og markaðstog var sett upp á Bakkahlöðum (Frystihúsi).Einnig var mikið um að vera á Stokkseyri þar sem hluti hátíðarinnar fór fram. Það er mál manna að vel hafi tekist til og ljóst að saga þorpanna eru þeirra helstu menningarverðmæti sem sjálfsagt er að virkja með þessum hætti sem Friðrik Erlingsson hefur haft forgöngu fyrir.