Flokkur: Viðburðir
09.08.2010 08:59
Aftur til fortíðar
Um næstkomandi helgi 14-15. ágúst verður blásið til stórhátíðar á Eyrarbakka. Hestarnir, kindurnar, geiturnar og hænurnar, mennirnir, konurnar og börnin bjóða ykkur velkomin á hina árlegu þorpshátíð. Íbúar og gestir klæða sig uppá í anda aldamótanna 1900. Fornbílamenn og konur eru heiðursgestir hátíðarinnar og margir bjóða á rúntinn í glæsivögnum fortíðar. Bakkablesa dregur aldamótavagninn góða og Thomsensbíllinn rennir sér um göturnar. Við opnum húsin okkar og bjóðum gestum að kíkja inn í kaffi og pönnsu. Harmonikkur duna og það má sjá söluborð og markaðstorg um allar götur, tún og engi auk hins vinsæla skottmarkaðar sem haldinn var í fyrsta sinn á Eyrarbakka í fyrra. Listsýningar, hlöðuball með Klaufunum, tónleikar, skrúðganga, kappsláttur , fornbílar, bændamarkaður, kaffihús, veitingahús, gisting og síðast en ekki síst fá allir að smakka kjötsúpuna okkar góðu sem er hvergi eins góð og á Bakkanum.
Á Eyrarbakka má finna hið heimsfræga veitingahús Rauða-húsið, menninga og listaverstöðina Gónhól, en þar er líka gott kaffihús. Vesturbúðina, landsfrægu sem selur næstum allt milli himins og jarðar og litla kaffiskúrinn Bakkabrim við höfnina, litla kósí gallerýið hennar Regínu, Söfnin þjóðkunnu, Húsið og Sjóminjasafnið, þar sem er að finna afar gamalt og merkilegt dót. Tjaldstæðið góða þar sem auðvelt er að sofna við sjávarnið. Búðargluggana gömlu með minningum um horfna tíð. Gamlir karlar munu svo örugglega bjóða í nefið við brúsapallinn. Þá mun bakaraættin halda ættarmót á Bakkanum og rifja upp gömlu góðu daganna.
27.07.2010 12:00
Aldamótahátíð Eyrbekkinga
Aldamótahátíðin verður haldin 14-16 ágúst næstkomandi og verður sjálfsagt engu til sparað við að gera hana sem glæsilegasta. Sambærileg hátíð var sennilega haldi í fyrsta sinn á Eyrarbakka árið 1901 þann 2. janúar. Það var fyrir tilstuðlan P.Nielsen verslunarstjóra á Eyrarbakka. Þá voru Kirkjan, Goottemplarahúsið (Fjölnir)og flest öll verslunarhúsin skrautlýst ásamt ártölunum 1900-1901. Guðmundur Guðmundsson yngri bjó til glærur með ýmsum skemtilegum táknum og orðum sem höfð voru í búðargluggum. Lúðrasveit Gísla Jónssonar lék m.a. lagið "Kong Christian stod ved höj en Mast" á svölum samkomuhússins. Um miðnætti var kirkjuklukkum hringt og á sama tíma lét P. Níelsen þrjú fallbyssuskot dynja. Síðan tók söngfélagið lagið á svölum samkomuhússins, aldamótakvæði eftir Brynjúlf Jónsson dannebromanns frá Minna-Núpi. sem er eftirfarandi:
Stundin mikla stendur yfir,
stutt, en merk og tignarhá:
aðra slíka enginn lifir,
er nú þessa fær að sjá.
Eins og hverfur augnablikið
er hún raunar fram hjá skjót.
:,: En hún þýðir þó svo mikið
:,þessa,: stund eru' aldamót. :,:
Öldin, sem oss alið hefur,
eilífðar í djúp nú hvarf.
Hana munum! Hún oss gefur.
helgra menja dýran arf.
Framfara hún sáði sæði.
sendi not frá margri hlið.
:,: Þökkum fyrir þegin gæði,
:,Þökkum,: Drottins hjálp og lið. :,:
Straumur alda stanzar eigi:
Strax er byrjuð öld á ný.
Hver af oss þó henni deyi
hana blessum fyrir því:
Framfaranna blóm hún beri,
bæti' og auki notin góð,
:,: farsæla með guðs hjálp geri,
:,góða',: og nýta vora þjóð. :,:
Sönginum stýrði hr. Jón Pálsson organleikari. Veðrið var hið ákjósanlegasta: logn og bjartviðri, með ysjuskúrum við og við, og var minningarstund þessi öllum viðstöddum hin ánægjusamasta og hátíðlegasta.
Heimild:Þjóðólfur 1901
22.05.2010 23:51
Rimmugýgur í Reykholti
Rimmugýgur var stofnað árið 1997 og er félag áhugamanna um menningu og bardagalist víkinga.
23.04.2010 17:19
Dagur umhverfisins - 25. apríl
Sveitarfélagið Árborg efnir til dagskrár í fuglafriðlandinu í Flóa ofan við Eyrarbakka kl. 14:00. Undirritaður verður nýr samningur við Fuglaverndarfélag Íslands um umsjón og uppbyggingu í fuglafriðlandinu og fuglaskoðunarskýli Fuglaverndar verður formlega tekið í notkun. Fuglavernd verður með leiðsögn og upplýsingar á staðnum. Umhverfis- og skipulagsnefnd Árborgar veitir fyrirtæki umhverfisverðlaun.
14.04.2010 11:02
Skyggni næstu daga
Ekki er líklegt að vel sjáist til nýja gossins í Eyjafjallajökli fyrr en á laugardag, en þá mun rofa verulega til á sunnanverðu landinu samkvæmt skýjaspám. Um hádegi á laugardag eru góðar líkur til að heiðskýrt verði yfir jöklinum. Þá verður komin Norðan eða NV átt með fremur svölu veðri. Mögulegt er að eitthvað sjáist til gossveppsins af suðurlandsundirlendinu á næstu klukkustundum, en fljótlega fer útsýni versnandi á þessum slóðum þar sem skúraleiðingar munu fara vaxandi á svæðinu næstu sólahringa.
02.04.2010 01:30
Fimmvörðuháls
Um Fimmvörðuháls liggur hin forna smalaleið milli Eyjafjalla og Merkurbæjanna. Fráfærufé var smalað um hálsinn og inn í Goðaland og Þórsmörk til vetrarbeitar, en þessa leið var síðast smalað 1917. Um leiðina voru á sínum tíma reistar 5 vörður sem hálsinn dregur nafn sitt af. Einhventíman fóru vörður þessar undir jökul, en skutu síðan upp kollinum þegar jökullin hopaði milli 1930-1940. Undir hálsinum liggur sennilega gömul gosrás sem nú hefur rutt sig eins og alþjóð veit. Skáli "Fjallamanna" var byggður á Fimmvörðuhálsi um 1940, en þar þótti gott til skíðaiðkunar. Fimmvörðuháls er þó talinn hið mesta veðravíti ef svo ber undir. Hin síðari ár hefur leiðin frá Skógum yfir Fimmvörðuháls til Þórsmerkur verið vinsæl gönguleið meðal útivistarfólks.
01.01.2010 15:08
Gamla árið kvatt
Við brennuna....
safnast saman....
blásið í sönglúðra....
"Árið er liðið í aldanna skaut"....
Glæður ársins 2009 brenna út.
03.11.2009 21:25
Stórtjón í höfninni
Stórtjón varð í höfninni í miklum sjógangi og illviðri þennan dag árið 1975. þrír bátar eiðilögðust, brotnuðu eða sukku. Sjógarðar brustu og flæddi í kjallara húsa. Salthús HE hrundi næstum til grunna er sjór braut niður vegg. Hér má sjá myndir frá þessum atburði sem birtust daginn eftir í Tímanum.
Skipasmíðar
Básendaflóðið (9.1.2006 12:04:09)
Ískyggilegt veður! (11.6.2007 15:47:15)
12.09.2009 21:40
Fólk og fénaður
Það voru víða réttir í dag og hvorki fólk né fé létu á sig fá þó súldin slæddist yfir öðru hvoru. Hér eru þeir bræður Hákon og Jói í Tungnaréttum , en þar hefur fé fjölgað hin síðustu ár því ekki er ýkja langt síðan mest allt fé Tungnamanna var skorið niður vegna riðu.
Á Bakkanum hefur brimið tekið völdin síðustu daga og hefur það færst heldur í aukana, enda má nú heyra brimsifoníuna leikna af mikilli list þeirra ægis dætra.
Á þessum degi: 2007 var mesta úrkoma sem mælst hefur hér í september, 75 mm.
17.08.2009 09:31
Mikið um dýrðir á Aldamótahátíð
Aldamótahátíð var haldin á Eyrarbakka um liðna helgi. Þar var m.a. boðið upp á íslenska kjötsúpu við Rauða Húsið, söfnin og galleríin voru opin og margt til gamans gert. Dagskráin var afar fjölbreytt og viðamikil.
Eigendur fornbíla rúntuðu um göturnar á drossíum sínum. Götumarkaðir voru víða í þorpinu og menningarviðburðir ýmiskonar á veitingastöðum svo sem dans og tónlist. Hestvagn og gamall T-Ford óku farþegum um þorpsgötunna. Í Gónhól var fjölsótt markaðstorg og fornbílasýning. Í Gallerí Regínu var boðið upp á rjúkandi pönnukökur og harmonikkutónlist
Gríðarlegur fjöldi gesta sótti hátíðina heim og talið er að milli fjögur og fimmþúsund manns hafi spókað sig í blíðunni á Bakkann um helgina.
Hátíðinni lauk á sunnudagskvöldið við Slippinn með fjöldasöng undir stjórn Árna Johnsen. Langeldur var tendraður og flugeldasýning haldinn úti á skerjum í boði björgunarsveitarinnar.
http://brim.123.is/album/default.aspx?aid=156414
29.06.2009 11:50
Jónsmessuhátíð nr.11
Jónsmessuhátíð var haldin á laugardaginn í 11 sinn frá því að þessi gamalkunna dansk-íslenska miðsumarhátíð var endurvakin á Bakkanum. Það var mikið um að vera og þorpið iðaði af mannlífi. Hátíðinni lauk svo með brennu og söng í fjörunni.
02.01.2009 14:33
Á árinu 2009
Á þessu ári verða 230 ár liðin frá Öskudagsflóðinu, en þá tók af bæinn Salthól í Hraunshverfi.
Þann 9.janúar nk. verða liðinn 210 ár frá Bátsendaflóðinu svokallaða, en þá tók af bæina Hafliðakot og Salthól öðru sinni og byggðist hann ekki aftur upp frá því.
200 ár verða liðin síðan breska heskipið Talbot lagðist við festar á Eyrarbakka, en það átti eftir að hafa sögulegar afleiðingar.
150 ár síðan skonnortan Olaf Rye sem var í eigu Eyrarbakkaverslunar fórst við Njarðvík.
Fyrir 120 árum, eða þann 23-24 janúar 1889 gerði miklar leysingar og flæddi Ölfusá sem þá var öll ísi lögð yfir bakka sína við Brúnastaði og flaut hún niður allan vestur Flóan, Sandvíkur,Hraungerðis og Stokkseyrarhrepp og vesturhluta Gaulverjabæjarhrepps til sjávar.
Á þessu ári verður öld liðinn síðan lokið var við hleðslu sjóvarnargarða meðfram öllu landi Eyrarbakka en það var árið 1909. Sama ár tók ritsíminn til starfa á Eyrarbakka.
90 ár verða liðin frá því að bygging Litla Hrauns hófst, en þá var fyrirhugað að byggingin mundi hýsa sjúkrahús Suðurlands. Fyrir 80 árum eða 1929 var húsið tekið undir rekstur fangelsis.
í sumar verða 40 ár liðin frá því sérstök unglingavinna var tekin upp af Eyrarbakkahreppi.
20 ár verða liðinn síðan Kaupfélag Árnesinga hætti verslunarrekstri á Eyrarbakka.
Þann 29.maí nk. verður liðið 1 ár frá Suðurlandsskjálftum, en nokkur hús eiðilögðust þá á Bakkanum.
25.10.2008 22:12
Fyrsti vetrardagur
Barnaskólinn á Eyrarbakka á afmæli í dag en hann var stofnaður 25 oktober 1852 og er því orðinn 156 ára. Skólahúsið var byggt fyrir samskotafé almennings í héraðinu. Forgöngu fyrir þessari skólastofnun höfðu þeir sr. Páll Ingimundarson í Gaulverjabæ, Guðmundur Thorgrímsson verslunarstjóri á Eyrarbakka og Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri sem þá var hreppstjóri Stokkseyrarhrepps. Fyrsta skólahúsið var reist að Háeyri, timburhús sem rúmaði 30 nemendur auk kennarastofu. Síðar var skólinn í því húsi sem jafnan er kennt við Gistihúsið og því næst þar sem hann er nú.
Árið 1866 gengu 12 börn í skóla en árið eftir urðu þau 16 (11 drengir og 5 stúlkur) Það sem var fremur til að efla áhuga stúlkna á skólagöngu var ókeypis tilsögn í hannyrðum og söng sem dætur Guðmundar Thorgrímsens verslunarstjóra veittu. Þá kendi P.Nielsen að auki piltum leikfimi. Þegar ný löggjöf um menntun unglinga leit dagsins ljós um 1880 þá fjölgaði nemendum barnaskólanna á Eyrarbakka og Stokkseyri umtalsvert. Þá var að auki haldinn sunnudagaskóli fyrir fullorðna þar sem kend var danska, reikningur, íslensk réttritun og söngur. Árið 1881 stunduðu 60 fullorðnir nám í sunnudagaskólanum.
þetta var mikið framfaraskref fyrir Suðurland á þessum árum sem gerði ungri kynslóð betur í stakk búna að takast á við nýja tíma. Enn á ný stöndum við frammi fyrir nýjum og breyttum tímum og enn gildir að búa sér vel í stakk með góðri menntun. Vonandi munum við áfram hlúa vel að framtíð unga fólksins og halda áætlun um byggingu nýs skóla á Eyrarbakka.
21.10.2008 22:29
Bleik þau lýsa um grund
Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu Sgurjóns Ólafssonar, myndhöggvara frá Eyrarbakka. Af því tilefni heiðruðu nemendur og kennarar í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri minningu listamannsins með 100 kyndla blysför frá Eyrabakkaskóla að listaverki Sigurjóns, Kríunni, sem stendur í Hraunprýði austan við Litla-Hraun.
Alþýðusamband Íslands reisti verkið í ársbyrjun 1981 til heiðurs Ragnari Jónssyni í Smára sem þakklætisvott fyrir listaverkagjöf hans til ASÍ. Ragnar Jónsson var frá Mundakoti á Eyrarbakka.
06.07.2008 17:25
Thomsensbíllinn brunar um Bakkann
Fyrsti bíllinn á Íslandi var kenndur við Ditlev Thomsen, kaupmann og konsúl kom til landsins 1904. Bíllinn var árg.1900 og lélegt eintak af gerðinni Cudell að mönnum fannst og gerði ekki mikla lukku fyrr en nú þegar bílinn rúntar um Bakkann með farþega í annað sinn í boði eiganda bílsins Sverris Andressonar og Gallerí Gónhóls. Fyrra skiptið sem Thomsen bíllinn kom á Bakkann var fyrir rúmum 100 árum síðan. En það mátti líka sjá Gamliford á rúntinum og ýmsar drossíur af eldri kynslóðinni aka um götur þorpsins og var engu líkara en að Bakkinn hafi færst allmarga áratugi aftur í tímann.